Færsluflokkur: Vísindi og fræði
11.2.2011 | 22:48
Íslenskt bygg 90% í Egils þorrabjór
Einkunnarorð Ara "Fróða" Þorgilssonar voru að hafa það heldur, er sannara reynist. Ég ætla því að bæta við færslu um þorrabjór réttum upplýsingum um íslenskt bygg. Um leið biðst ég velvirðingar á mistökum mínum, rétt eins og Agnes Bragadóttir gerði í dag út af rangri frétt um blaðamann DV.
Í bloggi mínu um þorrabjór í byrjun þorra, þá hrósaði ég bruggmeisturum Ölgerðarinnar fyrir að nota íslenskt bygg í þorrabjór sinn. Þar sagði: "Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi."
Þorrabjór Ölgerðarinnar í ár er gerður að 9/10 hlutum úr íslensku byggi en það er hærra hlutfall en bjórar á Íslandi hafa nokkru sinni státað af. Íslenska byggið í Þorrabjórnum er ræktað á bænum Belgsholti í Melasveit á Vesturlandi. Ölgerðin hefur í samstarfi við Harald Magnússon, bónda á Belgsholti, unnið að því að þróa bjóra úr íslensku byggi og stutt er í fyrsta bjórinn sem mun eingöngu innihalda íslenskt bygg.
Íslenska byggið hefur sín karaktereinkenni og má greina þau í Egils Premium en þar er það í minnihluta. Það er gaman að fregna af þessari nýsköpun en aðferðin að brugga úr ómöltuðu byggi er tilraunastarfsemi sem unnin hefur verið síðustu ár í samvinnu Ölgerðarinnar við erlenda aðila og íslenska kornbændur.
Nú bíð ég spenntur eftir fyrsta 100% íslenska byggbjórnum. Vonandi verður hann góð útflutningsvara í framtíðinni og íslenskt bygg og íslenskt vatn á allra vörum.
Á vefnum bjorspjall.is er ágætis grein um ómaltað íslenskt bygg hjá Ölgerðinni við bjórgerð.
Vísindi og fræði | Breytt 12.2.2011 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2010 | 12:01
Svínafellsjökull minnkar
Í uppgjöri Svínafellsjökuls á því herrans ári 2010 kemur eflaust fram að hann hefur minnkað.
Í nýjasta hefti Jökuls (No 59, 2009), fjallar Oddur Sigurðsson um jöklabreytingar. Um Svínafellsjökul árin 2006-2007 segir: Neskvísl sem rann frá jöklinum i Skaftafellsá er nú hætt að renna. Allt vatn frá jöklinum fer nú um Svínafellsá.
Einnig eru mælingar á stað 2 athyglisverðar en Guðlaugur Gunnarsson hefur séð um þær. Á árunum 1930-1960 hopaði hann um 403 metra. Skriðjökullinn bætti við sig 3 metrum á tímabilinu 1960-1990. Hann hörfaði um 96 metra 2003-2004 og 2 metra 2006-2007. Hopið síðustu kreppuár er augljóst.
Á stað 3 eru meiri breytinagar á Svínafellsjökli: Hop um 2.342 metra 1930-1960; Hop um 281 metra 1960 til 1990 og 72 metrar 2003-2004.
Ég átti leið að jöklinum í vikunni og fór í gönguferð á Svínafellsjökli með fjallaleiðsögumanninum Einari Sigurðssyni hjá Öræfaferðum. Þetta er stórbrotin ferð, áhrifamikil og mjög lærdómsrík.
Það er svo margt sem jöklarnir vita og við vitum ekki um. Okkur birtast svipir góðs og ills sem mótuðust í iðrum breðans á meðan aldirnar líða.
Atriði í kvikmyndin, Batman Begins voru tekin við Svínafellsjökul í Öræfasveit árið 2004 og sést vel í einu bardagaatriðinu í jökulinn. Ég tók mynd af sama stað sex árum síðar og munurinn er gríðarmikill.
Hér er bardagaatriði úr Batman-myndinni (4:22):
Liam Neeson og Christian Bale að berjast við jaðar Svínafellsjökuls á frostlögðu vatni.
Mynd tekin í lok árs 2010 á sama stað:
Bardagahetjurnar börðust á svellinu sem er í forgrunni og yfirborð jökulsins hefur lækkað mikið og jaðarinn hörfað. Hér eru ekki nein tæknibrögð í tafli heldur er jörðin að hlýna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2010 | 08:14
Hálfmánar
Það er ekkert betra en að borða hálfmána og horfa á almyrkva á tungli um leið. Stórmerkilegt, fullt tungla, stysti dagur ársins, vetrarsólstöður og almyrkvi.
Ég man eftir einni Tinnabókinni, Fangar í sólarhofinu, en þá bjargað Tinni sér og félögum á ævintýralegan hátt frá aftöku með því að frétta af sólmyrkva en það er önnur birtingamynd myrkva.
Nú er máninn kolsvartur og hálfmáninn búinn.
11.12.2010 | 10:36
Heimsfrægt Eyjafjallagos
Í frétt á visir.is í dag kemur fram að gosið í Eyjafjallajökli síðasta vor er einn af fimm stærstu atburðum ársins á heimsvísu. Þetta kemur fram í árlegri úttekt leitarvélarinnar Google, en auk gossins voru talin til jarðskjálftinn á Haítí, Vetrarólympíuleikarnir í Vancouver, olíuslysið í Mexíkóflóa og Heimsmeistaramótið í knattspyrnu.
Ég hef fylgst með vinsældum Eyjafjallajökuls á árinu og mælt hvað mörg svör koma á Google leitarvélinni en hún er orðin ákveðin mælikvarði á vinsældir hluta.
24.04.2010 5.650.000
23.05.2010 6.970.000
30.06.2010 21.200.000
27.09.2010 1.130.000
11.12.2010 1.070.000
Eyjafjallajökull nær því rétt að merja IceSave um þessar mundir en það leiðindamál kemur 1.030.000 sinnum upp hjá Google.
Eldgosið í Eyjafjallajökli hófst 14. apríl og þann 17. apríl lá flug niðri í Evrópu og var 17.000 ferðum aflýst. Gosinu lauk 23. maí. En jarðarbúar hafa átt eftir að vinna úr lífreynslu af gosi frá E15 og einnig hefur herferðin Inspired by Iceland vakið athygli á breðanum í júní en þá þrefaldast leitarniðurstöður. Síða leita niðurstöður um Eyjafjalla skallann jafnvægis.
Leitarorðið Ísland sýnir 52.900.000 niðurstöður og Iceland rúmlega tvöfalt meira, 110.000.000 niðurstöður.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2010 | 21:56
Last Chance to See
Hann er skemmtilegur og fræðandi heimildarþátturinn Síðustu forvöð (Last Chance to See) sem er á mánudagskvöldum. En þættir frá BBC hafa ákveðin klassa yfir sér og komast fáir framleiðendur nálægt þeim.
Þar ferðast félagarnir Stephen Fry, leikari og Mark Carwardine, dýrafræðingur, ljósmyndari og rithöfundur um heiminn og skoða dýr sem eru í útrýmingarhættu. Þeir fylgja eftir ferð og þáttum sem gerðir voru fyrir 20 árum og bera saman.
Mark Carwardine er Íslandsvinur. Ég hef orðið svo frægður að hitta hann eitt sinn á Hornafirði en þá var hann að hvetja menn til að hefja hvalaskoðunarferðir hér við land. Þetta hefur verið haustið 1993. Hann miðlaði mönnum af kunnáttu sinni. Ég man að hann var að skipuleggja ferð norður á land til Dalvíkur og Húsavíkur. Jöklaferðir voru þá nýlega um sumarið búnir að fara með farþega í skipulagðar hvalaskoðunarferðir á Sigurði Ólafssyni frá Hornafirði.
Mark var þægilegur í umgengni. Kurteis eins og allir vel uppaldir Englendingar. Sagði "thank you" reglulega. Hann var með fjölskyldumeðlimi í ferðinni á Hornafirði og þau áttu ekki orð til að lýsa náttúrufegurðinni út um hótelgluggann þegar skjannahvítan jökulinn bar við himinn.
Mark hefur ritað bækur sem gefnar hafa verið út hér á landi. Bókin Hvalir við Ísland, risar hafdjúpanna í máli og myndum ef eitt afkvæma hans. Ari Trausti Guðmundsson þýddi og Vaka-Helgafell gaf hana út árið 1998.
Á bókarkápu segir að hann líti á Ísland sem annað heimaland sitt og hefur komið hingað meira en 50 sinnum frá árinu 1981.
Bókin hefst á þessum skemmtilegu orðum: "Hvalaskoðun við Ísland hefði fyrir nokkrum árum þótt jafnfjarri lagi og froskköfun í Nepal, skíðamennska í Hollandi eða strandlíf á Svalbarða. Fyrsta almenna hvalaskoðunarferðin var farin frá Höfn í Hornafirði 1991 til að skoða hrefnur og hnúfubaka undan hinni stórbrotnu suðausturströnd Íslands. Allar götur síðan hefur þjónustugrein þessi vaxið að umfangi og telst landið nú afar eftirsóknarvert meðal hvalaskoðara um heim allan."
Nú er bara að bíða eftir næstu þáttaröð hjá þeim félögum, hann verður kanski um dýralíf á Íslandi.
25.8.2010 | 14:19
Staðan á Ok - 19. júlí 2008
Það hefur mikið vatn runnið í gíginn. Þann 19. júlí 2008 gekk ég á tignarlegt Okið. Lagt var í göngu á Ok frá vörðu á Langahrygg þar sem vegurinn liggur hæst á Kaldadal, í 730 m hæð. Langihryggur er forn jökulalda sem jökullinn á Okinu hefur ýtt upp.
Norðanvert í fjallinu á gígbarminum er hæsti punktur og þar er varða eða mælingarpunktur sem Landmælingar Íslands hafa komið upp. Jökullinn á Okinu hefur farið minnkandi ár frá ári og er nú svo komið, að aðeins smájökulfláki er norðan í háfjallinu. Talsverðar jökulöldur og ruðningur neðar í hlíðinni vitna þó um forna frægð. Rauður litur er áberandi í skálunum.
Okið er kulnað eldfjall, sem grágrýtishraun hafa runnið frá, og er stóreflis gígur í hvirfli fjallsins og innan gígrandanna sést mótast fyrir öðrum gíghring. Gígurinn var áður fyrr á kafi í jökli en er nú algerlega jökulvana. Sér móta fyrir vatni í gígnum og rann vinalegur lækur úr öskjunni er grágrýtishraun runnu áður. Munu þetta etv. vera efstu upptök Grímsár í Lundarreykjadal en hún er mikil laxveiðiá. Ég mældi þvermál gígsins, frá vörðu að læk, 889 metra og hæðarmunur tæpir 50 metrar.
Það sem eftir er af jöklinum á Ok í júlí 2008. Það sér í Vinnumannahnúk og Eiríksjökul í austri.
![]() |
Jöklarnir skreppa saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2010 | 16:27
Óvænt heimsfrétt í óvissuferð
Það var góð eða slæm heimsfrétt, en það fer eftir því hvernig á það er litið, sem barst okkur í óvissuferð sem ég hafði skipulagt fyrir fjölskylduna um goslok í Eyjafjallajökli. Upphafleg áætlun var að keyra á Þingvelli, ganga á lítið fell og fara þaðan í Fljótshlíð og skoða náttúruundrið. Síðan átti að safna ösku og setja í krukku til minningar um jarðfræðiferðalagið um Hvítasunnuna.
Þegar við vorum komin í helgi Þingvalla heyrðum við á öldum ljósvakans að gosið lægi niðri og aðeins gufubólstrar stigu til himins. Því var skoðunarferð aflýst. Umferð um Suðurlandsveg var þung og margir á leið úr borginni og eflaust fjöldi á leið í Fljósthlíð til að verða vitni að goslokum.
Þegar heim var komið hófust athuganir á vinsældum Eyjafjallajökuls. Vísitala Eyjafjallajökuls og annara jökla á Íslandi hefur aukist um 22% á milli mánaða. Athugunin fer þannig fram að nafn viðkomandi jökuls er slegið inn í nefnifalli og leitarstrengir skráðir. Svona er staðan í dag:
Stærð | 24.4.2010 | 23.5.2010 | Mism | % | |
Vatnajökull | 8.300 | 149.000 | 196.000 | 47.000 | 32 |
Langjökull | 953 | 80.700 | 74.900 | -5.800 | -7 |
Hofsjökull | 925 | 77.200 | 79.500 | 2.300 | 3 |
Mýrdalsjökull | 596 | 233.000 | 268.000 | 35.000 | 15 |
Drangajökull | 160 | 30.200 | 32.200 | 2.000 | 7 |
Eyjafjallajökull | 78 | 5.650.000 | 6.970.000 | 1.320.000 | 23 |
Tungnafellsjökull | 48 | 9.950 | 12.000 | 2.050 | 21 |
Þórisjökull | 32 | 9.370 | 9.010 | -360 | -4 |
Eiríksjökull | 22 | 15.200 | 20.300 | 5.100 | 34 |
Þrándarjökull | 22 | 2.900 | 3.520 | 620 | 21 |
Tindfjallajökull | 19 | 16.200 | 20.600 | 4.400 | 27 |
Torfajökull | 15 | 22.500 | 23.600 | 1.100 | 5 |
Snæfellsjökull | 11 | 69.300 | 78.100 | 8.800 | 13 |
Tæplega 7 milljón leitarstrengir koma upp hjá Eyjafjallajökli í dag. Eldstöðin hefur náð að halda vinsældum sínum á Netinu síðasta mánuðinn enda kom öflug roka úr honum í byrjun maí og lokaði nokkrum flugvöllum í Evrópu. Einnig kemur gosið í Eyjafjallajökli oft fyrir í Eurovision keppninni. En athygli jarðeldsins hefur greinilega haft jákvæð áhrif á aðra íslenska jökla.
Það veður spennandi að sjá leitarvísitöluna eftir mánuð. Vonandi fer Katla ekki af stað fyrr en í haust. Það má ekki ræna okkur sumrinu.
Á Sky News: AFP: Geophysicist says Icelandic volcano is no longer active.
![]() |
Gosið liggur alveg niðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2010 | 22:14
Jarðeldurinn í Eyjafjallajökli myndaður
Gönguklúbburinn Skál(m) skellti sér í göngu á móbergsstapann Þórólfsfell (574 m) um dagmál á sunnudaginn. Það var bjart yfir Suðurlandi en mistur á leiðinni. Truflanir voru á flugi í Evrópu.
Við tókum stefnuna á fjarskiptamastrið á Þórólfsfelli og heyrðum reglulega í sprengingum í Eyjafjallajökli. Jökullinn var kolsvartur. Gufubólstrar stigu úr Gígjökli en þar tókust frost og funi á. Gosmökkurinn var grár og minnti á Lómagnúp séðan á hlið. Bólstrarnir náðu 5 til 6 km hæð. Merkilegt að þessi fína aska sem myndast í sprengingunum skuli hafa svona mikil áhrif á samgöngur víða um Evrópu. Þetta mun vera út af efninu í kvikunni, trakít og gassprenginga en kornastærð ryksins er minni en þykkt hársins á okkur.
Er við kjöguðum upp fellið sem kennt er við Þórólf Asksson, landnámsmann og ættingja Njáls á Bergþórshvoli, rákumst við á þrjá atvinnuljósmyndara. Þeir sátu kyrrir á bak við öflugar myndavélar og fylgdust vel með hverri sprengingu. Þeir voru aðeins að hita sig upp. Ljósaskiptin voru þeirra tími. Svona eru alvöru ljósmyndarar. Þolinmóðir og þrautgóðir. Þeir sáu eldingar í gosmekkinum.
Þegar komið var að endurvarpsmastri Mílu fundum við aðra tjaldborg. Síðan hrekktum við ættingja, hringdum í þá og sögðum að það væru miklar breytingar í gosinu. Hvöttum þá til að kíkja á eldgos.mila.is. Þegar þeir í öngum sínum fóru inn á síðuna blasti þreyttur göngumaður við þeim brosandi. Þetta klikkaði ekki. Þarna fengu skálmarar snert af heimsfrægð, því þúsundir manna horfa á gosið í beinni.
Á niðurleiðinni fór að rökkva og það var tilkomumikið að heyra sprengingarnar og sjá rauða, eldglóandi hraunklepra skjótast upp en þeir eru mældir í einingunni jeppar, slyddujeppar og stórir jeppar.
Daginn eftir, 12 tímum síðar hófst jarðskjálftahrina. Í kjölfarið kom dekkri gufubólstur og kornóttari aska sem var eins og fjörusandur. Merkilegt gos í Eyjafjallajökli.
Vísindi og fræði | Breytt 21.5.2010 kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2010 | 12:19
Eyjafjallajökull geysivinsæll á Google
Leitarvélin Google er til margra hluta nýtanleg. Fyrir utan að gefa góðar leitarniðurstöður, þá er hægt að mæla vinsældir með því að slá inn leitarorð. Fyrir nokkrum árum kannaði ég vinsældir íslenskra jökla og voru vinsældir þeirra í réttu hlutfalli við stærð. Snæfellsjökull skar sig þó úr enda sýnilegur frá Reykjavík í góðum veðrum og kom því oft fyrir í bloggi.
Hér er listi yfir 13 stærstu jökla landsins og fjöldi leitarniðurstaðna. Jöklum er raðað eftir stærð.
Jökull | Stærð | Niðurstöður |
Vatnajökull | 8.300 | 149.000 |
Langjökull | 953 | 80.700 |
Hofsjökull | 925 | 77.200 |
Mýrdalsjökull | 596 | 233.000 |
Drangajökull | 160 | 30.20 |
Eyjafjallajökull | 78 | 5.650.000 |
Tungnafellsjökull | 48 | 9.950 |
Þórisjökull | 32 | 9.370 |
Eiríksjökull | 22 | 15.200 |
Þrándarjökull | 22 | 2.900 |
Tindfjallajökull | 19 | 16.200 |
Torfajökull | 15 | 22.500 |
Snæfellsjökull | 11 | 69.300 |
Gosið í Eyjafjallajökli hefur gert hann 38 sinnum frægari en Vatnajökul. Sýnir það hversu mikil áhrif gosið hefur haft á heiminn en þrisvar hefur gosið í Vatnajökli frá 1996.
Mýrdalsjökull hefur náð öðru sæti og hefur gosið á Fimmvörðuhálsi og ummæli forseta Íslands um væntanlegt gos í Kötlu eflaust kallað á fleiri leitarniðurstöður.
![]() |
Nýr gígur kominn í ljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.4.2010 | 09:31
Gígjökull
Nú er upplestrarfríi lokið á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Náttúruöflin búin að taka völdin á ný. Stórmerkilegt. Ég hlakka til að sjá Gígjökul eftir hamfarirnar en síðastliðinn júlí heimsótti ég Þórsmörk. Þá voru miklar breytingar á Gígjökli milli heimsókna hjá mér.
Fyrri myndin var tekin árið 2001 og síðari í lok júlí 2009.
Jökulsporðurinn teygir sig langt fram í Lónið. Mynd tekin 2. júní 2001. Þrem árum fyrr (1998) var skriðjökullin upp fyrir kambinn alla leið niður.
Þann 28. júlí 2009 nær tungan varla niður í Lónið og það sér í nýtt berg
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.9.): 12
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 61
- Frá upphafi: 238239
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar