Færsluflokkur: Umhverfismál
23.6.2011 | 00:14
Hátindur í Grafningi (425 m)
Hátindur Dyrafjöllum er einnig notað til að bera kennsl á en þeir eru nokkrir á landinu, m.a. á Esjunni.
Hátindur og Jórutindur standa hlið við hlið við suðvestanvert Þingvallavatn. Þeir eru oft nefndir í sömu andránni. Gengið var upp á hrygginn sem gengur suður frá fjallinu en það er nokkuð þægileg leið. Af toppnum er gott útsýni yfir vatnið og fjallahringinn. Gríðarlega fallegt útsýni er yfir Hestvík og hæðótt landslagið í kringum hana. Ekki var gengin sama leið til baka, heldur skotist niður í dalinn milli Hátinds og Jórutinds. Telja sumir að svona geti landslagið í Gjálp verið eftir hundrað þúsund ár.
Ekki urðum við vör við Jóru tröllkonu en þegar keyrt var heim, mátti sjá tröllsandlit í fjallinu. Hræ af tveim dauðum kindum lá undir Jórutindi og spurning um hvernig dauða þeirra bar að garði.
Dagsetning: 21. júní 2011
Hæð: 425 metrar
Hæð í göngubyrjun: 192 metrar, Grafningsvegur 360, (N:64.08.899 - W:21.15.541)
Hækkun: Um 233 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:00 - 20:00) 1,7 km
Heildargöngutími: 105 mínútur (19:00 - 20:45), 3,4 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit vörður: N:64.08.604 - W:21.16.428
Vegalengd: 3,4 km
Veður kl. 21 Þingvellir: Bjart, S 1 m/s, 10,6 gráður. Raki 74% - regnbogi
Þátttakendur: GJÖRFÍ, 18 þátttakendur
GSM samband: Já .
Gönguleiðalýsing: Ekki erfið ganga, fyrst er gengið eftir grýttum vegaslóða að rótum Hátinds en síðan um 100 metra hækkun yfir umhverfið upp á topp. Smá klöngur og fláar á leiðinni. Hægt að fara hringleið.
Hátindur, móbergshryggur sem rís eins og nafnið gefur til kynna til himins.
Jórutindur er eins og skörðótt egg séð frá austri en lítur sakleysislega út frá Hátindi. Tindurinn er nánast allur úr veðursorfnum móbergsklettum.
2.6.2011 | 17:30
Skálafell við Mosfellsheiði (774 m)
Skálafell við Mosfellsheiði er einkum þekkt fyrir tvennt, endurvarpsmöstur og skíðasvæði. Verkefni dagsins var að kanna þessi mannvirki.
Leiðalýsing:
Ekið eftir Vesturlandsvegi, beygt upp í Mosfellsdal og síðan í átt að skíðasvæðinu. Vegalengd 3 km. Hækkun 400 m.
Facebook færsla:
Fín ganga á Skálafell (790 m) ásamt 40 öðrum göngugörpum, dásamlegt veður en smá þokubólstrar skyggðu á útsýnið en rættist nú ótrúlega úr því samt...
Skálafellið var feimið og huldi sig þegar okkur bar að garði. Þegar niður var komið tók deildarmyrkvi á sólu á móti okkur. Gott GSM-samband á toppnum.
Gengið var frá skíðaskála, hægra megin við gil nokkurt og síðan stefna tekin á efstu lyftuna en KR á hana. Þegar þangað var komið sást í snjó í 670 metra hæð og náði hann að mannvirkjum á toppnum. Skálafellið gerðist feimið er okkur bar að garði og gengum við í þokuna þar sem við mættum snjónum. Á uppleiðinni voru helstu kennileiti í suðri, Hengillinn, Búrfell í Grímsnesi, Leirvogsvatn og Þingvallavatn.
Þegar upp var komið tók á móti okkur veðurbarið hús en vindasamt er þarn. Veðurstöð er í byggingunni en hún bilaði fyrr um daginn.
Nafnið, Skálafell er pælingarinnar virði. Ein kenning er að skáli hafi verið við fjallið við landnám en útsýni frá því yfir helstu þjóðleiðir gott. Amk. 6 Skálafell og ein Skálafellshnúta eru til á landinu og ef fólki vantar gönguþema, þá má safna Skálafellum.
Dagsetning: 1. júní 2011
Hæð: 774 metrar
Hæð í göngubyrjun: 379 metrar, Skíðasvæði í Skálafelli, (N:64.13.929 - W:21.25.922)
Hækkun: Um 400 metrar
Uppgöngutími: 70 mín (19:05 - 20:15) 2,05 km
Heildargöngutími: 115 mínútur (19:08 - 21:00), 4,1 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit möstur: N:64.14.442 - W:21.27.782
Vegalengd: 4,1 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart, NV 7 m/s, 9,8 gráður. Raki 65% (minni vindur á felli)
Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 þátttakandi af ýmsum þjóðernum, 12 bílar
GSM samband: Já - Dúndurgott, sérstaklega undir farsímamöstrum.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við skíðalyftur og gengið hægra (austan) megin við gilið. Síðan fylgt hæstu lyftu í 670 m hæð. Þá tók snjór og þoka við. Þaðan er stuttur spölur að fjarskiptamöstrum. Gengin sama leið til baka en hægt að halda í vestur, ganga út á nef fellsins, líta til Móskarðshnúka og halda til baka. Góð gönguleið hjá ónotuðu skíðasvæði. Skál fyrir góðri ferð!
Stundum eru mannvirki á fjöllum listræn að sjá.
Með hækkandi hita á jörðinni hefur notkun skíðamannvirkja í Skálafelli lagst af. Stólarnir hanga og bíða örlaga sinna.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2011 | 21:21
Sköflungur (427 m)
Sköflungur er vestasti hryggurinn í fjallaklasanum austan Mosfellsheiðar. Hann er á Hengilssvæðinu.
Leiðalýsing:
Ekið eftir Suðurlandsvegi inn á Nesjavallaveg og lagt af stað í gönguna stuttu eftir að komið er upp fyrstu brekkuna á veginum. Sköflungur er vestasti hryggurinn í fjallaklasanum austan Mosfellsheiðar. Gengið norður hrygginn á móts við Jórutind og um Folaldadali til baka. Vegalengd 7 km.
Facebook lýsing:
Sköflungur er skemmtilegur hryggur sem minnti mig á Kattarhryggi á köflum bara ekki eins hátt og bratt niður. Við gengum hrygginn og svo niður í Folaldadal og gengum hann til baka
Klettaborgin á enda Sköflungs minnti mig á Kofra, glæsilegt bæjarfjall sem trónir yfir Súðavík.
Hryggurinn lætur ekki mikið yfir sér og fellur vel inn í umhverfið. Vörðu- Skeggi tekur alla athygli ferðamanna en hann er í 3,8 kílómetra fjarlægð í suður frá göngustað.
Búrfellslína liggur yfir Sköflung og tvö reisuleg möstur eru á hryggnum og ganga menn í gegnum þau. Þessi kafli vekur umræðu um sjónmegnum og fegurðarmat. Sköflungur er ekki skilgreindur sem náttúruvætti og því hefur þessi leið verið valin fyrir rafmagnið en nú er krafan um að allar raflínur fari í jörð. Á móti kemur að nálægðin við tignarlega risana er ákveðin upplifun sem er góð í hófi.
Eftir að hafa gengið á Sköflung kom mér í hug hversu mörg örnefni tengjast mannslíkamanum. Hryggur, enni, kjálki (Vestfjarðakjálki), bak, síða, barmur, bringa / bringur, geirvörtur, leggjabrjótur, haus, háls, höfuð, hné, hvirfill, hæll, kinn, nef, rif, tá, tunga, vangi, þumall og öxl.
Einnig bæjarnöfn; Kollseyra, Tannstaðir, Skeggöxl, Augastaðir, Kriki, Kálfatindar, Skarð, Kroppur og Brúnir.
Dagsetning: 25. maí 2011
Hæð: 373 metrar (nestisstopp) en einn hæsti punktur á hryggnum 427m
Hæð í göngubyrjun: 372 metrar, Nesjavallavegur, (N:64.07.420 - W:21.18.770)
Hækkun: 1 meter
Uppgöngutími: 75 mín (19:05 - 20:20) 3,0 km
Heildargöngutími: 132 mínútur (19:08 - 21:20), 8,61 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit undir klettaborg: N:64.08.979 - W:21.18.382 (3 km ganga)
Vegalengd: 6,31 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart í vestri, S 3 m/s, 8,4 gráður. Raki 45%
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 44 göngumenn, 14 bílar
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við Nesjavallaveg og móbergshryggur Sköflungs þræddur eins langt og menn treysta sér. Síðan er hægt að taka misstóran hring til baka. Við fórum eftir Folaldadal. Stærri hringurinn er með stefnu á Jórutind og Hátind.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2011 | 14:10
Fyrsti garðslátturinn
Vorið er á áætlun í Álfaheiðinni í ár þrátt fyrir kaldan og leiðinlegan apríl.
Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var í gærdag, fjórum dögum á eftir fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá átta sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur.
Sprettan var mikil á austurtúnunum. Má þetta grasfræinu sem borið var á fyrir mánuði. Aspirnar fallnar fyrir nokkru og grasið nýtur sín í sólinni. Fáir túnfíflar sáust.
Grassprettan var í sögulegu hámarki í fyrra og má skrifa hluta af vextinum á gosefni úr Eyjafjallajökli. Nú er spurning um hvort aska úr Grímsvötun hafi áhrif á sprettuna.
Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. Þessar tölur segja að vorið í ár var hagstætt gróðri SV-lands. En mikil breyting varð að morgni mánudgsins 9. maí en þá var sólríkt daginn áður og úrkoma um nóttina.
2010 17. maí
2009 21. maí
2008 15. maí
2007 26. maí
2006 20. maí
2005 15. maí
2004 16. maí
2003 20. maí
2002 26. maí
2001 31. maí
Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið svipað og síðasta ár.
21.5.2011 | 11:05
Kerhólakambur (851 m)
Þær eru margar gönguleiðirnar á borgarfjallið Esjuna. Fyrir 8 árum var gefið út gönguleiðakort með 40 gönguleiðum á Esjuna. Þekktasta og fjölfarnasta gönguleið landsins liggur á Þverfellshorn en önnur vinsæl gönguleið er Kerhólakambur. Nú var ákveðið að kíkja á kerin.
Ekið út af Þjóðveg við veðurathugunarmastur rétt áður en komið er að Esjubergi og lagt fyrir austan túnið. Síðan liggur leiðin eftir skýrum stíg inn í gilkjaft Gljúfurár og þaðan upp úr gilinu og svo beina stefnu upp bratta hlíð all á topp Kerhólakambs. Þessa leið fórum við ekki, heldur fylgdum við öðrum slóða og lentum í miklu klettaklifri sem minnti á topp Þverfellshorns. Lagðist hún illa í suma göngumenn.
Í 300 metra hæð gengum við inn í þokubakka og sást lítið til allara átta eftir það en göngustígur sást greinilega enda hlíðin gróðursnauð. Þegar komið var i 400 metra hæð, þá var meiri gróður og hvarf göngustígurinn göngufólki. Nær gróðurinn allt upp fyrir Nípuhól. Hóllinn er í rúmlega 500 metra hæð og tilvalinn áningarstaður. Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Nípuhól.
En hvernig er nafnið, Kerhólakambur tilkomið? Sigurður Sigurðsson göngugarpur og ofurbloggari skrifar: Fyrir ofan Nípuhól heita Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, sem eru lægðir á milli hóla."
Kerin og hólarnir í Urðum (660 m)
Við höfðum þetta í huga á leiðinni upp og í 660 metra hæð komum við að staðnum sem lýsingin hér að ofan á við. Var snjór í flestum kerjunum. Nokkrir snjóskaflar voru á leiðinni og gengum við upp einn langan sem hófst í 740 metrum og endaði í 800 metrum. Við áttum eftir að renna okkur niður hann á bakaleiðinni. Er hann samt væskinslegur séður frá borginni. Stór skafl er í vesturhlíð Kerhólakambs og munum við góna á hann í sumar rétt eins og Páll Bergþórsson veðurfræðingur.
Fín þokuferð sem verður endurtekin síðar og þá með hringleið og komið niður Þverfellshornið.
Dagsetning: 14. maí 2011
Hæð: 851 metrar
Hæð í göngubyrjun: 56 metrar, tún austan við Esjuberg, (N:64.12.985 - W:21.45.800)
Hækkun: Tæpir 800 metrar
Uppgöngutími: 142 mín (09:08 - 11:30) 2,01 km
Heildargöngutími: 252 mínútur (09:08 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit fyrri varða: N:64.14.210 - W:21 .45.241
Vegalengd: 4,1 km
Veður kl. 9 Reykjavík: Bjart, V 3 m/s, 5,0 gráður. Raki 84%, skyggni 70 km.
Veður kl. 12 Reykjavík: Bjart, V 2 m/s, 5,8 gráður. Raki 81%, skyggni 70 km.
Þátttakendur: Skál(m), 5 manns
GSM samband: Já sérstaklega gott á toppi
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað hjá Esjubergi, inn Gljúfurdal. Þar er mesti brattinn tekinn, erfiðasti áfanginn, í 200 metra hæð. Nota þarf hendur til stuðnings. Eftir það er jöfn gönguhækkun og tvö gil á báðar hendur sem beina göngunni á topp Kerhólakambs. Skriðuganga með tröðum.
Heimildir:
Sigurður Sigurðarson, sigurdursig, Kerhólakambur
Morgunblaðið, frétt, Nýtt kort af Esju með 40 gönguleiðum
Umhverfismál | Breytt 30.5.2011 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2011 | 21:47
Búrfellsgjá (183 m)
Þau eru mörg Búrfellin hér á landi. Það er talið að það séu til amk 47 Búrfell. Þau er nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Á vefnum ferlir.is segir ennfremur um Búrfellsnafnið: "Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr".
Verkefni dagsins var að heimsækja Búrfellsgjá, sem tengist Búrfelli einu og er vanmetin náttúruperla stutt frá fjölbýlinu. Búrfellsgjá er 3,5 km hrauntröð sem liggur vestur úr Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta, Búrfellshraun hafi runnið fyrir um 7200 árum og þekur 18 km2.
Keyrt framhjá Vífilsstaðavatni, framhjá Heiðmörk og í austurátt meðfram Vífilsstaðahlíð. Síðan var lagt í hann eftir merktum göngustíg, niður að Vatnagjá í botni Búrfellsgjár. Steinsnar frá Vatnagjá er Gjárétt og hefur vatnið úr henni verið forsenda fyrir selstöð.
Gjárétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjábarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep manna til gistingar. Annað var ekki í boði fyrir einni og hálfri öld.
Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir upplýsingaskilti og gerð göngu- og hestastíga. Gjárétt er vel útskýrð á skiltinu og hvernig eignarhaldi var háttað.
Stutt, skemmtileg og fróðleg ganga.
Dagsetning: 27. apríl 2011
Hæð: 183 metrar
Hæð í göngubyrjun: 113 metrar, Vífilsstaðahlíð, N:64.02.814 W:21.51.12
Hækkun: 70 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:00 - 20:00) 2,55 km
Heildargöngutími: 120 mínútur (19:00 - 21:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða: N: 64.01.990 - W: 21.49.950
Vegalengd: 5,0 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Bjart, S 1 m/s, 8,1 gráður. Raki 67%, skyggni 25 km. Skúraský. Ekkert haglél í þetta skiptið, sól og yndislegt veður til göngu.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 27 manns
GSM samband: Já - en datt niður í gjám
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Vífilsstaðahlíð um Búrfellshraun, að Vatnagjá, Gjárétt og upp Búrfellsgjá.
Tignarlegur inngangur í Gjárétt en hún var hlaðin úr hraungrýti um 1840.
Hrauntröð sem var full af kviku fyrir 7000 árum en tæmdist í lok eldvirkninnar.
Göngumenn ganga á börmum eldstöðvarinnar, í 160 m hæð en hæsti punktur er 183 metrar.
Heimild:
Upplýsingaskilti, útivistarlönd Garðbæinga og Garðabær útivistarsvæði.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2011 | 00:09
Friðlýsing Langasjós flott ákvörðun
Þetta er mjög góð ákvörðun hjá Umhverfisráðuneyti og sveitastjórn Skaftárhrepps. Þessi tota inn í Vatnajökulsþjóðgarð var mjög undarleg.
Svæðið er viðkvæmt og það þarf að skipuleggja það vel. Ég hef trú á að bátasigling og kajakaróðar á Langasjó eigi eftir að freista margra ferðamanna á komandi árum.
Gönguferð á Sveinstind verður öllum ógleymanleg sem munu þangað rata. Ég gekk á tindinn í ágúst 2009 eftir að hafa ferðast um Langasjó. Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.
Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.
Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.
Útfallið úr Langasjó. Lengi vel héldu menn að Langisjór væri afrennslislaust vatn en árið 1894 fannst Útfallið en það er þröngt skarð í gegnum Fögrufjöll innanverð.
![]() |
Stækka Vatnajökulsþjóðgarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2011 | 14:11
Lón stækka feikilega við Hoffellsjökul
Í fréttabréfi Jöklarannsóknafélagi Íslands, JÖRFÍ, er svo glæsileg mynd af Hoffellsjökli og Svínafellsjökli en Hoffellsjökull og Heinabergsjökull eru glæsilegir séðir frá Hornafirði. Ég tek mér það bessaleyfi að birta myndina hér en hún er unnin undir stjórn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofu Íslands. Það verður gaman að sjá alla íslensku jöklana í þessu ljósi.
Í fréttabréfinu segir um Hoffellsjökul: "Af nýjum kortum af Hoffellsjökli má ráða að lónið framan við jökulsporðinn hafi stækkað feikilega á síðastliðnu ári. Þar eru nú myndarlegir ísjakar á floti á stöðuvatni sem teygir sig inn með Geitafellsbjörgum (sjá mynd). Fyrir framan hvora jökultungu eru fallega bogadregnir garðar sem sýna hvert jökullinn náði um 1890. Af því sést að sá eystri (Hoffellsjökul) hefur ekki styst nema um nokkur hundruð metra en sá vestari (Svínafellsjökul) stendur nú um 3,5 km frá fremstu görðum."
Svínafellsjökull náði svo langt fram að hann klofnaði um Svínafellsfjall, og fékk vesturhlutinn nafnið Svínafellsjökull. Öldutangi norður úr Svinafellsfjalli greindi þá að, en nú er hann íslaus.
Hér er mynd af glæsilegu málverki sem sýnir jöklana tvo, Viðborðsjökul og Hoffellsjökul. Málverkið er eftir Helga Guðmundsson og líklega máluð á 7. ártugnum enda Viðborðsjökull, sem er til vinstri og Hoffellsjökull vel fóðraðir á hafísárunum. Svínafellsfjall er fyrir miðri mynd. Handan fjallsins, milli jöklana er Gæsaheiði og Viðborðshálsar.
Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2011 | 13:14
Heinabergsjökull ólíkindatól
Jöklarannsóknafélag Íslands er merkilegt félag. Aðalfundur JÖRFÍ verður haldinn þann 22. febrúar í Öskju. Félagið gefur út fréttabréf reglulega. Oddur Sigurðsson segir í nýjasta fréttabréfi, nr. 119, frá afkomumælingum 50 íslenskra jökulsporða á síðasta ári.
"Niðurstöður eru óvenju samhljóða þetta árið. Einn sporður gekk fram frá fyrra ári, einn stendur í stað en allir hinir styttust. Þetta er í góðu samræmi við ástandið. Sumarið var með þeim allra hlýjustu sem komið hafa í sögu veðurmælinga og ofan á það bættist öskusáldur frá Eyjafjallajökli. Það jók leysingu til muna á flestöllum jöklum en þó ekki Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli þar sem askan var svo þykk að hún einangraði jökulinn."
Svo segir frá Heinabergsjökli: "Heinabergsjökull einn mældist framar en í fyrra en hann er ólíkindatól þar sem hann er á floti í sporðinn og bregst því á lítt fyrirsjáanlegan hátt við loftslagi frá ári til árs."
Heinabergsjökull er þá undantekningin sem sannar regluna. En loftslag er að hlýna og höfin að súrna.
Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119
9.2.2011 | 21:48
Chinatown ****
Rökkurmyndin Chinatown (1974) í leikstjórn Roman Polanski var fyrsta myndin á Mánudagsbíóum Háskóla Íslands og Háskólabíós. Það var góð stemming eldra fólks í Stóra sal Háskólabíós, gömul filma sem rann í gegnum sýningarvélarnar og varpaðist á 175 fermetra sýningartjaldið. Rispur og eðlilegar hljóðtruflanir mögnuðu upp fortíðarstemminguna.
Myndin á mjög vel við í dag enda er umfjöllunarefnið spilling og siðblinda. En þegar myndin var frumsýnd hér í Háskólabíó í júní 1976 töldu landsmenn sig búa í óspilltasta landi í heimi. Vatns- og landréttindi í þurri Los Angeles eru meginþemað en þessi mál eru í hámæli hér á landi núna. Leikararnir Jack Nicholsson, Faye Dunaway og John Huston, í hlutverki siðblinda og gráðuga öldungsins sem telur að sér sé allt leyfilegt, eru stórgóð. Leikstjórinn Roman Polanski tekur sér Alfred Hitchcock til fyrirmyndar og er stórgóður í litlu hlutverki. En það sem gerir myndina sterka er góður leikur allra aukaleikara.
Sagan er stórgóð byggir á vel meitluðu handriti. Sögusviðið er Los Angeles á fjórða áratugnum (1930's) og er mikið reykt af sígarettum í myndinni. Eflaust hafa tóbaksrisarnir styrkt hana vel. Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit. Hún var tilnefnd til 10 Óskarsverðlauna en uppskar aðeins ein, fyrir handrit.
Sagan segir að Chinatown hafi átt að vera fyrsta myndin í þríleik um auðlindaspillingu en Polanski flúði Bandaríkin vegna lögbrota og því varð ekkert úr pælingu hans. Jack Nicholson tók við hjólinu en myndin, The Two Jakes (1990), fékk slæma dóma gagnrýnenda og því dó spillingar uppfræðslan.
Á leiðinni út úr heitum sal Háskólabíós í kuldann og snjóinn komu upp í hugann leikarinn John Huston sem Noah Cross. En í stað hans setti maður orkuútrásarvíkinga, REI, bankastjóra árið 2008, FLokkinn, Magma og æðsta dómsstig landsins. Allir þessir aðilar spegluðust vel í Noah Cross.
Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit. En hvað eru rökkurmyndir. Ég hafði ekki hugmynd um það áður en ég fór á sýninguna en eftir að hafa leitað mér upplýsinga þá læt ég þær fylgja hér með.
"Meginþema í öllum Film Noir myndum er spilling. Rotin og ísköld spilling og ekki síst blekkingarvefur. Fólk er gjarna ekki allt þar sem það er séð og algengt þema er að einhver ber ást til manneskju sem reynist síðan ekki vera sú manneskja sem hann varð ástfangin af.
Til útskýringar fyrir þá sem þekkja ekki til Film Noir mynda þá voru þær vinsælar á fimmta áratugnum. Þetta voru sakamálamyndir og í flestum tilfellum var aðalpersónan einkaspæjari. Sögumaður segir söguna, gjarna einkaspæjarinn sjálfur. Veröldin í þessum myndum er spillt og siðlaus, umhverfið stórborg og það hellirignir í Film Noir. Sem dæmi um þekktar Film Noir myndir má nefna "Double Indemnity" og "The Postman Always Rings Twice". Í Film Noir er heimsmyndin kolsvört, algjört svartsýni ríkir. Og ekki má gleyma kaldhæðninni. Lýsingin er það sem einkennir Film Noir hvað mest og flestir þekkja. Lýsing neðan frá, dimmar senur og miklar andstæður ljóss og skugga. Svo eru þverlínur notaðar til að koma óróleika í myndina, gjarna í formi rimlagluggatjalda."
Heimild: Kvika.net
Já, hann er margbreytilegur kvikmyndaheimurinn.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 7
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 77
- Frá upphafi: 234912
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 69
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar