Jöklarnir vita svo margt

Masaru Emoto 

Japanski vísindamaðurinn Masaru Emoto gaf út bókina Falin skilaboð í vatni. Þar segir hann frá rannsóknum sem hófust af tilviljun þegar honum datt í hug að kanna betur máltækið "engir tveir ískristallar eru eins." Hann frysti vatn og tók myndir af kristöllunum og komst að því að það var vissulega eitthvað til í þessu máltæki.

Rannsóknir Emotos tóku óvænta stefnu þegar hann ákvað af rælni að sjá hvaða áhrif tónlist og hljóðbylgjur hefðu á vatnið. Þannig ljósmyndaði hann ís sem myndaðist þegar hann spilaði 5. sinfóníu Beethovens, Mozart, Bach og "Let it be" eftir Bítlana. Í öllum tilfellum mynduðust einstaklega skærir og fallegir kristallar en "Heartbreak Hotel" með Elvis Presley varð frekar ljótur og sundraður ískristall, söluleiðis allt dauðarokk. Sama niðurstaða varð þegar jákvæð orð voru skrifuð og neikvæð.

Emoto vill meina að að jákvæðar og fallegar hugsanir skili sér beinlínis út í veröldina enda erum við 70% vatn.

Sturlungaöld í íslenskum stjórnmálum                                                 

Ísinn í Jökulsárlóni er talinn vera á bilinu 600-800 ára gamall og segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur að kristallarnir í þessum gamla ís séu hnefastórir. Ísinn geymir ókjör upplýsinga um fortíðina sem engan grunaði að hægt væri að kalla fram.

Ef það sem Emoto segir er rétt, að orð, texti og hugsanir hafi áhrif á vatnið og minningar varðveitist og geymist má segja að það sé sjálf Sturlungaöldin sem kelfir fram í Jökulsárlónið um þessar mundir. Það spillir ekki upplifuninni að því að fylgjast með jöklum ryðjast fram og brotna sem aldrei fyrr. Orð, textar og hugsanir sem voru á sveimi á 13. öld og lágu frosin í 800 ár losna nú úr viðjum sínum. Hvort hugmyndirnar fara aftur á kreik er erfitt að segja. Þarna brotnar ís og bráðnar frá tímum þegar stórhöfðingjar risu til valda og ríkir menn og kaldráðir lögðu undir sig heilu landshlutana, útrás og þrá eftir frægð, fram og viðurkenningu endaði með innrás. Það liggur eitthvað í loftinu og jakarnir bráðna sem aldrei fyrr.

Er árið 1262 að bráðna í Jökulsárlóni en þá var Gamli Sáttmáli undirritaður, rétt eins og IceSave og EES-umsókn. Neikvæðu hugsanirnar og aðgerðirnar á Sturlungaöld eru að hafa áhrif á mannfólkið.

Heimild:

Lesbók Morgunblaðsins, Andlit frá Sturlungaöld, laugardagur 29. apríl 2006. Andri Snær Magnson.

Klakar

 


Breiðablik massar yngri flokkana

Þegar úngur ég var, fyrir 30 árum var UBK með bestu yngri drengjaflokkana á landinu.  Nú, þrem áratugum síðar er sama staða uppi en ekki hefur meistaraflokkur unnið alvöru titil á þessu langa tímabili. Ávallt verið efnilegir. Kannski verður upphafið að umbreytingunni á morgun, ef liðið kemst í úrslit bikarsins. Þeir eiga amk góðar fyrirmyndir í 4. og 5. flokk.

Í dag horfði ég á úrslitaleik 4. flokks á Kópavogsvelli. Breiðablik og KA kepptu lokaleikinn og höfðu Blikar öruggan sigur 3-0.  Spilið hjá Blikum var mjög gott og vörnin traust.  Umgjörðin um leikinn var mjög góð.

Fyrsta mark Blika var mjög gott, enda búa sóknarmenn liðsins yfir mikilli knatttækni. En næstu tvö mörk voru af ódýrara taginu. Hafði blautur völlurinn eflaust áhrif á varnarvinnuna.

Hvor hálfleikur er  í 35 mínútur og ellefu leikmenn inná en skipta má öllum leikmönnum inná eins oft og hentar.

Um síðustu helgi horfði ég á úrslitaleik 5. flokks á Hlíðarenda. Sömu lið glímdu og fóru leikar 4-0 fyrir þeim grænu.  Hvor hálfleikur stendur yfir í 20 mínútur með sjö leikmönnum og má skipta eins og í handboltaleik.  Umgjörðin var flott, topp dómari, Kristinn Jakobsson.

Annars var dagurinn ekki góður úrslitalega séð fyrir mig. Almunia tapaði fyrir Givens og Adebayor, 2-4 í ensku Úrvalsdeildinni og HK missti af úrvalsdeildarsæti.

Verdlaun


Kevin Mitnick - tölvuhakkari í heimsókn

Kevin Mitnick er einn þekktasti tölvuhakkari veraldar. Þegar hann var ungur var hann eins hæfileikaríkur í sínum geira og Diego Maradona í fótbolta.

Hann var um skeið á Top 10 Most Wanted-lista FBI og hefur verið umfjöllunarefni kvikmynda, fjölmargra heimildarmynda og fréttaþátta á borð við 60 Minutes. Mitnick starfar nú sem sérfræðingur og ráðgjafi í öryggislausnum og er einn virtasti fyrirlesari veraldar á sviði upplýsingatækni.

Kevin hefur snúið við blaðinu efir að hafa setið í fangelsi í fimm ár. Hann er hættur að brjótast inn í tölvukerfi stórfyrirtækja og orðinn öryggisráðgjafi. Hann er staddur hér á landi og heldur fyrirlestur á Haustráðstefnu atvinnulífsins sem Skýrr heldur í dag.

Fyrirlesturinn sem hann flytur fjallar um bragðvísi (e. social  engineering) en hún fjallar um beiting bragða í mannlegum samskiptum til að fá tölvunotanda til að slaka á öryggiskröfum eða brjóta öryggisreglur. Oft er höfðað til hjálpsemi þess sem fyrir verður eða veikleika hans, svo sem græðgi eða óheiðarleika.

En fólk er veikasti hlekkurinn í tölvuöryggismálum og rannsóknir sýna að 70% brota eru framin innan veggja fyrirtækisins.


Norðmenn geta komist á HM

Eru hinir miklu íþróttablaðamenn Morgunblaðsins að klikka?

Í fréttinni stendur: "Norðmenn eru með 7 stig og ljóst að þeir fara ekki í umspil fyrir HM, enda eiga þeir ekki meira erindi þangað en lið Íslands miðað við leik liðanna í kvöld."

Mér sýnist Norðmenn eiga möguleika á að komast í umspil. Ef þeir vinna Makedóníu og Hollendingar halda sigurgöngu sinni áfram, þá verða Skotland og Noregur jöfn að stigum. Bæði verða með 10 stig. Norðmenn hafa þá bæði betri markatölu og einnig koma þeir betur úr innbyrðis viðureignum.

Hins vegar er það rétt hjá hinum miklu blaðamönnum Moggans. Norðmenn eiga ekkert erindi á HM.

Staðan fyrir síðustu umferð:

Staðan

 

Leikir á miðvikudaginn, 9. september:

Skotland - Holland

Noregur - Makedónía

Skemmtileg staða getur einnig komið upp, vinni Makedónía Noreg og Hollendingar standa sína pligt. Þá verða Makedónía og Skotland með 10 stig. 


mbl.is Norðmenn sluppu fyrir horn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld lykilorð skapa hættu á Netinu

Notar þú sama lykil fyrir húsnæði, bíl og bílskúr?

Svarið er neitandi, því  fólk vill ekki taka áhættur. Hins vegar er algengt að fólk noti sama lykilorð fyrir einkabankann, tölvupóstinn og fésbók.

Auk þess eru lykilorð yfirleitt einföld en þau ættu að vera samsett úr tölum og stöfum sem erfitt er að geta upp á.

Í könnun sem nýlega var gerð í Bretlandi af tryggingarfyrirtækinu CPP kom fram að helmingur notenda notaði sama lykilorð fyrir helstu athafnir í rafheimum.

Einnig kom fram að  40% tölvunotenda í könnunni svöruðu því játandi að þeir hefðu gefið lykilorðið upp til amk einnar annarrar persónu og einnig töldu þeir að 39% þeirra hefðu notað sér lykilorðið. 

Ekki hefur verið gerð nein rannsókn á notkun lykilorða hér á landi en ekki kæmi mér á óvart að niðurstöður yrðu svipaðar.


Inglourious Basterds ****

That's a bingo!    - Colonel Hans Landa

IBAusturríski leikarinn Christoph Waltz er stórgóður í hlutverki gyðingaveiðarans Hans Landa í stríðsmyndinni Inglourious Basterds. Stórmagnað  er að fylgjast með yfirheyrslum hans. Það er leikur kattarins að músinni. Setningin hér að ofan er hápunktur í einni yfirheyrslu hans.

Quentin Tarantino fer sínar óhefðbundnu leiðir í kvikmyndagerðinni. En handritið var í vinnslu í áratug. Myndin er kaflaskipt eins og í Kill Bill. Flott myndataka með löngum samtölum. Þetta er hans eigin stríðsmynd og í stiklu með myndinni segir hann að þarna séu stórbrotnar persónur sem hefðu breytt stríðinu hefðu þær verið til. 

Tónlistin er athyglisverð.  Hún spannar allt frá mexíkóskum spaghettívestrum til David Bovie með lagið Putting Out Fire úr Cat Peole, en undir laginu fylgdi eitt magnaðasta atriði myndarinnar.

Mér er minnisstætt þegar við vorum í smekkfullu Háskólabíó á Kvöldstund með Tarantino í lok árs 2005. Þar voru sýndar þrjár Kung-Fu myndir í einum rykk. Hann hvatti fólk til að hvetja söguhetjuna áfram og var fremstur í flokki. Þetta átti að minna á kappleik. Sama hugmynd er notuð í þessari mynd en sögusviðið gerist að hluta í kvikmyndahúsi í París.

Góður tímapunktur að fara á myndina og minnast þess að í dag, 1. september,  eru nákvæmlega 70 ár síðan Heimsstyrjöldin hófst.

 


Aldrei víti á OT

Það er alltaf gamla góða sagan, þau eru sjaldséð víti gestanna á Old Trafford.

Arshavin svarað vel fyrir sig, 24 sekúndum eftir samsærið skoraði hann gott mark!  Svona gera ekkert annað en alvöru menn.

Tölfræðin er skemmtileg. Í síðustu 68 leikjum í Úrvalsdeildinni sem Arsenal hefur leitt í hálfleik  hefur leikur ekki tapast. Vonandi fer teljarinn í 69 eftir leikinn í dag.

Gallas er út um allt. Mikið hefur Vermaelen haft góð áhrif á bardagmanninn.


mbl.is Manchester United lagði Arsenal, 2:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sauðadalahnúkar (583 m)

Þeir eru ekki áberandi Sauðadalahnúkar enda eru þeir vel faldir á bak við Vífilsfell og láta lítið yfir sér í ríki mótorhjólanna. Það þurfti að halda yfir til Árnessýslu.

Ekið eftir Suðurlandsvegi að Litlu-kaffistofunni og þaðan í átt að Jósefsdal. Svæðið norðaustan við mynni Jósefsdals nefnist Sauðadalir og hnúkarnir tveir sunnan þess Sauðadalahnúkar. Fyrst var gengið á nyrðri hnúkinn og í framhaldi af því á þann syðri með viðkomu í gamla skíðaskála Ármanns. Farið var fram af syðri hnúknum og komið í Ólafsskarð og gegnið eftir Jósefsdal til baka.

Af hnúkunum tveim sjáum við svo inn í Jósefsdalinn. Hann er luktur fjöllum á alla vegu. Snarbrattar, gróðurlausar skriður ganga allt upp til efstu brúna en grænar grundir hylja dalbotninn. Ekki er vitað um búsetu manna í þessum dal svo skjalfest sé, en ef marka skal þjóðsöguna um Jósef þá hefur staðið þar býli. En það fór illa fyrir Jósef. Hann var smiður góður og allt lék í höndum hans, en sá ljóður var á hans ráði að hann var hverjum manni orðljótari. Einhverju sinni stóð hann í smiðju sinni.
Eitthvað fór úrskeiðis hjá honum, því hann tvinnaði svo heiftarlega saman blóti og formælingum að bærinn sökk í jörð niður með manni og mús. Síðan hefur enginn búið í dalnum.

Þegar ekið var að Sauðadalahnúkum var keyrt framhjá mótorkrossbraut. Það var mikið fjölmenni á staðnum enda lokaumferðin í Íslandsmótinu framundan. Það var skrítin en skemmtileg tilfinning að keyra meðfram brautinni og sjá kappana skjótast upp úr gryfjunni eins og korktappar. Þeir nota stærra svæði og keyra eftir vegslóðum fyrir lengri æfingar. Það er frekar truflandi að hafa öflug mótorhjól þegar maður er að ganga úti í náttúrunni en mótormenn verða að hafa sitt svæði. Ef þeir halda sig þar og fylgja skipulaginu, þá er komin góð sátt.

Dagsetning: 19. ágúst 2009
Hæð: 583 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við bílastæði í 280 m.
Uppgöngutími:  45 mínútur á nyrðri og 20 mínútur á syðri hnúk.
Heildargöngutími: 2 klst og 20 mín. (19:10 - 21:30) 
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.01.638 - 21.31.926
Vegalengd: 7 km
Veður: 10 gráður, hægviðri og bjart
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 62 manns

Gönguleiðalýsing: Auðveld tveggja hnúka  ganga með sýn yfir Jósepsdal, Hellisheiði og Árnessýslu.

IMG_4103


Vegaslóði við bakka Langasjávar

Mikil umræða hefur verið um vegaslóða eftir þarfa grein frá fv. umhverfisráðherra, Kolbrúnu Halldórsdóttur.  Friðlandið í Þjórsárverum er helzt til umræðu.

Um miðjan ágúst var ég ásamt góðum gönguhóp á vegum Augnabliks að upplifa fegurðina við Langasjó.  Hægt er að fara eftir vegaslóða fyrir ofan vatnið og upp á Breiðbak (1.018 m). Þaðan er hægt að komast í Jökulheima og er sú leið oft farin af jeppamönnum. 

Einnig er slóði eftir jeppa meðfram vestari bakka Langasjávar. Leitarmenn hafa notað hann til að komast inn eftir vatninu.  Í nýjustu útgáfu GPS kortagrunns er slóði þessi merktur inn. Stundum þarf að krækja fyrir kletta og keyra út í vatnið.

Ung par fór eftir upplýsingum úr GPS tæki á jeppling sínum og fylgdi slóðanum meðfram vatninu  (sjónum) langa. Það komst alla leið, tæpa 20 km en keyrði lúshægt. Því dauðbrá, það taldi að slóðinn (vegurinn) væri betri út af því að hann væri merktur inn á kortagrunninn.
Það þarf að flokka vegslóðana á hálendinu betur.

IMG_3882

Krækja þarf fyrir móbergshrygginn sem skagar út í vatnið til að komast áfram. Vegslóðinn er um 16 km frá Sveinstind og liggur eftir bakkanum norðanverðum. Gæti verið í svokallaðri Bátavík, eigi langt frá tíu skeyta skeri.


Einhver Englendingur

Ég hef verið að fara yfir heimildir um sögusvið Langasjávar eftir áhrifamikla ferð þangað um síðustu helgi.

Tímarit.is er stórgóður vefur. Þar er hægt að fletta upp í gömlu blöðunum sem komu út á 19. öld.

Árið1878 er þess getið í fréttabréfi í blaðinu Ísafold að í Skaftárfjöllum, sem nú séu kölluð Fögrufjöll, hafi fundist tveir grösugir dalir og norður af þeim sé vatn sem haldið sé að Skaftá renni úr. Getur þar varla verið um annað en Langasjó að ræða. En hér segir, þótt óljóst sé, frá ferð Skaftfellinga upp um fjöllin og var þar helstur Bjarni Bjarnason frá Hörgslandi.

isafold-fogrufjoll.jpg

Það er margt athyglisvert við þessa stuttu frétt. Hér miðast allt við afkomu sauðfjár. Nafnið á vatninu er óljóst en Þorvaldur Thoroddsen kom í rannsóknarferðir árin 1889 og aftur 1893. Hann gaf vatninu nafnið Langisjór. Þá gekk skriðjökull niður í eftri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá
jökulröndinni að vatnsendanum. Nafnið Fögrufjöll er þó komið í stað Skaftárfjalla og hefur því ekki komið  frá Þorvaldi. Endapunkturinn er svo stórmerkilegur. Af hverju þurfti einhvern Englending til að kanna fallega landið okkar?  Hvað segir þetta um sjálfsmynd okkar á þessum tíma?

Heimild:

Ísafold,  24. tölublað (30.09.1878), bls. 96

Landið þitt Ísland, Örn & Örlygur

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 98
  • Frá upphafi: 236881

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 86
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband