Færsluflokkur: Ferðalög
27.10.2009 | 20:39
Hvalfell (848 m)
"stunning, scenic, volcanic"
Er ekki eftirsóknarvert að búa í svona landi?
Þetta eru nokkur lýsingaroð sem erlendir ferðafélagarnir mínir notuðu um gönguferð á móbergsstapann Hvalfell um síðustu helgi. Það eru mikil lífsgæði að geta skroppið út í náttúruna og skorað frægt fell á hólm með litlum tilkostnaði.
Ég slóst í ferð með Gunnlaugi B. Ólafssyni ferðafrömuði og bloggvini með meiru á Hvalfell en hann hefur sett sér það markmið að gera úttekt á fellum og fjöllum í 100 km radíus frá höfuðborginni.
Það var fjölmennur alþjóðlegur hópur sem slóst í förina. Íslendingarnir voru 9, ættaðar víða af landinu en erlendir ferðafélagar voru 18. Flestir frá Spáni en Þjóðverjar, Austurríkismenn, Ítalir, Finnar og Hollendingar áttu sína fulltrúa. Megnið af þeim er að læra hér á landi, bæði jarðfræði og erfiða tungumálið okkar.
Lagt var af stað frá Stóra Botni og þegar hópurinn komst að því að símastaurinn yfir Botnsá var kominn í bönd, þá var haldið niður að brúnni yfir Botnsá og fylgt fyrstu metrunum að leiðinni yfir Leggjabrjót. Síðan var beygt af slóðanum og fundin hentug leið til að stikla yfir vatnslitla Hvalskarðsá. Þegar yfir ánna var komið, var ákveðið að halda öfuga leið að Hvalfelli, enda ferðina á að heimsækja Íslandsmeistarann í hæð fossa, Glym. Við héldum því beint á fellið, upp Ásmundartungu. Þegar við vorum komin í 460 metra hæð (N:64.22.750 - W:21.13.790) og farin að nálgast snælínu var blásið til síðbúins hádegisverðar á móbergsklettum.
Snælínan var í 500 metra hæð og það gaf fjöllunum sérstakan virðuleika. Við höfðum densilegar Botnssúlur á hægri fót alla leiðina upp. Erlendu námsmennirnir stóðu sig vel í uppgöngunni þó sumir væri í óhefðbundnum útivistarfötum. Þegar á toppinn var komið eftir rúmlega þriggja tíma göngu, þá fönguðu stúdentarnir ærlega og fækkuðu fötum fyrir ofan belti, rétt eins og knattspyrnumenn gera þegar þeir skora mikilvæg mörk.
Fallegt útsýni er af Hvalfelli. Yfir Hvalfirði er Akrafjall, Skarðsheiðin, Ljósufjöll á Snæfellsnesi og Okið. Þá Þórisjökull og tignarlegur Skjaldbreiður. Að lokum nágranninn fallega hvítar Botnsúlur, Hengill og mikið voru Móskarðshnjúkar flottir hjá Esjunni. Kvígindisfell lúrði í nágrenni þriðja dýpsta stöðuvatns landsins, Hvalvatns og Skinnhúfuhöfði gengur fram í það.
Bráðdælingar á toppi Hvalfells. Kvígindisfell og Skjaldbeiður í baksýn. Skinnhúfuhöfði gengur út í Hvalvatn.
Við fórum niður vesturöxl Hvalfells og heimsóttum Glym. Þótti ferðafólki mikið til hans koma en gljúfrið leyndi mikið á sér. Upplifunin er öðruvísi þegar fossinn hái er skoðaður fyrst frá þessu sjónarhorni. Miðdegissólin braust fram og lýsti um fossinn á niðurleiðinni. Glæsilegt tímasetning.
Íslendingarnir horfðu með stolti á Glym en sögðu lítið enda fossum vanir. Erlendu ferðagarparnir sýndu meiri tilfinningar og létu mörg flott lýsingarorð falla enda sumir að sjá foss í fyrsta skipti.
Hópurinn kannaði möguleika á að setja símastaur sem var á austurbakka Botnsár. Hann var kyrfilega keðjaður. Því tók foringinn á það ráð að ganga fyrstur yfir til að kanna aðstæður, fyrstu fjórir metrarnir voru erfiðir, restin kökubiti. Stálvír liggur yfir Botnsá á þessum stað fólki til stuðnings. Gunnlaugur ferjaði hverja senjórítuna fá fætur annarri yfir ánna, vanur jökulám úr Lóni. Allir komust misvotir yfir en athyglisverðustu aðferðina átti Týrolbúi, eflaust frændi Arnolds Schwartzeneneggers en hann fetaði sig yfir vatnsfallið með því að halda sér uppi á höndum og fótum.
Er komið var yfir ánna, þá var farið upp jarðgöng sem opnuðust í tvær áttir og komið út hellisskút ofarlega í berginu. Þegar hópurinn gekk inn jarðgögnin sem vatn hefur sorfið í aldanna rás var kveikt á kerti. Rómantískari gat ferðin ekki orðið. Fólk sem var á undan okkur fyrr um daginn hafði eflaust verið að strengja sín heit.
Þegar upp úr jarðgöngum var komið fékk söngelski Stafafellsbúinn góða hugmynd. Þar sem hópurinn var svo alþjóðlegur, var blásið til Euróvision söngvakeppni. Hvert þjóðarbrot flutti þjóðlag. Það var skemmtileg stund en göngumenn voru misgóðir til söngsins. Íslendingarnir fluttu kraftmikið lag, Ríðum, ríðum yfir sandinn. Týrólarnir jóðluðu, sá finnski tók Lordi og Ítalinn aríu með Pavarottí. Senjóríturnar fluttu nautabanalag og Þjóðverjarnir fjallgöngumars.
Þegar heim var komið endaði fjallaveislan með fjallamyndinni "Þögnin kallar" en hún fjallaði um Toni Kurz og félega glíma við Eiger 1936.
Dagsetning: 25. október 2009
Hæð: 848 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við bílastæði hjá Stóra Botni (60 m).
Uppgöngutími: 3 klst. og 10 mín (11:30 - 14:40)
Heildargöngutími: 6 klst. (11:30 - 17:30)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit tindur: 64.23.104 - 21.12.575
Vegalengd: 14,7 km
Veður: 6 gráður, hægviðri og bjart
Þátttakendur: Ferðaþjónustan Stafafelli, 27 manns
Gönguleiðalýsing: Löng og viðburðarík leið með methafa í nágrenni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2009 | 14:06
Hinn snæfellski James Bond
Fór í gær í skemmtilega og lærdómsríka óvissuferð um Snæfellsnes. Um miðjan dag komum við að Sögusetrinu í Grundarfirði. Þar tók á móti okkur Ingi Hans Jónsson og kom á eðal Jagúar sem bar númerið P-67. Hann bauð okkur velkomin og hóf skemmtilega sögu af hinum íslenska James Bond.
Hvernig skyldi James Bond tengjast Íslandi og Snæfellsnesi. Það var gátan. Ingi rakti lífshlaup Kanadamannsins Williams Stephensonar, með dulnefnið Intrepid. sem var stórmagnað og öfundvert. Þar voru tengsl Stephensons, Ian Flemming og James Bond skýrð. Síðan fór hann í ættfræði kappans og auðvitað var hann ættaður frá Íslandi. Foreldrar hans voru frá Skógarströndinni. Þau fluttu til Kanada og eignuðust William 1897 eða ári fyrr. Síðar var hann ættleiddur. Til er bók Dularfulli Kanadamaðurinn, sem maður þarf að lesa.
Þeir eru orðnir nokkrir heimsþekktir íslensku landnemasynirnir. Má þar nefna, fyrir utan njósnarann Intrepid, Vilhjálm Stefánsson, landkönnuð og Íslensku Fálkana sem unnu gull í íshokkí árið 1920.
Nú er mikið talað um landflótta frá Íslandi, sem ég tel að sé orðum aukið. Þá rifjast upp tímabil Vesturfaranna frá 1870-1914. Það er mikill mannauður sem fór og margir gerðu það gott, aðrir ekki. En við megum ekki missa gott fólk burtu. Næsti eða næsta ofurhetja verður að vera al-íslensk, ekki afkomandi Íslendinga.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.8.2009 | 22:38
Sauðadalahnúkar (583 m)
Þeir eru ekki áberandi Sauðadalahnúkar enda eru þeir vel faldir á bak við Vífilsfell og láta lítið yfir sér í ríki mótorhjólanna. Það þurfti að halda yfir til Árnessýslu.
Ekið eftir Suðurlandsvegi að Litlu-kaffistofunni og þaðan í átt að Jósefsdal. Svæðið norðaustan við mynni Jósefsdals nefnist Sauðadalir og hnúkarnir tveir sunnan þess Sauðadalahnúkar. Fyrst var gengið á nyrðri hnúkinn og í framhaldi af því á þann syðri með viðkomu í gamla skíðaskála Ármanns. Farið var fram af syðri hnúknum og komið í Ólafsskarð og gegnið eftir Jósefsdal til baka.
Af hnúkunum tveim sjáum við svo inn í Jósefsdalinn. Hann er luktur fjöllum á alla vegu. Snarbrattar, gróðurlausar skriður ganga allt upp til efstu brúna en grænar grundir hylja dalbotninn. Ekki er vitað um búsetu manna í þessum dal svo skjalfest sé, en ef marka skal þjóðsöguna um Jósef þá hefur staðið þar býli. En það fór illa fyrir Jósef. Hann var smiður góður og allt lék í höndum hans, en sá ljóður var á hans ráði að hann var hverjum manni orðljótari. Einhverju sinni stóð hann í smiðju sinni.
Eitthvað fór úrskeiðis hjá honum, því hann tvinnaði svo heiftarlega saman blóti og formælingum að bærinn sökk í jörð niður með manni og mús. Síðan hefur enginn búið í dalnum.
Þegar ekið var að Sauðadalahnúkum var keyrt framhjá mótorkrossbraut. Það var mikið fjölmenni á staðnum enda lokaumferðin í Íslandsmótinu framundan. Það var skrítin en skemmtileg tilfinning að keyra meðfram brautinni og sjá kappana skjótast upp úr gryfjunni eins og korktappar. Þeir nota stærra svæði og keyra eftir vegslóðum fyrir lengri æfingar. Það er frekar truflandi að hafa öflug mótorhjól þegar maður er að ganga úti í náttúrunni en mótormenn verða að hafa sitt svæði. Ef þeir halda sig þar og fylgja skipulaginu, þá er komin góð sátt.
Dagsetning: 19. ágúst 2009
Hæð: 583 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við bílastæði í 280 m.
Uppgöngutími: 45 mínútur á nyrðri og 20 mínútur á syðri hnúk.
Heildargöngutími: 2 klst og 20 mín. (19:10 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.01.638 - 21.31.926
Vegalengd: 7 km
Veður: 10 gráður, hægviðri og bjart
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 62 manns
Gönguleiðalýsing: Auðveld tveggja hnúka ganga með sýn yfir Jósepsdal, Hellisheiði og Árnessýslu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2009 | 22:34
Vegaslóði við bakka Langasjávar
Mikil umræða hefur verið um vegaslóða eftir þarfa grein frá fv. umhverfisráðherra, Kolbrúnu Halldórsdóttur. Friðlandið í Þjórsárverum er helzt til umræðu.
Um miðjan ágúst var ég ásamt góðum gönguhóp á vegum Augnabliks að upplifa fegurðina við Langasjó. Hægt er að fara eftir vegaslóða fyrir ofan vatnið og upp á Breiðbak (1.018 m). Þaðan er hægt að komast í Jökulheima og er sú leið oft farin af jeppamönnum.
Einnig er slóði eftir jeppa meðfram vestari bakka Langasjávar. Leitarmenn hafa notað hann til að komast inn eftir vatninu. Í nýjustu útgáfu GPS kortagrunns er slóði þessi merktur inn. Stundum þarf að krækja fyrir kletta og keyra út í vatnið.
Krækja þarf fyrir móbergshrygginn sem skagar út í vatnið til að komast áfram. Vegslóðinn er um 16 km frá Sveinstind og liggur eftir bakkanum norðanverðum. Gæti verið í svokallaðri Bátavík, eigi langt frá tíu skeyta skeri.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2009 | 15:36
Einhver Englendingur
Ég hef verið að fara yfir heimildir um sögusvið Langasjávar eftir áhrifamikla ferð þangað um síðustu helgi.
Tímarit.is er stórgóður vefur. Þar er hægt að fletta upp í gömlu blöðunum sem komu út á 19. öld.
Árið1878 er þess getið í fréttabréfi í blaðinu Ísafold að í Skaftárfjöllum, sem nú séu kölluð Fögrufjöll, hafi fundist tveir grösugir dalir og norður af þeim sé vatn sem haldið sé að Skaftá renni úr. Getur þar varla verið um annað en Langasjó að ræða. En hér segir, þótt óljóst sé, frá ferð Skaftfellinga upp um fjöllin og var þar helstur Bjarni Bjarnason frá Hörgslandi.
Það er margt athyglisvert við þessa stuttu frétt. Hér miðast allt við afkomu sauðfjár. Nafnið á vatninu er óljóst en Þorvaldur Thoroddsen kom í rannsóknarferðir árin 1889 og aftur 1893. Hann gaf vatninu nafnið Langisjór. Þá gekk skriðjökull niður í eftri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá
jökulröndinni að vatnsendanum. Nafnið Fögrufjöll er þó komið í stað Skaftárfjalla og hefur því ekki komið frá Þorvaldi. Endapunkturinn er svo stórmerkilegur. Af hverju þurfti einhvern Englending til að kanna fallega landið okkar? Hvað segir þetta um sjálfsmynd okkar á þessum tíma?
Heimild:
Ísafold, 24. tölublað (30.09.1878), bls. 96
Landið þitt Ísland, Örn & Örlygur
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2009 | 12:30
Sveinstindur (1.090 m)
Langisjór er meistaraverk. Við vesturenda vatnsins í Fögrufjöllum er glæsilegt fjall sem ber densilegan Sveinstind. Ég gekk á fjallið í ógleymanlegri ferð með ferðafélögum í Augnablik á sunnudag og var það endapunkturinn á ferðalaginu, Fegurðin við Langasjó.
Lagt var frá Sveinsbúðum við enda Langasjávar í spöku veðri að uppgöngunni frá sléttu vestan megin fjallsins. Gönguleiðin er vel stikuð og er fyrst farið eftir meinlausu gili. Þegar gilinu sleppir er komið á öxl utan í fjallinu og þá er þræddur kambur sem endar á hátindinum.
Minnti uppgangan á Kattahryggi í Þórsmörk og göngu á Tindfjallajökul því stundum er farið niður á við.
Þegar fjallgangan var hálfnuð réðst þoka á okkur og fylgdi henni úrkoma í fyrstu. Þokan var á undan okkur á tindinn og tók yfir hann. Hún sigraði fegurðina.
Á stalli fyrir neðan hátindinn sést mannvirki og einnig eru þar vegamót en tvær leiðir eru á tindinn. Hin leiðin er í skála Útivistar. Hér er hægt að villast.
Í Hálendishandbók Páls Ásgeirs segir: "Ofarlega í fjallinu þykir mögrum sérstætt að rekast á tóft eins og af litlum leitarmannakofa. Þetta munu vera rústir eftir bækistöðvar manna í einum af könnunarleiðöngrum Þorvalds Thoroddsen vísindamanns."
Gangan tók tæpan klukkutíma og gönguhækkun er 390 metrar. Vegalend 2 km.
Á góðum degi er útsýni stórbrotið. Hægt að sjá vel yfir Langasjó og Fögrufjöll, víðáttumikla aura og kvíslar Skaftár sunnan þeirra. Mögulegan Eldfjallaþjóðgarð á heimsvísu með Lakagíga og tignarleg fjöll í nágrenni Eldgjár í vestri. Upptök Þjórsárhruns má einnig greina í norðri. Vatnajökull rammar svo allt inn í austri með áberandi Kerlingar í forgrunni.
Á Sveinstindi var skálað í vatni úr Útfallinu hjá Langasjó í þokunni.
Langisjór var öllum ókunnur fram á miðja 19. öld. Bjarni Bjarnson frá Hörgslandi fór í könnunarferð árið 1878 að Langasjó. Nefndu heimamenn tindinn Bjarnatind. Dugði það ekki lengi því Þorvaldur Thoroddsen kom tvisvar í leiðangrum á svæðið, árin 1889 og 1893. Gaf hann Langasjó og Sveinstind ný nöfn sem haldist hafa síðan og munu lifa um ókomin ár.
Guðmundur og Gaua á toppi Sveinstind að rýna í svarta þokuna.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2009 | 00:33
Hop jökla
Þær eru áhrifamiklar myndirnar hjá Ragnari Th. Sigurðssyni af Jökulsárlóninu. Það fer ekki á milli mála að miklar breytingar eru á Lóninu og brátt verður þa' hinn dýpsti fjörður. Einar Björn, staðarhaldari á Jökulsárlóni, nær kannski að bjóða ferðir inn að Esjufjöllum áður en hann kemst á eftirlaun.
Þær eru einnig mjög greinilegar breytingarnar á Gígjökli eða Falljökli í Eyjafjallajökli. Þær er ekki eins góðar og hjá RTH en segja sína sögu um áhrif hlýnunar á jökulinn. Fyrri myndin var tekin árið 2001 og síðari í lok júlí 2009.
Jökulsporðurinn teygir sig langt fram í Lónið. Mynd tekin 2. júní 2001. Þrem árum fyrr (1998) var skriðjökullin upp fyrir kambinn alla leið niður.
Þann 28. júlí 2009 nær tungan varla niður í Lónið og það sér í nýtt berg.
Myndröð af bráðnuninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.8.2009 | 15:10
Fiskidagurinn mikli
Hvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.
Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu. Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.
Næsta gata var Mímisvegur. Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar. Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.
Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.
Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.
Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2009 | 23:59
Nesja-Skyggnir (767 m)
Þeir voru litlir bílarnir á Hellisheiði þegar horft var yfir heiðina af Nesja-Skyggni. Stórbrotið var útsýnið yfir Suðvesturhornið. Þorpin fyrir austan fjall sáust vel, Vestmannaeyjar, Eyjafjallajökull og Ingólfsfjall. þegar gegnið var upp á brún, sást vel yfir höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagann.
Nesja-Skyggnir má muna fífil sinn fegri. Áður var hann hæsti hluti Hengilsins en hann er staðsettur í stórum og miklum sigdal sem er partur af mikli eldstöðvarkerfi og hefur gefið eftir. Því er Skeggi búinn að ná að toppa hann. Nesja-Skyggnir kom mér á óvart, flatur og sker sig ekki úr umhverfinu en ber nafn með rentu.
Rúmlega 50 manna hópur Útivistarræktarinnar hóf göngu frá tönkunum í mynni Kýrdals í rúmlega 400 m. hæð. Var Kýrdalshrygg fylgt eftir í kvöldkyrrðinni og áð á Kýrdalsbrúnum. Leiðin er vel stikuð og vegvísar víða.
Á bakaleiðinni var farin sama leið sást annað sjónarhorn. Þá sást vel yfir Þingvallavatn og öll frægu fjöllin í kringum það. Fjölbreytt og skemmtileg ganga sem kom á óvart. Gaman að fara þegar snjór verður sestur á landið.
Dagsetning: 15. júlí 2009
Hæð: 767 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við tank í 405 metrum
Uppgöngutími: 2 tímar (19.15-21:15)
Heildargöngutími: 3 tímar og 15 mínútur
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit tindur: 64.05.075 21.18.665
Vegalengd: 7 km
Veður: N 5 m/s, 11.2 gráður, bjart - 73% raki
Þátttakendur: Útivistarræktin, 52 manns - spilastokkur
Gönguleiðalýsing: Auðveld og fjölbreytt ganga með geysimikið víðsýni.
Ferðalög | Breytt 18.7.2009 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2009 | 21:10
Stóra-Kóngsfell (602 m) og Drottning (516 m)
Stóra-Kóngsfell (602 m) í Bláfjallafólkvangi var gönguverkefni síðustu viku. Ég var ásamt tæplega 70 Útivistarræktendum í ferðinni í nælonblíðu. Eftir að hafa keyrt malbikaðan Bláfjallaveg var beygt til vesturs og stoppað skammt frá norðurenda fellsins í tæplega 400 metra hæð. Gengið var yfir mosavaxið úfið hraun upp með vesturhlið fellsins. Eftir tæpa klukkutíma göngu var toppnum á Stóra-Kóngsfelli náð. Þaðan er frábært útsýni yfir nágrennið og til strandarinnar við Faxaflóann. Á toppnum er merkjavarða því þar koma saman landamerki fjögurra sveitafélaga þ.e. Reykjavíkur, Kópavogs, Selvogshrepps og Grindavíkur. En eitthvað hefur landamerkjum verið breytt. Því er ekki öruggt að með hringferð í kringum vörðuna hafi náðst að heimsækja fjögur sveitarfélög á sekúndubroti.
Þegar horft er til vestur af Stóra-Kóngsfelli, blasa Þríhnjúkagígar við. Þangað er tæplega 2ja kílómetra gangur. Austasti hnjúkurinn er stórmerkilegur. Opið í toppi hnjúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur.
Þegar horft var til austurs blöstu Bláfjöllin við með snjólausar skíðabrekkur en á milli þeirra var lágreist fjall sem ber stórt nafn, Drottning (516 m). Þangað var förinni heitið hjá flestum í ræktinni. Gangan eftir mosavaxinni hrauntröð varði í 300 metra og sáust margir forvitnilegir hellar. Uppgangan á Drottningu var auðveld og þurfti aðeins að hækka sig um 90 metra. Þegar á miðja Drottningu var komið sást vel yfir Eldborg. Hún er mjög glæsileg á að líta, regluleg í lögun og með skarði sem hraun hefur runnið út um. Gígurinn er um 200 m í þvermál og um 30 m djúpur. Hólmshraun sem nær niður í Heiðmörk er ættað þaðan og rann fyrir um þúsund árum.
Það náðist því þrenna þetta miðvikudagskvöld og í brids eru þetta 6 hápunktar ef Eldborg er túlkuð sem gosi.
GPS:
Stóra-Kóngsfell: N: 64.00.047 - W: 21.39.689
Drottning: N: 63.59.967 - W: 21.38.648
Gengin vegalengd rúmir 6 km í kvöldkyrrðinni og tók rúma þrjá tíma.
Hluti af Útivistarræktinni fyrir framan takmarkið, Stóra-Kóngsfell.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 233619
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar