Færsluflokkur: Lífstíll

Skipulag á Siglufirði

Þegar gengið er fyrir ofan snjóflóðagarðinn eftir slóðanum að Hvanneyrarskál þá sést bæjarskipulagið vel á Siglufirði og þá er augljóst að menn hafa hugsað fram í tímann.

Ég get tekið undir með Birni þegar hann segir að: "Siglufjörður er einn fárra bæja á Íslandi sem hafa raunverulegan miðbæjarkjarna. Göturnar liggja eftir Hvanneyri eftir reglustikumynstri og þeim hugmyndum sem sr. Bjarni Þorsteinsson setti fram."

Fyrir vikið er Siglufjörður fallegur bær og á stórmekilega sögu sem speglast í Síldarminjasafninu. Ég skil vel að Birni líki vel við Aðalgötu í Siglufirði. Þar var gott mannlíf í sumar.  Ágætir matsölustaðir, kaffihús, Sportvöruverslun og tískuverslun. Allur bragur bar vott um gamalt stórveldi.

Að sjá yfir Hvanneyrina minnti mig á borgina la Laguna á Tenerife en  hún var notuð sem módel af Kólumbusi fyrir margar borgir í Ameríku.

Skipulag á Siglufirði

Aðalgata frá fjöru til fjalla. Siglufjarðarkirkja (anno 1932) í öndvegi.  Snjóflóðavarnargarðar í forgrunni.


Strákagöng rufu einangrun Siglufjarðar en nú hafa Héðinsfjarðargöng opnað allt upp á gátt. Hér er stutt heimildarmynd um hjólaferðalag um 830 metra Strákagöng.
mbl.is Gatan mín: Aðalgata á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítserkur (15 m)

Skrímslið úr hafinu, er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Hvítserkur birtist frá fjörubrúninni. En skrímslið með risaeðluútlitið sést ekki frá veginum enda er skammt frá landi út og níður frá Ósum á Vatnsnesi.

Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur, þunn basaltsbrík, í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu.  Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin.

Brimrofið hefur gatað helluna, þannig að hún hefur yfirbragð steinrunninnar ófreskju. Undirstöður drangsins hafa verið styrktar með steinsteypu.

Nokkrar fuglategundir verpa í þverhnípinu og neðan þess, einkum fýll og heimildir segja að skarfur sé algengur en ekki sást neinn í leiðangrinum. 

Merking orðsins hvítserkur er ‘hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur)’. Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Einnig er til fjall (771 m) milli Húsavíkur og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu og foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði.

Dagsetning: 18. júlí 2012
Hæð Hvítserks í fjöruborði: 15 m    
GPS Hvítserkur:  N: 65°35′46″  V: 20°37′55″ 
Erfiðleikastig: 1 skór
Göngutími: 10 mínútur
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir
Veðurlýsing, Blönduós kl. 15:00: NNV 3 m/s, skýjað, 12,1 °C hiti, raki 86 %
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing
: Lagt er upp í göngu frá bílastæði að útsýnispalli. Þaðan er farið niður varasaman slóða niður í fjöru. Við vorum heppinn að hitta á fjöru. Mæli með ferð fyrir Vatnsnes. Aldrei að vita nema maður rekist á ísbirni.

 

 

Stuttmynd um lífið í Hvítserk. Við hittum á lágfjöru og fýlsunga. Það er góð tímasetning.

Hvítserkur

Fýll (Fulmarus glacialis) og fýlsungi í Hvítserki. Lífið er drit og strit.

Hvitserkur Styrktur

Styrktur Hvítserkur. Spurning um hvort grípa eigi inn í gang náttúrunnar. Í Vísi árið 1955 er greint frá söfnun fyrir verkefninu.  Þar segir m.a. "Sjávaraldan hefur smámsaman brotið þrjú göt í klettinn, er hið stærsta nyrzt, en minnsta gatið er syðst. Stendur hann þannigá 4 veikum fótum, því að þykkt klettsins neðst er ekki nema rúmur metri. Hefur klettinum verið líkt við fornaldarófreskju, sem þó riðar til falls, þar sem hafið sverfur án afláts utan úr fótum hans."

Heimildir

Dagblaðið Vísir, 20. maí 1955

Vísindavefurinn: Hvítserkur


Lambafell og Lambafellsgjá (162 m)

Lambafellgjá eða Lambafellsklofi er einstakt náttúruundur. Göngurmaður gengur í gegnum fell og upplifir jarðsöguna.

Troðningur, frá sundurtættri Eldborg sem er eins og flakandi sár í landinu eftir að efni til vegagerðar var tekið úr gígnum, leiðir mann alla leið að neðri enda gjárinnar, sem er bæði djúp, þröng og brött. Það er eins og að koma í annan heim að ganga þarna í gegnum dimma sprunguna og velta fyrir sér þeim kröftum sem þessa jarðmynd skópu. 

Ég mældi lengd gjárinnar 115 metra og var snjór í hluta hennar. Innsti hluti gjárinnar er brattur en meinlaus.  Hægt er að ganga niður gjánna og hefja göngu við efri enda klofans. Hækkunin mældist um 40 metrar. 

Svo er hægt að tengja gönguna við aðrar leiðir í nágrenninu.

Það er ýmislegt að sjá á svæðinu. Hveravirkni er í Lambafelli og gufa stígur upp við Eldborg. Einnig eru mæligræjur sem fylgjast með hegðun jarðskorpunnar.

Þar sem þessi ferð á Lambafell var gengin á annan í páskum veltu menn fyrir sér orðatiltækjum. Hér eru tvö.
 - Að launa einhverjum lambið gráa
 - Að vera ekkert lamb að leika sér við

 

Dagsetning: 9. apríl 2012 - Annar í páskum
Hæð Lambafells: 162 m     
GPS efri hluti gjár:    N: 63.57.391 - V: 22.04.828 (153 m)
GPS neðri hluti gjár: N: 63.57.449 - V: 22.04.774 (115 m)
Erfiðleikastig: 1 skór, lítil mannraun
Heildargöngutími: 70 mínútur (16:00 til 17:10)
Þátttakendur: Fjölskylduferð, fjórir meðlimir
Veðurlýsing kl. 16:00: Austan 5 m/s, léttskýjað, 8,0 °C hiti, raki 49 %, skyggni >70 km

Gönguleiðalýsing: Lagt er upp í gönguna norðan Trölladyngju frá Eldborg eða Katlinum. Gengið er norður eða suður með Vestra-Lambafelli að Lambafellsgjá eftir troðning, 1,3 km að neðri hluta gjár. Gengið upp 40 metra hækkun í 115 metra gjá og komið eftir 2,8 km göngu að upphafspunkt.

 

Myndband af YouTube sem sýnir stemminguna í Lambafelli og Lambafellsgjá.

Lambafellsgjá

Neðri hluti Lambafellsgjár. Framundan er 115 metra ævintýraferð og 40 metra hækkun. Þessi mynd minnir mig á Þingvelli.

Heimild:
Gönguleiðavísir við Eldborg

Hvanneyrarskál

Þegar maður er staddur á Siglufirði, þá verður maður að ganga í Hvanneyrarskál. Hvanneyrarskál er stór skál í Hafnarfjall fyrir ofan Siglufjörð. Hún varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. 

Þegar slóðinn er fundinn við snjóflóðavarnargarðana er gengið eftir vegslóða upp bratt Hafnarfjall sem gnæfir yfir bænum.  Húsin minnka og skipulag bæjarins og varnargarða opnast eins og opin bók.  Lúpína er að nema land í fjallshlíðum og á eftir kemur fínlegri gróður. Á leiðinni upp sáust einnig betur og betur stoðviki í Gróuskarðshnúk.

Strengisgil sjást einnig en þar voru fyrstu snjóflóðavarnargarðarnir byggðir. Garðarnir eru kallaðir Stóri og Litli Boli eftir gömlum skíðastökkpöllum sem þar voru en eru nú horfnir.  

Þegar í skálina var komið sá til göngufólks við Gjár en þar var fjallvegur yfir í Engidal á Úlfsdölum, snarbrött leið.

Ef göngumenn taka gönguferðina skrefi lengra, þá eru nokkrir góðir toppar. Nyrsti og hæsti hluti Hafnarfjalls er Hafnarhyrna (687 m) auðgeng. Skráma var tröllkerling sem bjó í helli þarna í grennd og er Skrámhyrna nokkru utar kennd við hana. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).

Hvanneyrarskál varð fræg á síldarárunum sem sérstakur unaðsstaður elskenda sem ekki áttu í neitt hús að venda. Norðan skálarinnar er Hvanneyrarhyrna (640 m).

Að lokum má geta þess að á veitingastaðnum Höllinni á Ólafsfirði eru pizzurnar kenndar við fjallstinda í nágrenningu. Það er betra að panta Miðdegishyrnu heldur en Napólí pizzu.

Ekki fannst gestabók í Hvanneyrarskál en þetta er fín heilsurækt að ganga upp að Hvanneyrarskál.

Dagsetning: 13. Júlí 2012 - Hundadagur
Hæð Hvanneyrarskálar: 250-300 m      
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, tveir meðlimir
Veðurlýsing Sauðanesviti kl. 15:00: VSV 10 m/s skýjað, 12,3 °C hiti, raki 65 %, skyggni 65 km, sjólítið.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá snjóflóðavarnargarði fyrir miðjum bæ.  Gengið eftir vegslóða upp Hafnarfjall að endurvarpsstöð. Glæsilegt útsýni yfir sögufrægan síldarbæ og mikil snjóflóðamannvirki.

Hvanneyrarskál

Hluti af Hvanneyrarskál. Gjár eru norðvestur úr Hvanneyrarskál og Gróuskarðshnúkur lokar skálinni til austurs.

Gróuskarðshnjúkur

Stoðvirki í Gróuskarðshnúk hafa áhrif á umhverfið. Mestar framkvæmdir á árinu 2004 og 2005.

Snjóflóðavarnargarðar á Siglufirði

Snjóflóðavarnargarðarnir eru mikil mannvirki og leyna á sér. Heildarkostnaður 2.000 milljónir á verðlagi ársins 2002.

Heimildir:
Árbók Ferðafélags Íslands, 2000, Í strandbyggðum norðan lands og vestan.
Framkvæmdasýsla ríkisins, Snjóflóðavarnir Siglufirði
Snokur.is
Ferðafélag Siglfirðinga  


Esjan á páskadag

"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það," - Þannig hljóðaði málshátturinn í páskaeggi Ara.

Því varð að taka áskorun og ganga á fjall um páskana. Fyrst Ari var með í för þá er vel viðeigandi að rifja upp barnavísuna sem oft er sungin í leikskólum landsins.

Upp, upp, upp á fjall,
upp á fjallsins brún.
Niður, niður, niður, niður
alveg niður’ á tún.

Eitt af markmiðum mínum er að ganga amk einu sinni á Esjuna á ári. Þetta var því kærkomin ganga en næst verður Þverfellshornið toppað. Þær eru margar gönguleiðirnar á Esjuna en sú vinsælasta var valin. Að Stein undir Þverfellshorni. Einnig er Kerhólakambur vinsæl og góð ganga.

Gestabókin við Stein var mjög blaut og illa farin. 

Dagsetning: 8. apríl 2012 - Páskadagur
Hæð Steins: 597 m      
GPS Steinn: N: 64.13.515  W: 21.43.280
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá bílastæðinu við Mógilsá. Gengið eftir góðum göngustíg og skilti vísa leið. Gengið eftir Skógarstíg, um Þvergil, yfir Vaðið og endað við Stein efst á Langahrygg.  Haldið niður blauta Einarsmýri.  Margir halda áfram á Þverfellshorn, er varðan í um 780 m hæð og vegalengd á Þverfellshorn er um 3 km. Klettar efst eru ekki fyrir lofthrædda. 

Esja

Þverfellshornið og Langihryggur. Handan hálsins er Steinn en þangað var ferðinni heitið á páskadag.  Það var slydda í 500 m hæð en hún fóðrar snjóskaflana sem vel er fylgst með úr höfuðborginni á sumrin.

Ari að lesa málshátt

"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það"

 Vegvísir

Góðar merkingar varða leiðina.


Lífið er saltfiskur

Um síðustu helgi var ég staddur á Shellmóti í Vestmannaeyjum í einstöku veðri. Nælonblíða var í Eyjum og logn á Stórhöfða. Gerist það ekki oft.

Þegar í bæinn var komið vakti Fiskiðjan mikla athygli. Búið var að setja myndir af bónusdrottningum í gengum tíðna. Það var mjög vel viðeignadi. Forvitni ferðamannsins var vakin, mann langaði til að vita meira um þessar duglegu konur.

Eins vakti skeytingin á Strandvegi mikla athygli. Sérstaklega göngustígurinn yfir götuna en í stað breiðra hvítra lína var kominn saltfiskur.  Einnig var hringtorg sem byggt var upp af fiskum. Tær snilld.

Síðar komst ég að því að skreytingar þettar tengjast þættinum Flikk flakk sem frumsýndur var í Sjónvarpinu í gær.  Þetta er flott framtak hjá Sjónvarpinu og himamönnum.

Ég hlakka til að sjá þáttinn um Hornafjörð en þar var svipuðum hönnunaraðferðum beitt. Ég tel að þetta eigi bara eftir að bæta bæjarmenninguna, íbúum og  ferðamönnum til upplyftingar.

Eitt geta Eyjamenn bætt en það er viðhald á einbýlishúsum. Sum hver voru sjúskuð og garðar illa hirtir.  Eflaust er vindálag meira en annars staðar á Íslandi. Maður finnur samt kraftinn í Eyjamönnum og það er uppgangur í Eyjum þátt fyrir að útgerðamenn þurfi að greiða sanngjörn veiðigjöld til samfélagsins.

Gangbraut

Lífið er saltfiskur. Frumlegur gangstígur á Strandvegi.

Vinnslustöðin

Vel skreytt Fiskiðjan sem tilheyrir Vinnslustöð Vestmannaeyja. Daginn sem myndin var tekin var haldinn stjórnarfundur hjá VSV. Niðurstaðan var sú að eigendur fengu milljónir eftir fjöldauppsögn á fiskverkafólki. Arður Vinnslustöðvarinnar 850 milljónir — Eykst um 75 prósent á milli ára.


Helgafell í Vestmannaeyjum (227 m)

Helgafell á Heimaey er 227 metrar á hæð og hefur myndast í eldsumbrotum fyrir um fimm þúsund árum. Þetta var mikið gos, sem byrjaði sennilega í sjó en hlóð upp mikla hraundyngju. Fyrir gosið voru hér tvær eyjar. Þegar því lauk hafði hraunbreiðan tengt saman norðurkletta og suðurkletta í Eyjum, og myndað þannig hina stóru Heimaey.

Ganga Helgafell er auðveld og ekki mikil mannraun. Nokkrar gönguleiðir eru mögulegar hér verður þeirri einföldustu lýst.

Keyrt upp að Helgafellsvelli og haldið upp með Helgafellsbænum. Fylgt er slóða í grasi vaxinni hraunöxl sem heitir Flagtir. Af Flögrum er afar víðsýnt. Þægileg ganga í grasbrekkunni nema síðustu metrana efst upp á Helgafell þar sem gengið er eftir stígum í grófri gjallskriðu.

Hinn gamli gígur í Helgafelli er vaxinn lyngi og mosa. Mjög fallegt útsýni er af Helgafellsfjalli og víðsýnt yfir alla Heimaey og allar eyjarnar umhverfis. Til landsins er fögur fjallasýn og Eyjafjallajökull áberandi en hann dregur nafn sitt af Eyjunum. Hekla og Þríhyrningur eru einnig áberandi.

Á gígbarminum eru margar vörður eða leifar af vörðum sem eru sumar frá þeim tíma eftir Tyrkjaráðnið 1627 þegar skylt var að hafa vörð á Helgafelli og gæta að grunsamlegum skipum sem nálguðust Eyjarnar. Halda skyldi vakt hverja nótt frá krossmessu á vori til krossmessu á hausti. Ættu Eyjamenn að gera eitthvað úr þessu. T.d. standa eina vakt yfir nóttina. Vakan í Helgafelli hefur sennilega haldist fram um 1700.

Nafngift Helgafells er sögð vera sú að írskur þræll að nafni Helgi, sem hafði flúið eftir vígið á Hjörleifi, hafi verið drepinn þar af Ingólfi Arnarsyni og hans mönnum. Það er algengur misskilningur að eitthvað sé heilagt við Helgafell.

Litlafell stendur úr Helgafelli og hægt að sjá litla hraunhóla sem kallaðir eru Litlufell og í framhaldi af þeim litla gíga sem mynduðust í gosinu 1973.

Hringsjá er á toppi fellsins en engin gestabók. 

Helgafellin á landinu eru alla vega 8 og hægt að safna þeim. Ég er búinn að ná helmingnum.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Helgafellsgöngu.

Dagsetning: 1. júlí 2012
Hæð Helgafells: 227 m       
Uppgöngutími: 25 mínútur
Heildargöngutími: 50 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð

Gönguleiðalýsing: Fróðleg og skemmtileg ganga á þekkt fell. Fyrst eftir grasi grónni brekku en endar á göngu í gjallskriðu. Falleg sýn yfir sögufrægt umhverfi í verðlaun. 

Helgafell

Bústaðurinn Helgafell, og fellið Helgafell. Ægisstallur er stallur sem gengur norður úr fellinu og áberandi frá Eldfelli séð.

 

 

Heimildir:
Haraldur Sigurðsson - http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1030391
Heimaslóð - http://www.heimaslod.is/index.php/Helgafell
Árbók FÍ 2009, Vestmannaeyjar 

Hvalhnúkur (522 m)

Ekki grunaði mig að ég myndi hitta gamlan félaga þegar ég lagði af stað í ferð með Útivistarræktinni,  þeirri fyrstu á árinu hjá  mér. Ég hafði fyrir nokkrum árum gengið Selvogsgötu og mundi eftir fjalli og skarði kennt við hval.  Þetta var því óvænt ánægja.

Til að flækja málin, þá eru til Eystri Hvalhnúkur og Vestari Hvalhnúkur. Við gengum á þann vestari.

Hvalhnúkur er áberandi þegar að er komið, mjór og allhár (46 m). En hvað er Hvalnhúkur að gera uppi í miðju landi?

Þjóðsagan kveður á um nafngiftina að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur.

Ágætis útsýni frá Heiðinni háu og Hvalhnúk yfir á Vörðufell, Brennisteinsfjöll, með Eldborg, Kistufell og Hvirfil. Fallegir Bollarnir sem geyma Grindarskörð og í bjarmanum á bak við þá sá í Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Þríhnúkagígar og Stóra Kóngsfell eru áberandi og Bláfjöll í norðri.

Dagsetning: 20. júní 2012 - sumarsólstöður
Hæð Hvalnhúks: 522 m  (477 m rætur hnúks, 45 m hækkun)
GPS hnit Hvalhnúks: (N:63.56.511 - W:21.42.237)
Hæsta gönguhæð: 545 m, hryggur á miðri leið (N:63.58.456 - W:21.39.552)
Hæð í göngubyrjun:  506 metrar við efsta bílastæði í Bláfjöllum, (N:63.58.810 - W:21.39.163)
Hækkun: 16 metrar         
Uppgöngutími: 120 mín (19:05 - 21:05) - 5,25 km
Heildargöngutími: 210 mínútur (19:05 - 22:35)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  10,5 km
Veður kl. 21 Bláfjallaskáli: Skýjað, SSA 4 m/s, 5,8 °C. Raki 92% - Skúrir nýafstaðnar
Þátttakendur: Útivistarræktin, 40 þátttakendur
GSM samband:  Já, nokkrar hringingar

Gönguleiðalýsing: Létt ganga yfir mosavaxið helluhraun yfir Heiðina háu. Haldið frá bílastæði, framhjá Strompum og þaðan eftir heiðarhrygg sem hækkar og lækkar lítillega í suðurátt. Gróðursælli leið neðan hrygg um Stóra-Leirdal á bakaleið.

 Hvalhnúkur

Útivistarræktin með Hvalhnúk í sigtinu. Hann var sveipaður þoku mínútu áður en myndin var tekin. Selvogur er handan hnúksins. Hvalnhúkatagl er í nágrenni. Myndin er tekin hjá Eystri-Hvalhnúk.

Heimildir:
Ferlir - Selvogsgata - Kristjánsdalir - tóftir - Hlíðarvatn
Rammaáætlun - kort


Stíflisdalur

Stíflisdalur hýsir Stíflisdalsvatn og samnefndan bæ. Nokkur sumarhús útfrá bænum. Einnig er eyðibýlið Selkot innar í dalnum og var í alfaraleið fyrr á öldum. Kjölur (785 m) er í norðri en var ekki toppaður. Eitt Búrfellanna (783 m) í Bláskógabyggð er skammt hjá. Norðan við þau er Leggjabrjótur og tignarlegar Botnssúlur.

Laxá í Kjös á upptök í Stíflisdalsvatni og Skálafell er tignarlegt í vestri, Hengill í suðri. Mjóavatn er fyrir sunnan Stíflisdalsvatn.

Gekk upp Nónás að Brattafelli meðan aðrir félagar í GJÖRFÍ gengu á skíðum að Mjóavatni. Útsýni stórbrotið og telur maður ljóst af hverju vatnið og dalurinn hefur fengið nafn sitt og göngumaður heldur að hann kunni að lesa landið. Að hraun hafi runnið fyrir mynni dalsins sem er ekki dæmigerður. En hvernig er nafnið Stíflisdalur til komið? Í örnefnalýsingu yfir Selkot stendur einfaldlega að stífli merki stöðuvatn og má jafna því við Vatnsdal.   Þar fór jarðfræðispekin hjá manni.

Hægt er að sjá helstu örnefni á kortasjá Kjósarhrepps og er það til fyrirmyndar.

Dagsetning: 18. febrúar 2012
Þátttakendur: GJÖRFÍ, skíðagönguferð, 9 göngumenn

Stíflisdalsvatn

Upptök Laxár í Kjós. Skálafell (771 m) í vestri og viku síðar var opnað fyrir skíðafólk í fellinu.

Heimild:

Ferlir - Selkot - Kjálká - Selkotsvegur - Selfjall - Selgil


Smyrlu vantar vatn í sig

Sól, sól skín á mig
Ský, ský ekki burt með þig.
Smyrlu vantar vatn í sig.
Ský, ský rigndu á mig.

Einhvernvegin svona var textinn sem Hornfirsk ungmenni sungu um jólin 1973 og sneru úr vinsælu lagi, Sól skin á mig, sem Sólskinskórinn gerði vinsælt á því herrans ári.

En þá voru vötn Smyrlabjargaárvirkjunnar  vatnslítil og rafmagnsframleiðsla í lágmarki. Því þurfi að skammta rafmagn. Þorpinu var skipt í tvö svæði og fékk hvor hluti rafmagn tvo tíma í senn yfir háannatímann.

Myrkrið var svo þétt að fólk komst tæplega milli húsa, og næturnar svo dimmar að maður týndi hendinni ef hún var rétt út.  

Fyrir krakka var þessi tími skemmtilegur og ævintýraljómi yfir bænum en fullorðnir voru áhyggjufullir. Indælt var myrkrið, skjól til að hugsa í, hellir til að skríða inn í en myrkhræðslan var skammt undan.  Frystihúsið gekk fyrir og helstu iðnfyrirtæki.  Skólanum var stundum seinkað og man ég eftir að hafa mætt klukkan 8 einn morguninn og enginn annar. Ég hafði misst af tilkynningunni. Mér leið þá eins og nafna mínum sem var einn í heiminum. Það var eftirminnilegur morgunn. 

Svarthvíta sjónvarpið var það öflugt að hægt var að tengja það við rafgeymi úr bíl. En tveir bifvélavirkjar sem bjuggu á staðnum virkjuðu þessa tækni. Því var hægt að horfa á sjónvarpið í rafmagnsleysinu og man ég sérstaklega eftir þætti úr Stundinni okkar. Bjargaði þetta sunnudeginum hjá krökkunum á Fiskhólnum. Það mátti ekki missa af Glámi og Skrámi.

En svo kom skip til rafmagnslausa þorpsins. Ljósavélarnar á rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni gátu leyst vandann tímabundið. Það var mikil og stór stund þegar skipið sigldi inn Ósinn, flestir ef ekki allir bílar bæjarins mættir til að heiðra bjargvættinn. Mig minnir að bílaröðin hafi ná frá Óslandi, óslitið að Hvammi. Stemmingin var mikil.

Smyrla-Mbl30121973

Frétt úr Morgunblaðinu 30. desember 1973 um orkuskort á Höfn og í nágrannasveitum.

Smyrla-Thjodviljinn08011974

Frétt úr Þjóðviljanum, 8. janúar 1974 en þá var lífið orðið hefðbundið. Gastúrbína komin á hafnarbakkann og Smyrla farin að rokka.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 234910

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband