Færsluflokkur: Umhverfismál

Topphóll séður með augum sjálfbærni

Steinarnir tala

Í síðasta mánuði var mikil fjölmiðlaumræða um álfakirkjuna í Topphól í Hornafirði.  Ekki virðist vera hægt að bjarga stuðlabergshólnum því nýr vegur mun liggja yfir hólinn og verður hann sprengdur í loft upp.  

Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðum Vegagerðarinnar enda hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga Hornfirðinga og ferðamenn. Trú á álfa, huldufólk og tröll hefur verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga.

Vegagerðin segir að ekki sé hægt að hnika veginum, ábendingin hafi komið of seint, því fylgi aukinn kostnaður og verkið tefjist. Ferlið við vegalagninguna hefur tekið fimmtán ár og einhver hefur sofnað á verðinum.

Völvan Ísvöld Ljósbera nær kjarnanum í umræðunni en hún mótmælti aðförinni:  „Álfatrú er hluti af okkar þjóðarhjarta. Hún er dýrmæt og komandi kynslóðir eiga skilið að fá að upplifa hana líka.“

Hvað ætla hornfirskir leiðsögumenn að sýna ferðamönnum eftir hundrað ár þegar jökullinn verður nær horfinn, íshellarnir og Topphóll?  Álfasögunar horfnar og tengslin við landið.

Þá verða sagðar sögur af sprengdum álfaborgum rétt eins og Úkraínskir leiðsögumenn munu segja um borgirnar Bakhmut og Mariupol.  Pútin er víða.

 

Tröllið Þorlákur

Þegar umræðan um Topphól var í hámarki, var ég staddur í sumarbústaðalandi í Hraunborgum, Álfasteinssundi í Grímsnesi og þar er steinn, Þorlákur heitir hann eftir tröllkarli sem varð að steini þegar sólin kom upp. Vegagerðarmenn fundu sniðuga lausn, lögðu veg er beggja vegna Þorláks og virðist hann vera nokkuð sáttur og sagan lifir.  Hornfirðingar höfðu gæfu að bjarga vatnstanknum á Fiskhól frá niðurrifi á síðustu öld og er hann orðinn tákn fyrir staðinn. Ekki er hægt að bjarga Topphól með þessari sniðugu lausn. 

Álfasteinssund

Hér var ekki sprengt með dínamíti í Álfasteinssundi, heldur fundin lausn. Allir sáttir, ferðamenn, álfar, tröll, leiðsögumenn, framkvæmdaraðilar og aðrir hagaðilar.  Virðing er lykilorðið!

 

Sjálfbærni

Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Hugtakið byggir á þrem stoðum, náttúru og umhverfi og hinar stoðirnar eru efnahagslíf og samfélagslegir þættir s.s. jafnrétti, heilsa, velferð og menning. Þessar þrjár stoðir tengjast innbyrðis og spila saman.

Þegar Topphóll er skoðaður með augum sjálfbærni, þá erum  við, freka kynslóðin búin að stroka Topphól út af hinu rómaða Skaftfellska landslagi og skemma allar álfasögurnar sem hefðu fylgt fyrir næstu kynslóðir. Peningarnir hafa trompað umhverfið og samfélagið, þeir ráða því miður oftast ferðinni.

En til að bæta okkur í sjálfbærni, þá skora ég á bekkjarbróður minn, hugvitsmanninn Einar Björn Einarsson sem rekur Jökulsárlón ehf með myndarbrag að taka stórt skref í orkuskiptum. Skipta út jarðefnaeldsneyti á bátaflotanum á Lóninu sem fyrst en Einar veit hvað er best, allt gangverk lifnar við í höndunum á honum. Vetni, metan, metanól, rafmagn, repjuolía, ammóníak, lífdísill eða etanól. Allt er þetta betra en mengandi olía sem er að steikja okkur.

Þegar stór aðili tekur stóra skrefið í sjálfbærni, þá sendir hann jákvæð skilaboð til allra í hinni mengandi ferðaþjónustu og verður góð fyrirmynd í umhverfismálum og fleiri fylgja á eftir.

Það að vera sjálfbær snýst því um að búa til félagsleg og efnahagsleg kerfi sem eru ekki skaðleg náttúrunni og tryggja þannig lífsgæði okkar og framtíðarkynslóða.


Geirólfsgnúpur (433 m)

Gnúpagönguferð við rætur Drangajökuls

Það hafði verið úrkoma dagana áður en spáin lofaði breytingum. Þegar kíkt var út um gluggann um morguninn þá lágu ský niður í miðjar hlíðar gnúpanna tveggja, Geirólfsgnúps og Sigluvíkurgnúps.

Eftir teygjuæfingar fyrir göngu dagsins brutust fyrstu sólargeislar í gegnum skýin og það lofaði góðu. 

Fyrst var gengið í gegnum kríuvarp og þaðan þvert yfir 600 metra flugvöll sem duglegir Reykjafjarðarbændur hafa byggt til að rjúfa einangrun. Ryðgaður valtari beið við vallarendann og blóm stungu upp kollinum á flugbrautinni. Nýtt landnám hafið.

Reykjarfjarðarós var helsta áskorun dagsins en hann er jökulá sem á upptök í Drangajökli. Reykjarfjarðarjökull, skriðjökull úr Drangajökli hefur hopað frá ósnum og jökuláin lengist en nafnið breytist ekki.

Ólína farastjóri fann bestu leiðina yfir Ósinn og allir göngumenn komust klakklaust yfir en trikkið er að horfa ekki í strauminn og taka stutt skref og þreifa fyrir sér með göngustöfum. 

Þegar komið var yfir jökulána stutt frá rústum af bænum Sæbóli þá var sagan af biskupnum Guðmundi góða sögð en hann fótbrotnaði illa og náði heilsu í bænum yfir veturinn.

Síðan var gengið meðfram Sigluvíkurnúp eftir manna og kindaslóð að Sigluvík. Á smá kafla var bratt  niður að sjó. Þá sáust vel skilin á milli jökulvatnsins og hafsins en mikil næringarefni eru í framburði jökuláa. Fjörðurinn við Ósinn var jökullitaður en liturinn þynntist út þegar lengra kom.

Rekaviður í víkum og plastrusl frá sjávarútvegnum. Gular netakúlur, netahringir og net mest áberandi.

Drangajökull rís yfir landinu í vestri með björtu hveli móti himni og með skerin sín sem sífellt eru að stækka, Hrolleifsborg (851 m), Reyðarbungu og Hljóðabungu (825 m). Jökulbunga hæst. 

Þegar ofar kom upp í hálsinn þá sá yst í fjarðaröðinni í Kálfatinda á Hornbjargi, glæsilegt horn sem við misstum af í þokunni daginn áður.

Gengið upp á milli gnúpanna upp á lágan háls sem nefnist ýmist Sigluvíkurháls (223 m) eða Skjaldarvíkurháls og þá opnaðist útsýni yfir í Skjaldabjarnarvík með glæsileg Drangaskörð sem minntu á hala á risaeðlu. Mögnuð sýn. Síðan var hægt að rekja tinda í Strandasýslu.

Geirólfsgnúpur hækkar í ávala bungu sem hæst er 433 m. er kallast Geirhólmur. Þar er varða og endaði uppgangan þar.

Sýslumörk N-Ísafjarðarsýslu og Strandarsýslu liggja um Geirólfsgnúp. Við hoppuðum á milli sýslumanna.

Þrjár kenningar um nafnið á Geirmundargnúp.  Sú fyrsta er úr Landnámu en Geirólfur braut skip sitt við Geirólfsgnúp. Önnur er náttúrunafnakenningin, að nafni tengist "geirr eða spjóti". Haft um fjöll og kletta, sem skaga fram eða eru oddhvassir en gnúpurinn gengur út í hafið. Sú þriðja er sett fram í Árbók FÍ 1994 en hún gengur út að geirfugl hafi verið í gnúpnum og hann dragi nafnið af því en Strandamenn gáfu bæjum og kennileitum nöfn eftir landnytjum.

Þetta var fullkominn dagur, þrír sjónrænir gimsteinar í náttúru Íslands negldir á einum degi. Drangajökull, Hornbjarg og Drangaskörð við ysta haf.

Heimleiðin gekk vel, gengin sama leið og það hafði minnkað í jökulánni en merkilegt hvað göngufólk var ánægt með að fá óvænt fótabað. Því leið betur á eftir.

Að endingu var hin frábæra og þrifalega sundlaug í Reykjarfirði heimsótt, stórkostlegt mannvirki í tóminu. þar var slakað á í kvöldsólinni og hlustað á gargið í kríunni.

Gnúparnir tveir voru komnir með ský niður í miðjar hlíðar. Við nýttum gluggann vel.

Hornstrandir

Næst er jökullitaður Reykjarfjörður, þá Þaralátursnes og Þaralátursfjörður handan, Furufjörður og ein af Bolungarvíkum á Vestfjörðum. Síðan sér í Straumnes og handan þeirra Barðsvík og Smiðjuvík. Látravík er fyrir framan glæsilega Kálfatinda. 

Geirhólmur: 433 m (N: 66.15.610 – W: 21.58.671)
Göngubyrjun: Reykjarfjörður 4 m (N: 66.15.473 – W: 22.05.282)
Uppsöfnuð hækkun: 627 m
Uppgöngutími: 120 mín (13:30 - 15:15)
Heildargöngutími: 540 mín (10:20 - 19:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Sigluvíkurháls: 223 m (N: 66.15.098 - W: 21.59.709)
Vegalengd: 16,1 km
Veður: NA og léttskýjað, hiti um 8 gráður
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, sumarleyfisferð – Við rætur Drangajökuls,  10 göngumenn. Fararstjórar Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Sigurður Pétursson, traust og fróðleg.
GSM samband: Já, á Geirhólmi

Gönguleiðalýsing: Þjóðleið yfir jökulá, Reykjafjarðaós. Gengið eftir slóða meðfram Sigluvíkurnúp og upp hálsinn. Þaðan haldið á Geirhólm og útsýni yfir ysta haf frá Hornbjargi að Drangaskörðum.


Plastrusl í hafinu

Ábyrgð á plastrusli

Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.

"Alls var 94,1% af rusl­inu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Al­mennt rusl eins og til að mynda plast­pok­ar, plast­film­ur og áldós­ir var aðeins 5,9% af því sem fannst."


Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.


Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga. 

Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.

 

SÞ - plastrusl í hafinu


Kolefnislosun og hagnaður

Þorskstofninn í hættu vegna loftslagsbreytinga en möguleg tækifæri í sardínum og makríl er frétt á forsíðu Fréttablaðsins 9. desember 2022.  Ráðast þarf að rót vandamálsins, stoppa losun GHL.

Slæmu fréttirnar þegar mælingar á losun í virðiskeðju fyrirtækja eru að risarnir í losun eru ekki að vinna neitt í losunarsviði 3, nema orkufyrirtækin tvö, LV or OR. Hlutfallið í losunarsviði 3 er 5% en viðmið MSCI vísitölunnar er 88%.

Mælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð. Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).  Staðan eða kortlagning  hjá fyrirtækjunum minnir mig á landakort sem Christopher Columbus hafði árið 1492 þegar hann ætlaði að sigla til Asíu en endaði í Ameríku!

Enginn losun reiknuð við flutning hráefnis og vöru hjá álverum. Einnig hvernig hráefnis er aflað. Það vantar fallega framtíðarsýn eins og CarbFix hefur um að fanga CO2 úr andrúmslofti og farga neðanjarðar sé flutt  í skipum með vistvænu eldsneyti.

Sobril taflan

Í töflunni eru stærstu kolefnislosunarvaldar Íslands og raðað eftir beinni losun (grái dálkurinn).  Fyrsti dálkurinn er hagnaður fyrir skatta 2021 og fengin úr bókinni 300 stærstu. Síðan koma losunarsviðin og mótvægisaðgerðin, kolefnisbinding.  Athygli vekur að hagnaður gráu fyrirtækjanna 18 er 136 milljarðar fyrir skatta og ef þau væru skylduð skv. mengunarbótareglunni til að kolefnisjafna losun í dag og greiða þrjú þúsund krónur (20 EUR) fyrir tonnið af CO2 væri kostnaður um 10 milljarðar eða rúm 7% af hagnaði fyrir skatta.   Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu.

Heildarlosun gráu fyrirtækjanna er 3,3 milljón tonn CO2 eða rúmlega 73% af losun landsins fyrir utan landnotkun. Almenningur, sveitarfélög og hin 20.000 fyrirtækin eiga 27%! Til samanburðar er losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands 2,7 milljón tonn.

Orkufyrirtækin með yfirburði í kolefnisbindingu en margt spennandi í farvatninu á komandi árum ef staðið verður við farmtíðarsýn fyrirtækjanna í sjálfbærniskýrslum. En aðeins rúmlega 1% af losun er kolefnisjöfnuð.

Aðeins Landsvirkjun nær að uppfylla kröfur um kolefnishlutleysi en búið að að lögfesta að Ísland ætlar að ná markmiði um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Einnig er í hættu að Ísland ná markmiði Parísarsamkomulagsins 2030 með þessu aðgerðaleysi.

Stóru losunarfyrirtækin eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla neyðaráætlun.

ETS – Viðskiptakerfi ESB heldur um iðnað, flug og sjóflutninga. Um kerfið gilda sérstakar reglur en þrátt fyrir það þá öndum við að okkur sama loftinu og við þurfum að gera strangar kröfur til risanna í losun. Mögulegt er að að losunartölurnar sem álverin birta í sjálfbærniskýrslum eru mun lægri en losunin er í raun og veru.

Nú er að hefjast nýtt uppgjörsár og vonandi verða þessar upplýsingar til þess að fyrirtæki setji meiri metnað í mælingar á virðiskeðjunni. Það skiptir miklu máli að finna hvaða losunarþáttur og hvar mest ábyrgðin liggur. Forgangsraða og setja mestan tíma í stærstu loftslagsvænu aðgerðina.

Íslensk fyrirtæki þurfa að spýta í lófana og vera góð fyrirmynd, til að sviðmyndin - þorskstofninn hverfur úr lögsögunni - raungerist ekki.

          Greinin birtist fyrst í dálknum Skoðun í Fréttablaðinu 12. febrúar 2023


Ísmaðurinn Ötzi – ferðalangur frá koparöld

Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum.  Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.

Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.

Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.  

Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár,  skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun.   Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn

Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!   

Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.

Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.

Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.

Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.

Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.

 

Hvað gerði Ötzi?

Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður,  að leita að málmi, eða … kenningar um hann eru alltaf að breytast.

En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann.  Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.

Dauði Ötsi

Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.

En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum.  Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.

En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.

Ötzi

Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heimildir


Landeigendur léleg landkynning

"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson

Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.

Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.

Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.


Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.

Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.

Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir,  lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
 

Selva

Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.

 


mbl.is Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rósagarðurinn

Þegar ég var á skuttogaranum Þórhalli Daníelssyni SF-71 þá heimsóttum við stundum Rósagarðinn og mokuðum upp karfa. Rósagarðurinn er víðáttumikil fiskimið langt úti í hafi á milli Íslands og Færeyja. Þýskir togarasjómenn gáfu  bleyðunni nafn og nefndu Rosengarten. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Annað hvort er hún eftir rauðum kóral sem hefur komið upp með trollinu eða rauðum karfa sem veiddist þar.

Verkefni dags tvö hjá Villiöndum var að kanna annan Rósagarð, fjallaklasa í Dólómítunum í Suður-Týrol. Í Rósagarðinum bjó Lárin dvergakonungur sem lét fjöllin leiftra, tindra og glitra og segir ekki meira af honum.  Fjöllin í Ölpunum hafa tinda sem benda til himins og standast samanburðinn við fjöllin í Suðursveit!

Fjallgangan byrjaði hjá Laurin’s Lounge við fjallaskálann Kölner Hutter (2.337 m) og gengið var meðfram vesturhlið Rósagarðsins og austur fyrir hann að fjallaskálanum Rode di Vale. Snúið til baka og tekin skíðalyfta niður við Paoline fjallaskálann og gengið niður að Lake Carezza, stöðuvatni sem hefur alla liti regnbogans og tengist þjóðsögu.

Dólómítarnir eru hluti Ítölsku Alpanna og taka nafn sitt frá steintegundinni í þeim, dólómít. Þetta eru gömul kóralrif og marmarahvít gnæfa þau upp úr fjallgarðinum og þegar sólin sest slær á þau purpurarauðum bjarma. Hæsta fjall Dólómítanna er Marmolada sem rís hæst í 3.343m yfir sjávarmáli og þekktir fjallaklasar eru m.a. Rósagarðurinn (3.004 m) sem sést vel frá borginni Bolzano, Sella, Latemar og Langkofel-klasinn í Val Gardena.  Dólómitarnir eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Svæðið er í sama flokki og Surtsey, Þingvellir og Vatnajökulsþjóðgarður. Hefur einstakt gildi á heimsvísu.

Lagt var frá Bolzano og keyrt upp í fjöllin í gengum fjölda jarðganga. Beygjurnar á leiðinni slaga upp í fjölda eyjanna í Breiðafirði. Stórbrotið landaslag, vínviður víðast hvar og fjöllin skógi vaxin og byggð á ótrúlegustu stöðum.

Eftir rútuferð tókum kláf í 1.748 metra hæð og ferjaði hann okkur upp í 2.314 metra hæð og byrjuðum við á því að fá okkur kaffi í Laurin’s Lounge veitingaskálanum. Þetta eru auðveldasta 500 metra hækkun sem ég hef lent í á mínum fjallgönguferli. Frá skálanum var síðan gengið meðfram Rósagarðinum sem er glæsilegur fjallshryggur með Latemar á hægri hönd.

Á leiðinni sáum við berghlaup sem minnti á Stórurð og skömmu síðar var gil sem sendi mann til Grand Canyon í Arizona.  Mikið af göngufólki kom á móti okkur og áberandi hvað það var í eldri kantinum en hvað er betra en að anda að sér fjallaloftinu á eftirlaunaaldri.

Smá hækkun var frá Paloma fjallaskálanum, 70 metrar að stórri styttu af erni og minnismerki um Theodor Christomannos  (1854-1911) stjórnmálamann og frumkvöðul ferðaþjónustu í Suður Týrol. Einskonar Ari Trausti okkar Íslendinga!

Þegar við vorum komin fyrir horn Rósagarðsins sáust rigningarský á himni og  í kjölfarði fylgdu eldingar og þrumur í kjölfarið. Dropar tóku að falla.  Þegar styttist í fjallaskálann, þá opnuðust himnarnir er eldingar færðust nær. Fjölmenni göngufólks var í alpaskálanum og biðum við eftir að gjörningaveðrið gengi yfir.  Skyndilega kom ein elding stutt frá okkur sem lýsti upp himininn og miklar drunur fylgdu í kjölfarið. Það bergmálaði í fjöllunum. Allt í einu var maður kominn til Maríupol í Úkraínu.

Fínasta gúllassúpa var í boði í skálanum en ekki var hægt að kaupa annað vegna vatnsleysi en vatnsdælan hafði bilað daginn áður. Meðan þrumuveðrið gekk yfir skoðaði maður fjallaskálann. Á veggjum héngu myndir af miklum klifurhetjum enda Suður-Týrólar aldir upp við fjallaklifur. Fann mynd af Reinhold Messner og varð “starstruck”, hér höfðu klifurhetjur dvalið. Messner vann það sér til afreka að fara fyrstur án aukasúrefins á Everest ásamt félaga sínum Peter Habeler og gekk á alla 14 tinda yfir 8.000 metra að hæð. Þeir innleiddu alpastílinn í háfjallamennsku. Einnig var glæsileg mynd af Gino Pisoni (1913-1995)  sem var brautryðjandi í fjallaklifri í Ölpunum og lagði margar gönguleiðir. Ægifögur Dólómítafjöll voru þeirra leikvöllur. Messner sagði að hann væri búinn að ganga á 3.500 fjöll víðast hvar í heiminum en Dólómítafjöllin bæru af hvað varðar fallega byggingu.

Þolinmæði er dyggð. Tveggja tíma biðin borgaði sig, þegar við lögðum af stað til baka, þá létti þokunni að það var ævintýralegt að sjá Rósagarðinn birtast og önnur fjöll í Dólómítunum og Ölpunum. Djúpir fjalladalirnir óðu í hvítum skýjum og litir voru svo tærir.

Lake Carresa  er lítið fjallavatn sem ljómar í þúsund tónum af grænu, bláu og grænbláum litum, umlukið þéttum skógi og handan glæsilegum tindum Dólómítanna og speglast þeir í vatninu.  

Minnti mig á blágræna vatnið í Stórurð eða sprengigígurinn Grænavatni í Krýsuvík en það vantar tignarleg trén.

Betur af stað farið en heima setið. Ógleymanlegur dagur, ægifegurð og stórbrotin upplifun með Villiöndum og Eldhúsferðum.

Þó Alparnir með Dólómítanna hafi það orð á sér að vera eitt mesta sköpunarverk veraldar og bjóða upp á eitthvert fallegasta fjallalandslag sem til er, með lóðréttum veggjum, stórum klettum og miklum fjölda af þröngum, djúpum og löngum dölum, þá er margt líkt og á Íslandi en á stærri skala. Það má finna ljós líparítfjöll, jökla, Hraundranga, Dyrfjöll, Stórurð, Morinsheiði, Humarkló, tindótt Suðursveitafjöll og Fjaðrárgljúfur í Ölpunum en það sem okkur vantar eru tré, kláfar og þróaðri fjallaskálamenning.

Dólómítar

 

Hér eru skógivaxnir dalir í þokunni og berir fjallstindar blasa við, hrjóstrug fjallaskörðin tengja dal við dal. Tindar sem benda til himins.

Dagsetning: 3. júlí 2022
Þátttakendur: Villiendur göngu og sælkeraklúbbur, 15 fjallgöngumenn og fararstjóri

Heimildir:

Eldhúsferðir

Fréttablaðið – Peter Habeler

Messner Mountain Museum

UNESCO heimsmynjaskrá - Dólómitarnir (2009)


Stóri-Hrútur (352 m)

Stóri-Hrútur er fallega formað fjall utan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er nýtt fjall og nýtt hraun, en norðar sér niður í hraunaða Meradali, Litla-Hrút (312 m) og Keili.

Stóri-Hrútur er eitt fjölfarnasta fjall landsins í dag og kom skyndileg frægð hans til vegna eldgosins í Geldingadölum.  Fjallið er hæsta fjallið í Fagradalsfjalla-klasanum og tilkomumesta þó kollótt sé.

Þegar á Stóra-Hrút er komið sér vel yfir hraunið í Meradölum og nýtt litskrúðugt fjall sem ætlaði að verða dyngja en vantaði efni úr neðra.  Fjallið er vel vaktað og teygir net jarðskjálftamæla sig þangað. Greina má sprungur í móbergsfjallinu.

Lagt var við bílastæði við Langahrygg. Beygt var upp af Suðurstrandaveg á milli Skála-Mælifells og Slögu. Þar voru margir erlendir ferðamenn. Líklega er búið að loka svæðinu núna.

Stefnan var tekin á móbergshrygginn Langahrygg (311 m.) og þaðan gengið á Stóra-Hrút (352 m) en á milli þeirra liggur nýja hraunið, Fagradalshraun. Gengið var stutt út á hraunið.

Mest spennandi var gígurinn sem skóp Fagradalshraun. Þarna var dyngja í mótun en skyndilega stoppaði hraunrennslið. Skrautlegar litaútfellingar eru vegna gas sem kemur enn úr gígnum. Áhugavert var að finna hitann á litskrúðugu sprungunum í hrauninu.

Ekki sást brak úr flugvélinni,sem fór í Langahrygg. Í henni voru 11 menn og allir látist.  Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02. nóvember 1941. Tvær aðrar flugvélar fórust í Fagradalsfjalli í heimsstyrjöldinni.

Mæli með að ganga á Stóra-Hrút ef fólk ætlar að sjá nýjasta djásnið í náttúru Íslands.

283766591_10224867532588663_7382736212868640093_n.jpg?_nc_cat=105&ccb=1-7&_nc_sid=730e14&_nc_ohc=IcEH_LQit6cAX_yxs53&_nc_ht=scontent.frkv3-1

Föruneyti hringsins á leið á Stóra-Hrút (352 m) en kollóttur er hann. Það blés hressilega nyrst á hrútnum.

Dagsetning: 22. maí 2022
Stóri-Hrútur: 352 m (N:63.52.999 - V:22.14.992)
Göngubyrjun: Geldingadalir Volcano Parking 2, lokað núna
Uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 120 mín (12:00 - 14:00)
Heildargöngutími: 200 mín (12:00 - 15:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Langihryggur: 311 m (N:63.52.440 - V:22.15.737)
Vegalengd: 8,4 km
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt og vindur að mestu mildur, það blés þó aðeins uppi á Stóra Hrút
Þátttakendur: Fjallafélag Vínbúðanna, 7 manns
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið. Byrjar á móbergi upp Langahrygg og þaðan á Stóra-Hrút. Gengið á grónu landi austan við Langahrygg niður Hrútadal á bakaleið.

Facebook-staða: Takk fyrir skemmtilega samveru kæra samferðarfólk


Hringun 35 stærstu vatna höfuðborgarsvæðisins í heimsfaraldri

“In the midst of every crisis, lies great opportunity.” - Albert Einstein
 
Þegar heimsfaraldur hófst þá hægði á öllu en fólk þurfti að hreyfa sig. Takast á við nýjar áskoranir. Fyrir vikið voru fjöll og fell í nágrenni höfuðborgarinnar vinsæl til uppgöngu. Það var oft fjölmennt á fallegum dögum og stundum erfitt að finna bílastæði við fellsrætur. Fljótlega kláraðist fjallgöngulistinn. En maður varð að halda áfram með hreyfingarmarkmiðin.
 
Þá greip maður tækifærið. Prófað var að ganga í kringum vötn og tjarnir á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst var Vífilsstaðavatn hringað og þegar tíu vinsælustu vötnin höfðu verið hringuð, þá var tækifærið útvíkkað. Eftir stutta leit fannst listi yfir 35 vötn á höfuðborgarsvæðinu. Það syðsta var Brunnvatn við álverið í Straumsvík og Meðalfellsvatn í Kjós var nyrst.
 
Markmiðið var að klára listann áður en faraldurinn hætti. Þegar síðasta vatnið, númer 35 í röðinni, Meðalfellsvatn, var hringað í lok júní þá felldi Svandís heilbrigðisráðherra niður allar samkomutakmarkanir daginn eftir. Ég rétt náði markmiðinu.
Oftast var frúin með en í nokkrum hringferðum komu fleiri með og tóku þátt í ævintýrinu.
En fararaldurinn er ekki búinn en það eru fleiri vötn á höfuðborgarsvæðinu...
 
Þetta var skemmtilegt og eftirminnilegt verkefni. Alls voru kílómetrarnir kringum vötnin rúmlega 100. Hringun vatna var frá 400 metrum upp í 10, 4 km. Það var gaman að leita að vötnunum og nú þekki ég höfuðborgarsvæðið betur, sérstaklega Miðdalsheiðina en þar leynast mörg áhugaverð vötn. Mynda vatnakraga. Einnig kynntist maður Seltjarnarnesi og Álftanesi betur. Maður hefur kynnst bátamenningu við veiðivötn og sumarbústaðamenningu. En vötnin 35 eru mjög ólík og mis mikið líf í kringum þau, vistkerfin eru misjöfn.
 
Flottasta samsetningin er vatn og skógur. En vatn er forsenda lífs og maðurinn er 70% vatn og heilinn 90% vatn. Þarna er einhver harmónía í gangi. Merkilegasta vatnið er Brunntjörn við Straumsvík, einstaka á heimsvísu. En líflegasta vatnið er Meðalfellsvatn. Þar er líffræðilegur fjölbreytileiki einna mestur.
 
Margt merkilegt bar fyrir augu en toppurinn var að finna himbrima á litlum hólmi við vatnsbakka Meðalfellsvatn.
Fuglinn er á válista því stofninn hér telur færri en 1.000 fugla hér á landi. Ég vona svo sannarlega að hann hafi komið afkvæmum sínum á legg en hann hefur hættulegan lífsstíl. Himbriminn er veðurspáfugl og grimmur. Aðeins eitt par er við hvert vatn, en við stærstu vötn geta verð fleiri pör.
 
Fuglinn hefur og fagra rödd og mikla. Þegar hann gólar á vatni segja menn, að hann „taki í löppina“, og þyki það vita á vætu. En fljúgi hann um loftið með miklum gólum, veit hann veður og vind í stél sér. “ - Íslenskar þjóðsögur og –sagnir. Sigfús Sigfússon.
 
Himbriminn liggur fastur á sínu og er því berskjaldaður. Mögnuð sjón, tignarlegur fugl í fallegu umhverfi.
 
Þetta var óvænt vatnatækifæri á skrítnum tímum.
 
Himbrimi

Bláfell hjá Kili (1.204 m)

Stór er Íslands eilíf mynd
   - Enn er tjaldið dregið frá:
Bláfell upp í ljómans lind
Lyftist hreint úr daggarsjá
Móðir guðs hinn tigna tind
Tásu hvíta breiðir á.
       (Jóhannes úr Kötlum (Leiksvið)

 

Það eru fjögur Bláfell á landinu bláa. í fjallgöngunni var gengið á góða veðurspá með Ferðfélagi Ísland og markmiðið að bæta bláu felli í litasafnið ásamt 60 öðrum söfnurum. Fyrir valinu var Bláfell hjá Kili (1.204 m) En fjöll með litanöfnum eru eftirfarandi:

Rauðafell, Grænafell, Bláfell, Svartafell/Svartfell, Hvítafell/Hvítfell og Gráfell.

Mörg örnefni á Íslandi tengjast litum, t.d. Rauðhólar, Rauðisandur og Rauðifoss, og eru rauðir litir í örnefnum oftast skýrðir með lit berggrunns eða jarðefna. Hins vegar tengist blár litur í örnefni oftast fjarlægð og skýrist af áhrifum andrúmsloftsins á ljós. Grænn litur tengist yfirleitt gróðri.

Annars þarf maður að herða sig, aðeins kominn með Svartfell í safnið. Einnig Grænudyngju en spurning hvort hún teljist með.

Bláfell er raunar fyrir sunnan Hvítárvatn og engan veginn á Kili, en þetta er mikið fjall og fagurt og girnilegt til fróðleiks. Það er ílangt nokkuð í stefnu NA-SV, og hátindurinn, 1204 m., lítill um sig, en allbrattur, er framan til við miðju og skilinn af skarði frá norðurbungu fjallsins, sem er nokkru lægri, 1160 m. Bláfell er úr móbergi og bólstrabergi upp undir brúnir, en grágrýtislögum þar fyrir ofan. Að þessu leyti má það teljast til þeirrar fjallgerðar, sem nefnd hefur verið stapi. Fellið hefur orðið til á hinu grimma, næstsíðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Þegar aftur kólnaði á síðasta skeiði ísaldarinnar, lagðist jökullinn yfir Bláfell á nýjan leik og mýkti ásýnd þess og gerði óreglulegt. Minnir mig á Úlfarsfell.

Bláfell sést víða að og þjóðsögur um bergrisann Bergþór sem þar hefur búsetu eru vel þekktar. Ekki fundum við Bergþórshelli og ketilinn stóra með rjúpnalaufum.

Þrátt fyrir að þjóðvegurinn yfir Kjöl liggi við rætur fjallsins og tiltölulega auðvelt sé að ganga á fjallið, fara sárafáir þangað upp.

Geysivítt útsýni er af Bláfelli. Einbeitum okkur fyrsta af jöklunum en þeir verða ekki í boði eftir 200 ár ef ekki næst að að koma böndum á hamfarahlýnun af mannavöldum. Ef horft er á jöklaseríuna sem er í boði þá er er fyrst að nefna Langjökul með tignarfaldinn hvíta og Jarlhettur í forgrunni. Í vestri eru Þórisjökull og Geitlandsjökull og yfir Langjökli sést Eiríksjökull. Hrútfell, annar stæðilegur stapi, með jökulhettu á kolli. Til hægri sést Hofsjökull breiða úr sér en síða taka við Kerlingarfjöll með sínar fannir. Í miklum fjarska yfir Kerlingarfjöll, sést til Tungnafellsjökuls og Vatnajökuls frá Bárðarbungu til Öræfajökuls.

Í suðri sér til Eyjafjallajökuls, einnig hluta af Mýrdalsjökli. Í vestri sér í jökullaust Ok og þá er jöklahringnum lokað. Ég saknaði þó Tindfjallajökuls en Hekla skyggir á hann.

Örnefni utan jökla eru Jarlhettur tignarleg 15 km röð mishárra tinda og fylgdu okkur alla leið. Geldingafell er næst Bláfelli og handan er Skálpanesdyngjan og móbergsstapinn Skriðufell sem gengur út í Hvítárvatn. Norðan vatnsins er Leggjabrjótur, mikil dyngja  með sinn stóra gíg, Sólkötlu á kolli og Kjalfell sem Kjalvegur dregur nafn af.

Í ríki Vatnajökuls sést Hamarinn og Kerlingar, Tungnárfjöll og Fögrufjöll með dökkan Sveinstind við Langasjó. Í suðri ber mikið á Heklu og Vestmannaeyjar sjást. Vörðufell á Skeiðum, Hestfjall, Hestvatn og Mosfell sem við keyrðum framhjá. Ingólfsfjall, Apavatn, Bjarnarfell og Sandfell. Útfjöllin: Rauðafell, Högnhöfði og Kálfstindur. Síðan Hlöðufell og Skjaldbreiður. Á milli þeirra er Ármannsfell. Í forgrunni er Klakkur umvafinn tignarfaldinum hvíta.

Bláfell

Gangan hófst við bílastæði á móts við Illagil við Bláfellsháls og var gengið um mela að fjallsrótum.. Þegar á háfjallið er komið er afar víðsýnt til allra átta.

Dagsetning: 27. október 2019
Hæð í göngubyrjun: 570 metrar, Bláfellsháls (N: 64.29.814 – W:19.55.416)
Bláfell - hnjúkur: 1.204 m (N: 64.29.287 – W: 19.51.525)
Hækkun göngufólks: 634 metrar
Uppgöngutími: 170 mínútur (10:30 – 13:20)
Heildargöngutími: 300 mínútur (10:30 – 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 8 km
Veður - Hjarðarland kl. 12.00: Heiðskýrt, NA 2 m/s, -0,4 °C, raki 53%
Þátttakendur: FÍ, gengið á góða spá. 60 göngumenn 2 hundar og 22 bílar.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Greiðfærir melar að fellsrótum. Síðan tekur við móbergshella með lausamöl, skriður og snjór í efri hluta. Stórgrýtt efst. Gengið á allt of sjaldan.

Facebook-status: Takk fyrir frábæran dag á einhverju besta útsýnisfjalli landsins!

 

Heimildir
Fjallajarðir og Framafréttur Biskupstungna – FÍ 1998
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – Jón Árnason


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 233593

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband