20.10.2019 | 19:11
Loftmengun - orðaskortur í byrjun bílaaldar
Fyrsti bíllinn kom til Hafnar árið 1927 en Hornfirðingar voru ekki sammála um ágæti þessa fyrsta faratækis [...] og bóndi nokkur vildi láta banna notkun þess því að það eyðilegði alla hesta og svo færi það svo illa með vegi. 95
En ef skaftfellski bóndinn sem vitnað er í hér að ofan hefði einnig minnst á mengunina sem kemur frá bifreiðunum þá hefði hans verið getið í annálum og öðlast mikla frægð fyrir víðsýni og gáfur. Orðið annar Skaftfellskur ofviti. En orðið var ekki til. Eða er eftir honum rétt haft?
Andri Snær Magnason sem nýlega gaf út meistaraverkið Um tímann og vatnið hefur fjallað um orðanotkun og hugtök.
Súrnun sjávar er stærsta breyting á efnafræði jarðar í 50 milljón ár ásamt því sem er gerast í andrúmsloftinu. Það hlýtur að koma mér við. En hvernig á ég að segja frá þessu í bók? Orðið súrnun er ekki þrungið merkingu eins og kjarnorkusprengja. Ég þarf að gera lesandanum ljóst að orðið sé risavaxið en hafi allt of litla merkingu. Það er meðal þess sem ég reyni í þessari bók. Fréttablaðið 4. október 2019
Sama henti skaftfellska bóndann í byrjun bílaaldar, það var ekki til orð yfir mengandi útblásturinn frá bílnum. Orðaforðinn kemur á eftir tækninni. Hefði bóndinn nefnt orð sem tengdist útblæstrinum hefði þessi neikvæða setning um hann ekki verið jafn neyðarleg. Ef hann hefði notað orð eins og loftmengun, olíumengun, útblástur eða sótagnir þá hefðu þau orðið nýyrði og merki um mikla visku.
Vefurinn timarit.is er merkilegur vefur og leitaði ég eftir fimm mengandi orðum sem getið er ofar.
Orðið loftmengun kemur fyrst fyrir í byrjun árs 1948 í Morgunblaðinu. Um 20 árum eftir að fyrsti bíllinn kemur til Hornafjarðar: Ekki var þó gert ráð fyrir að hjer yrði um svo mikla loftmengun að ræða, að hætta stafaði af. Segir í fréttinni.
Árið 1934 er fyrst minnst á útblástur gufu en áður notaði í merkingunni stækkun, eða úrás. Fyrsti útblástur mótorvélar í Siglfirðingi 25. janúar 1942.
Olíumengun kemur fyrst fyrir 1955,
Sótagnir koma fyrst fyrir í krossgátu 1953 en í tímaritinu Veðrið 1956 Auk þess hrífa droparnir með sé í fallinu sótagnir þær, sem kunna að vera svífandi i loftinu fyrir neðan skýin
Orðið mengun er þó fyrir bílaöld á Íslandi en notað um skemmd. mengun af ormarúg, Norðanfari, 20. desember 1879.
En skyldi skaftfellski bóndinn skilja orðið hamfarahlýnun og áttað sig á orsökum hennar ef samband næðist við hann í gegnum miðil í dag?
Heimildir
95 Arnþór Gunnarsson. 1997:285 Saga Hafnar I
Fréttablaðið 4. október 2019
Timarit.is
4.10.2019 | 17:24
Ármannsfell (766 m)
og kjarrið græna inn í Bolabás
og Ármannsfellið fagurblátt
og fannir Skjaldbreiðar
og hraunið fyrir sunnan Eyktarás.
(Einu sinni ágústkvöldi eftir Jónas Árnason)
Það var stórbrotið veður og haustlitir skörtuðu sínu fegursta þegar gengið var á Ármannsfell sem er norðan við Þingvallaþjóðgarðinn og setur mikinn svið á allt umhverfið. Fellið hefur setið fyrir á ófáum málverkum og ljósmyndum í gegnum tíðina. Það er mjög gaman að ganga á það og virða fyrir sér Þingvallasvæðið frá skemmtilegu sjónarhorni.
Ármannsfell, 766 m mosavaxið móbergsfjall. Sunnan undir því er Bolabás, þar voru kappreiðar haldnar áður fyrr í Skógarhólum en nú er þar góð aðstaða fyrir hesta og hestamenn.
Gangan hófst vestan við Sleðaás, sunnan undir fjallinu. Byrjuðum að ganga í kjarri þangað til komið var upp á Sleðaás. Þaðan er greið leið eftir hrygg á fjallið þar sem fyrst er komið uppá mosavaxna suðurbrúnina. Síðan tekur við alllöng ganga norður á hæsta hnjúkinn. Dalir eru austan megin og þegar komið er vel upp á brúnina sjást tveir kollar. Hæsti hnúkurinn með vörðu er á milli þeirra.
Ármannsfell dregur nafn sitt af hálftröllinu Ármanni. Hann hafði víst haft þann starfa að standa fyrir kappglímum milli trölla og hálftrölla á Hoffmannaflöt undir Meyjarsæti, sem er austan við fjallið, en mun hafa gengið í fjallið að leiðarlokum.
Ármannsfell bauð upp á rándýrt útsýni, milljarða krónu viðri. Hefjum augnveisluna á jökullausu Oki með Fanntófell í forgrunn. Síðan tekur Þórisjökull við og Kaldidalur á milli. Í brekkunni fram unda Þórisjökli eru Hrúðurkarlar og síðan Litla- og Stóra-Björnsfell. Það bjarmaði fyrir Langjökli. Horfun okkur nær: Langafell, snjólaus Skjaldbreiður sem ber af öðrum fjöllum, síðan Hlöðufell, Bláfell fjær, fönguleg Skriða, Lágafell liggur næst Ármannsfelli, Tindaskagi, Klukkutindar, Kálfstindar, Hrafnabjörg, Miðdalsfjall og Fagradalsfjall. Arnarfell, Miðfell við Þingvallavatn. Horfum fjær: Sjáum topp Heklu, Eyjafjallajökull, Vestmanneyjar, Búrfell, Ingólfsfjall, Hellisheiði, Skálafell, Hengill, Lambafell, Sauðdalahnúkar, Blákollur, Vífilsfell og Bláfjöll. Síðan tökum við Reykjanesfjöllin: Trölladyngja, Keilir og Fagradalsfjall sjást greinilega. Komum okkur aftur á Þingvallavatn og horfum í suður og sjáum Grafningsfjöll og síðan Hrómundartind. Þá sér yfir Mosfellsheiði, Grímmannsfell, Úlfarsfell og Esjuna með Móskarðsnúka, Skálafell, Búrfell, Kjölur og tignarlegar Botnsslúlur með Gagnheiði á milli og Kvígindisfell og Þverfell fjær. Akrafjall með Geirmundartind og Skarðsheiði lengra í vestri.
Við söknuðum að sjá ekki Hvalfell en það er á bakvið Botnssúlur og Baulu í Borgarfirði.
Einfaldast og öruggast er að fara sömu leið til baka en við ákváðum að fara beint niður, styttri leið en brattari og giljum og uppþornuðum árfarvegi fylgt. Mögulega tekið lengri tíma eftir allt saman. En vara þarf sig á að laus möl getur legið yfir móbergshellunni.
Aðrar leiðir eru að beygja við eyðibýlið Svartagil og ganga upp samnefnt gil.
Hin er að keyra aðeins lengra áfram eftir veg 52 Uxahryggir og hefja gönguna austan við Sleðaás í Krika.
Varða á toppi Ármannsfells í 766 m hæð. Dýrt útsýni og ægifegurð. Skjaldbreiður og Hlöðufell í beinni línu.
Dagsetning: 28. september 2019
Hæð í göngubyrjun: 143 metrar, Bolabás (N: 64.17.705 W:21.03.580)
Ármannsfell - varða: 766 m (N: 64.19.600 W: 21.01.956)
Hækkun göngufólks: 623 metrar
Uppgöngutími: 180 mínútur (10:00 13:00)
Heildargöngutími: 330 mínútur (10:00 15:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd: 10 km
Veður Þingvellir kl. 12.00: Léttskýjað, SV 2 m/s, 10,6 °C, raki 63%
Þátttakendur: Villiendurnar, 3 göngumenn.
GSM samband: Já, 3G
Gestabók: Já, Fella- og fjallgönguverkefnið Sveitin mín
Gönguleiðalýsing: Greiðfær en nokkuð um mosa og lausagrjót, og grýtt uppi á fellinu. Létt og gefandi fjallganga. Fellið er við alfaraleið en gengið allt of sjaldan.
Facebook-status: Guðdómlegt gönguveður í dag og fjöllin skörtuðu sínu fegursta hvert sem litið var. Alveg frá jökullausu Oki til Mariannelund!
Heimildir
Íslensk fjöll gönguleiðir á 151 tind: Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
Ferðafélag Árnesinga: Ármannsfell 26. júní 2010 og Ármannsfell 9. september 2017
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 10
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 114
- Frá upphafi: 237020
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 101
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar