Færsluflokkur: Lífstíll
25.6.2009 | 21:07
Grænadyngja (402 m)
Við Hanna hættum okkur á jarðskjálftasvæðið á Reykjanesskaga með Útivistarræktinni á sólríku og fallegu miðvikudagskvöldi. Markmiðið var að kynnast Grænudyngju og umhverfi hennar. Dyngjan græna var einnig fyrsti áfangi í litafjallaröðinni sem áformuð er af sögumanni. Ekki skalf jörð undir fótum okkar, þó stór hópur þrýsti á jörðina, rúmlega 70 manns.
Reykjanes kemur manni sífellt á óvart. Kannski hef ég verið með einhverja fordóma um að það væri lítið að sjá á Reykjanesskaga. Ferðin á Grænudyngju kom mér á í opna skjöldu, þetta er klárlega einn fallegast staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Litadýrðin og fjölbreytni náttúrunnar er svo mikil.
Fyrst var ekin skemmtileg leið vestan Sveifluháls að Djúpavatni. Gígvatnið kom við sögu í Geirfinnsmáli 1974 og var mikið leitað þar að líki. Vatnið austan megin Sveifluháls heitir Kleifarvatn og er sögusvið samnefndrar bókar eftir Arnald Indriðason. Þau eru því dularfull vötnin á Reykjanesi. Frá Djúpavatni var lagt af stað í hringferð að Grænudyngju. Fyrst var komið við á fjallinu vestan við Djúpavatn og sá vel yfir spegilslétt vatnið. Ekkert grunsamlegt sást en sjónarhornið var stórglæsilegt. Þegar horft var í suðurátt sást í Grænavatn. Síðan var haldið í vestur, framhjá Spákonuvatni sem er í 288 m hæð og yfir í Sogasel. Það er eitt magnaðasta selstæði landsins. Selin frá Vatnsleysuströnd er staðsett í miðjum gíg, Sogaselsgíg. Gígurinn er einstaklega fallegur og vel gróinn og hefur gefið skepnum gott skjól. Áð var á rústum selsins og orku safnað fyrir síðasta áfanga ferðarinnar, sjálfrar Grænudyngju.
Sogaselsgígur er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Op hans snýr í suður.
Ferðin upp á Grænudyngju var stórbrotin. Hækkun er 200 metrar og fylgdu Keilir og Trölladyngja okkur alla leið. Á leiðinni rákumst við á stóra svarta snigla, það var mikið af þeim. Ég vildi ekki fá þá inn í tjaldið mitt. Þegar á toppinn var komið á flatri dyngjunni var útsýni yfir allan Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið og áberandi álverið. Snæfellsjökull reis densilegur í norðvestri. Fallegast er þó að horfa skammt á Grænudyngju. Í suðri eru Sog, feikna litskrúðugt hverasvæði. Grágrænn litur í hólum er áberandi og er það ekki algeng sjón. Í norðri sér í hrauntauminn kenndur við Afstapahraun sem runnið hefur úr dyngjunni.
Grænadyngja (N:63.56.263 - W:22.05.334) með Trölladyngju í bak. Sogin eru í forgrunni en þar má sjá virka hveri. Hveravirknin fer minnkandi. Sogin eru mjög litskrúðug.
Þetta var mjög gefandi gönguferð og enn kemur Ísland manni á óvart. Ég horfi daglega á fjallgarðinn sem Grænadyngja er í út um eldhúsgluggann og hefur hún ekki vakið athygli mína fyrr en nú. Gangan á dyngjuna var vel útfærð af Ragnari Jóhannessyni hjá Útivistarræktinni. Allar áhyggjur voru skyldar eftir heima og klúður eins og IceSave komust ekkert að í hausnum á manni. Svo mikið af litum og náttúruundrum var að meðtaka. Gengnir voru rösklega 7 km og tók það þrjár klukkustundir. Hér er myndbrot sem sýnir göngumenn á toppnum.
Varðandi litafjallaröðina, þá fékk ég þá hugmynd að ganga á fjall sem bæri nafn litar eftir að hafa séð sýningu hjá Náttúrusafni Íslands, Litir náttúrunnar, á Hlemmi um liti og örnefni. Mörg örnefni Íslands tengjast litum. T.d. Grænadyngja, Bláfell, Rauðafell, Svartafell, Gráfell og Hvítafell. Bera síðan saman fjöllin og finna út besta litinn. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2009 | 15:56
Vinur Vatnajökuls
Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls. Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.
Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum. Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.
Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll eftir þá frásögn.
Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.
Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2009 | 23:55
Gullbringa (321 m)
Gekk á Gullbringu (321 m) með Útvistarræktinni, 50 manns, í kvöld í fallegu maíveðri. Gullbringa er lítt áberandi fjallshnúkur við SA-enda Kleifarvatns og af henni er talið að Gullbringusýsla beri nafn sitt. Fáskrúðugt fjall og sviplítið. Merkilegt að heil sýsla hafi fengið nafn af móbergsfjalli þessu. Var það kannski öfugt? Eða hefur verðmætamat okkar breyst svona mikið? Gengin vegalengd 8,2 km. Hækkun tæpir 200 m. GPS: N: 63.54.548, V: 21.56.966
Við áðum stutt frá Gullbringuhelli (Jónshelli) fyrir uppgöngu. Þar eru merki um mannvist.
Þegar komið var upp á topp Gullbringu, sá yfir spegilslétt Kleifarvatn og Sveifluháls. Skemmtilegt sjónarhorn, en ég sé daglega hálsröðina frá öðrum enda. Mesta athygli vakti Hvammahraun og er kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur út í vatnið. Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni. Hinn straumurinn fellur niður í Herdísarvík, töluvert austar. Gullbringuhellir sást vel í hrauninu.
Vegslóði liggur að Gullbringu og teygir sig lengra austur eftir vatninu. Við fórum ótroðnari slóðir að fjallinu, meðfram vatninu og framhjá Kálfadalshlíð. Þessi gönguferð leyndi á sér og er ekki fjölfarin, margt að sjá, þó grjótfjallið Gullbringa væri tilkomalítið. Ísland hefur upp á mikið að bjóða.
Lífstíll | Breytt 21.5.2009 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2009 | 21:25
Hengill (803 m)
Hengill kominn í fjallasafnið. Fjallið er (803 m) móbergs- og grágrýtisfjall. Fór með hörku göngugengi, Dóru systur, Dóra, Mána og Guðmundi óhefðbundna vetrarleið á Vörðu-Skeggja frá Dyradal og inn eftir Skeggjadal. Við vorum klukkutíma upp og hlupum á hælnum beint niður. Ævintýraferð í ágætis veðri. Gott skyggni en vindur í bakið á uppleið.
Meðal sérkenna þessa svæðis eru óvenjulegir aflokaðir og stundum afrennslislausir dalir sem eru rennisléttir í botninn; - svona eru t.d. Innstidalur, Marardalur, Dyradalur og Sporhelludalur. Þeir eru taldir vera myndaðir milli móbergsfjalla, eiginlega stíflaðir uppi, en hafa fyllst í botninn af seti. Í Marardal voru naut geymd fyrrum með því að hlaða fyrir þröngt einstigi sem er eina færa leiðin inn í dalinn.
Útsýni af Heglinum var ágætt. Tignalegur Eyjafjallajökull í austri, Tindfjallajökull og fannhvít Hekla. Síðan kom Þingvallafjallgarðurinn með sínum frægu fjöllum, fellum, tindum og súlum. Augað endaði á Esjunni en á bakvið sást drifhvít Skarðsheiðin.
Það var athyglisvert að sjá eyjarar í Þingvallavatni, Nesey og Sandey, voru í beinu framhaldi af dölunum sem nefndir eru hér fyrir ofan. Þær eru líklega á sprungu sem liggur í norðaustur.
Mynd tekin í Skeggjadal sem sýnir leiðna upp. Rætur fjallsins eru í 400 metra hæð og hækkun svipuð.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2009 | 20:56
Helgafell (340 m)
Það var fallegur dagur í dag. Fyrir nokkru var búið að ákveða gönguferð á Esju en hún var blásin af. Í staðin ákvað fjölskyldan að halda á Helgafell (340 m) við Kaldárbotna. Eftir að pönnukökur höfðu verið bakaðar var haldið í fellagönguna.
Það var lítilsháttar snjór í Helgafelli en hraunin í kring marauð. Ari litli var duglegur að ganga upp fellið með göngustafina og fór ótroðnar slóðir. Oftast beint af augum, erfiðustu leið. Á leiðinni upp var falleg birta. Snjór litaði móbergið hvítt í fellinu, svört hraun og falleg birta yfir borginni en kólgubakkar nálguðust. Nágrannafellin, Húsfell og Valahnúkar skáru sig úr og fylgdust með uppgöngunni. Mægðurnar Særún og Jóhanna Marína voru aðeins á undan okkur strákunum á toppinn. Mikil umferð göngufólks var á fellið. Skemmtileg gönguferð sem tók 2 tíma og 17 mínútur.
Þegar toppinn var komið voru nöfn skráð í nýja gestabók og nýbakaðar pönnukökur snæddar. Ari var ekki sáttur við að fá kaldar pönnukökur og mótmælti því með að fara í hungurverkfall.
Við komum að bílnum við víggirta Kaldárbotna, vatnsból Hafnfirðinga, tuttugu mínútum fyrir fimm, en skömmu síðar skoruðu Arsenal sigurmarkið gegn Bolton. Ari taldi að hann hefði sent afgangsorkuna yfir hafið. "Hjúkk, að ég komst", mælti sá stutti.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2009 | 10:37
Kjósum Vatnajökul
Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum. Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands. Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð. Kjörfundi lýkur 7. júlí.
Farið á www.new7wonders.com
eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.
Veljið heimsálfu og náttúruundur. Hér er minn atkvæðaseðill. Ég valdi einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2008 | 00:03
Upphafið að ofþennslunni
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kvað upp þann dóm að upphafið af ofþenslunni megi rekja til Kárahnjúkavirkjunar. Loksins, loksins fékkst það staðfest. Hins vegar voru margir búnir að vara við þessari leið. Ekki var hlustað á þær raddir. Stóriðjuflokkarnir tveir réðu. Við kusum þetta yfir okkur. Það er annars merkilegt að fólk skuli ekki læra af reynslunni. Enn eru til þingmenn sem vilja planta álverum um allt land og stækka þau sem fyrir eru. Næsta kreppa sem við Íslendingar fáum í hausinn þegar við verðum búin að hrista af okkur bankakreppuna verður álkreppa. Það borgar sig ekki að hafa öll áleggin í sömu körfu.
Í Fréttablaðinu í gær stendur: "Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir framkvæmdir tengdar áliðnaðinum vera upphafið að ofþenslu íslensks efnahagslífs. Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins um Ísland."
Þar segir: "Hin langvinna þensla hagkerfisins, sem fjárfestingar í áliðnaði hrutu af stað og var viðhaldið með snaraukinni einkaneyslu, og greiður aðgangur að fjármagni ýtti undir, ól af sér ójafnvægi í þjóðarbúskap og gerði fjármálakerfið berskjaldað fyrir utanaðkomandi áhrifum."
Við hefðu betur hlustað á náttúruna og tekið mark á boðskapnum sem var við Rauðuflúð við Jöklu í júlí 2005. Ekki virkja, stóð þar stórum steinstöfum. Nú er þetta svæði komið undir kalt jökulvatn.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2008 | 10:45
14 tindar yfir 8000 metrar
Það var gaman að fylgjast með ÚtSvari um helgina. Mikið stóðu Fljótsdalshérað sig vel gegn skemmtilegum tónlistarmönnum frá Norðurþing. Úrslitin eins og í góðum körfuboltaleik, 114 gegn 83 fyrir Héraðsbúa. Góð skemmtun og ekki að furða að áhorf sé mikið skv. mælingum Capacent.
Ein mjög skemmtileg spurning kom upp í valflokkunum í liðnum há fjöll. Þar var spurt um hversu mörg fjöll væru yfir 8.000 metra hæð á Himalaya eða Karakoram svæðiu í Asíu. Skáldið, bridsspilarinn og bóndinn Þorsteinn Bergsson skoraði 5 stig fyrir Fljótsdalshérað með því að svara rétt: 14.
Það er búið að ganga á alla þessa fjórtán tinda. Því takmarki náði fyrstur Þjóðverjinn, Reinold Messner á árunum 1970 til 1986.
Everest 8848 m Nepal/China
K2 8611 m Pakistan/China
Kanchenjunga 8586 m Nepal/India
Lhotse 8516 m Nepal/China
Makalu 8463 m Nepal/China
Cho Oyu 8201 m Nepal/China
Dhaulagiri 8167 m Nepal
Manaslu 8163 m Nepal
Nanga Parbat 8125 m Pakistan
Annapurna 8091 m Nepal
Gasherbrum I 8068 m Pakistan/China
Broad Peak 8047 m Pakistan/China
Gasherbrum II 8035 m Pakistan/China
Shishapangma 8027 m China
Átta hæstu fjöllin eru í Himalaya en það níunda, Nanga Parbat (nakta fjallið) er í Pakistan. Það var fyrsta fjallið í glæsilegri hjáfjallaröð Messener.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.9.2008 | 23:24
Egils Permium
Ég smakkaði í fyrsta sinn ljósgullinn Egils Premium bjór í kvöld og vakti hann athygli mína fyrir kröftugt maltbragð. Sker hann sig úr öðrum mildari lagerbjórum. Vakti bragðið sem batnaði er leið á dósina athygli mína.
Á bjórdósinni stóð að Egils Premium hefði lengra framleiðsluferli, hann væri tvímeskjaður og hefði hægari gerjun. Notað er íslenskt bygg frá bændum í Leirársveit, og aldagamlar tékkneskar aðferðir notaðar við bruggun. Það gæfi sterkan karakter, aukna mýkt og meiri fyllingu.
Framleiðsla bjórsins hófst á bjórdaginn, 1. mars 2005 og skömmu síðar hlaut hann verðlaun á European Beer Star keppninni í Bæjaralandi í Þýskaland. Hófst þá útrás í kjölfarið.
Á vefnum vinbud.is sem selur bjórinn er honum líst svo: Ljósgullinn. Meðalfylling, mildur með sætuvotti og lítilli beiskju og mjúkum maltkeim.
Passar vel með alifuglum, lambakjöti, grillmat og á sólpallinum.
Ég mæli meðs að fólk prófi þessa rammíslensku fraðmleiðslu en hafi plan B í bjórdrykkju því hann er ekki allra.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2008 | 23:02
Krossfjöll
Eftir að hafa tekið daginn snemma með handboltaleik Íslands og Póllands var farið í góða veðrinu í dag á Krossfjöll með Útivistarræktinni. Ekið var austur í Þrengsli, fram hjá Litla-Sandfelli sem er lítill fjallshnúkur á hægri hönd rétt hjá Geitafelli. Mosavaxin Krossfjöll eru lítt áberandi frá vegi séð enda rísa þau ekki hátt yfir umhverfið en það var vel þess virði að kynnast þeim. Nafnið er talið þannig til komið að þau mynda kross. Vegalengd 5 km. Hækkun 100 m.
Mosavaxin Krossfjöll eru flöt og var gengið á marga tinda. Gönguhópurinn var fjölmennur, 43 garpar. Gönguland ekki gott undir fót en mikið af berjum sem stoppaði fólk. Þegar toppnum var náð eftir 2,5 km göngu og 285 m sáust á einum hæðamæli, var haldið í hringferð. Útsýni var ágætt af fjallinu og var gaman að horfa yfir helluhraunið sem var á milli okkar og Geitarfells (509 m). Haldið var að Breiðabólstaðarseli eftir matarstopp og sáust tóftir af þrem húsum. En þar voru fráfærur, lömb skilin frá rollu og þær mjólkaðar og unnið smjör. Það var gaman að hverfa svo langt aftur í tímann. Mikið af bláberjum og aðalbláberjum var í hlíðinni fyrir ofan selið og var mikið innbyrt. Á leiðinn að bílum heyrðum við skothvelli í kyrrðinni, gæsaveiðitímabilið hafið.
Mynd í Goole Earth. Krossfjöll eru við Þrengslaveginn. Geitafell er lengst til vinstri, síðan kemur Litla-Sandfell, svarti bletturinn. Ölfusá er yst til hægri.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.8.): 11
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 93
- Frá upphafi: 237990
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 76
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar