Færsluflokkur: Kvikmyndir

Heima ****

Við Særún fórum í Háskólabíó í gærkveldi og borguðum fyrir minnisstæða tónleika í Öxnadal 28. júlí 2006. Það var skemmtileg sveitastemming undir Hrauntindinum hjá bænum Hálsi hvar Jónas Hallgrímsson ólst upp stutt frá. Bílarnir keyrðu í röð  inn á nýslegið túnið og lögðu í skipulagðar raðir sem markaðar voru af hvítum heyböggum. Síðan var rölt yfir hæð og við blasti bálköstur og svið úti á miðju túni. Fólkið streymdi að, börn, mömmur og pabbar, afar og ömmur, einnig hundar. Fólk var klætt í íslenskar lopapeysur og sumir höfðu með sér teppi.  Það var glæsileg stund þegar álfarnir í Sigur Rós og álfkonurnar í Amiinu gengu að sviðinu og hófu tónleikana af miklum krafti.

SRHals

 

Myndin Heima er afurð af frumlegu tónleikaferðalagi hljómsveitarinnar sumarið 2006 og spilar landslagið stórt hlutverk. Flest lögin eru af plötunum Ágætis byrjun og Takk. Tónleikar voru haldnir á óvenjulegum og fámennu stöðum t.d. Djúpavík, Ásbyrgi og Kárahnjúkum. Einnig var komið við í Selárdal og tekið áhrifaríkt lag innan um listaverkin hans Samúels. Einnig er komið við á þéttbýlisstöðum, Ísafirði, Seyðisfirði og endað á Miklatúní í Reykjavík. Mörg skot eru af jöklunum á Skeiðarársandi og umhverfi hans. Kvikmyndatökulið tók glæsileg skot á Jökulsárlóni. En það vantaði bara að halda tónleika á svæðinu. Myndin er dulin áróðursmynd með góðan umhverfisboðskap. 

Sigur Rós flytur tónlist sína á  Íslensku en viðtöl við hljómsveitarmeðlimi eru á bjagaðri ensku. Snillingarnir í hljómsveitinni virðast vera feimnir. Viðtölin koma skringilega út og frasinn "you know" er of algengur. En að sama skapi gera viðtölin myndina persónulegri. Hljómgæðin voru mjög góð og hátalarar voru hátt stilltir í kvikmyndasalnum. Stemmingin sem skapaðist var góð.

Í myndinni er einnig farið í bakgrunn sveitarinnar og pælingar þeirra. Þeir eru óhræddir að prófa ný hljóðfæri, t.d. steinhörpu Páls í Húsafelli og notast við rímnakveðskap. Steindór Andersen kemur fram í einu rímnalagi, sem og kvæðakórinn Iðunn.  En náttúrulegasta lagið á Vatnajökull sjálfur, smellirnir í honum eru magnaðir þegar hann skríður fram á sandinn.  Það er því ekki furða að þeir hafi nýlega fengið verðlaun fyrir sérkennilegasta hljóminn á merkri tónlistaverðlaunahátíð.

Endirinn er athyglisverður, þegar efnislistinn rennur yfir, spilar sveitin tilfinningaþrungið lag. Allir gestir sátu sem fastast hugfangnir af laginu og hef ég ekki upplifað slíka setu áður meðan stafir birtast á skjá.

Við Særún segjum eftir þessa áhrifamiklu sýningu. Takk 

 


Hákarlabeita **

Ég og Ari litli brugðum okkur í tvöbíó í gær og fyrir valinu var Smárabíó. Í sal 1 var kvikmyndin Hákarlabeita - Shark bait - sýnd og smekkfullur salur enda Síminn með gott 3G-tilboð, 2 fyrir 1.

Tölvuteiknimyndin Hákarlabeita gerist í hafdjúpinu og hefst sagan í megnaðri San Fransiscohöfninni. Söguhetjan, Pi, lítill rauður skrautfiskur er líktist gullfisk okkar er að ræða við foreldra sína um hættur hafsins þegar nót er kastað yfir þau. Söguhetjan sleppur úr nótinni og fær þau skilaboð að flýja til kóralrifsins. Hann kemst þangað og Þar er mikið líf. Á rifinu kynnist hann sætri hrygnu. Hún hafði komist á forsíðu Séð og veitt og var það eini heppnaði brandari myndarinnar. Úr verður klisjukennd ástarsaga. Upp kemur vandamál, háfur einn verður hrifinn af hrygnunni og mikið uppgjör er í uppsiglingu. Söguhetjan gefst ekki upp og leitar á náðir gamallar skjaldböku sem man tímanna tvenna. Hún tekur að sér að þjálfa og uppfræða hænginn okkar. Minnir þetta mig á karatemyndir úr Sindrabæ. En í þeim myndum lenti lærlingurinn ávallt í vandræðum og leitaði á náðir sérvits meistara, sem byrjaði á því að rífa lærlinginn alveg niður og byggja síðan upp.

Uppgjörið milli hængsins okkar og hákarlsins er svo eftir Hollýwood formúlunni  

Á rifinu er margir skrautlegir fiskar en mér finnst vandaðir fræðsluþættir betri. Náttúran er tölvugrafíkinni fremri.  Jákvæða við myndina  og síðustu myndir sem við feðgar höfum farið á er að umhverfisvernd er innbyggð í kvikmyndirnar. Það er gott markmið.

Íslensku leikurunum sem tala inn á myndina tekst ekki vel upp. Spaugstofukapparnir Örn og Siggi ná þó ágætri rispu með lífsreyndu sverðfiskanna. 

Hákarlabeita fær ekki nema tvær stjörnur af fimm mögulegum hjá okkur feðgum.


Uppselt á The Simpsons movie

Fór með Ara litla á The Simpsons movie í dag. Stefnan var tekin á Laugarásbíó, tvöbíó. Þegar við nálguðumst kvikmyndahúsið var mikið af bílum á bílastæðinu og mikill mannfjöldi við miðasölu. Fólk fór að snúa frá og kom í ljós að uppselt var á bæði ensku og íslensku sýninguna. Því var haldið í Regnbogann á þrjúsýningu. Þar var mikil biðröð og mikið um erlenda ferðamenn. Aðeins var boðið upp á ensku raddirnar. Við Ari sluppum inn en salurinn var fullur er myndin hófst.

En hvernig var myndin? Hún var skemmtileg. Umhverfismál voru tekin í gegn og Lisa Gore stóð sig vel. Stemmingin í salnum var góð og greinilegt að hörðustu Simpsons aðdáendurnir voru mættir. 

Því má segja að Íslendingar hafi tekið jafnmiklu ástfóstri við Simpsons fjölskylduna og Kanar og Kanadabúar. 


mbl.is Kvikmyndin um Simpsonsfjölskylduna fram úr vonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pirates of the Caribbean: At Worlds End *

Stórmyndin Pirates of the Caribbean: At Worlds End  olli mér miklum vonbrigðum. Ég hafði séð fyrstu myndina og fannst hún góð. Önnur myndin fór framhjá mér.  

Fyrir vikið voru nokkrir endar lausir í byrjun sjóræningjamyndarinnar og náði ég ekki að hnýta þá saman. Sagan er ruglingsleg og flókin.   Spennan er í lágmarki, en þetta á að vera spennumynd. Dæmigert spennuatriði: Sjóræningjarnir eru í bardaga, það er klippt á samtal tveggja einstaklinga sem eru að gera upp sakir sem enginn skilur. Samtalið tekur alltof langan tíma. Síðan er klippt á bardagnn upp á dekki en áhorfendur voru búnir að steingleyma honum.

30.000 Íslendingar hafa barið myndina löngu augum og  er það Jack Sparrow, leikinn af Johnny Deep sem dregur stúlkur í bíó.  Keira Knightly sér um að draga strákana í salinn en hún á dapran leik. Margar stjörnur koma fyirir í myndinni, m.a. Keith Richard gírleikari í Rolling Stones og má segja að hann leiki sjálfan sig. Hann grípur í gítar og slítur streng. 

Þrátt fyrir þessa döpru frammistöðu þá er myndin mjög vel gerð. Útlit flott og öll umgjörð fyrsta flokks.  Hver tæknibrellan tekur við af annari.

Gef myndinni eina stjörnu,  * af 5 mögulegum.  Það hefði verið meira spennandi að sjá Ísland tapa 0-5 fyir Svíum á sama tíma. 


Sjanghæjað til sjós

Heimildarmyndin Sjanghæjað til sjós er ein af myndunum á heimilda- og stuttmyndahátíð í Reykjavík sem stendur yfir Hvítasunnuna. Höfundar eru Margrét Jónasdóttir og Magnús Viðar Sigurðsson.

Ég, gamli togarasjómaðurinn mætti í Tjarnarbíó í dag  til að rifja upp gamla tíma en ég hafði heyrt margar góðar sögur af þessu skrautlega tímabili á Þórhalli  Daníelssyni og kynnst nokkrum persónum sem lifðu þetta tímabil.

Áhorfendahópurinn í Tjarnarbíó voru nokkuð öðruvísi en á almennum kvikmyndasýningum. Nokkrir togarajaxlar og útgerðarmenn voru mættir auk þess kenndi ég nokkur andlit heimildarmanna. Þetta gerði myndina dýpri og eftirminnilegri. Eflaust verður myndin sýnd í sjónvarpi á næstunni en  umgjörðin í Tjarnarbíó hæfði efninu vel.

Sögusviðið er eitt mesta niðurlægingatímabil sjómannastéttarinar hér á landi. Nýsköpunartogararnir sem keyptir voru fyrir stríðsgróðann áttu í mikilli samkeppni á árunum 1947 til 1970 við síldarbáta um  mannauð. Togararnir áttu erfitt uppdráttar, lág laun, lélegur aðbúnaður og erfið vinna var ekki til að trekkja að. Myndin staðfestir þrálatar sögusagnir um manneklu og vandræði skipstjóra við að manna togarna. Til að halda togaraflotanum gangandi, gripu þeir til hins aldargamla ráðs að sjanghæja mönnum um borð, og þræða bæinn í þeirri von að ná einhverjum til skips.

Einn skipsfélagi minn sagði mér sögu sem gerðist í lok sjöunda áratugarins en hann bjó þá á Akureyri. Hann skrapp í bæinn til að horfa á landsleik Íslands og Danmerkur. Eftir leikinn var kíkt á lífið í bænum og þegar hann vaknaði var hann að renna út úr Faxaflóanum á blankskónum. Hann spurði hvort nokkuð væri farið í salt og fékk neitandi svar. Honum létti annars hefði þetta orðið þriggja mánaða túr!

Í aldaraðir hafði þessi aðferð tíðkast í erlendum höfnum, en það er sjaldgæft að finna sögusagnir um mannrán í nútímasamfélagi, þar sem meir að segja lögreglan er aðili að málinu. 

Ég hafði gaman að myndinni. Nokkrir skemmtilegir karakterar sem sögðu góðar sögur af sér og félögum sínum. Góðar klippingar sem leiddu söguna áfram. Einn sögumaður endaði á atviki og næsti hélt áfram og sagði sitt sjónarhorn. Ágæt gítartónlist en ekki voru spiluð rómantísk óskalög sjómanna. Sumt myndefnið af gömlu ræmunum var illa farið en heimildargildið bætti það upp.

Uppúr 1970 hófst skuttogaraöldin og þá hófst nýtt tímabil.

Það sem vakti mig til umhugsunar var að ekki skyldi neinn leita réttar síns á þessum árum. Um aldarmótin 1900 voru lög sem bönnuðu svona mannrán í erlendum ríkjum en  það hefur verið horft fram hjá því hér á landi. Efnahagsins vegna. Sumir týndu lífum sínum þegar þeir vöknuðu um borð og stukku í sjóinn. Skyldu fjölskyldurnar heima hafa fengið einhverjar bætur?

 


Mr. Bean á Humarhátíð?

 

Rowan Atkinson í hlutverki Mr. Bean er snillingur. Ég fór með Ara litla á grín- og fjölskyldumyndina Mr. Bean's Holiday á Akureyri um páskana. Þetta er fín fjölskyldumynd, einfaldur söguþráður og mörg spaugileg atvik sem allir skilja.  Mr. Bean minnir mig á Chaplin, en hann talar lítið, notar andlitið og líkamann til að tjá sig.

Einnig er myndin góð forvörn fyrir komandi sumarfrí, þana er hægt að sjá hvað þarf að varast í ókunnum löndum.

Í stuttu máli fjallar myndin um einfarann Mr. Bean. Hann vinnur ferðavinning í happdrætti til Cannes á frönsku Ríverunni. Vandamál hans er að komast þangað. Einfalt ferðalag í lest en er snúið fyrir  fólk sem er með heila á stærð við hænuheila.

Eitt frábært atriði tengdi mig við Hornafjörð. En meistari Bean fer á fínan franskan veitingastað sem sérhæfir sig í sjávarréttum. Humar er þar í öndvegi, kanski upprunin úr humarhótelinu á Hornafirði. Útfærsla Bean á humaráti er stórmögnuð. Ég er að velta því fyrir mér hvort Humarhátíð um mánaðarmótin júní-júlí á Hornafirði geti ekki nýtt sér þetta í markaðsherferðinni.

Slóð á kynningu: http://www.beansholiday.com

Bean



« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 233613

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband