Færsluflokkur: Ferðalög
30.6.2009 | 11:54
Svartsnigill
Í ferð á Grænudyngju á Reykjanesi rakst ég á nokkra svartsnigla. Það þótti mér ekki mjög spennandi sjón enda sniglarnir á stærð við litlaputta. Ég fór að afla mér vitneskju um snigilinn en hann er náskyldur Spánarsniglinum. En mun minni og ekki eins gráðugur. Ekki hafði ég áhuga á að taka sniglana upp enda er hann slímugur og ferlegt að fá slímið á fingur eða í föt. Það fer seint og illa af skildist mér.
Svartsnigill (Arion ater (Linnaeus, 1758)), hefur verið landlæg hér um aldir en þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta hans í ferðabók sinni árið 1772. Svartsnigill hefur fundist víða um land en er algengastur á landinu sunnanverðu, einkum í gróðurríkum brekkum og hlíðum sem vita mót
suðri. Hann er að öllu jöfnu svartur á lit, 1015 cm langur, stundum allt að 20 cm í nágrannalöndunum.
Hérlendis nær hann ekki þvílíkri stærð.
Heimild:
http://www.ni.is/media/dyrafraedi/poddur/spanarsnigill_75-78_150-maria.pdf
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2009 | 21:07
Grænadyngja (402 m)
Við Hanna hættum okkur á jarðskjálftasvæðið á Reykjanesskaga með Útivistarræktinni á sólríku og fallegu miðvikudagskvöldi. Markmiðið var að kynnast Grænudyngju og umhverfi hennar. Dyngjan græna var einnig fyrsti áfangi í litafjallaröðinni sem áformuð er af sögumanni. Ekki skalf jörð undir fótum okkar, þó stór hópur þrýsti á jörðina, rúmlega 70 manns.
Reykjanes kemur manni sífellt á óvart. Kannski hef ég verið með einhverja fordóma um að það væri lítið að sjá á Reykjanesskaga. Ferðin á Grænudyngju kom mér á í opna skjöldu, þetta er klárlega einn fallegast staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Litadýrðin og fjölbreytni náttúrunnar er svo mikil.
Fyrst var ekin skemmtileg leið vestan Sveifluháls að Djúpavatni. Gígvatnið kom við sögu í Geirfinnsmáli 1974 og var mikið leitað þar að líki. Vatnið austan megin Sveifluháls heitir Kleifarvatn og er sögusvið samnefndrar bókar eftir Arnald Indriðason. Þau eru því dularfull vötnin á Reykjanesi. Frá Djúpavatni var lagt af stað í hringferð að Grænudyngju. Fyrst var komið við á fjallinu vestan við Djúpavatn og sá vel yfir spegilslétt vatnið. Ekkert grunsamlegt sást en sjónarhornið var stórglæsilegt. Þegar horft var í suðurátt sást í Grænavatn. Síðan var haldið í vestur, framhjá Spákonuvatni sem er í 288 m hæð og yfir í Sogasel. Það er eitt magnaðasta selstæði landsins. Selin frá Vatnsleysuströnd er staðsett í miðjum gíg, Sogaselsgíg. Gígurinn er einstaklega fallegur og vel gróinn og hefur gefið skepnum gott skjól. Áð var á rústum selsins og orku safnað fyrir síðasta áfanga ferðarinnar, sjálfrar Grænudyngju.
Sogaselsgígur er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur. Op hans snýr í suður.
Ferðin upp á Grænudyngju var stórbrotin. Hækkun er 200 metrar og fylgdu Keilir og Trölladyngja okkur alla leið. Á leiðinni rákumst við á stóra svarta snigla, það var mikið af þeim. Ég vildi ekki fá þá inn í tjaldið mitt. Þegar á toppinn var komið á flatri dyngjunni var útsýni yfir allan Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið og áberandi álverið. Snæfellsjökull reis densilegur í norðvestri. Fallegast er þó að horfa skammt á Grænudyngju. Í suðri eru Sog, feikna litskrúðugt hverasvæði. Grágrænn litur í hólum er áberandi og er það ekki algeng sjón. Í norðri sér í hrauntauminn kenndur við Afstapahraun sem runnið hefur úr dyngjunni.
Grænadyngja (N:63.56.263 - W:22.05.334) með Trölladyngju í bak. Sogin eru í forgrunni en þar má sjá virka hveri. Hveravirknin fer minnkandi. Sogin eru mjög litskrúðug.
Þetta var mjög gefandi gönguferð og enn kemur Ísland manni á óvart. Ég horfi daglega á fjallgarðinn sem Grænadyngja er í út um eldhúsgluggann og hefur hún ekki vakið athygli mína fyrr en nú. Gangan á dyngjuna var vel útfærð af Ragnari Jóhannessyni hjá Útivistarræktinni. Allar áhyggjur voru skyldar eftir heima og klúður eins og IceSave komust ekkert að í hausnum á manni. Svo mikið af litum og náttúruundrum var að meðtaka. Gengnir voru rösklega 7 km og tók það þrjár klukkustundir. Hér er myndbrot sem sýnir göngumenn á toppnum.
Varðandi litafjallaröðina, þá fékk ég þá hugmynd að ganga á fjall sem bæri nafn litar eftir að hafa séð sýningu hjá Náttúrusafni Íslands, Litir náttúrunnar, á Hlemmi um liti og örnefni. Mörg örnefni Íslands tengjast litum. T.d. Grænadyngja, Bláfell, Rauðafell, Svartafell, Gráfell og Hvítafell. Bera síðan saman fjöllin og finna út besta litinn. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2009 | 15:42
Fræðsluferð á Nesjavallasvæðinu
"Var Bjarni Ármanns næstum búinn að eignast þetta," mælti einn göngumaður með vanþóknun er hann bankaði í einangrað hitaveiturörið sem flutti 200 gráðu heitt vatn í rigningarúðanum gærkveldi. Við vorum tæplega fimmtíu sem gengum fræðslustíginn við Nesjavelli að hluta. Þægilega gönguleið þar sem fræðst var um náttúruna, söguna, jarðfræðina og hvernig orkan í Henglinum hefur verið beisluð.
Það var greinilegt á göngumanninum að honum var létt yfir því að samningur Orkuveitu Reykjavíkur og REI (sameinað félag gamla REI og Geysir Green Invest) gekk ekki í gegn. Við þegnar þessa lands megum eiga náttúruauðlindirnar sameiginlega og nýta þær af skynsemi. Við megum ekki afhenda þær gervikapítalistum, þar sem tapið fellur á ríkið en hagnaðurinn er einkavæddur.
Hitaveiturörið sem flytur heitt vatni til húshitunar á höfuðborgarsvæðinu er 27 km að lengd og lengdist við 24 metra þegar 83 gráðu hitinn flæddi í gegnum það til borgarinnar. Seigir íslensku verkfræðingarnir. Þessa þekkingu ætluð útrásarvíkingarnir í REI að hafa einkaleyfi á í 20 ár.
Vegalengdin sem gengin var á fræðslustígnum endaði í 6.4 km og gengið eftir grænum stikum. Við heyrðum fróðlegar sögur af sögu byggðar á Nesjavöllum sem hófst rétt fyrir 1820 er Þorleifur Guðmundsson reisti bæ. Síðan barst sagan að Grími syni hans og endaði á forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, en hann er afkomandi frumbyggjanna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2009 | 23:55
Gullbringa (321 m)
Gekk á Gullbringu (321 m) með Útvistarræktinni, 50 manns, í kvöld í fallegu maíveðri. Gullbringa er lítt áberandi fjallshnúkur við SA-enda Kleifarvatns og af henni er talið að Gullbringusýsla beri nafn sitt. Fáskrúðugt fjall og sviplítið. Merkilegt að heil sýsla hafi fengið nafn af móbergsfjalli þessu. Var það kannski öfugt? Eða hefur verðmætamat okkar breyst svona mikið? Gengin vegalengd 8,2 km. Hækkun tæpir 200 m. GPS: N: 63.54.548, V: 21.56.966
Við áðum stutt frá Gullbringuhelli (Jónshelli) fyrir uppgöngu. Þar eru merki um mannvist.
Þegar komið var upp á topp Gullbringu, sá yfir spegilslétt Kleifarvatn og Sveifluháls. Skemmtilegt sjónarhorn, en ég sé daglega hálsröðina frá öðrum enda. Mesta athygli vakti Hvammahraun og er kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur út í vatnið. Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni. Hinn straumurinn fellur niður í Herdísarvík, töluvert austar. Gullbringuhellir sást vel í hrauninu.
Vegslóði liggur að Gullbringu og teygir sig lengra austur eftir vatninu. Við fórum ótroðnari slóðir að fjallinu, meðfram vatninu og framhjá Kálfadalshlíð. Þessi gönguferð leyndi á sér og er ekki fjölfarin, margt að sjá, þó grjótfjallið Gullbringa væri tilkomalítið. Ísland hefur upp á mikið að bjóða.
Ferðalög | Breytt 21.5.2009 kl. 10:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2009 | 21:25
Hengill (803 m)
Hengill kominn í fjallasafnið. Fjallið er (803 m) móbergs- og grágrýtisfjall. Fór með hörku göngugengi, Dóru systur, Dóra, Mána og Guðmundi óhefðbundna vetrarleið á Vörðu-Skeggja frá Dyradal og inn eftir Skeggjadal. Við vorum klukkutíma upp og hlupum á hælnum beint niður. Ævintýraferð í ágætis veðri. Gott skyggni en vindur í bakið á uppleið.
Meðal sérkenna þessa svæðis eru óvenjulegir aflokaðir og stundum afrennslislausir dalir sem eru rennisléttir í botninn; - svona eru t.d. Innstidalur, Marardalur, Dyradalur og Sporhelludalur. Þeir eru taldir vera myndaðir milli móbergsfjalla, eiginlega stíflaðir uppi, en hafa fyllst í botninn af seti. Í Marardal voru naut geymd fyrrum með því að hlaða fyrir þröngt einstigi sem er eina færa leiðin inn í dalinn.
Útsýni af Heglinum var ágætt. Tignalegur Eyjafjallajökull í austri, Tindfjallajökull og fannhvít Hekla. Síðan kom Þingvallafjallgarðurinn með sínum frægu fjöllum, fellum, tindum og súlum. Augað endaði á Esjunni en á bakvið sást drifhvít Skarðsheiðin.
Það var athyglisvert að sjá eyjarar í Þingvallavatni, Nesey og Sandey, voru í beinu framhaldi af dölunum sem nefndir eru hér fyrir ofan. Þær eru líklega á sprungu sem liggur í norðaustur.
Mynd tekin í Skeggjadal sem sýnir leiðna upp. Rætur fjallsins eru í 400 metra hæð og hækkun svipuð.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2009 | 10:37
Kjósum Vatnajökul
Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum. Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands. Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð. Kjörfundi lýkur 7. júlí.
Farið á www.new7wonders.com
eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.
Veljið heimsálfu og náttúruundur. Hér er minn atkvæðaseðill. Ég valdi einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2008 | 18:58
Að deyja úr prentvillu
Þetta eru stórgóð tíðindi fyrir Suðursveitunga og nágranna þeirra í austri og vestri. Þórbergssetur á þessi verðlaun svo sannarlega skilið. Þorbjörg og Fjölnir á Hala eiga heiður skilinn fyrir að halda menningarfinum um ÞÞ á lofti.
Að endingu er bezt að enda á því að vitna í Einar Braga, rithöfund er Skaftfellingar minntust aldarafmælis meistara Þórbergs.
"Sú byggð er rík sem fóstrað hefur sinn á hvorum sveitarenda þvílíka stólpa sem Þórberg Þórðarson á Hala og Jón Eiríksson frá Skálafelli"
Þórbergssetur hlaut nýsköpunarverðlaun SAF | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2008 | 23:02
Krossfjöll
Eftir að hafa tekið daginn snemma með handboltaleik Íslands og Póllands var farið í góða veðrinu í dag á Krossfjöll með Útivistarræktinni. Ekið var austur í Þrengsli, fram hjá Litla-Sandfelli sem er lítill fjallshnúkur á hægri hönd rétt hjá Geitafelli. Mosavaxin Krossfjöll eru lítt áberandi frá vegi séð enda rísa þau ekki hátt yfir umhverfið en það var vel þess virði að kynnast þeim. Nafnið er talið þannig til komið að þau mynda kross. Vegalengd 5 km. Hækkun 100 m.
Mosavaxin Krossfjöll eru flöt og var gengið á marga tinda. Gönguhópurinn var fjölmennur, 43 garpar. Gönguland ekki gott undir fót en mikið af berjum sem stoppaði fólk. Þegar toppnum var náð eftir 2,5 km göngu og 285 m sáust á einum hæðamæli, var haldið í hringferð. Útsýni var ágætt af fjallinu og var gaman að horfa yfir helluhraunið sem var á milli okkar og Geitarfells (509 m). Haldið var að Breiðabólstaðarseli eftir matarstopp og sáust tóftir af þrem húsum. En þar voru fráfærur, lömb skilin frá rollu og þær mjólkaðar og unnið smjör. Það var gaman að hverfa svo langt aftur í tímann. Mikið af bláberjum og aðalbláberjum var í hlíðinni fyrir ofan selið og var mikið innbyrt. Á leiðinn að bílum heyrðum við skothvelli í kyrrðinni, gæsaveiðitímabilið hafið.
Mynd í Goole Earth. Krossfjöll eru við Þrengslaveginn. Geitafell er lengst til vinstri, síðan kemur Litla-Sandfell, svarti bletturinn. Ölfusá er yst til hægri.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2008 | 00:01
Herðubreið sigruð
Þann 10. júlí árið 1907 varð dularfullt slys í Öskjuvatni. Þá fórust tveir Þjóðverjar með segldúksbát sínum. Þeir voru jarðfræðingurinn Walter von Knebel og Max Rudloff listmálari. Ári síðar kom heitkona Knebel, Ina von Grumbkow ásamt jarðfræðingnum dr. Hans Reck til að leita skýringa á slysinu. Með í ferðinni var bóndinn Sigurður Sumarliðason. Eftir ferðina gaf Ina út bókina, "ÍSAFOLD - Ferðamyndir frá Íslandi".
Á leiðinni í Öskju gengu Reck og Sigurður á Kollóttudyngju. Dagurinn á eftir var hvíldardagur, fyrir hestana en leyndardómar hinnar 1660 m háu Herðubreiðar freistuð þrautseigra ungra krafta jarðfræðingsins Hans Reck.
Í bókinni Ísafold segir þetta um gönguna á Herðubreið, 13. ágúst 1908.
"Enn hafði enginn klifið risahá móbergsveggina í hlíðum hennar. Enginn mannlegur fótur hafði stigið á koll hennar. Fjallið var fram að þessu talið ógengt og enginn hafði reynt að glíma við það."
Þegar göngunni á Herðubreið er lokið skrifar Ina:
"Þeir höfðu hlaðið vörðu hæst á fjallinu, og sáum við hana öll greinilega í sjónauka. Þessi fyrsta ganga á fjallið hafði ekki aðeins mikið vísindagildi, heldur kom hún okkur einnig að góðum notum á framhaldi ferðarinnar til Öskju. Úr þessari hæð gafst þeim góð yfirsýn um víðlendið í kring. Þeir sáu að á milli Herðubreiðar og Dyngjufjalla hafði vikurinn sléttað að mestu ójöfnur hraunanna og að leiðin myndi vera tiltölulega auðveld.
Auðvitað voru þeir orðnir uppgefnir eftir þessa erfiðu og hættulegu fjallgöngu, en glaðir að hafa lokið djarfmannlegu verki. Hvíldin og maturinn hressti þá, svo að þeir gátu sagt okkur frá mörgu, sem fyrir þá bar í þessari ævintýralegu fjallgöngu. Athyglisverðastar voru eftirfarandi upplýsingar: Þegar komið var langleiðina á brún fjallsins, varð á kafla fyrir þeim svart hraun undir lóðréttum hamraveggnum í upsum fjallsins, rétt áður en þeir komust upp. Til öryggis höfðu þeir sett upp sólgleraugu, svo að þeir blinduðust ekki á sólglitrandi jöklinum, sem samkvæmt landabréfinu átti að þekja alla hásléttuna þar uppi. Hvílík undrun! Við augu blasti aðeins svart hraun og óhreinar fannir á stangli, þar sem þeir væntu ósnortins hreinleika jökulfannanna."
Fyrsta ganga á fjalladrottninguna Herðubreið var því fyrir tilviljun. Eiginlega má segja að hún hafi verið fyrir slys. Dr. Hans Reck varð síðar háskólakennari í Berlín. Næstu árin hélt hann áfram rannsóknum íslenskra eldfjalla og ritaði töluvert um það efni.
Hér er frétt sem birtist í Norðurlandi 29. ágúst 1908.
Ferðalög | Breytt 17.8.2008 kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.8.2008 | 09:14
100 ára afmælisganga á Herðubreið
Á morgun, miðvikudaginn 13. ágúst, eru slétt hundrað ár síðan fyrst var gengið á þjóðarfjallið Herðubreið. Það afrek unnu þýski jarðvísindamaðurinn Hans Reck og Sigurður Sumarliðason, bóndi frá Bitrugerði í Kræklingahlíð. Ferðafélag Akureyrar efnir til sérstakrar afmælisferðar á fjallið í tilefni af tímamótunum og leiðir Ingvar Teitsson hópinn. Ég hafði stefnt að þátttöku í þessa einstöku afmælisferð en komst ekki.
Ég hef komið að uppgönguleiðinni að Herðubreið og þegar horft er upp, þá finnst manni það ótrúlegt að þykkur ís hafi verið þar á ísöld. Fjallið er kennslubókardæmi um móbergsstapa sem taldir eru myndaðir í einu mjög öflugu gosi undir þykkum jökli.
Í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóvember 1927 er góð grein "Gengið á Herðubreið". Þar segir Jóhannes Áskelsson, jarðfræðingur frá ferð sem hann fór ásamt þýskum vísindamanni dr. Sorge, þann 22. júlí, til að sanna að hægt væri að ganga á Herðubreið og staðfesti þar með að ferðin 1908 var farin.
"Eins og kunnugt er hefir Herðubreið lengstum verið talin ógeng. Að vísu gekk dr. Reck upp á hana sumarið 1908, en nágrannar Herðubreiðar, Mývetningar, drógu orð hans mjög í efa, mest vegna þess þeim þótti hann vera fljótur í ferðum. Síðan hefur engin tilraun verð gerð til að ganga á fjallið fyrr en okkar."
Þetta er einnig merkileg ferð og gaman að lesa ferðasöguna. Þeir fóru aðra leið upp, gengu suðaustan á fjallið en dr. Reck frá hinni hliðinni, eða frá norðvestri en það er leiðin sem jafnan er farin nú á dögum.
Fyrir 80 árum hefur þekking á gosi undir jökli ekki verið þekkt, en ég man að þetta var 10% spurning í jarðfræði hjá Einar Óskarssyni í Menntaskólanum að Laugarvatni. Jóhannes og félagar höfðu þessar hugmyndir um mótun Herðubreiðar.
"Þar sem Herðubreið er svo erfið uppgöngu, hefur reynst örðugt að ákveða um myndun hennar. - Nokkrir hafa með tilliti til útlits hennar í fjarlægð, álitið hana bergstabba, sem staðið hafi eftir, er landið á milli Bárðardals og Jökulsár seig. Aðrir hugðu Herðubreið vera eldfjall, sem hlaðist hafi upp af gosum."
Veðurspáin er góð og allt bendir til að skafheiðríkt verði á fjöllum. Ég óska göngugörpum í 100 ára afmælisferðinni á Herðubreið góðrar skemmtunar og geng með þeim í huganum.
Herðubreiðarfjöll, Eggert, Kollóttadyngja, Herðubreið og Herðubreiðartögl. Bræðrafell ber í Herðubreið.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 233619
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar