Færsluflokkur: Samgöngur

Hólárjökull 2011

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 24. ágúst 2011.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fimm ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

   Hólárjökull06

   Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólarjökull 2011

 Hólárjökull, 24. ágúst 2011. Augljós rýrnun á 5 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/


Síldarmannagötur

Lúxussíld frá ORA smakkast hvergi betur en í Síldarmannabrekkum. Það get ég staðfest og ekki er verra að hafa síldina á nýbökuðu rúgbrauði. Þegar síldinni er rennt niður þá er gott að hugsa aftur í tímann og minnast ferða forfeðranna og lífsbaráttu þeirra við síldveiðar í Hvalfirði.

Síldarmannagötur er þjóðleið, vestri leiðin yfir Botnsheiði sem Borgfirðingar notuðu til að komast  í Hvalfjörð til að veiða og nytja síld, þegar síldarhlaup komu í Hvalfjörð.

Lagt var í ferðina á rútu frá Sæmundi sem er frá Borgarfirði. Gönguferðin um Síldarmannagötur hófst í Botnsvogi í Hvalfirði en búið er að hlaða glæsilega vörðu við upphaf eða enda leiðarinnar og voldugur vegvísir bendir á götuna.

Fyrst er farið upp Síldarmannabrekkur og hlykkjast gatan upp vel varðaða brekkuna. Eftir um klukkutíma göngu og 3,2 km að baki er komið í Reiðskarð sem er á brún fjallsins. Þá blasir við mikil útsýn. Hvalfell og Botnssúlur fanga augað í austri. Múlafjall og Hvalfjörður í suðri og miklar örnefnaríkar víðáttur í austri og norðri.

Við fylgjum Bláskeggsá hluta leiðarinnar en hún er vatnslítil og göngum framhjá Þyrilstjörn á leiðinni um Botnsheiði. 

Hæsti hluti leiðarinnar er við Tvívörðuhæðir en þá sér í aðeins Hvalvatn hið djúpa. Göngumenn eru þá komnir í 487 metra hæð en fjallahringurinn er stórbrotinn. Tvívörðuhæðir eru vatnaskil og gönguskil. Þá tekur að halla undan fæti og ný þekkt fjöll fanga augun.

Okið, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Skjaldbreiður og Kvígindisfell raða sér upp í norðaustri og Þverfell er áberandi.  Einnig sést yfir til Englands með Englandsháls og Kúpu í framenda Skorradals.

Rafmagnslínur tvær birtast eins og steinrunnin tröll á heiðinni, Sultartangalína kallast hún og sér bræðslunum Grundartanga fyrir orku.

Mikil berjaspretta var í  grónni hlíð´fyrir ofan bæinn Vatnshorn. Í 266 metra hæð var varla hægt að setjast niður án þess að sprengja á sitjandanum krækiber og bláber.

Hefðbundin endir er við grjótgarð beint upp af eyðibýlinu Vatnshorni og sú leið 12,6 km en við förum yfir Fitjaá og enduðum við kirkjustaðinn Fitjar en þar er glæsileg gistiaðstaða og aðstaða fyrir listamenn.

Jónas Guðmundsson tók myndir af göngugörpum.

Hér er tæplega 5 mínútna myndband um Síldarmannagöngur og er það hýst á Youtube.

Dagsetning: 4. september 2011
Hæsta gönguhæð: 487 m, nálægt Tvívörðuhæð (N:64.26.095 - W:21.20.982)
Hæð Tvívörðuhæðar: 496 metrar
Hæð í göngubyrjun:  35 metrar við vörðu og vegvísi í Botnsvog í Hvalfirði, (N:64.23.252 - W:21.21.579)
Hækkun: Um 452 metrar          
Uppgöngutími Tvívörðuhæð: 170 mín (10:40 - 13:30) - 8,2 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (10:40 - 16:40) endað við Fitjar
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  16,2 km
Veður kl. 12 Botnsheiði: Léttskýjað, NV 6 m/s, 7,2 °C. Raki 90%
Veður kl. 15 Botnsheiði: Léttskýjað, N 5 m/s, 8,5 °C. Raki 82%
Þátttakendur: Útivist, 40 þátttakendur í dagsferð, Fararstjóri Ingvi Stígsson 
GSM samband:  Já, en fékk á köflum aðeins neyðarnúmer

Gönguleiðalýsing: Vel vörðuð leið frá Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan er brött beggja vegna en létt undir fæti þegar upp er komið.

Facebook staða: Yndislegur dagur, get hakað við Síldarmannagötur. Dásamlegur dagur með Útivistarfólki, eintóm sól og sæla. Takk fyrir mig! Er afar þakklát fyrir þennan dýrðardag.

Facebook staða
: Frábær dagsferð með Útivist í dag um Síladarmannagötur. Góð fararstjórn, skemmtilegir ferðafélagar og ekki skemmdi nú veðrið fyrir alveg geggjað og útsýni til óteljandi fallegra tinda. Get sko mælt með þessari fallegu og þægilegu gönguleið.

Vatnshorn

Vatnshorn er merkilegur bær, þar er upphaf eða endir Síldarmannagötu. Bugðótt Fitjaá rennur í Skorradalsvatn. Góð berjaspretta sem tafði göngumenn.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Síldarmannagötu.

Heimildir:
Environice - http://www.environice.is/default.asp?sid_id=33463&tId=1
Ferlir - http://www.ferlir.is/?id=4277
Skorradalshreppur - http://www.skorradalur.is/um-skorradal/sildarmannagotur/


Samfelldur rekstur - BS 25999 staðallinn

Hún er vel menntuð þjóðin. Þegar hamfarir verða hér á landi, brú hverfur af hringveginum vegna hamfaraflóðs, þá koma fram 319.259 verkfræðingar. Allir með rétta lausn, að eigin mati.

Þegar áfall verður þá er gott að hafa áætlun. Til er alþjóðlegur staðall fyrir allar greinar atvinnulífsisn, BS 25999 Business Continuity Management sem þýtt hefur verið, Stjórnun á rekstrarsamfellu. 

Mættu ferðaþjónustuaðilar, forystumenn í ferðaþjónustu og stjórnvöld skoða það alvarlega að útbúa áætlanir sem uppfylla kröfur staðalsins. Hættan vofir sífelt yfir.  Hekla og Katla eiga eftir að taka til sinna ráða. 

Eitt af lykilatriðum í áfallaferlinu er að hafa gott upplýsingastreymi. Tilnefna skal talsmann og hefur hann ákveðnum skyldum að gegna.

Lykilatriði sem hafa þarf í huga í samskiptum við fjölmiðla eru að:

• Vera rólegur og yfirvegaður.
• Vera heiðarlegur.
• Halda sig við staðreyndir.


Forðast skal:

• Að vera með getgátur vegna sjónarmiða sem tengjast áfallinu.
• Að leyfa starfsfólki að ræða við fjölmiðla.
• Vera með ásakanir eða benda á mistök

 

Talsmenn í ferðaþjónustu hafa þverbrotið síðustu þrjú boðorðin. Þeir hafa með ófaglegum talsmáta gert of mikið úr áfallinu og hámarkað skaðann. Trúlegt er að pólitík hafi tekið yfir fagmennskuna. 

Fullyrðingar um að fjöldagjaldþrot og afbókanir eru órökstuddar getgetgátur og alvarlegt að talsamður SAF láti svona út úr sér.  Ætti talsamaður SAF að taka sér nokkra ferðaþjónustuaðila til fyrirmyndar, sérstaklega þá hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.

Árið 1932 fór Óskar Guðnason á milli Hornafjarðar og Reykjavíkur á Fordvörubíl eins og hálfs tonns. Var það fyrsta bílferðin milli staðanna og var farið suður yfir sanda og yfir óbrúaðar ár.  

Í dag var fetað í bílför Óskars og farið yfir Múlakvísl á vaði. Það er til lausn á öllu.

Með því að hafa góðar áætlanir um samfelldan rekstur, þá þarf ekki 319.259 sjálfskipaða verkfræðinga.


mbl.is Neyðarástand í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hattur (320 m) og Hetta (400 m)

Jafnrétti í hnotskurn, Hetta hærri en Hattur, ættu jafnréttissinnar að gleðjast yfir því.

Það leynir á sér hverasvæðið við Seltún í Krýsuvík. Frá veginum sést hverasvæði en þegar gegnið er um svæðið eru margir fallegir hverir í dölum á Sveifluhálsinum.

Ein gönguleið, hringleið er að fara svokallaðan Ketilstíg, framhjá Arnarvatni og upp Hettu. Þaðan halda til austurs, heimsækja hverasvæðið Baðstofu stutt frá bænum Krýsuvík.

Við fórum ekki þennan hring, heldur beint upp frá hverasvæðinu upp á Hverafjall og þaðan heimsóttum Hatt. Síðan var haldið á Hettu, upp skarðið Sveiflu. Sunnan Hettu má sjá Hettuveg, gamla þjóðleið milli Krýsuvíkur og Vigdísarvalla.

Annar stór hópur frá Reykjanesbæ var á sama róli og við og sáum við glæsilegan hópinn á Hettu. Var gaman að þeim félagsskap.

Ágætasta útsýni er yfir undirlendið. Arnarfell og Bæjarfell fylgdust með okkur í suðri. í Austri voru Bláfjöll áberandi og Reykjanesfjöll með Keili í norðvestur. Eldey sást einmanna úti í hafi.

Best að enda þetta á vísunni góðu: "Í Krýsuvík er Hetta, Hnakkur og Hattur. Kært er mér þetta, kem þangað aftur og aftur..."


Dagsetning: 29. júní 2011
Hæð Hatts: 331 metrar
Hæð Hettu: 392 metrar
Hæð í göngubyrjun:  172 metrar, hverir við Seltún, (N:63.53.746 - W:22.03.176)
Hækkun: Um 300 metrar alls        
Uppgöngutími Hattur:  48 mín (19:15 - 20:03) 
Uppgöngutími Hetta:   87 mín (19:15 - 20:42)
Heildargöngutími: 160 mínútur  (19:15 - 21:55), 4,78 km
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit Hattur:  N:63.53.582 - W:22.04.027
GPS-hnit Hetta:   N:63.53.549 - W:22.04.930
Vegalengd:  4,78 km (hringleið)
Veður kl. 20 Bláfjöll: Heiðskýrt, NV 7 m/s, 7,5 gráður. Raki 74% 
Veður kl. 20 Reykjavík: Heiðskýrt, N 5 m/s, 10,3 gráður. Raki 66%, skyggni >70 km
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 70 þátttakendur   
GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Falleg byrjun við hverasvæðið í Seltúni við Krýsuvík. Gengið upp gróna hlíð, þar er mikið af tindum á gömlum eldhrygg. Hattur lætur lítið yfir sér og fara þarf niður dal til að ná Hettu. Síðan er hægt að fara hringleið og taka stefnu á byggingar kenndar við Krýsuvík.

Ekið eftir Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð. Stuttu áður en komið er að álverinu er beygt til vinstri við skilti sem vísar á Krýsuvík. Haldið í átt að hverasvæðinu í Seltúni í Krýsuvík. Vegalengd 4 km. Hækkun 300 m.

Facebook stöður:

Ljómandi kvöldganga á Reykjanesinu.... Hattur, Hetta og fleiri toppar.... veðrið tilvalið til göngu og félagaskapurinn einstakur að vanda!

Skemmtileg ganga á Hatt og Hettu í kvöldblíðunni og útsýnið alveg dásamlegt!

Útsýni og dásemdar blíða og ekki skemmdi hvera-ilmurinn, vakti bara upp ljúfar minningar.

Hetta 

Útivistarræktin fyrir framan Hettu, um 400 m hár hryggur í Sveifluhálsi.


Heimildir:
Toppatrítl - Hetta og Hattur
FERLIR - Hetta-Baðstofa-Hattur-Hnakkur-Seltúnssel
FERLIR - Hettuvegur - leiðin týnda


Krysuvik
Gönguhópur á niðurleið frá Hatti. Krýsuvík og Krýsuvíkurskóli, Arnarfell (198 m) og Bæjarfell (218 m) fylgjast með og Geststaðavatn.

Ný gönguleið á Fimmvörðuhálsi

Í magnaðri Jónsmessuferð á Fimmvörðuháls yfir nótt með Útivist var farin ný gönguleið sem stikuð var fyrir rúmri viku. Duglegir og framtakssamir farastjórar Útivistar sáu um verkið.

Þegar komið er yfir göngubrúnna yfir Skógá  þá eru nú þrír möguleikar á að ná norður á hálsinn. Hin hefðbundna gönguleið er að fylgja stikaðri leið norður á Fimmvörðuháls. Önnur er að fylgja vegaslóða að Baldvinsskála en hún er lengri en léttari.

Nýja leiðin, Þriðja leiðin liggur í vestur, að vestari hvísl Skógár. Þaðan er Kolbeinsskarði fylgt og þegar komið er á Kolbeinshaus þá er göngumaðurinn kominn að skála Útivistar, Fimmvörðuskála á Fimmvörðuhálsi.

Sterklegur vegvísir er á vestri bakkanum og blasir við þegar komið er yfir brúnna og vísar veginn á Fimmvörðuskála, Bása og Þórsmörk.

Það sem þessi nýja leið hefur uppá að bjóða eru fleiri fossar. Á tveim stöðum sáum við fossa sem virtust koma út úr berginu og minntu á Hraunfossa í Hvíta en þeir voru ekki eins vatnsmiklir. Einnig finnur maður meira fyrir nálæg hins þekkta Eyjafjallajökuls.

Einn nafnlaus en stórglæsilegur slæðufoss er í fossaröðinni sem fylgir nýju leiðinni og  minnir hann mjög á Dynjanda eða Fjallfoss í Arnarfirði. Þetta er glæsilegur foss sem allt of fáir göngumenn hafa séð.

SlaedufossSkogaV2

Þessi glæsilegi slæðufoss er í Skóga en upptök árinnar eru við Fimmvörðháls og koma fleiri hvíslar í hana á leiðinni niður Skógaheiði. 

Myndin var tekin um eitt eftir miðnætti á Canon EOS 500D. Myndavélin var stillt á ISO 3200, 1/40 f3,5 og P(rogram).


Google: Vinsældir Grímsvatna minnka en Eyjafjallajökull bætir við sig.

Þegar eldgosið í Grímsvötnum hófst þann 21. maí var eldstöðin lítt þekkt á jarðkúlinni og Google. Gosið var kröftugt í byrjun og þegar flugferðum var aflýst tók heimspressan við og Grímsvötn ruku upp í vinsældum.  Einnig tók Eyjafjallajökull við sér en vefmiðlar tóku að rifja upp samgöngur á síðasta ári.

Hér er línurit sem sýnir leitarniðurstöður á Google fyrir Grímsvotn, Eyjafjallajökul og hið alræmda IceSave mál.

Grímsvatnagos 2011

Eyjafjallajökull birti tæplega 500 þúsund leitarniðurstöður þegar Grímsvatnagosið hófst en Grímsvotn 137 þúsund. Síðan tekur hinn heimsfrægi Eyjafjallajökull við þegar fréttir berast af gosinu en þegar öskuský dreifir sér yfir Evrópu, þá tekur Grímsvatnagosið við sér. Þegar krafturinn hverfur úr því, þá dettur það niður en Eyjafjallajökull heldur sínu striki.

Hæsti fjöldi Eyjafjallajökuls mældist rúm 21 milljón í lok júní 2010.

Það sem veldur niðursveiflu leitarniðurstaðna á Google er að færslur hverfa af forsíðu fréttamiðla eða samfélagsmiðla og eru geymdar djúpt í gagnagrunnum.

Manngerðu hamfarirnar, IceSave, halda sínu striki lúra í 6 milljónum leitarniðurstaðna og Eyjafjallajökull hefur ekkert í þann bankareikning að gera.

Til samanburðar þá er Ísland með 45 milljónir, Iceland með 274 milljónir og japanska kjarnorkuverið Fukushima með 77,5 milljónir leitarniðurstaðna.


Grímsvötn rjúka upp í vinsældum á Google

Það er hægt að nota Google-leitarvélina til að mæla vinsældir.  Ég hef fylgst með leitarniðurstöðum eftir að eldgos hófst í Grímsvötnum síðdegis, laugardaginn 21. maí.

         Grímsvotn        Eyjafjallajökull       Vatnajökull
22.maí137.000496.000543.000
23.maí164.0002.850.000544.000
23.maí2.140.0003.070.000562.000

 _52926594_012055667-1

Forsíður helstu vefmiðla Evrópu fjölluðu um tafir á flugi í dag og því ruku Grímsvötn upp í vinsældum, úr 164.000 leitarniðurstöðum í 2.140.000 á sólarhring sem er þrettánföldun!

Eyjafjallajökull rauk upp þegar gosið í Grímsvötnum hófst. Fólk hefur farið að rifja upp hremmingar á síðasta ári. Vatnajökull heldur sínu striki, tekur ekki á skrið.

Til leiðinda má geta þess að IceSave er með um 6.000.000 niðurstöður og eiga náttúruhamfarir lítið í þær manngerðu hamfarir.


mbl.is Um 500 flugferðir felldar niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nautagil

Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.

Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.

Nautagil

“Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér”. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi.  Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa  enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, “Hvað voru naut að þvælast hér?”.

Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.  Kíkjum á frásögn Óla Tynes í  Morgunblaðinu  4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum. 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush?  Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst.  Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.  Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni.  Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann.  Nota geimfarana  og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!

Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans. 


mbl.is Geimfarar í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á afskekktum stað

Bókin Á afskekktum stað er nýútkomin og gefur Bókaútgáfan Hólum hana út. Hún er byggð á samtölum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings við sex Austur-Skaftfellinga.

Viðmælendur höfundar eru hjónin Álfheiður Magnúsdóttir og Gísli Arason, sem fædd eru og uppalin á Mýrum, Ingibjörg Zophoníasdóttir á Hala í Suðursveit, Þorvaldur Þorgeirsson, sem í áratugi gegndi verkstjórn í bandarísku ratsjárstöðinni á Stokksnesi, og feðgarnir Sigurður Bjarnason og Einar Rúnar Sigurðsson á Hofsnesi í Öræfum. Á afskekktum stað er því eins konar ferðalag í tíma og rúmi.

Arnþór nær góðu sambandi við viðmælendur og ríkir greinilega mikið traust á milli aðila. Viðmælendur eru einlægir í frásögn og óhræddir við að greina frá stjórnmálaskoðunum sínum.  

Viðtalið við Álfheiði og Gísla er fallegt og sátt fólk þar á ferð.

Ingibjörg er aðkomumanneskja og gaman að sjá hennar sjónarhorn. Einnig eru skemmtilegar sögur af Torfa Steinþórssyni eiginmanni hennar. Það er gaman að sjá mismunandi stílbrigði í bókinni en í þessum viðtalskafla er sögumaður ekki að leggja fyrir beinar spurningar.

Þorvaldur segir frá kynnum sínum af varnarliðsmönnum og sýnir okkur inn í heim sem var mörgum hulinn en samskipti Hornfirðinga og Bandaríkjamanna voru lítil. Enda sést það best á því að körfubolti var ekki spilaður á Hornafirði á þessum tímum.

Feðgarnir frá Hofsnesi eru einlægir í viðtölum sínum og skín í gegn mikil ættjarðarást hjá þeim enda búa þeir á merkilegum stað. Erfiðar samgöngur voru stór þáttur í einangrun Austur-Skaftfellinga en þær breyttust þegar leið á öldina. Hættulegar ár voru brúaðar og vegatenging kom á sem og flugvélar. Athyglisverðast fannst mér þó að lesa um nýjustu samgöngubæturnar en það er Internetið.

Á afskekktum staðEinar segir svo frá: "....Það var ekki fyrr en 1997, minnir mig, sem við fengum Internettengingu heim á Hofsnes. Þá setti ég upp eigin heimasíðu þar sem voru líka upplýsingar um ferðirnar út í Ingólfshöfða."

"Fannst þeir það breyta miklu? Opnaði það einhverja möguleika?"

"Algjörlega."

"Hvernig þá?"

"Á meðan ég notaðist eingöngu við auglýsingar sem ég hengdi upp sjálfur var mikið um að ég fengi viðskiptavini sem ákváðu að slá til með skömmum fyrirvara af því að þeir höfðu séð ferðirnar auglýstar þegar þeir voru komnir á svæðið en eftir að heimasíðan kom til sögunnar fékk ég miklu fleiri viðskiptavini sem voru búnir að kynna sér ferðirnar og ákveða sig með góðum fyrirvara. Hinir síðarnefndu komu þar af leiðandi betur undirbúnir en hinir fyrrnefndu."

Svo kom ljósleiðari í Öræfin, glæsilegt framtak hjá Öræfingum og stór stökk inn í framtíðina. Einangrunin algerlega rofin.

Það kom mér á óvart að heyra í fyrsta skiptið um fyrirtækið Jöklasól sem Guðjón Jónsson frá Fagurhólsmýri stofnaði stuttu eftir tilkomu þjóðgarðsins í Skaftafelli. Boðið var upp á skoðunarferðir um Öræfi og flutti hann ferðafólk milli flugvallarins í Fagurhólsmýri og Skaftafells.

Fróðleg, skemmtileg og er þetta að sjálfsögðu hin mesta bókarbót.


Skaftfellingur og Skaftafell

Var að horfa á heimildarmyndina Skaftfellingur eftir Helga Felixson. Var hún frekar hæg og fjallaði meira um nýjan þjóðveg til Víkur en um skipið, sem var mikil samgöngubót á sínum tíma.

Þegar ég horfði á heimildarmyndina, rifjaðist upp fyrir mér þegar frystiskipið  Skaftafell kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hornafjarðar. Ég mundi ekki hvaða ár en ég man vel eftir þessum degi. Þá var mikið tilstand á Hornafirði og öllum bæjarbúum boðið til veizlu. Ég mundi að það var einnig fallegt veður þennan dag. Til að rifja þessa minningu upp, þá fór ég á timarit.is og leitaði upplýsinga.

Það kom mér á óvart að þetta var árið 1971, þá var ég 6 ára og einnig árstíminn en sumarveður var dag þennan á Hornafirði.

Mogginn birti frétt daginn eftir hátíðarhöldin, í sunnudagsblaðinu en Elías, líklega Elli lögga, skrifaði hana. Hann var því á undan Tímanum sem birti miklu stærri frétt á þriðjudeginum eftir hátíðarhöldin. Enda var Tíminn málgagn Framsóknarflokksins og SÍS.

Skipadeild SÍS með m/s Skaftafell í flotanum varð síðan að Samskipum og byggði Ólafur Ólafsson í Samskipum veldi sitt á flutningum. Það hefur þurft að afskrifa milljarða út af útrásarævíntýri Óla. Maður hefði kannski ekki átt að fagna flutningaskipinu svo vel fyrir nærri 40 árum!

Morgunbladid031071 Frétt í Morgunblaðinu 3. október 1971.

Tíminn051071

 

Á forsíðu Tímans, 5. október 1971, var mynd af Skaftafelli og frétt af Ólafi Jóhannessyni að vinna pólitískt afrek. Á bls. 2 var heilmikil frétt um komu m/s Skaftafells sem kom til heimahafnar í fyrsta sinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 233606

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband