Færsluflokkur: Ferðalög

Fiskidagurinn mikli

skutan.jpgHvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og  fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu.  Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.

Næsta gata var Mímisvegur.  Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar.  Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.

Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.

Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.

Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og  á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun  sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.

 


Nesja-Skyggnir (767 m)

Þeir voru litlir bílarnir á Hellisheiði þegar horft var yfir heiðina af Nesja-Skyggni. Stórbrotið var útsýnið yfir Suðvesturhornið. Þorpin fyrir austan fjall sáust vel, Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökull og Ingólfsfjall.  þegar gegnið var upp á brún, sást vel yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann.

Nesja-Skyggnir má muna fífil sinn fegri. Áður var hann hæsti hluti Hengilsins en hann er staðsettur í stórum og miklum sigdal sem er partur af mikli eldstöðvarkerfi og hefur gefið eftir. Því er Skeggi búinn að ná að toppa hann. Nesja-Skyggnir kom mér á óvart, flatur og sker sig ekki úr umhverfinu en ber nafn með rentu.

Rúmlega 50 manna hópur Útivistarræktarinnar hóf göngu frá tönkunum í mynni Kýrdals í rúmlega 400 m. hæð. Var Kýrdalshrygg fylgt eftir í kvöldkyrrðinni og áð á Kýrdalsbrúnum. Leiðin er vel stikuð og vegvísar víða.

Á bakaleiðinni var farin sama leið sást annað sjónarhorn. Þá sást vel yfir Þingvallavatn og öll frægu fjöllin í kringum það.  Fjölbreytt og skemmtileg ganga sem kom á óvart. Gaman að fara þegar snjór verður sestur á landið.

 

Dagsetning: 15. júlí 2009
Hæð: 767 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við tank í 405 metrum
Uppgöngutími:  2 tímar (19.15-21:15)
Heildargöngutími: 3 tímar og 15 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.05.075  21.18.665
Vegalengd: 7 km
Veður: N 5 m/s, 11.2 gráður, bjart - 73% raki
Þátttakendur: Útivistarræktin, 52 manns - spilastokkur

Gönguleiðalýsing: Auðveld og fjölbreytt ganga með geysimikið víðsýni.


Nesja-Skyggnir


Stóra-Kóngsfell (602 m) og Drottning (516 m)

Stóra-Kóngsfell (602 m) í Bláfjallafólkvangi var gönguverkefni síðustu viku. Ég var ásamt tæplega 70 Útivistarræktendum í ferðinni í nælonblíðu. Eftir að hafa keyrt malbikaðan Bláfjallaveg var beygt til vesturs og stoppað skammt frá norðurenda fellsins í tæplega 400 metra hæð.  Gengið var yfir mosavaxið úfið hraun upp með vesturhlið fellsins.  Eftir tæpa klukkutíma göngu var toppnum á Stóra-Kóngsfelli náð.  Þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Á toppnum er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. En eitthvað hefur landamerkjum verið breytt. Því er ekki öruggt að með hringferð í kringum vörðuna hafi náðst að heimsækja fjögur sveitarfélög á sekúndubroti.

Þegar horft er til vestur af Stóra-Kóngsfelli, blasa Þríhnjúkagígar við. Þangað er tæplega 2ja kílómetra gangur. Austasti hnjúkurinn er stórmerkilegur. Opið í toppi hnjúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur.

Þegar horft var til austurs blöstu Bláfjöllin við með snjólausar skíðabrekkur en á milli þeirra var lágreist fjall sem ber stórt nafn, Drottning (516 m).  Þangað var förinni heitið hjá flestum í ræktinni. Gangan eftir mosavaxinni hrauntröð varði í 300 metra og sáust margir forvitnilegir hellar. Uppgangan á Drottningu var auðveld og þurfti aðeins að hækka sig um 90 metra. Þegar á miðja Drottningu var komið sást vel yfir Eldborg. Hún er mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraun hefur runnið út um. Gígurinn er um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur. Hólmshraun sem nær niður í Heiðmörk er ættað þaðan og rann fyrir um þúsund árum.

Það náðist því þrenna þetta miðvikudagskvöld og í brids eru þetta 6 hápunktar ef Eldborg er túlkuð sem gosi. 

GPS: 
Stóra-Kóngsfell:  N: 64.00.047 - W: 21.39.689
Drottning:           N: 63.59.967 - W: 21.38.648

Gengin vegalengd rúmir 6 km í kvöldkyrrðinni og tók rúma þrjá tíma.

Stóra-Kóngsfell

Hluti af Útivistarræktinni fyrir framan takmarkið, Stóra-Kóngsfell. 


Svartsnigill

Í ferð á Grænudyngju á Reykjanesi rakst ég á nokkra svartsnigla. Það þótti mér ekki mjög spennandi sjón enda sniglarnir á stærð við litlaputta. Ég fór að afla mér vitneskju um snigilinn en hann er náskyldur Spánarsniglinum. En mun minni og ekki eins gráðugur. Ekki hafði ég áhuga á að taka sniglana upp enda er hann slímugur og ferlegt að fá slímið á fingur eða í föt. Það fer seint og illa af skildist mér.

Svartsnigill (Arion ater (Linnaeus, 1758)), hefur verið landlæg hér um aldir en þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta hans í ferðabók sinni árið 1772. Svartsnigill hefur fundist víða um land en er algengastur á landinu sunnanverðu, einkum í gróðurríkum brekkum og hlíðum sem vita mót
suðri. Hann er að öllu jöfnu svartur á lit, 10–15 cm langur, stundum allt að 20 cm í nágrannalöndunum.
Hérlendis nær hann ekki þvílíkri stærð.

Heimild:
http://www.ni.is/media/dyrafraedi/poddur/spanarsnigill_75-78_150-maria.pdf 

Svartsnigill


Grænadyngja (402 m)

Við Hanna hættum okkur á jarðskjálftasvæðið á Reykjanesskaga með Útivistarræktinni á sólríku og fallegu miðvikudagskvöldi. Markmiðið var að kynnast Grænudyngju og umhverfi hennar. Dyngjan græna var einnig fyrsti áfangi í litafjallaröðinni sem áformuð er af sögumanni. Ekki skalf jörð undir fótum okkar, þó stór hópur þrýsti á jörðina, rúmlega 70 manns.

Reykjanes kemur manni sífellt á óvart. Kannski hef ég verið með einhverja fordóma um að það væri lítið að sjá á Reykjanesskaga. Ferðin á Grænudyngju kom mér á í opna skjöldu, þetta er klárlega einn fallegast staðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Litadýrðin og fjölbreytni náttúrunnar er svo mikil.

Fyrst var ekin skemmtileg leið vestan Sveifluháls að Djúpavatni. Gígvatnið kom við sögu í Geirfinnsmáli 1974 og var mikið leitað þar að líki. Vatnið austan megin Sveifluháls heitir Kleifarvatn og er sögusvið samnefndrar bókar eftir Arnald Indriðason. Þau eru því dularfull vötnin á Reykjanesi. Frá Djúpavatni var lagt af stað í hringferð að Grænudyngju. Fyrst var komið við á fjallinu vestan við Djúpavatn og sá vel yfir spegilslétt vatnið. Ekkert grunsamlegt sást en sjónarhornið var stórglæsilegt. Þegar horft var í suðurátt sást í Grænavatn. Síðan var haldið í vestur, framhjá Spákonuvatni sem er í 288 m hæð og yfir í Sogasel. Það er eitt magnaðasta selstæði landsins. Selin frá Vatnsleysuströnd er staðsett í miðjum gíg, Sogaselsgíg. Gígurinn er einstaklega fallegur og vel gróinn og hefur gefið skepnum gott skjól. Áð var á rústum selsins og orku safnað fyrir síðasta áfanga ferðarinnar, sjálfrar Grænudyngju.

 Sogselsgigur

Sogaselsgígur er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því gott aðhald fyrir skepnur.  Op hans snýr í suður.

Ferðin upp á Grænudyngju var stórbrotin. Hækkun er 200 metrar og fylgdu Keilir og Trölladyngja okkur alla leið. Á leiðinni rákumst við á stóra svarta snigla, það var mikið af þeim. Ég vildi ekki fá þá inn í tjaldið mitt. Þegar á toppinn var komið á flatri dyngjunni var útsýni yfir allan Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðið og áberandi álverið. Snæfellsjökull reis densilegur í norðvestri. Fallegast er þó að horfa skammt á Grænudyngju. Í suðri eru Sog, feikna litskrúðugt hverasvæði. Grágrænn litur í hólum er áberandi og er það ekki algeng sjón. Í norðri sér í hrauntauminn kenndur við Afstapahraun sem runnið hefur úr dyngjunni.

Graenadyngja

Grænadyngja (N:63.56.263 - W:22.05.334) með Trölladyngju í bak. Sogin eru í forgrunni en þar má sjá virka hveri. Hveravirknin fer minnkandi. Sogin eru mjög litskrúðug.

Þetta var mjög gefandi gönguferð og enn kemur Ísland manni á óvart. Ég horfi daglega á fjallgarðinn sem Grænadyngja er í út um eldhúsgluggann og hefur hún ekki vakið athygli mína fyrr en nú.  Gangan á dyngjuna var vel útfærð af Ragnari Jóhannessyni hjá Útivistarræktinni. Allar áhyggjur voru skyldar eftir heima og klúður eins og IceSave komust ekkert að í hausnum á manni. Svo mikið af litum og náttúruundrum var að meðtaka. Gengnir voru rösklega 7 km og tók það þrjár klukkustundir.  Hér er myndbrot sem sýnir göngumenn á toppnum.

Varðandi litafjallaröðina, þá fékk ég þá hugmynd að ganga á fjall sem bæri nafn litar eftir að hafa séð sýningu hjá Náttúrusafni Íslands, Litir náttúrunnar, á Hlemmi um liti og örnefni. Mörg örnefni Íslands tengjast litum. T.d.  Grænadyngja, Bláfell, Rauðafell, Svartafell, Gráfell og Hvítafell. Bera síðan saman fjöllin og finna út besta litinn. Ekkert fjall ber nafnið Gulafell eða Gulafjall en þar er merkilegt því líparítfjöll eru algeng hér á landi. Við eigum ekki neitt "Yellowstone" nafn hér á landi.


Fræðsluferð á Nesjavallasvæðinu

"Var Bjarni Ármanns næstum búinn að eignast þetta," mælti einn göngumaður með vanþóknun er hann bankaði í einangrað hitaveiturörið sem flutti 200 gráðu heitt vatn í rigningarúðanum gærkveldi.  Við vorum tæplega fimmtíu sem gengum fræðslustíginn við Nesjavelli að hluta. Þægilega gönguleið þar sem fræðst var um náttúruna, söguna, jarðfræðina og hvernig orkan í Henglinum hefur verið beisluð.

Það var greinilegt á göngumanninum að honum var létt yfir því að samningur Orkuveitu Reykjavíkur og REI (sameinað félag gamla REI og Geysir Green Invest) gekk ekki í gegn.  Við þegnar þessa lands megum eiga náttúruauðlindirnar sameiginlega og nýta þær af skynsemi. Við megum ekki afhenda þær gervikapítalistum,  þar sem tapið fellur á ríkið en hagnaðurinn er einkavæddur.

Hitaveiturörið sem flytur heitt vatni til húshitunar á höfuðborgarsvæðinu er 27 km að lengd og lengdist við 24 metra þegar 83 gráðu hitinn flæddi í gegnum það til borgarinnar. Seigir íslensku verkfræðingarnir. Þessa þekkingu ætluð útrásarvíkingarnir í REI að hafa einkaleyfi á í 20 ár. 

Vegalengdin sem gengin var á fræðslustígnum endaði í 6.4 km og gengið eftir grænum stikum. Við heyrðum fróðlegar sögur af sögu byggðar á Nesjavöllum sem hófst rétt fyrir 1820 er Þorleifur Guðmundsson reisti bæ. Síðan barst sagan að Grími syni hans og endaði á forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, en hann er afkomandi frumbyggjanna.


Gullbringa (321 m)

GullbringuhellirGekk á Gullbringu (321 m) með Útvistarræktinni, 50 manns, í kvöld í fallegu maíveðri. Gullbringa er lítt áberandi fjallshnúkur við SA-enda Kleifarvatns og af henni er talið að Gullbringusýsla beri nafn sitt. Fáskrúðugt fjall og sviplítið. Merkilegt að heil sýsla hafi fengið nafn af móbergsfjalli þessu. Var það kannski öfugt? Eða hefur verðmætamat okkar breyst svona mikið? Gengin vegalengd 8,2 km. Hækkun tæpir 200 m.   GPS: N: 63.54.548, V: 21.56.966

Við áðum stutt frá Gullbringuhelli (Jónshelli) fyrir uppgöngu. Þar eru merki um mannvist.

Þegar komið var upp á topp Gullbringu, sá yfir spegilslétt Kleifarvatn og Sveifluháls. Skemmtilegt sjónarhorn, en ég sé daglega hálsröðina frá öðrum enda.  Mesta athygli vakti Hvammahraun og er kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur út í vatnið.  Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni. Hinn straumurinn fellur niður í Herdísarvík, töluvert austar. Gullbringuhellir sást vel í hrauninu.

Vegslóði liggur að Gullbringu og  teygir sig lengra austur eftir vatninu. Við fórum ótroðnari slóðir að fjallinu, meðfram vatninu og framhjá Kálfadalshlíð. Þessi gönguferð leyndi á sér og er ekki fjölfarin, margt að sjá, þó grjótfjallið Gullbringa væri tilkomalítið.  Ísland hefur upp á mikið að bjóða.  

 


Hengill (803 m)

Hengill kominn í fjallasafnið. Fjallið er (803 m) móbergs- og grágrýtisfjall. Fór með hörku göngugengi, Dóru systur, Dóra, Mána og Guðmundi óhefðbundna vetrarleið á Vörðu-Skeggja frá Dyradal og inn eftir Skeggjadal. Við vorum klukkutíma upp og hlupum á hælnum beint niður. Ævintýraferð í ágætis veðri. Gott skyggni en vindur í bakið á uppleið.

Meðal sérkenna þessa svæðis eru óvenjulegir aflokaðir og stundum afrennslislausir dalir sem eru rennisléttir í botninn; - svona eru t.d. Innstidalur, Marardalur, Dyradalur og Sporhelludalur. Þeir eru taldir vera myndaðir milli móbergsfjalla, eiginlega stíflaðir uppi, en hafa fyllst í botninn af seti. Í Marardal voru naut geymd fyrrum með því að hlaða fyrir þröngt einstigi sem er eina færa leiðin inn í dalinn.

Útsýni af Heglinum var ágætt. Tignalegur Eyjafjallajökull í austri, Tindfjallajökull og fannhvít Hekla. Síðan kom Þingvallafjallgarðurinn með sínum frægu fjöllum, fellum, tindum og súlum. Augað endaði á Esjunni en á bakvið sást drifhvít Skarðsheiðin. 

Það var athyglisvert að sjá eyjarar í Þingvallavatni, Nesey og Sandey, voru í beinu framhaldi af dölunum sem nefndir eru hér fyrir ofan. Þær eru líklega á sprungu sem liggur í norðaustur.

Mynd tekin í Skeggjadal sem sýnir leiðna upp. Rætur fjallsins eru í 400 metra hæð og hækkun svipuð.

Hengill


Kjósum Vatnajökul

Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum.  Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands.  Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð.  Kjörfundi lýkur 7. júlí.

Farið á www.new7wonders.com

eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.

Veljið heimsálfu og náttúruundur.  Hér er minn atkvæðaseðill.  Ég valdi  einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.

 vote7vonders.jpg


Að deyja úr prentvillu

Þetta eru stórgóð tíðindi fyrir Suðursveitunga og nágranna þeirra í austri og vestri. Þórbergssetur á þessi verðlaun svo sannarlega skilið. Þorbjörg og Fjölnir á Hala eiga heiður skilinn fyrir að halda menningarfinum um ÞÞ á lofti.

Að endingu er bezt að enda á því að vitna í Einar Braga, rithöfund er Skaftfellingar minntust aldarafmælis meistara Þórbergs.

"Sú byggð er rík sem fóstrað hefur sinn á hvorum sveitarenda þvílíka stólpa sem Þórberg Þórðarson á Hala og Jón Eiríksson frá Skálafelli"

 


mbl.is Þórbergssetur hlaut nýsköpunarverðlaun SAF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 11
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 93
  • Frá upphafi: 237990

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband