Færsluflokkur: Ferðalög

Leggjabrjótur

Hvað er þjóðlegra en að ganga frá Þingvöllum yfir Leggjabrjót í Botnsdal í Hvalfirði.  Ég ákvað að halda upp á Þjóðhátíð á með því að fara þessa leið.

Lagt var af stað frá Þingvöllum kl. 19. í gærkveldi í austan strekkingi. Við vorum því á lensi. Í ferðinni voru 23 garpar, flestir starfsmenn Brimborgar. Auðvitað ferðuðumst við með Brimborgarbílum á Þingvöll.  Gengið var eftir vel varðari leið, 16 km í Stórabotn. Farið var inn Öxarárdal, yfir Leggjabrjót, framhjá Sandvatni og nokkrum Biskupsörnefnum. Komið var niður í fallega Botnsdal og á áfangastað kl. 23.  Vindurinn hélt okkur vel við efnið í kraftgöngunni. Á leiðinni hlupu fjórir hraustir Boot Camp kappar. Það var gaman að fylgja þeim. Þegar í Botn var komið, sáum við að fjölgað hafði í hópum. Kom í ljós að 50 önnur ofurmenni höfðu lagt í sömu för.   Útvistarfólk fór einnig sína árlegu leið en hófu göngu klukkutíma síðar.

Meðalhraði okkar var 4.4 km/klst. Við vorum á hreyfingu í 3 tíma og 35 mínútur. Stopp í 25 mínútur. Mesti hraði sem ég náði var 11,5 km en þá fauk Arsenalhúfa mín af kollinum en ég náði henni að lokum.  Skemmtileg ferð með góðu fólki á þjóðlegum tíma.

Leggjabrjotur

Ari litli er þjóðlegur. Við vorum að horfa á Hátíðarhöldin frá Austurvelli í Sjónvarpinu í morgun. Þegar karlakórinn Fóstbræður hóf að syngja þjóðsönginn og hann komst að því hvaða söngur þetta var þá mælti sá stutti íþróttaálfur er hann sá Ólaf Ragnar og Geir H. Haarde.  "Þetta er ekki handboltamenn eða fótboltamenn!".


Brúarsmíði yfir Sultartungnaá

Þeir eru öflugir verkfræðingar Vegagerðarinnar. Þeir gerðu sér lítið fyrir og hlutu alþjóðlega viðurkenningu norræan vegasambandsins fyrir Þjórsárbrúnna og voru hlutskarpari en sjálf Eyrarsundsbrúin.

Ég átti leið upp í Jöklasel í vikunni og sá til brúarsmiða við smíði brúar yfir Sultartungnaá á veginum upp að Jöklaseli við Skálafellsjökul, einn skriðjökla Vatnajökuls. Gamla brúin skemmdist mikið í miklum vatnavöxtum sl. haust. Áætlað er að brúarsmíðinni ljúki í enda mánaðar eða byrjun júlí. Nýja brún verður um 23 metra löng, einbreið og með timburgólfi. Að hluta er hún smíðuð úr brúnni yfir Sæluhúsavötn á Skeiðarársandi en hún var tekin af á síðasta ári.

Nú er stóra spurningin hvort nýja brúin, hönnuð af verðlaunuðum brúarverkfræðingum, standist áhlaup Sultartungnajökuls í framtíðinni en brúarsmiðir eru öfundsverðir af hrjóstrugu og hrikalegu landslaginu.

Vinna við brúarstöpla í fullum gangi. Þeir eru 5-7 metra háir. Hörfandi jökulsporður Sultartungnajökuls gnæfir fyrir ofan en jökullinn teygði sig um aldarmótin 1900 og fram eftir 20. öld niður í Staðardal og hefur skilið eftir sig gróðurlítið far og jökulurðir. Sultartungnaá fossar nú niður um mikið gljúfur, Sultartungnagil, sem áður var jökli hulið, og gefur hún Staðará vott af jökullit.

Vegagerd 

Vegagerðarmenn voru einnig önnum kafnir við að laga fjallveginn, F985,  upp í Jöklasel og fer hann batnandi með hverju árinu en þetta er einn tilkomumesti fjallvegur landsins. Vegalengdin frá vegamótum og upp í skála er 16 km og tekur um hálftíma að þræða hann.   

Heimild:

Árbók Ferðafélags Íslands 1993. Við rætur Vatnajökuls e. Hjörleif Guttormsson. 


mbl.is Þjórsárbrúin verðlaunuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldlandið

Varð að fara að hlusta á fjallamanninn með hnífinn, Simon Yates í kvöld. Hann sagði frá Eldlandinu, Tierra del Fuego, syðsta landi Suður-Ameríku. Það var uppgötvað af Ferdinand Magellan árið 1520. Því er skipt á milli Chile og Argentínu. Flestir búa austanmeginn í Eldlandinu, Argentínu-meginn en vesturhluti landsins minnir á Grænland. Þó er hlýrra, vindasamara og hornfiskari fjöll. Gróður er mun meiri en á Grænlandi. Minnir einnig á Noreg eða jafnvel Austfirði séð úr 2000 metra hæð. Jöklar eru staðsettir þarna og kelfa í sjó. Frægastur þeirra er Moreno jökullinn. 

Það var athyglisvert að fylgjast með fjallaferðum Simon's og fjölskyldu til Eldlandsins.  Ekki var mikið um átroðning ferðamanna í fjöllum en það á eflaust eftir að aukast í framtíðinni. Syðsti hluti S-Ameríku heitir Cape Horn, hvað annað.

Moreno jökullinn

Símon var ekki mikið að eyða tímanum hjá Moreno jöklinum en fann einn af svipaðri fegurð í djúpum firði er hann kleif Mount Iorana 2.300 metra hátt fjall. Veðrið sem fjallgöngumenn fengu var glæsilegt og ótrúlega fallega myndir sem hann sýndi okkur. Kyrrðin og fegurðin "æpti" á okkur í myrkvuðum Ferðafélagssalum.


Sauðarárfoss og foss Gaudi

Í spurningaþættinum Gettu betur í gærkveldi var spurt hvað orðið nostalgía merkti. Erfiðlega gekk hinum spöku menntskælingum að svara spurningunni en nostalgía merkir ‘söknuður eftir liðinni tíð’ eða ‘heimþrá’.

Það er ekki laust við að þetta ástand hafi komið yfir mig í Park Guell eða  Gaudi garðinum fyrir tæpum hálfum mánuði.

Þegar gengið er niður úr garðinum er lækur rennur niður hlíðina fagurlega skreyttur. Í miðjum læknum er mjög þekkt eðla.  Þegar ég gekk niður stigann og virti fyrir mér umgjörðina þá var ég allt í einu kominn í heim Sauðárfoss sem tengdist Jöklu. Í dag er þessi foss á miklu dýpi í Hálsalóni.

Gaudi hafði sett eðlu í fossinn í stað skötuorms en þeir lifa í leðju hálendisvatna.120_2051

Augnabliksfólk við Sauðárfoss í júlí 2005.

IMG_7729

Lækurinn eða fossinn sem Gaudi hannaði. Það var mikill mannfjöldi þarna, mest fólk frá Asíu og geysimikið myndað.

120_2045

Sauðárfoss í mörgum þrepum.

eðla

Eðlan fræga, eitt af táknum Barcelona. Þegar nóg vatn er í borginni lekur vant úr skolti eðlunnar.  Skötuormur er langstærsta krabbadýrið sem lifir í ferskvatni á Íslandi og er alveg stórmerkilegt líffræðilegt fyrirbæri.


Humarbærinn Hornafjörður

Hornafjörður er humarbærinn á Íslandi. Humar er veiddur og ræktaður í bænum, auk þess er árlega haldin Humarhátið sem hefð er komin á.  Ekki má gleyma nýjum veitingastað, Humarhöfninni.

Það er fleiri sem hafa áhuga á humri og finnst góður matur. Ég rakst á þennan humar í Barcelona um síðustu helgi. Hann er glæsilegur í hverfi stutt frá hinni þekktu La Rambla og tengist Olympíuþorpinu við höfnina. Humarinn fer ekki framhjá neinum.

Bærinn ætti að efna til samkeppni um gerð útilistaverks með humar sem fyrirmynd. Hann gæti farið vel við pípuhliðið. Humarbærinn Hornafjörður, raunverulegt aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Bærinn ætti að efna til samkeppni um gerð útilistaverks með humar sem fyrirmynd.

IMG_7900IMG_7899

 


Færeyjar - Ísland 87-80

Færeyingar höfðu sigur í könnun National Geographic um bestu eyjurnar í veröldinni. Urðu nokkru hærri en Íslendingar, hlutu 87 stig en við enduðum með 80.

Í umsögn um Færeyjar kemur fram að eyjarnar eru vinalegar og óspilltar. Fjarlægar og svalar, einnig lausar við alltof mikið af ferðamönnum.  Athyglisverðar hafnir og fossar.

Fossar? Ekki hef ég heyrt það fyrr. Það eru fá stöðuvötn í Færeyjum og úrkoma rennur niður brattar hlíðarnar. Þetta eru litir fossar eða lækir. Eflaust mjög sjarmerandi. Ég fór því að leita að færeyskum fossum og fann þennan foss, Fossá en hann þykir einna tilkomumestur. Hann er alls 140 metra hár og lengsta bunan er 61 metri að lengd. Til samanburðar er Glymur í Botnsá, 190 metra hár.

Við töpum um 15 fossum þegar Jökulsá á Fljótsdal er þurrkuð upp, nokkrir af þeim fossum eru mjög tignarlegir og á heimsmælikvarða. Einn af þeim er Kirkjufoss sem Íslandshreyfingin byggði kosningabaráttu sína á. Hann er glæsilegur þrepa foss. 

Hér er mynd af Fossá í Færeyjum. 


Bestu eyjar í heimi

Ferðatímarit National Geographic kemur út sex sinnum á ári.  Í síðasta blaði er merkileg könnun á hversu heillandi eyjar eru fyrir ferðamenn. Alls eru 111 eyjar á listanum Bestu eyjar í heimi og höfðu 552 sérfræðingar kosningarétt. Í könnuninni eru ýmsir umhverfisþættir skoðaðir m.t.t. ferðamennsku.

Ísland er á topp 10 listanum, hvað annað, með 80 stig af 100 mögulegum.  Í efsta flokk með 77 stig eða hærra, eyjarnar sem komu best út.

87  Faroe Islands, Denmark
84  Azores, Portugal
82  Lofoten, Norway
82  Shetland Islands, Scotland
82  Chiloé, Chile
81  Isle of Skye, Scotland
80  Kangaroo Island, South Australia
80  Mackinac Island, Michigan
80  Iceland
79  Molokai, Hawaii

78  Aran Islands, Ireland
78  Texel, Netherlands
77  Dominica
77  Grenadines

Umsögnin í ferðatímaritinu um Ísland er á þessa leið.

Dramatískt landslag, einstök menning og Íslendingar vel meðvitaðir um umhverfið. En ný álver og virkjanir gætu haft slæm áhrif á aðdráttarafl. Vistvænar náttúruskoðanir andstaðan við hvalveiðar.

"Dramatic landscapes, unique culture, and high environmental awareness, but "new smelters and hydroelectric projects may affect attractivness."  Ecotours operators at odds with whalers.

Íslendingar þurfa að vanda sig í stóriðjumálum ef við ætlum að halda okkur ofarlega á svona viðrulegum listum. Einnig er umhverfisvitundin ofmetin að mínu mati, eða hvað?

Næsti flokkur eru eyjar sem ganga vel: Tasmania í Ástralínu (76), Bornhólmur í Danmörku (76), Mön (73) og Sardinía (71). 

Í flokknum, eyjar í jafnvægi eru m.a. Kanarí eyjar (52),  Puerto Rico (51).

Eyjar í vandamálum: Aruba í Karabíska hafinu (48), Phuket í Tælandi (46), Jamaíka (44) og Ibisa (37). 

Hér er mynd af vita frá Kallsey í Færeyjum, sigureynni. 

Færeyjar


Með Leifi Erni á Cho Oyu

Við Særún fórum í ferðalag með Leifi Erni Svavarssyni á Cho Oyu (8201 m) í kvöld.  Hann var vel setinn Salurinn er stuttklipptur Leifur sagði frá ferð sinni í máli og myndum á sjötta hæsta fjall jarðar. Leifur er fjallsækinn og vann það afrek aðfaranótt 2. október sl. að standa á hátindi fjallsins. Hann sagði skemmtilega frá baráttu við hæðarveiki, hugrökku leiðangursfólki, lífinu í Tíbet og útsýni fá toppi fjallsins. Leifur var í átta manna leiðangri og skipulagði Adventure Consultants    ferðaskrifstofan ævintýrið. Í hópnum voru ýmsir kynlegir kvistir, m.a. einfættur maður, mæðgur og milljónamæringar.

Cho Oyu er í Himalaya fjallgarðinum og er aðeins 20 km vestan við Mt. Everest, við landamæri Kína (Tíbet) og Nepal. Cho Oyu þýðir "Turquoise Goddness" eða Himinblár Guð.

Mér finnst ávallt gaman á fjallasýningum og heyra fjallsögur. Leifur var fjallhress og hreif salinn með sér. Mig langar alltaf í svona ferð. Hins vegar er þetta mikil þolraun og  þegar  hann sagði frá því að hann hefði misst sjón á öðru auganu á toppnum og hún dottið inn í  sjöþúsund metra hæð þá komst maður niður á jörðina.  Þessi  hávöxnu Himalayafjöll eru of stór fyrir mig.

Það var gaman að sjá gulu línuna (yellow band) í 7.700 metra hæð í Cho Oyu, en sú rönd sést í öllum fjöllum Himalaya yfir átta þúsund metra hæð. 
 
Leifur sýndi einnig mannlífsmyndir frá Nepal og Tíbet undir þjóðlegum tónum og gaf það skemmtilegan sýningunni skemmtilegan anda.  Athyglisvert var að sjá hversu miklar framkvæmdir eru í Tíbet undir stjórn Kínverja. Gott vegakerfi og mikil uppbygging og eru Olympiuleikarnir drifkrafturinn.  
 
Við Særún skemmtum okkur vel ásamt rúmlega 350 öðrum fjallhressum Íslendingum. 
 
 
cho-oyu-route

Hvað eiga Hornafjörður og Schwarzsee sameiginlegt?

Ég tók þykka bók að láni í Bókasafni Kópavogs um daginn. Fjallamenn heitir hún frá árinu 1946. Höfundur er Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Ég var ekki viss um að komast í gegnum doðrantinn og ætlaði að fletta í gegnum verkið hjá listamanninum en hann teiknaði margar myndir sem birtast í bókinni.  Eftir að hafa komist í gegnum fyrsta kaflann leist mér mjög vel á verkið. Guðmundur hefur verið mikill raunvísindamaður og hefur góðan stíl. Það er alltaf gaman að lesa lýsingar ferðamanna á Hornafirði. Allir alltaf jafn jákvæðir enda Hornfirðingar höfðingjar heim að sækja.

Hann er að fara í ferð um Vatnajökul austanverðan og kemur með strandferðaskipi til Hornafjarðar.(bls. 84)
 
"Hornafjörður á engan sinn líka að margbreytilegri fegurð. Þó er til í smækkaðri mynd líking af skriðjöklunum fimm, sem steypast þar í hálfhring ofan af hájöklinum. Það er við Schwartzsee (Svartavatn) í Zillertal í austurrísku Ölpunum. Ekki skorti góðar viðtökur í gistihúsinu og hjá öðrum íbúum þorpsins. Það er alltaf gaman að koma í þorp, þar sem maður getur átt von á að mæta kúm og kindum á götunni og sér fólkið með amboð um öxl eða þá akandi með skarkola og annan fisk utan úr firðinum; fiskmeti, sem varla er metið til peninga, af því að hægt er að sækja það fyrirhafnarlítið."
 
aust_map_Zillertal_berliner

Ég fór strax á Netið og leitaði að þessari perlu í austurrísku Ölpunum. En gekk illa að finna staðinn. Stafsetningin á Svartavatni hefur líklega breyst með árunum. Þegar leitað var eftir Schwarzsee kom mikið af síðum. En staðurinn er í 2.472 m hæð í Zillertal dalnum. 

Það er rétt hjá Guðmundi, staðirnir tveir eiga margt sameiginlegt. Ég stefni til Tíról í gönguferð á næstu árum og einnig að jóðla. Verzt að kunna ekkert á skíði en ég veit aðeins um einn Hornfirðing sem kann þá íþrótt.

 

 

 

 

 

Tenglar

http://www.naturpark-zillertal.at/index.php?id=1015 

http://www.summitpost.org/image/176413/176305/berlinerspitze-from-schwarzsee.html 

1218


Hafnarfjall

Hvaða fjall velja tveir Hornfirðingar til uppgöngu á Vesturlandi í dagsferð í október? Jú, svarið er augljóst. Hafnarfjall. Ég og fermingarbróðir minn, Arnþór Gunnarsson eyddu sunnudeginum síðasta í eftirminnilega fjallgöngu.

Hafnarfjall er þekktast fyrir að ala af sér sterka vinda sem vegfarendum um Vesturlandsveg er meinilla við.  Hafnarfjall rís gegnt Borgarfirði upp í 600-844 m hæð í hæstu kollum og eggjum. Er það skriðurunnið frá brúnum og niður undir jafnsléttu, að kalla. Skriðurnar eru dæmigerðar fyrir megineldstöðvar, með grágrænni slikju og grábölvaðar til gangs. Fjallið er sundurskorið af dölum og klífur Hrafnadalur fjallið niður en þar hefur verið miðja megineldstöðvar. Eiga dalirnir eflaust sinn þátt í að efla vindstyrk. Virka sem vindgöng. 

Hafnarfjall800

 

 

Eftir tveggja tíma rölt var komið upp á vestasta hluta Hafnarfjalls. Þar var álkassi fyrir gestabók í 800 m hæð sem Hótel Venus hafði komið upp árið 1998. Það er ávallt gaman að kvitta fyrir sig á fjöllum. Gestabókin var frá lok júlímánaðar 2005. Síðast færsla var mánaðar gömul svo umferð í september hefur ekki verið mikil enda mikill rigningarmánuður. Þokuslæðingur var yfir Faxaflóa og Skarðsheiði svo hvorki sást í hvasst Skessuhorn né tignarlegt Heiðarhorn. Bærinn Höfn sem fjallið dregur nafn sitt af sást vel í jaðri fjallsins. Borgarnes sást í þokumóðu. Það heyrðist vel í umferðinni á Vesturlandsvegi þrátt fyrir hæðarmuninn.

Eftir að hafa snætt samlokur og vatn var haldið á Gildashnjúk sem var næsti tindur í fjögurra tinda göngu. Hann gnæfir hæst tinda í Hafnarfjalli, teygir sig í 844 metra hæð. Þar er einnig gestabók. Þeir eru góðir heima að sækja Borgnesingar.  Vírnet kom gestabókinni fyrir á toppnum.

 

 

 

Meiningin var að fara hringleið og koma niður austan megin í fjallinu, niður Klausturhólatungu. Þeirri leið er lýst í bókinni Fólk á fjöllum - gönguleiðir á 101 tind. Þegar við vorum komnir að áætlaðri niðurleið fóru að renna á okkur tvær grímur. Það  var mjög bratt niður og klettabelti. Við kryfjuðum lýsinguna í bókinni einsog um ljóð væri að ræða og lögðum túlkun okkar í hvert orð. Leiðarlýsingin lýsti hinsvegar hinum hringnum og þar var lýst því að finna þyrfti geil. Eftir að hafa reynt að lesa landið og fylgja öllum vísbendingum ákváðum við að snúa til baka.

Þegar heim var komið voru menn ekki alveg sáttir. Markmiðinu var náð í að komast á fjóra tinda og kvitta í tvær gestabækur en við báðum ósigur fyrir geilinni.  Því var farið á Netið og leit hafin af ferðasögum á Hafnarfjall. Eftir nokkra leit fannst frábær lýsing frá Tindátum en þeir eru að ganga á öll fjöll í endurbættu bókinni Fólk á fjöllum - gönguleiðir á 151 tind.  Vefur þeirra er til mikillar fyrirmyndar. Fínar lýsingar með frábærum myndum.

Þar segir meðal annars:

"Stórskemmtileg kvöldganga um Hafnarfjall. Þarna voru sumir að friða samviskuna, höfðu krossað við fjallið út á göngu á Gildalshnjúk en ekki farið hringinn sem Bókin lýsir - aðrir höfðu aldrei á fjallið komið. Eitt af markmiðunum var að sjálfsögðu að finna geilina auðveldu gegnum hamrabeltin - margir höfðu haldið því fram að hún væri hreinn skáldskapur. Það var ekki laust við að við værum sjálf orðin þeirra skoðunar þegar nýjasti tindátinn, Gunnar Hjartarson, fann hana. Þetta varð svo lykillinn að skemmtilegri hringgöngu."

Fólkið sem kom neðanfrá gekk brösuglega að finna geilina. Hvað þá okkur sem komu ofanfrá. Svo maður gagnrýni aðeins bókina sem við vorum með, þá er leiðarlýsingin þarna ónákvæm, bæði kort og texti. Maður með hund hafði verið deginum áður og röktum við slóð hundsins. Flækti slóð hans einnig málin. Einnig hurfu allar slóðir sem hægt var að fylgja eftir að komið var niður af tindi 3. Það mætti varða leiðina að geilinni.

IMG_6743

 

Látum GPS punkta fyrir tindana fjóra fylgja með. 

Hafnarfjall V     797  64.29.757         021.54.616
Gildalshnjúkur  843  64.29.605         021.53.938
Þverfell             824  64.29.692         021.53.228 

Klausturtunguhóll     716  64.29.892         021.52.183 

 

 

 

 

 

 

Heimildir:

Ferðafélag Íslands, árbók 2004. Borgarfjarðarhérað milli Mýra og Hafnarfjalla. 

Vefsíða Tindáta, http://leifur.smugmug.com/gallery/3094770#169146287
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 18
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 100
  • Frá upphafi: 237997

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 82
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband