Færsluflokkur: Vísindi og fræði
26.8.2012 | 12:10
Armstrong og Nautagil
Nú er Neil Armstrong geimfari allur. Blessuð sé minning hans.
Þegar fréttin um andlát hans barst þá reikaði hugurinn til Öskju en ég gekk Öskjuveginn árið 2006 og komu geimfarar NASA til sögunnar í þeirri ferð.
Gil eitt ber nafnið Nautagil en hvað voru naut að gera á þessum slóðum?
Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.
Nafngiftin er komin frá jarðfræðingunum og húmoristunum Sigurði Þórainssyni og Guðmundi Sigvaldasyni. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Margt bar fyrir augu í Nautagili, m.a. vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.
Hér er mynd af Eyvindi Barðasyni við Bergrósina í Nautagili árið 2006
Hér eru geimfararnir að skoða sömu bergrós. Mynd af goiceland.is eftir Sverrir Pálsson og NASA.
Eitt par, náttúrufræðingarnir, í hópnum ákváðu að sofa úti um eina nóttina og tengjast náttúrunni betur. Þau fetuð í spor ekki ómerkari manna en geimfarana Anders og Armstrong er lögðust í svefnpoka sína úti undir berum himni þegar þeir voru í Öskju fyrir 45 árum. Neil Armstrong átti í kjölfarið eftir að stíga fyrstur manna á tunglið og segja setninguna frægu, Þetta er lítið skref fyrir einn mann en risastökk fyrir mankynið.
Eit
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2012 | 11:34
Hólárjökull 2012
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 14. ágúst 2012. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 14. ágúst 2012 í þokusúld. Augljós rýrnun á 6 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/
15.8.2012 | 22:05
Klakkur í Langjökli (999 m)
Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli. Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.
En til að skemma stemminguna, þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni. Klakkur með lágvöruhæðartöluna.
Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.
Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga. Þessi ganga er mun lengri.
Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.
Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar. Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.
Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.
Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.
Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.
Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.
Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.
Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið. Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.
Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón. Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.
Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.
Dagsetning: 6. ágúst 2012 Frídagur verslunarmannaHæð Klakks: 999 m (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun: 506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd: 27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband: Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar: (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.
Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.
Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.
Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson
17.5.2012 | 15:28
Gæðastjórinn Václav Klaus
Þeir hafa skemmtilega hefð á Bjórsafninu í Pilsen í Tékklandi. En í þeirri borg var ljósi lagerbjórinn fundinn upp árið 1842 og hélt sigurför um heiminn. Lykilinn af velgengninni var öflugt gæðastarf hjá Pilsner bjórverksmiðjunni.
Hefðin er sú að skipta um gæðastjóra þegar nýr forseti tekur við embætti og er Václav Klaus nú gæðastjóri í Bjórsafninu. Hausinn er ávallt uppfærður við forsetaskipti.
Ekki hef ég séð Ólaf Ragnar Grímsson í neinu íslensku safni en einstaka sinnum á mynd.
Hér er Václav Klaus mættur til vinnu.
![]() |
Forsetar hittast í Tékklandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2012 | 23:29
10. maí
Hann var sögulegur 10. maí 1940 en þá var Ísland hernumið af Bretum og nýir tímar hófust á Íslandi.
Hernám Breta var til að koma í veg fyrir að Ísland félli undir þýsk yfirráð en Þjóðverjar höfðu sýnt landinu töluverðan áhuga á árunum fyrir styrjöldina vegna hernaðarlegs mikilvægis þess í tengslum við siglingar um Norður-Atlantshaf.
Mér var hugsað til þessa dags fyrir 72 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrr í vikunni. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.
Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl 1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður. Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda fimm herskipaflota til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.
Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis. Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.
Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil. En hún er mjög vel þekkt í Noregi.
Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi. Stríð eru svo heimskuleg. Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".
En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.
Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2012 | 10:30
Konéprusy hellarnir
Mér varð hugsað til Þríhnúkagígs þegar ég heimsótti óvænt Koneprusy hellana í Tékklandi, mestu hella landsins.
Koneprusy hellarnir fundust fyrir tilviljun árið 1950 er verið var að sprengja fyrir efni í "Lime-stone" námu en efnið er notað í byggingar. Árið 1959 var opnað fyrir aðgang ferðamanna.
Það var stanslaus straumur ferðamanna í hellana og ferðin tók klukkustund. Farið var um 620 skipulagða metra en hellakerfið er alls 2 km og 70 metra djúpt á þrem hæðum. Hellarnir eru frá Devon tímabilinu fyrir 400 milljón árum og gefa innsýn í sögu jarðarinnar sem á sér 1,5 milljón ára sögu.
Eitt sem er merkilegt við hellana eru bein af dýrum sem fundist hafa þar og eru 200 til 300 þúsund ára gömul. Það var áhrifaríkt að sjá afsteypur af beinunum og að sjá dropasteina sem hafa verið að myndast á sama tíma.
Búið var að lýsa upp hellana og steypa gólf og tröppur. Lýsing var góð og þegar svæði var yfirgefið slökknaði á ljósum. Á einum stað var slökkt á öllu og þá var maður í algleymi. Það var áhrifarík stund. Sjá mátti leðurblökur á veggjum og var það í fyrsta skipti sem ég hef barið batman augum.
Það eru til glæsileg áform um aðstöðu í Þríhjúkagígum og er ég á þeirri skoðun að opna eigi Þríhnúkagíga fyrir almenning. Gera þarf umhvefismat og finna þolmörk svæðisins en við verðum að passa upp á vatnið okkar sem sprettur upp skammt frá. Það er okkar dýrmætasta eign.
Tékkarnir í Bæheimi voru óhræddir að steypa í gólf og hlaða veggi nálægt stórbrotnum dropasteinum og steinamyndunum. Litadýrð var ekki mikil en formfögur voru drýlin sem myndast hafa á hundruð þúsundum árum.
Ferðafélagar mínir, miðaldra hjón frá Miami í Bandaríkjunum spurðu hvort við ættum svona flotta hella á Íslandi. Ég játti því og hvatti þá til að koma í hellaskoðunarferð til Íslands. Þeim leist mjög vel á hugmyndina. Ég náði tveim ferðamönnum til landsins en ég gat ekki lofað þeim ferð í Þríhnúkagíg en nú er það hægt.
Ferðin í Koneprusy hellana var þó mun ódýrari en upphafsferðirnar í Þríhnúkagíga, 910 krónur (130 CZK *7) en verðlag í Prag var á pari við Ísland. En svo þurfti að greiða 40 kórónur fyrir myndatöku eða 280 kall. Þeir voru mikið fyrir ljósmyndaskatt í Tékklandi.
Hér er þriggja mínútna heimildarmyndband sem sýnir innviði Koneprusy hellana. Kone þýðir hestar á tékknesku.
8.1.2012 | 00:34
Grænavatnsganga - Aldarminning Sigurðar Þórarinssonar
Í tiefni af deginum ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík.
Ég mæti ef veður verður skaplegt. Málstaðurinn er svo góður.
Í Náttúrufræðingnum, í apríl 1950 er greinin birt sem Sigurður flutti á erindi Hins íslenska náttúrufræðifélags, 31. október 1949, er helgaður var 60 ára afmæli félagsins.
Hér er skjámynd af hluta greinarinnar sem fjallar um Grænavatn en dropinn sem fyllti mælinn var umgengi um Græanavatn sem notað væri sem ruslatunna vegna framkvæmda rétt hjá vatninu. Búið væri að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbæri.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=290829&pageId=4267096&lang=is&q=Sigur%F0ur%20%DE%F3rarinsson
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2011 | 00:22
Árið kvatt með Kampavíni frá Gulu ekkjunni
Það er góð hefð að skála í freyðivíni um áramótin. Áramótin eru tími freyðivínanna. Gula ekkjan verður fyrir valinu í ár.
Sagan á bakvið kampavínið hefst í héraðinu Champagne í Frakklandi árið 1772. Þá stofnaði Philippe Clicquot-Muiron, fyrirtækið sem með tímanum varð house of Veuve Clicquot. Sonur hans François Clicquot, giftist Barbe-Nicole Ponsardin árið 1798 og lést hann 1805. Því varð Madame Clicquot ekkja 27 ára gömul og stóð uppi með fyrirtæki sem var í bankastarfsemi, ullariðnaði og kampavínsframleiðslu. Hún átti eftir að hafa mikil áhrif á síðasta þáttinn.
Þegar Napóleon stríðin geysuðu náðu vínin útbreiðslu í Evrópu og sérstaklega við hirðina í Rússlandi. Aðeins 7% af framleiðslu fyrirtækisins selt í Frakklandi, annað var selt á erlenda markaði. Þegar ekkjan lést 1866 var vörumerkið orðið heimsþekkt og sérstakega guli miðinn á flöskunni. Því fékk vínið nafnið Gula ekkjan. En veuve er franska orðið yfir ekkju.
En Barbe-Nicole Ponsardin var frumherji. Ekkjan fann upp nýja aðferð við að grugghreinsa kampavín. Hún og starfsmenn hennar hófu að stilla kampavínsflöskum í rekka þannig að hálsinn snéri niður. Þá þurfti annað slagið að hrista og snúa flöskunum í rekkunum, til þess að óhreinindin söfnuðust öll að tappanum. Flaskan var opnuð og það fyrsta sem þrýstingurinn losaði úr flöskunni var gruggið. Þetta þýddi að mun minna fór til spillis en áður hafði gert. Fram að þessu hafði vínið verið geymt á flöskunum liggjandi á hliðinni og safnaðist botnfallið niður á hlið flöskunnar. Þetta hafði það í för með sér að umhella þurfti öllu víninu og alltof mikið úr hverri flösku fór til spillis. Nú var aðeins örlítið af víninu sem tapaðist og einungis þurfti að fylla smá viðbót á hverja flösku til að vera kominn með vöruna í söluhæft form. Þessi aðferð Ponsardin ekkjunnar fékk nafnið Méthode Champenoise.
Það er allt annað að drekka Kampavín í lok ársins þegar maður þekkir söguna á bakvið drykkinn. Vín með sögu og persónuleika. Viðing við drykkin eykst og þekking breyðist út. Þroskaðri vínmenning verður til. Konur ættu hiklaust að hugsa til ekkjunnar við fyrsta sopa og hafa í huga boðskapinn fyrir 200 árum.
Alvöru dömur áttu ekki að innbyrða neitt nema humarsalat og kampavín og kampavín á að vera eina áfengið sem gerir konur fallegri eftir neyslu þess.
Í Fréttatímanum segir um Veuve Clicquot Ponsardin Brut: Þurrt með mildum sítruskeimi sem sker í gegn en þó gott jafnvægi á tungunni milli beiskju og sætu. Þegar á líður kemur pera og meiri ávöxtur í gegn. Mjög gott Kampavín. Áfengisstyrkur, 12%. Fær drykkurinn 4 glös af 5 mögulegum í einkunn.
Heimildir:Bar.is Þróun víns og víngerðar til okkar daga. 12. hluti, gula ekkjan
Facebook Gula ekkjan
Fréttatíminn Matur og vín
Vinbudin.is Veuve Clicquot Ponsardin Brut
Wikipedia Veuve_Clicquot
10.12.2011 | 14:37
Örugg fram í maí 2012
Gott að fá þetta vísindalega staðfest með spennu í berginu. Afkomumælingar sýna að 9 til 12 metrar bætast ofan á Mýrdalsjökul yfir veturinn.
Vísindamennirnir sem skrifa í ScienceNews telja umdeildu gosin með sem komu öll í júlí, óróann árið 1955, 1999 og núna í ár en gosið 1918 var alvöru.
Kíkjum á síðustu eldgos í Kötlugjánni.
Ár | Dagsetning | Goslengd | Hlaup | Athugasemd |
1918 | 12. október | 3 vikur + | 24 | Meiriháttar gos |
1860 | 8. maí | 3 vikur | 20 | Minniháttar |
1823 | 26. júní | 2 vikur + | 28 | Minniháttar |
1755 | 17. október | 4 mánuðir | 120 | Risagos |
1721 | 11. maí | Fram á haust | >100 | Mikið öskugos |
1660 | 3. nóvember | Fram á næsta ár | >60 | Öskufall tiltölulega lítið |
1625 | 2. september | 2 vikur | 13 | Minniháttar, flóð frá 2.-14. sept. |
1612 | 12. október | Minniháttar | ||
1580 | 11. ágúst | Öflugt, Urðu þytir í lofti |
En talið er að um 15 önnur eldgos hafi orðið í Kötlugjánni frá landnámi.
Allt stemmir þetta og því getum við sofið róleg yfir Kötlu framí maí 2012. Október er líklegastur.
Heimildir:
Katla, saga Kötluelda, Werner Schutzbach, 2005
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009
![]() |
Katla virkari á sumrin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.12.2011 | 19:56
Senn bryddir á Kötlu
BBC hefur áhyggjur af Kötlugosi. Fjölluðu þeir um komandi eldgos í grein í gær, "New Icelandic volcano eruption could have global impact". Eru þeir minnugir Eyjafjallagosinu í maí 2010 og áhrif þess á flugumferð.
Fjölmiðar víða um heim hafa vitnað í fréttina og endurómað áhyggjur sínar.
Jarðeðlisfræðingar eru hógværir og gefa yfirlitt loðin svör þegar þeir eru beðnir um að spá fyrir um næsta gos eða hve lengi gosið muni standa yfir sé það í gangi. En ég man eftir einni undantekningu.
Spáir Kötlugosi innan fimm ára
Árið 2004 kom góður greinarflokkur í Morgunblaðinu um Kötlu og spáði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður á Norrænu eldfjallastöðinni, því að Katla myndi gjósa eftir 2-3 ár eða í mesta lagi eftir 5 ár. Hann segir þrjú merki benda til þess að Kötlugos verði á næstu árum.
"Viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti á undanförnum árum. Þessi þrjú merki hafa verið viðvarandi frá árinu 1999 og það virðist ekki draga neitt úr atburðarásinni. Þess vegna tel ég að fjallið sé komið að þeim mörkum að það bresti á allra næstu árum,"
Nú er árið 2012 að og ekki bólar á gosi sem senn kemur en mikill órói hefur verið og í október mældust 512 skjálftar í Mýrdalsjökli. Þrjú ár fram yfir gosspá eru heldur ekki langur tími þegar jarðsagan er undir.
Það er því gott að gefa ekki upp tíma í jarðvísindaspám. Dæmin sanna það.
Katla - Saga Kötluelda
Í bókinnk Katla - Saga Kötluelda eftir Svisslendinginn Werner Schutzbach er saga Kötluelda rakin frá landnámi. En eiga Kötlugos að koma okkur í opna skjöldu? Um Kötlugos 12. október 1918 segir:
"Kötlugosið haustið 1918 telst til hinna meiri háttar gosa og það stóð yfir í rúmar þrjár vikur. Aska sem kom upp, dreifðist yfir stór svæði, en einkum til norðausturs."
Aðdragandi Kötluelda"Þegar nokkru fyrir gosið veittu menn því athygli, að austurhluti Mýrdalsjökuls lyftist lítt eitt, en vesturhlutinn, sem sýr að Mýrdal, seig svo að klettar komu í ljós, sem áður voru huldir ís. Allt sumarið var Múlakvísl nær vatnslaus og af ám, sem falla til austurs, var óvenjuleg brennisteinslykt. Mönnum kom því ekki í hug, að Katla kynni að fara að gjósa.
Rúmri klukkustund eftir hádegi hinn 12. október 1918, það var laugardagur, fannst í Mýrdal stuttur og snarpur jarðskjálftakippur, svo að hrikti í húsum. Lausir smámunir duttu úr hillum og af veggjum. Voru svo í hálftíma sífelldar smáhræringar og titringur, og mönnum sýndist jörðin ganga í bylgjum. Skömmu síðar sást öskumökkur stíga upp yfir jöklinum. Hann var að sjá frá Vík rétt fyrir vestan fjallið Höttu. Hann var hvítur í fyrstu, en dökknaði fljótt. Um kvöldið var hann kolsvartur. Veður var rólegt og hægur vestanvindur, svo að öskumökkurinn hallaðist dálítið til austurs."
Um Kötluhlaup segir:"Rétt eftir að öskustólpinn steig upp, ruddist jökulhlaup fram. Menn sem gengu á fjallið Höttu nálægt Vík, þegar gosið var nýbyrjað, sáu geysimikinn ljósbrúnan massa vella fram. Hann þyrlaði upp miklum sandi og ryki. Flóðið streymdi bæði í farveg Múlakvíslar og yfir Sandinn í átt til Sandvatns og ruddi með sér feiknum af grjóti, möl og ísblökkum. Þegar þessi flóðalda sjatnaði um fimmleytið, geystist enn meira flóð með ótrúlegum hraða yfir Mýrdalssand og kaffærði hann allan vestanverðan."
Kötlugosið 1918 koma því mönnum á óvart og flóðið æddi öflugt fram í byrjun hamfaranna. Því eru mælingar í dag nauðsynlegar og stórfrlóðlegt lærdómsferli fyrir jarðvísindamenn okkar. Vonandi verða spárnar nákvæmari í kjölfarið.
Látum Kötlu húsráðskonu enda færsluna með sínum fleyga muldri er sýran fór að þrotna í kerinu í Þykkvabæjarklaustri: "Senn bryddir á Barða"
Laufskálavörður á Mýrdalssandi með Kötlu í baksýn. Litlu vörðurar sem ferðamenn hafa hlaðið eiga að boða gæfu fyrir ferðalagið yfir sandinn. Í öflugu Kötluhlaupi gætu þessar vörður hofið í sandinn.
![]() |
Víða fjallað um Kötlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 4.12.2011 kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.5.): 1
- Sl. sólarhring: 25
- Sl. viku: 104
- Frá upphafi: 235917
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 79
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar