Færsluflokkur: Kvikmyndir
2.2.2009 | 10:10
Valkyrie ****
"Meðan aðrir fylgdu skipunum fylgdi hann sannfæringu sinni". Þannig er boðskapur kvikmyndarinnar Valkyrie. Myndin segir frá 20 júlí launráðinu árið 1944 þegar hópur manna reyndi að ráða Hitler af dögum og koma nasistum frá völdum og snúa sér til bandamanna.
Alþingismenn Íslendinga eiga að fylgja sannfæringu sinni, þeir sverja þess eið en alltof oft hafa flokkshagsmunir verið teknir framfyrir þjóðarhagsmuni. Stundum getur verið erfitt að synda á móti straumnum og afleiðingarnar geta orðið skelfilega fyrir viðkomandi en orðstýr deyr eigi.
Tom Cruise leikur byltingarmanninn Claus Schenk Graf von Stauffenberg og fékk hlutverkið út af því að hann líktist aðalpersónunni. Tom er umdeildur leikari en kemst vel frá þessari mynd.
Ég hafði gaman að sjá hvernig áætlunin Valkyrja var hugsuð. En nafnið er sótt til óðsins Ride of the Valkyries eftir Wagner. Valkyrja er kvenkyns persóna úr norrænni goðafræði sem hafði það hlutverk að sækja fallna hermenn og koma þeim til Valhallar. Áætlun Valkyrja er ekkert annað en áætlun um rekstrarsamfellu en ég er mikill áhugamaður um það efni.
Lýsingin og áferðin er flott, einnig er mikið lagt í hljóðið. Því er þetta mynd sem vert er að horfa á í kvikmyndahúsi. Ekki hlaða svona verki niður af ólöglegu vefsvæði.
Helsti galli við myndina er að Þjóðverjarnir tala ensku til að uppfylla kröfur markaðarins en það er miklu tignalegra að heyra Hitler og Stauffenberg tala móðurmálið.
Þetta er mynd sem áhugamenn um seinni heimsstyrjöldina verða að sjá. Ekki er verra að hafa í huga að lesa bók sem kom út um jólin um sama efni.
25.1.2009 | 11:41
Slumdog Millionaire ****
Ég er einn af þeim mögru sem hafa gaman að spurningaþáttum. Ég fylgist með flestum spurningaþáttum sem boðið hefur verið uppá hérlendis og einn af þeim var, Villtu vinna milljón.
Nú er komin góð mynd í kvikmyndahúsin, Slumdog Millionaire eftir bókinni Viltu verða milljónamæringur? eftir indverska höfundinn Vikas Swarup. Kvikmyndin sem leikstýrð er af Bretanum Danny Boyle, fjallar um fátækan indverskan dreng, Jamal Malik, sem nær alla leið, en það virðast hafa verið örlög hans að vinna. Hann er uppruninn úr fátæktarhverfi Mumbai og því kemur það þáttargerðarmönnum á óvart að hann skuli taka allan pottinn. Hann lendir í ströngum yfirheyrslum og segir viðburðaríka sögu sína. En flest svörin hafði hann upplifað í fátækri æsku.
Myndataka er góð og mikil litadýrð. Mörg atriðin vel gerð, sérstaklega þegar löggur elta drengina inn í fátæktarhverfið. Þá er hvert skot þaulhugsað og áhorfandinn fær að kynnast lífinu í þorpinu. Myndin minnir mig á brasilísku myndina City of Gods, en þar var sögð saga ungs drengs úr fátæktarhverfum Rio sem fann tilgang í lífinu með því að taka fréttaljósmyndir.
Myndin spyr spurninga um örlög, ráðvendni, græðgi og jafnvel þéttleika byggða. Inni í myndina fléttast ástarsaga. Leikurinn er ágætur og standa litlu krakkarnir sig frábærlega, gleðin skín úr andlitum þeirra.
Slumdog Millionaire er fersk og skemmtileg mynd sem sýnir okkur misskipt Indland. Hún er tilnefnd til Óskarsverðlauna og hefur þegar unnið Golden Globe verðlaunin. Hugmyndin að sögunni er frumleg. Ég prófaði mig áfram í síðasta þætti af ÚtSvari á föstudaginn.
Í stóru fimmtán stiga spurningunum í viðureign Álftanes og Ísafjarðar var spurt um hlaupara sem unnið hafði Ólympíugull í 5 km, 10 km og maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í Finnlandi 1952. Svarið var Emil Zátopek. Ef ég hefði fengið þessa spurningu þá hefði ég getað svarað henni og sagan á bak við hana er:
Þegar Finninn Lasse Virén var að vinna langhlaupin á Ólympíuleikunum 1976, sagði dönskukennarinn okkar, Heimir Þór Gíslason okkur eftirminnilega sögu, á Íslensku í tímum. Hann sagði okkur frá tékkanum Emil Zátopek sem var ofurmannlegur. Hápunktur sögunnar var þegar hann ákvað á síðustu stundu að vera með í maraþonhlaupinu sem hann vann. Þetta nafn hefur síðan stimplast í hausinn á mér. Maður lærði meira en dönsku í dönskutímunum hjá Heimi. Sérstaklega eru minnisstæðar sögurnar af Molbúunum.
Önnur stór spurning var um sund eitt í Tyrklandi. Svarið var Bosporussund. Mér fannst það frekar létt fimmtán stig. En sagan á bak við svarið er sú að ég hef nokkrum sinnum heyrt minnst á sund þetta. En síðasta upprifjun er minnisstæð. Á síðasta ári fór vinur minn sem er verkfræðingur í ferðalag, m.a. til Tyrklands og þar með komst hann til Asíu. Hann sendi mér mynd af Bosporussundi. Með henni fylgdi textinn, "Evropa og Asia Bosborus". Ég á enn þessa mynd í farsíma mínum, hinar þrjár sem eru til í Inboxinu, eru af fallegum konum!
Svona geta flestir fundið sögur á bakvið svörin í spurningarkeppnum. Ein spurning í lokin, milljón króna spurning. Hvað hétu skytturnar þrjár?
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2009 | 22:04
Epísk Ástralía ****
Ég hef undanfarið verði nokkrum sinnum verið spurður að því hvað epísk mynd sé en kvikmyndin Ástralía, eftir Baz Luhrmann með Nicole Kidman, Hugh Jackman og Brandon Walters, hefur verið auglýst sem epísk mynd. Ég reyndi að útskýra fyrirbærið en eftir að hafa legið í kvöld yfir skilgreiningum á epík, þá sé ég að ég hef ekki verið nógu nákvæmur.
Í Íslensku alfæðiorðabókinni er epík skilgreind eftirfarandi: "frásagnarskáldskapur: allur skáldskapur sem hefur að geyma frásögn, jafnt í bundnu máli sem óbundnu; ein af þremur höfuðgreinum bókmennta ásamt lýrik og leikritun". Með öðrum orðum: Epísk frásögn er t.d. saga sem hefur upphaf, meginmál eða söguþráð og enda. Eitthvað hefðbundið söguform. Epík er dregið af gríska orðinu epos en frummerking þess er "það sem sagt er"
Aðrar skilgreiningar á epískum myndum sem ekki eru réttar, eru að þær séu langar, yfir tveir tímar eða þær séu gamlar myndir. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á breska leikstjórann David Lean (1908-1991) er epísk stórmynd. Hann var meistari þessa mikilfenglega forms og nokkrar slíkra mynda hans eru með því besta sem gert hefur verið á þessu sviði frá upphafi. Hringadróttinssögu-þríleikurinn sannar að nútíma kvikmyndagerðarmenn geta vel gert stórmyndir af því tagi og voru algengar hér áður fyrr.
En snúum okkur að epísku myndinni Ástralíu. Þetta er stórmynd í anda Gone With the Wind. Sögusviðið er víðátta Ástralíu. Inn í söguna fléttist uppgjör við frumbyggja Ástralíu, rekstur 1.500 nautgripa í kappi við tímann, árás frá Japönum í seinna heimsstríði og ástarsaga. Einn skúrkur er svo með til að fullkomna kokteilinn.
Kvikmyndataka er mjög góð, hver rammi úthugsaður. Landkynningarmynd fyrir alla fjölskylduna. Stór hluti er þó tekinn í kvikmyndaveri og hafa líklega sömu aðilar verið að verki og gerðu tölvugrafíkina í Flags of our Fathes og Letters from Iwo Jima.
Magnaðasta atriði myndarinnar var þó þegar nautin fimmtánhundruð ruddust af stað og stefndu fram af bröttum hömrunum. Ég var skyndilega kominn upp á Morinsheiði með Heiðarhorn framundan eftir göngu yfir Fimmvörðuháls. Magnað atriði og gott ef ég fann ekki fyrir lofthræðslu.
Nú er bara að sjá hvort maður nái að lifa að sjá epísku myndina Ísland sem Balti eða einhver góður íslenskur leikstjóri framleiðir. Það kæmu saman víkingar, bankahrun, síldarævintýr og ástarævintýri í óbyggðum.
3.11.2008 | 22:53
WHERE IN THE WORLD IS OSAMA BIN LADEN? ***
Fór í kvöld, svona rétt fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum, á heimildarmyndina
"Where in the world is Osama Bin Laden?", eftir hamborgaraætuna Morgan Spurlock.
Það var áhugavert ferðalag sem okkur var boðið upp í um múslimalöndin Egyptaland, Marokkó, Jórdaníu, Palestínu, Ísrael, Saudi-Arabíu, Afganistan og Pakistan. Fólk var tekið tali í öllum löndum og spurt um hryðjuverkastríðið hvar OBL héldi sig. Fæstir vissu svarið. Flestum var illa við hann. Niðurstaða myndarinnar var sú að þótt hann næðist breyttist ástandið ekkert. Viðmælendur voru á því að það væri margt gott fólk í Bandaríkjunum en þeir hefðu yfir sér hræðilega ríkisstjórn með skelfilega utanríkisstefnu. Vonandi verða breytingar á morgun.
Áhrifaríkasta senan var þó við aðskilnaðarmúrinn í Palestínu. Þar stóð málað með rauðum stöfum á vegginn, "I'am not a terrorist", en allt í einu áttaði ég mig á því að við Íslendingar erum skilgreindir hryðjuverkamenn.
Spurlock er hress náungi og fléttar ferðalag sitt skemmtilega saman við meðgöngu frumburðar síns og fáum en hann er að reyna að búa til betri heim fyrir hann. Niðurstaðan er sú að allir eru að berjast fyrir því sama, bjartari framtíð fyrir börnin sín. Koma þeim til mennta svo þau eigi von. Engu máli skiptir hvort foreldrar búi í Bandaríkjunum eða Afganistan.
Kvikmyndir | Breytt 4.11.2008 kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2008 | 00:01
Seldi kvikmyndina Heima til Mexíkó
Í júní fór ég á fræga Náttúrutónleika hjá Sigur Rós, Björk og fleirum í Laugardalnum. Ég gerð lítið myndband um lagið Glósóla. Ég hlóð því á YouTube og nú eru heimsóknir að nálgast sjö þúsund. Það hefur hlotið ágætis dóma þó að það sé hrátt.
Nokkrir notendur YouTube hafa gert jákvæðar athugasemdir og eru mjög hrifnir af þessum frábæru sendiherrum okkar. Einnig hefur mér borist póstur í gegnum póstkerfið á YouTube. Ég svara ávallt. Einn aðdáandi Sigur Rósar frá Mexíkó skrifaði og bað mig um að lýsa upplifun minni af Náttúrutónleikunum. Ég gaf tónleikunum toppeinkunn og hvatti hann til að kaupa DVD diskinn Heima til að kynnast stórbrotinni náttúr landsins. Mexíkóinn keypti diskinn þótt verðið væri hátt. Ég fékk nýlega skeyti frá Mexíkóanum.
"The last friday i bought the dvd of heima and it wasnt cheap but EVEN THOUGH I BOUGHT IT and i already see the disc one the documentary and its really beautiful all the towns with that weird names are really nice thank you for telling me that heima exists .. and in wich town u live ? "
Hvað gerir maður ekki fyrir náttúruna, aðdáendur Sigur Rósar og landið sitt - Heima er frábær landkynning!
7.9.2008 | 23:22
Sveitabrúðkaup ****
Gamanmyndin eða farsinn Sveitabrúðkaup segir frá brúðkaupi sem borgarbörn ákveða að halda í afskekktri sveitakirkju. Myndin er vegamynd og segir frá ferðalagi í tveim rútum á kirkjustað hjá "vondu fólki" á Snæfellsnesi. Ferðin tekur lengri tíma en áætlað var og á leiðinni koma fjölskylduleyndarmál upp á yfirborðið. Tími uppgjöranna.
Leikararnir eru flestir úr Vesturport leikhópum og er spunaaðferðin notuð. Mörg samtölin eru feikna góð og vel gerð. Herdís Þorvaldsdóttir, leikur ömmu eins brúðkaupsgestsins. Hún fer á kostum sem gömul kona með alzheimer en endar í lokin sem eðlilegasta persóna myndarinnar. Árni Gautur Guðjónsson er meiriháttar í hlutverki homma og kærasti hans, leikinn af Víkingi Kristjánssyni er stórgóður, senuþjófur myndarinnar.
Fín skemmtun og greinilegt að leikhópurinn hefur haft gaman að verkefninu. En það virðist endalaust vera hægt að fjalla um brúðkaup og ferðina að altarinu frá ýmsum spaugilegum hliðum.
17.8.2008 | 12:09
Skrapp út ***
Skrapp á kvikmyndina Skrapp út eftir Sólveigu Anspach um helgina.
Eftir helling af auglýsingum og stiklum birtist íslenska myndin. Hún var borin upp af háægða atvinnuleikurum og ýmsum skrautlegum karakterum, flestum úr listageiranum. Í stuttu máli segir frá dópsalanum Önnu sem hefur mikil sambönd í undirheimum Reykjavíkur. Flóran endurspeglar allan þjóðfélagsstigann. Anna er orðin leið á bransanum og stefnir á ferðalag af skerinu. Hún ákveður því að selja farsímann sinn en þar eru númer allra 300 viðskiptavina hennar. Upplýsingar eru dýrmæt eign. Er hún er að ganga frá viðskiptunum endar hún óvænt upp á Snæfellsnesi og lendir í æsilegri leit að farsímanum. Á sama tíma safnast kúnnahópur hennar saman á litlu heimili hennar og er það spaugilegur hópur.
Það má segja að þetta sé vega- og farsímamynd en farsímar eru farnir að verða gríðarlega mikilvægir í söguþræði kvikmynda. Það er húmor í myndinni og ágætis afþreying. Nokkur stílbrot eru í frásögninni og finnst mér athyglisverðast þegar gítar kemur óvænt inn í söguna á Kvíarbryggju. Snilldar atriði og minnir á atriði í myndinni Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór er jeppi hverfur skyndilega í eltingaleik við lögregluna.
Einnig eru nokkrar sögur sem styðja aðalfrásögnina, þeir þræðir eru ekki gerðir upp í lokin. Ég spyr mig, hvort það sé ekki útpælt, á áhorfandinn ekki að klára þær pælingar? Lífskúnsterinn Didda er aðal persóna myndarinnar og ef til vill er handritið skrifað með hana í huga. Hún leikur sjálfa sig og finnst mér ekki ná að slá í gegn.
Tónlistin góð í myndinni, skemmtilegur bassi og stórsveitin Hjálmar með skemmtilegt gleðilag í lok myndar sem hélt áhorfendum í sætum meðan kreditlistinn rann í gegn.
Mikið eru auglýsingar og hlé farið að fara úr böndunum í íslenskum kvikmyndahúsum. Nú fer ég að stunda sýningar hjá Græna ljósinu, þar er maður laus við þennan ófögnuð.
12.5.2008 | 22:04
U2 3D *****
Fór á þrívíddartónleika með U2 í gærkveldi, íklæddur græna U2 bolnum til að samfagna Bono. Tónlistakvikmyndin U2 3D var sýnd í Álfabakka á Hvítasunnudag en það voru því miður fáir á tónleikum. Myndin er unnin eftir nýrri tækni sem þróuð hefur verið hjá 3ality Digital og er hin magnaða rokkhljómsveit, U2 sem breiðir út tæknina í samstarfi við hina virta miðil National Geography. Fylgir hún eftir kvikmyndinni Rattle and Hum framleidd af U2-félögum fyrir 20 árum og braut sú kvikmynd ákveðið blað í rokksögunni.
Helsti gallinn við myndina U2 3D er að hún er of stutt. Rokktónleikarnir standa aðeins yfir í 85 mínútur og renna fjórtán lög í gegn en fyrir vikið er mörgum góðum lögum er sleppt. Hljóðið er mjög gott og myndataka stórgóð. Enda voru notaðar 18 tökuvélar á níu tónleikum í fimm löndum. Upplifunin er góð og Bono kemur nokkrum sinnum beint til okkar með boðskap sinn. Þetta er mjög vel gert hjá framleiðendum og fara þeir sparlega með það en í sumum þrívíddarmyndum er þetta bragð ofnotað. Flottasta sjónarhornið er þegar trommarinn Larry Mullen er sýndur við iðju sína, trommusettið er eins og frumskógur. Einnig er gaman að hvernig tónleikagestir sem sitja á herðum annara í þvögunni er nýttir í sviðsmyndina.
Ég fór á Vertigo tónleika fyrir þrem árum í London til að læra að aftengja kjarnorkusprengju og fór í gær til að rifja upp góða tíma. Búið er að taka út Afríkuboðskapinn í myndinni. Baráttunni gegn fátækt en Bono hvetur fólkinu í S-Ameríku til dáða í staðinn.
Þrátt fyrir að vera næstum kominn á tónleikastaðinn, þá nær myndin ekki upp stemmingunni sem er á tónleikum sjálfum. Gæsahúðin kemur ekki eins oft upp. Eitt lag sem er í myndinni hreif mig mjög og var ekki á tónleikum sem ég var á, en það er þegar Bono syngur lagið Miss Sarajevo. Þá nær hann vel til fólksins sem var stundum eins og stór síldartorfa í myndinni. Fagnaðarlæti þeirra voru ósvikin þegar hann tónaði efstu tóna og sló nærri út sjálfan Pavarotti. Mér fannst vanta örlita gleði í sveitina og tónleikagesti í byrjun myndarinnar en stemmingin eykst er á líður. Kanski er maður of upptekin af allri upplifuninni í þrívíddinni. Maður tekur eftir mörgun smáatriðum sem fóru framhjá á tónleikunum.
Að lokum hvet ég áhorfendur til að hlusta vel þegar lagið Pride kemur en það fer ekki framhjá neinum, það byrjar svo kröftuglega. Í upprunalega laginu syngur Bono, "Early morning April 4" en það er sögufölsun því Marteinn Luther var myrtur "Early evening April 4" eða klukkan 18.01 og er því sagan leiðrétt í myndinni.
Þetta er mynd sem allir U2 aðdáendur eiga að mæta á og einnig þeir sem ekki eru U2-aðdáendur. Þetta er mynd fyrir fólk sem hefur áhuga á tónlist og tækni, það fær helling fyrir tólfhundraðkallinn.
Ég skrifaði fyrir nær þrem árum pistil á Huga.is um Vertigo-tónleikana. Tengill í hann fylgir hér.
Bono með afmælisboð í Mónakó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2008 | 00:53
21 ****
Kvikmyndin 21 er byggð á metsölubókinni Bringing down the House eftir Ben Mezrich.
Myndin fjallar um af ofvitann í stærðfræði, Ben Campbell sem er sakleysislegur nemandi í MIT-háskólanum en vantar pening til að komast í læknisfræðinám í Harvard. Það er dýrt nám 21 milljón á gengi dagsins í dag. Hann kemst vegna stærðfræðisnilli sinnar í leynihóp sem nýtir hæfileika sína í að reikna vinningslíkur í fjárhættuspilinu 21. Háskólaprófessorinn Micky Rosa er gamall spilarefur og þjálfar liðið. Þau halda því til Las Vegas um helgar og raka að sér seðlum. Ben fellur hratt fyrir þessum adrenalíndrífandi lífsstíl og enn hraðar fyrir liðsfélaga sínum, hinni gáfuðu og kynþokkafullu Jill Taylor (Kate Bosworth). Velgengni Ben vekur síðan áhuga öryggisvarða spilavítisins og hefst þá mikill kapall.
Ég hafði heyrt um að mynd væri í smíðum um MIT-nemendurna sem varpaði dýrðarljóma á háskólann en að sama skapi olli skjálfta í Las Vegas. Myndin hefur hlotið góða aðsókn hér á landi enda mikill áhugi á póker um þessar mundir. Ég las gagnrýni í Fréttablaðinu og 24 stundum áður en lagt var í Smárabíó og fékk myndin slæma dóma, tvær stjörnur hjá hvorum dómara.
Helst fannst spekingunum að handrit væri klisjukennt og fært í óspennandi Hollýwúdd formúlu. Persónur líflausar og einhliða. Einnig sé góð saga skemmd og slitin frá raunveruleikanum. Aðalsöguhetjan í rauninni var af asísku bergi brotin en Jim Sturgess sem leikur aðalhlutverkið er Tom Cruise týpa. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá mætti ég Smárann og skemmti mér vel. Get tekið undir það að nýja fléttan var frekar ótrúverðug en góður leikur Spacey og Sturgess sem og flotur stíll bætti upp.
Það kom nettur spilahrollur og minnti mann á skemmtileg Austurlandsmót í brids í Valaskjálf og Suðurlandsmót í Tryggvaskála á menntaskólaárunum. Svo ekki sé talað um bridshátíð á Hótel Loftleiðum eða heimsmeistaramót í Hornafjarðarmanna.
Hafði óskaplega gaman að því þegar stærðfræðiprófessorinn Mickey Rosa, vel leikinn af Kevin Spacey, fór yfir reglurnar um takmarkað val.
Nú er spurning hvort áhugi á fjárhættuspilum, sérstaklega spilinu 21 aukist og áhugi unga fólksins á stærðfræði en það síðara má aukast mikið svo samkeppnishæfni landsins haldist.
Næsta verk er að kaupa bókina á amazon.com og læra að telja og setja upp minnislykla í fjárhættuspilinu 21.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2008 | 09:08
Into The Wild ****
Fór á sunnudagskvöldið í útilegu í Háskólabíó. Kvikmyndin Into The Wild leikstýrð af Sean Penn og byggð á sögu klifrarans Jon Krakauer sendi mig nokkrum sinnum út í óbyggðirnar. Ég fór ásamt félaga mínum, útivistarmanninum og klifraranum Pétri Ásbjörnssyni og var klæddur við hæfi, í gönguskóm, mosagrænum CRAG göngubuxum og safarískyrtu.
Myndin er tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna. Fyrir klippingu og hinn 83 ára Hal Holbrook fer á kostum í aukahlutverki í lok myndarinnar og á sannarlega verðlaun skilin fyrir túlkun sína á Franz, einum af sérstökum persónum sem söguhetjan kynnist á óvissuferð sinni.
Í stuttu máli fjallar myndinn um ferðalag Christophers McCandless, efnispilts sem gerir uppreisn gegn fjölskyldu sinni, lífsgæðakapphlaupinu og kerfinu eftir útskrift úr menntaskóla. Hann yfirgefur fjölskylduna án þess að kveðja og leggst á flakk um Bandaríkin. Á ferðalaginu hittir hann mikið af skrautlegu fólki og hefur jákvæð áhrif á alla. Hann stefnir norður, til Alaska. Þar dvelur hann við harðan kost yfir vetur og gerir upp líf sitt. Hann les fagurbókmenntir og kemst að tilgangi lífsins. Deila hamingjunni. Í lokin hefst mikil barátta hjá söguhetjunni um hvort hann lifir vistina í óbyggðunum af eða ekki. Ég hvet lesendur til að fara í gott ferðalag um Bandaríkin og sjá hvort lífið eða dauðinn sigrar.
Myndin er byggð á sannsögulegum atburðum og skrifaði fjallapenninn Jon Krakauer samnefnda bók um ferðalanginn. Krakauer er hins vegar umdeildur rithöfundur með sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. M.a. hefur bókin, Into Thin Air, sem hann skrifaði um Everest leiðangurinn 1996 fengið gagnrýni fyrir það.
Myndin minnti mig á hina frægu mynd Brokeback Mountain (2005) hvað fjallasýn og frelsi varðar. Því er líklega komin hefð fyrir óbyggðamyndum frá Hollywood, hvenær verður saga Fjalla-Eyvindar kvikmynduð hér á landi. Eyvindur fer að komast í tísku!
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar