Færsluflokkur: Fjölmiðlar
27.8.2024 | 15:35
Hjarnskaflinn í Esjunni
Fjölmiðlar | Breytt 8.9.2024 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2023 | 17:43
Kolefnislosun og hagnaður
Þorskstofninn í hættu vegna loftslagsbreytinga en möguleg tækifæri í sardínum og makríl er frétt á forsíðu Fréttablaðsins 9. desember 2022. Ráðast þarf að rót vandamálsins, stoppa losun GHL.
Slæmu fréttirnar þegar mælingar á losun í virðiskeðju fyrirtækja eru að risarnir í losun eru ekki að vinna neitt í losunarsviði 3, nema orkufyrirtækin tvö, LV or OR. Hlutfallið í losunarsviði 3 er 5% en viðmið MSCI vísitölunnar er 88%.
Mælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð. Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions). Staðan eða kortlagning hjá fyrirtækjunum minnir mig á landakort sem Christopher Columbus hafði árið 1492 þegar hann ætlaði að sigla til Asíu en endaði í Ameríku!
Enginn losun reiknuð við flutning hráefnis og vöru hjá álverum. Einnig hvernig hráefnis er aflað. Það vantar fallega framtíðarsýn eins og CarbFix hefur um að fanga CO2 úr andrúmslofti og farga neðanjarðar sé flutt í skipum með vistvænu eldsneyti.
Í töflunni eru stærstu kolefnislosunarvaldar Íslands og raðað eftir beinni losun (grái dálkurinn). Fyrsti dálkurinn er hagnaður fyrir skatta 2021 og fengin úr bókinni 300 stærstu. Síðan koma losunarsviðin og mótvægisaðgerðin, kolefnisbinding. Athygli vekur að hagnaður gráu fyrirtækjanna 18 er 136 milljarðar fyrir skatta og ef þau væru skylduð skv. mengunarbótareglunni til að kolefnisjafna losun í dag og greiða þrjú þúsund krónur (20 EUR) fyrir tonnið af CO2 væri kostnaður um 10 milljarðar eða rúm 7% af hagnaði fyrir skatta. Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu.
Heildarlosun gráu fyrirtækjanna er 3,3 milljón tonn CO2 eða rúmlega 73% af losun landsins fyrir utan landnotkun. Almenningur, sveitarfélög og hin 20.000 fyrirtækin eiga 27%! Til samanburðar er losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands 2,7 milljón tonn.
Orkufyrirtækin með yfirburði í kolefnisbindingu en margt spennandi í farvatninu á komandi árum ef staðið verður við farmtíðarsýn fyrirtækjanna í sjálfbærniskýrslum. En aðeins rúmlega 1% af losun er kolefnisjöfnuð.
Aðeins Landsvirkjun nær að uppfylla kröfur um kolefnishlutleysi en búið að að lögfesta að Ísland ætlar að ná markmiði um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.
Einnig er í hættu að Ísland ná markmiði Parísarsamkomulagsins 2030 með þessu aðgerðaleysi.
Stóru losunarfyrirtækin eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla neyðaráætlun.
ETS Viðskiptakerfi ESB heldur um iðnað, flug og sjóflutninga. Um kerfið gilda sérstakar reglur en þrátt fyrir það þá öndum við að okkur sama loftinu og við þurfum að gera strangar kröfur til risanna í losun. Mögulegt er að að losunartölurnar sem álverin birta í sjálfbærniskýrslum eru mun lægri en losunin er í raun og veru.
Nú er að hefjast nýtt uppgjörsár og vonandi verða þessar upplýsingar til þess að fyrirtæki setji meiri metnað í mælingar á virðiskeðjunni. Það skiptir miklu máli að finna hvaða losunarþáttur og hvar mest ábyrgðin liggur. Forgangsraða og setja mestan tíma í stærstu loftslagsvænu aðgerðina.
Íslensk fyrirtæki þurfa að spýta í lófana og vera góð fyrirmynd, til að sviðmyndin - þorskstofninn hverfur úr lögsögunni - raungerist ekki.
Greinin birtist fyrst í dálknum Skoðun í Fréttablaðinu 12. febrúar 2023
Fjölmiðlar | Breytt 5.3.2023 kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2019 | 19:11
Loftmengun - orðaskortur í byrjun bílaaldar
Fyrsti bíllinn kom til Hafnar árið 1927 en Hornfirðingar voru ekki sammála um ágæti þessa fyrsta faratækis [...] og bóndi nokkur vildi láta banna notkun þess því að það eyðilegði alla hesta og svo færi það svo illa með vegi. 95
En ef skaftfellski bóndinn sem vitnað er í hér að ofan hefði einnig minnst á mengunina sem kemur frá bifreiðunum þá hefði hans verið getið í annálum og öðlast mikla frægð fyrir víðsýni og gáfur. Orðið annar Skaftfellskur ofviti. En orðið var ekki til. Eða er eftir honum rétt haft?
Andri Snær Magnason sem nýlega gaf út meistaraverkið Um tímann og vatnið hefur fjallað um orðanotkun og hugtök.
Súrnun sjávar er stærsta breyting á efnafræði jarðar í 50 milljón ár ásamt því sem er gerast í andrúmsloftinu. Það hlýtur að koma mér við. En hvernig á ég að segja frá þessu í bók? Orðið súrnun er ekki þrungið merkingu eins og kjarnorkusprengja. Ég þarf að gera lesandanum ljóst að orðið sé risavaxið en hafi allt of litla merkingu. Það er meðal þess sem ég reyni í þessari bók. Fréttablaðið 4. október 2019
Sama henti skaftfellska bóndann í byrjun bílaaldar, það var ekki til orð yfir mengandi útblásturinn frá bílnum. Orðaforðinn kemur á eftir tækninni. Hefði bóndinn nefnt orð sem tengdist útblæstrinum hefði þessi neikvæða setning um hann ekki verið jafn neyðarleg. Ef hann hefði notað orð eins og loftmengun, olíumengun, útblástur eða sótagnir þá hefðu þau orðið nýyrði og merki um mikla visku.
Vefurinn timarit.is er merkilegur vefur og leitaði ég eftir fimm mengandi orðum sem getið er ofar.
Orðið loftmengun kemur fyrst fyrir í byrjun árs 1948 í Morgunblaðinu. Um 20 árum eftir að fyrsti bíllinn kemur til Hornafjarðar: Ekki var þó gert ráð fyrir að hjer yrði um svo mikla loftmengun að ræða, að hætta stafaði af. Segir í fréttinni.
Árið 1934 er fyrst minnst á útblástur gufu en áður notaði í merkingunni stækkun, eða úrás. Fyrsti útblástur mótorvélar í Siglfirðingi 25. janúar 1942.
Olíumengun kemur fyrst fyrir 1955,
Sótagnir koma fyrst fyrir í krossgátu 1953 en í tímaritinu Veðrið 1956 Auk þess hrífa droparnir með sé í fallinu sótagnir þær, sem kunna að vera svífandi i loftinu fyrir neðan skýin
Orðið mengun er þó fyrir bílaöld á Íslandi en notað um skemmd. mengun af ormarúg, Norðanfari, 20. desember 1879.
En skyldi skaftfellski bóndinn skilja orðið hamfarahlýnun og áttað sig á orsökum hennar ef samband næðist við hann í gegnum miðil í dag?
Heimildir
95 Arnþór Gunnarsson. 1997:285 Saga Hafnar I
Fréttablaðið 4. október 2019
Timarit.is
20.7.2019 | 11:30
Tunglið og Nautagil
Í dag, 20. júlí, er slétt hálf öld liðin frá því Apollo 11 lenti á tunglinu og í kjölfarið urðu Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Í undirbúningi fyrir leiðangurinn komu kandídatar NASA til Íslands í æfingaskyni og dvöldust þá meðal annars í Dyngjufjöllum við Öskju.
Ég gekk Öskjuveginn sumarið 2006 og skoðaði sömu staði og geimfarar NASA. Rifjast þessi gönguferð því upp í tilefni dagsins.
Geimfarar NASA sem unnu að Apollo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í gönguferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Apollo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2018 | 14:49
Ferðin yfir Núpsvötn
Ég hef verið baráttumaður fyrir útrýmingu einbreiðra brúa í Ríki Vatnajökuls. Þann 5. ágúst 2016 fór ég yfir einbreiðu brúna yfir Núpsvötn á leið til vesturs og tók upp myndband sem sett var á facebook baráttusíðuna Einbreiðar brýr. Myndbandið er 30 sekúndna langt og ekki átti ég von á því að það yrði notað í heimsfréttir þegar það var tekið.
Á fimmtudaginn 27. desember varð hörmulegt slys á brúnni yfir Núpsvötn við Lómagnúp. Þrír erlendir ferðamenn frá Bretlandi létust en fjórir komust lífs af er bifreið þeirra fór yfir handrið og féll niður á sandeyri.
Breskir fjölmiðlar höfðu eðlilega mikinn áhuga á að segja frá slysinu og fundu þeir myndbandið af ferðinni fyrir rúmum tveim árum. Það hafði að þeirra mati mikið fréttagildi.
Fyrst hafði BBC One samband við undirritaðan um miðjan dag og gaf ég þeim góðfúslega leyfi til að nota myndbandið til að sýna aðstæður á brúnni og til að áhorfendur myndu ekki fá kolranga mynd af innviðum á Íslandi. Minnugur þess er ég var að vinna hjá Jöklaferðum árið 1996 þegar Grímsvatnagosið kom með flóðinu yfir Skeiðarársand þá voru fréttir í erlendum fjölmiðlum mjög ýkar. Fólk sem hafði verið í ferðum með okkur höfðu þungar áhyggjur af stöðunni.
Síðan bættust Sky News, ITV og danska blaðið BT í hópinn og fengu sama jákvæða svarið frá mér. Innlendi fjölmiðilinn Viljinn.is hafði einnig samband og tók viðtal við undirritaðan.
Miðlarnir hafa bæði lifandi fréttir og setja fréttir á vefsíðu. Hjá BBC One var myndbandið spilað í heild sinni seinnihluta fimmtudagsins með fréttinni og á ITV var bútur úr því í morgunútsendingu.
Ég fylgdi einnig eftir fréttinni og benti fréttamönnunum eða framleiðslustjórum fréttamiðlanna á að það væri áætlun í gangi um úrbætur í samgöngumálum.
Mynd af fréttavef ITV
Heimildir
BBC One - https://www.bbc.com/news/uk-46703315
Sky News - https://news.sky.com/story/three-british-tourists-killed-in-iceland-jeep-crash-11592671
ITV - https://www.itv.com/news/2018-12-27/iceland-land-cruiser-crash/
Viljinn.is - https://viljinn.is/frettaveita/varadi-vid-daudagildrum-a-sudurlandi-fyrir-tveimur-arum/
Fjölmiðlar | Breytt 1.1.2019 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2017 | 09:18
Frá monopoly til duopoly
Sjálfstæðismenn eru hugmyndasnauðir eins og áður fyrr og enn dúkkar áfengisfrumvarp upp en skoðanakannanir Maskínu og Fréttablaðsins sýna að Íslendingar vilja ekki áfengi í matvöruverslanir. Áfengisfrumvarpið, er eins og allir vita smjörklípa sem sjálfstæðismenn grípa til og leggja fram á Alþingi þegar vond mál skekja flokkinn.
Auk þess sýna rannsóknir vísindamanna að aukið aðgengi hefur neikvæð áhrif á samfélagið.
Hér er t.d. rannsókn frá Washington:
(2014) Alcohol Deregulation by Ballot Measure in Washington State
Afleiðingar þess að hafa lagt niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Washington-fylki árið 2011
Niðurstaða:
- Ávinningur íbúa Washington fylkis var rýr. Áfengisverð hækkaði strax um 12%.
- Of snemmt að meta samfélagsleg áhrif.
- Þeir sem hafa hagnast á nýju reglugerðinni eru Costco og aðrar stórar verslunarkeðjur.
- Minni búðir gátu ekki keppt við stóru verslunarkeðjurnar. Margar vínverslanir urðu gjaldþrota.
- Reglugerðin leiddi til þess að markaðinum er stjórnað af stóru verslunarkeðjunum (monopoly to a duopoly).
- Reglugerðin samin þannig að gjöld voru lögð á heildsala en ekki smásala, þ.a. stóru verslunarkeðjurnar sluppu.
- Minni áfengisframleiðendur eiga erfiðara uppdráttar.
- Þjófnaður jókst.
...og svo var gerð könnun tveimur árum seinna um hvort kjósendur myndu kjósa öðruvísi eftir að vita afleiðingarnar (Aflögn einkaleyfis fór sem sagt í þjóðaratkvæðagreiðslu).
(2016) Opinions on the Privatization of Distilled-Spirits Sales in Washington State: Did Voters Change Their Minds?
http://www.jsad.com/doi/abs/10.15288/jsad.2016.77.568
Myndu kjósendur kjósa öðruvísi í I-1183 ef þeir hefðu séð inn í framtíðina?
Niðurstaða:
- Þeir sem kusu já eru átta sinnum líklegri til að kjósa öðruvísi núna heldur en þeir sem kusu nei.
- Það er ekki fylgni á milli þessara breytinga og skoðanir kjósenda á sköttunum.
- Mikilvægt fyrir lönd/ríki sem íhuga einkavæðingu að skoða þessa niðurstöðu.
26.2.2016 | 23:15
Af stöðumælum í náttúrunni
Hann Halldór, teiknari Fréttablaðsins kann að setja fréttir í sérstakt samhengi. Góður teiknari og húmoristi. Hér er mynd sem birtist 24. febrúar um æðið í ferðaþjónustunni.
En hér er mynd sem ég tók á Hlöðufelli og sýnir gjörning sem tók á móti okkur þreyttum göngumönnum er toppnum var náð.
Stöðumælir í 1.186 m hæð í víðerninu og ægifegurð. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.
Sami húmor!
6.9.2015 | 10:29
#mittframlag
Hann var ánægjulegur föstudagurinn 4.september en þá fékk ég boð um að mæta í franska sendiráðið og taka á móti verðlaunum í ljósmyndakeppninni #mittframlag. Sendiherra Frakka og starfsfólk ásamt samstarfsaðilum verkefnisins voru mjög viðkunnanleg og hjálpleg enda ætla Frakkar að ná árangri á COP21 fundinum í byrjun desember. Verðlaunin voru ferð fyrir tvo til Parísar meðan fundurinn, sem gæti orðið mikivægasti fundur mannkyns, stendur yfir.
Eftir að hafa æft mig í frönsku yfir daginn var tekinn strætó, leið 5 niður í bæ. Farið út hjá BSÍ og gengið eftir Fríkirkjuveginum og meðfram Tjörninni. Ég var klæddur svörtum fötum, samt ekki á leið í jarðarför heldur í umhverfisvænstu litunum.
Hornfirðingar eru að upplifa loftslagsbreytingar með eigin augum. Jöklarnir sem hafa vakað yfir okkur í þúsund ár eru að hverfa. Fyrir nokkru voru þeir taldi ásamt eldfjöllum undir þeim til 7 undur veraldar. Píramídar okkar eru að hverfa fyrir framan nefið á okkur. Ég lagði mitt af mörkum til að stöðva þróunina í Ríki Vatnajökuls. Verðum að halda hitabreytingum undir 2 gráðum. Ég sendi inn mynd af Hólárjökli en ávallt þegar ég keyri framhjá honum tek ég mynd af skriðjöklinum hverfandi.
Ljósmyndin sem vann er verkefni sem ég hef unnið síðastliðin 9 ár og gæti talist sem endurljósmyndun. Aðferð sem gengur út á að taka gömul verk og endurvinna sömu sjónarhorn.
Mynd af Hólárjökli vinnur ljósmyndaleik. Samsett mynd af Hólarjökli frá 2006 til 2015.
Dómnefnd ljósmyndaleiksins Mitt framlag hefur valið mynd Sigurpáls Ingibergssonar af Hólarjökli sigurvegara í ljósmyndaleiknum #MittFramlag. Dómnefndin taldi að samsettar myndir Sigurpáls af Hólarjökli sem teknar eru með tíu ára millibili sýni í hnotskurn áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi.
Vísindamenn telja að 80 af jöklum á Íslandi muni bráðna fyrir lok þessarar aldar. Því er spáð að Langjökull, næststærsti jökull landsins, hverfi innan hálfrar annarar aldar.
Sigurvegarinn í vali dómnefndar hlýtur ferð fyrir tvo til Parísar á meðan COP21, Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, stendur yfir í desember. Icelandair og franska sendiráðið á Íslandi gáfu vinninginn og hefur Sigurpáll og gestur hans tök á að heimsækja ýmsa viðburði í tengslum við loftslagsráðstefnuna.
Alls bárust 154 ljósmyndir í ljósmyndaleikinn. Tilgangurinn var að vekja almenning til vitundar um lofslagsbreytingar. Engin skilyrði voru um val á myndefni að öðru leyti en því að myndirnar skyldu minna með einum eða öðrum hætti á loftslagsbreytingar.
Myndum var hlaðið inn á á netið með Instagram, Twitter og Facebook og á vefsíðu leiksins, www.mittframlag.is
Ljósmyndaleikurinn var haldinn í samvinnu Evrópustofu, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Umhverfisstofnunar, Sendiráðs Fraklands á Íslandi, Reykjavíkurborgar, Kapals - markaðsráðgjafar og UNRIC, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.
Ég er ákaflega stoltur að því að hafa unnið ljósmyndakeppnina og þarna náð að sameina tvö áhugamál mín, ljósmyndum og umhverfismál. Veit að myndin hefur haft áhrif á fólk og vakið upp umræðu. Gef allan höfundarétt og vonandi fá komandi kynslóðir að njóta þess.
Tæknilega séð er myndin ekki mikið afrek, það má ýmislegt finna að henni en sagan sem hún geymir er áhrifarík. Segir meira en þúsund orð.
Fjölmiðlar | Breytt 24.1.2016 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.7.2015 | 14:32
Sjálfsmyndir, samfélagsmiðlar og ferðaþjónusta
Nýlega sá ég að Bretar taka 14,5 milljón sjálfsmyndir á dag. Aldrei hafa verið teknar eins margar myndir og í dag en metið er slegið á hverjum degi.
Íslensk ferðaþjónusta nýtur þess. Ægifögur náttúra er í bakgrunni sjálfsmynda og hástemmdur texti sem fylgir með, "stunning, scenic, volcanic". Þessi orð búa til ímynd Íslands. Vinirnir úti í heimi fyllast öfund og hugsa, "Ég varð að fara þangað."
Ferðamenn fá upplýsingar ekki beint frá gerilsneyddum ferðamannabæklingum eða yfirborðskenndum auglýsingum fyrirtækja heldur frá vinum og ættingjum sem þeir treysta best.
Ég man þegar ég vann í ferðaþjónustunni fyrir 22 árum en þá kom ferðaskipuleggjandi um haustið til Íslands að skipuleggja ævintýraferð og fylgdi Catalina-flugbátur hópnum. Upplýsingarnar sem skipuleggjarinn var með frá Scandinavian Tourist Board í Bandaríkjunum voru ekki upp á marga fiska. Smá texti um vanþróað Ísland með þrem litlum myndum af Mývatni. Svona sáu Bandaríkjamenn Ísland.
Einangrun landsins var síðan rofin með Internetinu og Veraldarvefnum um 1995. Síðan kom gott gos í Eyjafjallajökli 2010 og það hafði áhrif á flug í Evrópu og víðar. Í kjölfarið hófst jákvæð kynning í samfélagsmiðlum og síðan hafa hótel sprottið upp eins og gorkúlur í samræmi við fjölgun ferðamanna.
Kvikmyndir hafa verið teknar hér á landi og stjórastjörnur hafa tístað og gefið góða ímynd af landinu. T.d. Russel Crowe í Noah og Tom Cruise í Oblivion.
Ég man eitt sinn þegar ég var hjá Jöklaferðum, þá kom undanfari fyrir lítið skemmtiferðaskip, Explorer. Við stóðum við loforð um að senda honum bæklinga með upplýsingum um afþreyingu Jöklaferða og ferðaþjónustu á svæðinu. Þetta var þungur pakki, kostaði mikið en ári síðar mætti fyrsta skemmtiferðaskipið í Hornafjarðarhöfn. Þetta var spurning um traust. Sendingarkostnaðurinn skilaði sér margfalt til baka.
Já, "selfie-stöngin" og samfélagsmiðlar eru að verða eitt arðbærasta markaðstæki ferðaþjónustunnar, ókeypis markaðstól. Nú er bara að losa sig við freka stjórnmálamenn eins og Jón Gunnarsson sem vill virkja allt sem rennur og drepa hvali. Mjög ósjálfbær þingmaður.
Ferðamenn að stilla sér upp fyrir sjálfsmynd (e. selfie). Þarna er ekki "selfie-stöng" notuð. Í myndatexta kemur kannski: "WOW, amazing, stunning, magnicifent Godafoss waterfall, Iceland".
10.2.2013 | 19:49
Er heilbrigðiskerfið að hrynja?
Hlustaði á Silfur Egils í dag eftir 60 mínútna göngu í Lífshlaupinu. Settist fullur af lífskrafti niður og hlustaði á álitsgjafa. Spurning dagsins hjá Agli var hvort heildbrigðiskerfið væri að molna niður. Benti Egill meðal annars á uppsagnir og neikvæðar fréttir um heilbrigðismál. Hjá sumum álitsgjöfum var eins og heimsendir væri í nánd en aðrir voru bjartsýnni.
Í 40 ár hef ég lesið blöð og fylgst með fréttum. Ég man ekki eftir tímabili í þessa fjóra áratugi án þess að einhverjar neikvæðar fréttir hafi komið frá heilbrigðisgeiranum. Léleg laun, léleg aðstaða og léleg stjórnun. Ávallt hafa verið uppsagnir heilbrigðisstarfsfólks til að ná fram kjarabót.
Ég tók því til minna ráða og leitaði upp nokkrar uppsagnafréttir í gegnum tíðina. Allt hefur þetta endað vel. Sjúkrahúsin hafa bjargað mannslífum á degi hverjum og þjóðin eldist.
Allir eru að taka á sig afleiðingar hrunsins 2008 og það má vera að það sé komið að þolmörkum hjá einhverjum hópum innan heilbrigðisgeirans en heilbrigðiskerfið er ekki að hrynja. Þessi söngur hefur áður heyrst.
Morgunblaðið | 30.04 2008 | þegar uppsagnir skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga taka gildi 1. maí | |||||||
DV | 20.12.2003 | frestað Uppsagnir starfsmanna á Landspítala | |||||||
Fréttablaðið | 23.11.2002 | Annríki hefur verið mikið og bæjarfélög á Suðurnesjum hafa verið án læknis að mestu eftir uppsagnir lækna þar. | |||||||
DV | 15.04.2002 | uppsagnir lækna | |||||||
Morgunblaðið | 20.10.2001 | Uppsagnir sjúkraliða eru mikið áhyggjuefni og því verður að vinna að lausn kjaradeilunnar | |||||||
Morgunblaðið | 03.11 1998 | Uppsagnir meinatækna á rannsóknarstofum Landspítalans í blóðmeina- og meinefnafræði | |||||||
Morgunblaðið | 20.05.1998 | Ríkisspítala og hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en um 65% þeirra hafa sagt upp starfi | |||||||
Tíminn | 02.02.1993 | Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður drógu uppsagnir sínar til baka | |||||||
Þjóðviljinn | 26.08.1986 | Sjúkraþjálfar Uppsagnir framundan Yfirlýsing frá sjúkraþjálfum | |||||||
Morgunblaðið | 19.05.1982 | uppsagnir lagðar formlega fram | |||||||
Tíminn | 02.10.1976 | hjúkrunarfræðinga hjá Landakotsspítala og Borgarspítala, en það reyndist ekki unnt. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga | |||||||
Vísir | 04.04.1966 | Læknarnir sögðu sem kunnugt er upp í nóvember og desember og áttu uppsagnir þeirra að taka gildi í febrúar og marz |
Eins og sjá má, þá tók ég af handahófi 12 fréttir á þessum fjórum áratugum. Alltaf er þetta sama sagan. Heilbrigðisþjónustan snýst nú samt.
En það sem þarf að ráðast í er að efla forvarnir. Fá fólk til að hreyfa sig. Minnka sykurát þjóðarinnar en sykursýki 2 er tifandi tímasprengja. Einnig er þjóðin yfir kjörþyngd. Þessi flóðbylgja á eftir að kalla á fleiri lækna og meiri kostnað. Því þarf þjóðin að hugsa sinn gang, annars hrynur heilbrigðiskerfið.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.12.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 233672
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 30
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar