Færsluflokkur: Kvikmyndir

Maybe I Should Have ****

Það voru sorglega fáir á góðri og skemmtilegri heimildarmynd, Maybe I Should Have, í Kringlubíó í gærkveldi. Setti það að mér ákveðin ugg um að landsmenn séu farnir að gefast upp í baráttnni um Nýja Ísland. Það má ekki sofna aftur á verðinum.

MISHÍ byrjun myndar er farið yfir sviðið og saga hrunsins sögð fram að stjórnarslitum fyrir rúmu ári. Það þekkja allir þá sögu en hún hefur komið í öðrum heimildarmyndum, bókum og ánnálum.  Eftir þennan inngang fer Gunnar Sigurðsson, leikstjóri í leit að peningunum sem hurfu. Notar hann sömu aðferð og Michael Moore. Hann ferðast til London og Luxemburgar, skoðar bankabyggingar og fyrirtæki. Einnig ræðir við fólk. Það liggur leiðin til Guernsey og Tortola. Ekki finnur hann neina peninga en hefur ákveðinn grun hvar þá gæti verið að finna.

Einnig er rætt við þekkta erlenda aðila, m.a. fjármálaeftirlitsmanninn William Black, Evu Joly og Robert Wade en þau hafa komið með góð ráð í Silfri Egils.

Niðurstaða er að ekkert hefur breyst á þessu rúma ári frá hruni. Það er eflaust mikið til í því, sérstaklega í ljósi síðustu fregna. Jón Ásgeir og Jóhannes Jónsson eru jafnvel að eignast Baug aftur og Ólafur Ólafsson að eignast Samskip. Allt stefnir í sama farið.

Myndin endar á tveim öflugum lögum, Fjalabræður flytja áhrifamikið lag, Freyja, á Þingvöllum. Eflir það þjóðerniskenndina. Hjálmar eiga síðustu raggítónana.

Létt og skemmtileg heimildarmynd um hrunið og verður verðmætari er frá líður.


AVATAR ****

Hvar er kreppan? Ekki var hún sjáanleg í Smárabíó í gærkveldi, þriðjudagskveldi. Eintóma bið og þrengsli á þrívíddarsýningu á AVATAR. Þegar maður loks fékk sæti var það á fremsta bekk en nálægt miðju. Etv. er ásókn í kvikmyndahús eitt jákvætt birtingarform kreppunnar. Góð skemmtun fyrir lítinn pening.

AVATARLíklega hefur nálægði við sviðið skapað sérstakt samband milli áhorfanda og myndar. Stundum lá við að maður gæti gripið í hluti sem birtust svo nálægir voru þeir. Textinn var einnig á mismunandi stöðum en ef hlutur stóð fram í sal, þá var ekki hægt að líma texta yfir hann.

Epíska stórmyndin AVATAR (manngervingur), dýrasta kvikmynd sögunnar stendur undir nafni. Leikstjórinn, James Cameron er með fallegan boðskap sem á vel við í dag eftir hálf mislukkaða loftslagsráðstefnu og olíustríð í Írak. Tölvubrellurnar í þrívíddinni komu vel út, frumskógurinn sannfærandi en hreyfingar hinna 2,5 metra Navi manna oft stirðbusalegar. Vinsældir AVATAR eiga eflaust eftir að hjálpa til við framleiðslu á fleiri þrívíddarmyndum og þróun þrívíddarsjónvörpum.

Snúum okkur að efni myndarinnar. Avatar er vísindaskáldsaga og gerist árið 2154. Í stuttu máli fjallar hún um lamaðan landgönguliði í bandaríska flotanum að nafni Jake Sully (Sam Worthington) sem býður sig fram til þess að lifa sem manngervingur á plánetunni Pandóru og njósna um innfædda íbúa, Navi fólkið, fyrir herinn og ónefnt stórfyrirtæki sem leitar sérstakrar steintegundar. Hefst þá mikil þroskasaga. Sully verður ástfanginn af Neytiri, fallegri Navi prinsessu og lærimeistara sínum. Fyrr en varir verður hann flæktur í átök milli hersins og ættbálks hennar en hamingjusamt kattarfólkið eða indíánarnir vilja ekki flytja sig brott.

Hefst mikil orrusta milli Neo-Con manna og frumbyggja og minnir á uppgjörið í Hringadróttinssögu. Mörg önnur atriði finnst mér ég hafa séð áður. T.d. tölvutækni í Minority report og sögusvið Dances with Wolves.

Myndin endar illa fyrir hluthafa stórfyrirtækisins, eflaust verið send afkomuviðvörun fyrir ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins en fyrir alla aðra er endirinn góður, spennandi en fyrirsjáanlegur.

"Orkan er fengin að láni og henni verður að skila aftur" er boðskapur myndarinnar.

Nú þarf maður að fara á 2D myndina þegar hægjast fer um og bera saman brellurnar í útgáfunum, þetta er flott peningasvikamylla í Hollywood!

  


Eldsmiður náttúrunnar *****

Í sunnudagsbíói annað kvöld verður kvikmyndin Börn náttúrunnar sýnd en sýning hennar tengist nýjustu mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Mamma Gógó, sem frumsýnd verður á nýársdag. Það verður spennandi að sjá tenginguna á milli myndanna.

Fyrir sléttum tíu árum fór ég á kvikmyndahátíðina Hvítir hvalir og skrifaði eftirfarandi kvikmyndadóm í jólablað Eystrahorns 1999. Hornfirðingar ættu að hafa Sigurð Filipusson, eldsmið, í huga þegar þeir horfa á Börn náttúrunnar annað kvöld.

Nýlokið er kvikmyndahátíðinni Hvítir hvalir en þar var yfirlitssýning á verkum Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndagerðarmanns og snillings. Ég er mikill aðdáandi Friðriks og átti alltaf eftir að sjá myndina Eldsmiðinn, heimildarmynd um Sigurð Filippusson sveitunga okkar frá Hólabrekku.

EldsmiðurinnEkki spillti fyrir að fyrrverandi vinnustaður minn var Eldsmiðurinn, kenndur við myndina. Því var lagt af stað á hátíð.

Fyrst var Eldsmiðurinn sýndur en þetta er 35 mínútna mynd sem gerð var 1981 og í kjölfarið var hin magnaða mynd Börn náttúrunnar sýnd  en hún var frumsýnd 10 árum síðar og markaði ákveðin tímamót í íslenskri kvikmyndasögu. Áður en ég mætti á svæðið sá ég ekkert samhengi á milli þessara tveggja mynda en það átti heldur betur eftir að breytast.

Áður en sýningin hófst hélt meistari Friðrik Þór, fyrirlestur um myndirnar og útskýrði af hverju þessar tvær myndir væru sýndar saman, hvernig þær tengdust.  Ástæðan var sú að Börn náttúrunnar byggir mikið á áhrifum sem hann varð fyrir við gerð Eldsmiðsins. Söguhetjan, Þorgeir Kristmundsson, sem er snilldarlega leikinn af Gísla Halldórssyni, byggður á Sigurði Eldsmiði og látinn hafa göngulag Sigurðar auk þess voru nokkur önnur atriði sem sótt voru í smiðju Eldsmiðsins. Sigurður var mikið náttúrubarn  og þekkti umhverfi sitt vel. Hann var næmur maður og sá ýmislegt sem venjulegt fólk skynjar ekki. Dulúðina í Börnum náttúrunnar má að einhverju leyti rekja til atvika sem gerðust á þeim 10 dögum sem kvikmyndunin tók. Það var gaman að heyra frásögn Friðriks og sérstaklega þegar hann glotti og pírði augunum þegar honum var skemmt.

Nú hafði dæmið snúist við, forrétturinn rann ljúft í gegn. Sigurður  greindi skýrt og haganlega frá sér um leið og hann vann verk sín. Heimildarmyndin Eldsmiðurinn er um sérstakan mann í sínu náttúrulega umhverfi og góð heimildarmann um liðna tíma og verður verðmætari þegar fram líða stundir.

Börn náttúrunnarNú var komið að aðalréttinum. Myndin fór rólega af stað og lítið talað en þeim mun meira myndmál í tilkomumiklu landslagi. Hún greinir frá Þorgeiri sem bregður búi og fer til Reykjavíkur og lendir á elliheimili. Þar hittir hann gamla æskuvinkonu, Stellu, og saman flýja þau til æskuslóðanna. Það er mikil dulúð á flóttanum, draugar og undarlegt fólk sem tákn um að þau séu á leiðinni úr þessum heimi í annan. Hinir látnu eru farnir að heilsa.

Eitt merkilegt atriði er þegar jeppinn hverfur á flótta undan lögreglubílnum og áhorfandinn er skilinn aleinn eftir. Þetta er sótt í smiðju Sigurðar Eldsmiðs og olli nokkrum deilum í klippiherbergi í Svíþjóð. Klipparinn neitaði að klippa atriðið og varð að lokum að yfirgefa klippiherbergið.

Svona lagað fengi Friðrik Þór ekki að leika eftir í Hollývúdd, því fjármagnseigendur taka ekki svona sjensa. Eins er lokaatriðið í svipuðum dúr.

Annað atriði sem gladdi mig var að sjá Eirík Guðmundsson, Hornfirðing, sem er af miklum leikaraættum, leika lítið hlutverk vegaverkamanns og stóð hann sig óaðfinnanlega.

Loks var komið að eftirréttinum, hvað haldið þið að hafi verið í eftirrétt? Jú viku seinna eða síðasta sunnudagskvöld var myndin sýnd í Sjónvarpinu og einn var hægt að horfa á myndina frá nýju sjónarhorni og drekka í sig fleiri smáatriði. Tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar skilaði sér meistaralega í eftirréttinum.

Þegar þessi smáatriði voru upplýst varð myndin hreinasta snilld, alger upplifun og hækkaði um eina stjörnu, úr fjórum í fimm. Skaði að hún skyldi ekki vinna Óskarinn, besta erlenda myndin árið 1992.

 

Sigurpáll Ingibergsson

Kvikmyndagagnrýnandi Eystrahorns á Hvítum hvölum


2012 ***

Heimsendakokteill sem frumsýndur var föstudaginn 13. nóvember. Frumlegur frumsýningardagur.

2012Við vorum vöruð við. Maya-indíánar sáu endalokin fyrir, 21. desember 2012. Eða svo halda vesturlandabúar. En í raun endar almanak þeirra þennan dag.

Reikistjörnur í beinni línu milli jarðar og sólar. Einnig mikið sólgos. Það   boðar ekki gott fyrir möndul jarðar. Um það fjallar epíska stórmyndin 2012.

Tvær sögur eru í myndinni. Vísindamenn og bandaríkjastórn í annarri og bandarísk skilnaðarfjölskylda í hinni.  Fylgjumst við með hamförunum í gegnum flótta fjölskyldunnar en hinn misheppnaði rithöfundur Jackson Curtis (John Cusack) hefur fyrir tilviljun komist að því að enn sé von að komast af.

Þar sem heimsendir hefur áhrif um allan heim, þá eru fulltrúar frá flestum heimsálfum.  Indverskur vísindamaður sem staðfesti tilgátu Maya indíánanna. Svartur Kani sem minnir mjög mikið á Obama forseta og kínverski drekinn. Fulltrúar kalda stríðsins, Kanar og Rússi. Tíbetar og Lama. Minni sótt úr biblíunni. Einnig koma fyrir náttúruógnir sem eru fyrir í Yellowstone þjóðgarði og flóðbylgjur (tsunami).  Ekkert er þó minnst á Ísland, en jarðfræðilega er landið merkilegt haldið uppi af heitum reit. Öllu þessu er blandað saman í tveggja og hálftíma stórslysamynd eftir Roland Emmerich, stórslysaleikstjóra.

Tölvubrellur eru í aðalhlutverki og því er handrit og persónusköpun ómarkvist. En Woody Harrelson nær að stela senunni í litlu hlutverki, sérlunduðum útvarpsmanns.  Þó eru tvær óvæntar  fléttur í myndinni, önnur kemur inn í pólveltu í rússneskri Antonov flugvél og hin er áætlunin sem haldið er leyndri fyrir áhorfendum. En björgunaráætlunin er metnaðarfull.  

Þegar menn frétta af endalokum jarðar, þá grasserar spillingin. Bjarga þarf mannkyninu og hver ræður því hverjir fá að lifa? Myndin tekur á því, veltir upp siðferðilegum spurningum.

Ég gerði flóttaáætlun í huganum. Hæsti punktur Vestfjarða er einna öryggastur en afskrifað hann þegar flóðhæðin var komin í 9.000 metra. Maður á ekki sjens, eða hvað.

Ekkert óvænt gerist með aðalsöguhetjurnar og er hamingjusamur endirinn dæmigerður fyrir Hollywoodmyndir. Ekki þora þeir að taka áhættur. Hræddir við endalokin.

Þessi stórslysamynd er bærilegasta afþreying, vel gerð og það þarf að horfa á hana í almennilegu kvikmyndahúsi með góðu hlóðkerfi til að hún njóti sín.


Guð blessi Ísland ***

Þjóðverjar töpuðu mest, þeir vilja ekki tala um það. Skammast sín svo mikið. 

Eitthvað á þessa leið segir Jón Ásgeir í falinni myndavél í heimildarmyndinni um bankahrunið, Guð blessi Ísland eftir Helga Felixson.   Þetta er ein athyglisverðasta kenningin í myndinni.

Helgi notar nýja aðferð, falda myndavél og nær nokkrum óvæntum atvikum. Sérstaklega koma ríku karlarnir skemmtilega út. Ég er ósáttur við þessa nálgun í heimildarmyndum. Þarna er farið út á grátt svæði og traust getur hæglega glatast.

Myndin segir frá þrem persónum sem eru aktíf í Búsáhaldabyltingunni. Tveir eru öflugir mótmælendur, Sturla Jónsson og Eva í Nornabúðinni og þriðji er lögga, Dúni Geirsson. Síðan er skipt á milli á útrásavíkingana, Bjarna Ármanns, Björgúlf Thor og Jón Ásgeir. Einnig kemur fv. forsætisráðherra Geir H. Haarde við sögu.  

Sturla er sýndur í nýju ljósi og kemur feikna vel út með fjölskyldunni.  Löggan sem ver Alþingi fyrir mótmælendum kemur einnig vel út. Ekta Íslendingur, fullur af hæfileikum á mörgum sviðum.

Það sorglegasta við Búsáhaldabyltinguna sem heppnaðist vel,  ríkisstjórnin féll, er að söguhetjurnar flúðu land. Láta aðra um uppvaskið eins og Sturla orðaði svo skemmtilega.

Tónlistin er góð hjá allsherjargoðanum Hilmari Erni Hilmarssyni. Myndataka er góð á köflum en fréttamyndir koma illa út.

Ágætis samantekt á Búsáhaldabyltingunni og persónum sem henni tengdust. Aðeins of langdregin og enginn sökudólgur fundin fyrir hruninu.


Gaukshreiðrið *****

Mikið var gaman að horfa á Gaukshreiðrið á RIFF hátíðinni í vel skipuðum aðalsal Háskólabíós í vikunni ásamt meistara Milos Froman leikstjóra meistaraverksins.

GaukshreidridGaukshreiðrið  snertir á svo mörgum hliðum mannlegra tilveru og samskipta, misbeitingu valds og hvernig við drögum hluti í dilka. Myndin fjallar um hinn lífsglaða McMurphy (Jack Nicholson). Hann er eins og margir sem við þekkjum, óstýrlátur kvennamaður og slagsmálahundur. Einnig hefur hann gaman af fjárhættuspilum og að skemmta sér. Hann brýtur af sér og kýs heldur að fara á geðsjúkrahús heldur en að vinna í fangelsi. Sú ákvörðun reynist honum dýrkeypt því illmennið, hin sakleysislega Rachett (Louise Fletcher) yfirhjúkrunarkona er harðstjóri sem misnotar vald sitt og kúgar geðsjúklingana.

Leikurinn er stórgóður og eiga allir leikarar stórleik enda hafa þeir úr miklu að moða. Sagan er margslungin og góð framvinda. Enda hlaut kvikmyndin Óskarsveðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki karla og kvenna. Besta leikstjórn, besta myndin og besta handritið.

Eftir að hafa horft agndofa á myndina steig Milos Forman á stokk og sagði stuttlega frá kvikmyndinni. Síðan tóku við mis gáfulegar spurningar frá áhorfendum. Það er alltaf gaman að þessu lið, spurt og svarað.  

Þar kom fram að þolinmæði er dyggð. Það þurfti að bíða í hálft ár eftir Jack Nicholson. Nokkrum leikurum var sent handrit, m.a. Marlon Brando. Forman bjóst ekki við að hann hefði einu sinni lesið það.  Myndin er tekin í nánast réttri tímaröð á geðsjúkrahúsi, Oregon State Mental Hospital,  sem var í fullum rekstri og aðstoðuðu sumir sjúklingarnir við upptökur. Forstjóri sjúkrahússins lék sjálfan sig og var þar eini spuni myndarinnar. Forman bað hann um að spyrja spurninga sem hann myndi ávallt spyrja. Jack lék með. Uppáhalds atriði Formans og eflaust fleiri var þegar indíáninn stæðilegi braust út fyrir veggi sjúkrahúnsins með góða anda með sér. En það var vel undirbúið atriði. Annað atriði sem honum þótti vænt um, var þegar sjúklingarnir fóru í veiðiferð. Það batnaði með árunum en hann var efins um að hafa það með í fyrstu. 

Bókin sem myndin byggir á er sögð frá sjónarhóli indíánans og var því breytt. Lýsingar voru mjög myndrænar en það gekk ekki upp í kvikmynd. Ken Kelsey, höfundur bókarinnar neitar að horfa á myndina. Lítur á það sem skemmdarverk.

Forman benti ennfremur á að hjúkrunarkonan Rachett væri táknmynd valdsins, holdgerfingur kommúnístmans fyrir austan Járntjald.  Hann valdi leikara með saklaust útlit í hlutverk yfirhjúkrunarkonunnar  til að stuða áhorfendur meira en ef valin hefði verið þekkt bredda þá hefðu menn verið viðbúnari.

Ógleymanlegt kvöld.


Bílabíó á kvikmyndahátíð

Skelltum okkur á bílabíó, eins og í Grease í kvöld.  Klassísk mynd söngvamynd, Með allt á hreinu. Enskur texti. Baráttu milli Stuðmanna og Gæra. Fín útsending á FM 89.5, hljóð og mynd fylgdust vel að og bassinn fínn í bílnum.  Gaman að upplifa þetta í kvöld.


Inglourious Basterds ****

That's a bingo!    - Colonel Hans Landa

IBAusturríski leikarinn Christoph Waltz er stórgóður í hlutverki gyðingaveiðarans Hans Landa í stríðsmyndinni Inglourious Basterds. Stórmagnað  er að fylgjast með yfirheyrslum hans. Það er leikur kattarins að músinni. Setningin hér að ofan er hápunktur í einni yfirheyrslu hans.

Quentin Tarantino fer sínar óhefðbundnu leiðir í kvikmyndagerðinni. En handritið var í vinnslu í áratug. Myndin er kaflaskipt eins og í Kill Bill. Flott myndataka með löngum samtölum. Þetta er hans eigin stríðsmynd og í stiklu með myndinni segir hann að þarna séu stórbrotnar persónur sem hefðu breytt stríðinu hefðu þær verið til. 

Tónlistin er athyglisverð.  Hún spannar allt frá mexíkóskum spaghettívestrum til David Bovie með lagið Putting Out Fire úr Cat Peole, en undir laginu fylgdi eitt magnaðasta atriði myndarinnar.

Mér er minnisstætt þegar við vorum í smekkfullu Háskólabíó á Kvöldstund með Tarantino í lok árs 2005. Þar voru sýndar þrjár Kung-Fu myndir í einum rykk. Hann hvatti fólk til að hvetja söguhetjuna áfram og var fremstur í flokki. Þetta átti að minna á kappleik. Sama hugmynd er notuð í þessari mynd en sögusviðið gerist að hluta í kvikmyndahúsi í París.

Góður tímapunktur að fara á myndina og minnast þess að í dag, 1. september,  eru nákvæmlega 70 ár síðan Heimsstyrjöldin hófst.

 


Menn sem hata konur ****

Sænska spennumyndin Menn sem hata konur (Män som hatar kvinnor) er vel heppnuð og heldur manni vel við efnið.

Sagan er í Agötu Christie stíl. Dularfullt mannshvarf og allir fjölskyldumeðlimir hinnar efnuðu Vanger fjölskyldu liggja undir grun. Rannsóknarblaðamaðurinn Mikael Blomkvist er fenginn til að leysa þetta 40 ára gamla mál. Inn í málið kemur nútímakonan og tölvuhakkarinn Lisbeth Salander sem er vel leikin af íslenskættaðri Noomi Rapace.

Persónusköpun er góð og tekur nokkurn tíma í byrjun myndar. Inn í söguna fléttast "Byrgismál" og Nazistar eru endalaust fóður fyrir góðar fléttur.

Myndin byggir á bók eftir Stieg Larsson sem ég hef ekki lesið og hef því ekki samanburð milli miðlana. Veit ekki hvort ég leggi í bækurnar í vetur, hver veit. En mér líst vel á framhaldið.

Þetta er áhugaverð mynd fyrir tölvunörda. Þeir eiga sinn fulltrúa þó hann sé á jaðrinum og ekki skemmir fyrir að hafa konu í því hlutverki. Hún er eldklár í tölvuinnbrotum og vinnur á við eitt gengi. Það eru tvö atriði sem tölvuáhugamenn ættu að taka sérstaklega eftir.

1) Þegar Lisbeth sendir dulkóðaðan tölvupóst til félaga síns "Plague", þá kemur "decrypting" í stað "encrypting" á tölvuskjáinn.  Dulritun (dulkóðun, e. encryption) felst í stuttu máli í því að umrita tiltekin skilaboð þannig að óviðkomandi geti alls ekki komist að innihaldi þeirra.  Öfuga ferlið til að endurheimta upprunalegu skilaboðin er kallað dulráðning (afkóðun, e. decryption).

2) Myndin á að gerast árið 2005 en Michael og Lisbeth nota Apple MacBook Pros tölvu sem fyrst var seld árið 2006. Svo versnar það. Lisbeth notar Mac OS X 10.5 "Leopard" sem fyrst kom á markað í október 2007.  Þetta er smáatriði sem skiptir ekki máli en verður að vera til að gera myndina meira sannfærandi. Tæknin er færð fram í nútímann en glæpurinn stenst tímans tönn.

Góða skemmtun og reynið að finna skúrkinn á undan Mikael og Lisbeth.


Saklausar raddir

Saklausar raddirÍ Sjónvarpinu í gærkveldi var sýnd mexíkósk kvikmynd, Saklausar raddir (Voces inocentes). Myndir frá Mexíkó eru ekki algengar á Fróni og var þessi mynd góð sending.  Hún greinir frá  ungum dreng, Chava í El Salvador á 9. áratug síðustu aldar sem reynir að lifa eðlilegu lífi þótt alls staðar í kringum hann geisi borgarastríð. Drengurinn býr í fátækrahverfi en það er stutt í gleðina. Á kaldastríðsárunum 1980 til 1992 geysaði borgarastrið í El Salvador og létu 75.000 manns lífið.  Skæruliðar FMLN sem voru kommúnistar og undir kúbönskum áhrifum börðust við stjórnarherinn sem studdur var af Reagan stjórninni.

Það er athyglisvert að sjá sjónarhorn drengsins og einhvernvegin finnst manni Guantanamo fangabúðirnar vera  léttvægar þegar mannréttindabrot í borgarastríði eru sagðar. Í samantekarlista í lokin er sagt frá áhrifum borgarastríðsins. En börn frá El Salvador voru send til 40 landa. Borgarastríð eru ömurleg stríð.

Ein bandarísk mynd sem kemur upp í hugann þegar þessi mynd er skoðuð er Salvador, frumburður Oliver Stone. James Woods  leikur þar vel ljósmyndara. Það var eftirminnileg mynd.

Skora á Sjónvarpið að skoða heiminn og sýna kvikmyndir frá fleiri menningarsvæðum. Það gera fleiri góðar kvikmyndir en Íslendingar og Hollywood.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 233594

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband