Færsluflokkur: Lífstíll
22.8.2011 | 01:22
Ingólfsfjall (551 m)
Oft hefur maður keyrt undir Ingólfsfjalli og nú var kominn tími á að koma því í fjallasafnið.
Ingólfsfjall er móbegsfjall í Ölfusi og hefur áður fyrr gengið sem múli fram í hafið, en þá hefur undirlendið allt verið undir sjó. Það er bratt á þrjá vegu, í vestur, austur og suður. Við ákváðum að fara vinsælustu leiðina, frá suðri.
Gengið upp frá Þórustaðanámu en meðfram bratta veginum sem liggur upp á fjallið.
Þegar komið er upp á brún tekur á móti göngufólki varða með gestabók frá Ferðafélagi Árnesinga. Höfðu margir kvittað fyrir sig um daginn og er ganga að brún Ingólfsfjall eflaust vinsæl heilsurækt hjá íbúum á Suðurlandi.
Eftir skriftir var stefnan tekin norður á Stórhæð en þar eru Gráhóll (492 m) og Digrihóll. En einnig er mögulegt að taka hringleið eftir brúnum fjallsins.
Þegar upp á hæðina er komið sér yfir á Inghól, sem er gígtappi en sagan segir að fyrsti landnmámsmaðurinn, Ingólfur Arnarsson sé heygður þar og einn sumardag opnist hóllinn og sjá menn þá allt það sem honum fylgdi í andlátið.
Ekki opnaðist hóllinn þetta ágústkvöld.
Eftir nokkra göngu á mosagrónum melum komum við að rafmagnsgirðingu á fjallinu en hún tengist landamerkjum Ölfusar og Árborgar. Einnig Alviðru, bæ austan við Ingólfsfjall sem hýsir umhverfis- og fræðslusetur Landverndar.
Það var merkilegt að ganga inn um hlið á toppi Ingólfsfjalls.
Gönguferð á Ingólfsfjallið minnir á gönguferð á nokkra íslenska jökla, það er víðáttumikið og flatvaxið og tekur fjallið til sín útsýni en ef gengið er með brúnum þá er útsýni allgott. Það er mun meira landslag í Ingólfsfjalli en maður gerir sér grein fyrir þegar ferðast er í bíl undir fjallinu.
Í austri sást móta fyrir dökkum Eyjafjallajökli og Þríhyrningi. Vestmannaeyjar eru glæsilegar í hafi í suðaustri. Hellisheiði í vestri skemmtileg í rökkrinu. Skálafellið og þorpin, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri eru góðir nágrannar.
Dagsetning: 16. ágúst 2011
Hæð hæðarpunkts og vörðu: 551 metrar
Hæð í göngubyrjun: Um 50 metrar við Þórustaðanámu
Hækkun: Um 500 metrar
Uppgöngutími varða m/gestabók: 50 mín (19:40 - 20:30)
Uppgöngutími Inghóll: 110 mín (19.40 - 21:30)
Heildargöngutími: 180 mínútur (19:40 - 22:40)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd (hringurinn): um 8 km
Veður kl. 21 Lyngdalsheiði: Léttskýjað, NA 5 m/s, 11,0 gráður. Raki 60%, veghiti 15,3 °C
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 göngumenn
Gönguleiðalýsing: Drjúglöng en létt ganga á sögufrægt fjall
Sárið í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli æpir á mann. En hann er brattur vegurinn og ekki fyrir hvern sem er að aka hann. Námumenn hljóta að hafa góðan bónus fyrir ferðirnar, sérstaklega er niðurleiðin brött og hrikaleg fyrir tæki.
Kvittað fyrir komu á Ingólfsfjal. Það sér til Vestmanneyja í suðaustri.
Nýleg rafmagnsgirðing er á fjallinu og er einfaldast fyrir göngumenn að fylgja henni. Við Inghól er hlið. Það er mjög merkileg upplifun að opna og loka hliði á fjallstoppi.
Gígtappinn Inghóll úr grágrýti. Hann var viðmið sjófarenda. Ölfursárósar og Þorlákshöfn eru á vinstri hönd.
Heimildir:
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind
Ferlir.is - http://www.ferlir.is/?id=3954
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2011 | 14:27
Reykjafell í Mosfellsbæ (269 m)
Reykjafell eða Reykjafjall eins og Reykjabændur kalla það er áberandi og miðsvæðis. Það er fyrir austan Mosfellsbæ, ofan við Skammadal og Reykjahverfið. Þaðan er víðsýni til allra átta og því var staðsett á Reykjafelli varðstöð hernámsliðsins á styrjaldarárunum. Reykjafell er nokkuð víðáttunikið. Gróið vel neðantil en hálendisjurtir vaxa uppi á hábungunni. Reykjafell er 269 m. Hægt er að ganga á það úr öllum áttum. Til dæmis frá SuðurReykjum í Reykjahverfi og frá Dalsrétt í Helgadal.
Alls keifuðu um 50 manns upp Reykjafellið. Er þangað var komið sást vel yfir vel gróinn Mosfellsbæ og fellin og fjöllin í nágrenni hans. Einn gangráðurinn í Útivistarræktarhópnum sýndi göngumönnum göngukort- Gönguleiðir í Mosfellsbæ sem Mosfellsbær og Skátafélagið Mosverjar hafa gefið út. Þar er gönguleiðum, um 70 km alls lýst. Frábært framtak hjá þessum aðilum.
Við fylgdum kortinu, gengum frá toppnum að Einbúa og þaðan að Varmá. Gönguleið var vel stikuð og glæsilegir vegprestar með nákvæmum göngulengdum gáfu góðar upplýsingar.
Dagsetning: 10. ágúst 2011
Hæð hæðarpunkts og vörðu: 269 metrar
Hæð í göngubyrjun: 61 metrar við Syðri-Reyki, (N:64.09.730 - W:21.42.654)
Hækkun: Um 208 metrar
Uppgöngutími varða: 40 mín (18:55 - 19:35) - 1,5 km
Heildargöngutími: 120 mínútur (18:55 - 20:55)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit varða: N:64.09.783 - W:21.42.321
Vegalengd (hringurinn): um 6 km
Veður kl. 19 Reykjavík: Léttskýjað, VNV 3 m/s, 12,7 gráður. Raki 79%, skyggni 40 km
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 50 þátttakendur
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Gengið frá Syðri-Reykjum áleiðis inn Skammadal og síðan beint eftir stikaðri leið til austurs upp nokkuð brattar vesturhlíðar fjallsins. Þá er komið beint á hæstu bungu Reykjafells.
Facebook staða: fín ganga á Reykjafellið í kvöld í blíðunni, fórum aðra leið en ég hef farið áður. Flott framtak hjá Mosfellsbæ og félagasamtökum í bænum að stika gönguleiðir og gefa út kort... margar skemmtilegar gönguleiðir þar.
Með þessari skemmtilegu göngu enduðu náði ég að fara á öll sjö fell Mosfellsbæjar og loka einu fellasafni. Hér fyrir neðan eru fellin listuð upp eftir hæð.Fell eða fjall | Hæð (m) | Uppganga | Nafn |
484 | 15. nóvember 2009 | Stórhóll | |
Úlfarsfell | 296 | 12. maí 2002 | Stórihnúkur |
276 | 8. janúar 2011 |
| |
Reykjafell | 269 | 10. ágúst 2011 | Reykjafjall |
220 | 27. desember 2009 |
| |
216 | 8. maí 2008 |
| |
123 | 9. ágúst 2011 |
|
Hluti göngufólks settist niður og nærðist við Varmá.
Stefnan tekin á Einbúa en í heimstyrjöldinni síðari fórust tvær flugvélar í nágrenni hans af völdum veðurs. Hægt var að krækja sér í bláber á leiðinni en sprettan er minni en í fyrra.
Heimildir:
www.mos.is
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2011 | 14:58
Lágafell í Mosfellsbæ (123 m)
Þegar landslagsarkitektinn skapaði fellin í Mosfellsbæ ákvað hann að hafa eitt lítið og nett fell til að skapa andstæður í landslaginu. Hefur það lága fell fengið nafnið Lágafell.
Lágafell á nokkra sögu. Þar stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) síðustu æviár sín og stendur hús hans enn.
Einnig var mikil fjöldi hermanna sem bjó í bröggum við rætur Lágafells. Öll ummerki eru horfin en hægt er að finna ummerki eftir loftvarnarvirki stríðsáranna.
Fellin sjö í Mosfellsbæ eru: Helgafell, Mosfell, Reykjafell, Úlfarsfell, Æsustaðafjall, Grímarsfell og Lágafell. Það er því hægt að setja sér markmið, ganga á öll fellin á ákveðnum tíma.
Ganga á Lágafell er því ekki mikil þolraun og rakin fjölskylduganga. Einfaldast er að keyra að Lágafellskirkju og ganga þaðan. Þegar upp á fyrstu hæð er komið, sést að fellið er með þrjá hóla. Á miðhólnum er varða og hæsti punktur, 123 metrar.
Útsýni er fínt yfir Mosfellsbæ og höfuðborgina. Einnig sjást hin Mosfellsbæjarfellin vel og nágranninn Esjan í norðri. Allt Snæfellsnesið sást og snjólítill Snæfellsjökull í vestri.
Annað Lágafell (539 m) er til hér á landi og er það norðanaustan við Ármannsfell í Bláskógabyggð.
Dagsetning: 9. ágúst 2011
Hæð Lágafellsvörðu: 123 metrar
Hæð í göngubyrjun: 88 metrar, Lágafellskirkja, (N:64.09.730 - W:21.42.654)
Hækkun: Um 53 metrar
Uppgöngutími varða: 10 mín (16:50 - 17:00)
Heildargöngutími: 20 mínútur (16:50 - 17:10)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða: N:64.09.783 - W:21.42.321
Vegalengd: um 2 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Heiðskýrt, A 3 m/s, 14,2 gráður. Raki 65%, skyggni 70 km
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 þátttakendur
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Gengið frá bílastæðinu við Lágafellskirkju, beint í norður upp á hæð. Þaðan er flott útsýni yfir Mosfellsbæ. Síðan stutt ganga að vörðu í austurátt. Tilvalið að verðlauna göngumenn með ferð í Mosfellsbakarí á eftir.
Göngumenn, Jóhanna Marína, Særún og Ari á toppi Lágafells í Mosfellsbæ. Í bakgrunni má sjá byggðina í Mosfellsbæ, síðan fellin, Helgafell, Grímannsfell, Æsustaðafjall og Reykjafell.
Heimildir:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=795874
http://www.ferlir.is/?id=8158
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2011 | 15:19
Gæðingur öl
Þegar ég kem í vínbúð þá leita ég eftir nýjungum í bjór. Oftast kaupi ég bjór sem ég hef aldrei smakkað. Býð samferðamönnum upp á og hefst þá oft góð bjórumræða. Ekki átti ég von á nýjum íslenskum bjór þegar ég heimsótti Vínbúðina á Sauðárkróki. Á móti mér tók stæða af nýjum bjór, framleitt af Gæðingur Öl, frá Útvík í Skagafirði (ekki Útey).
Ég valdi nokkrar flöskur af stout og jafnmikið af lager. Rétt á eftir mér kom í búðina hress Skagfirðingur og hóf hann að hrósa bjórnum frá Gæðing Öl í hástert. Sagði að Skagfirðingar drykkju ekkert annað núorðið en Gæðingsbjór. Fyrst byrjuðu þeir á dökka bjórnum og sneru sér síðan að lagernum. "Mjög vel heppnað hjá Útvíkurbændum."
Ég komst einnig að því að hægt er að sjá bæinn á leiðinni frá Króknum, rauður bær og á vef þeirra er sagt að framleiðslugetan sé 300 þúsund lítrar á ári, einn líter á Íslending.
Ég bætti nokkrum Gæðingum í körfuna.
Skagfirsku formúlunni var fylgt við smökkun og byrjað á Gæðingur Stout. Á vef framleiðanda segir: "Gæðingur Stout er kolsvart bragðmikið ósíað öl með gerfalls botni. Þroskaferill Stoutsins er öllu notalegri en Lagersins, því eftir 5-6 daga í gertankinum við stofuhita, er honum tappað á flöskur, þar sem hann verður að þroskuðum úrvals bjór á um þremur vikum. Það er ekki þar með sagt að hann sé fullþroska, en hann stendur vel fyrir sínu, þótt hann sé ekkert sumra, frekar en aðrir Stout bjórar, meðan aðrir sjá ekki einu sinni Lagerinn fyrir honum. Gæðingur Stout er 5,6% vol.
Ég get tekið undir með smakkara hjá Bjórbókinni, þetta er vel lukkaður stout sem menn ættu að ráða vel við.
Síðan var komið að Gæðingur Lager en á vef þeirra segir:
Alltaf gaman að nýjum bruggsprotum og vonandi næst markmið Gæðinga:
"Við stundum ölgerð, þar sem hugarfóstur verður að handverki. Við erum gamaldags og eitt helsta markmið okkar sem brugghús, er að bæta við fjölbreytni bjórflóru Íslands; reyna að bjóða uppá eitthvað nýtt, ekki bara öðruvísi miða á flöskurnar."
Gæðingur Stout er góð byrjun.
Heimildir:
http://gaedingur-ol.is/
http://www.vinbudin.is/DesktopDefault.aspx/tabid-54?productID=19172
http://www.vinbudin.is/DesktopDefault.aspx/tabid-54?productID=19173
http://bjorspjall.is/?page_id=3624
http://www.bjorbok.net/GaedingurStout.htm
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2011 | 14:32
Brimbretti við Íslandsstrendur
Sá athyglisvert myndband "Á brimbrettum við Íslandsstrendur í maí" á eyjan.is.
Fjórir félagar frá Bandaríkjunum voru á ferð um Ísland í maí til þess að skoða landið og sinna áhugamáli sínu brimbrettareið við strendur landsins.
Þetta er vel gert 9 mínútna kynningarmyndband, góð myndataka og klipping með ágætum. Það er kuldi í myndinni enda var maí kaldur og hrásalagalegur mánuður en kapparnir frá Hawaii voru vel búnir. Hins vegar vantar niðurstöðu um ævintýraferðina á brimbrettum um Íslandsstrendur. Líklegt er að hún sé jákvæð úr því að myndbandið var framleitt og mynd fylgir í kjölfarið.
Ég hitti seint á síðasta ári, Íra sem var mikill brimbrettakappi. Hann var mjög hrifinn af öldunni við suðurströndina og taldi að þarna væru miklir möguleikar í íslenskri ferðaþjónustu. Hann hafði skoðað vel ströndina út af Eyjafjallajökli og fannst hún fullkomin fyrir þetta sport. Öldurnar væru betri en við Írland.
Ég benti honum á að úthafsaldan væri kröftug og hún hefði tekið mannslíf við Vík. Hann óttaðist ekki kraft öldunnar og sagði að brimbrettamenn væru vel búnir.
Fyrir um tíu árum voru brimbrettamenn á Írlandi teljandi á fingrum annarrar handar en nú væri svo mikill áhugi og vöxtur í greininni að hann þekkti varla nokkurn brimbrettamann.
Vonandi verður þetta myndband til þess að kveikja áhuga erlendra brimbrettamanna. Svo er næsta skref að innfæddir fái brimbrettaáhuga og nýti auðlindina og kraft sjávarins.
Írinn sem ég hitti um áramótin ætlar allavegana að koma aftur til Íslands og þá með brimbrettið sitt.
Nokkrir tenglar um brimbretti og jaðarsport
http://www.arcticsurfers.is/
http://www.grindavik.is/v/7412
http://skemman.is/stream/get/1946/5284/15830/1/LOKA_BS.pdf
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2011 | 23:37
Samfelldur rekstur - BS 25999 staðallinn
Hún er vel menntuð þjóðin. Þegar hamfarir verða hér á landi, brú hverfur af hringveginum vegna hamfaraflóðs, þá koma fram 319.259 verkfræðingar. Allir með rétta lausn, að eigin mati.
Þegar áfall verður þá er gott að hafa áætlun. Til er alþjóðlegur staðall fyrir allar greinar atvinnulífsisn, BS 25999 Business Continuity Management sem þýtt hefur verið, Stjórnun á rekstrarsamfellu.
Mættu ferðaþjónustuaðilar, forystumenn í ferðaþjónustu og stjórnvöld skoða það alvarlega að útbúa áætlanir sem uppfylla kröfur staðalsins. Hættan vofir sífelt yfir. Hekla og Katla eiga eftir að taka til sinna ráða.
Eitt af lykilatriðum í áfallaferlinu er að hafa gott upplýsingastreymi. Tilnefna skal talsmann og hefur hann ákveðnum skyldum að gegna.
Lykilatriði sem hafa þarf í huga í samskiptum við fjölmiðla eru að:
Vera rólegur og yfirvegaður.
Vera heiðarlegur.
Halda sig við staðreyndir.
Forðast skal:
Að vera með getgátur vegna sjónarmiða sem tengjast áfallinu.
Að leyfa starfsfólki að ræða við fjölmiðla.
Vera með ásakanir eða benda á mistök
Talsmenn í ferðaþjónustu hafa þverbrotið síðustu þrjú boðorðin. Þeir hafa með ófaglegum talsmáta gert of mikið úr áfallinu og hámarkað skaðann. Trúlegt er að pólitík hafi tekið yfir fagmennskuna.
Fullyrðingar um að fjöldagjaldþrot og afbókanir eru órökstuddar getgetgátur og alvarlegt að talsamður SAF láti svona út úr sér. Ætti talsamaður SAF að taka sér nokkra ferðaþjónustuaðila til fyrirmyndar, sérstaklega þá hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.
Árið 1932 fór Óskar Guðnason á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur á Fordvörubíl eins og hálfs tonns. Var það fyrsta bílferðin milli staðanna og var farið suður yfir sanda og yfir óbrúaðar ár.
Í dag var fetað í bílför Óskars og farið yfir Múlakvísl á vaði. Það er til lausn á öllu.
Með því að hafa góðar áætlanir um samfelldan rekstur, þá þarf ekki 319.259 sjálfskipaða verkfræðinga.
![]() |
Neyðarástand í ferðaþjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2011 | 22:58
Brunnfell (517 m)
Vefurinn peakery.com segir Brunnfell í Bárðardal vera 464 metra hátt og 1.245 hæsta fjall landsins. Taka ber þessum tölum með miklum fyrirvara.
Á annan í Hvítasunnu var gengin átthagaferð frá Lundarbrekku og stefnan tekin á Brunnfell. Þaðan gengið vestan megin Brunnvatns til baka. Veður var frekar óhagstætt fyrir útsýnisgöngu, úrkoma og þoka enda versta vor síðan 1983 á norðausturlandi. Síðar átti eftir að koma í ljós að kaldasti júní síðan 1952 var upp runninn.
Bárðardalur er með lengstu byggðadölum landsins, 45 km. Fremur þröngur en grunnur. Vesturfjöllin blágrýtisfjöll hæst 750 m, en austan ávöl heiði, Fljótsheiði, hæst 528 m.
Eftir dalbotninum hefur runnið hraun, kvísl úr Ódáðahrauni og fellur Skjálfandafljót í því. Bárðardalur hefur orðið til við sig, þegar blágrýtishella landsins brast. Tveir glæsilegir fossar eru í dalnum, Aldeyjarfoss er efst en Goðafoss neðst.
Annað fell, Kálfborgarárfell (528 m) hæsti punktur Fljótsheiðar, er austan við Brunnfell og handan þess er Kálfborgarárvatn. Nafnið er komið
Dagsetning: 13. júní 2011
Hæð: Brunnfell, 517 metrar
Hæð í göngubyrjun: Lundarbrekka, 241 m. (N: 65.27.494 - W: 17.23.630)
Hækkun: 276 metrar
Heildargöngutími: 120 mínútur (9:00 - 11:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Skál(m), norðurlandsdeild, 5 þátttakendur
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Brunnfellið er hrjóstrugt og stamt undir fót.
Facebook staða:
frábær ganga upp frá Lundarbrekku, Vallmór, Dalirnir, Gildrumelur, Urðarfótur, Klappadalir og Klappadalaklauf, Brunnfell, Fagrahlíð og Fögruhlíðabörð, Brunnvatn, Klofvarða o. fl. rifjað upp á góðri en votri göngu í morgun, takk fyrir skemmtilega göngu ferðafélagar!
Við skafl á Brunnfelli, 13. júní. Skaflinn er skreyttur ösku úr Grímsvatnagosi sem hófst 21. maí.
Heimildir:
Landið þitt Ísland, Örn og Örlygur1980-1984
Vegahandbókin, Örn og Örlygur 1996
http://www.vatnajokull.com/Drangajokull/Sumar2002.htm
Lífstíll | Breytt 5.7.2011 kl. 15:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2011 | 14:00
Hattur (320 m) og Hetta (400 m)
Jafnrétti í hnotskurn, Hetta hærri en Hattur, ættu jafnréttissinnar að gleðjast yfir því.
Það leynir á sér hverasvæðið við Seltún í Krýsuvík. Frá veginum sést hverasvæði en þegar gegnið er um svæðið eru margir fallegir hverir í dölum á Sveifluhálsinum.
Ein gönguleið, hringleið er að fara svokallaðan Ketilstíg, framhjá Arnarvatni og upp Hettu. Þaðan halda til austurs, heimsækja hverasvæðið Baðstofu stutt frá bænum Krýsuvík.
Við fórum ekki þennan hring, heldur beint upp frá hverasvæðinu upp á Hverafjall og þaðan heimsóttum Hatt. Síðan var haldið á Hettu, upp skarðið Sveiflu. Sunnan Hettu má sjá Hettuveg, gamla þjóðleið milli Krýsuvíkur og Vigdísarvalla.
Annar stór hópur frá Reykjanesbæ var á sama róli og við og sáum við glæsilegan hópinn á Hettu. Var gaman að þeim félagsskap.
Ágætasta útsýni er yfir undirlendið. Arnarfell og Bæjarfell fylgdust með okkur í suðri. í Austri voru Bláfjöll áberandi og Reykjanesfjöll með Keili í norðvestur. Eldey sást einmanna úti í hafi.
Best að enda þetta á vísunni góðu: "Í Krýsuvík er Hetta, Hnakkur og Hattur. Kært er mér þetta, kem þangað aftur og aftur..."
Dagsetning: 29. júní 2011
Hæð Hatts: 331 metrar
Hæð Hettu: 392 metrar
Hæð í göngubyrjun: 172 metrar, hverir við Seltún, (N:63.53.746 - W:22.03.176)
Hækkun: Um 300 metrar alls
Uppgöngutími Hattur: 48 mín (19:15 - 20:03)
Uppgöngutími Hetta: 87 mín (19:15 - 20:42)
Heildargöngutími: 160 mínútur (19:15 - 21:55), 4,78 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit Hattur: N:63.53.582 - W:22.04.027
GPS-hnit Hetta: N:63.53.549 - W:22.04.930
Vegalengd: 4,78 km (hringleið)
Veður kl. 20 Bláfjöll: Heiðskýrt, NV 7 m/s, 7,5 gráður. Raki 74%
Veður kl. 20 Reykjavík: Heiðskýrt, N 5 m/s, 10,3 gráður. Raki 66%, skyggni >70 km
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 70 þátttakendur
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Falleg byrjun við hverasvæðið í Seltúni við Krýsuvík. Gengið upp gróna hlíð, þar er mikið af tindum á gömlum eldhrygg. Hattur lætur lítið yfir sér og fara þarf niður dal til að ná Hettu. Síðan er hægt að fara hringleið og taka stefnu á byggingar kenndar við Krýsuvík.
Ekið eftir Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð. Stuttu áður en komið er að álverinu er beygt til vinstri við skilti sem vísar á Krýsuvík. Haldið í átt að hverasvæðinu í Seltúni í Krýsuvík. Vegalengd 4 km. Hækkun 300 m.
Facebook stöður:
Útivistarræktin fyrir framan Hettu, um 400 m hár hryggur í Sveifluhálsi.
Heimildir:
Toppatrítl - Hetta og Hattur
FERLIR - Hetta-Baðstofa-Hattur-Hnakkur-Seltúnssel
FERLIR - Hettuvegur - leiðin týnda
Gönguhópur á niðurleið frá Hatti. Krýsuvík og Krýsuvíkurskóli, Arnarfell (198 m) og Bæjarfell (218 m) fylgjast með og Geststaðavatn.
Lífstíll | Breytt 4.7.2011 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2011 | 00:36
Ný gönguleið á Fimmvörðuhálsi
Í magnaðri Jónsmessuferð á Fimmvörðuháls yfir nótt með Útivist var farin ný gönguleið sem stikuð var fyrir rúmri viku. Duglegir og framtakssamir farastjórar Útivistar sáu um verkið.
Þegar komið er yfir göngubrúnna yfir Skógá þá eru nú þrír möguleikar á að ná norður á hálsinn. Hin hefðbundna gönguleið er að fylgja stikaðri leið norður á Fimmvörðuháls. Önnur er að fylgja vegaslóða að Baldvinsskála en hún er lengri en léttari.
Nýja leiðin, Þriðja leiðin liggur í vestur, að vestari hvísl Skógár. Þaðan er Kolbeinsskarði fylgt og þegar komið er á Kolbeinshaus þá er göngumaðurinn kominn að skála Útivistar, Fimmvörðuskála á Fimmvörðuhálsi.
Sterklegur vegvísir er á vestri bakkanum og blasir við þegar komið er yfir brúnna og vísar veginn á Fimmvörðuskála, Bása og Þórsmörk.
Það sem þessi nýja leið hefur uppá að bjóða eru fleiri fossar. Á tveim stöðum sáum við fossa sem virtust koma út úr berginu og minntu á Hraunfossa í Hvíta en þeir voru ekki eins vatnsmiklir. Einnig finnur maður meira fyrir nálæg hins þekkta Eyjafjallajökuls.
Einn nafnlaus en stórglæsilegur slæðufoss er í fossaröðinni sem fylgir nýju leiðinni og minnir hann mjög á Dynjanda eða Fjallfoss í Arnarfirði. Þetta er glæsilegur foss sem allt of fáir göngumenn hafa séð.
Þessi glæsilegi slæðufoss er í Skóga en upptök árinnar eru við Fimmvörðháls og koma fleiri hvíslar í hana á leiðinni niður Skógaheiði.
Myndin var tekin um eitt eftir miðnætti á Canon EOS 500D. Myndavélin var stillt á ISO 3200, 1/40 f3,5 og P(rogram).
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2011 | 00:14
Hátindur í Grafningi (425 m)
Hátindur Dyrafjöllum er einnig notað til að bera kennsl á en þeir eru nokkrir á landinu, m.a. á Esjunni.
Hátindur og Jórutindur standa hlið við hlið við suðvestanvert Þingvallavatn. Þeir eru oft nefndir í sömu andránni. Gengið var upp á hrygginn sem gengur suður frá fjallinu en það er nokkuð þægileg leið. Af toppnum er gott útsýni yfir vatnið og fjallahringinn. Gríðarlega fallegt útsýni er yfir Hestvík og hæðótt landslagið í kringum hana. Ekki var gengin sama leið til baka, heldur skotist niður í dalinn milli Hátinds og Jórutinds. Telja sumir að svona geti landslagið í Gjálp verið eftir hundrað þúsund ár.
Ekki urðum við vör við Jóru tröllkonu en þegar keyrt var heim, mátti sjá tröllsandlit í fjallinu. Hræ af tveim dauðum kindum lá undir Jórutindi og spurning um hvernig dauða þeirra bar að garði.
Dagsetning: 21. júní 2011
Hæð: 425 metrar
Hæð í göngubyrjun: 192 metrar, Grafningsvegur 360, (N:64.08.899 - W:21.15.541)
Hækkun: Um 233 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:00 - 20:00) 1,7 km
Heildargöngutími: 105 mínútur (19:00 - 20:45), 3,4 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit vörður: N:64.08.604 - W:21.16.428
Vegalengd: 3,4 km
Veður kl. 21 Þingvellir: Bjart, S 1 m/s, 10,6 gráður. Raki 74% - regnbogi
Þátttakendur: GJÖRFÍ, 18 þátttakendur
GSM samband: Já .
Gönguleiðalýsing: Ekki erfið ganga, fyrst er gengið eftir grýttum vegaslóða að rótum Hátinds en síðan um 100 metra hækkun yfir umhverfið upp á topp. Smá klöngur og fláar á leiðinni. Hægt að fara hringleið.
Hátindur, móbergshryggur sem rís eins og nafnið gefur til kynna til himins.
Jórutindur er eins og skörðótt egg séð frá austri en lítur sakleysislega út frá Hátindi. Tindurinn er nánast allur úr veðursorfnum móbergsklettum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 5
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 75
- Frá upphafi: 234910
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 67
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar