Hvalfell (848 m)

"stunning, scenic, volcanic"
Er ekki eftirsóknarvert að búa í svona landi?

Þetta eru nokkur lýsingaroð sem erlendir ferðafélagarnir mínir notuðu um gönguferð á móbergsstapann Hvalfell um síðustu helgi. Það eru mikil lífsgæði að geta skroppið út í náttúruna og skorað frægt fell á hólm með litlum tilkostnaði.

Ég slóst í ferð með Gunnlaugi B. Ólafssyni ferðafrömuði og bloggvini með meiru á Hvalfell en hann hefur sett sér það markmið að gera úttekt á fellum og fjöllum í 100 km radíus frá höfuðborginni. 

Það var fjölmennur alþjóðlegur hópur sem slóst í förina.  Íslendingarnir voru 9, ættaðar víða af landinu en erlendir ferðafélagar voru 18. Flestir frá Spáni en Þjóðverjar, Austurríkismenn, Ítalir, Finnar og Hollendingar áttu sína fulltrúa. Megnið af þeim er að læra hér á landi, bæði jarðfræði og erfiða tungumálið okkar.

Lagt var af stað frá Stóra Botni og þegar hópurinn komst að því að símastaurinn yfir Botnsá var kominn í bönd, þá var haldið niður að brúnni yfir Botnsá og fylgt fyrstu metrunum að leiðinni yfir Leggjabrjót.  Síðan var beygt af slóðanum og fundin hentug leið til að stikla yfir vatnslitla Hvalskarðsá.  Þegar yfir ánna var komið, var ákveðið að halda öfuga leið að Hvalfelli, enda ferðina á að heimsækja Íslandsmeistarann í hæð fossa, Glym. Við héldum því beint á fellið, upp Ásmundartungu. Þegar við vorum komin í 460 metra hæð (N:64.22.750 - W:21.13.790) og farin að nálgast snælínu var blásið til síðbúins hádegisverðar á móbergsklettum.

Snælínan var í 500 metra hæð og það gaf fjöllunum sérstakan virðuleika. Við höfðum densilegar Botnssúlur á hægri fót alla leiðina upp. Erlendu námsmennirnir stóðu sig vel í uppgöngunni þó sumir væri í óhefðbundnum útivistarfötum.  Þegar á toppinn var komið eftir rúmlega þriggja tíma göngu, þá fönguðu stúdentarnir ærlega og fækkuðu fötum fyrir ofan belti, rétt eins og knattspyrnumenn gera þegar þeir skora mikilvæg mörk.

Hengill

Fallegt útsýni er af Hvalfelli. Yfir Hvalfirði er Akrafjall, Skarðsheiðin, Ljósufjöll á Snæfellsnesi og Okið. Þá Þórisjökull og tignarlegur Skjaldbreiður. Að lokum nágranninn fallega hvítar Botnsúlur, Hengill og mikið voru Móskarðshnjúkar flottir hjá Esjunni.  Kvígindisfell lúrði í nágrenni þriðja dýpsta stöðuvatns landsins, Hvalvatns og Skinnhúfuhöfði gengur fram í það.

IMG_4810 

Bráðdælingar á toppi Hvalfells. Kvígindisfell og Skjaldbeiður í baksýn. Skinnhúfuhöfði gengur út í Hvalvatn.

Við fórum niður vesturöxl Hvalfells og heimsóttum Glym. Þótti ferðafólki mikið til hans koma en gljúfrið leyndi mikið á sér. Upplifunin er öðruvísi þegar fossinn hái er skoðaður fyrst frá þessu sjónarhorni. Miðdegissólin braust fram og lýsti um fossinn á niðurleiðinni. Glæsilegt tímasetning.

Íslendingarnir horfðu með stolti á Glym en sögðu lítið enda fossum vanir. Erlendu ferðagarparnir sýndu meiri tilfinningar og létu mörg flott lýsingarorð falla enda sumir að sjá foss í fyrsta skipti.

Hópurinn kannaði möguleika á að setja símastaur sem var á austurbakka Botnsár. Hann var kyrfilega keðjaður. Því tók foringinn á það ráð að ganga fyrstur yfir til að kanna aðstæður, fyrstu fjórir metrarnir voru erfiðir, restin kökubiti. Stálvír liggur yfir Botnsá á þessum stað fólki til stuðnings. Gunnlaugur ferjaði hverja senjórítuna fá fætur annarri yfir ánna, vanur jökulám úr Lóni. Allir komust misvotir yfir en athyglisverðustu aðferðina átti Týrolbúi, eflaust frændi Arnolds Schwartzeneneggers en hann fetaði sig yfir vatnsfallið með því að halda sér uppi á höndum og fótum.

Botnsa.

Er komið var yfir ánna, þá var farið upp jarðgöng sem opnuðust í tvær áttir og komið út hellisskút ofarlega í berginu. Þegar hópurinn gekk inn jarðgögnin sem vatn hefur sorfið í aldanna rás var kveikt á kerti. Rómantískari gat ferðin ekki orðið. Fólk sem var á undan okkur fyrr um daginn hafði eflaust verið að strengja sín heit.

Þegar upp úr jarðgöngum var komið fékk söngelski Stafafellsbúinn góða hugmynd. Þar sem hópurinn var svo alþjóðlegur, var blásið til Euróvision söngvakeppni. Hvert þjóðarbrot flutti þjóðlag. Það var skemmtileg stund en göngumenn voru misgóðir til söngsins. Íslendingarnir fluttu kraftmikið lag, Ríðum, ríðum yfir sandinn. Týrólarnir jóðluðu, sá finnski tók Lordi og Ítalinn aríu með Pavarottí. Senjóríturnar fluttu nautabanalag og Þjóðverjarnir fjallgöngumars.  

Þegar heim var komið endaði fjallaveislan með fjallamyndinni "Þögnin kallar" en hún fjallaði um Toni Kurz og félega glíma við Eiger 1936.

Dagsetning: 25. október 2009
Hæð: 848 metrar
Hæð í göngubyrjun: Við bílastæði hjá Stóra Botni (60 m).
Uppgöngutími:  3 klst. og 10 mín (11:30 - 14:40)
Heildargöngutími: 6 klst. (11:30 - 17:30) 
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit tindur: 64.23.104 - 21.12.575
Vegalengd: 14,7 km
Veður: 6 gráður, hægviðri og bjart
Þátttakendur: Ferðaþjónustan Stafafelli, 27 manns

Gönguleiðalýsing: Löng og viðburðarík leið með methafa í nágrenni.

Yfirlitsmynd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 101
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 93
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband