Færsluflokkur: Enski boltinn

Topp 10

125 Komnir á topp 10 með 10 stig og leikmaður númer 10, Hollendingurinn Robin van Persie maður leiksins gegn Sunderland í 2-1 sigri.

Nú eru aðeins 6 stig í Meistaradeildarsætið og er stefnt þangað um áramótin, eftir jólavertíðina, þegar Vermalen verður kominn í hjarta varnarinnar. Meistaradeildarsæti er gott sæti fyrir lið í uppbyggingu.

Í dag var fánadagur á Emirates, Arsenal For Everyone. Fallegt þema um vinsemd og virðingu fyrir fólki enda Arsenal með leikmenn af mörgum þjóðernum. Arsenal er eins og sameinuðu knattspyrnuþjóðirnar í boltanum. Ég taldi fulltrúa frá 23 þjóðum auk föðurlandsins, Englands í leikmannahópi liðsins. En enginn Íslendingur þar á meðal.

Enginn Bentner var í liði Sunderland í dag enda lánsmaður en annar fyrrum liðsmaður var næstum búinn að stela senunni, Larsson frá Svíþjóð en hann skoraði gott mark úr aukaspyrnu fyrir Svörtu kettina.

Byrjunarlið Arsenal á móti Svörtu köttunum frá Sunderland.

                    Pólland
Finnland Þýskaland Frakkland England
       Tékkland Kamerún Spánn
     England Holland Filabeinsströndin

Bekkurinn: Pólland, Sviss, Brasilía, Ghana, Ísrael, Rússland og S-Kórea

Brött byrjun Arsenal

125crest

Mér líður líklega eins og belju sem sleppt er út úr fjósi á vorin þegar Enski boltinn fer að rúlla. Það er alltaf eitthvað spennandi í loftinu.

Byrjunin hjá Arsenal í ágúst á 125 ára afmælisári er brött. Þrír stórleikir í úrvalsdeildinni og tveir mikilvægir við Udinesse í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Opnunarleikurinn verður á hinum stórmagnaða leikvangi St. James Park í Newcastle. Þar mætir Toon Army Skyttunum.
Kíkjum á úrslit síðasta árs á móti sömu liðum.

05.02.2011 Newcastle - Arsenal 4-4  (Barton 68 (pen), 82 (pen), Best 75, Tiote 87 - Walcott 1, Djourou 3, van Persie 10, 26)
17.04.2011 Arsenal - Liverpool 1-1  (Persie 90 - Kuyt 90)
13.12.2010 Man. Utd - Arsenal  1-0  (Park 40)

Allt sögulegir leikir á síðasta leiktímabili, sem mikið hefur verð fjallað um. Tvö stig var uppskeran sem er heldur rýrt.

Eins og sést, þá tapaði Arsenal niður fjögurra marka forystu á móti Newcastle og hafði komist í 3-0 eftir 10 mínútur. Voru margir stuðniningsmenn Toon Army farnir heim en í byrjun síðari hálfleiks tókst Joey Barton að æsa Diaby upp og flaug hann útaf á 50. mínútu. Má segja að þarna hafi einn snúningspunkturinn orðið á síðasta keppnistímabili.
Fjögur Skjóramörk fylgdu í kjölfarið. Skjórarnir skutust því nær óskaddaður undan skyttunum.

Fyrr á tímabilinu áttust liðin við í Carling Cup og lagði Arsenal heimamenn að velli 0-4.
Ætli fjögur Arsenal-mörk líti dagsins ljós í dag?

Líklegt byrjunarlið Arsenal:
         13. Wojciech Szczesny
3. Sagna 5. Vermalen 6. Koscielny 28. Gibbs
17. Song   19. Wilshere  16. Ramsey
14. Walcott      10. Persie 23. Arshavin

Síðan koma Gervinho og Rosicky á kantana á 65. mínútu. Það verður gaman að fylgjast með nýliðanum og vonandi setur hann mark sitt á leikinn.

Markmiðið fyrir ágúst er að tryggja sæti í Meistaradeildinni og tapa ekki leik í úrvalsdeildinni og finna góðan dvaldarstað fyrir Fabregas og Nasri, það er ágætis byrjun.

Ekki er raunhæft hjá Arsenal í umbreytingaferli að setja stefnuna á sigur í Úrvalsdeildinni en það eru fleiri verðalunagripir í boði og styttri leið að þeim.  Birmingham gat t.d. náð í einn á síðasta tímabili.

Nú tekur maður Carlsberg bjórinn í sátt og skálar í botn, en  Carlsberg er opinber bjór á Emiratdes. Gleðilega knattspyrnuveislu.


Borgarslagur í Carling cup

Við vitum lítið um lífið í Birminghamborg en við vitum meira um knattspyrnulið Birmingham sem leikur úrslitaleik Carling Cup á morgun við Arsenal sem staðsett er í heimsborginni, London.

Í smásögu eftir Einar Kárason, edrúmennska nefnist hún er ein sögupersónan við nám í Birmingham. Þar segir um Birmingham: "Borgin virtist mér reyndar vera furðu daufleg; þetta er þó næststærsta borg Englands og var mikil iðnaðarmiðstöð, er í hjarta bresku hliðstæðunnar við Ruhr-héraðið í Þýskalandi sem kallað er "Black country", sjálfsagt út af kolareyk og járnsvarfi."

Eflaust er borgin og nágrenni að verða grænni og fallegri en mikið átak hefur verið í Bretlandi að bæta umhverfið svo lungu borgarbúa og knattspyrnumanna fyllist ekki af ólofti. Það er því skrítið að Íslendingar vilji fylgja dæmi Birmingham búa á 19. öld og staðsetja stóriðju í túnfætinum.

En snúum okkur að leiknum á Wembley, mekka knattspyrnunnar. Hvernig verður lið Arsenal skipað? En þessi bikar hefur verið notaður af Wenger til að gefa nýliðum tækifæri. Nú hefur orðið stefnubreyting. Einnig hefur leiðin í úrslitaleikin verið erfið. Besta mögulega lið mætir á Wembley. Ég ætla að nota Excel-hagfræðina,  þó hún sé stórhættuleg, hún setti m.a. bankana á hausinn, og setja mínútur leikmanna inn í töflu.

 TotNewWigIpsIps
Djourou12090909090480
Koscielny12090909090480
Denilson12090909090480
Eboue12090909072462
Szczesny90909090360
Wilshire120736790350
Bendtner83856890326
Gibbs102189090300
Walcott9090906276
Vela72699011242
Arshavin487984211
Fabregas219090201
Rosicky7290162
van Persie7384157
Nasri120176143
Fabianski120120
Lansbury120120
Clichy1890108
Eastmond9017107
Sagna721890
Chamakh482270
Song2323
Emmanuel-Thomas7512

Líklegt byrjunarlið:  Szczesny í marki. Eboue, Koscielny, Djourou og Gibbs í vörn. Wilshire, Denilson og Diaby á miðjunni. Nasri og Arshavin á vængjum og frammi fyrirliðinn Robin van Persie.

En Birmingham mun ekkert gefa eftir. Í 136 ára sögu liðsins hefur það aðeins einu sinni lyft bikar á loft, það var einmitt deildarbikarinn árið 1963.


Arsenal-Barcelona á Wembley 1999

Það var ekki hægt að sleppa þessum leik á Wembley leikvanginum, Arsenal-Barcelona, 19. október 1999.  Rifjast upp minningar vegna stórleiksins Arsenal-Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

arsbar99 Arsenal-klúbburinn með Kjartan Björnsson í öndvegi var með hópferð og ég stökk strax á ferðin en hún hófst á föstudegi og heimkoma var á miðvikudegi. Á laugardegi var boðið upp á leik Arsenal gegn Everton sem endaði 4-1 en stórleikurinn í Meistaradeildinni á Wembley var aðal takmarkið.

Gamli Wembley var sveipaður dýrðarljóma og var stór hluti af knattspyrnusögunni. Því varð maður að fara í pílagrímsför og sjá turnana tvo. Fyrst maður var búinn að eyða svo miklum tíma í að fylgjast með knattspyrnu.

Það var mikil stemming í rútunni og gaman að ferðast um London á leikdegi. Þegar Wembley völlurinn nálgaðist sáust fánar og vel klætt fólk á leið á leikinn. Góð aðstaða var fyrir framan völlinn fyrir rútur og þurftu menn að leggja staðin vel á minnið. Í gögu stutt frá leikvanginum var mikið um búðir og sölubása. Indverskir sölumenn voru í miklum meirihluta. Það var ágætis sala í bjór hjá þeim. Þegar komið var inn á leikvanginn, og þegar maður nálgaðist klósettin tók á móti manni megn ammoníakslykt.

En þegar í stúkuna var komið blasti glæsilegur hringur við okkur. Spánverjarnir voru í hólfi á móti okkur og voru hávaðasamir en það fylgir íþróttinni. Baráttusöngvar voru sungnir og mátti heyra slagara eins og: "Vo-o-ó Vieira, vo-o-ó Vieira!" einnig langt gól til stuðnings "Kanuuuuuuuuu". Henry var ekki búin að finna fjöllina sína á þessum árum enda nýlega kominn til liðsins.

Leikurinn við Barcelona var í fjórðu umferð og í Barcelona náðust hagstæð úrslit, 1-1 en þessi eftirminnilegi leikur endaði með stórsigri Barcelona, 2-4. Hollendingurinn flughræddi, Dennis Bergkamp skoraði fyrra mark heimamanna og hollendingurinn fljúgandi, Marc Overmars hið síðara. Mörk Barcelona skoruðu: Brasilíumaðurinn Rivaldo sem var allt í öllu úr víti, Luis Enrique, Luis Figo og Philip Cocu.  Arsenal endaði í þriðja sæti í riðlinum. Barcelona og Fiorentina fóru áfram í Meistarakeppninni. Arsenal fór í úrslitaleikinni í litlu Evrópukeppninni en tapaði fyrir Galatasaray í úrslitaleik.

Scan-110215-0001

Ferðafélagi minn, Einar Jóhannes Einarsson, var vel tengdur inn í eigandahóp Arsenal og fékk hann tvo miða á hóf eftir leikinn. Við þökkuðum fyrir okkur og klæddum okkur upp snyrtilega. Partíið var í syðri turninum og þurftum við að sýna boðsmiðann 20 sinnum á leiðinni.

Það var jarðafarastemming í turninum. Fámennt en góðmenn og fólk af ýmsu þjóðerni. Boðið var upp á snittur og salurinn var vel skreyttur UEFA og Meistaradeildar-fánum. Flottur enskur bar var í enda samkomusalarins.

Englendingarnir í liði Arsenal komu og heilsuðu upp á samkomugesti en erlendu leikmennirnir fíluðu ekki þessa samkomu. Varnarmaðurinn Matthew Upson, sem kom inná í leiknum, var hinn viðkunnanlegasti og kenndi okkur hvernig áritanir eiga að líta úr. Einnig var hægri bakvörðurinn Lee Dixon viðræðugóður en hann átti ágóðaleik við Real Madrid í vændum. 

Sviðið átti David Seaman, hann mætti með nýja föngulega spúsu upp á arminn og gekk beint að barnum þegar inn í veislusalinn var komið og mælti með sinni djúpri röddu "one Bud", var ekki að svekkja sig mikið þó fjögur mörk hafi lekið inn. Lífið heldur áfram.

Martin Keown ræddi lengi við ættingja sinn en hann var slasaðist er víti var dæmt á Arsenal á 15. mínútu er Tony Adams var dæmdur brotlegur.  Verið var að hjúkra honum er miðjan var tekin og Barcelona náði boltanum og skorað, komst í 2-0 með mörkum á 20. sekúndna millibili. Já, hann hafði mikið um þetta að segja.

Tony Adams birtist seint og var hinn pirraðasti. Frammistaða hans í leiknum átti eftir vera fyrirsögn ensku dagblaðanna. "El for Adams and Gunners" var fyrirsögn The Mirror. Einnig stóð feitletrað á baksíðu blaðsins: "Arsenal's Champions League dreams was hanging by a thread last night after Tony Adams first-half horror show".

Einar Jóhannes var svo sniðugur að kaupa bókina "Addicted", og bað hann höfundinn um að árita hana. Tony gerði það en gretti sig mjög. Vildi gera allt annað en að skrifa nafn sitt á þessari stundu.  Ég ákvað að nýta tækifærið og bað fyrirliðann um áritun á leikskránna. Hann gretti sig enn meir og bað um penna. Ég var pennalaus en fékk lánaðan penna. Fyrirliðinn var snöggur að krota nafn sitt á leikskránna og afhenda mér. Já, það var ekki heppilegt að hitta fyrirliðann eftir "horror show".

Man eftir einum lávöxnum strákling sem lítið lét yfir sér. Hann var með veiðihúfu, en samkvæmt nýjustu tísku, á höfði og líktist menntaskólastrák. Skömmu síðar áttaði ég mig á að þetta var Freddi e Ljungberg en hann var að hefja ferilinn sem átti eftir að vera glæsilegur.

Patrik Vieira sást í lokin. Hann sveif í gengum veislusalinn í turninum fræga eins og draugur og mælti ekki orð við nokkur mann.

Aðrir leikmenn létu ekki sjá sig eða voru ekki minnisstæðir.

Forráðamenn Arsenal fengu þá flugu í höfuðið að spila heimaleiki sína á Wembley en Highbury tók aðeins 38.000 manns. Wembley tók 75.000 manns í sæti en liðinu gekk illa á leikvellinum og í sífelldu brasi með að komast upp úr riðlakeppninni.

Arsenal: Seaman, Dixon, Keown, Adams, Winterburn, Ljungberg, Parlour, Vieira, Overmars, Kanu, Bergkamp.

Barcelona: Arnau, Abelardo, Bogarde, Gardiola, Reiziger, Coco, Rivaldo, Figo, Sergei, Luis Enrique, Kluivert.

Það var vel skipað lið Barclelona og hver leikmaður öðrum betri.  Liðið féll að lokum út í undanúrslitum fyrir Valencia sem tapaði fyrir Real Madrid 3-0 í úrslitaleik.

Scan-110215-0002


mbl.is Messi 4 Arsenal 1 (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

4-4 gegn Newcastle

Ótrúlegur viðsnúningur varð á leik Newcastle United og Arsenal í dag. Eftir meðvitundalausa byrjun Newcastle, þá voru þeir komnir 0-4 undir eftir 26 mínútur en tókst að jafna leika. Arsenal-menn sáu leiktímabilið renna út í sandinn en svo komu óvæntar fréttir frá Wolverhampton.

Byrjunin á leiknum í dag, minnti mig á leik sem ég sá á Highbury 28. febrúar 2004. Ósnertanlega tímabilið. Þá hóf Arsenal leikinn af krafti og á annarri mínútu skorðaði Robert Pires fyrsta mark leiksins. Á fjórðu mínútu kom Thierry Henry Arsenal í 2-0 og íslenskir Arsenal menn sem voru í hópferð voru farnir að spá í hvort tveggja stafa tala gæti birst á stöðutöflunni. Leikmenn Charlton með Hermann Hreiðarsson innanborð gerðu lítið annað á fyrstu fimm mínútum annað en að taka miðju.

Arsenal slakaði á klónni og í síðari hálfleik, á 59. mínútu minnkaði Daninn Claus  Jensen muninn. Þegar uppbótartími var að renna upp, þá átti einn leikmaður Charlton hjólahestaspyrnu sem hafnaði í innanverði stönginni en sem betur fer, fyrir ferðamenn frá Íslandi, þá fór knötturinn í átt að hornfánanum. Naumur 2-1 sigur eftir frábært upphaf.

Ég hafði orð á þessum leik í dag kl. 15.05 og sagði áheyrendum frá heppni okkar. Ekki óraði mig fyrir því að hægt væri að klúðra fjögurra marka forystu en allt er víst hægt.

Keppnistímabilið 2008/2009 sáust þessar tölur tvisvar á stöðutöflunni. Fyrri leikurinn var gegn nágrönnunum, Tottenham og Liverpool á Anfield en þá skoraði Arshavin fernu. Þessir leikir þróuðust öðruvísi.


Chapman-dagurinn

Arsenal - Huddersfield Town í dag í enska bikarnum. Það er því Chapman-dagur í dag hjá Arsenal-mönnum. En tengingin á milli þessara liða er hinn farsæli knattspyrnustjóri, Herbert Chapman (1878-1934).

Chapman byggði upp Hudderfield Town liðið og vann með þeim bikarinn árið 1922 og deildina 1924. En þá tók hann við Arsenal. Hudderfield vann ensku deildina næstu tvö ár. 

Það tók Chapman fimm ár að byggja upp óvígan her á Highbury. Árið 1930 vann liðið enska bikarinn og ensku deildina, 1931, 1933, 1934 og 1935.

Chapman var ekki bara góður í að þróa góð leikkerfi. Hann hafði einnig mikil áhrif á umgjörð leiksins. T.d. nýtti hann þjónustu læknaliðs, bætti aðgengi áhorfenda og nýtti flugvélar fyrir leikmenn í löngum ferðalögum. Einnig sá hann kosti flóðlýsingar á leikvöllum og númer á treyjum leikmanna voru fyrst kynntar til sögunnar á Highbury.

Hann var farsæll stjóri og gerði Arsenal að ríkasta félagi Englands. Því gátu menn leyft sér ýmislegt en margar af hugmyndum hans fengu ekki brautargengi á Englandi út af kostnaði fyrir félögin en síðar sáu menn ávinninginn.

Um aldamótin var Herbert Chapman valinn besti stjóri allra tíma af hinu virta dagblaði The Times.

115_1551

Mynd tekin í marmarahöllinni á Highbury, þann 1. apríl 2005 í hópferð Arsenal-klúbbsins á leik Arsenal við Norwich City sem endaði 4-1. Á myndinni er brjóstmynd af Herbert Chapman og bloggara.


Stóri Sam hjá Blackburn

Smá staðreyndarvilla: 

"Sam Allardyce knattspyrnustjóri Bolton sakar kollega sinn hjá Arsenal"

Sam Allardyce er hjá Blackburn  en Owen Coyle er núverandi stjóri Bolton. Þessi frétt var rétt árin 1999 til 2007.

Arsenal spilaði við Blackburn í lok ágúst og hafði sigur 1-2 en leikur við Bolton með Owen Coyle var um síðustu helgi.


mbl.is Allardyce: Wenger með flesta fjölmiðla í vasanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enski boltinn rúllar af stað í dag

Stór dagur fyrir knattspyrnuáhugamenn. Enski boltinn byrjar að rúlla í dag en með nýju kvótakerfi í leikmannamálum sem býður upp á sukk. Enskir meðal knattspyrnuguttar munu fara á milli félaga fyrir háar upphæðir til að fylla kvóta. Lausnin hjá Englendingum til að bæta enska landsliðið og auka gæði enskra leikmanna er að mennta   þjálfara í grasrótinni en það hafa Spánverjar og Frakkar gert með einstökum árangri.

Einnig verður knattspyrnuforystan að taka til sín í rekstri knattspyrnufélaga. Bilið á milli stóru og ríku félagana og þeirra litlu og fátæku er sífellt að breikka. Móta þarf reglur um tekjur félagana og geta knattspyrnuforkólfar horft til NBA í Bandaríkjunum, föðurlandi kapítalismans og lært af þeim en þar er ýmislegt gert til að jafna stöðu liðanna svo íþróttin verði spennandi fyrir alla.

Vonandi verður enski boltinn spennandi í vetur. Fínt að fá sex lið í meistarabaráttuna, Arsenal, Chelsea, Manchester City og United, Liverpool og Everton. Einnig er æskilegt að fá jafna baráttu á botninum.

Á morgun verður stórleikur á Anfield Road.  Liverpool og Arsenal  leiða saman hesta sína. Það er fínt að fá Liverpool á undirbúningstímanum. Við sigruðum á síðasta tímabili, 1-2 með góðu marki frá Arshavin og sjálfsmarki Johnson. Vona ég að sagan endurtaki sig og að Rússinn knái hrelli The Kop. Til vara er krafan um jafntefli sett fram.

Ég vona að ég komist upp á topp Öræfajökuls á Hvannadalshnjúk næsta vor en  meðan fæturnir bera mig mun ég fagna hverjum meistaratitli Arsenal með flöggun á þaki Íslands.

Hér er mynd sem sýnir fánahyllingu árið 2004. En það ár vann Arsenal deildina án þess að tapa leik. Síðan hófst vinna við að byggja upp nýtt sigurlið og vonandi sér fyrir endann þá þeirri vinnu í vor.

 Meistarahylling á Hvannadalshnjúk


Æfingatímabilið hjá Arsenal hófst með 4-0 sigri á Barnet

Æfingatímabilið hjá Arsenal hófst í dag á Underhill leikvanginum á hefðbundnum opnunarleik við Barnet. Varalið Arsenal spilar heimaleiki sína á leikvellinum. Barnet spilar í 2. deild eða D-deild.  Arsenal spilaði í nýju búningunum. Hinum hefðbundna, rauða með hvítu ermunum. Líkar mér það betur. Það var vorbragur á leik liðanna og lítil harka.  Tíu HM-kempur eru í fríi og koma hver á fætur öðrum inn í liðið. Vonandi verður búið að fínstilla það fyrir fyrsta leik í úrvalsdeildinni við Liverpool eftir mánuð.

Koscielny Mikla athygli vakti að markvörðurinn Almunia var ekki með en hann var í hópnum sem gefin var upp fyrir leik. Nú er spurningin hvort eðlilegar skýringar séu á brotthvarfinu eða hvort nýr markvörður sé á leiðinni.

Nýju leikmennirnir  Marouane Chamakh og Laurent Koscielny voru kynntir til leiks. Þeir skiptu hálfleiknum á milli sín en voru lítt áberandi.

 

Rússinn knái Andrei Arshavin kom Arsenal í forystu á annarri mínútu. Jay Simpson bætti öðru og þriðja við á þeirri 16 og 45. Wilshire var sprækur í fyrri hálfleik og bar upp spilið en margar sóknir komu upp vinstri kantinn þar sem Traore og Arshavin réðu ríkjum.

 

Chamakh

Í síðari hálfleik kom nýtt lið inná, 11 skiptingar og hálfleikurinn daufur. Nasri skoraði fjórða markið á 75. mínútu eftir skelfileg mistök varnarmanns Bees. Walcott átti tvö góð færi sem ekki nýttust.

Það var létt yfir mönnum, ferð til Austurríkis framundan og Emirates Cup. Æfingatímabilið endar svo í Póllandi.

Byrjungarlið Arsenal: Fabianski, Nordtveit, Vermaelen, Koscielny, Traore, Frimpong, Rosicky, Wilshere, Arshavin, Simpson, Emmanuel-Thomas

Seinna lið Arsenal: Wojciech Szczesny, Vito Mannone, Craig Eastmond, Samir Nasri, Conor Henderson, Henri Lansbury, Theo Walcott, Nacer Barazite, Ignasi Miquel, Johan Djourou, Kieran Gibbs og Maroune Chamakh.


St. Totteringham's day

St. Totteringham's day gæti runnið upp í dag. En það verður ljóst þegar flautað verður til leiksloka í leik Blackburn og Arsenal síðdegis.

En St. Totteringham's dagurinn er  dagurinn þegar Tottenham getur ekki náð Arsenal að stigum í Úrvalsdeildinni. Munurinn á liðunum er 5 stig og sex stig í pottinum hjá Spurs. Því dugar sigur hjá Arsenal í dag til að tryggja þriðja sætið og hefja hátíðina.

Fyrir marga Arsenal menn er St. Totteringham's day stærri dagur en jóladagur. Sérstaklega fyrir þá sem búa nálægt stuðningsmönnum Spurs.

St. Totteringham's dagurinn getur því verð breytilegur og er hann frekar seint á þessu ári. Fyrir tveim árum var hann 9. marz.  Svona hefur Spurs farið mikið fram en þeir hvítklæddu hafa haft 9 stjóra á meðan Arsene Wenger hefur stjórnað Arsenal. Stöðugleiki er málið.

Árið 1995 var slæmt ár. Þá rann St. Totteringham's dagurinn ekki upp. Þá var George Graham látinn taka pokann.

Fyrir þá sem hafa áhuga á meiri tölfræði um St. Totteringham's daginn, þá er hér ágætis yfirlit frá 1971.

Einnig er hægt að njóta dagsins með félögum á Facebook.


mbl.is Wenger: Treystið okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 89
  • Frá upphafi: 235893

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband