Færsluflokkur: Lífstíll
5.8.2013 | 20:22
Sveinstindur (1.090 m)
Það var ljúft að anda að sér tæru fjallaloftinu þegar maður steig út úr tjaldinu hjá veiðihúsinu við Langasjó. Umhverfi sem þetta á engan sinn líka, upphafið, eyðilegt og hljótt. Framundan var spennandi ganga á Sveinstind í Fögrufjöllum.
Ég hafði reynt göngu á Sveinstind fyrir fjórum árum í ferð með Augnablik en þá var mikil þoka á tindinum.
Langisjór var einn best varðveitti leyndardómur við jaðar Vatnajökuls. Það var fyrst árið 1878 að skaftfellskir leitarmenn fengu veður af stöðuvatni handan fjalla sem þeir gáfu nafnið Skaftárvatn og fjallgarðinum Skaftárfjallgarður, síðar kallað Fögrufjöll. Hæsta tindi í fjallgarðinum gáfu þeir nafnið Bjarnatindur eftir Bjarna [Bjarnasyni] í Hörgsdal á Síðu.
Þegar Þorvaldur Thoroddsen landkönnuður kom að Langasjó á árunum 1889 og 1893 skapaði hann örnefnin Sveinstind og Langasjó. Hvarf þá nafnið Bjarnatindur en lægri tindur í fjallinu ber nafn Bjarna.
Sveinstindur nefndur eftir Sveini Pálssyni (1762-1840) lækni og náttúrufræðingi. Hann er eitt flottasta útsýnisfjall landsins ef skyggni er gott.
Gangan er nokkuð auðveld þó að bratt sé og greinilegur slóði alla leið. Á tveim stöðum hafa verið settar stálplötur í gönguleiðina til að koma í veg fyrir smáskriður.
Útsýni af toppi Sveinstind er víðsýnt og stórbrotið. Langisjór blátær ber af með sína fallegu liti. Einstök Fögrufjöll eru tvöfaldur, örmjór fjallgarður, alsettur hnjúkum. Milli þeirra hafa lón víða orðið innlyksa. Þau eru hulin grænum mosa og háplöntum á stangli. Norðan við Langasjó eru gróðurlaus Tungnaárfjöll. Skaftá breiðir úr sér sunnan Fögrufjalla og ber mest á Stakafelli. Risinn Vatnajökull sýndi hvítar breiðurnar með Kerlingar og svart Pálsfjall og snævi þakin Þórðarhyrna ber af í austri. Landmannaafréttur, Veiðivötn og Kerlingarfjöll eru í norðri og Hekla áberandi í vestur.
Lakagígaröðin í suðri er stórfengleg og með Þjórsárhraun getur orðið glæsilegur Eldfjallagarður. Grænifjallgarður glæsilegur í auðninni.
Fyrir neðan tindinn í rúmlega þúsund metra hæð eru vegamót en hægt er að ganga niður í skála Útivistar og halda þaðan í Skælinga. Stutt þar frá er steinhleðsla. Talið er að Þorvaldur Thoroddsen hafi hlaðið hana til varnar tjaldi sínu.
Sveinstindur í vesturenda Fögrufjalla. Næst hæsti tindurinn heitir Fagra (923 m) og er í austurenda fjallgarðsins. Fögruvellir, Fagralón og Fagrifjörður með eyjunni Ást eru fögur örnefni þarna.
Gönguleið á Sveinstind. Fylgt er hryggnum til vinsti, alla leið á topp. Hækkun 413 metrar.
Á toppi Sveinstinds í 1.090 metra hæð. Göngufólk umkringt ægifegurð.
Dagsetning: 27. júlí 2013
Hæð Sveinstinds: 1.090 m
GPS hnit varða á toppi Sveinstinds: (N:64.06.346 - W:18.25.088)
Hæð í göngubyrjun: 677 metrar (N:64.06.163- W:18.26.672) við bílaplan.
Hækkun: 413 metrar
Uppgöngutími: 81 mín (09:36 10:57)
Heildargöngutími: 180 mínútur (09:36 - 12:30) Gott stopp á Sveinstindi
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 5 km
Veður kl. 12 Vatnsfell: Heiðskýrt, SV 4 m/s, 16,3 °C. Raki 54%
Þátttakendur: Skál(m), 7 manns.
GSM samband: Já, á köflum.
Sveinstindar: (2) Sveinstindur í Öræfajökli (2.044 m)
Gönguleiðalýsing: Lagt frá bílastæði undir Sveinstind. Gengið eftir stikaðri leið yfir gróðurlítið svæði en klædd mosa og háplöntum á stangli. Traust undirlag eftir hálsum og hryggjum að vörðu á toppi og við blasir ægifegurð.
Heimildir
Leyndardómur Vatnajökuls, Hjörleifur Guttormsson og Oddur Sigurðsson, 1997.
Ísafold, 1878 bls. 69 - http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=273166&pageId=3939780&lang=is&q=Vatnaj%F6kli
Náttúrufræðingurinn, 1958. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4269151&issId=291007&lang=da
Lífstíll | Breytt 6.8.2013 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2013 | 15:49
Snæfellsjökull (1.446 m)
Hverfandi jöklar er frábært framtak hjá Útivist. Fyrsta jöklaferðin í þemanu var á konung íslenskra fjalla, Snæfellsjökul sunnudaginn 7. júlí 2013.
Snæfellsjökull (10 km2) hefur mikið látið á sjá á síðustu árum. Hann er 13. stærsti jökull landsins en þriðji vinsælasti íslenski jökullinn á Google með 394 þúsund leitarniðurstöður. En sögur um kraft jökulsins, Bárð Snæfellsás og glæsileg keilulögun og bloggfærslur á sólríkum dögum í höfuðborginni afla honum vinsælda.
Hverfandi jökull
Samkvæmt nýjum mælingum hefur Snæfellsjökull lækkað um einn og hálfan metra að meðaltali síðustu tíu ár. Mest þynnist hann á jöðrunum, sums staðar um 30-40 metra, minna á hákollinum en þar hefur hann þynnst um nokkra metra.
Á sama tíma hefur flatarmál hans minnkað um rúman ferkílómetra í um 10 ferkílómetra. Ef horft er aftur til byrjunar síðustu aldar þá er Snæfellsjökull helmingi minni nú en hann var að flatarmáli og ekki nema þriðjungur að rúmmáli. Ef ekki verður mikil breyting á tíðarfari þá hverfur Snæfellsjökull á næstu áratugum.
Göngumenn höfðu fylgst vel með veðurspám og von var á lægð en síðdegis. En spár gerðu ráð fyrir björtu veðri fram eftir degi.
Þegar lagt var af stað kl. 8 frá BSÍ sást til sólar en þegar kom á Snæfellsnesið var þungt yfir. Þó sá í sólarglennu á Arnarstapa. Gaf það göngumönnum von. Í hópnum voru 5 útlendingar, fjórðungur göngumanna og misvel búnir. Höfðu þeir mikinn áhuga á krafti Snæfellsjökuls og bráðnun jökla vegna hækkandi lofthita.
Þegar komið var á Jökulhálsinn, F570 keyrðum við inn í þoku og vonuðust bjartsýnustu menn eftir því að komast upp úr skýjunum, í sólina sem var í veðurkortunum. Undirbúningur hófst í rútunni og drukku menn fyrir ókomnum þorsta og komu orku í kroppinn. En þegar lagt var í gönguna kl. 11.40 sást að þokan var að þéttast. Fararstjórinn, Guðjón Benfield klæddist gulum buxum og vonuðust menn til að þetta væri ekki eina gula sjónin í ferðinni.
Gengið var eftir gljúpu hjarni alla leið og þegar komið var í 1.000 metra hæð þá mættu fyrstu rigningardroparnir okkur. Áfram var haldið og bætti í vindinn og úrkomuna. Svöruðu göngumenn því með betri klæðnaði. Ákveðið var að ganga aðeins lengur en sífellt bætti í. Því tók leiðangursstóri þá réttu ákvörðun að snúa við. Stundum þarf meira hugrekki til að snúa við en ana upp. Göngumenn voru þá í 1.071 metra hæð og 1,4 km eftir.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson
Þeir félagar Eggert og Bjarni gengu á Snæfellsjökul 1. júlí 1753 en til forna hét jökulinn einungis Snjófell og talinn vera hæsta fjall á Íslandi. Þeir höfðu með sér loftvogir, áttavita kvikasilfursmæli. Einnig sterka taug og slæður fyrir augun og njarðarvött.
"$422. Menn töldu fyrirætlun okkar, að ganga á jökulinn, fullkomna fífldirfsku. Það var meira að segja talið með öllu ókleyft af ýmsum sökum. Í fyrsta langi væri leiðin svo löng og fjallið bratt, svo að ókleyft væri, í öðru lagi væru sprungurnar í jöklinum ófærar yfirferðar öllum mönnum, og loks var fullyrt, að menn yrðu blindir af hinu sterka endurskini sólarljóssins á jöklinum"
Ekki urðum við blind eða hringluð en hundblaut og köld.
Göngumenn á niðurleið og hafði veður aðeins batnað. Það sér móta fyrir förum eftir snjóbil og vélsleða frá ferðaþjónustu Snjófells Arnarstapa.
Dagsetning: 7. júlí 2013
Hæð Miðþúfu: 1.446 m
GPS hnit á snúning: (N:64.48.643 - W:23.45.619) í 1.071 metra hæð.
Hæð í göngubyrjun: 561 metrar (N:64.48.253- W:23.41.954) hjá snjósleðaleigu.
Hækkun: 510 metrar (885 metrar)
Uppgöngutími: 120 mín (11:40 - 13:40) 3 km loftlína
Heildargöngutími: 180 mínútur (11:40 - 14:40) 3,6 km
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 7,2 km
Veður kl. 12 Gufuskálar: Alskýjað, S 9 m/s (10-13 m/s), 9,4 °C. Raki 73%
Veður kl. 12 Bláfeldur: Alskýjað, S 5 m/s (6-7 m/s), 9,2 °C. Raki 82%, skyggni 30 km.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 20 manns með fararstjórum.
GSM samband: Nei, ekki hægt að senda SMS í byrjun.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá snjósleðaleigu á Jökulháls. Gengið inn Hyrningsdal og stefnt á Þríhyrning. Þaðan tekin stefna á Jökulþúfur. Hjarn alla leið frá vegi og sökk fótur ofaní. Þungt færi. Ekki sást í jökulsprungur.
Heimildir
Ferðadagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar - http://handrit.is/is/manuscript/view/IB02-0008
RÚV - http://www.ruv.is/frett/snaefellsjokull-ad-hverfa
Snjófell - http://www.snjofell.is
Vatnajokull.com - http://www.vatnajokull.com/Snaefellsjokull/
Vísindavefur.is - http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=4704
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull - http://ust.is/snaefellsjokull/
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2013 | 21:47
Húsmúli (440 m)
Húsmúli er dyngja sem allir sjá á leið yfir Hellisheiði en fæstir vita um af því að múlinn fellur svo vel inn í umhverfið. Húsmúli er fell sem gengur suðvestur úr Henglinum og er í raun helmingur af fornri dyngju. Á kortum lítur Húsmúli út eins og skel á hvolfi.
Ekið eftir Suðurlandsvegi og beygt við Stóra-Reykjafell að virkjanasvæðinu. Farið frá innsta skála við Sleggjubeinsskarð að Þjófagili og því fylgt upp á Húsmúla. Í bakaleiðinni var komið við hjá Draugatjörn.
Eftir rúmlega háltíma göngu upp Þjófagil var komið upp á topp Húsmúla. Þaðan sást vel yfir dyngjuna. Gengin var hringur og eftir 5 km göngu komum við niður af múlanum að Draugatjörn. Við rústir sæluhússins var nestið tekið upp.
Draugatjörn og Húsmúlarétt er ein merkilegustu kennileiti á þessu svæði. Hin forna þjóðleið yfir Hellisheiði lá hér um og í árdaga var hér sæluhús sem var mjög reimt í. Sökum reimleika var sæluhúsið síðar flutt að Kolviðarhól árið 1844.
Ágætis sýn yfir Svínahraun og Hellisheiðarfjöll. Má nefna Skarðasmýrarfjall, Stóra-Sandfell, Geitafell, Lambafell, Blákoll og Vífilsfell. Einnig rafmagnslínur sem skera hraunið.
Útivistarrækin á toppi Húsmúla. Slegga til vinstri og hið orkumikla Stóra-Reykjafell til hægri.
Dagsetning: 3. júlí 2013
Hæð Húsmúla: 440 m
GPS hnit á kolli Húsmúla: (N:64.03.371 - W:21.22.647)
Lægsta gönguhæð: 265 metrar við Draugatjörn (N:64.03.020 - W:21.24.621)
Hæð í göngubyrjun: 315 metrar (N:64.02.898 - W:21.22.394) við Sleggjubeinsskarð
Hækkun: 125 metrar
Uppgöngutími: 35 mín (19:15 - 19:50) 900 loftlína
Heildargöngutími: 155 mínútur (19:15 - 21:50)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 8 km
Veður kl. 21 Hellisheiði: Skýjað, SSA 4 m/s, 7,0 °C. Raki 78%
Þátttakendur: Útivistarræktin, 69 manns á 24 bílum.
GSM samband: Já, gott.
Gönguleiðalýsing: Lagt frá innsta skála við Sleggjubeinsskarð að Þjófagili og því fylgt upp á Húsmúla. Þægileg ganga á dyngjunni enda vel stikuð. Tilkomulítill múli með þjóðleiðir á aðra hönd og orkubú á hina. Hljóðmengun, sjónmengun og brennisteinsmengun á gönguleiðinni.
Heimildir:
Húsmúli - http://www.centrum.is/~ate/husmuli.htm
OR - http://www.or.is/sites/default/files/velkomin_a_hengilssvaedid_gonguleidir.pdf
Toppatrítl - http://www.toppatritl.org/ganga20100505.htm
Lífstíll | Breytt 5.7.2013 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2013 | 14:34
Hvalaskoðun 1993
Hvalurinn hvílíkt tákn! Hann er eina spendýrið sem rúmast ekki innan mannlegrar lögsögu eina spendýrið sem við getum ekki haft í dýragarði. Hann er dýrið sem svamlar um heiminn eftir sínum risabrautum og hefur samskipti við frændur og frænkur með sínu heimullegu hljóðum og hann á ekki neitt undir mönnunum; hann er frjáls; hann er náttúran sem hefur gildi í sjálfri sér; hann er fagurt sköpunarverk, tröllaukinn leyndardómur, hann er fjarlægur og ræður því sjálfur hvenær hvernig hann birtist, og hann hlýtur að vita eitthvað sem við vitum ekki [Guðmundur Andri Thorsson, 2006]
Nú berast fregnir að því að langreyður sem er í útrýmingarhættu og veiddur á Íslandi er notaður í gæludýrafóður í Japan.
Aðgerðasinnar á vefsíðunni Avaaz.org eru að safna undirskriftum og þegar milljón verður náð ætla þeir að senda forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte listann og biðja um banna flutning hvalkjöts í gegnum hollenskar hafnir.
Langreyðar eru töfrandi skepnur. En eftir nokkra daga mun yfir 180 af þessum skepnum í útrýmingarhættu verða slátrað af einum auðjöfri og félögum hans, sem eiga það sumaráhugamál að skutla þá, búta þá niður og að senda þá til Japans í gegnum Holland - til þess eins að búa til hundamat!
Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 20 árum og sannaðist það sem ritað er hér í byrjun.
Fyrir 20 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.
Á síðasta ári fóru 175.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn. Svona geta hlutirnir breyst og vaxið hratt.
Hnúfubakar eru í útrýmingarhættu en stofninn hefur vaxið. Norður-Atlantshafsstofninn talinn vera á bilinu 12.000 til 14.000 dýr.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=194840&pageId=2615022&lang=is&q=Ari
Frétt í ferðablaði DV 21. júlí 1993.
Greinar á horn.is um hvalaskoðun frá Hornafirði
http://web.archive.org/web/20030826144551/http://horn.is/pistill.php?ID=60
http://web.archive.org/web/20030826144702/http://horn.is/pistill.php?ID=62
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2013 | 19:49
Er heilbrigðiskerfið að hrynja?
Hlustaði á Silfur Egils í dag eftir 60 mínútna göngu í Lífshlaupinu. Settist fullur af lífskrafti niður og hlustaði á álitsgjafa. Spurning dagsins hjá Agli var hvort heildbrigðiskerfið væri að molna niður. Benti Egill meðal annars á uppsagnir og neikvæðar fréttir um heilbrigðismál. Hjá sumum álitsgjöfum var eins og heimsendir væri í nánd en aðrir voru bjartsýnni.
Í 40 ár hef ég lesið blöð og fylgst með fréttum. Ég man ekki eftir tímabili í þessa fjóra áratugi án þess að einhverjar neikvæðar fréttir hafi komið frá heilbrigðisgeiranum. Léleg laun, léleg aðstaða og léleg stjórnun. Ávallt hafa verið uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks til að ná fram kjarabót.
Ég tók því til minna ráða og leitaði upp nokkrar uppsagnafréttir í gegnum tíðina. Allt hefur þetta endað vel. Sjúkrahúsin hafa bjargað mannslífum á degi hverjum og þjóðin eldist.
Allir eru að taka á sig afleiðingar hrunsins 2008 og það má vera að það sé komið að þolmörkum hjá einhverjum hópum innan heilbrigðisgeirans en heilbrigðiskerfið er ekki að hrynja. Þessi söngur hefur áður heyrst.
Morgunblaðið | 30.04 2008 | þegar uppsagnir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga taka gildi 1. maí | |||||||
DV | 20.12.2003 | frestað Uppsagnir starfsmanna á Landspítala | |||||||
Fréttablaðið | 23.11.2002 | Annríki hefur verið mikið og bæjarfélög á Suðurnesjum hafa verið án læknis að mestu eftir uppsagnir lækna þar. | |||||||
DV | 15.04.2002 | uppsagnir lækna | |||||||
Morgunblaðið | 20.10.2001 | Uppsagnir sjúkraliða eru mikið áhyggjuefni og því verður að vinna að lausn kjaradeilunnar | |||||||
Morgunblaðið | 03.11 1998 | Uppsagnir meinatækna á rannsóknarstofum Landspítalans í blóðmeina- og meinefnafræði | |||||||
Morgunblaðið | 20.05.1998 | Ríkisspítala og hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en um 65% þeirra hafa sagt upp starfi | |||||||
Tíminn | 02.02.1993 | Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður drógu uppsagnir sínar til baka | |||||||
Þjóðviljinn | 26.08.1986 | Sjúkraþjálfar Uppsagnir framundan Yfirlýsing frá sjúkraþjálfum | |||||||
Morgunblaðið | 19.05.1982 | uppsagnir lagðar formlega fram | |||||||
Tíminn | 02.10.1976 | hjúkrunarfræðinga hjá Landakotsspítala og Borgarspítala, en það reyndist ekki unnt. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga | |||||||
Vísir | 04.04.1966 | Læknarnir sögðu sem kunnugt er upp í nóvember og desember og áttu uppsagnir þeirra að taka gildi í febrúar og marz |
Eins og sjá má, þá tók ég af handahófi 12 fréttir á þessum fjórum áratugum. Alltaf er þetta sama sagan. Heilbrigðisþjónustan snýst nú samt.
En það sem þarf að ráðast í er að efla forvarnir. Fá fólk til að hreyfa sig. Minnka sykurát þjóðarinnar en sykursýki 2 er tifandi tímasprengja. Einnig er þjóðin yfir kjörþyngd. Þessi flóðbylgja á eftir að kalla á fleiri lækna og meiri kostnað. Því þarf þjóðin að hugsa sinn gang, annars hrynur heilbrigðiskerfið.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2012 | 15:01
Jöklunum blæðir
Í nýlegri skýrslu, SVALI, en hún er norrænt rannsóknarverkefni kemur fram að Íslensku jöklarnir þynnast nú um u.þ.b. 1 m á ári að meðaltali. Það jafngildir 9,5 km³ vatns á ári og leggja þeir um 0,03 mm árlega til heimshafanna.
Samkvæmt skýrslunni hafa jöklar við Norður-Atlantshaf hopað og þynnst hratt síðustu árin eins og raunin er með jökla víðast hvar á jörðinni.
Á ferð minni undir Öræfajökli tók ég mynd af Hólarjökli en hann er lítill skriðjökull úr risanum og fóðrar lítinn foss og litla á.
Helstu orsakir bráðnunarinnar er tilkoma gróðurhúsaahrifa. Helstu áhrif gróðurhúsaárhrifa eru:
1) Útstreymi gróðurhúsalofttegunda
2) Minnkun lífmassa á jörðu með eyðingu frumskóga.
Því ættu stjórnvöld, einstaklingar og fyrirtæki að setja áramótaheit. Minnka gróðurhusaáhrif og vinna að sjálfbærni.
Mynd tekin 30. desember 2012. Rýrnunin á milli tveggja ára er augljós, jöklarnir bráðna sem aldrei fyrr.
Mynd tekin 29. desember 2010.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2012 | 21:07
Súrrealískt landslag
Græni hryggur í Sveinsgili í Friðlandi að Fjallabaki er einstök náttúrusmíð. Hann verður að vernda.
Í ólýsanlegri ferð um Friðland að Fjallabaki með Ferðafélagi Árnesinga var ég svo heppinn að berja náttúruundrið augum. Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður.
Sú hugsun skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er. Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði.
Ég kenndi í brjóst um ósnortið landið. Fáir höfðu verið á göngu þarna og ekki sást móta fyrir göngustígum. Því sáust spor okkar á leiðinni upp í Hattver. Við vorum því eins og tunglfarar. Sú hugsun skaut upp í kollinum að takmarka þurfi aðgang og fá leyfi rétt eins og í þjóðgörðum víða um heim.
Skaparinn hefur verið í stuði þegar hann mótaði landslag í Friðlandinu. En náttúruvísindamenn hafa líta á hlutina með öðrum augum. Hér er efnafræðileg skýring á jarðmyndununum og er hún miklu órómantískari.
"Litskrúð og form fjallana er aðall Landmannalauga og umhverfi þeirra. Hvergi á landinu eru víðáttumeiri líparítmyndanir og hvergi kraumar jarðhitinn af meiri ákafa, nema ef vera skyldi undir íshellu Grímsvatna. Líparít og ummyndað berg spanna í sameiningu allt litróf hinna mildu jarðarlita. Kolsvört hrafntinna og hvítur líparítvikur, sama efnið í tveimur myndunum, eru skörpustu andstæðurnar. Á milli eru gulir, grænir, grábláir, brúnir og rauðir litir ummyndaðia bergsins og kringum gufuaugun er hveraleirinn í mörgum litatónum.
Litadýrðin við hverina stafar af því að í vatninu og gufunni er koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) og þegar brennisteinsvetnið tekur til sín súrefni myndast brennisteinssýra. Hitinn og sýran moðsjóða bergið og þá verður til leir en ýmis tilfallandi efnasambönd kalla litina fram. Hvítar útfellingar eru hverahrúður og gips en þær gulu eru brennisteinn. Brúnn og rauðleitur leir tekur lit sinn af járnoxíðum en sá grái af samböndum járns og brennisteins." (362)
Einstök litaflóra. Efast um að súrrealískir landslagsmálarar hafi dottið niður á þessa litasamsetningu.
Íslensk göngumær á leið yfir kalda jökulá. Helsta hindrunin að Græna hrygg er köld jökulá sem á uppruna sinn í Torfajökli. Hún getur orðið mikið forað í sumarhitum. Það þurfi að fara fimm sinnum yfir ána á leiðinni frá Kirkjufelli í gegnum Halldórsgil. Vegalengd 7 km.
Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2012 | 14:02
Sandfell (390 m) í Kjós
Það lætur ekki mikið yfir sér Sandfellið í Kjós. Helst að maður taki eftir því þegar maður ekur Mosfellsdal og inn Kjósarskarð.
Fellið er dæmigert Sandfell en þau eru mörg fellin sem bera þetta nafn.
Sandfell rís um 130 metra yfir umhverfið og hefur myndast við gos undir jökli fyrir um 50.000 árum eða svo. Er það móbergsfjall sem hefur haldið nokkuð lögun sinni þrátt fyrir að hafa myndast á tímum elds og ísa.
Á leiðinni sér í gamla þjóðleið, Svínaskarðsveg sem liggur úr Kollafirði og yfir í Hvalfjörð.
Það sem er heillandi við ágústgöngur eru berin. Berjaspretta var ágæt í Kjósinni. Bláber og krækiber töfðu göngufólk og voru göngumenn fullir af andoxunarefnum eftir að hafa tínt í sig ofurfæði úr náttúru Íslands.
Bláberin verja frumur líkamans fyrir skemmdum af völdum sindurefna. Lífið er stöðug barátta góðs og ills.
Lítið útsýnisfjall. Víðsýnt er yfir Kjósina. Meðalfell er helsta fjallið í austurátt og falleg Laxáin sem rennur í bugðum í Hvalfjörðinn. Síðan sér í Hvalfjörð, lágreist Írafell sem þekkt er fyrir drauginn Írafellsmóra, Skálafell og Trana í suðri. Esjan norðanverð tekur mikið pláss. Hægt að sjá hæstu tinda Skarðsheiðar.
Dagsetning: 22. ágúst 2012
Hæð Sandfells: 390 m
GPS hnit varða á toppi Sandfells: (N:64.18.462 - W:21.27.602)
Hæð í göngubyrjun: 63 metrar (N:64.18.699 - W:21.29.920) við Vindás
Hækkun: 327 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:22 - 21:22) 2 km loftlína
Heildargöngutími: 128 mínútur (19:22 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd: 4,5 km
Veður kl. 21 Þingvellir: Skúrir, áttleysa 0 m/s, 11,7 °C. Raki 86%
Þátttakendur: Útivist, 26 þátttakendur
GSM samband: Já
Sandfell: (23) M.a. Sandfell við Þingvallavatn og Sandfell við Sandskeið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kjósarvegi rétt sunnan við bæinn Víndás og gengið yfir mýri upp á kjarri vaxinn stall sem skyggir á Sandfellið. Þegar upp á stallinn er komið sér í fellið og gengið að rótum þess. Hækkun frá rótum að toppi um 130 metrar. Létt uppganga en ber að varast lausagrjót á móbergsklöppinni.
Við rætur Sandfells í Kjós. Fellið gnæfir 130 metra yfir umhverfið.
Myndaleg varða á toppi Sandfells. Skálafell og Trana í baksýn.
Heimildir
Toppatrítl, Sandfell í Kjós 25. maí 2005
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.8.2012 | 22:05
Klakkur í Langjökli (999 m)
Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli. Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.
En til að skemma stemminguna, þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni. Klakkur með lágvöruhæðartöluna.
Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.
Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga. Þessi ganga er mun lengri.
Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.
Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar. Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.
Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.
Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.
Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.
Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.
Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.
Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið. Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.
Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón. Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.
Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.
Dagsetning: 6. ágúst 2012 Frídagur verslunarmannaHæð Klakks: 999 m (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband: Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar: (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.
Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.
Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.
Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.7.2012 | 22:30
Í fótspor Þórbergs
Vona að það sé góð þátttaka í Framhjágöngu Þórbergs en Ferðafélag Íslands stendur fyrir þessari stórmerkilegu ferð. Þá gekk skáldið fullur bjartsýni frá Norðurfirði í Ströndum til Reykjavíkur á þrettán dögum og með þrettán krónur í vasanum. Þetta er þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta.
Nú eru slétt 100 ár síðan þessi stórmerkilega ganga var gengin og er undirbúningur Ferðafélagsins til fyrirmyndar. Glæsilegt skjal er því til vitnis.
Ég kemst því miður ekki en ætla að fylgjast með göngufólki.
Pétur Gunnarsson skrifaði um atburð þennan í bókinni ÞÞ í fátæktarlandi og svipti rómantíkinni af atburðinum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 3
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 73
- Frá upphafi: 234908
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 65
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar