Færsluflokkur: Lífstíll

Skálafell við Mosfellsheiði (774 m)

Skálafell við Mosfellsheiði er einkum þekkt fyrir tvennt, endurvarpsmöstur og skíðasvæði. Verkefni dagsins var að kanna þessi mannvirki.

Leiðalýsing:
Ekið eftir Vesturlandsvegi, beygt upp í Mosfellsdal og síðan í átt að skíðasvæðinu. Vegalengd 3 km. Hækkun 400 m.

Facebook færsla:
Fín ganga á Skálafell (790 m) ásamt 40 öðrum göngugörpum, dásamlegt veður en smá þokubólstrar skyggðu á útsýnið en rættist nú ótrúlega úr því samt...

Skálafellið var feimið og huldi sig þegar okkur bar að garði. Þegar niður var komið tók deildarmyrkvi á sólu á móti okkur. Gott GSM-samband á toppnum.

Gengið var frá skíðaskála, hægra megin við gil nokkurt og síðan stefna tekin á efstu lyftuna en KR á hana. Þegar þangað var komið sást í snjó í 670 metra hæð og náði hann að mannvirkjum á toppnum. Skálafellið gerðist feimið er okkur bar að garði og gengum við í þokuna þar sem við mættum snjónum. Á uppleiðinni voru helstu kennileiti í suðri, Hengillinn, Búrfell í Grímsnesi, Leirvogsvatn og Þingvallavatn.

Þegar upp var komið tók á móti okkur veðurbarið hús en vindasamt er þarn. Veðurstöð er í byggingunni en hún bilaði fyrr um daginn.

Nafnið, Skálafell er pælingarinnar virði. Ein kenning er að skáli hafi verið við fjallið við landnám en útsýni frá því yfir helstu þjóðleiðir gott. Amk. 6 Skálafell og ein Skálafellshnúta eru til á landinu og ef fólki vantar gönguþema, þá má safna Skálafellum.

Skalafell-lyftur

 

Dagsetning: 1. júní 2011
Hæð: 774 metrar
Hæð í göngubyrjun:  379 metrar, Skíðasvæði í Skálafelli, (N:64.13.929 - W:21.25.922)
Hækkun: Um 400 metrar         
Uppgöngutími:  70 mín (19:05 - 20:15)  2,05 km
Heildargöngutími: 115 mínútur  (19:08 - 21:00), 4,1 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit möstur:  N:64.14.442 - W:21.27.782
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart, NV  7 m/s, 9,8 gráður. Raki 65%  (minni vindur á felli)

Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 þátttakandi af ýmsum þjóðernum, 12 bílar   

GSM samband:  Já  - Dúndurgott, sérstaklega undir farsímamöstrum.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við skíðalyftur og gengið hægra (austan) megin við gilið. Síðan fylgt hæstu lyftu í 670 m hæð. Þá tók snjór og þoka við. Þaðan er stuttur spölur að fjarskiptamöstrum. Gengin sama leið til baka en hægt að halda í vestur, ganga út á nef fellsins, líta til Móskarðshnúka og halda til baka. Góð gönguleið hjá ónotuðu skíðasvæði. Skál fyrir góðri ferð!

Mostur

Stundum eru mannvirki á fjöllum listræn að sjá.

Skidalyfta

 Með hækkandi hita á jörðinni hefur notkun skíðamannvirkja í Skálafelli lagst af. Stólarnir hanga og bíða örlaga sinna.


Sköflungur (427 m)

Sköflungur er vestasti hryggurinn í fjallaklasanum austan Mosfellsheiðar. Hann er á Hengilssvæðinu.

Leiðalýsing:
Ekið eftir Suðurlandsvegi inn á Nesjavallaveg og lagt af stað í gönguna stuttu eftir að komið er upp fyrstu brekkuna á veginum. Sköflungur er vestasti hryggurinn í fjallaklasanum austan Mosfellsheiðar. Gengið norður hrygginn á móts við Jórutind og um Folaldadali til baka. Vegalengd 7 km.

Facebook lýsing:
Sköflungur er skemmtilegur hryggur sem minnti mig á Kattarhryggi á köflum bara ekki eins hátt og bratt niður. Við gengum hrygginn og svo niður í Folaldadal og gengum hann til baka

Klettaborgin á  enda Sköflungs minnti mig á Kofra, glæsilegt bæjarfjall sem trónir yfir Súðavík.

Sköflungur-klettaborg

Hryggurinn lætur ekki mikið yfir sér og fellur vel inn í umhverfið. Vörðu- Skeggi tekur alla athygli ferðamanna en hann er í 3,8 kílómetra fjarlægð í suður frá göngustað.
Búrfellslína liggur yfir Sköflung og tvö reisuleg möstur eru á hryggnum og ganga  menn í gegnum þau. Þessi kafli vekur umræðu um sjónmegnum og fegurðarmat. Sköflungur er ekki skilgreindur sem náttúruvætti og því hefur þessi leið verið valin fyrir rafmagnið en nú er krafan um að allar raflínur fari í jörð.  Á móti kemur að nálægðin við tignarlega risana er ákveðin upplifun sem er góð í hófi.

Eftir að hafa gengið á Sköflung kom mér í hug hversu mörg örnefni tengjast mannslíkamanum. Hryggur, enni, kjálki (Vestfjarðakjálki), bak, síða, barmur, bringa / bringur, geirvörtur, leggjabrjótur, haus, háls, höfuð, hné, hvirfill, hæll, kinn, nef, rif, tá, tunga, vangi, þumall og öxl.
Einnig bæjarnöfn; Kollseyra, Tannstaðir, Skeggöxl, Augastaðir, Kriki, Kálfatindar, Skarð, Kroppur og Brúnir.

Sköflungur-hryggur

Dagsetning: 25. maí 2011
Hæð: 373 metrar (nestisstopp) en einn hæsti punktur á hryggnum 427m
Hæð í göngubyrjun:  372 metrar, Nesjavallavegur, (N:64.07.420 - W:21.18.770)
Hækkun: 1 meter         
Uppgöngutími:  75 mín (19:05 - 20:20)  3,0 km
Heildargöngutími: 132 mínútur  (19:08 - 21:20), 8,61 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit undir klettaborg:  N:64.08.979 - W:21.18.382 (3 km ganga)
Vegalengd:  6,31 km
Veður kl. 20 Þingvellir: Bjart í vestri, S 3 m/s, 8,4 gráður. Raki 45%

Þátttakendur: Útivistarræktin, um 44 göngumenn, 14 bílar   

GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá fyrsta bílastæði við Nesjavallaveg og móbergshryggur Sköflungs þræddur eins langt og menn treysta sér. Síðan er hægt að taka misstóran hring til baka. Við fórum eftir Folaldadal.  Stærri hringurinn er með stefnu á Jórutind og Hátind.

 


Kerhólakambur (851 m)

Þær eru margar gönguleiðirnar á borgarfjallið Esjuna. Fyrir 8 árum var gefið út gönguleiðakort með 40 gönguleiðum á Esjuna.  Þekktasta  og fjölfarnasta gönguleið landsins liggur á Þverfellshorn en önnur vinsæl gönguleið er Kerhólakambur. Nú var ákveðið að kíkja á kerin.

Ekið út af Þjóðveg við veðurathugunarmastur rétt áður en komið er að Esjubergi og lagt fyrir austan túnið. Síðan liggur leiðin eftir skýrum stíg inn í gilkjaft Gljúfurár og þaðan upp úr gilinu og svo beina stefnu upp bratta hlíð all á topp Kerhólakambs. Þessa leið fórum við ekki, heldur fylgdum við öðrum slóða og lentum í miklu klettaklifri sem minnti á topp Þverfellshorns.  Lagðist hún illa í suma göngumenn.

Í 300 metra hæð gengum við inn í þokubakka og sást lítið til allara átta eftir það en göngustígur sást greinilega enda hlíðin gróðursnauð. Þegar komið var i 400 metra hæð,  þá var meiri gróður og hvarf göngustígurinn göngufólki. Nær gróðurinn allt upp fyrir Nípuhól. Hóllinn er í rúmlega 500 metra hæð og tilvalinn áningarstaður.  Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Nípuhól.

En hvernig er nafnið, Kerhólakambur tilkomið?  Sigurður Sigurðsson göngugarpur og ofurbloggari skrifar:  „Fyrir ofan Nípuhól heita Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, sem eru lægðir á milli hóla."

Kerin

Kerin og hólarnir  í Urðum  (660 m) 

Við höfðum þetta í huga á leiðinni upp og í 660 metra hæð komum við að staðnum sem lýsingin hér að ofan á við.  Var snjór í flestum kerjunum. Nokkrir snjóskaflar voru á leiðinni og gengum við upp einn langan sem hófst í 740 metrum og endaði í 800 metrum. Við áttum eftir að renna okkur niður hann á bakaleiðinni. Er hann samt væskinslegur séður frá borginni. Stór skafl er í vesturhlíð Kerhólakambs og munum við góna á hann í sumar rétt eins og Páll Bergþórsson veðurfræðingur.

Fín þokuferð sem verður endurtekin síðar og þá með hringleið og komið niður Þverfellshornið.  

Dagsetning: 14. maí 2011
Hæð: 851 metrar
Hæð í göngubyrjun:  56 metrar, tún austan við Esjuberg, (N:64.12.985 - W:21.45.800)
Hækkun: Tæpir 800 metrar         
Uppgöngutími:
  142 mín (09:08 - 11:30)  2,01 km
Heildargöngutími: 252 mínútur  (09:08 - 13:20)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit fyrri varða:  N:64.14.210 - W:21 .45.241
Vegalengd:  4,1 km
Veður kl. 9 Reykjavík: Bjart, V 3 m/s, 5,0 gráður. Raki 84%, skyggni 70 km.
Veður kl. 12 Reykjavík: Bjart, V 2 m/s, 5,8 gráður. Raki 81%, skyggni 70 km.
Þátttakendur: Skál(m), 5 manns  
GSM samband:
  Já – sérstaklega gott á toppi

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað hjá Esjubergi, inn Gljúfurdal. Þar er mesti brattinn tekinn, erfiðasti áfanginn, í 200 metra hæð. Nota þarf hendur til stuðnings. Eftir það er jöfn gönguhækkun og tvö gil á báðar hendur sem beina göngunni á topp Kerhólakambs.  Skriðuganga með tröðum.

Heimildir:

Sigurður Sigurðarson,  sigurdursig, Kerhólakambur
Morgunblaðið, frétt, Nýtt kort af Esju með 40 gönguleiðum


Búrfellsgjá (183 m)

Þau eru mörg Búrfellin hér á landi. Það er talið að það séu til amk 47 Búrfell. Þau er nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Á vefnum ferlir.is segir ennfremur um Búrfellsnafnið: "Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr".

Verkefni dagsins var að heimsækja Búrfellsgjá, sem tengist Búrfelli einu og er vanmetin náttúruperla stutt frá fjölbýlinu. Búrfellsgjá er 3,5 km hrauntröð sem liggur vestur úr Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta, Búrfellshraun hafi runnið fyrir um 7200 árum og þekur 18 km2.

Keyrt framhjá Vífilsstaðavatni, framhjá Heiðmörk og í austurátt meðfram Vífilsstaðahlíð. Síðan var lagt í hann eftir merktum göngustíg, niður að Vatnagjá í botni Búrfellsgjár. Steinsnar frá Vatnagjá er Gjárétt og hefur vatnið úr henni verið forsenda fyrir selstöð.

Gjárétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjábarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað  sem fjárbyrgi og afdrep manna til gistingar. Annað var ekki í boði fyrir einni og hálfri öld.

Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir upplýsingaskilti og gerð göngu- og hestastíga.  Gjárétt er vel útskýrð á skiltinu og hvernig eignarhaldi var háttað.

Stutt, skemmtileg og fróðleg  ganga.

Dagsetning: 27. apríl 2011
Hæð: 183 metrar
Hæð í göngubyrjun:  113 metrar, Vífilsstaðahlíð, N:64.02.814 W:21.51.12
Hækkun: 70 metrar         
Uppgöngutími:  60 mín (19:00 - 20:00)  2,55 km
Heildargöngutími: 120 mínútur  (19:00 - 21:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða:  N: 64.01.990 - W: 21.49.950
Vegalengd:  5,0 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Bjart, S 1 m/s, 8,1 gráður. Raki 67%, skyggni 25 km. Skúraský. Ekkert haglél í þetta skiptið, sól og yndislegt veður til göngu.

Þátttakendur: Útivistarræktin, 27 manns   

GSM samband:  Já - en datt niður í gjám

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Vífilsstaðahlíð um Búrfellshraun, að Vatnagjá, Gjárétt og upp Búrfellsgjá. 

IMG 4385

Tignarlegur inngangur í Gjárétt en hún var hlaðin úr hraungrýti um 1840.

IMG 4421 Hrauntröð sem var full af kviku fyrir 7000 árum en tæmdist í lok eldvirkninnar.

IMG 4410

Göngumenn ganga á börmum eldstöðvarinnar, í 160 m hæð en hæsti punktur er 183 metrar. 

Heimild:

Upplýsingaskilti, útivistarlönd Garðbæinga og Garðabær útivistarsvæði.


Páskabjór - þrír á toppnum

Þegar maður sér á mynd hvað mikið vatn þarf til að framleiða eina bjórflösku þá bregður mann og maður þarf að vanda valið. En forsíðumynd Fréttablaðsins um helgina sýndi vatnsflöskustaflann.

Nú er páskabjórinn kominn á markað og eru fjórar tegundir að berjast um hylli neytenda. Víking er með tvo bjóra, Víking Páskabjór og Víking Bock. Svo er Kaldi Páskabjór og Lilja Páskabjór frá Ölvisholti. Tegundunum hefur fækkað milli ára, voru fimm í fyrra en bruggaðferðir eru fjölbreyttar og greinilegt að bruggmeistarar eru að prófa sig áfram.

Til að finna út hvaða páskabjór væri bestur var efnt til bjórsmökkunar. Fjórir sérfræðingar með stert lyktar- og bragðskyn auk skoðana var fengið í kviðdóm. Smökkunin var blindandi og gáfu menn einkunnir á bilinu 0-10.

Víking Páskabjór kom best út úr smökkuninni. Minnti hann helst á páskana. Karamella var áberandi og greina mátti súkkulaði. Í hann eru notaðar þrjár tegundir af dökku malti til að fá aukna fyllingu og keim af karamellu, súkkulaði og kaffi.

Kaldi Páskabjór nartaði í hælana á Viking. Voru menn á því að þessir tveir bjórar væru líkir. Fyrir viku var óformlegt smakk og fannst meir karamella í bjór frá Kalda. Er spurningin hvort mikill munur sé á framleiðslunni úr Sólarfjalli fyrir norðan.

Víking Bock er nýjung á markaðnum en jólabjórinn úr Bock var mjög vel heppnaður. Því var mjög spennandi að smakka hann. Lakkrísbragð töldu menn sig finna úr ristuðu maltinu. 

Bock bjórstíllinn á ættir sínar að rekja til Þýskalands. Bock bjór var jafna bruggaður til hátíðarbrigða og hafður aðeins sterkari en sá sem notaður var til daglegrar neyslu. Bock þýðir geit á þýsku en margar og mismunandi þjóðsögur eru af því hvernig heiti bockbjórsins er tilkomið.

Ölvisholtsmenn hafa verið óhræddir við að fara óhefðbundnar slóðir. Nú var boðið upp á humlasprengju. Lilja er toppgerjað koparlitað öl með vænum skammti af ilmandi Amarillo humlum. Aðferðin við humlun þessa öls nefnist þurrhumlun. Humlunum er bætt í lagertank að gerjun lokinni. Þá leysast bragð og ilmolíur humlana hægt og rólega í ölið sem skilar sér í fersku og áberandi humlabragði. Minnti á Freyju, bjór sem þeir framleiða. Grösugur, appelsína og sumir fundu til hóstamixtúru. Féll hann síst í kramið hjá smökkurum þó páskar séu framundan.

Vatninu sem fer í að rækta byggið er ekki illa varið. Gæðabjór sem vex úr grasi og við mælum með honum um páskana.

TegundStyrkurFlokkurLiturVerð HækkunLýsingStig
Víking páskabjór4,8%LagerRafbrúnn329(309)6,3%Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Léttristað korn, karamella, sítrus, mosi.28,5
Kaldi páskabjór5,2%LagerRafbrúnn355 (329)7,8%Meðalfylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Létt malt, karamella, léttkryddaðir humlar. 27,5
Víking páska Bock6,7%LagerRafbrúnn419NýrMjúk fylling, sætuvottur, ferskur, miðlungs beiskja. Mjúkristað korn, rjómakaramella, hey26,5
Lilja páskabjór5,7%ÖlRafrauður367 (399)-8,7%Skýjaður. Meðalfylling, þurrt, fersk sýra. Karamela, malt, þurrkaðir ávextir, blóm. 20

VikingPaskabjor2011KaldiPaskabjor2011VikingPaskaBock2011LiljaPaskabjor2011 

VatnBjor

Skjámynd af forsíðu Fréttablaðsins sem sýnir allt vatnið sem þarf til í eina bjórflösku.


Friðlýsing Langasjós flott ákvörðun

Þetta er mjög góð ákvörðun hjá Umhverfisráðuneyti og sveitastjórn Skaftárhrepps. Þessi tota inn í Vatnajökulsþjóðgarð var mjög undarleg.

Svæðið er viðkvæmt og það þarf að skipuleggja það vel.  Ég hef trú á að bátasigling og kajakaróðar á Langasjó eigi eftir að freista margra ferðamanna á komandi árum.

Gönguferð á Sveinstind verður öllum ógleymanleg sem munu þangað rata. Ég gekk á tindinn í ágúst 2009 eftir að hafa ferðast um Langasjó. Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.

Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.

Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.

 

 Útfallið

Útfallið úr Langasjó. Lengi vel héldu menn að Langisjór væri afrennslislaust vatn en árið 1894 fannst Útfallið en það er þröngt skarð í gegnum Fögrufjöll innanverð. 


mbl.is Stækka Vatnajökulsþjóðgarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskt bygg 90% í Egils þorrabjór

Einkunnarorð Ara "Fróða" Þorgilssonar voru að hafa það heldur, er sannara reynist.  Ég ætla því að bæta við færslu um þorrabjór réttum upplýsingum um íslenskt bygg. Um leið biðst ég velvirðingar á mistökum mínum, rétt eins og Agnes Bragadóttir gerði í dag út af rangri frétt um blaðamann DV.

Egils-ThorrabjorÍ bloggi mínu um þorrabjór í byrjun þorra, þá hrósaði ég bruggmeisturum Ölgerðarinnar fyrir að nota íslenskt bygg í þorrabjór sinn. Þar sagði:  "Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi."

Nú hef ég fregnað að hlutfall íslensks byggs er 9/10 í Egils Þorrabjór. 

Þorrabjór Ölgerðarinnar í ár er gerður að 9/10 hlutum úr íslensku byggi en það er hærra hlutfall en bjórar á Íslandi hafa nokkru sinni státað af.  Íslenska byggið í Þorrabjórnum er ræktað á bænum Belgsholti í Melasveit á Vesturlandi. Ölgerðin hefur í samstarfi við Harald Magnússon, bónda á Belgsholti, unnið að því að þróa bjóra úr íslensku byggi og stutt er í fyrsta bjórinn sem mun eingöngu innihalda íslenskt bygg.

Íslenska byggið hefur sín karaktereinkenni og má greina þau í Egils Premium en þar er það í minnihluta. Það er gaman að fregna af þessari nýsköpun en aðferðin að brugga úr ómöltuðu byggi er tilraunastarfsemi sem unnin hefur verið síðustu ár í samvinnu Ölgerðarinnar við erlenda aðila og íslenska kornbændur. 

Nú bíð ég spenntur eftir fyrsta 100% íslenska byggbjórnum. Vonandi verður hann góð útflutningsvara í framtíðinni og íslenskt bygg og íslenskt vatn á allra vörum.

Á vefnum bjorspjall.is er ágætis grein um ómaltað íslenskt bygg hjá Ölgerðinni við bjórgerð.


Þorrabjór

Ég sakna  Suttungasumbls þorrabjórs  frá Ölvisholti á þorranum í ár. Þeir hafa bætt bjórmenninguna hér á landi.

Í boði eru fjórar tegundir af þorrabjór á þorra.  Jökull þorrabjór, Kaldi þorrabjór og Egils þorrabjór og Þorrabjór frá Víking. en það er í fyrsta skipti frá árinu 1998/1999 sem þeir bjóða upp á vöruna.  Voru allir bjórarnir í 330 ml flöskum og blind smökkun.

Smökkunarmenn þorrabjórsins voru mjög ánægðir með gæði og breidd íslenska þorrabjórsins og voru stoltir yfir því að geta á góða kvöldstund með íslenskri bjórframleiðslu og þjóðlegum íslenskum mat.

Jökull þorrabjór er með mikilli karamellu og því er mikil jólastemming í bjórnum en mjöðurinn er bruggaður eftir þýskri bjórhefð. Var hann dekkstur bjóranna og greindu menn ristað maltbragðið vel. Vatnið úr Ljósufjöllum á Snæfellsnesi er vottað og innihaldið án rotvarnarefna.

Kaldi þorrabjór fer vel með ristað tékkneskt-malt, með ríkt langt og sterkt humlabragð og undir karamellu áhrifum. Hann er laus við rotvarnarefni. Fundu menn fyrir tékkneskum Saaz-humlaáhrifum. Tilvalið að taka með Stinnings-Kalda í leiðinni úr Vínbúðinni.

Víking þorrabjór er með frísklegri beiskju og ríkt humlabragð sem hentar vel með þorramat. Þeir eru með fjórar gerðir af byggi og hveitimalts ásamt blöndu af bæverskum, enskum og amerískum humlum.

Egils þorrabjór er hlutlausastur þorrabjóranna. Ölgerðarmenn taka ekki mikla áhættu. Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi.  Ágætis ímyndaruppbygging hjá Agli og styrkir sjálfsmyndina á Þorra.

Stemming fyrir árstíðabundnum nýjungum er mikil. Jólabjórinn rokseldist enda mikil gæði í íslenskum brugghúsum. Því ætti þorrabjór að ganga vel í landann á þorra. Ég mæli helzt með þorrabjórunum frá Kalda og Jökli. Víking er með athyglisverða humlasprengju en Egill tekur alltaf minnsta áhættu.

Markaðsdeildir bruggsmiðjanna mega bæta upplýsingaflæðið á heimasíðum sínum.

Allt hefur hækkað frá síðasta ári, nema launin. En hækkunin á þorrabjór er innan þolmarka.

Tegund

Styrkur

Flokkur

Verð

Hækkun

Lýsing

Egils þorrabjór

5,6%

Lager

339

6,2%

Ljósgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Blóm, ljóst korn, pipar.

Jökull þorrabjór

5,5%

Lager

352

1,4%

Rafbrúnn. Létt fylling, lítil freyðing, þurr, mildur, lítil beiskja. Rúgbrauð, karamella, baunir.

Kaldi þorrabjór

5,0%

Lager

349

8,4%

Rafgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Maltbrauð, karamella, hnetur.

Víking þorrabjór

5,1%

Lager

315

Nýr

Ljósgullinn. Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Malt, korn, grösugir humlar

 

Kaldi-ThorrabjorEgils-ThorrabjorVíking þorrabjórJökull þorrabjór


Mosfell (276 m)

Nýju gönguári var heilsað með fjölskylduferð á Mosfell í Mosfellsdal. Það var strekkingur af norðan í Mosfellsdal og mun meiri vindur en í Kópavogi. Gengið var eftir stikaðri leið á topp fellsins en það er talið vera 300-500 þúsund ára gamalt og myndaðist eftir gos undir jökli.

Það blés vel á göngumenn á toppnum og var mikil vindkæling. Litlir fætur stóðu sig mjög vel og kvörtuðu ekki.

Á bakaleiðinni var farin lengri leið og komið niður Kýrdal. Þegar inn í dalinn var komið datt á dúnalogn og hitnaði göngumönnum vel. Mikill munur á veðri á 200 metrum.

Mosfell er helst þekkt fyrir að gefa sveitinni sinni nafn og einnig fyrir að Egill Skallagrímsson bjó undir því síðustu ár æfi sinnar um árið 1000. Silfur Egils er skemmtileg ráðgáta.

Kvöldið endað með glæsilegri veislu. 

Dagsetning: 8. janúar 2011
Hæð: 276 metrar
Hæð í göngubyrjun:  74 metrar, við Mosfellskirkju
Hækkun: 202 metrar         
Uppgöngutími:  65 mín (14:15 - 15:20)
Heildargöngutími: 125 mínútur  (14:15 - 16:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða:  N: 64.11.694 - W: 21.38.020
Vegalengd:  4,8 km
Veður kl. 15 Skálafell: -9.8 gráður. Raki 102%

Veður kl. 15 Reykjavík: -2.8 gráður, NA 5 m/s. Raki 64% skyggni 60 km.

Þátttakendur: Fjölskylduferð, 7 manns   

GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Mosfellskirkju sem reist var 1965. Þaðan gengið eftir stikaðri leið að hæsta punkti. Eftir að honum var náð var gengið að vörðu næst brúninni og horft yfir borgina. Sama leið gengin til baka en haldið lengra og komið niður í Kýrdal. Það er rúmum kílómeter lengri ganga.

                                                                
Heimir á toppi Mosfells

Heimir Óskarsson á hæsta punkti Mosfells. Kistufellið er densilegt í bakgrunni.


Skessuhorn (963 m)

Það var spennandi að komast á topp Skessuhorns í Skarðsheiði. Ég var aldrei þessu vant feginn að komast af toppnum. Það var þverhnípt niður og úrkomu hryðjur buldu á okkur, fjallafólki.

Það var kyrtt veður í Kópavogi þegar lagt var af stað rétt eftir dagmál. Komið við í Ártúnsbrekkunni og safnast í jeppa. Þaðan var haldið norður fyrir Skarðsheiði og eknir 7 km inn á Skarðsheiðarveg, illa viðhöldnum línuveg sem liggur milli Skorradals og Leirársveitar.

Þegar við stigum úr bílunum í 450 metra hæð var hráslagalegt, vindur og vott veður. Fótstallur Skessuhorns sást neðan undir þokunni. Ekki spennandi að hefja göngu. Fjallafólk ákvað að breyta ekki áætlun og halda áleiðis en snúa tímanlega ef veður lagaðist eigi. Þegar nær Heiðarhorn dró, þá minnkaði vindurinn en undirhlíðar Skarðsheiðar virka eins og vindgöng í sunnanáttum. Eftir þriggja kílómetra gang var komið undir Skarðið og það sást grilla í það en þá vorum við komin í um 600 metra hæð.

Tekið var nestisstopp og fólk drukku fyrir ókomnum þorsta! En Skaftfellingar á leið frá Skaftártungu og norður fyrir Mýrdalssand drukku vel vatn áður en lagt var í hann enda með lítið af brúsum meðferðis. Þeir notuðu því þessa snjöllu forvarnar aðferð.

Skriður og klungur eru á leiðinni að Skarðinu sem er í 865 metra hæð (N: 64.29.166 - W: 21.41.835). Fóru menn hægt og hljótt upp hallan og vönduðu hvert skref.  Þegar upp á rimann var komið blasti við hengiflug. En við héldum norður eftir háfjallinu fram að vörðunni sem trjónir á kollinum.  Vegalengdin er 500 metrar og fer lítið fyrir hækkuninni sem er um 100 metrar. Á leiðinni tóku sterkir vindsveipir í okkur og þokan umlék fjallafólk. Það var gaman að hugsa um steinana sem við gengum meðfram. Þeir hafa vakað í 5 milljónir ára og staðið af sér öll óveður, jökulsorf og jarðskjálfta.

Það var stoppað stutt á toppnum, lítið að sjá á einu mesta útsýnisfjalli Vesturlands. Nokkrar myndir teknar og farið í skjól. Þar var nestispása.  Ekki sást til Hornsárdalsjökuls en hann er um 2 km austan við Skessuhorn, brött fönn með sprungum og verhöggvin ístunga. Líklega einn minnsti jökull landsins.

Á bakaleiðinni sáum við skessu meitlaða í bergstálið. Það var langt niður en nokkrar sögur eru til um skessur. Ein hrikaleg kerling reyndi að grýta risabjargi alla leið til Hvanneyrar en þar vildi hún rústa kirkju sem var henni þyrnir í auga. Heitir steinn sá Grásteinn.

Á leiðinni niður voru skóhælar óspart notaðir og hæluðum við því okkur. Það hafði bætt í úrkomu og vind. Við toppuðum á réttum tíma. Er heim var komið var kíkt á veðrið á Botnsheiði og þá sást að vind hafði lægt um hádegið en jókst er líða tók á daginn enda djúp lægð að nálgast.

Þetta var spennuferð, skyldum við ná á toppinn. Það þarf ekki alltaf að vera sól og blíða. Það tókst en tilvalið að fara afur í góðviðri. Alveg þessi virði.

Góða myndasögu frá Heimi Óskarssyni má sjá hér:

Dagsetning: 15. október 2010
Hæð: 963 metrar
Hæð í göngubyrjun:  450 metrar, við Skarðsheiðarveg  (N: 64.29.647 - W: 21.45.839)
Hækkun: 513 metrar          
Uppgöngutími:  150 mín (09:00 - 11:30) 
Heildargöngutími: 280 mínútur  (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 3 skór
GPS-hnit Skessuhorn  N: 64.29.400 - W: 21.42.170
Vegalengd:  7,2 km
Veður kl. 11 Botnsheiði: 6,3 gráður,  11 m/s af SSA, úrkoma. Raki 94%

Veður kl. 12 Botnsheiði: 6,6 gráður, 8 m/s af SSA, úrkoma. Raki 95%
Þátttakendur: Fjallafólk ÍFLM, 30 manns á 9 jeppum.                                                                    
GSM samband:  Nei - Ekki hægt að senda SMS skilaboð  
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Skarðsheiðaravegi, og gengið að efir móa og mel að skarðinu upp á rima Skessuhorns. Farið upp skriður og klungur. Þegar skarði náð gengið eftir rimanum um 500 metra að vörðu á hornsbrún. Þverhnípt austan meginn en aflíðandi vesturhlíð. Um vetur þarf að hafa ísöxi og brodda.

 Skessuhorn

Jón Gauti Jónsson, farastjóri á toppnum. Það sér grilla í vörðuna á enda hornsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 234910

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband