Sveinstindur (1.090 m)

Langisjór er meistaraverk. Við vesturenda vatnsins í Fögrufjöllum er glæsilegt fjall sem ber densilegan Sveinstind. Ég gekk á fjallið í ógleymanlegri ferð með ferðafélögum í Augnablik á sunnudag og var það endapunkturinn á ferðalaginu, Fegurðin við Langasjó.

Lagt var frá Sveinsbúðum við enda Langasjávar í spöku veðri að uppgöngunni frá sléttu vestan megin fjallsins. Gönguleiðin  er vel stikuð og er fyrst farið eftir meinlausu gili. Þegar gilinu sleppir er komið á öxl utan í fjallinu og þá er þræddur kambur sem endar á hátindinum. 

Minnti uppgangan á Kattahryggi í Þórsmörk og göngu á Tindfjallajökul því stundum er farið niður á við. 

Þegar fjallgangan var hálfnuð réðst þoka á okkur og fylgdi henni úrkoma í fyrstu.  Þokan var á undan okkur á tindinn og tók yfir hann. Hún sigraði fegurðina.

Á stalli fyrir neðan hátindinn sést mannvirki og einnig eru þar vegamót en tvær leiðir eru á tindinn. Hin leiðin er í skála Útivistar. Hér er hægt að villast.

Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir:  "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."

Þegar ég gekk framhjá tóftinni í þokusúldinni, þá var mér hugsað til Þorvaldar og félaga. Einnig til Fjalla Eyvindar og Höllu. Hvílík elja í Þorvaldi að leggja á sig tíu ára landkönnunarferðalag án flísfatnaðar og svefnpoka upp að -20. Það er þrekvirki að reisa vísindabúðir í 1000 metra hæð en á þessum árum var mjög kalt á Íslandi. Ef þið hafið fylgst með mannfjöldaþróun á Íslandi, þá eiga þessi tvö ár, 1889 og 2009 það sameiginlegt að fólki fækkaði á milli ára!
Ég skildi bakpoka minn eftir í vísindabúðunum og nýtti mér fagmannlegt handafl Þorvalds og félaga til að skýla honum.
Ég var mjög ánægður með að hafa farið alla leið á toppinn og leið mjög vel á eftir, þótt útsýnið hafi verið í einu orði lýsanlegt, þoka.  Nú hef ég ástæðu til að fara aftur. Til er annar densilegur Sveinstindur. Hann er á Öræfajökli og er næst hæsti tindur landsins, 2.044 m. Hann geldur þess svakalega að vera í nábýli við Hvannadalshnjúk. 
 
Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.

Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.

Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.

Langisjór var öllum ókunnur fram á miðja 19. öld.  Bjarni Bjarnson frá Hörgslandi fór í könnunarferð árið 1878 að Langasjó. Nefndu heimamenn tindinn Bjarnatind.  Dugði það ekki lengi því Þorvaldur Thoroddsen kom tvisvar í leiðangrum á svæðið, árin 1889 og 1893. Gaf hann Langasjó og Sveinstind ný nöfn sem haldist hafa síðan og munu lifa um ókomin ár.

 Sveinstindur

Guðmundur og Gaua á toppi Sveinstind að rýna í svarta þokuna.


Menn sem hata konur ****

Sænska spennumyndin Menn sem hata konur (Män som hatar kvinnor) er vel heppnuð og heldur manni vel við efnið.

Sagan er í Agötu Christie stíl. Dularfullt mannshvarf og allir fjölskyldumeðlimir hinnar efnuðu Vanger fjölskyldu liggja undir grun. Rannsóknarblaðamaðurinn Mikael Blomkvist er fenginn til að leysa þetta 40 ára gamla mál. Inn í málið kemur nútímakonan og tölvuhakkarinn Lisbeth Salander sem er vel leikin af íslenskættaðri Noomi Rapace.

Persónusköpun er góð og tekur nokkurn tíma í byrjun myndar. Inn í söguna fléttast "Byrgismál" og Nazistar eru endalaust fóður fyrir góðar fléttur.

Myndin byggir á bók eftir Stieg Larsson sem ég hef ekki lesið og hef því ekki samanburð milli miðlana. Veit ekki hvort ég leggi í bækurnar í vetur, hver veit. En mér líst vel á framhaldið.

Þetta er áhugaverð mynd fyrir tölvunörda. Þeir eiga sinn fulltrúa þó hann sé á jaðrinum og ekki skemmir fyrir að hafa konu í því hlutverki. Hún er eldklár í tölvuinnbrotum og vinnur á við eitt gengi. Það eru tvö atriði sem tölvuáhugamenn ættu að taka sérstaklega eftir.

1) Þegar Lisbeth sendir dulkóðaðan tölvupóst til félaga síns "Plague", þá kemur "decrypting" í stað "encrypting" á tölvuskjáinn.  Dulritun (dulkóðun, e. encryption) felst í stuttu máli í því að umrita tiltekin skilaboð þannig að óviðkomandi geti alls ekki komist að innihaldi þeirra.  Öfuga ferlið til að endurheimta upprunalegu skilaboðin er kallað dulráðning (afkóðun, e. decryption).

2) Myndin á að gerast árið 2005 en Michael og Lisbeth nota Apple MacBook Pros tölvu sem fyrst var seld árið 2006. Svo versnar það. Lisbeth notar Mac OS X 10.5 "Leopard" sem fyrst kom á markað í október 2007.  Þetta er smáatriði sem skiptir ekki máli en verður að vera til að gera myndina meira sannfærandi. Tæknin er færð fram í nútímann en glæpurinn stenst tímans tönn.

Góða skemmtun og reynið að finna skúrkinn á undan Mikael og Lisbeth.


Hop jökla

Þær eru áhrifamiklar myndirnar hjá Ragnari Th. Sigurðssyni af Jökulsárlóninu. Það fer ekki á milli mála að miklar breytingar eru á Lóninu og brátt verður þa' hinn dýpsti fjörður.  Einar Björn, staðarhaldari á Jökulsárlóni, nær kannski að bjóða ferðir inn að Esjufjöllum áður en hann kemst á eftirlaun.

Þær eru einnig mjög greinilegar breytingarnar á Gígjökli eða Falljökli í Eyjafjallajökli. Þær er ekki eins góðar og hjá RTH en segja sína sögu um áhrif hlýnunar á jökulinn. Fyrri myndin var tekin árið 2001 og síðari í lok júlí 2009.

 Gígjökull-Falljökull

Jökulsporðurinn teygir sig langt fram í Lónið. Mynd tekin 2. júní 2001. Þrem árum fyrr (1998) var skriðjökullin upp fyrir kambinn alla leið niður.

 Gígjökull07-2009

 Þann 28. júlí 2009 nær tungan varla niður í Lónið og það sér í nýtt berg.


mbl.is Myndröð af bráðnuninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskidagurinn mikli

skutan.jpgHvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og  fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu.  Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.

Næsta gata var Mímisvegur.  Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar.  Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.

Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.

Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.

Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og  á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun  sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.

 


Beta útgáfa af Morro frá Microsoft

Í lok júní gaf hugbúnaðarrisinn Microsoft út Beta útgáfu af fríum vírusvarnarhugbúnaði. Hann gengur undir vinnuheitinu Morro. Mikill áhugi er fyrir þessu útspili Microsoft enda hafa hætturnar á Netinu aldrei verið meiri.  Niðurstöður úr fyrstu prófunum af hugbúnaðinum hafa verið jákvæðar. Fyrsta sólarhringinn sóttu 75.000 manns beta-útgáfu.

Íslendingar geta ekki sótt eintak, aðeins notendur í Bandaríkjunum, Ísrael, Kína og Brasilíu fá að taka þátt í prófunum.

Morro

Skv. PandaLabs, þá voru Trójuhestar ábyrgir fyrir 70% af nýjum spilliforritum á tímabilinu apríl til júní. Það þarf öflugan hugbúnað til að taka á þessum óværum.  Kannanir sýna að nær öll fyrirtæki eru með vírusvarnir í tölvukerfum sínum og viðheldur þeim. Aftur á móti er en hinn almenni notandi ekki eins vel með á nótunum. Leyfin renna út og stundum er flókið að endurnýja þau. Tölvunotendur halda Því ótrauðir áfram með óvirkar vírusvarnir.

Ógnir á Netinu halda sífellt áfram að aukast og þróast. Öflugu vírusbanarnir, AVG og AVAST eru hættir að bjóða frían hugbúnað nema til skamms tíma. Því er þetta fría útspil hjá Microsoft hagkvæmt fyrir neytendur og upplýsingaöryggismál. Microsoft tekur hagnaðinn bara inn annars staðar. T.d. í hærra verði á stýrikerfi.

Vírusvarnarforrit ein og sér eru ekki endanleg lausn á vandanum. Tölvuþrjótar eru í vaxandi mæli farnir að koma spilliforritum innan um forrit eða skrám sem hægt er að vista af Netinu. Því eru öguð vinnubrögð og öryggismeðvitund nauðsynleg samhliða vírusvörnum. Burtséð frá því hvort þær séu fríar eður ei.


Nautagil

Sumarið 2006 kynntist ég Nautagili í Dyngjufjöllum.  Rifjast þá þetta upp.

Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.


Nautagil

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush? Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!


mbl.is Tunglfararnir vilja stefna á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta skólastigið

Hann Ari litli útskrifaðist úr Leikskólanum Álfaheiði á föstudaginn síðasta. Fyrir nokkru var útskriftarhátíðin og því var hóflegur kveðjustund enda orðið fámennt. Það hefja því 22 krakkar grunnskólanám í haust. Krakkarnir dreifast á nokkra skóla í Kópavogi og ætlar Ari í Hjallaskóla í haust.

Ari lærði magt í leikskólanum. Það var mikill knattspyrnuáhugi hjá strákunum. Knattspyrnuvöllurinn er einfaldur. Fjórar aspir notaðar sem markstangir. Umgjörðin minnir mig á afríska leikvelli.  Leikskólinn er örstutt frá Digranesi og því eru allir í HK. Ari hóf að vísu knattspyrnuferilinn í Breiðablik en skipti yfir í stórveldið fyrir ári síðan. Að sjálfsöguð gaf Ari skólanum bolta að skilnaði.

Fyrir utan hefðbundið nám, þá lærðu krakkarnir mannganginn í skák og svo er umhverfisvæn hugsun kennd í lífsmenntaskólanum.

Hér eru myndir sem sýna námsmanninn fyrir framan Lífsmenntaskólann Álfaheiði. Sú fyrri var tekin er fyrsti stóri dagurinn rann upp, þann 15. ágúst 2005.  Neðri myndin sýnir knattspyrnumanninn á síðasta skóladegi, 17. júlí 2009.

Ari upphaf

 

Ari lok


Barnet - Arsenal 2 : 2

Æfingatímabilið hjá Arsenal hófst í dag á Underhill leikvanginum á hefðbundnum opnunarleik við Barnet. Dökkbláu varabúningarnir voru notaðir í fyrsta sinn og boða ekki mikla heppni. Það var vorbragur á leik liðanna og lítil harka.   Hjá Arsenal hófu heimsþekktir leikmenn leikinn en í síðari hálfleik tóku minna þekktir við.

VermaelenGleðilegustu tíðindin voru að sjá Tékkann  Tomas Rosicky í liðinu eftir endurhæfingu í eitt og hálft keppnistímabil Hann var gerður að fyrirliða í tilefni dagsins.  Nýjasti leikmaður liðsins, Belginn, Thomas Vermaelen var einnig kynntur til sögunnar og var eini maðurinn sem spilaði allan leikinn.

Rússinn knái Andrei Arshavin kom Arsenal í forystu á markamínútunni en Yakubu jafnaði fyrir Barnet eftir fast leikatriði. Það þarf að fara vel yfir þau í Austurríki.

Í síðari hálfleik kom nýtt lið inná, 10 skiptingar og var Nacer Barazite fljótur að stimpla sig inn, skoraði gott mark. Barnet gafst ekki upp og á 83. mínútu jöfnuðu þeir eftir mikinn darraðardans í teignum. 

Það var létt yfir mönnum, þrátt fyrir jafnteflið. Spennandi tímar í hönd.

Byrjungarlið Arsenal: Manuel Almunia, Johan Djourou, William Gallas, Thomas Vermaelen, Mikael Silvestre, Jack Wilshere, Mark Randall, Emmanuel Frimpong, Tomas Rosicky, Andrey Arshavin, Sanchez Watt

Seinna lið Arsenal: Vito Mannone, Thomas Vermaelen, Craig Eastmond, Luke Ayling, Jay Simpson, Nacer Barazite, Thomas Cruise, Gilles Sunu, Francis Coquelin, Conor Henderson, Jay Emmanuel-Thomas


Nesja-Skyggnir (767 m)

Þeir voru litlir bílarnir á Hellisheiði þegar horft var yfir heiðina af Nesja-Skyggni. Stórbrotið var útsýnið yfir Suðvesturhornið. Þorpin fyrir austan fjall sáust vel, Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökull og Ingólfsfjall.  þegar gegnið var upp á brún, sást vel yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann.

Nesja-Skyggnir má muna fífil sinn fegri. Áður var hann hæsti hluti Hengilsins en hann er staðsettur í stórum og miklum sigdal sem er partur af mikli eldstöðvarkerfi og hefur gefið eftir. Því er Skeggi búinn að ná að toppa hann. Nesja-Skyggnir kom mér á óvart, flatur og sker sig ekki úr umhverfinu en ber nafn með rentu.

Rúmlega 50 manna hópur Útivistarræktarinnar hóf göngu frá tönkunum í mynni Kýrdals í rúmlega 400 m. hæð. Var Kýrdalshrygg fylgt eftir í kvöldkyrrðinni og áð á Kýrdalsbrúnum. Leiðin er vel stikuð og vegvísar víða.

Á bakaleiðinni var farin sama leið sást annað sjónarhorn. Þá sást vel yfir Þingvallavatn og öll frægu fjöllin í kringum það.  Fjölbreytt og skemmtileg ganga sem kom á óvart. Gaman að fara þegar snjór verður sestur á landið.

 

Dagsetning: 15. júlí 2009
Hæð: 767 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við tank í 405 metrum
Uppgöngutími:  2 tímar (19.15-21:15)
Heildargöngutími: 3 tímar og 15 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.05.075  21.18.665
Vegalengd: 7 km
Veður: N 5 m/s, 11.2 gráður, bjart - 73% raki
Þátttakendur: Útivistarræktin, 52 manns - spilastokkur

Gönguleiðalýsing: Auðveld og fjölbreytt ganga með geysimikið víðsýni.


Nesja-Skyggnir


Súla lika horfin

Það eru fleiri ár en Skeiðará sem hafa breytt um stefnu. Frétti frá göngumanni einum er gekk yfir Skeiðarárjökul fyrir skömmu að Gígjuhvísl hefur gleypt Súlu og því er einfalt mál að komast í Núpsstaðaskóg.

Fleiri sameiningar hafa orðið vegna breytinga á jöklum landsins. Áin Stemma á Breiðamerkursandi hvarf úr farvegi sínum á síðustu öld í Jökulsárlón. Það gerðist 1. september 1990, skömmu áður en til stóð að byggja yfir hana nýja brú.

Menn voru ekki jafn heppnir árið 1948 er Heinabergsvötn hurfu í Kolgrímu en nýbúið var að brúa vötnin við Hánípu. Síðan hefur staðið þar þurr brú.

Ég hef trú að Skeiðará skili sér til baka.

Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir Sæluhúsakvísl á Skeiðarársandi vatnslausa árið 2006 en nú er brúin horfin og komið svert rör í staðin.

Sæluhúsakvísl

 Heimild:  Árbók FÍ 1993, Við rætur Vatnajökuls.


mbl.is Skeiðará horfin í Gígjukvísl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 77
  • Frá upphafi: 236883

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband