14.7.2009 | 18:29
Adebayor ekki sá vinsælasti á Emirates
Stuðningsmenn Arsenal hafa gert síðasta keppnistímabil upp og kusu þeir Robin van Persie leikmann tímabilsins. Hafði hann nokkra yfirburði í kosningunni og þakkaði fyrir sig með því að skrifa undir samning til langs tíma.
Fjórir efstu í kjörinu ár arsenal.com urðu:
Robin van Persie 35.3%Andrey Arshavin 19.4%
Manuel Almunia 10.4%
Samir Nasri 8.1%
Athygli vekur að hinn dýri Tógómaður, Emmanuel Adebayorsem er full oft rangstæður og snillingurinn Cesc Fabregas komust ekki á listann. Mikið hefur verið rætt um sölu á Adebayor til Manchester City. Síðustu sölutölur eru nokkuð háar. Vonandi fer Adebayor, leikmaður ársins í Afríku fyrir metfé á samdráttartímum. Það kemur maður í manns stað en ég á eftir að sakna afrísku töfranna. Eitt besta mark sem maður hefur séð kom frá Ade á móti Villareal (1-1) í Meistaradeildinni i vor. Hjólhestaspyrna neðst í markhornið.
![]() |
Manchester City á eftir Adebayor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2009 | 21:10
Stóra-Kóngsfell (602 m) og Drottning (516 m)
Stóra-Kóngsfell (602 m) í Bláfjallafólkvangi var gönguverkefni síðustu viku. Ég var ásamt tæplega 70 Útivistarræktendum í ferðinni í nælonblíðu. Eftir að hafa keyrt malbikaðan Bláfjallaveg var beygt til vesturs og stoppað skammt frá norðurenda fellsins í tæplega 400 metra hæð. Gengið var yfir mosavaxið úfið hraun upp með vesturhlið fellsins. Eftir tæpa klukkutíma göngu var toppnum á Stóra-Kóngsfelli náð. Þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Á toppnum er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. En eitthvað hefur landamerkjum verið breytt. Því er ekki öruggt að með hringferð í kringum vörðuna hafi náðst að heimsækja fjögur sveitarfélög á sekúndubroti.
Þegar horft er til vestur af Stóra-Kóngsfelli, blasa Þríhnjúkagígar við. Þangað er tæplega 2ja kílómetra gangur. Austasti hnjúkurinn er stórmerkilegur. Opið í toppi hnjúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur.
Þegar horft var til austurs blöstu Bláfjöllin við með snjólausar skíðabrekkur en á milli þeirra var lágreist fjall sem ber stórt nafn, Drottning (516 m). Þangað var förinni heitið hjá flestum í ræktinni. Gangan eftir mosavaxinni hrauntröð varði í 300 metra og sáust margir forvitnilegir hellar. Uppgangan á Drottningu var auðveld og þurfti aðeins að hækka sig um 90 metra. Þegar á miðja Drottningu var komið sást vel yfir Eldborg. Hún er mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraun hefur runnið út um. Gígurinn er um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur. Hólmshraun sem nær niður í Heiðmörk er ættað þaðan og rann fyrir um þúsund árum.
Það náðist því þrenna þetta miðvikudagskvöld og í brids eru þetta 6 hápunktar ef Eldborg er túlkuð sem gosi.
GPS:
Stóra-Kóngsfell: N: 64.00.047 - W: 21.39.689
Drottning: N: 63.59.967 - W: 21.38.648
Gengin vegalengd rúmir 6 km í kvöldkyrrðinni og tók rúma þrjá tíma.
Hluti af Útivistarræktinni fyrir framan takmarkið, Stóra-Kóngsfell.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2009 | 00:16
Hólárjökull
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem er einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli. Hann er rétt austan við Hnappavelli.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 2. júlí 2009. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Það er þó meiri snjór í fjöllum í ár. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. G8-leiðtogarnir voru linir á Ítalíu hvað átak í hnattrænni hlýnun varðar. Spái því að jökultungan verði horfin innan áratugs.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2009 | 23:57
Jón Sveinsson (1933-2009)
Í dag var til moldar borinn í Hafnarkirkju nágranni af Fiskhólnum, Jón Sveinsson. Sjómaður af guðs náð sem sótti mikinn afla í greipar Ægis. Jón var hress og skemmtilegur persónuleiki og hafði smitandi hlátur. Hann var góður spilamaður og glímdum við oft saman í brids og Hornafjarðarmanna. Það voru eftirminnilegar baráttur.
Hugur mans leitar til baka og hér eru nokkrar myndir sem ég fann í myndasafni mínu.
Sveit Hótel Hafnar með sigurlaunin í Aðalsveitakeppni Bridsfélags Hornafjarðar: Jón Sveinsson, Jón Skeggi Ragnarsson, Baldur Kristjánsson og Árni Stefánsson.
Hreindýramót Bridsfélags Nesjamanna 1992. Einar Jensson, Þorsteinn Sigurjónsson, Örn Ragnarsson, Kolbeinn Þorgeirsson, Jón Sveinsson og Árni Stefánsson.
Jón Sveinsson, Þórir Flosason og Árni Stefánsson.
Dægurmál | Breytt 8.7.2009 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2009 | 14:12
Einar Björn breytir sögubókunum
Einar Björn Einarsson staðarhaldari á Jökulsárlóni er að koma fram með staðreyndir sem breyta sögubókum landsins. Nú þarf að endurmennta alla landsmenn, fræða þá um nýjar staðreyndir. Öskjuvatn sem hefur verið leiðandi í dýpt stöðuvatna á Íslandi frá 1875 er komið í annað sætið. Ísland er því stöðugt að breytast.
Í síðustu viku heimsótti ég á Reykjanesi stöðuvatn með djúpt nafn, Djúpavatn. Gígvatnið er dýpst tæpir 17 metrar. Dýpra er það nú ekki.
Topp 9 listinn yfir dýpstu stöðuvötn fyrir mælingar Einars leit svona út:
1. | Öskjuvatn | 220 | m |
2. | Hvalvatn | 160 | m |
3. | Jökulsárlón, Breiðamerkursandi | 150 | m |
4. | Þingvallavatn | 114 | m |
5. | Þórisvatn | 114 | m |
6. | Lögurinn | 112 | m |
7. | Kleifarvatn | 97 | m |
8. | Hvítárvatn | 84 | m |
9. | Langisjór | 75 | m |
Heimild:
![]() |
Jökulsárlón tekið við sem dýpsta vatn Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.6.2009 | 11:54
Svartsnigill
Í ferð á Grænudyngju á Reykjanesi rakst ég á nokkra svartsnigla. Það þótti mér ekki mjög spennandi sjón enda sniglarnir á stærð við litlaputta. Ég fór að afla mér vitneskju um snigilinn en hann er náskyldur Spánarsniglinum. En mun minni og ekki eins gráðugur. Ekki hafði ég áhuga á að taka sniglana upp enda er hann slímugur og ferlegt að fá slímið á fingur eða í föt. Það fer seint og illa af skildist mér.
Svartsnigill (Arion ater (Linnaeus, 1758)), hefur verið landlæg hér um aldir en þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta hans í ferðabók sinni árið 1772. Svartsnigill hefur fundist víða um land en er algengastur á landinu sunnanverðu, einkum í gróðurríkum brekkum og hlíðum sem vita mót
suðri. Hann er að öllu jöfnu svartur á lit, 1015 cm langur, stundum allt að 20 cm í nágrannalöndunum.
Hérlendis nær hann ekki þvílíkri stærð.
Heimild:
http://www.ni.is/media/dyrafraedi/poddur/spanarsnigill_75-78_150-maria.pdf
28.6.2009 | 11:33
Ár frá Náttúrutónleikunum í Laugardal
Í dag er slétt ár síðan eftirminnilegir stórtónleikar með Sigur Rós og Björk voru haldnir í Laugardalnum. Voru þeir haldnir undir heitinu Náttúra. Vefsvæði þeirra er nattura.info. Yfir 30.000 manns mættu í dalinn og milljónir fylgdust með á Netinu.
Ég setti saman stutt myndband við lagið Glósóli með Sigur Rós. Á einu ári höfðu 12,437 manns horft á myndbandið á Youtube. Áhorfið var mest í kjölfar útitónleikanna. Margar athugasemdir hafa verið skráðar og nokkrir póstar komið til mín. M.a. náði ég að mæla meistaraverkinu Heima með Sigur Rós við aðdáanda í Mexíkó. Hann keypti eintak og var ánægður með mynddiskinn þó dýr væri. Það hefur margt breyst á þessu eina ári. Þarna mátti sjá Birgittu Jónsdóttur með fána Tíbets. Nú er hún komin á þing í gegnum Búsáhaldabyltinguna. Heimildarmyndin Draumalandið sýnd við góða aðsókn í kvikmyndahúsum og vakið miklar umræður. Skelfilegt bankahrun sem kallar á nýjar lausnir og vonandi verður það ekki á kostnað náttúrunnar.
27.6.2009 | 09:29
Thriller
Michael Jackson (1958-2009), konungur poppsins og höfundur Thriller er allur. Þegar stórstjarna fellur frá er almenningur og fjölmiðlar fullir af fréttum af goðinu. Það selur. Hugur minn reikar aftur við að sjá fréttir um andlátið.
Mín helsta minning um Michael Jackson er Thriller. Platan sem innihélt níu topplög kom út árið 1982. Þá var ég í heimavist Menntaskólans að Laugarvatni. Ég minnist þess að hafa oft heyrt lagið Thriller keyrt í botni á Nös. Félagi Einar Örn spilaði það svo hátt í öflugum græjum sínum. Oft vaknaði maður upp við Thriller. Á ólíklegustu tímum. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Einar Örn spilaði Thriller svo oft fyrir heimavistina að ég keypti aldrei plötuna. Þurfti þess ekki. Nú rifjar maður upp góða og eftirminnilega tíma. Þökk sé Einari Erni og Michael Jackson.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 21:07
Grænadyngja (402 m)
Við Hanna hættum okkur á jarðskjálftasvæðið á Reykjanesskaga með Útivistarræktinni á sólríku og fallegu miðvikudagskvöldi. Markmiðið var að kynnast Grænudyngju og umhverfi hennar. Dyngjan græna var einnig fyrsti áfangi í litafjallaröðinni sem áformuð er af sögumanni. Ekki skalf jörð undir fótum okkar, þó stór hópur þrýsti á jörðina, rúmlega 70 manns.
Reykjanes kemur manni sífellt á óvart. Kannski hef ég verið með einhverja fordóma um að það væri lítið að sjá á Reykjanesskaga. Ferðin á Grænudyngju kom mér á í opna skjöldu, þetta er klárlega einn fallegast staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Litadýrðin og fjölbreytni náttúrunnar er svo mikil.
Fyrst var ekin skemmtileg leið vestan Sveifluháls að Djúpavatni. Gígvatnið kom við sögu í Geirfinnsmáli 1974 og var mikið leitað þar að líki. Vatnið austan megin Sveifluháls heitir Kleifarvatn og er sögusvið samnefndrar bókar eftir Arnald Indriðason. Þau eru því dularfull vötnin á Reykjanesi. Frá Djúpavatni var lagt af stað í hringferð að Grænudyngju. Fyrst var komið við á fjallinu vestan við Djúpavatn og sá vel yfir spegilslétt vatnið. Ekkert grunsamlegt sást en sjónarhornið var stórglæsilegt. Þegar horft var í suðurátt sást í Grænavatn. Síðan var haldið í vestur, framhjá Spákonuvatni sem er í 288 m hæð og yfir í Sogasel. Það er eitt magnaðasta selstæði landsins. Selin frá Vatnsleysuströnd er staðsett í miðjum gíg, Sogaselsgíg. Gígurinn er einstaklega fallegur og vel gróinn og hefur gefið skepnum gott skjól. Áð var á rústum selsins og orku safnað fyrir síðasta áfanga ferðarinnar, sjálfrar Grænudyngju.
Sogaselsgígur er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Op hans snýr í suður.
Ferðin upp á Grænudyngju var stórbrotin. Hækkun er 200 metrar og fylgdu Keilir og Trölladyngja okkur alla leið. Á leiðinni rákumst við á stóra svarta snigla, það var mikið af þeim. Ég vildi ekki fá þá inn í tjaldið mitt. Þegar á toppinn var komið á flatri dyngjunni var útsýni yfir allan Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið og áberandi álverið. Snæfellsjökull reis densilegur í norðvestri. Fallegast er þó að horfa skammt á Grænudyngju. Í suðri eru Sog, feikna litskrúðugt hverasvæði. Grágrænn litur í hólum er áberandi og er það ekki algeng sjón. Í norðri sér í hrauntauminn kenndur við Afstapahraun sem runnið hefur úr dyngjunni.
Grænadyngja (N:63.56.263 - W:22.05.334) með Trölladyngju í bak. Sogin eru í forgrunni en þar má sjá virka hveri. Hveravirknin fer minnkandi. Sogin eru mjög litskrúðug.
Þetta var mjög gefandi gönguferð og enn kemur Ísland manni á óvart. Ég horfi daglega á fjallgarðinn sem Grænadyngja er í út um eldhúsgluggann og hefur hún ekki vakið athygli mína fyrr en nú. Gangan á dyngjuna var vel útfærð af Ragnari Jóhannessyni hjá Útivistarræktinni. Allar áhyggjur voru skyldar eftir heima og klúður eins og IceSave komust ekkert að í hausnum á manni. Svo mikið af litum og náttúruundrum var að meðtaka. Gengnir voru rösklega 7 km og tók það þrjár klukkustundir. Hér er myndbrot sem sýnir göngumenn á toppnum.
Varðandi litafjallaröðina, þá fékk ég þá hugmynd að ganga á fjall sem bæri nafn litar eftir að hafa séð sýningu hjá Náttúrusafni Íslands, Litir náttúrunnar, á Hlemmi um liti og örnefni. Mörg örnefni Íslands tengjast litum. T.d. Grænadyngja, Bláfell, Rauðafell, Svartafell, Gráfell og Hvítafell. Bera síðan saman fjöllin og finna út besta litinn. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.6.2009 | 15:56
Vinur Vatnajökuls
Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls. Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.
Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum. Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.
Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll eftir þá frásögn.
Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.
Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.7.): 5
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 81
- Frá upphafi: 236887
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 72
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar