Færsluflokkur: Vísindi og fræði
30.6.2009 | 11:54
Svartsnigill
Í ferð á Grænudyngju á Reykjanesi rakst ég á nokkra svartsnigla. Það þótti mér ekki mjög spennandi sjón enda sniglarnir á stærð við litlaputta. Ég fór að afla mér vitneskju um snigilinn en hann er náskyldur Spánarsniglinum. En mun minni og ekki eins gráðugur. Ekki hafði ég áhuga á að taka sniglana upp enda er hann slímugur og ferlegt að fá slímið á fingur eða í föt. Það fer seint og illa af skildist mér.
Svartsnigill (Arion ater (Linnaeus, 1758)), hefur verið landlæg hér um aldir en þeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta hans í ferðabók sinni árið 1772. Svartsnigill hefur fundist víða um land en er algengastur á landinu sunnanverðu, einkum í gróðurríkum brekkum og hlíðum sem vita mót
suðri. Hann er að öllu jöfnu svartur á lit, 1015 cm langur, stundum allt að 20 cm í nágrannalöndunum.
Hérlendis nær hann ekki þvílíkri stærð.
Heimild:
http://www.ni.is/media/dyrafraedi/poddur/spanarsnigill_75-78_150-maria.pdf
21.6.2009 | 15:56
Vinur Vatnajökuls
Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls. Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.
Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum. Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.
Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll eftir þá frásögn.
Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.
Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2009 | 13:47
Ruslpóstur kemur í ruslpósts stað
Vöxtur ruslpósts eykst enn á Netinu og aðferðirnar taka á sig sífellt nýja mynd. Kínverjar hafa leitt síðustu bylgju og er notkun mynda nýjasta bragðið. Orsökin fyrir sókn Kínverja er talin vera sú að um miðjan nóvember á síðasta ári var McColo ruslpóstveitan upprætt. Við það datt ruslpóstur tímabundið niður um 75%. Þá kom tækifæri fyrir nýsköpun.
Á vef MessageLabs er haldið um þróunina í ruslpósts og vírusmálum. Það er fróðleg lesning. Bretland er hrjáðasta land hvað ruslpóst varðar en þar er hlutfallið 94%. Á eftir þeim koma Kína með 90% og Hong Kong með 89%. Ísland mælist ekki.
Einnig kemur fram að meðaltali eru settar upp 3.561 vefsíður sem innihalda spillihugbúnað á dag. Förum því varlega og sérstaklega á Facebook en þar hafa þrjótarnir hreiðrað um sig. En bragðið þar er að viðtakandi fær skeyti frá einum vina sinna með efnisinnihaldi, "hello" og innihaldið er tengill. Ef smellt er á tengilinn er viðtakandi sendur á síðu sem líkist innskráningu Facebook-síðu. En með því að rýna slóðina, þá er uppruninn allt annar. Þannig ná árásaraðilar aðgangi að Facebook síðu þinni.
6.2.2009 | 23:37
Dagur stærðfræðinnar - Þríhyringur
Dagur stærðfræðinnar er í dag. Þema dagsins er þríhyrningur. Skemmtilegt fyrir Hornfirðinga. Stærðfræði er grundvöllur ýmissa annarra greina vísinda á borð við eðlis-, verk-, tölvunar- og hagfræði.
Hvet ég áhugamenn um stærðfræði til að taka þátt í stærðfræðigetraun Digranesskóla, Perunni. Það eru oft mjög skemmtilegar þrautir þar. Ég tel mig vera búinn að leysa þraut 117 rétt en vill ekki gefa upp svarið strax. Þekking á þrýhyrningum, hornafræðum og formúla Evklíðs, a2+b2=c2, kemur að notum.
Þríhyrningarnir tveir á myndinni eru einslaga (hafa sömu hlutföll), en eru misstórir.
Hve langt er frá A til O (mælt í cm)?
Vísindi og fræði | Breytt 8.2.2009 kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2009 | 21:31
Hóllinn og Paradísarhola
Þetta minnir mig á fróðlegt fræðsluerindi sem ég fór á árið 2003. Það var var stórkostlegt að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur hjá Raunvísindastofnun háskólans og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnun, kynna niðurstöður úr rannsóknum á landgrunni Norðurlands, "Hafsbotninn á Tjörnesbeltinu". Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá Ísöld og rákir eftir botnvörpur togara. Á þessari mynd má sjá þekkt fiskimið Grímseyinga, Hólinn og Paradísarholu.
Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum.
![]() |
Hafsbotninn bætist við Google Earth |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2009 | 10:37
Kjósum Vatnajökul
Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum. Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands. Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð. Kjörfundi lýkur 7. júlí.
Farið á www.new7wonders.com
eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.
Veljið heimsálfu og náttúruundur. Hér er minn atkvæðaseðill. Ég valdi einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.
23.11.2008 | 00:02
Fyrirbænir prestsins
Meira er sagt frá Skaftfellingum í bókinni Vadd' úti. Klerkurinn í Bjarnanesi, Eiríkur Helgason kemur við sögu en hann þróaði Hornafjarðarmannan milli þess er hann messaði. Grípum niður í frásögnina af fyrstu rannsóknarferðinni á Vatnajökul 1951.
"Þá kom þar að Eiríkur Helgason, prestur í Bjarnanesi, skólabróðir Jóns Eyþórssonar. Hann flutti yfir okkur mikla tölu og bað fyrir ferðum okkar á jöklinum, að Guð almáttugur héldi verndarhendi yfir okkur og veður reyndust okkur hagstæð."
Á öðrum degi brast á stórviðri sem stóð lengi.
"Þetta voru hryllilegir sólarhringar og ekki gæfuleg byrjun á leiðangrinum. Þegar mestu kviðurnar gengu yfir varð Jóni oft á orði að prestinum, skólabróður sínum hefði nú verið betra að halda kjafti og að lítið hafi Guð almáttugur gert með orð prestsins."
Eftir 40 daga á víðáttum Vatnajökuls í rysjóttum veðrum hittust leiðangursmenn og klerkur:
"Farið var með allan leiðangursbúnaðinn til Hafnar í Hornafirði. Þegar þangað kom hittum við séra Eirík Helgason, sem hafði beðið fyrir ferð okkar á jökulinn og sérstaklega fyrir góðu veðri. Jón Eyþórsson sagði strax að fyrirbænir hans hafi komið að litlu liði.
Séra Eiríkur sagði okkur þá að fara varlega í að gera lítið úr þeirri blessun sem hann óskaði að fylgdi okkur. Ef hann hefði ekki beðið fyrir okkur hefðum við líklega drepist. Meðan við vorum á jöklinum hafði nefnilega gengið yfir landið eitt versta norðaustanbál sem menn höfðu kynnst á Íslandi."
Magnaður klerkur séra Eiríkur! - Niðurstöður leiðangursins sem Eiríkur blessaði, var: Meðalhæð Vatnajökuls er 1220 metrar, en meðalhæð undirlags jökulsins 800 metrar. Meðalþykkt jökulíss er því 420 metrar og flatarmál 8.390 ferkílómetrar. Ef allur ís Vatnajökuls bráðnaði myndi yfirborð sjávar um alla jörð hækka um 9 millimetra. Til samanburðar myndi sjávarborð hækka um 5,6 metra ef Grænlandsjökull færi sömu leið.
23.11.2008 | 00:01
Náttúrulega
Nýlega lauk ég við bókina Vadd' úti, ævisögu Sigurjóns Rist. Það var skemmtileg lesning. Gaman að sjá sjónarhorn vatnamælingamannsins á rafvæðingu landsins. Einnig var fróðlegt að lesa söguna í kreppunni, en Sigurjón fæddist og ólst upp í kreppu. Mótaði hún hann alla tíð. Hann var mjög nýtinn og sparsamur. Góður ríkisstarfsmaður.
Margar góðar sögur eru í bókinni enda ferðaðist hann víða. Meðal annars vann hann með Austur-Skaftfellingum. Kvískerjabræður komu við sögu í fyrstu vísindaleiðangri á Vatnajökul. Tek ég hér bút úr ævisögunni:
"Þegar við vorum að draga litla trékassa yfir lónið, sem voru aðskildir frá öðru dóti og sérstaklega vel gengið frá, spurðu bræður hvað væri í þessum kössum. Ég sagði að það væri sprengiefni. Þá sögðu þeir: Náttúrulega. Í farangrinum voru mörg skíði, þar á meðal mín. Þeir spurðu mig að því hvort ég væri mikill skíðamaður og sagði að ég teldi mig nú ekki mjög mikinn skíðamann. Náttúrulega, svöruðu bræður. Mér fannst þetta kyndugt, en kom mér þó ekki alveg á óvart. Jón Eyþórsson hafði bent mér á að orðanotkun Öræfinga væri stundum öðruvísi en hjá öðrum landsmönnum. Til dæmis segðu þeir ævinlega náttúrulega, þegar aðrir notuðu orðatiltækið; einmitt það!"
Sverrir Hermannsson fv. alþingismaður, sagði mér eitt sinn frá því að það hefði verið merkilegt að halda framboðsræður fyrir alþingiskosningar í Öræfum. Öræfingar hefðu helgið á allt öðrum stöðum í ræðunni en aðrir Austfirðingar. Og allir hefðu þeir hlegið sem einn.
Síðar í kaflanum er sagt frá heimsókn leiðangursmanna til Kvískerja:
"Eftir þessa ágætu máltíð [reyktan fýl í Fagurhólsmýri] var farið austur að Kvískerjum og gist þar um nóttina. Þar var vel tekið á móti okkur. Frakkarnir ráku augun í pall sem gerður hafði verið úr rekavið til að gera við og smyrja bíla á. Þeir urðu skotnir í þessum palli og sáu sér leik á borði að smyrja víslana áður en haldið væri á jökulinn. Við leituðum eftir því hvort þeir mættu þetta. Hálfdán, sá bræðranna sem sá um bíla- og vélakost heimilisins, skoðaði víslana og lagði mat á þá og gaf síðan leyfið.
Við fengum oft að heyra það síðar hvað Frakkarnir voru hrifnir af þessu. Þarna hafi verið farið að meið miklu öryggi og engum asa. Hálfdán hafi vegið það og metið hvort pallurinn þyldi víslana, áður en hann veitti leyfið. Álit þeirra á Íslendingum óx töluvert við þessa prúðu og traustu framkomu."
Útrásarvíkingarnir hefðu átt að taka Hálfdán á Kvískerjum sér til fyrirmyndar. Vonandi mun næsta kynslón útrásarvíkinga gera það.
Kvískerjabræður, Hálfdán, Helgi og Sigurður. Mynd fruma.is
15.11.2008 | 00:01
NÚNA er tækifærið
Var á baráttufundi hátækni- og sprotafyrirtækja í kvöld. Fundurinn kallaðist Núna er tækifærið því að núna er einmitt tæifærið til að hefja markvissa uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja með virku samstarfi og samstöðu stjórnvalda, stjórnenda og starfsmanna um að treysta stoðir nýsköpunar og virkja mannauðinn. Tilgangur fundarins var að efla sóknarhug og sjálfstraust.
Það tókst vel til. Stemmingin var stundum eins og á rokktónleikum. Margar kraftmiklar ræður haldnar af fulltrúum fyrirtækja og stjórnvalda. Það eru mörg tækifæri núna, mátti greina í máli fundarmanna. Flest fyrirtækin gátu bætt við sig mannskap, en á móti vildu fyrirtæki fá hluta af þróunarkostnaði endurgreiddan. Svipað og í löndunum í kringum okkur. Einnig var krafa um eðlilegt rekstrarumhverfi.
Svana Helen frá Stika sagði frá nýjum mannaráðningum og að gæða- og öryggisvottanir væru öflugt vopn í útflutningi. Hilmar Pétursson frá CCP var fullur sjálftrausts og flutti kraftmikla ræðu um sýndarveruleikann í fjármálaheiminum og leikjaheiminum. Björk Guðmundsdóttir brýndi menn áfram og sagði frá fórnum sem leggja þarf á sig til að komast á toppinn.
Að fundinum stóðu Samtök iðnaðarins, Samtök líftæknifyrirtækja, Samtök sprotafyrirtækja, Samtök upplýsingafyrirtækja og Háskólinn í Reykjavík.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.11.2008 | 14:36
Jöklarannsóknafélag Íslands
Í gærkveldi var árshátíð Jöklarannsóknarfélagsins haldin. Henni var ekki frestað þó frost sé í gjaldeyrisviðskiptum og þótt sumar stofnanir fresti árshátíðum rétt eins og Kastró frestaði jólunum árið 1969. Það hefur eflaust verið gaman hjá þessum merkilega hópi rannsóknarfólks og margir kreppubrandarar flogið um salinn. Ég er einn af 500 félögum í Jöklarannsóknafélaginu en er latur að mæta á skemmtanir og var því fjarri góðu gamni. En árshátíðir eru samt sem áður nauðsynlegar til að hrista fólk saman.
Ég er hins vegar að lesa bókina Vadd' úti í, æviminningar Sigurjóns Rist vatnamælingamanns sem Hermann Sveinbjörnsson skráði. Það var skemmtileg tilviljun, að ég var kominn að kaflanum um stofnun Jöklarannsóknarfélagsins þegar árshátíðin hófst í gær. En Sigurjón var einn af stofnendum og fór í fyrstu leiðangursferðina á Vatnajökul.
Þar segir að upphafið af stofnun félagsins megi rekja til þess að Frakkar tóku að sér það mikla verkefni að mæla þykkt Grænlandsjökuls og tengdist það nýlendustefnu sem snerti bæði heimsskautasvæðin.
Í framhaldi af þessum þykktarmælingum á Grænlandsjökli þótti mönnum nauðsynlegt að vita um jökla á Íslandi og grundvallarspurningin var sú, hvað væri Vatnajökull þykkur.
Frakkinn Paul Emile Victor bauðst til að lána Íslendingum tvo góða menn ásamt tveimur víslum, en það voru beltabílar, í því skyni að mæla þykkt Vatnajökuls. Þá er komið að þætti Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings er hafði aðeins unnið við rannsóknir á jöklum landsins, aðallega mælt framskrið og hop skriðjökla. Hann kallaði menn sér til fulltingis í því skyni að stofa félagsskap sem gæti sinnt þessu máli. Það endaði með því að haldinn var fundur 22. nóvember 1950 og Jöklarannsóknafélag Íslands stofnað með 41 félaga. Hófst þegar undirbúningur á móttöku Frakkana og finna menn með þeim til rannsókna. Fyrsta ferðin var í mars árið eftir.
Það er alltaf gaman að lesa um merkar leiðangursferðir á síðustu öld og sérstaklega þegar Skaftfellingar koma inn í frásögnina. Mun ég blogga um Skaftfellingana í næstu færslum.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.5.): 0
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 100
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 71
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar