Færsluflokkur: Vísindi og fræði
28.3.2010 | 20:26
Slysið á Fimmvörðuhálsi árið 1970
Í fréttum á Stöð 2 í kvöld var Kristján Már Unnarsson, fréttamaður með áhrifamikla frétt um fólk sem varð úti á Fimmvörðuhálsi árið 1970. Jarðeldarnir sem eru nú helsta fréttaefnið komu upp á sömu slóðum og fólkið varð úti. Fyrir fimm árum var settur upp minningarskjöldur um slysið og er áhrifamikið að koma að honum í gönguferð yfir hálsinn. Hann minnir á hættur íslenskrar náttúru. Einnig á boðskapurinn vel við núna en svæðið er hættulegt og kalt er í veðri.
Nú er spurning um hvort hraun hafi farið yfir minnisvarðann.
Á minningarskildinum er mynd af Dagmar Kristvinsdóttur (f. 18.1.1949), sjúkraliða á Kleppspítala einnig eru letruð nöfn Elisabeth Brimnes (f. 31.05.1942), handavinnukennara á Kleppsspítala og Ivar Finn Stampe (f. 18.12.1940) Sendiráðsritara Dana.
"Úr ársskýrslu Landsbjargar 1970"
Það hörmulega slys varð aðfaranótt Hvítasunnudags 17. maí, að tvær ungar stúlkur og þrítugur maður urðu úti á Fimmvörðuhálsi er 11 manna hópur frá Skandinavisk Boldklub ætlaði að ganga frá Skógum undir Eyjafjöllum yfir hálsinn og niður í Þórsmörk. Hópurinn lagði af stað í góðu og björtu veðri frá Skógum, en um miðnætti versnaði veður skyndilega með rigningu og síðan stórhríð, en þá var fólkið statt á Fimmvörðuhálsi, skammt frá Heljarkambi.
Vindurinn var sunnanstæður, þannig að ógerlegt var að snúa við. Sæluhús er efst í skarðinu, en fararsjórinn sem var reyndur ferðamaður lagði ekki í að reyna að ná þangað og hélt undan veðrinu norður yfir hálsinn.
Þau þrjú sem létust, gáfust upp vegna þreytu og kulda, með stuttu millibili. Þeir sem eftir lifðu, reyndu síðan að brjótast áfram niður í Þórsmörk, en veður fór batnandi. Maður úr hópnum hafði verið sendur á undan til að ná í hjálp. Kom hann niður hjá Básum, en þar beið sá hluti hópsins, er ekki fór í fjallgönguna ásamt bifreiðastjóranum sem skipulagði björgunaraðgerðir, en í öðrum skálum í nágrenninu voru hópar frá FÍ og Farfuglum.
Þeir sem af komust úr leiðangri þessum, voru flestir illa til reika er niður af fjallinu kom. Fram kom hjá björgunarmönnum að fólkið hafði dáið úr kulda, fyrst og fremst vegna þess hversu illa það var klætt. En aldrei er of brýnt fyrir fólki að búa sig í góð skjólföt í fjallaferðir og ef til vandræða horfir að leita skjóls og setjast niður áður en það örmagnast af þreytu og kulda.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2010 | 09:29
Hrunagilsfoss
Það væri eflaust mikil upplifun að vera á þessum stað núna. Horfa bólstrana og hraunið renna niður dalinn úr hæsta hraunfossi heims, Hrunagilshraunfossi.
21.3.2010 | 09:00
Jónsmessuganga yfir Fimmvöruðháls
Ég hef velt því fyrir mér hvernig staðan væri í vinsældum Fimmvörðuhálsar ef bændurnir hefðu reist einni vörðu meira. Etv. væri gönguleiðin yfir hálsinn frægasta gönguleið í heimi!
En nú kemst ekkert annað að en Fimmvörðuháls út af gosi sem kom upp um miðnætti. Stórmerkilegt. Ekki datt mér það í hug er ég gekk með Útivist Jónsmessugönguna 2007. Þetta eru merkilegir tímar sem maður er að upplifa. Hrun, heimsfaraldur og eldgos.
Læt nokkrar myndir flakka af gosstað, kannski er sprungan undir fótum göngumanna. Hver veit en ekki er mikill snjór þarna. Gangan hófst 22. júní kl. 23 og lauk kl. 8.00 í Básum en þar var tekið á móti manni með lýsi og Gammeldansk.
Auðvitað leitaði kvikan að veikasta hlekknum í fjallinu, Fimmvöruðháls. Því verður ekki stórt flóð.
![]() |
Gosið færist í aukana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 25.3.2010 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.3.2010 | 15:19
Jarðskjálfi í Hornafirði
Það er eitthvað undarlegt í gangi neðanjarðar hér á landi. Á jarðskjálftavef Veðurstofunnar eru skráðir skjálftar í Hornafirði. Skjálftarnir riðu yfir fyrir rúmum sólarhring, í hádeginu á fimmtudag. Stærri jarðskjálftinn er upp á tvö stig og gæti verið í Ketillaugarfjallinu. Eða er gullketillinn hennar Ketillaugar fundinn?
Úti á Skarðsfirði er Skeggey. Hún dregur nafn af manni einum sem þar lét grafa sig ásamt gulli sínu og hvolfa bát yfir. Nokkrir menn úr Nesjum ætluðu einhverju sinni að ná þar í skjótfenginn gróða, en um leið og þeir byrjuðu að grafa eftir gullinu sýndist þeim bærinn í Þinganesi standa í björtu báli. Kona Skeggja hét Ketillaug. Sagt er að eftir dauða hans hafi hún horfið upp í fjallið sem síðan heitir Ketillaugarfjall, með ketil fullan af gulli og lét hún svo ummælt áður en hún hvarf að þegar búið yrði að vinna Skeggja yrði hún auðfundin. Aðrar sagnir herma að til að finna ketilinn þurfi að ganga aftur á bak og berfættur upp fjallið sem er að miklu leyti brattar skriður. Ekki má líta aftur á leiðinni því að þá hverfur ketillinn og allt er unnið fyrir gýg.
Heimild: www.rikivatnajokuls.is
11.10.2009 | 12:03
Sláandi myndir og staðreyndir um hop íslenskra jökla
|
10.10.2009 | 13:29
Éljabakki
Um daginn átti ég leið um Skeiðarársand. Þegar komið var framhjá hinum stæðilega Lómagnúp blasti Skeiðarárjökull bjartur i norðri og var eins fagur og hann getur orðið á þessum árstíma. Í suðri var Atlantshafið með sanauðn í forgrunni. En á móti okkur í austri sást grilla í Öræfajökul og var illúðlegur skýjabakki hangandi utan á honum.
Þegar við nálguðumst Öræfajökul, þá færðist éljaskýið á móti okkur og dökkir strókar voru í bakkanum Minnti þetta mig á hvirfilbyl. Það var sérkennileg tilfinning að keyra úr bjartviðrinu inn í óvissuna. Að endingu keyrðum við í gegnum bakkann og uppskárum haglél og úrkomu. Þegar við komum fyrir Öræfajökul, þá létti til og bjart var eins og áður fyrr.
Nokkrum klukkutímum síðar, þá áttum við leið til baka og þá hafði éljabakkinn fært sig að ströndinni. Það er margbreytilegt veðrið undir Vatnajökli. í gær var kolófært vegna storms. Það er annaðhvort í ökkla eða eyra. Engin lognmolla við Öræfajökul.
Éljabakkinn við ströndina, best geymdur þar. Blautur vegurinn segir okkur frá því er bakkinn vökvað hann nokkru áður en hiti var um 5 gráður og öll haglél afmáð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2009 | 19:10
Jöklarnir vita svo margt
Masaru Emoto
Japanski vísindamaðurinn Masaru Emoto gaf út bókina Falin skilaboð í vatni. Þar segir hann frá rannsóknum sem hófust af tilviljun þegar honum datt í hug að kanna betur máltækið "engir tveir ískristallar eru eins." Hann frysti vatn og tók myndir af kristöllunum og komst að því að það var vissulega eitthvað til í þessu máltæki.
Rannsóknir Emotos tóku óvænta stefnu þegar hann ákvað af rælni að sjá hvaða áhrif tónlist og hljóðbylgjur hefðu á vatnið. Þannig ljósmyndaði hann ís sem myndaðist þegar hann spilaði 5. sinfóníu Beethovens, Mozart, Bach og "Let it be" eftir Bítlana. Í öllum tilfellum mynduðust einstaklega skærir og fallegir kristallar en "Heartbreak Hotel" með Elvis Presley varð frekar ljótur og sundraður ískristall, söluleiðis allt dauðarokk. Sama niðurstaða varð þegar jákvæð orð voru skrifuð og neikvæð.
Emoto vill meina að að jákvæðar og fallegar hugsanir skili sér beinlínis út í veröldina enda erum við 70% vatn.
Sturlungaöld í íslenskum stjórnmálum
Ísinn í Jökulsárlóni er talinn vera á bilinu 600-800 ára gamall og segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur að kristallarnir í þessum gamla ís séu hnefastórir. Ísinn geymir ókjör upplýsinga um fortíðina sem engan grunaði að hægt væri að kalla fram.
Ef það sem Emoto segir er rétt, að orð, texti og hugsanir hafi áhrif á vatnið og minningar varðveitist og geymist má segja að það sé sjálf Sturlungaöldin sem kelfir fram í Jökulsárlónið um þessar mundir. Það spillir ekki upplifuninni að því að fylgjast með jöklum ryðjast fram og brotna sem aldrei fyrr. Orð, textar og hugsanir sem voru á sveimi á 13. öld og lágu frosin í 800 ár losna nú úr viðjum sínum. Hvort hugmyndirnar fara aftur á kreik er erfitt að segja. Þarna brotnar ís og bráðnar frá tímum þegar stórhöfðingjar risu til valda og ríkir menn og kaldráðir lögðu undir sig heilu landshlutana, útrás og þrá eftir frægð, fram og viðurkenningu endaði með innrás. Það liggur eitthvað í loftinu og jakarnir bráðna sem aldrei fyrr.
Er árið 1262 að bráðna í Jökulsárlóni en þá var Gamli Sáttmáli undirritaður, rétt eins og IceSave og EES-umsókn. Neikvæðu hugsanirnar og aðgerðirnar á Sturlungaöld eru að hafa áhrif á mannfólkið.
Heimild:
Lesbók Morgunblaðsins, Andlit frá Sturlungaöld, laugardagur 29. apríl 2006. Andri Snær Magnson.
23.8.2009 | 15:36
Einhver Englendingur
Ég hef verið að fara yfir heimildir um sögusvið Langasjávar eftir áhrifamikla ferð þangað um síðustu helgi.
Tímarit.is er stórgóður vefur. Þar er hægt að fletta upp í gömlu blöðunum sem komu út á 19. öld.
Árið1878 er þess getið í fréttabréfi í blaðinu Ísafold að í Skaftárfjöllum, sem nú séu kölluð Fögrufjöll, hafi fundist tveir grösugir dalir og norður af þeim sé vatn sem haldið sé að Skaftá renni úr. Getur þar varla verið um annað en Langasjó að ræða. En hér segir, þótt óljóst sé, frá ferð Skaftfellinga upp um fjöllin og var þar helstur Bjarni Bjarnason frá Hörgslandi.
Það er margt athyglisvert við þessa stuttu frétt. Hér miðast allt við afkomu sauðfjár. Nafnið á vatninu er óljóst en Þorvaldur Thoroddsen kom í rannsóknarferðir árin 1889 og aftur 1893. Hann gaf vatninu nafnið Langisjór. Þá gekk skriðjökull niður í eftri enda vatnsins en nú er drjúgur spölur frá
jökulröndinni að vatnsendanum. Nafnið Fögrufjöll er þó komið í stað Skaftárfjalla og hefur því ekki komið frá Þorvaldi. Endapunkturinn er svo stórmerkilegur. Af hverju þurfti einhvern Englending til að kanna fallega landið okkar? Hvað segir þetta um sjálfsmynd okkar á þessum tíma?
Heimild:
Ísafold, 24. tölublað (30.09.1878), bls. 96
Landið þitt Ísland, Örn & Örlygur
12.8.2009 | 00:33
Hop jökla
Þær eru áhrifamiklar myndirnar hjá Ragnari Th. Sigurðssyni af Jökulsárlóninu. Það fer ekki á milli mála að miklar breytingar eru á Lóninu og brátt verður þa' hinn dýpsti fjörður. Einar Björn, staðarhaldari á Jökulsárlóni, nær kannski að bjóða ferðir inn að Esjufjöllum áður en hann kemst á eftirlaun.
Þær eru einnig mjög greinilegar breytingarnar á Gígjökli eða Falljökli í Eyjafjallajökli. Þær er ekki eins góðar og hjá RTH en segja sína sögu um áhrif hlýnunar á jökulinn. Fyrri myndin var tekin árið 2001 og síðari í lok júlí 2009.
Jökulsporðurinn teygir sig langt fram í Lónið. Mynd tekin 2. júní 2001. Þrem árum fyrr (1998) var skriðjökullin upp fyrir kambinn alla leið niður.
Þann 28. júlí 2009 nær tungan varla niður í Lónið og það sér í nýtt berg.
![]() |
Myndröð af bráðnuninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.7.2009 | 00:05
Súla lika horfin
Það eru fleiri ár en Skeiðará sem hafa breytt um stefnu. Frétti frá göngumanni einum er gekk yfir Skeiðarárjökul fyrir skömmu að Gígjuhvísl hefur gleypt Súlu og því er einfalt mál að komast í Núpsstaðaskóg.
Fleiri sameiningar hafa orðið vegna breytinga á jöklum landsins. Áin Stemma á Breiðamerkursandi hvarf úr farvegi sínum á síðustu öld í Jökulsárlón. Það gerðist 1. september 1990, skömmu áður en til stóð að byggja yfir hana nýja brú.
Menn voru ekki jafn heppnir árið 1948 er Heinabergsvötn hurfu í Kolgrímu en nýbúið var að brúa vötnin við Hánípu. Síðan hefur staðið þar þurr brú.
Ég hef trú að Skeiðará skili sér til baka.
Hér fyrir neðan er mynd sem sýnir Sæluhúsakvísl á Skeiðarársandi vatnslausa árið 2006 en nú er brúin horfin og komið svert rör í staðin.
Heimild: Árbók FÍ 1993, Við rætur Vatnajökuls.
![]() |
Skeiðará horfin í Gígjukvísl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 52
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar