Færsluflokkur: Samgöngur
15.11.2020 | 16:46
Hringuð stöðuvötn
Hringuð stöðuvötn
Vatn er forsenda alls lífs á jörðinni, því allt líf þarf á vatni að halda. Stöðuvatn er samansafn vatns í landslagi sem algjörlega er umkringt af landi.
Í kóvid-ástandinu þarf að hreyfa sig og því var ákveðið að safna stöðuvötnum, ganga í kringum þau og upplifa lífið í kringum þau.
Vinsælustu staðirnir eru Esjan og Úlfarsfell og því er tilvalið að prófa eitthvað nýtt. Svo er það tilbreyting að ganga í hring í stað þess að ganga fram og til baka.
Japanski vísindamaðurinn Masaru Emoto hefur rannsakað og gefið út bækur um vatn og ískristalla. Með rannsóknum sínum og ljósmyndum þykist Emoto hafa sannað að hugsanir og orð hafi bein áhrif á efnisheiminn, ekki síst vatnið í heiminum. Maðurinn er 70% vatn, yfirborð jarðar er 70% vatn og heilinn sjálfur um 90% vatn og Emoto vill meina að jákvæðar og fallegar hugsanir skili sér beinlínis út í veröldina.
Því var markmiðið að senda jákvæðar hugsanir til vatnsins og fá aðrar jákvæðar til baka. Það eru töfrar í vatninu. Hér er listi yfir vötnin tíu sem hringuð hafa verið.
Vífilsstaðavatn
2,5 km ganga. Vatnið liggur í fallegu umhverfi rétt hjá Vífilsstaðaspítalanum. Merkilegt hvað mikil kyrrð er þarna svo stutt frá stórborginni. Hringurinn í kringum vatnið liggur meðfram því, á bökkum og um móana. Mæli með að ganga upp heilsustíginn upp að Gunnhildarvörðu. Þá er gangan 3,8 km.
Rauðavatn
Um 3 kílómetra ganga. Gott stígakerfi liggur hringinn í kringum vatnið og um skóginn ef við Rauðavatn voru tekin fyrstu skrefin í skógrækt fyrir um hundrað árum. A
Hvaleyrarvatn
Um 2 kílómetra ganga. Hér var mikið líf. Margir bílar og leggja þurfti hálfum kílómetra frá upphafsstað. Mikið kom þessi gönguleið mér á óvart og ekki furða að Hafnfirðingar hafi mætt vel. Fallegt og vel gróin gönguleið, hluti er skógi vaxinn og göngustígurinn gengur um allar trissur, að vatninu og inn á milli trjáa. Sannkölluð útivistarperla.
Urriðavatn
Um 2,5 kílómetra hringur. Fyrst kindastígur en svo tók við vel gerðir göngustígar. Vígaleg brú yfir á. Gaman að sjá nýtt vistvænt hverfi rísa, glæsileg hús og 25 kranar standandi upp í loftið.
Hafravatn
Um 5 kílómetra stikuð leið umhverfis Hafravatn. Mosfellsbær hefur staðið sig vel í að merkja leiðina með gulum stikum en gönguleiðin er stundum ógreinileg. Á kafla þarf að ganga á veginum. Mikið líf í kringum vatnið, veiðimenn og kajak. Nokkrir sumarbústaðir meðfram vatninu.
Ástjörn
Um 2,6 km ganga. Hafði ekki miklar væntingar fyrir gönguna en kom á óvart. Lagði bíl við knatthús Hauka og gekk aðeins á bakvið svæðið en maður hefur horft á nokkra leikina þarna en tjörnin farið framhjá manni. Heyrði frétt um að Ástjörn væri í hættu vegna knatthús Hauka.
Reynisvatn
Um 1,3 km þægileg ganga. Gaman að ganga spölkorn í skógi en sum tré illa farin. Hægt að fara annan hring í öfuga átt við fyrri hring. Töluverð umferð fólks og hunda.
Leirvogsvatn
5,5 km. 30 km frá höfuðborginni. Leirvogsvatn er stærsta vatnið á Mosfellsheiði, 1,2 ferkílómetrar og er mesta dýpt þess 16 metrar. Það liggur í 211 metra hæð yfir sjó, áin Bugða fellur í vatnið að austanverðu en Leirvogsá úr því að vestan og til sjávar í Leirvogi. Mikið er af silungi í vatninu en frekar smár. Leifar af stíflu við upphaf Leirvogsár. Hægt að stika yfir steina en ákveðið að fara upp á veg og ganga yfir búna. Slóði alla leið. Mjög fámennt.
Reykjavíkurtjörn
Um 1,6 km ganga með syðstu tjörninni. Gaman að skoða styttur bæjarins. Í Hljómskálagarðinum er stytta af Jónasi Hallgrímssyni en lifrin í honum var stór, um það bil tvöföld að þyngd, 2.875 grömm.
Elliðavatn
Um 9 km löng ganga í tvær klukkustundir. Gönguleiðin umhverfis vatnið er mjög fjölbreytt. Skiptast þar á þröngir skógarstígar og upplýstir stígar inni í íbúðarhverfi. Þar er einnig saga á hverju strái svo sem um Þingnes og stífluna sem varð til þess að vatnið stækkaði töluvert.. Hækkun lítil.
Mikið af hlaupafólki. Hófum gönguna við Elliðahvamm en algengt að byrja við Elliðavatnsbærinn.
29.7.2020 | 14:52
Tindastóll (995 m)
Hvar skal byrja? Hvar skal standa?
Hátt til fjalla? Lágt til stranda?
Bragi leysir brátt úr vanda,
bendir mér á Tindastól! (Matthías Jochumsson)
Ég skildi aldrei af hverju helsta kennileiti Skagafjarðar, fjallið Tindastóll héti Tindastóll því það hafði ekki tignarlegan skaftfellskan tind. En þegar siglt er undir Stólnum, þá sjást tindaraðir á fjallinu, m.a. I Tröllagreiðu. Þá skilur maður nafnið og mér finnst það mjög fallegt og viðeigandi. Hins vegar er Tindastóll skrítið nafn á íþróttafélagi.
Tindastóll er 995 metra þar sem hann er hæstur og 18 kílómetra langt og 8 km á breidd, efnismesta fjall Skagafjarðar.
Fjallið er hömrótt mjög að austan og þar víða torsótt uppgöngu, en að sunnan og vestan er lítið um kletta og víða ágætar uppgönguleiðir.
Hægt er að ganga á Tindastól frá nokkrum stöðum. Algengast er að ganga stikuðu leiðina frá upplýsingaskilti norðan við malarnámur norðaustan við Hraksíðuá og stefna á fjallsbrún við Einhyrning syðri. Önnur leið er að ganga frá eyðibýlinu Skíðastöðum og stefna á hinn Einhyrninginn. Einnig er hægt að fara frá skíðasvæðinu og ganga þaðan upp á topp eða niður á Reykjaströnd austan við Stólinn og jafnvel baða sig í Grettislaug.
Villiendurnar völdu öruggustu leiðina, þá stikuðu. Við stefndum á Einhyrning sem sést allan tímann. Til að byrja með er gengið upp með Hraksíðuá að norðanverðu, upp aflíðandi brekkur. Liggur leiðin fjarri hættulegum brúnum og giljum og ætti því að vera öllum fær mestan hluta ársins. Þegar ofar kemur er hæstu ásum fylgt þar til upp á brúnina er komið.
Þegar upp er komið er varða með gestabók, glæsilegu útsýni yfir stóran hluta Skagafjarðar og einnig er myndarleg endurvarpsstöð.
Þjóðsaga er um óskastein á Tindastól en vorum ekki hjá Óskatjörn og misstum af öllum óskum þrátt fyrir að vera daginn eftir Jónsmessunótt.
Tindastóll er rofleif í jaðri fornrar megineldstöðvar sem var virk fyrir 8-9 milljón ára. Ísaldarjöklar grófu svo skörð og dali í berggrunninn í 3 ármilljónir en oft hefur fjallið staðið uppúr þeim jöklum. Því nokkuð traust til uppgöngu þegar jarðskjálftahrina er í gangi.
Útsýni var ágætt til suðurs en veðurguðir buðu upp á skýjað veður. Þar er næstur Molduxi, annað einkennisfjall Sauðkrækinga og í fjarska er konungur Skagafjarðarfjalla, Mælifellshnjúkur, hæsta fjall Skagafjarðar utan jökla en fyrr í vikunni höfðum við gengið á hann og rifjuðum upp ferðina. Einnig yfir Gönguskörð og Sauðárkrók. Í austri blasa við fjöllin á Tröllaskaga ásamt eyjunum í Skagafirði í norðaustri. Til vestur sást til fjalla á Skaga.
Göngufólk við vörðu á Einhyrning syðri í 795 m hæð. Sauðarárkrókur fyrir neðan.
Dagsetning: 25. júní 2020
Göngubyrjun: Malarnámur norðaustan við Hraksíðuá, 175 m (N: 65.45.453 W:19.42.138)
Fjallsbrún við Einhyrning - varða: 795 m (N: 65.46.894 W: 19.42.820)
Hækkun göngufólks: 620 metrar
Uppgöngutími: 165 mínútur (10:00 12:45)
Heildargöngutími: 255 mínútur (10:00 14:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,8 km
Veður - Sauðárkrókur kl. 12.00: Skýjað, S 5 m/s, 16,2 °C, rakastig 57%.
Þátttakendur: Villiendur. 10 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Fjallið er auðgengt við flestar aðstæður árið um kring eftir þessari leið. Vel stikuð leik upp gróna mela.
Eldra nafn: Eilífsfjall eða Eilífsfell, kennt við landnámsmanninn Eilíf örn Atlason.
Facebook-status: Takk! Enn einn dýrðardagurinn TAKK
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Samgöngur | Breytt 30.7.2020 kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2020 | 14:16
Drangey (180 m)
Tíbrá frá Tindastóli
titrar um rastir þrjár.
Margt sér á miðjum firði
Mælifellshnjúkur blár.
Þar rís Drangey úr djúpi,
dunar af fuglasöng
bjargið, og báðumegin
beljandi hvalaþröng.
Einn gengur hrútur í eynni.
Illugi Bjargi frá
dapur situr daga langa
dauðvona bróður hjá.
(Jónas Hallgrímsson)
Þetta kvæði eftir ljóðskáldið Jónas smellpassar við ferðalag Villiandanna til Skagafjarðar um sumarsólstöður. Fyrst var Mælifellshnjúkur genginn, síðan Drangey heimsótt og að lokum Tindastóll. Stemmingin í Drangey rímar vel við ljóðið. Drangey rís eins og rammbyggður kastali úr hafinu með þverhnípta hamraveggi á alla kanta og grasi vaxinn koll. Fjörugt fuglalíf með dunandi hávaða og á heimleiðinni skoðuðum við hnúfubaka. Sagan af Gretti sterka fléttaðist skemmtilega inn í ferðina og gaf öllu nýja dýpt.
Drangey og Kerling
Að sigla upp að Drangey í Skagafirði var eins og að koma inn í ævintýraheim. Svartfuglinn, ritan og fýllinn tóku vel á móti okkur og það var mikið líf við klettadranginn Kerlingu. Hvítur á köflum eftir fugladrit og minnti á klettinn Hvítserk. Í gamalli þjóðsögu segir að tvö nátttröll hafi verið á ferð með kú sína yfir fjörðinn þegar lýsti af degi. Urðu þau og kýrin þá að steini. Er Drangey kýrin og stendur Kerling sunnan hennar. Karl var fyrir norðan eyna en féll í jarðskjálfta 11. september 1755.
Að sigla meðfram eyjunni með allt þetta fuglalíf, garg og lykt var stórbrotið og minnti á siglingu inn Vestmanneyjahöfn.
Suðurhluti eyjarinnar blasti við eins og hamraveggur og vöktu Svörtuloft athygli en fyrir neðan þau er Fjaran en hún hefur minnkað. Þar var mikil útgerð áður fyrr og allt að 200 manns höfðu aðsetur. Þeir stunduðu umdeildar flekaveiðar sem voru bannaðar 1966. Eyjan var mikil matarkista og ótrúlegar tölur heyrðust um fugl sem veiddur var, allt að 200 þúsund fuglar á einu sumri og 20 þúsund egg tekin, stútfull af orku. Þessar tölur vekja spurningu um hvort veiðin hafi verið sjálfbær hjá forfeðrum okkar?
Búið er að útbúa litla höfn inni í Uppgönguvík og lentum við þar innan um forvitna sjófugla. Síðan var farið upp göngu upp að hafti einu, Lambhöfðaskarð og stoppað þar. Bergið slútir yfir manni, maður verður lítill og ægifegurð blasir við. Á vinstri hönd blasir Heiðnaberg, eitt þekktasta örnefnið en sagan af Guðmundi góða segir að einhvers staðar verða vondir að vera! Ekki óttuðumst við neitt. En keðjustigi sem lá niður úr Lambhöfða vakti athygli, ég óttaðist hann, hefði aldrei þorað að nota hann fyrir mitt litla líf og um leið spurði maður sjálfan sig, úr hverju eru félagar í Drangeyjarfélaginu búnir til?
Traustur stígur með tröppum og kaðal er alla leið upp á topp. Þar var hægt að sjá hvar Karlinn stóð en hann orðin að skeri og það brotnaði sjór á honum. Rétt eins og fór fyrir Karlinum, þá eyðilagðist Drangeyjarbryggja í óveðrinu fyrr í mánuðinum er því aðkoma að uppgöngu erfið núna. Náttúröflin eru óblíð.
Síðan var farið upp á efstu hæð og endað á því að ganga upp traustan járnstiga. Á leiðinni er gengið fyrir Altarið og þar er faðirvorið greypt í járn. Uppi í eyjunni er Drangeyjarskáli sem reistur var 1984. Eftir kaffistopp var gengið að Grettisbæli sem er sunnarlega á eyjunni og sagði farastjórinn Helgi Rafn Viggósson hjá Drangey Tours okkur sögur af eyjalífi, frá Gretti og frá lífsferli lundans. Náttúra og saga.
Grettissaga er ein af þekktustu og vinsælustu Íslendingasögunum og kemur Drangey mikið við sögu en Grettir Ásmundarson bjó í eyjunni frá 1028 til 1031 ásamt Illuga bróður sínum og þrælnum Glaumi.
Við sáum yfir spegilsléttan Skagafjörðinn yfir á Reykjanes á Reykjaströnd undir Tindastóli en þar er Grettislaug. En árið 1030 misstu þeir útlagar eldinn og þurfti Grettir að synda í land. Kallast það Grettissund þegar synt er frá Uppgönguvík og í land en Drangeyjarsund þegar synt er sunnar frá eyjunni.
Á göngu sáum við sáum nokkra dauða svartfugla en fálkar eiga einnig lögheimili í eyjunni og höfðu þeir lagt þá sér til munns. Vitað er um eitt fálkahreiður í Drangey.
Drangey er um 700 þúsund ára gömul og úr linu móbergi og hæsti punktur Mávanef í 180 metra hæð. Hún er um kílómeter að lengd og meðaltalsbreidd um 300 m. Bergið er mjúkt og er stanslaus barátt við hafið en það heggur í bergið. Á leiðinni á hápunktinn kíktum við á vatnsból Grettis, Grettisbrunn. en það er undir klettum sem lekur í gegnum og frekar erfið aðkoma að því.
Sigling tekur um hálftíma og þegar komið var að höfninni við Sauðárkrók tóki tveir hnúfubakar á móti okkur. Þeir voru í miklu æti og að safna fituforða fyrir veturinn. Það var mjög áhugavert að sjá þegar hvalirnir smöluðu smásíldinni saman upp að yfirborði sjávar og þá steyptu fuglarnir sér niður til að ná í æti. Síðan kom gin hvalsins úr djúpinu og gleypti torfuna en fuglarnir hörfuðu furðu lostnir. Mögnuð samvinna.
Mæli með ævintýraferð í Drangey en þeir sem eru mjög lofthræddir ættu að hugsa sig vel um en uppgangan og niðurferðin er krefjandi. En lykillinn er að horfa fyrir neðan tærnar á sér allan tímann, halda í kaðalinn sem fylgir alla leið og hugsa jákvætt.
Næst var haldið í sundlaugina verðlaunuðu á Hofsósi og horft til Drangeyjar frá sundlaugarbakkanum. Hugurinn var hjá fuglunum og Gretti sterka.
Fullkominn dagur.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2016, Skagafjörður austan vatna
Drangey Lesbók Morgunblaðsins, 1934
Drangey.net Drangey Tours
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2020 | 13:36
Mælifellshnjúkur (1.147 m)
Hvítan hest í Hnjúkinn ber,
Hálsinn reyrir klakaband.
Þegar bógur þíður er,
Þá er fært um Stórasand.
(Gamall húsgangur úr Skagafirði, höfundur ókunnur)
Þegar komið er í Skagafjörð og ekið frá Varmahlíð í suðurátt sker eitt fjall sig vel frá öðrum fjöllum og gnæfir yfir, það er Mælifellshnjúkur. Einskonar konungur Skagafjarðafjalla. Því var því auðvelt að velja Mælifellshnúk hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb en hann dvaldi í fimm daga gönguferðalagi í Skagafirði. Nafn fjallsins vísar til þess að í öllu norðurhéraði Skagafjarðar er Mælifellshnjúkur ríkjandi kennileiti í suðri og frá mörgum bæjum markaði hann hádegi hinna gömlu eykta.
Mælifellshnjúkur breytir mjög um svip eftir því hvaðan á hann er horft, minnir á píramída úr norðri séð og ekki síður sunnan af öræfum en aflangur. Minnir mig á Súlur við Akureyri í byggingu og er einstakt útsýnisfjalla af því að það stendur stakt, stutt frá hálendinu, svipað og Bláfell á Kili.
Á hnjúkinn má ganga eftir fleiri en einni leið, t.d. upp eftir röðlinum að norðan og eins með að fara upp í Tröllaskarðið milli hnjúksins og Járnhryggjar og þaðan á hnjúkinn. Villiendurnar ákváðu að fara öruggustu leiðina, ofurstikuð gönguleið en gengið er frá bílastæði við Moshól í Mælifellsdal. Sama leið var farin til baka. Skagfirðingar hafa sett upplýsingaskilti við helstu göngufjöll í sýslunni og er það þeim til mikils sóma.
Á uppgöngunni var boðið upp á ýmsa afþreyingu, m.a. var þagnarbindindi yfir 20 stikur og átti menn að hugsa til þess hvernig þeir ætluðu að fagna á toppnum. Þegar á toppinn var komið tóku göngumenn út fögn sín í gjólu. Útsýni var frábært, þó var skýjabakki í austri og ekki sá í Kerlingu í Eyjafirði og Vatnajökul en farinn var örnefnahringur og komu flest upp og útsýni yfir tíu sýslur stórbrotið. Á niðurleiðinni var hraða farið en gert stopp fyrir jógaæfingar og hnjúkurinn tekinn inn í nokkrum æfingum.
Mælifellsdalur fylgdi okkur alla leið og liggur Skagfirðingaleið um hann um Stórasand. Þar riðu hetjur um héruð áður fyrr.
Á toppi hnjúksins er stæðilega landmælingavarða og VHF-endurvarpi björgunarsveitanna. Einu vonbrigðin voru þau að engin gestabók var í kassa við vörðuna en alltaf er gaman að kvitta fyrir að toppa.
Það er gaman að þessu viðmiði með sýslunar tíu en núna eru sýslumenn aðeins níu talsins. Áður fyrr voru sýslur og sýslumenn upphaf og endir alls en þegar mest lét voru sýslur 24. Tímarnir eru breyttir.
Jarðskjálftahringa hafði staðið yfir og höfðu ekki hróflað við hnjúknum en berggrunnur Mælifells er 8 til 9 milljón ára gamall og hnjúkurinn sjálfur um milljón ára gamall en efri hlutinn er úr Móbergi. Fjallið hefur staðist jarðskjálfta lengi og í góðu jafnvægi en í lok síðustu ísaldar hefur orðið berghlaup úr fjallinu og gengum við upp úr því í Mælifellsdal.
Í norðri sá Hnúkstagl röðullinn sem gengur norður af hnjúknum og út fjörðinn en þar fanga Drangey, Málmey og Þórðarhöfði augað. Austan héraðs rísa Blönduhlíðarfjöllin með Glóðafeyki stakan. Ágætlega sást inn Norðurárdal, Austurdal og hrikaleg gljúfrin. Hofsjökull og Kerlingarfjöll komu næst en nær og vestar fjöll á Kili, Kjalfell, Rjúpnafell og Hrútfell sem rís austan Langjökuls. Eiríksjökull var áberandi og nær Blöndulón og er þar að líta sem haf. Lengra í burtu sást til Baulu, Snjófjalla og Tröllakirkju en við keyrðum framhjá þeim og heilsuðum daginn áður.
Í næsta nágrenni sást í Nónfjall, Reykjafjall og Kirkjuburst en norðar Hellufell, Grísafell og Kaldbakur og Molduxi. Yst við fjarðaminnið að vestan sást svo efnismesta fjall sýslunnar Tindastóll en við áttum eftir að heilsa upp á hann síðar í ferðinni. Við heilsuðum honum.
Konungur Skagafjarðar, Mælifellshnjúkur með Járnhrygg, Tröllaskarð og Hnúkstagl, röðullinn sem gengur norður af hnjúknum.
Dagsetning: 23. júní 2020
Göngubyrjun: Bílastæði við Moshól í Mælifellsdal, 500 m (N: 65.23.193 W:19.24.063)
Mælifellshnjúkur - varða: 1.147 m (N: 65.23.325 W: 19.21.094)
Hækkun göngufólks: 640 metrar
Uppgöngutími: 230 mínútur (10:10 14:00)
Heildargöngutími: 350 mínútur (10:10 16:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 12,6 km
Veður Stafá kl. 13.00: Léttskýjað, NA 4 m/s, 10,7 °C, rakastig 73%.
Þátttakendur: Villiendur. 16 göngumenn.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei, tómur kassi.
Gönguleiðalýsing: Greiðfær og gróin í fyrstu, síðan traustur melur. Skemmtileg og drjúg fjallganga á frábæran útsýnisstað.
Eldra eða annað nafn: Mælifell.
Facebook-status: Þriðjudagur til þrautar og sælu. Löguðum í hann snemma að Mælifellshnjúk. Gengum hann á frábæru tempói. Magnað útsýni, frábær félagsskapur sem við hjónin erum svo heppin að vera með í.
Heimildir
Ferðafélag Íslands árbók 2012, Skagafjörður vestan vatna.
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Samgöngur | Breytt 23.7.2020 kl. 08:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.5.2020 | 17:07
Þyrill (393 m)
Fjallið Þyrill í Hvalfirði setur mjög mikinn svip á umhverfi fjarðarins. Það rís þverbratt og hömrum girt upp norðaustur og upp af Þyrilsnesi.Þyrill er fjallsröðull myndaður við rof skriðjökla sem brotist hafa meðfram fjallinu, báðum megin.
Leiðin upp á fjallið liggur upp Síldarmannabrekkur það eru gamlir götuslóðar um Botnsheiði yfir í Skorradal. Þegar á sléttun er komið skilja að leiðir og stefnt á topp Þyrils. Margir fara sömu leið til baka en við fórum umhverfis Þyril og komum niður hjá hvalstöðinni.
Það sem er áhugavert við þessa leið sem er auðveld norðaustur af fjallinu niður Litlasandsdal, með Bláskeggsá niður á þjóðveg. Einnig má hefja gönguna frá þessum stað við olíutanka NATO en fara þar yfir á á leiðinni.
Yfir Bláskeggsá var byggð fyrsta steinbrú á landinu árið 1907 og upplagt að líta á hana í leiðinni.
Mikið útsýni er af Þyrli yfir Hvalfjörð og ber Þyrilsnes með Geirshólma af. Það er skemmtilegt að rifja upp söguna af Helgusundi þegar Geirshólmi sést.
"Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vælar og svik landsmanna; hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð, að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr Hólminum um nóttina og flutti með sér Björn, son sinn, fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, og þá fór hún móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum, því að honum dapraðist sundið þá, og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund."
Þá kunnu Íslendingar að synda svo tapaðist kunnáttan niður eftir þjóðveldisöld en kom aftur á 19. öld.
Á fastalandinu í botni fjarðarins gnæfir Hvalfell með Botnsúlur til hægri. Múlafjall og Reynivallaháls og yfir honum sér í eftir hluta Esjunnar. Akrafjall er eins og eyja og Hafnarfjall og Skarðsheiðin á hægri hönd. Brekkukambur gnæfir yfir hvalstöðinni. Í norðri fjær sér í snæviþakið Ok og Fanntófell. Næst í hömrum Þyrils sér í Helguskarð en þar kleif Helga upp fjallið með syni sína tvo er hún hélt austur yfir Botnsheiði til Skorradals.
Þegar komið var niður Litlasandsdal sáum við merkilega brú. Brúna yfir Bláskeggsá sem byggð var árið 1907 og var hún fyrsta steinsteypta brúin á Íslandi utan Reykjavíkur.
Útsýni af vörðu á Þyrli. Glæsilegt Þyrilsnes skagar út í Hvalfjörðinn og Geirshólmi einstakur með Reynivallaháls og Esjuna í öllu sínu veldi á bakvið.
Dagsetning: 16. maí 2020
Hæð í göngubyrjun: 27 metrar, við upphaf Síldarmannagötu (N: 64.23.247 W:21.21.587)
Þyrill - varða: 392 m (N: 64.23.576 W: 21.24.582)
Hækkun göngufólks: 365 metrar
Uppgöngutími: 120 mínútur (09:00 11:00)
Heildargöngutími: 255 mínútur (09:00 13:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður - Botnsheiði kl. 11.00: Léttskýjað, NNA 5 m/s, 2,3 °C
Þátttakendur: Fjallkonur. 10 göngumenn og einn hundur.
GSM samband: Já, 4G
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Greiðfærar skriður og melar, grónir að hluta. Spordrjúg leið umhverfis svipmikið fjall. Ekki komið niður á upphafsstað. Upphaf við Síldarmannabrekku og endað við hvalstöðina.
Facebook-status: Takk fyrir daginn elskur. Það má segja að við höfum sloppið við að þyrla upp miklu ryki á Þyrli í dag. Frábær ganga í enn betri félagsskap!
Heimildir
Brúin yfir Bláskeggsá - RUV.is, 25.4.2010
Íslensk fjöll - Gönguleiðir á 151 tind
Helgusund - Morgunblaðið, 11. ágúst 2003
20.10.2019 | 19:11
Loftmengun - orðaskortur í byrjun bílaaldar
Fyrsti bíllinn kom til Hafnar árið 1927 en Hornfirðingar voru ekki sammála um ágæti þessa fyrsta faratækis [...] og bóndi nokkur vildi láta banna notkun þess því að það eyðilegði alla hesta og svo færi það svo illa með vegi. 95
En ef skaftfellski bóndinn sem vitnað er í hér að ofan hefði einnig minnst á mengunina sem kemur frá bifreiðunum þá hefði hans verið getið í annálum og öðlast mikla frægð fyrir víðsýni og gáfur. Orðið annar Skaftfellskur ofviti. En orðið var ekki til. Eða er eftir honum rétt haft?
Andri Snær Magnason sem nýlega gaf út meistaraverkið Um tímann og vatnið hefur fjallað um orðanotkun og hugtök.
Súrnun sjávar er stærsta breyting á efnafræði jarðar í 50 milljón ár ásamt því sem er gerast í andrúmsloftinu. Það hlýtur að koma mér við. En hvernig á ég að segja frá þessu í bók? Orðið súrnun er ekki þrungið merkingu eins og kjarnorkusprengja. Ég þarf að gera lesandanum ljóst að orðið sé risavaxið en hafi allt of litla merkingu. Það er meðal þess sem ég reyni í þessari bók. Fréttablaðið 4. október 2019
Sama henti skaftfellska bóndann í byrjun bílaaldar, það var ekki til orð yfir mengandi útblásturinn frá bílnum. Orðaforðinn kemur á eftir tækninni. Hefði bóndinn nefnt orð sem tengdist útblæstrinum hefði þessi neikvæða setning um hann ekki verið jafn neyðarleg. Ef hann hefði notað orð eins og loftmengun, olíumengun, útblástur eða sótagnir þá hefðu þau orðið nýyrði og merki um mikla visku.
Vefurinn timarit.is er merkilegur vefur og leitaði ég eftir fimm mengandi orðum sem getið er ofar.
Orðið loftmengun kemur fyrst fyrir í byrjun árs 1948 í Morgunblaðinu. Um 20 árum eftir að fyrsti bíllinn kemur til Hornafjarðar: Ekki var þó gert ráð fyrir að hjer yrði um svo mikla loftmengun að ræða, að hætta stafaði af. Segir í fréttinni.
Árið 1934 er fyrst minnst á útblástur gufu en áður notaði í merkingunni stækkun, eða úrás. Fyrsti útblástur mótorvélar í Siglfirðingi 25. janúar 1942.
Olíumengun kemur fyrst fyrir 1955,
Sótagnir koma fyrst fyrir í krossgátu 1953 en í tímaritinu Veðrið 1956 Auk þess hrífa droparnir með sé í fallinu sótagnir þær, sem kunna að vera svífandi i loftinu fyrir neðan skýin
Orðið mengun er þó fyrir bílaöld á Íslandi en notað um skemmd. mengun af ormarúg, Norðanfari, 20. desember 1879.
En skyldi skaftfellski bóndinn skilja orðið hamfarahlýnun og áttað sig á orsökum hennar ef samband næðist við hann í gegnum miðil í dag?
Heimildir
95 Arnþór Gunnarsson. 1997:285 Saga Hafnar I
Fréttablaðið 4. október 2019
Timarit.is
27.9.2019 | 16:13
Siglufjarðarskarð (630 m)
Það eru tveir möguleikar á að hefja göngu um Siglufjarðarskarð úr Fljótum. Sá fyrri er að hefja göngu eftir vegaslóðanum sem gerður var 1946 og er vel fær. Hinn er að hefja gönguna vestan frá Heljartröð skammt norðan Hrauna í Fljótum.
Gönguhópurinn lagði í ferðina frá Heljartröð í glæsilegu veðri, heiðskýrt og fallegu veðri. Gönguslóðin er augljós allan tímann upp grasi grónar brekkur í suðurhlíð Hraundals og aflíðandi brekkur vestan í Breiðafjalli. Þegar Skarðið nálgast þá er komið inn á Skarðsveginn sem er jeppafær.
Illviðrishnjúkur (895 m) er tignarlegur skammt norðan Skarðsins og þrjú rafmagnsmöstur minna á sköpunarkraft mannsins sem getur bæði gefið líf eða drepið.
Fagurt útsýni er úr skarðinu til beggja átta, Siglufjarðar og Skagafjarðar. Upplýsingaskilti með gestabók er í Skarðinu en ljóst er að fjallvegurinn er ekki á fjárlögum hjá Vegagerðinni því mikið hrun hefur komið úr hömrunum. Nokkrum dögum fyrir gönguna voru jarðskjálftar fyrir norðan Siglufjörð upp á 4,6 og mögulega hafa þeir bætt á hrunið.
Ekki urðum við vör við óværu nokkra en hennar er getið á upplýsingaskiltinu en vondir andar sem voru í skarðinu var stefnt í Afglapaskarð 1735 af Þorleifi prest. Eru þeir væntanlega þar enn.
Siglufjörður blasti fagur við þegar gengið var um Skarðið. Skarðsvegurinn hlykkjaðist niður fjörðinn og framkvæmdir voru við skíðasvæðið í Skarðsdal. Endað var við skógrækt Siglfirðinga, nyrsta skóg á Íslandi. Gróskumikill og fallegur skógur sem bindur kolefni og einnig mikið notaður til útivistar.
Upphaflega var fjallseggin í skarðinu svo mjó að þar mátti sitja klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Í þessa egg hafði þó til forna verið höggvið skarð, nægilega breitt til að unnt væri að koma klyfjahesti þar í gegn. Skarðið var svo sprengt niður um fjórtán metra árið 1940 og í framhaldi af því var lagður akfær vegur um skarðið árið 1946. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og varningi farið um sjóveg til og frá Siglufirði. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt fær væri aðeins fáa mánuði á ári. Óhöpp eða slys á hinum nýja vegi eru ekki í frásögur færandi. Strákagöng voru opnuð 1967 og þá fór sjarminn af Siglufjarðarskarði.
Hlaupið í Skarðið er en þá hefst það á sama stað og við hófum okkar göngu en einnig er haldin skíðaganga sem hefst á sama stað.
Göngukona í Siglufjarðarskarði. Ófært fyrir jeppa en torfæruhjól fara þarna léttilega í gegn.
Dagsetning: 28. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 81 metrar Heljartröð í Fljótum (N: 66.05.879 W:19.04.001)
Siglufjarðarskarð: 631 m (N: 66.00.381 W: 18.10.842)
Skógrækt Siglfirðinga: 71 m (N: 66.07.717 W:18.56.542)
Hækkun göngufólks: 550 metrar
Uppgöngutími: 160 mínútur (11:00 13:40)
Heildargöngutími: 240 mínútur (11:00 15:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 11 km
Veður Siglufjörður kl. 12.00: Léttskýjað, NA 3 m/s, 10,6 °C, raki 89%
Þátttakendur: Villiendurnar, 11 göngumenn.
GSM samband: Já
Gestabók: Já
Gönguleiðalýsing: Auðrötuð leið eftir þéttri tröð. Komið inn á fjallveg í efri hæðum.
Facebook-status: Enn einn dásamlegur dagur 😍
Heimildir:
Fjallabyggð.is - Siglufjarðarskarð
Jónas Kristjánsson - Siglufjarðarskarð
Siglufjarðarskarð - Jónas Kristjánsson
Stefán Gíslason - Fjallvegahlaup
Wikipedia - Siglufjarðarskarð
26.8.2019 | 12:45
Sköflungsvegur
Mosfellsheiði hefur gegnt merkilegu hlutverki í sögu samgangna milli Innnesja og Árnessýslu frá upphafi og lumar á ótal skemmtilegum gönguleiðum. Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi sem rís hæst 410 metra yfir sjávarmál í Borgarhólum en þeir eru kulnuð eldstöð.
Sköflungsvegur er ein af gönguleiðunum og liggur frá Draugatjörn við Húsmúla norður með hlíðum Hengils og Sköflungs og endar í Vilborgarkeldu, skammt frá Þingvallavegi.
Rúta keyrði göngumenn að Draugatjörn en vegurinn er lokaður skammt frá henni. Gengið var að réttinni, hlaðna garða frá tímum búskapar á Kolviðarhóli og þaðan að rústum sæluhússins og lesnar sögur úr nýprentaðri Árbókinni. Leiðsögumenn voru höfundar Árbókar FÍ, þau Margrét Sveinbjörnsdóttir, Bjarki Bjarnason og Jón Svanþórsson. Miðluðu þau fróðleik til göngufólks af mikilli þekkingu og innlifun.
Síðan var gengið undir Húsmúla en örnefnið kemur af sæluhúsinu sem var þarna. Lítið fell er í suðvestur og heitir Lyklafell. Maður tekur varla eftir því þegar Hellisheiðin er ekin en þegar maður fer öld aftur í tímann þá skilur maður af hverju nafnið er dregið. Það er lykill í samgöngum yfir Hellisheiði og yfir Mosfellsheiði. Í raun stór varða. Fóelluvötn eru skammt frá fellinu og skiptir vatn öllu máli í hestaferðum.
Í grænum Engidal var tekið kaffi. Skeggi í Henglinum dró að sér mikla athygli en undir honum voru kynjamyndir úr sorfnu móbergi. Má þar nefna dularfullt gil nefnt Kolsgil en vatnið hefur sorfið móbergið í tímanna rás. Þjófahlaup en sögur voru um útilegumenn undir Henglinum. Marardalur er stutt frá gönguleiðinni en þangað fóru ungir menn í helgarreisur. Einn af þeim var Matthías Jochumsson, og mögulega hafa þessar ferðir vakið hugmyndir að leikritinu Útilegumennirnir eða Skugga-Sveini árið 1861.
Farið vestan megin við Sköflung en horft yfir glæsilegan Grafning og Þingvallavatn frá Sköflungshálsi en Grafningsvegur liggur þar um. Gönguferðin endaði við Vilborgarkeldu en þar komust hestar og menn í vatn. Það er áhugavert að konur eru kenndar við keldur en karlar við fjöll.
Á leiðinni mættum við hestamönnum, motocross-hjólum, reiðhjólafólki og öðru göngufólki. Farastjórar hafa unnið við undirbúning bókanna í 7 ár og hafa tekið eftir að gróður hefur tekið við sér, bæði vegna minni beitar og hlýrra loftslags. Áður fyrr voru naut á beit og hreindýr á þessum slóðum. Kolviður áformar að kolefnisjafna útblástur með því að planta trjám á heiðinni. En taka verður tillit til náttúruminja.
Þjóðleiðir eru auðlind sem við verðum að varðveita. Besta leiðin er að koma þeim í notkun á ný.
Eftir að hafa gengið Sköflungsveg og skilið vegakerfið eftir frábæra leiðsögn frá Bjarka, Margréti og Jóni þá verður að koma upplýsingum á framfæri á leiðinni. En heiðin var orðin heillandi víðátta. Gera þarf góð upplýsingaspjöld á lykilstöðum og koma fyrir upplýsingum og vegprestum á leiðinni. Mosfellingar eiga að kunna þetta en fellin sjö eru vel merkt hjá þeim. Einnig hefur Ferðamálahópur Borgarfjarðar gert góða hluti með Víknaslóðir.
Gönguleiðir yfir Mosfellsheiði er góð viðbót fyrir göngufólk við fótskör höfuðborgarsvæðisins. Nú þarf ekki að leita langt yfir skammt en merkilegast er að skilja betur lífsstíl forfeðra okkar.
Á leiðinni var lesið úr árbókinni og komu þá hlutir í samhengi. Áhugavert var að heyra ferðalýsingar en ferðamenn fyrr á tímum áttu leið yfir heiðina. Margir þeirra lýstu heiðinni sem endalausu flæmi af grjóti og þótti hún heldur tilbreytingalaus en aðrir nutu kyrrðarinnar og þótti víðáttan heillandi.
Jón Svanþórsson farastjóri vann merkilegt verk en hann hnitsetti allar vörður á Mosfellsheiðinni og eru þær um 800 talsins og um 100 fylgja Þingvallaveginum gamla.
Í kjölfar árbókarinnar kemur síðan út göngu- og reiðleiðabókin Mosfellsheiðarleiðir eftir sömu höfunda, þar sem 23 leiðir á heiðinni eru kortlagðar og þeim lýst í máli og myndum.
Nú fara ekki lengur þreyttir baggahestar um Mosfellsheiði, heldur fer þar orka í raflínum austan úr sveitum. Hér er göngufólk að nálgast Vilborgarkeldu og Sköflungur er handan.
Dagsetning: 6. júlí 2019
Hæð í göngubyrjun: 271 metrar við Draugatjörn (N: 64.03.058 W: 21.24.969)
Engidalur: 253 m (N: 64.04.821 W: 21.22.598)
Kolsgil: 313 m (N: 64.06.419 W:21.19.731)
Frakkastígur varða (Jónsvarða) staur 198: 324 m (N: 64.07.711. W: 21.20.197)
Sköflungsháls: 315 m (N: 64.09.366 W: 21.18.271)
Hæð í göngulok: 221 metrar við Vilborgarkeldu (N: 64.11.996 W: 21.16.415)
Lækkun göngufólks: 50 metrar
Heildargöngutími: 540 mínútur (09:15 18:15)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 23 km
Veður: Heiðskýrt, N 4 m/s, 14,1 °C
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 20 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Já
Gestabók: Nei
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gamalli þjóðleið. Vel grafin á köflum og sýnileg.
Facebook-status: Stórfróðleg Árbókarferð um Sköflungsveg. Það er magnað hvað forfeður okkar hafa byggt öflugt vegakerfi um Mosfellsheiðina.
Heimild:
Árbók F.Í. 2019 Mosfellsheiði - landslag, leiðir og saga
Kort úr Árbók FÍ á bls. 103 sem sýnir Sköflungsveg og Draugatjörn sem lykilstað.
2.8.2019 | 21:53
Kvígindisfell (783 m) á Uxahryggjaleið
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur hefur leitt kvöldgöngur á föstudagaskvöldum sem kallast sumarnætur og eru í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Í þeim eru þekktir staðir heimsóttir og sagnir og þjóðlegur fróðleikur dreginn fram.
Ég skellti mér í ferða á Kvígindisfell á Uxahryggjaleið en þar erum við komin á slóðir Skúlaskeiðs sem Grímur Thomsen orti svo fagurlega um.
Haldið er af stað í gönguna frá Biskupsbrekku, norðan Víðikera og austan Hvannadala á Uxahryggjaleið og gengin auðveld leið upp á Kvígindisfellið.
Þegar vel viðrar er geysivíðsýnt til allra átta, bæði jöklasýn og til fjalla, allt norður í Húnavatnssýslu þegar best lætur. Þarna fengum við að upplifa landslag eins og inni á reginöræfum, samhliða mikilli fjallasýn.
Kvígindisfell er fornt móbergsfjall, frá síðkvarter, skorið giljum, 783 m hátt. Mikið útsýni er af fellinu. Nafnið vafðist fyrir mönnum og eru til frá síðustu öldum skýringarheitin Kvigyndisfell, Kvikfénaðaryndisfell, Kvikféyndisfell, Kvíindisfell ofl. Kvígindi eru ungir nautgripir eða geldneyti, sem þarna munu hafa verið á afrétti. (bls. 262)
Nokkur örnefni og bæjanöfn á landinu hafa kvígindi að forlið, Kvígindisá, Kvígindisdalur, Kvígindisfell og Kvígindisfjöll. Þessi nöfn er að finna í öllum landshlutum.
Smalaland Lunddæla suður fyrir Kvígindisfell er kallað Suðurfjall (afrétturinn norðan Grímsár er Norðurfjall) (bls. 260)
Snjólaus Skjalabreiður, ógnarskjöldur bungubreiður fylgdi göngufólki alla leið. Snjóleysið má skrifa á hamfarahlýnun af mannavöldum. Þoka lág yfir Þórisjökli og Ok en hin þekktu fjöll í kringum Þingvallavatn skörtuðu sínu fegursta. Þegar toppur Kvígindisfells nálgaðist skall á þoka og því ekki farið alla leið.
Á heimleiðinni las Ólína hestavísuna Skúlaskeið eftir Grím Thomsen og var gaman að heyra hrynjandann og tengja við örnefnin á leiðinni, Tröllaháls, Víðiker og Ok. Skúlaskeið er torfær og stórgrýttur kafli á Kaldadalsvegi. Skúli nokkur var dæmdur til lífláts á Alþingi, en komst undan vegna afbragðshests, Sörla, sem hann reið. Aldrei hefur enn í manna minni meira riðið nokkur Íslendingur.
Þeir eltu hann á átta hófahreinum
og aðra tvenna höfðu þeir til reiðar
en Skúli gamli sat á Sörla einum
svo að heldur þótti gott til veiðar.
Kvígindisfell séð frá Biskupsbrekku
Dagsetning: 19. júlí 2019
Hæð Kvígindisfells: 783 metrar
Hæð í göngubyrjun: 330 metrar við Biskupsbrekku (N:64.25.252 - W:20.59.086)
Kvígindisfell næsti efsti pallur (724 m): (N:64.24.441 W: 21.02.983)
Hækkun göngufólks: 394 metrar
Uppgöngutími: 150 mínútur (19:15 - 21:45)
Heildargöngutími: 225 mínútur (19:15 23:00)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður kl. 21.00 - Þingvellir: Skýjað, N 4 m/s, 14,1 °C, raki 67%
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, 50 þátttakendur í einni rútu.
GSM samband: Nei
Gestabók: Líklega ekki
Gönguleiðalýsing: Gengið eftir gömlum veg, síðan stefnt á norðaustur hluta fellsins og stikum fylgt. Leiðin er gróin fyrst og greiðfær. Fremur auðveld leið á ágætis útsýnisfell.
Facebook-status: Fínasta ganga i kvöld með Ferðafélagi Íslands á Kvígindisfell à Uxahryggjaleið
Heimildir:
Árbók F.Í. 2004 - Borgarfjarðarhérað
Vísindavefurinn - Hvað merkir nafnið Kvígindisfjörður
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.7.2019 | 11:30
Tunglið og Nautagil
Í dag, 20. júlí, er slétt hálf öld liðin frá því Apollo 11 lenti á tunglinu og í kjölfarið urðu Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Í undirbúningi fyrir leiðangurinn komu kandídatar NASA til Íslands í æfingaskyni og dvöldust þá meðal annars í Dyngjufjöllum við Öskju.
Ég gekk Öskjuveginn sumarið 2006 og skoðaði sömu staði og geimfarar NASA. Rifjast þessi gönguferð því upp í tilefni dagsins.
Geimfarar NASA sem unnu að Apollo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í gönguferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Apollo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 233594
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar