Færsluflokkur: Menning og listir
31.12.2011 | 00:22
Árið kvatt með Kampavíni frá Gulu ekkjunni
Það er góð hefð að skála í freyðivíni um áramótin. Áramótin eru tími freyðivínanna. Gula ekkjan verður fyrir valinu í ár.
Sagan á bakvið kampavínið hefst í héraðinu Champagne í Frakklandi árið 1772. Þá stofnaði Philippe Clicquot-Muiron, fyrirtækið sem með tímanum varð house of Veuve Clicquot. Sonur hans François Clicquot, giftist Barbe-Nicole Ponsardin árið 1798 og lést hann 1805. Því varð Madame Clicquot ekkja 27 ára gömul og stóð uppi með fyrirtæki sem var í bankastarfsemi, ullariðnaði og kampavínsframleiðslu. Hún átti eftir að hafa mikil áhrif á síðasta þáttinn.
Þegar Napóleon stríðin geysuðu náðu vínin útbreiðslu í Evrópu og sérstaklega við hirðina í Rússlandi. Aðeins 7% af framleiðslu fyrirtækisins selt í Frakklandi, annað var selt á erlenda markaði. Þegar ekkjan lést 1866 var vörumerkið orðið heimsþekkt og sérstakega guli miðinn á flöskunni. Því fékk vínið nafnið Gula ekkjan. En veuve er franska orðið yfir ekkju.
En Barbe-Nicole Ponsardin var frumherji. Ekkjan fann upp nýja aðferð við að grugghreinsa kampavín. Hún og starfsmenn hennar hófu að stilla kampavínsflöskum í rekka þannig að hálsinn snéri niður. Þá þurfti annað slagið að hrista og snúa flöskunum í rekkunum, til þess að óhreinindin söfnuðust öll að tappanum. Flaskan var opnuð og það fyrsta sem þrýstingurinn losaði úr flöskunni var gruggið. Þetta þýddi að mun minna fór til spillis en áður hafði gert. Fram að þessu hafði vínið verið geymt á flöskunum liggjandi á hliðinni og safnaðist botnfallið niður á hlið flöskunnar. Þetta hafði það í för með sér að umhella þurfti öllu víninu og alltof mikið úr hverri flösku fór til spillis. Nú var aðeins örlítið af víninu sem tapaðist og einungis þurfti að fylla smá viðbót á hverja flösku til að vera kominn með vöruna í söluhæft form. Þessi aðferð Ponsardin ekkjunnar fékk nafnið Méthode Champenoise.
Það er allt annað að drekka Kampavín í lok ársins þegar maður þekkir söguna á bakvið drykkinn. Vín með sögu og persónuleika. Viðing við drykkin eykst og þekking breyðist út. Þroskaðri vínmenning verður til. Konur ættu hiklaust að hugsa til ekkjunnar við fyrsta sopa og hafa í huga boðskapinn fyrir 200 árum.
Alvöru dömur áttu ekki að innbyrða neitt nema humarsalat og kampavín og kampavín á að vera eina áfengið sem gerir konur fallegri eftir neyslu þess.
Í Fréttatímanum segir um Veuve Clicquot Ponsardin Brut: Þurrt með mildum sítruskeimi sem sker í gegn en þó gott jafnvægi á tungunni milli beiskju og sætu. Þegar á líður kemur pera og meiri ávöxtur í gegn. Mjög gott Kampavín. Áfengisstyrkur, 12%. Fær drykkurinn 4 glös af 5 mögulegum í einkunn.
Heimildir:Bar.is Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 12. hluti, gula ekkjan
Facebook Gula ekkjan
Fréttatíminn Matur og vín
Vinbudin.is Veuve Clicquot Ponsardin Brut
Wikipedia Veuve_Clicquot
28.4.2011 | 21:47
Búrfellsgjá (183 m)
Þau eru mörg Búrfellin hér á landi. Það er talið að það séu til amk 47 Búrfell. Þau er nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Á vefnum ferlir.is segir ennfremur um Búrfellsnafnið: "Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr".
Verkefni dagsins var að heimsækja Búrfellsgjá, sem tengist Búrfelli einu og er vanmetin náttúruperla stutt frá fjölbýlinu. Búrfellsgjá er 3,5 km hrauntröð sem liggur vestur úr Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta, Búrfellshraun hafi runnið fyrir um 7200 árum og þekur 18 km2.
Keyrt framhjá Vífilsstaðavatni, framhjá Heiðmörk og í austurátt meðfram Vífilsstaðahlíð. Síðan var lagt í hann eftir merktum göngustíg, niður að Vatnagjá í botni Búrfellsgjár. Steinsnar frá Vatnagjá er Gjárétt og hefur vatnið úr henni verið forsenda fyrir selstöð.
Gjárétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjábarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep manna til gistingar. Annað var ekki í boði fyrir einni og hálfri öld.
Garðbæingar eiga hrós skilið fyrir upplýsingaskilti og gerð göngu- og hestastíga. Gjárétt er vel útskýrð á skiltinu og hvernig eignarhaldi var háttað.
Stutt, skemmtileg og fróðleg ganga.
Dagsetning: 27. apríl 2011
Hæð: 183 metrar
Hæð í göngubyrjun: 113 metrar, Vífilsstaðahlíð, N:64.02.814 W:21.51.12
Hækkun: 70 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (19:00 - 20:00) 2,55 km
Heildargöngutími: 120 mínútur (19:00 - 21:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða: N: 64.01.990 - W: 21.49.950
Vegalengd: 5,0 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Bjart, S 1 m/s, 8,1 gráður. Raki 67%, skyggni 25 km. Skúraský. Ekkert haglél í þetta skiptið, sól og yndislegt veður til göngu.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 27 manns
GSM samband: Já - en datt niður í gjám
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Vífilsstaðahlíð um Búrfellshraun, að Vatnagjá, Gjárétt og upp Búrfellsgjá.
Tignarlegur inngangur í Gjárétt en hún var hlaðin úr hraungrýti um 1840.
Hrauntröð sem var full af kviku fyrir 7000 árum en tæmdist í lok eldvirkninnar.
Göngumenn ganga á börmum eldstöðvarinnar, í 160 m hæð en hæsti punktur er 183 metrar.
Heimild:
Upplýsingaskilti, útivistarlönd Garðbæinga og Garðabær útivistarsvæði.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2011 | 14:11
Lón stækka feikilega við Hoffellsjökul
Í fréttabréfi Jöklarannsóknafélagi Íslands, JÖRFÍ, er svo glæsileg mynd af Hoffellsjökli og Svínafellsjökli en Hoffellsjökull og Heinabergsjökull eru glæsilegir séðir frá Hornafirði. Ég tek mér það bessaleyfi að birta myndina hér en hún er unnin undir stjórn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofu Íslands. Það verður gaman að sjá alla íslensku jöklana í þessu ljósi.
Í fréttabréfinu segir um Hoffellsjökul: "Af nýjum kortum af Hoffellsjökli má ráða að lónið framan við jökulsporðinn hafi stækkað feikilega á síðastliðnu ári. Þar eru nú myndarlegir ísjakar á floti á stöðuvatni sem teygir sig inn með Geitafellsbjörgum (sjá mynd). Fyrir framan hvora jökultungu eru fallega bogadregnir garðar sem sýna hvert jökullinn náði um 1890. Af því sést að sá eystri (Hoffellsjökul) hefur ekki styst nema um nokkur hundruð metra en sá vestari (Svínafellsjökul) stendur nú um 3,5 km frá fremstu görðum."
Svínafellsjökull náði svo langt fram að hann klofnaði um Svínafellsfjall, og fékk vesturhlutinn nafnið Svínafellsjökull. Öldutangi norður úr Svinafellsfjalli greindi þá að, en nú er hann íslaus.
Hér er mynd af glæsilegu málverki sem sýnir jöklana tvo, Viðborðsjökul og Hoffellsjökul. Málverkið er eftir Helga Guðmundsson og líklega máluð á 7. ártugnum enda Viðborðsjökull, sem er til vinstri og Hoffellsjökull vel fóðraðir á hafísárunum. Svínafellsfjall er fyrir miðri mynd. Handan fjallsins, milli jöklana er Gæsaheiði og Viðborðshálsar.
Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2011 | 22:48
Íslenskt bygg 90% í Egils þorrabjór
Einkunnarorð Ara "Fróða" Þorgilssonar voru að hafa það heldur, er sannara reynist. Ég ætla því að bæta við færslu um þorrabjór réttum upplýsingum um íslenskt bygg. Um leið biðst ég velvirðingar á mistökum mínum, rétt eins og Agnes Bragadóttir gerði í dag út af rangri frétt um blaðamann DV.
Í bloggi mínu um þorrabjór í byrjun þorra, þá hrósaði ég bruggmeisturum Ölgerðarinnar fyrir að nota íslenskt bygg í þorrabjór sinn. Þar sagði: "Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi."
Þorrabjór Ölgerðarinnar í ár er gerður að 9/10 hlutum úr íslensku byggi en það er hærra hlutfall en bjórar á Íslandi hafa nokkru sinni státað af. Íslenska byggið í Þorrabjórnum er ræktað á bænum Belgsholti í Melasveit á Vesturlandi. Ölgerðin hefur í samstarfi við Harald Magnússon, bónda á Belgsholti, unnið að því að þróa bjóra úr íslensku byggi og stutt er í fyrsta bjórinn sem mun eingöngu innihalda íslenskt bygg.
Íslenska byggið hefur sín karaktereinkenni og má greina þau í Egils Premium en þar er það í minnihluta. Það er gaman að fregna af þessari nýsköpun en aðferðin að brugga úr ómöltuðu byggi er tilraunastarfsemi sem unnin hefur verið síðustu ár í samvinnu Ölgerðarinnar við erlenda aðila og íslenska kornbændur.
Nú bíð ég spenntur eftir fyrsta 100% íslenska byggbjórnum. Vonandi verður hann góð útflutningsvara í framtíðinni og íslenskt bygg og íslenskt vatn á allra vörum.
Á vefnum bjorspjall.is er ágætis grein um ómaltað íslenskt bygg hjá Ölgerðinni við bjórgerð.
Menning og listir | Breytt 12.2.2011 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2011 | 12:42
Þorrabjór
Ég sakna Suttungasumbls þorrabjórs frá Ölvisholti á þorranum í ár. Þeir hafa bætt bjórmenninguna hér á landi.
Í boði eru fjórar tegundir af þorrabjór á þorra. Jökull þorrabjór, Kaldi þorrabjór og Egils þorrabjór og Þorrabjór frá Víking. en það er í fyrsta skipti frá árinu 1998/1999 sem þeir bjóða upp á vöruna. Voru allir bjórarnir í 330 ml flöskum og blind smökkun.
Smökkunarmenn þorrabjórsins voru mjög ánægðir með gæði og breidd íslenska þorrabjórsins og voru stoltir yfir því að geta á góða kvöldstund með íslenskri bjórframleiðslu og þjóðlegum íslenskum mat.
Jökull þorrabjór er með mikilli karamellu og því er mikil jólastemming í bjórnum en mjöðurinn er bruggaður eftir þýskri bjórhefð. Var hann dekkstur bjóranna og greindu menn ristað maltbragðið vel. Vatnið úr Ljósufjöllum á Snæfellsnesi er vottað og innihaldið án rotvarnarefna.
Kaldi þorrabjór fer vel með ristað tékkneskt-malt, með ríkt langt og sterkt humlabragð og undir karamellu áhrifum. Hann er laus við rotvarnarefni. Fundu menn fyrir tékkneskum Saaz-humlaáhrifum. Tilvalið að taka með Stinnings-Kalda í leiðinni úr Vínbúðinni.
Víking þorrabjór er með frísklegri beiskju og ríkt humlabragð sem hentar vel með þorramat. Þeir eru með fjórar gerðir af byggi og hveitimalts ásamt blöndu af bæverskum, enskum og amerískum humlum.
Egils þorrabjór er hlutlausastur þorrabjóranna. Ölgerðarmenn taka ekki mikla áhættu. Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi. Ágætis ímyndaruppbygging hjá Agli og styrkir sjálfsmyndina á Þorra.
Stemming fyrir árstíðabundnum nýjungum er mikil. Jólabjórinn rokseldist enda mikil gæði í íslenskum brugghúsum. Því ætti þorrabjór að ganga vel í landann á þorra. Ég mæli helzt með þorrabjórunum frá Kalda og Jökli. Víking er með athyglisverða humlasprengju en Egill tekur alltaf minnsta áhættu.
Markaðsdeildir bruggsmiðjanna mega bæta upplýsingaflæðið á heimasíðum sínum.
Allt hefur hækkað frá síðasta ári, nema launin. En hækkunin á þorrabjór er innan þolmarka.
Tegund | Styrkur | Flokkur | Verð | Hækkun | Lýsing |
Egils þorrabjór | 5,6% | Lager | 339 | 6,2% | Ljósgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Blóm, ljóst korn, pipar. |
Jökull þorrabjór | 5,5% | Lager | 352 | 1,4% | Rafbrúnn. Létt fylling, lítil freyðing, þurr, mildur, lítil beiskja. Rúgbrauð, karamella, baunir. |
Kaldi þorrabjór | 5,0% | Lager | 349 | 8,4% | Rafgullinn. Létt fylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Maltbrauð, karamella, hnetur. |
Víking þorrabjór | 5,1% | Lager | 315 | Nýr | Ljósgullinn. Meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Malt, korn, grösugir humlar |
30.10.2010 | 17:35
Veiðimenn norðursins - ljósmyndasýning á heimsmælikvarða
Sýning RAXa í Gerðasafni er stórglæsileg, alveg á heimsmælikvarða.
Að sjálfsögðu var margmenni við opnun sýningarinnar og mátti sjá ljósmyndlandsliði Íslands meðal áhorfenda. Voru þeir stórhrifnir.
Einn góður ljósmyndari, Einar Örn, segir í facebook-færslu sinni: "RAXi er langflottastur. Frábær sýning í Listasafni Kópavogs. Tímalausar ljósmyndir í anda Cartier-Bresson og Andre Kertesz."
Ég get tekið undir þessi orð.
Á neðri hæð er sýningin Andlit aldanna. Þar eru glæsileg listaverk tekin í Jökulsárlóni og eiga myndirnar það sammerkt að vera í stóru formati og hægt að sjá andlit í hverri mynd. Einnig var sýnd kvikmynd sem sýndi listaverkin í Jökulsárlóni við undirleik Sigur Rósar. Stórmögnuð stemming.
Í vikunni fékk ég í hendur eintak af bókinni Veiðimenn norðursins sem ég keypti í forsölu. Bókin er glæsilegasta ljósmyndabók Íslendings. Inniheldur bókin 34 litljósmyndir og 126 svarthvítar ljósmyndir. Bera svarthvítu myndirnar af og sérstaklega hefur Ragnari tekist til að mynda fólkið, inúítana og veiðimennina og segja sögu þess. Það er augljóst þegar myndirnar í veiðiferð á þunnum ísnum eru skoðaðar að hann hefur unnið sér traust veiðimananna. Það er galdurinn á bakvið meistaraverkið.
Ljósmyndabókin Veiðimenn norðursins fer við hlið Henri Cartier Bresson photograhie í bókahillu minni.
Ísbjörn að glíma við loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Valdi þessa mynd RAXa með bókinni, Veiðimenn norðursins.
2.10.2010 | 22:49
Þríhnúkagígur (545 m)
Þríhnúkar í Bláfjallafólksvangi ber daglega fyrir augu mín úr Álfaheiðinni. Ég vissi af Þríhnúkagíg í austasta hnúknum en hafði ekki kannað undrið. Fyrir átta dögum kom á forsíðu Fréttablaðsins frétt um að Kvikmyndafyrirtækið Profilm væri að taka upp efni fyrir National Geographic ofan í Þríhnúkagíg. Tilgangurinn er að taka myndir um eldsumbrot á Íslandi.
Við höfðum orðið vör við torkennileg ljós við hnúkana þrjá á kvöldin fyrri hluta vikunnar og því var farin njósnaferð til að sjá hvernig gengi.
Þegar við komum að Þríhnúkagíg eftir göngu meðfram Stóra Kóngsfelli, þá sáum við til mannaferða. Einnig tók á móti okkur ljósavél frá Ístak. Aðkoman að gígnum var góð. Búið að setja keðjur meðfram göngustígnum upp gíginn og einnig í kringum gígopið til að ferðamenn lendi ekki í tjóni. Það blés hressilega á okkur á uppleiðinni en gott skjól var við gígopið.
Gul kranabóma lá yfir gígopinu og niður úr henni hékk karfa fyrir hella- og tökumenn en dýpt gígsins er 120 metrar.
Þrír íslenskir hellamenn voru að bíða eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar en hún átti að flytja búnað af tökustað en tafir urðu á þyrluflugi vegna bílslyss. Við rétt náðum því í skottið á velbúnum hellamönnum. Þeir nýttu tímann til að taka til í kringum gígopið.
Kvikmyndataka hefur staðið yfir síðustu tíu daga og gengið vel, þrátt fyrir rysjótt veður enda inni í töfraheimi einnar stórfenglegustu myndbirtingar íslenskrar náttúru.
Dagsetning: 2. október 2010
Hæð: 545 metrar
Hæð í göngubyrjun: 400 metrar, við Stóra Kóngsfell
Hækkun: 120 metrar
Uppgöngutími: 60 mín (14:00 - 15:00)
Heildargöngutími: 135 mínútur (14:00 - 16:15)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit austurgígur N: 63.59.908 - W: 21.41.944
Vegalengd: 7,2 km
Veður kl 15 Bláfjallaskáli: 8,7 gráður, 14 m/s af NA, skúrir í nánd. Raki 74%
Þátttakendur: 3 spæjarar, ég, Jón Ingi og Ari
GSM samband: Já - gott samband
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Bláfjallavegi, og gengið í mosavöxnu hrauni með vesturhlíð Stóra Kóngsfells. Þaðan gengið eftir hryggnum að Þríhnúkagíg.
Óvenjuleg staða við Þríhnúkagíg. Unnið að heimildarmynd um eldsumbrot á Ísland fyrir National Geographic.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.9.2010 | 18:10
Hlöðufell (1186 m)
Ægifegurð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður er kominn á topp Hlöðufells. Það var ógnvekjandi og himneskt að vera á toppnum, altekinn af mikilfengleik sköpunarverksins og maður upplifir smæð sína um leið, þó er maður hávaxinn.
Víðsýnið af Hlöðufelli var stórfenglegt. Þegar horft var í norðvestur sást fyrst Þórisjökull, síðan Presthnjúkur, Geitlandsjökull, Langjökull, Hagavatn, Bláfell, Kerlingarfjöll, Hofsjökull, Vatnajökull, Hekla, Tindfjallajökull, Eyjafjallajökull, Vestmannaeyjar, Ingólfsfjall, Esjan og Botnssúlur. Einnig sást inn á Snæfellsnes . Í suðvestri voru hin þekktu Þingvallafjöll, Skriða að Skriðutindar og nágrannarnir, Kálfatindur, Högnhöfði og Rauðafell. Síðan horfðum við niður á Þórólfsfell þegar horft var í norður.Skjaldbreiður, ógnarskjöldur, bungubreiður er magnaður nágranni en það var dimmt yfir henni.
Gullni hringurinn og Hlöðufell, þannig hljóðaði ferðatilhögunin. Lagt af stað í skúraveðri frá BSI og komið við á Þingvöllum. Þar var mikið af fólki og margir frá Asíu. Eftir að hafa heilsað upp á skálin Einar og Jónas var halið á Laugarvatn, einn farþegi bættist við og haldið yfir Miðdalsfjall. Gullkista var flott en hún er áberandi frá Laugarvatni séð. Síðan var keyrt framhjá Rauðafelli en þar eru flott mynstur í móberginu. Að lokum var keyrt yfir Rótasand á leiðinni að Hlöðuvöllum.
Á leiðinni rifjuðum við Laugvetningarnir frá Menntaskólanum skemmtilega sögu sem Haraldur Matthíasson kennari átti að hafa sagt: "að það væri aðeins ein fær leið upp á á Hlöðufell og þá leið fór ég ekki."
Við fórum alla vega einföldustu leiðina. Þegar komið er að skála Ferðafélags Íslands sést stígurinn upp fellið greinilega. Fyrst er gengið upp á stall sem liggur frá fellinu. Þegar upp á hann er komið er fínt að undirbúa sig fyrir næstu törn en það er skriða sem nær í 867 metra hæð. Klettabelti er efst á leiðinni en mun léttari en klettarnir í Esjunni. Síðan er næsti áfangi en um tvær leiðir er að velja, fara beint upp og kjaga í 1081 metra hæð. Þá sést toppurinn en um kílómeter er þangað og síðustu hundrað metrarnir. Það er erfitt að trúa því en staðreynd.
Þegar upp á toppinn er komið, þá er geysilegt víðsýni, ægifegurð eins og áður er getið. Á toppnum var óvæntur gjörningur. Einhverjir spaugsamir listamenn höfðu komið fyrir stöðumæli sem er algerlega á skjön við frelsið. Því stöðumælar eru til að nota í þrengslum stórborga. Einnig má sjá endurvarpa sem knúinn er af sólarrafhlöðum.
Gangan niður af fjallinu gekk vel og var farið niður dalverpið og komið að uppgönguleiðinni einu. Þaðan var keyrt norður fyrir fjallið, framhjá Þórólfsfelli og inná línuveg að Haukadalsheiði. Gullfoss og Geysir voru heimsóttir á heimleiðinni.
Dagsetning: 19. september 2010
Hæð: 1.186 metrar
Hæð í göngubyrjun: 460 metrar, við Hlöðuvelli, skála (64.23.910 - 20.33.446)
Hækkun: 746 metrar
Uppgöngutími: 120 mín (13:00 - 15:00), 2,5 km bíll - Tröllafoss
Heildargöngutími: 210 mínútur (13:00 - 16:30)
Erfiðleikastig: 3 skór
GPS-hnit toppur: N: 64.25.171 - W: 20.32.030
Vegalengd: 5,8 km
Veður kl 15 Þingvellir: 7,2 gráður, 1 m/s af NA, léttskýjað
Þátttakendur: Ferðaþjónustan Stafafelli, 8 manns.
GSM samband: Já - gott samband á toppi en neyðarsímtöl á uppleið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Hlöðuvöllum, gengið upp á stall, þaðan upp í 867 metra hæð en dalverpi er þar. Leiðin er öll upp í móti en þegar komið er í 1.081 metra hæð, þá er létt ganga, kílómeter að lengd að toppinum. Minnir á göngu á Keili.
Ferðafélagar á toppi Hlöðufells. Klakkur í Langjökli gægist upp úr fönninni.
Stöðumælirinn í víðerninu. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2010 | 15:26
Eyjafjalla skallinn
Meðan bólgan líður úr hægri ökkla mínum ligg ég við lestur til að drepa tímann. Það er gaman að lesa ferðasögur Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) fyrir einni öld. Hann gekk á fjöll og firindi og var frumherji í fjallamennsku. Hann skrifaði um ferðir sínar og gaman að bera saman við nútímann. Ein grein sem birtist í Fanney árið 1919 er um Eyjafjallajökul. Þar kemur eldgosið 1821 til 1823 fyrir. Læt ágæta vísu og fréttaskýringu fylgja með.
Eyjafjallajökull hefir líka gosið eldi; síðast 1822. Þá kvað Bjarni Thorarensen:
Tindafjöll skjálfa, en titrar jörð,
tindrar um fagrahvels boga,
snjósteinninn bráðnar, en björg klofna hörð,
brýst þá fyrst mökkur um hárlausna svörð
og lýstur upp gullrauðum loga.
Hver þar svo brenni, ef þú spyr að,
Eyjafjalla skallinn gamli er það.
Eldgjáin var þá sunnan og vestan í hábungu jökulsins, og rann vatnsflóð ofan á sandana við Markarfljót. Vatnið gat ekki safnast fyrir vegna brattans, svo að það gerði lítinn usla, en öskufall varð mikið. Við það tækifæri fengu Reykjavíkurbúar dálítið af ösku í nefið með sunnanvindinum.
Heimild:
Jón Trausti, ritsafn, 8. bindi, bls. 245.
Úr greininni Eyjafjallajökull sem birtist í Fanney 1919, 5. hefti.
![]() |
Eitt öflugasta hverasvæðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2010 | 14:11
Þorrablót Hornfirðinga
Þorrablót Horfirðinga á höfuðborgarsvæðinu tókst vel í gærkveldi. Yfir 200 manns mættu og var þemað í skemmtiatriðum þorrablótsnendarinnar í anda Michael Jacksons.
Heiðurshjónin Sigurður Hannesson og Guðbjörg Sigurðardóttir stigu á stokk og sögðu skemmtilega frá gömlu góðu dögunum á Hornafirði. Minni karla og kvenna komu vel út hjá Gunnhildi Stefánsdóttur og Borgþóri Egilssyni. Veislan sá um þorramatinn og var hann að venju góður en þau hefðu mætt bæta sig í harðfisknum. Hann var nær uppseldur er ég mætti á svæðið og með roði.
Hljómsveit Hauks sá um ballið og var vel mætt á dansgólfið.
Hilmir Steinþórsson, Stefán Rósar Esjarsson og Jón Ingi Ingibergsson í Thriller klæðnaði. Auk þeirra voru Anna Vilborg Sölmundadóttir, Halldóra Eymundsdóttir og Jóhanna Arnbjörnsdóttir í nefndinni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 2
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 72
- Frá upphafi: 234907
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 64
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar