Færsluflokkur: Umhverfismál
21.8.2012 | 14:22
Rafbíll
Hann var rafmagnaður vinnudagurinn í dag.
Ég kom keyrandi í vinnuna í rafbíl sem Iðnaðarráðuneytið lánaði. Rafbíllinn er af gerðinni Mitsubishi MiEV, er fjögurra manna og hefur um 50-70 km drægni i einni hleðslu. Gengur bíllinn undir nafninu Jarðarberið.
Vinnufélagar voru ánægðir með bílinn og fljótir að læra á hann þótt stýrið væri öfugu megin. Hann rúmaði fólkið vel, þótt smágerður og léttur sé. Rafbíllinn er mjög hljóðlátur og kom það flestum á óvart. Ekkert hljóð þegar hann var ræstur. Einnig kom á óvart hversu fljótt tæmdist af rafgeyminum en það munaði miklu hvort bíllin var í D eða Eco drifi.
Þetta er liður í verkefninu Græn orka, orkuskipti í samgöngum sem Iðnarðarráðuneytið stendur fyrir og markmiðið með verkefninu er að kynna fyrir fyritækjum og starfsfólki nýja valkosti í orkugjöfum.
Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar sem sett er fram í stefnuskjalinu, Ísland 2020, eru kynnt eftirfarandi markmið:
- Í samgöngum og sjávarútvegi verði að minnsta kosti 10% orkugjafa af endurnýjanlegum uppruna árið 2020
- Árið 2020 gangi 75% nýskráðra bifreiða, undir fimm tonnum að þyngd, fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum.
En þess má geta að árið 2010 var Ísland með hæstu skráðu CO2 meðaltalslosun nýskráðra fólksbíla af öllum löndum á evrópska efnahagssvæðinu.
Ísland býr yfir þeirri sérstöðu að allt rafmagn í landinu er af endurnýjanlegum uppruna, úr vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum, og raforka er þess vegna mjög hentugur orkugjafi fyrir samgöngur hér á landi.
Ljóst er að ríkisvaldið þarf að stíga ákveðið fram til að orkuskiptin verði að veruleika og hefur Alþingi samþykkja ný lög sem kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður.
Í kjölfarið má búast við því að flest bílaumboðin fari að bjóða raf- og tvinntengibíla.
Frétt: http://www.idnadarraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3571
17.8.2012 | 11:34
Hólárjökull 2012
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 14. ágúst 2012. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 14. ágúst 2012 í þokusúld. Augljós rýrnun á 6 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
15.8.2012 | 22:05
Klakkur í Langjökli (999 m)
Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli. Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.
En til að skemma stemminguna, þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni. Klakkur með lágvöruhæðartöluna.
Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.
Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga. Þessi ganga er mun lengri.
Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.
Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar. Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.
Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.
Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.
Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.
Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.
Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.
Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið. Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.
Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón. Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.
Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.
Dagsetning: 6. ágúst 2012 Frídagur verslunarmannaHæð Klakks: 999 m (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband: Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar: (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.
Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.
Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.
Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
23.7.2012 | 16:37
Hvítserkur (15 m)
Skrímslið úr hafinu, er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Hvítserkur birtist frá fjörubrúninni. En skrímslið með risaeðluútlitið sést ekki frá veginum enda er skammt frá landi út og níður frá Ósum á Vatnsnesi.
Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur, þunn basaltsbrík, í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu. Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin.Brimrofið hefur gatað helluna, þannig að hún hefur yfirbragð steinrunninnar ófreskju. Undirstöður drangsins hafa verið styrktar með steinsteypu.
Nokkrar fuglategundir verpa í þverhnípinu og neðan þess, einkum fýll og heimildir segja að skarfur sé algengur en ekki sást neinn í leiðangrinum.
Merking orðsins hvítserkur er hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur). Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Einnig er til fjall (771 m) milli Húsavíkur og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu og foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði.
Dagsetning: 18. júlí 2012
Hæð Hvítserks í fjöruborði: 15 m
GPS Hvítserkur: N: 65°35′46″ V: 20°37′55″
Erfiðleikastig: 1 skór
Göngutími: 10 mínútur
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir
Veðurlýsing, Blönduós kl. 15:00: NNV 3 m/s, skýjað, 12,1 °C hiti, raki 86 %
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Lagt er upp í göngu frá bílastæði að útsýnispalli. Þaðan er farið niður varasaman slóða niður í fjöru. Við vorum heppinn að hitta á fjöru. Mæli með ferð fyrir Vatnsnes. Aldrei að vita nema maður rekist á ísbirni.
Stuttmynd um lífið í Hvítserk. Við hittum á lágfjöru og fýlsunga. Það er góð tímasetning.
Fýll (Fulmarus glacialis) og fýlsungi í Hvítserki. Lífið er drit og strit.
Styrktur Hvítserkur. Spurning um hvort grípa eigi inn í gang náttúrunnar. Í Vísi árið 1955 er greint frá söfnun fyrir verkefninu. Þar segir m.a. "Sjávaraldan hefur smámsaman brotið þrjú göt í klettinn, er hið stærsta nyrzt, en minnsta gatið er syðst. Stendur hann þannigá 4 veikum fótum, því að þykkt klettsins neðst er ekki nema rúmur metri. Hefur klettinum verið líkt við fornaldarófreskju, sem þó riðar til falls, þar sem hafið sverfur án afláts utan úr fótum hans."
Heimildir
Dagblaðið Vísir, 20. maí 1955
Vísindavefurinn: Hvítserkur
20.7.2012 | 13:52
Hrafnabjargafoss og Ingvararfoss í Skjálfandafljóti
Í gær var frétt á Stöð 2 og henni fylgt eftir á visir.is um að Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismaður vilji verja Hrafnabjargarfoss.
Í byrjun ágúst 2004 heimsótti ég fossana í Skjálfandafljóti, þá Ingvararfoss og Hrafnabjargafoss. Einnig hina heimsþekktu fossa fljótsins mikla, Goðafoss og Aldeyjarfoss. Þetta var fossadagurinn mikli.
Aðgengi að efri fossunum er ekki gott og átti Toyota RAV4 í mestu erfiðleikum með að komast að Hrafnabjargafossi. En komst þó eftir að hafa rekið pústið og gírkassa nokkrum sinnum niður með tilfallandi áhyggjum eiganda.
Ingvararfossar eru lítt þekktir en fallegir fossar rétt ofan við Aldeyjarfoss. Ingvararfossar minntu mig mjög mikið á Aldeyjarfoss enda ruglaðist ég á þeim í andartak. En ég kveikti á perunni, það vantaði svo marga stuðla. Eflaust hefur skaparinn notað hann sem frumgerð að Aldeyjarfossi.
Ég man hvað það var gaman að ganga um gamlan farveg Skjálfandafljóts í meitluðu hrauninu að fossinum. En áin hefur breytt sér í tímans rás. Þetta var mjög skemmtilegur og eftirminnilegur dagur. Tveir krakkar, 7 ára voru með og var minnsta mál að ganga með þau að Ingvararfossi frá bifreið.
Hér eru fossarnir óþekktu sem eru í hættu út af Hrafnabjargavirkjun.
Hrafnabjargafoss í Skjálfandafljóti. Virkjun kæmi við Hrafnabjörg í 404 metra hæð.
Ingvararfossar í Skjálfandafljóti. Minna á Aldeyjarfoss. Ekki eins stuðlaðir. Það fer lítið fyrir fossum þessum og ekki minnst á þá í umræðunni um Hrafnabjargavirkjun.
20.7.2012 | 10:53
Lambafell og Lambafellsgjá (162 m)
Lambafellgjá eða Lambafellsklofi er einstakt náttúruundur. Göngurmaður gengur í gegnum fell og upplifir jarðsöguna.
Troðningur, frá sundurtættri Eldborg sem er eins og flakandi sár í landinu eftir að efni til vegagerðar var tekið úr gígnum, leiðir mann alla leið að neðri enda gjárinnar, sem er bæði djúp, þröng og brött. Það er eins og að koma í annan heim að ganga þarna í gegnum dimma sprunguna og velta fyrir sér þeim kröftum sem þessa jarðmynd skópu.
Ég mældi lengd gjárinnar 115 metra og var snjór í hluta hennar. Innsti hluti gjárinnar er brattur en meinlaus. Hægt er að ganga niður gjánna og hefja göngu við efri enda klofans. Hækkunin mældist um 40 metrar.
Svo er hægt að tengja gönguna við aðrar leiðir í nágrenninu.
Það er ýmislegt að sjá á svæðinu. Hveravirkni er í Lambafelli og gufa stígur upp við Eldborg. Einnig eru mæligræjur sem fylgjast með hegðun jarðskorpunnar.
Þar sem þessi ferð á Lambafell var gengin á annan í páskum veltu menn fyrir sér orðatiltækjum. Hér eru tvö.
- Að launa einhverjum lambið gráa
- Að vera ekkert lamb að leika sér við
Dagsetning: 9. apríl 2012 - Annar í páskum
Hæð Lambafells: 162 m
GPS efri hluti gjár: N: 63.57.391 - V: 22.04.828 (153 m)
GPS neðri hluti gjár: N: 63.57.449 - V: 22.04.774 (115 m)
Erfiðleikastig: 1 skór, lítil mannraun
Heildargöngutími: 70 mínútur (16:00 til 17:10)
Þátttakendur: Fjölskylduferð, fjórir meðlimir
Veðurlýsing kl. 16:00: Austan 5 m/s, léttskýjað, 8,0 °C hiti, raki 49 %, skyggni >70 km
Gönguleiðalýsing: Lagt er upp í gönguna norðan Trölladyngju frá Eldborg eða Katlinum. Gengið er norður eða suður með Vestra-Lambafelli að Lambafellsgjá eftir troðning, 1,3 km að neðri hluta gjár. Gengið upp 40 metra hækkun í 115 metra gjá og komið eftir 2,8 km göngu að upphafspunkt.
Myndband af YouTube sem sýnir stemminguna í Lambafelli og Lambafellsgjá.
Neðri hluti Lambafellsgjár. Framundan er 115 metra ævintýraferð og 40 metra hækkun. Þessi mynd minnir mig á Þingvelli.
Heimild:Gönguleiðavísir við Eldborg
17.7.2012 | 23:16
Hvanneyrarskál
Þegar maður er staddur á Siglufirði, þá verður maður að ganga í Hvanneyrarskál. Hvanneyrarskál er stór skál í Hafnarfjall fyrir ofan Siglufjörð. Hún varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda.
Þegar slóðinn er fundinn við snjóflóðavarnargarðana er gengið eftir vegslóða upp bratt Hafnarfjall sem gnæfir yfir bænum. Húsin minnka og skipulag bæjarins og varnargarða opnast eins og opin bók. Lúpína er að nema land í fjallshlíðum og á eftir kemur fínlegri gróður. Á leiðinni upp sáust einnig betur og betur stoðviki í Gróuskarðshnúk.
Strengisgil sjást einnig en þar voru fyrstu snjóflóðavarnargarðarnir byggðir. Garðarnir eru kallaðir Stóri og Litli Boli eftir gömlum skíðastökkpöllum sem þar voru en eru nú horfnir.
Þegar í skálina var komið sá til göngufólks við Gjár en þar var fjallvegur yfir í Engidal á Úlfsdölum, snarbrött leið.
Ef göngumenn taka gönguferðina skrefi lengra, þá eru nokkrir góðir toppar. Nyrsti og hæsti hluti Hafnarfjalls er Hafnarhyrna (687 m) auðgeng. Skráma var tröllkerling sem bjó í helli þarna í grennd og er Skrámhyrna nokkru utar kennd við hana. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).
Hvanneyrarskál varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).
Að lokum má geta þess að á veitingastaðnum Höllinni á Ólafsfirði eru pizzurnar kenndar við fjallstinda í nágrenningu. Það er betra að panta Miðdegishyrnu heldur en Napólí pizzu.
Ekki fannst gestabók í Hvanneyrarskál en þetta er fín heilsurækt að ganga upp að Hvanneyrarskál.
Dagsetning: 13. Júlí 2012 - Hundadagur
Hæð Hvanneyrarskálar: 250-300 m
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, tveir meðlimir
Veðurlýsing Sauðanesviti kl. 15:00: VSV 10 m/s skýjað, 12,3 °C hiti, raki 65 %, skyggni 65 km, sjólítið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá snjóflóðavarnargarði fyrir miðjum bæ. Gengið eftir vegslóða upp Hafnarfjall að endurvarpsstöð. Glæsilegt útsýni yfir sögufrægan síldarbæ og mikil snjóflóðamannvirki.
Hluti af Hvanneyrarskál. Gjár eru norðvestur úr Hvanneyrarskál og Gróuskarðshnúkur lokar skálinni til austurs.
Stoðvirki í Gróuskarðshnúk hafa áhrif á umhverfið. Mestar framkvæmdir á árinu 2004 og 2005.
Snjóflóðavarnargarðarnir eru mikil mannvirki og leyna á sér. Heildarkostnaður 2.000 milljónir á verðlagi ársins 2002.
Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2000, Í strandbyggðum norðan lands og vestan.
Framkvæmdasýsla ríkisins, Snjóflóðavarnir Siglufirði
Snokur.is
Ferðafélag Siglfirðinga
9.7.2012 | 12:50
Esjan á páskadag
"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það," - Þannig hljóðaði málshátturinn í páskaeggi Ara.
Því varð að taka áskorun og ganga á fjall um páskana. Fyrst Ari var með í för þá er vel viðeigandi að rifja upp barnavísuna sem oft er sungin í leikskólum landsins.
Upp, upp, upp á fjall,
upp á fjallsins brún.
Niður, niður, niður, niður
alveg niður á tún.
Eitt af markmiðum mínum er að ganga amk einu sinni á Esjuna á ári. Þetta var því kærkomin ganga en næst verður Þverfellshornið toppað. Þær eru margar gönguleiðirnar á Esjuna en sú vinsælasta var valin. Að Stein undir Þverfellshorni. Einnig er Kerhólakambur vinsæl og góð ganga.
Gestabókin við Stein var mjög blaut og illa farin.
Dagsetning: 8. apríl 2012 - PáskadagurHæð Steins: 597 m
GPS Steinn: N: 64.13.515 W: 21.43.280
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá bílastæðinu við Mógilsá. Gengið eftir góðum göngustíg og skilti vísa leið. Gengið eftir Skógarstíg, um Þvergil, yfir Vaðið og endað við Stein efst á Langahrygg. Haldið niður blauta Einarsmýri. Margir halda áfram á Þverfellshorn, er varðan í um 780 m hæð og vegalengd á Þverfellshorn er um 3 km. Klettar efst eru ekki fyrir lofthrædda.
Þverfellshornið og Langihryggur. Handan hálsins er Steinn en þangað var ferðinni heitið á páskadag. Það var slydda í 500 m hæð en hún fóðrar snjóskaflana sem vel er fylgst með úr höfuðborginni á sumrin.
"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það"
Góðar merkingar varða leiðina.
22.6.2012 | 20:27
Hvalhnúkur (522 m)
Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni, þeirri fyrstu á árinu hjá mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval. Þetta var því óvænt ánægja.
Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.
Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?
Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.
Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.
Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband: Já, nokkrar hringingar
Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.

Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.
Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort
Umhverfismál | Breytt 23.6.2012 kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2012 | 10:30
Konéprusy hellarnir
Mér varð hugsað til Þríhnúkagígs þegar ég heimsótti óvænt Koneprusy hellana í Tékklandi, mestu hella landsins.
Koneprusy hellarnir fundust fyrir tilviljun árið 1950 er verið var að sprengja fyrir efni í "Lime-stone" námu en efnið er notað í byggingar. Árið 1959 var opnað fyrir aðgang ferðamanna.
Það var stanslaus straumur ferðamanna í hellana og ferðin tók klukkustund. Farið var um 620 skipulagða metra en hellakerfið er alls 2 km og 70 metra djúpt á þrem hæðum. Hellarnir eru frá Devon tímabilinu fyrir 400 milljón árum og gefa innsýn í sögu jarðarinnar sem á sér 1,5 milljón ára sögu.
Eitt sem er merkilegt við hellana eru bein af dýrum sem fundist hafa þar og eru 200 til 300 þúsund ára gömul. Það var áhrifaríkt að sjá afsteypur af beinunum og að sjá dropasteina sem hafa verið að myndast á sama tíma.
Búið var að lýsa upp hellana og steypa gólf og tröppur. Lýsing var góð og þegar svæði var yfirgefið slökknaði á ljósum. Á einum stað var slökkt á öllu og þá var maður í algleymi. Það var áhrifarík stund. Sjá mátti leðurblökur á veggjum og var það í fyrsta skipti sem ég hef barið batman augum.
Það eru til glæsileg áform um aðstöðu í Þríhjúkagígum og er ég á þeirri skoðun að opna eigi Þríhnúkagíga fyrir almenning. Gera þarf umhvefismat og finna þolmörk svæðisins en við verðum að passa upp á vatnið okkar sem sprettur upp skammt frá. Það er okkar dýrmætasta eign.
Tékkarnir í Bæheimi voru óhræddir að steypa í gólf og hlaða veggi nálægt stórbrotnum dropasteinum og steinamyndunum. Litadýrð var ekki mikil en formfögur voru drýlin sem myndast hafa á hundruð þúsundum árum.
Ferðafélagar mínir, miðaldra hjón frá Miami í Bandaríkjunum spurðu hvort við ættum svona flotta hella á Íslandi. Ég játti því og hvatti þá til að koma í hellaskoðunarferð til Íslands. Þeim leist mjög vel á hugmyndina. Ég náði tveim ferðamönnum til landsins en ég gat ekki lofað þeim ferð í Þríhnúkagíg en nú er það hægt.
Ferðin í Koneprusy hellana var þó mun ódýrari en upphafsferðirnar í Þríhnúkagíga, 910 krónur (130 CZK *7) en verðlag í Prag var á pari við Ísland. En svo þurfti að greiða 40 kórónur fyrir myndatöku eða 280 kall. Þeir voru mikið fyrir ljósmyndaskatt í Tékklandi.
Hér er þriggja mínútna heimildarmyndband sem sýnir innviði Koneprusy hellana. Kone þýðir hestar á tékknesku.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 5
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 75
- Frá upphafi: 234910
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 67
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar