Færsluflokkur: Lífstíll
15.11.2009 | 15:44
Vínsmökkun í Ríki Vatnajökuls
Vínskólinn er merkilegur skóli. Þar er skemmtilegt að vera.
Námið þar dýpkar skilning nemanda á góðum veigum. Eitt af markmiðum Vínskólans er að fara í vínsmökkunarferðir. Ávallt er farið erlendis í slíkar ferðir enda lítið um vínrækt hér á landi. En nýlega sá ég mjög athyglisverða nýbreytni. Vínskólinn ætlar að fara í vínsmökkunarferð innanlands.
Hvernig má það vera hægt, ekki er mikið um víngerð hér landi. En það býr meira á bakvið vínsmökkun en bragð vínsins. Það er samsetning matar og víns. Einnig menning viðkomandi staðar. Ísland hefur upp á mikið að bjóða í mat. T.d. osta, villibráð og allt sjávarfangið. Því er spennandi að fylgjast með hvernig til tekst með vínsmökkunarferð í Ríki Vatnajökuls. Ég fékk neðangreind skilaboð frá Dominique, skólastjóra Vínskólans fyrir stuttu.
Vínsmökkunarferð innanlands?
Það er vel hægt og hópur er að fara í fyrsta skipti í eins konar óvissuferð norður á land, þar sem fléttað verður saman mat úr héraði (Matarkistu Skagafjarðar og Eyjafjarðar) með kvöldmáltíð á Hótel Varmahlíð og hjá Friðrík V, heimsókn í héruðunum og vínsmökkun með matnum. Auðvelt í framkvæmd, gefandi að skoða hvað landið hefur uppá að bjóða - og það er ótrúlega margt.
Ríki Vatnajökuls í Hornafirði hefur samskonar dagskrá í boði og ekki er sú sveit verr setin hvað matarkistu varðar.
Vínskólinn er stoltur að vera á báðum stöðum samstarfsaðili þeirra sem gera matnum úr sveitum landsins svona hátt undir höfði.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2009 | 22:38
Sauðadalahnúkar (583 m)
Þeir eru ekki áberandi Sauðadalahnúkar enda eru þeir vel faldir á bak við Vífilsfell og láta lítið yfir sér í ríki mótorhjólanna. Það þurfti að halda yfir til Árnessýslu.
Ekið eftir Suðurlandsvegi að Litlu-kaffistofunni og þaðan í átt að Jósefsdal. Svæðið norðaustan við mynni Jósefsdals nefnist Sauðadalir og hnúkarnir tveir sunnan þess Sauðadalahnúkar. Fyrst var gengið á nyrðri hnúkinn og í framhaldi af því á þann syðri með viðkomu í gamla skíðaskála Ármanns. Farið var fram af syðri hnúknum og komið í Ólafsskarð og gegnið eftir Jósefsdal til baka.
Af hnúkunum tveim sjáum við svo inn í Jósefsdalinn. Hann er luktur fjöllum á alla vegu. Snarbrattar, gróðurlausar skriður ganga allt upp til efstu brúna en grænar grundir hylja dalbotninn. Ekki er vitað um búsetu manna í þessum dal svo skjalfest sé, en ef marka skal þjóðsöguna um Jósef þá hefur staðið þar býli. En það fór illa fyrir Jósef. Hann var smiður góður og allt lék í höndum hans, en sá ljóður var á hans ráði að hann var hverjum manni orðljótari. Einhverju sinni stóð hann í smiðju sinni.
Eitthvað fór úrskeiðis hjá honum, því hann tvinnaði svo heiftarlega saman blóti og formælingum að bærinn sökk í jörð niður með manni og mús. Síðan hefur enginn búið í dalnum.
Þegar ekið var að Sauðadalahnúkum var keyrt framhjá mótorkrossbraut. Það var mikið fjölmenni á staðnum enda lokaumferðin í Íslandsmótinu framundan. Það var skrítin en skemmtileg tilfinning að keyra meðfram brautinni og sjá kappana skjótast upp úr gryfjunni eins og korktappar. Þeir nota stærra svæði og keyra eftir vegslóðum fyrir lengri æfingar. Það er frekar truflandi að hafa öflug mótorhjól þegar maður er að ganga úti í náttúrunni en mótormenn verða að hafa sitt svæði. Ef þeir halda sig þar og fylgja skipulaginu, þá er komin góð sátt.
Dagsetning: 19. ágúst 2009
Hæð: 583 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við bílastæði í 280 m.
Uppgöngutími: 45 mínútur á nyrðri og 20 mínútur á syðri hnúk.
Heildargöngutími: 2 klst og 20 mín. (19:10 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.01.638 - 21.31.926
Vegalengd: 7 km
Veður: 10 gráður, hægviðri og bjart
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 62 manns
Gönguleiðalýsing: Auðveld tveggja hnúka ganga með sýn yfir Jósepsdal, Hellisheiði og Árnessýslu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2009 | 22:34
Vegaslóði við bakka Langasjávar
Mikil umræða hefur verið um vegaslóða eftir þarfa grein frá fv. umhverfisráðherra, Kolbrúnu Halldórsdóttur. Friðlandið í Þjórsárverum er helzt til umræðu.
Um miðjan ágúst var ég ásamt góðum gönguhóp á vegum Augnabliks að upplifa fegurðina við Langasjó. Hægt er að fara eftir vegaslóða fyrir ofan vatnið og upp á Breiðbak (1.018 m). Þaðan er hægt að komast í Jökulheima og er sú leið oft farin af jeppamönnum.
Einnig er slóði eftir jeppa meðfram vestari bakka Langasjávar. Leitarmenn hafa notað hann til að komast inn eftir vatninu. Í nýjustu útgáfu GPS kortagrunns er slóði þessi merktur inn. Stundum þarf að krækja fyrir kletta og keyra út í vatnið.
Krækja þarf fyrir móbergshrygginn sem skagar út í vatnið til að komast áfram. Vegslóðinn er um 16 km frá Sveinstind og liggur eftir bakkanum norðanverðum. Gæti verið í svokallaðri Bátavík, eigi langt frá tíu skeyta skeri.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2009 | 15:36
Einhver Englendingur
Ég hef verið að fara yfir heimildir um sögusvið Langasjávar eftir áhrifamikla ferð þangað um síðustu helgi.
Tímarit.is er stórgóður vefur. Þar er hægt að fletta upp í gömlu blöðunum sem komu út á 19. öld.
Árið1878 er þess getið í fréttabréfi í blaðinu Ísafold að í Skaftárfjöllum, sem nú séu kölluð Fögrufjöll, hafi fundist tveir grösugir dalir og norður af þeim sé vatn sem haldið sé að Skaftá renni úr. Getur þar varla verið um annað en Langasjó að ræða. En hér segir, þótt óljóst sé, frá ferð Skaftfellinga upp um fjöllin og var þar helstur Bjarni Bjarnason frá Hörgslandi.
Það er margt athyglisvert við þessa stuttu frétt. Hér miðast allt við afkomu sauðfjár. Nafnið á vatninu er óljóst en Þorvaldur Thoroddsen kom í rannsóknarferðir árin 1889 og aftur 1893. Hann gaf vatninu nafnið Langisjór. Þá gekk skriðjökull niður í eftri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá
jökulröndinni að vatnsendanum. Nafnið Fögrufjöll er þó komið í stað Skaftárfjalla og hefur því ekki komið frá Þorvaldi. Endapunkturinn er svo stórmerkilegur. Af hverju þurfti einhvern Englending til að kanna fallega landið okkar? Hvað segir þetta um sjálfsmynd okkar á þessum tíma?
Heimild:
Ísafold, 24. tölublað (30.09.1878), bls. 96
Landið þitt Ísland, Örn & Örlygur
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2009 | 12:30
Sveinstindur (1.090 m)
Langisjór er meistaraverk. Við vesturenda vatnsins í Fögrufjöllum er glæsilegt fjall sem ber densilegan Sveinstind. Ég gekk á fjallið í ógleymanlegri ferð með ferðafélögum í Augnablik á sunnudag og var það endapunkturinn á ferðalaginu, Fegurðin við Langasjó.
Lagt var frá Sveinsbúðum við enda Langasjávar í spöku veðri að uppgöngunni frá sléttu vestan megin fjallsins. Gönguleiðin er vel stikuð og er fyrst farið eftir meinlausu gili. Þegar gilinu sleppir er komið á öxl utan í fjallinu og þá er þræddur kambur sem endar á hátindinum.
Minnti uppgangan á Kattahryggi í Þórsmörk og göngu á Tindfjallajökul því stundum er farið niður á við.
Þegar fjallgangan var hálfnuð réðst þoka á okkur og fylgdi henni úrkoma í fyrstu. Þokan var á undan okkur á tindinn og tók yfir hann. Hún sigraði fegurðina.
Á stalli fyrir neðan hátindinn sést mannvirki og einnig eru þar vegamót en tvær leiðir eru á tindinn. Hin leiðin er í skála Útivistar. Hér er hægt að villast.
Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir: "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."
Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.
Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.
Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.
Langisjór var öllum ókunnur fram á miðja 19. öld. Bjarni Bjarnson frá Hörgslandi fór í könnunarferð árið 1878 að Langasjó. Nefndu heimamenn tindinn Bjarnatind. Dugði það ekki lengi því Þorvaldur Thoroddsen kom tvisvar í leiðangrum á svæðið, árin 1889 og 1893. Gaf hann Langasjó og Sveinstind ný nöfn sem haldist hafa síðan og munu lifa um ókomin ár.
Guðmundur og Gaua á toppi Sveinstind að rýna í svarta þokuna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2009 | 15:10
Fiskidagurinn mikli
Hvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.
Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu. Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.
Næsta gata var Mímisvegur. Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar. Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.
Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.
Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.
Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2009 | 23:59
Nesja-Skyggnir (767 m)
Þeir voru litlir bílarnir á Hellisheiði þegar horft var yfir heiðina af Nesja-Skyggni. Stórbrotið var útsýnið yfir Suðvesturhornið. Þorpin fyrir austan fjall sáust vel, Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökull og Ingólfsfjall. þegar gegnið var upp á brún, sást vel yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann.
Nesja-Skyggnir má muna fífil sinn fegri. Áður var hann hæsti hluti Hengilsins en hann er staðsettur í stórum og miklum sigdal sem er partur af mikli eldstöðvarkerfi og hefur gefið eftir. Því er Skeggi búinn að ná að toppa hann. Nesja-Skyggnir kom mér á óvart, flatur og sker sig ekki úr umhverfinu en ber nafn með rentu.
Rúmlega 50 manna hópur Útivistarræktarinnar hóf göngu frá tönkunum í mynni Kýrdals í rúmlega 400 m. hæð. Var Kýrdalshrygg fylgt eftir í kvöldkyrrðinni og áð á Kýrdalsbrúnum. Leiðin er vel stikuð og vegvísar víða.
Á bakaleiðinni var farin sama leið sást annað sjónarhorn. Þá sást vel yfir Þingvallavatn og öll frægu fjöllin í kringum það. Fjölbreytt og skemmtileg ganga sem kom á óvart. Gaman að fara þegar snjór verður sestur á landið.
Dagsetning: 15. júlí 2009
Hæð: 767 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við tank í 405 metrum
Uppgöngutími: 2 tímar (19.15-21:15)
Heildargöngutími: 3 tímar og 15 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.05.075 21.18.665
Vegalengd: 7 km
Veður: N 5 m/s, 11.2 gráður, bjart - 73% raki
Þátttakendur: Útivistarræktin, 52 manns - spilastokkur
Gönguleiðalýsing: Auðveld og fjölbreytt ganga með geysimikið víðsýni.
Lífstíll | Breytt 18.7.2009 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2009 | 11:54
Svartsnigill
Í ferð á Grænudyngju á Reykjanesi rakst ég á nokkra svartsnigla. Það þótti mér ekki mjög spennandi sjón enda sniglarnir á stærð við litlaputta. Ég fór að afla mér vitneskju um snigilinn en hann er náskyldur Spánarsniglinum. En mun minni og ekki eins gráðugur. Ekki hafði ég áhuga á að taka sniglana upp enda er hann slímugur og ferlegt að fá slímið á fingur eða í föt. Það fer seint og illa af skildist mér.
Svartsnigill (Arion ater (Linnaeus, 1758)), hefur verið landlæg hér um aldir en þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta hans í ferðabók sinni árið 1772. Svartsnigill hefur fundist víða um land en er algengastur á landinu sunnanverðu, einkum í gróðurríkum brekkum og hlíðum sem vita mót
suðri. Hann er að öllu jöfnu svartur á lit, 1015 cm langur, stundum allt að 20 cm í nágrannalöndunum.
Hérlendis nær hann ekki þvílíkri stærð.
Heimild:
http://www.ni.is/media/dyrafraedi/poddur/spanarsnigill_75-78_150-maria.pdf
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 21:07
Grænadyngja (402 m)
Við Hanna hættum okkur á jarðskjálftasvæðið á Reykjanesskaga með Útivistarræktinni á sólríku og fallegu miðvikudagskvöldi. Markmiðið var að kynnast Grænudyngju og umhverfi hennar. Dyngjan græna var einnig fyrsti áfangi í litafjallaröðinni sem áformuð er af sögumanni. Ekki skalf jörð undir fótum okkar, þó stór hópur þrýsti á jörðina, rúmlega 70 manns.
Reykjanes kemur manni sífellt á óvart. Kannski hef ég verið með einhverja fordóma um að það væri lítið að sjá á Reykjanesskaga. Ferðin á Grænudyngju kom mér á í opna skjöldu, þetta er klárlega einn fallegast staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Litadýrðin og fjölbreytni náttúrunnar er svo mikil.
Fyrst var ekin skemmtileg leið vestan Sveifluháls að Djúpavatni. Gígvatnið kom við sögu í Geirfinnsmáli 1974 og var mikið leitað þar að líki. Vatnið austan megin Sveifluháls heitir Kleifarvatn og er sögusvið samnefndrar bókar eftir Arnald Indriðason. Þau eru því dularfull vötnin á Reykjanesi. Frá Djúpavatni var lagt af stað í hringferð að Grænudyngju. Fyrst var komið við á fjallinu vestan við Djúpavatn og sá vel yfir spegilslétt vatnið. Ekkert grunsamlegt sást en sjónarhornið var stórglæsilegt. Þegar horft var í suðurátt sást í Grænavatn. Síðan var haldið í vestur, framhjá Spákonuvatni sem er í 288 m hæð og yfir í Sogasel. Það er eitt magnaðasta selstæði landsins. Selin frá Vatnsleysuströnd er staðsett í miðjum gíg, Sogaselsgíg. Gígurinn er einstaklega fallegur og vel gróinn og hefur gefið skepnum gott skjól. Áð var á rústum selsins og orku safnað fyrir síðasta áfanga ferðarinnar, sjálfrar Grænudyngju.
Sogaselsgígur er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Op hans snýr í suður.
Ferðin upp á Grænudyngju var stórbrotin. Hækkun er 200 metrar og fylgdu Keilir og Trölladyngja okkur alla leið. Á leiðinni rákumst við á stóra svarta snigla, það var mikið af þeim. Ég vildi ekki fá þá inn í tjaldið mitt. Þegar á toppinn var komið á flatri dyngjunni var útsýni yfir allan Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið og áberandi álverið. Snæfellsjökull reis densilegur í norðvestri. Fallegast er þó að horfa skammt á Grænudyngju. Í suðri eru Sog, feikna litskrúðugt hverasvæði. Grágrænn litur í hólum er áberandi og er það ekki algeng sjón. Í norðri sér í hrauntauminn kenndur við Afstapahraun sem runnið hefur úr dyngjunni.
Grænadyngja (N:63.56.263 - W:22.05.334) með Trölladyngju í bak. Sogin eru í forgrunni en þar má sjá virka hveri. Hveravirknin fer minnkandi. Sogin eru mjög litskrúðug.
Þetta var mjög gefandi gönguferð og enn kemur Ísland manni á óvart. Ég horfi daglega á fjallgarðinn sem Grænadyngja er í út um eldhúsgluggann og hefur hún ekki vakið athygli mína fyrr en nú. Gangan á dyngjuna var vel útfærð af Ragnari Jóhannessyni hjá Útivistarræktinni. Allar áhyggjur voru skyldar eftir heima og klúður eins og IceSave komust ekkert að í hausnum á manni. Svo mikið af litum og náttúruundrum var að meðtaka. Gengnir voru rösklega 7 km og tók það þrjár klukkustundir. Hér er myndbrot sem sýnir göngumenn á toppnum.
Varðandi litafjallaröðina, þá fékk ég þá hugmynd að ganga á fjall sem bæri nafn litar eftir að hafa séð sýningu hjá Náttúrusafni Íslands, Litir náttúrunnar, á Hlemmi um liti og örnefni. Mörg örnefni Íslands tengjast litum. T.d. Grænadyngja, Bláfell, Rauðafell, Svartafell, Gráfell og Hvítafell. Bera síðan saman fjöllin og finna út besta litinn. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2009 | 15:56
Vinur Vatnajökuls
Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls. Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.
Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum. Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.
Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll eftir þá frásögn.
Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.
Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 8
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 78
- Frá upphafi: 234913
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 70
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar