Færsluflokkur: Menning og listir

Í fótspor Þórbergs

ÞórbergurVona að það sé góð þátttaka í Framhjágöngu Þórbergs en Ferðafélag Íslands stendur fyrir þessari stórmerkilegu ferð. Þá gekk skáldið fullur bjartsýni frá Norðurfirði í Ströndum til Reykjavíkur á þrettán dögum og með þrettán krónur í vasanum.  Þetta er þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta.

Nú eru slétt 100 ár síðan þessi stórmerkilega ganga var gengin og er undirbúningur Ferðafélagsins til fyrirmyndar.  Glæsilegt skjal er því til vitnis.

Ég kemst því miður ekki en ætla að fylgjast með göngufólki.

Pétur Gunnarsson skrifaði um atburð þennan í bókinni ÞÞ í fátæktarlandi og svipti rómantíkinni af atburðinum.


Hvítserkur (15 m)

Skrímslið úr hafinu, er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Hvítserkur birtist frá fjörubrúninni. En skrímslið með risaeðluútlitið sést ekki frá veginum enda er skammt frá landi út og níður frá Ósum á Vatnsnesi.

Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur, þunn basaltsbrík, í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu.  Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin.

Brimrofið hefur gatað helluna, þannig að hún hefur yfirbragð steinrunninnar ófreskju. Undirstöður drangsins hafa verið styrktar með steinsteypu.

Nokkrar fuglategundir verpa í þverhnípinu og neðan þess, einkum fýll og heimildir segja að skarfur sé algengur en ekki sást neinn í leiðangrinum. 

Merking orðsins hvítserkur er ‘hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur)’. Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Einnig er til fjall (771 m) milli Húsavíkur og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu og foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði.

Dagsetning: 18. júlí 2012
Hæð Hvítserks í fjöruborði: 15 m    
GPS Hvítserkur:  N: 65°35′46″  V: 20°37′55″ 
Erfiðleikastig: 1 skór
Göngutími: 10 mínútur
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir
Veðurlýsing, Blönduós kl. 15:00: NNV 3 m/s, skýjað, 12,1 °C hiti, raki 86 %
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing
: Lagt er upp í göngu frá bílastæði að útsýnispalli. Þaðan er farið niður varasaman slóða niður í fjöru. Við vorum heppinn að hitta á fjöru. Mæli með ferð fyrir Vatnsnes. Aldrei að vita nema maður rekist á ísbirni.

 

 

Stuttmynd um lífið í Hvítserk. Við hittum á lágfjöru og fýlsunga. Það er góð tímasetning.

Hvítserkur

Fýll (Fulmarus glacialis) og fýlsungi í Hvítserki. Lífið er drit og strit.

Hvitserkur Styrktur

Styrktur Hvítserkur. Spurning um hvort grípa eigi inn í gang náttúrunnar. Í Vísi árið 1955 er greint frá söfnun fyrir verkefninu.  Þar segir m.a. "Sjávaraldan hefur smámsaman brotið þrjú göt í klettinn, er hið stærsta nyrzt, en minnsta gatið er syðst. Stendur hann þannigá 4 veikum fótum, því að þykkt klettsins neðst er ekki nema rúmur metri. Hefur klettinum verið líkt við fornaldarófreskju, sem þó riðar til falls, þar sem hafið sverfur án afláts utan úr fótum hans."

Heimildir

Dagblaðið Vísir, 20. maí 1955

Vísindavefurinn: Hvítserkur


Esjan á páskadag

"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það," - Þannig hljóðaði málshátturinn í páskaeggi Ara.

Því varð að taka áskorun og ganga á fjall um páskana. Fyrst Ari var með í för þá er vel viðeigandi að rifja upp barnavísuna sem oft er sungin í leikskólum landsins.

Upp, upp, upp á fjall,
upp á fjallsins brún.
Niður, niður, niður, niður
alveg niður’ á tún.

Eitt af markmiðum mínum er að ganga amk einu sinni á Esjuna á ári. Þetta var því kærkomin ganga en næst verður Þverfellshornið toppað. Þær eru margar gönguleiðirnar á Esjuna en sú vinsælasta var valin. Að Stein undir Þverfellshorni. Einnig er Kerhólakambur vinsæl og góð ganga.

Gestabókin við Stein var mjög blaut og illa farin. 

Dagsetning: 8. apríl 2012 - Páskadagur
Hæð Steins: 597 m      
GPS Steinn: N: 64.13.515  W: 21.43.280
Erfiðleikastig: 1 skór
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá bílastæðinu við Mógilsá. Gengið eftir góðum göngustíg og skilti vísa leið. Gengið eftir Skógarstíg, um Þvergil, yfir Vaðið og endað við Stein efst á Langahrygg.  Haldið niður blauta Einarsmýri.  Margir halda áfram á Þverfellshorn, er varðan í um 780 m hæð og vegalengd á Þverfellshorn er um 3 km. Klettar efst eru ekki fyrir lofthrædda. 

Esja

Þverfellshornið og Langihryggur. Handan hálsins er Steinn en þangað var ferðinni heitið á páskadag.  Það var slydda í 500 m hæð en hún fóðrar snjóskaflana sem vel er fylgst með úr höfuðborginni á sumrin.

Ari að lesa málshátt

"Auðveldara er að segja "fjall" en klífa það"

 Vegvísir

Góðar merkingar varða leiðina.


Lífið er saltfiskur

Um síðustu helgi var ég staddur á Shellmóti í Vestmannaeyjum í einstöku veðri. Nælonblíða var í Eyjum og logn á Stórhöfða. Gerist það ekki oft.

Þegar í bæinn var komið vakti Fiskiðjan mikla athygli. Búið var að setja myndir af bónusdrottningum í gengum tíðna. Það var mjög vel viðeignadi. Forvitni ferðamannsins var vakin, mann langaði til að vita meira um þessar duglegu konur.

Eins vakti skeytingin á Strandvegi mikla athygli. Sérstaklega göngustígurinn yfir götuna en í stað breiðra hvítra lína var kominn saltfiskur.  Einnig var hringtorg sem byggt var upp af fiskum. Tær snilld.

Síðar komst ég að því að skreytingar þettar tengjast þættinum Flikk flakk sem frumsýndur var í Sjónvarpinu í gær.  Þetta er flott framtak hjá Sjónvarpinu og himamönnum.

Ég hlakka til að sjá þáttinn um Hornafjörð en þar var svipuðum hönnunaraðferðum beitt. Ég tel að þetta eigi bara eftir að bæta bæjarmenninguna, íbúum og  ferðamönnum til upplyftingar.

Eitt geta Eyjamenn bætt en það er viðhald á einbýlishúsum. Sum hver voru sjúskuð og garðar illa hirtir.  Eflaust er vindálag meira en annars staðar á Íslandi. Maður finnur samt kraftinn í Eyjamönnum og það er uppgangur í Eyjum þátt fyrir að útgerðamenn þurfi að greiða sanngjörn veiðigjöld til samfélagsins.

Gangbraut

Lífið er saltfiskur. Frumlegur gangstígur á Strandvegi.

Vinnslustöðin

Vel skreytt Fiskiðjan sem tilheyrir Vinnslustöð Vestmannaeyja. Daginn sem myndin var tekin var haldinn stjórnarfundur hjá VSV. Niðurstaðan var sú að eigendur fengu milljónir eftir fjöldauppsögn á fiskverkafólki. Arður Vinnslustöðvarinnar 850 milljónir — Eykst um 75 prósent á milli ára.


Tékkland og gullni pilsner-bjórinn

Tékkland og Portúgal leika í 8-liða úrslitum EM 2012 í dag. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag.

Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 159 lítrar á ári. Slá þeir út frændur okkar Íra með 131 lítra og Þjóðverja með 110 lítra.  En þessi lið er öll í úrslitakeppni EM.

Fyrst Tékkland, land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen, musteri bruggmenningarinnar.  Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery.  Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins  var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu.  Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 98% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.

Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager.   Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, „lagering“.

Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell  og anda að sér bjórsögunni. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 170 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af  ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.

 Hlidid1024

Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar.


Hlíðarendi hinn eldri

Í tilefni af þjóðhátíðardegi okkar þá ætla ég að láta hugann aftur í tímann og beini sjónum mínum að málverki eftir Höskuld Björnsson, listmálara og sögunni á bak við konuna á myndinni en þegar ég heyrði hana þá varð myndin miklu stærri og meiri. 

Hlíðarendi 1933 (31. hús Hafnar). Í þeirri merku bók, Saga Hafnar í Hornafirði eftir Arnþór Gunnarsson segir:

Árið 1933 byggði Guðríður Hreiðarsdóttir (1862-1945) íbúðarhúsið Hlíðarenda með aðstoð vina sinna og tilstyrk Nesjahrepps.

Guðríður þótti dálítið sérkennileg í háttum en hún hugsaði ætið vel um heimilið og gætti þess að eiga einhverjar góðgerðir að bjóða þegar gesti bar að garði. Þetta vissu börnin í þorpinu og þegar þau áttu leið inn Hafnarveginn komu þau ósjaldan við hjá Guðríði gömlu undir því yfirskyni að fá vatn að drekka. Af einskærri gestrisni bauð Guðríður krökkunum upp á kleinu eða ástarpung en til þess var leikurinn einmitt gerður.

Hlíðarendi var 20 fermetra lágreist timburhús í hlaðinu tóft með einu herbergi og eldhúskompu.

Sá þetta glæsilega málverk eftir Höskuld Björnsson í heimsókn í maí og smellti af mynd. Litirnir eru svo tærir og flottir. Brautarholt stendur ofar. Densilegt Ketillaugarfjall í skýjum fyrir ofan Guðríði sem var iðin að eðlisfari.

Hlidarendi

Glæsilegt olíumálverk eftir Höskuld Björnsson. Höskuldur hefur verið staðsettur með trönur sínar á Fiskhól.


Gæðastjórinn Václav Klaus

Þeir hafa skemmtilega hefð á Bjórsafninu í Pilsen í Tékklandi. En í þeirri borg var ljósi lagerbjórinn fundinn upp árið 1842 og hélt sigurför um heiminn. Lykilinn af velgengninni var öflugt gæðastarf hjá Pilsner bjórverksmiðjunni.

Hefðin er sú að skipta um gæðastjóra þegar nýr forseti tekur við embætti og er Václav Klaus nú gæðastjóri í Bjórsafninu. Hausinn er ávallt uppfærður við forsetaskipti.

Ekki hef ég séð Ólaf Ragnar Grímsson í neinu íslensku safni en einstaka sinnum á mynd.

Václav Klaus

Hér er Václav Klaus mættur til vinnu.


mbl.is Forsetar hittast í Tékklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10. maí

Hann var sögulegur 10. maí 1940 en þá var Ísland hernumið af Bretum og nýir tímar hófust á Íslandi. 

Hernám Breta var til að koma í veg fyrir að Ísland félli undir þýsk yfirráð en Þjóðverjar höfðu sýnt landinu töluverðan áhuga á árunum fyrir styrjöldina vegna hernaðarlegs mikilvægis þess í tengslum við siglingar um Norður-Atlantshaf.

Mér var hugsað til þessa dags fyrir 72 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrr í vikunni. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.

Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl  1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður.  Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda fimm herskipaflota til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.

Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis.  Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.

Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil.  En hún er mjög vel þekkt í Noregi.

Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi.  Stríð eru svo heimskuleg.  Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".

En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.

 Oscarsborg

Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.


Konéprusy hellarnir

Mér varð hugsað til Þríhnúkagígs þegar ég heimsótti óvænt Koneprusy hellana í Tékklandi, mestu hella landsins.

Koneprusy hellarnir fundust fyrir tilviljun árið 1950 er verið var að sprengja fyrir efni í "Lime-stone" námu en efnið er notað í byggingar. Árið 1959 var opnað fyrir aðgang ferðamanna.

Það var stanslaus straumur ferðamanna í hellana og ferðin tók klukkustund. Farið var um 620 skipulagða metra en hellakerfið er alls 2 km og 70 metra djúpt á þrem hæðum. Hellarnir eru frá Devon tímabilinu fyrir 400 milljón árum og gefa innsýn í sögu jarðarinnar sem á sér 1,5 milljón ára sögu.

Eitt sem er merkilegt við hellana eru bein af dýrum sem fundist hafa þar og eru 200 til 300 þúsund ára gömul. Það var áhrifaríkt að sjá afsteypur af beinunum og að sjá dropasteina sem hafa verið að myndast á sama tíma.

Búið var að lýsa upp hellana og steypa gólf og tröppur. Lýsing var góð og þegar svæði var yfirgefið slökknaði á ljósum. Á einum stað var slökkt á öllu og þá var maður í algleymi. Það var áhrifarík stund. Sjá mátti leðurblökur á veggjum og var það í fyrsta skipti sem ég hef barið batman augum.

Það eru til glæsileg áform um aðstöðu í Þríhjúkagígum og er ég á þeirri skoðun að opna eigi Þríhnúkagíga fyrir almenning. Gera þarf umhvefismat og finna þolmörk svæðisins en við verðum að passa upp á vatnið okkar sem sprettur upp skammt frá. Það er okkar dýrmætasta eign.

Tékkarnir í Bæheimi voru óhræddir að steypa í gólf og hlaða veggi nálægt stórbrotnum dropasteinum og steinamyndunum. Litadýrð var ekki mikil en formfögur voru drýlin sem myndast hafa á hundruð þúsundum árum.

Ferðafélagar mínir, miðaldra hjón frá Miami í Bandaríkjunum spurðu hvort við ættum svona flotta hella á Íslandi. Ég játti því og hvatti þá til að koma í hellaskoðunarferð til Íslands. Þeim leist mjög vel á hugmyndina. Ég náði tveim ferðamönnum til landsins en ég gat ekki lofað þeim ferð í Þríhnúkagíg en nú er það hægt.

Ferðin í Koneprusy hellana var þó mun ódýrari en upphafsferðirnar í Þríhnúkagíga, 910 krónur (130 CZK *7) en verðlag í Prag var á pari við Ísland. En svo þurfti að greiða 40 kórónur fyrir myndatöku eða 280 kall. Þeir voru mikið fyrir ljósmyndaskatt í Tékklandi.

Hér er þriggja mínútna heimildarmyndband sem sýnir innviði Koneprusy hellana. Kone þýðir hestar á tékknesku.

Koneprusy


 


Íslandsmót í Hornafjarðarmanna

15. Íslandsmótið í HornafjarðarManna var haldið á veitingastaðnum Höfninni í gærkveldi. Mæting var ágæt, 48 af bestu spilurum landsins mættu til leiks og áttu saman góða kvöldstund. Gaman var að sjá hvað mikið af ungu fólki mætti.  Albert Eymundsson og Ásta Ásgeirsdóttir sáu um að mótsstjórn og tókst  vel til að venju.

Eftir undankeppni komust 27 efstu spilarar í úrslitakeppni og enduðu svo þrír keppendur í æsispennandi úrslitarimmu sem þurfti að tvíframlengja. Kristján  G. Þórðarson stóð upp sem sigurvegari en Þóra Sigurðardóttir hafnaði í öðru. Þorgrímur Guðmundsson hafnaði í bronssætinu en hann hefur oft verið í úrslitakeppnni.

En það er ekki aðal málið að vera að berjast um flest prik og sigurlaunin heldur vera með í góðum félagsskap og spila í merkilegu móti. Heldur rækta félagsauðinn og leggja inn á hann. 

Flest bendir til þess að félagsauður hafi áhrif á velferð, hagsæld og heilbrigði einstaklinga og samfélaga. Einnig dregið úr spillingu.

Íslandsmeistarar í Hornafjarðarmanna frá upphafi:
2012 Kristján G. Þórðarson, frá Flúðum (tengdasonur Hvamms í Lóni)
2011 Anna Eymundsdóttir, frá Vallarnesi
2010 Kristín Auður Gunnarsdóttir, Vegamótum
2009 Kjartan Kjartansson, frá Mýrdal
2008 Elín Arnardóttir, frá Hornafirði
2007 Sigurpáll Ingibergsson, frá Hornafirði
2006 Guðjón Þorbjörnsson, frá Hornafirði
2005 Jón Hilmar Gunnarsson, frá Þinganesi
2004 Jón Hilmar Gunnarsson, frá Þinganesi
2003 Þorvaldur B. Hauksson, Hauks Þorvalds
2002 Hjálmar Kristinsson, Hólar í Nesjum
2001 Jónína María Kristjánsdóttir Hvalnes/Djúpavogur
2000 Signý Rafnsdóttir, Miðsker/Þinganes
1999 Þorgrímur Guðmundsson, Vegamótum
1998 Guðrún Valgeirsdóttir, Valgeirsstöðum

Hægt er að sjá myndband af  Íslandsmótinu á facebook hjá Hornfirðingafélaginu.

Það er mikill félagsauður falinn í HornafjarðarManna.

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna 2012

Þorgrímur Guðmundsson frá Vegamótum, Kristján G. Þórðarson frá Flúðum (tengdasonur Hvamms í Lóni) hafði sigur eftir bráðabana við Þóru Sigurðardóttur (hans Bebba).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband