Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði

Nú berast fréttir af því að þrjár langreyðar hafa verið veiddar og séu komnar í verstöðina í Hvalfirði. Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 30 árum 

Fyrir 30 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.

Á síðasta ári fóru 360.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn.

Hér á eftir er grein sem skrifuð var á horn.is 2003.

Á hvalaslóð
Þegar ég vann hjá Jöklaferðum hf á árunum 1993-1996 var ekkert sem takmarkaði fyrirtækið nema stærð alheimsins. Jöklaferðir eru að öllum líkindum fyrsta sérhæfða afþreyingarfyrirtækið í ferðaþjónustu hér á landi en það var stofnað í maí 1985. Markmið félagsins var að standa fyrir ævintýraferðum á Vatnajökul og nágrenni. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var hinn umdeildi sölumaður af guðs náð, Tryggvi Árnason.

Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF-44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Stímið þangað var um fjórir tímar. Töluverð kvika var í straumhörðum Ósnum og þegar Óli Björn keyrði á 10 mílunum var mikill veltingur. Hver fuglaáhugamaðurinn á fætur öðrum varð grænn og þegar ég hafði talið 12, varð ég líka sjóveikinni að bráð og sá mikið eftir því að hafa gefið kost á mér í þessa ferð. Þó höfðu menn tekið inn sjóveikistöflur. Loks sáust Hrollaugseyjar og við komin á hvalaslóð, sjólag var orðið gott.

Á leiðinni sáum við hnísur, minnstu hvalategund hér við land. Skyndilega kom höfrungavaða, (hnýðingur og stökkull) og lék listir sínar fyrir okkur, 5-10 dýr í hóp. Þeir eru afar hraðsyndir og koma oft stökkvandi á fleygiferð í átt að skipinu til þess að leika sér í bárunni sem kinnungurinn ryður frá sér. Sjóveikin var horfin og ég sá ekki lengur eftir því að hafa farið í þessa ferð. Næsta atriði var stórfenglegt en þá vorum við komin í hóp hnúfubaka, fjöldi á annan tug og var magnað að fylgjast með þeim koma upp úr sjónum og undirbúa köfun. Þessi ferlíki, hvítskellótt af hrúðurkörlum, geta orðið 17 metrar á lengd og 40 tonn að þyngd og ná háum aldri, lífslíkur 95 ár. Þegar þeir fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum úr sjónum og sést þá litamynstur neðan á sporðblöðkunni en engir tveir einstaklingar hafa sömu áferð. Við sigldum á milli þeirra í dágóða stund og var magnað að fylgjast með atferli hvalanna og fólksins sem var á dekki. Það má segja að þarna hafi verið mikill bægslagangur því eitt sérkenni tegundarinnar eru gríðarlöng bægsli sem geta orðið allt að sex metra löng. Á heimleiðinni bauð Bugga, Sigurbjörg Karlsdóttir humarkokkur, upp á humar, matreiddan á marga vegu. Sumir þátttakendur voru svo mikil náttúrubörn að þeir borðuðu aðeins grænmeti. Í september fór ég svo aftur í ferð með nærri 30 manna hóp frá bresku ferðaskrifstofunni Discover The World sem voru í helgarferð. Annar dagurinn fór í hvalaskoðun og hinn í jöklaferð. Í þessari ferð voru einnig kvikmyndatökumenn frá Saga Film (en þeir bjuggu til 15 mínútna kynningarmyndband), Mark Carwardine leiðsögumaður en hann er heimskunnur hvalasérfræðingur og rithöfundur, Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Eystrahorni og Jón Sveinsson apótekari. Stefnt var á Hrollaugseyjar. Á leiðinni sáum við hrefnu sem fylgdi okkur áleiðis en líkur á að sjá þær eru mjög miklar eða um 90%. Tvær hnísur sáust skyndilega en stundum getur verið erfitt að koma auga á þessi smáhveli, bakugginn sést í smástund og hún getur horfið eins og hendi sé veifað. Kapteinn Óli Björn var í stöðugu sambandi við trillukarlana sem voru dýpra en þeir höfðu enga hvali séð. Stutt frá Tvískerjum sást svo stórhveli, hnúfubakur, og hann skemmti okkur mikið. Strákarnir hjá Saga Film fóru út í hraðbát sem var um borð og nálguðust hnúfubakinn og eltu hann. Þeir náðu mögnuðum skotum af honum. Veislunni var ekki lokið því þegar við vorum á heimstíminu komu höfrungar og léku sér við bátinn. Þarna voru færri dýr á ferð enda komið haust en samneytið við Öræfajökul bætti það upp. Þetta var því nokkuð merkileg ferð eins og lesa má á greinunum „Hvalaskoðun” í Eystrahorni eftir Gunnþóru og „Sporðaköst undir jökli” eftir Ara Trausta Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. mars 1994. Síðar í mánuðinum fóru þrír hópar í hvalaskoðunar- og jöklaferð og alls komu 150 manns í hvalaskoðunarferðirnar þetta árið.
Það er gaman að lesa yfir greinarnar tæpum 10 árum eftir að þær voru skrifaðar. Blaðamenn eru hógværir á framtíð þessarar nýju greinar í ferðaþjónustu og enginn hefði þorað að spá að rúmlega 60.000 manns ættu eftir að fara í hvalaskoðunarferðir tæpum áratug síðar. Boðið var upp á sjóstangaveiði í ferðunum en ekki var mikill áhugi á þeim hjá ferðafólkinu, ekki í þeirra eðli að stunda veiðar. Flestir þeirra hafa mikinn áhuga á náttúruvernd, þ.á m. hvalafriðun. Í þeirra huga eru hvalir ekki nytjadýr heldur hluti náttúrunnar, eingöngu til að skoða og dást að. Því myndi líklega draga mikið úr aðsókn í hvalaskoðunarferðir ef hvalveiðar hæfust við Ísland. Eða eins og Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstövarinnar á Húsavík, orðar það: „Það gengur aldrei upp að sýna hval á stjórnborða og skjóta hann á bakborða”. Auk þess eru þessar ferðir meira en hvalaskoðun, þetta er náttúruskoðun í hæsta gæðaflokki þar sem landið er skoðað frá öðru sjónarhorni

Markaðsstarfið gekk vel hjá Clive Stacey og félögum hjá Discover the World, dótturfyrirtæki Arctic Experience í Englandi, og næsta ár seldist í mun fleiri ferðir. Var Ásbjörn fararstjóri í þeim ferðum næstu ár. Hann smitaðist þarna af hvalabakteríunni stóru og hefur byggt upp starfsemi Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík frá árinu 1997. Getur Húsavík kallast með réttu “hvalaskoðunarhöfuðborg Evrópu” en 25.000 manns fóru í ferðir þaðan á síðasta ári og er bærinn orðin stærsti einstaki hvalaskoðunarstaðurinn í Evrópu.

Hvalreki
Ég rifja þetta upp af því að á síðasta ári komu hvalir mikið við sögu á Hornafirði. Í vor rak hnúfubak inn í Hornafjörð, í lok ágúst strandaði kálffull hrefna í Skarðsfirði og háhyrningur fannst í vetur við Stokksnes. Hvalir eru stærstu dýr jarðarinnar og vekja því mikla eftirtekt. Ef hvalir lenda í ógöngum komast þeir á forsíður íslensku blaðanna og jafnvel í heimspressuna.

Það fyrsta sem hornfirsku náttúrubörnin, hvalaskurðarmenn, gerðu þegar búið var að skera hvalkjötið var að hringja til Húsavíkur og bjóða beinin og hrefnufóstrið til Hvalamiðstöðvarinnar. Ásbjörn Björgvinsson sagði í viðtali við DV í sumar að hann hefði orðið húkt á hvali eftir ferðirnar með Jöklaferðum og Discover the World fyrir tæpum áratug.
Mér finnst nú þarft að benda mönnum á að Hornfirðingar voru brautryðjendur í þessari afþreyingu og einnig þá staðreynd að árið 2001 fóru 60.550 manns í hvalaskoðunarferðir með 12 fyrirtækum en enginn frá Hornafirði! Það mætti svo sem geyma eitt beinasett á Hornafirði, þó ekki nema til að minnast uppruna hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Á þessari stundu fer um hugann upphafserindi í kvæði Davíðs Stefánssonar:
“Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná.”

Kafteinn Óli Björn Þorbjörnsson og Páfinn, Baldur Bjarnason vélstjóri, komu skipinu Sigurði Ólafssyni allaf í land með brosandi fólki en hvalaskoðunarferðir frá Höfn urðu ekki blóm þótt Jöklaferðir hafi sáð mörgum fræjum.

Því er vert að spyrja, af hverju er ekki boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Höfn? Ein skýringin er sú að langt er á góð hvalaskoðunarmið, því verða ferðir þaðan dýrari og lýjandi. Enginn Hornfirðingur treystir sér til að reka hvalaskoðunarbát sem þó gæti nýst í fleira, t.d. sjóstangaveiði, skemmtiferðir og skoðunarferðir um Ósinn.

Svo ég haldi hugarfluginu áfram fyrst ég er kominn í stuð, þá mætti huga að hvalasafni tengdu byggðasafninu. Ég vil minna á að í Grindavík var opnað Saltfisksetur í september síðastliðinn sem á að höfða til erlendra ferðamanna. En ég minni á að Hornfirðingar eru margfaldir Íslandsmeistarar í saltfiskverkun með EHD merkið heimsfræga. Hví ekki að stofna Humarsetur, þar eigum við heimsmeistaratitil, eða Síldarsetur með áherslu á reknetaveiðar. Væri ekki hægt að spyrða þessi söfn einhvernvegin saman? Svo væri hægt að tengja söfnin við Kaldastríðið með því að varðveita ratsjárstöðina og skermana á Stokksnesi. Þetta er kallað menningartengd ferðaþjónusta og gæti hún dafnað vel eins og hvalaskoðunarferðirnar.

Legg ég því til að næsti hvalur sem strandar á Hornafirði verði verkaður af náttúrubörnunum, Gústa Tobba, Kidda í Sauðanesi og hvalskurðarmönnum staðarins. Beinagrindin verði hengd upp í Nýheimum og hvalurinn verði nefndur Tryggvi Árnason í höfuðið á frumkvöðli hvalaskoðunarferða á Íslandi.

Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.


Þakka Arnþóri Gunnarssyni fyrir faglega ráðgjöf og Tryggva Árnasyni fyrir upplýsingar við gerð pistilsins.


Hvalaskoðun II - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson

Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa

Heimildir:
DV, 21. júní 1993, „Hvalaskoðunarferðir frá Höfn: Hnúfubakar blása og höfrungar stökkva”, Ari Sigvaldason
Eystrahorn, 31. tölublað , 9. september 1993, „Hvalaskoðun”, Gunnþóra Gunnarsdóttir
Hvalaskoðun við Ísland, JPV-útgáfa 2002, Ásbjörn Björgvinsson & Helmut Lugmayr
Morgunblaðið, 26. september 1993, „Á hvalaslóð”, Guðmundur Guðjónsson
Morgunblaðið, 12. mars 1994, „Sporðaköst undir jökli”, Ari Trausti Guðmundsson


mbl.is Hvalirnir komnir til hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Topphóll séður með augum sjálfbærni

Steinarnir tala

Í síðasta mánuði var mikil fjölmiðlaumræða um álfakirkjuna í Topphól í Hornafirði.  Ekki virðist vera hægt að bjarga stuðlabergshólnum því nýr vegur mun liggja yfir hólinn og verður hann sprengdur í loft upp.  

Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðum Vegagerðarinnar enda hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga Hornfirðinga og ferðamenn. Trú á álfa, huldufólk og tröll hefur verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga.

Vegagerðin segir að ekki sé hægt að hnika veginum, ábendingin hafi komið of seint, því fylgi aukinn kostnaður og verkið tefjist. Ferlið við vegalagninguna hefur tekið fimmtán ár og einhver hefur sofnað á verðinum.

Völvan Ísvöld Ljósbera nær kjarnanum í umræðunni en hún mótmælti aðförinni:  „Álfatrú er hluti af okkar þjóðarhjarta. Hún er dýrmæt og komandi kynslóðir eiga skilið að fá að upplifa hana líka.“

Hvað ætla hornfirskir leiðsögumenn að sýna ferðamönnum eftir hundrað ár þegar jökullinn verður nær horfinn, íshellarnir og Topphóll?  Álfasögunar horfnar og tengslin við landið.

Þá verða sagðar sögur af sprengdum álfaborgum rétt eins og Úkraínskir leiðsögumenn munu segja um borgirnar Bakhmut og Mariupol.  Pútin er víða.

 

Tröllið Þorlákur

Þegar umræðan um Topphól var í hámarki, var ég staddur í sumarbústaðalandi í Hraunborgum, Álfasteinssundi í Grímsnesi og þar er steinn, Þorlákur heitir hann eftir tröllkarli sem varð að steini þegar sólin kom upp. Vegagerðarmenn fundu sniðuga lausn, lögðu veg er beggja vegna Þorláks og virðist hann vera nokkuð sáttur og sagan lifir.  Hornfirðingar höfðu gæfu að bjarga vatnstanknum á Fiskhól frá niðurrifi á síðustu öld og er hann orðinn tákn fyrir staðinn. Ekki er hægt að bjarga Topphól með þessari sniðugu lausn. 

Álfasteinssund

Hér var ekki sprengt með dínamíti í Álfasteinssundi, heldur fundin lausn. Allir sáttir, ferðamenn, álfar, tröll, leiðsögumenn, framkvæmdaraðilar og aðrir hagaðilar.  Virðing er lykilorðið!

 

Sjálfbærni

Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Hugtakið byggir á þrem stoðum, náttúru og umhverfi og hinar stoðirnar eru efnahagslíf og samfélagslegir þættir s.s. jafnrétti, heilsa, velferð og menning. Þessar þrjár stoðir tengjast innbyrðis og spila saman.

Þegar Topphóll er skoðaður með augum sjálfbærni, þá erum  við, freka kynslóðin búin að stroka Topphól út af hinu rómaða Skaftfellska landslagi og skemma allar álfasögurnar sem hefðu fylgt fyrir næstu kynslóðir. Peningarnir hafa trompað umhverfið og samfélagið, þeir ráða því miður oftast ferðinni.

En til að bæta okkur í sjálfbærni, þá skora ég á bekkjarbróður minn, hugvitsmanninn Einar Björn Einarsson sem rekur Jökulsárlón ehf með myndarbrag að taka stórt skref í orkuskiptum. Skipta út jarðefnaeldsneyti á bátaflotanum á Lóninu sem fyrst en Einar veit hvað er best, allt gangverk lifnar við í höndunum á honum. Vetni, metan, metanól, rafmagn, repjuolía, ammóníak, lífdísill eða etanól. Allt er þetta betra en mengandi olía sem er að steikja okkur.

Þegar stór aðili tekur stóra skrefið í sjálfbærni, þá sendir hann jákvæð skilaboð til allra í hinni mengandi ferðaþjónustu og verður góð fyrirmynd í umhverfismálum og fleiri fylgja á eftir.

Það að vera sjálfbær snýst því um að búa til félagsleg og efnahagsleg kerfi sem eru ekki skaðleg náttúrunni og tryggja þannig lífsgæði okkar og framtíðarkynslóða.


Plastrusl í hafinu

Ábyrgð á plastrusli

Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.

"Alls var 94,1% af rusl­inu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Al­mennt rusl eins og til að mynda plast­pok­ar, plast­film­ur og áldós­ir var aðeins 5,9% af því sem fannst."


Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.


Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga. 

Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.

 

SÞ - plastrusl í hafinu


Kolefnislosun og hagnaður

Þorskstofninn í hættu vegna loftslagsbreytinga en möguleg tækifæri í sardínum og makríl er frétt á forsíðu Fréttablaðsins 9. desember 2022.  Ráðast þarf að rót vandamálsins, stoppa losun GHL.

Slæmu fréttirnar þegar mælingar á losun í virðiskeðju fyrirtækja eru að risarnir í losun eru ekki að vinna neitt í losunarsviði 3, nema orkufyrirtækin tvö, LV or OR. Hlutfallið í losunarsviði 3 er 5% en viðmið MSCI vísitölunnar er 88%.

Mælingar í virðiskeðjunni eru nauðsynlegar til að fyrirtæki skilji rekstur sinn og ábyrgð. Lykilatriði til að ná kolefnishlutleysi (Net Zero emissions).  Staðan eða kortlagning  hjá fyrirtækjunum minnir mig á landakort sem Christopher Columbus hafði árið 1492 þegar hann ætlaði að sigla til Asíu en endaði í Ameríku!

Enginn losun reiknuð við flutning hráefnis og vöru hjá álverum. Einnig hvernig hráefnis er aflað. Það vantar fallega framtíðarsýn eins og CarbFix hefur um að fanga CO2 úr andrúmslofti og farga neðanjarðar sé flutt  í skipum með vistvænu eldsneyti.

Sobril taflan

Í töflunni eru stærstu kolefnislosunarvaldar Íslands og raðað eftir beinni losun (grái dálkurinn).  Fyrsti dálkurinn er hagnaður fyrir skatta 2021 og fengin úr bókinni 300 stærstu. Síðan koma losunarsviðin og mótvægisaðgerðin, kolefnisbinding.  Athygli vekur að hagnaður gráu fyrirtækjanna 18 er 136 milljarðar fyrir skatta og ef þau væru skylduð skv. mengunarbótareglunni til að kolefnisjafna losun í dag og greiða þrjú þúsund krónur (20 EUR) fyrir tonnið af CO2 væri kostnaður um 10 milljarðar eða rúm 7% af hagnaði fyrir skatta.   Sorglegt að sjá að fyrirtækin fjárfesti ekki meira í grænum fjárfestingum, orkuskiptum, hringrásarhugsun, þekkingaröflun og nýsköpun í loftslagsmálum í góðærinu.

Heildarlosun gráu fyrirtækjanna er 3,3 milljón tonn CO2 eða rúmlega 73% af losun landsins fyrir utan landnotkun. Almenningur, sveitarfélög og hin 20.000 fyrirtækin eiga 27%! Til samanburðar er losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands 2,7 milljón tonn.

Orkufyrirtækin með yfirburði í kolefnisbindingu en margt spennandi í farvatninu á komandi árum ef staðið verður við farmtíðarsýn fyrirtækjanna í sjálfbærniskýrslum. En aðeins rúmlega 1% af losun er kolefnisjöfnuð.

Aðeins Landsvirkjun nær að uppfylla kröfur um kolefnishlutleysi en búið að að lögfesta að Ísland ætlar að ná markmiði um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040.

Einnig er í hættu að Ísland ná markmiði Parísarsamkomulagsins 2030 með þessu aðgerðaleysi.

Stóru losunarfyrirtækin eru ekki að standa sig og sýna litla ábyrgð, stjórnvöld þurfa að taka frumkvæðið með réttlátum umskiptum í loftslagsmálum, setja þarf neyðarlög og skylda fyrirtækin til að gera metnaðarfulla neyðaráætlun.

ETS – Viðskiptakerfi ESB heldur um iðnað, flug og sjóflutninga. Um kerfið gilda sérstakar reglur en þrátt fyrir það þá öndum við að okkur sama loftinu og við þurfum að gera strangar kröfur til risanna í losun. Mögulegt er að að losunartölurnar sem álverin birta í sjálfbærniskýrslum eru mun lægri en losunin er í raun og veru.

Nú er að hefjast nýtt uppgjörsár og vonandi verða þessar upplýsingar til þess að fyrirtæki setji meiri metnað í mælingar á virðiskeðjunni. Það skiptir miklu máli að finna hvaða losunarþáttur og hvar mest ábyrgðin liggur. Forgangsraða og setja mestan tíma í stærstu loftslagsvænu aðgerðina.

Íslensk fyrirtæki þurfa að spýta í lófana og vera góð fyrirmynd, til að sviðmyndin - þorskstofninn hverfur úr lögsögunni - raungerist ekki.

          Greinin birtist fyrst í dálknum Skoðun í Fréttablaðinu 12. febrúar 2023


Ísmaðurinn Ötzi – ferðalangur frá koparöld

Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum.  Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.

Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.

Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.  

Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár,  skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun.   Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn

Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!   

Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.

Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.

Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.

Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.

Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.

 

Hvað gerði Ötzi?

Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður,  að leita að málmi, eða … kenningar um hann eru alltaf að breytast.

En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann.  Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.

Dauði Ötsi

Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.

En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum.  Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.

En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.

Ötzi

Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!

Heimildir


Hringun 35 stærstu vatna höfuðborgarsvæðisins í heimsfaraldri

“In the midst of every crisis, lies great opportunity.” - Albert Einstein
 
Þegar heimsfaraldur hófst þá hægði á öllu en fólk þurfti að hreyfa sig. Takast á við nýjar áskoranir. Fyrir vikið voru fjöll og fell í nágrenni höfuðborgarinnar vinsæl til uppgöngu. Það var oft fjölmennt á fallegum dögum og stundum erfitt að finna bílastæði við fellsrætur. Fljótlega kláraðist fjallgöngulistinn. En maður varð að halda áfram með hreyfingarmarkmiðin.
 
Þá greip maður tækifærið. Prófað var að ganga í kringum vötn og tjarnir á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst var Vífilsstaðavatn hringað og þegar tíu vinsælustu vötnin höfðu verið hringuð, þá var tækifærið útvíkkað. Eftir stutta leit fannst listi yfir 35 vötn á höfuðborgarsvæðinu. Það syðsta var Brunnvatn við álverið í Straumsvík og Meðalfellsvatn í Kjós var nyrst.
 
Markmiðið var að klára listann áður en faraldurinn hætti. Þegar síðasta vatnið, númer 35 í röðinni, Meðalfellsvatn, var hringað í lok júní þá felldi Svandís heilbrigðisráðherra niður allar samkomutakmarkanir daginn eftir. Ég rétt náði markmiðinu.
Oftast var frúin með en í nokkrum hringferðum komu fleiri með og tóku þátt í ævintýrinu.
En fararaldurinn er ekki búinn en það eru fleiri vötn á höfuðborgarsvæðinu...
 
Þetta var skemmtilegt og eftirminnilegt verkefni. Alls voru kílómetrarnir kringum vötnin rúmlega 100. Hringun vatna var frá 400 metrum upp í 10, 4 km. Það var gaman að leita að vötnunum og nú þekki ég höfuðborgarsvæðið betur, sérstaklega Miðdalsheiðina en þar leynast mörg áhugaverð vötn. Mynda vatnakraga. Einnig kynntist maður Seltjarnarnesi og Álftanesi betur. Maður hefur kynnst bátamenningu við veiðivötn og sumarbústaðamenningu. En vötnin 35 eru mjög ólík og mis mikið líf í kringum þau, vistkerfin eru misjöfn.
 
Flottasta samsetningin er vatn og skógur. En vatn er forsenda lífs og maðurinn er 70% vatn og heilinn 90% vatn. Þarna er einhver harmónía í gangi. Merkilegasta vatnið er Brunntjörn við Straumsvík, einstaka á heimsvísu. En líflegasta vatnið er Meðalfellsvatn. Þar er líffræðilegur fjölbreytileiki einna mestur.
 
Margt merkilegt bar fyrir augu en toppurinn var að finna himbrima á litlum hólmi við vatnsbakka Meðalfellsvatn.
Fuglinn er á válista því stofninn hér telur færri en 1.000 fugla hér á landi. Ég vona svo sannarlega að hann hafi komið afkvæmum sínum á legg en hann hefur hættulegan lífsstíl. Himbriminn er veðurspáfugl og grimmur. Aðeins eitt par er við hvert vatn, en við stærstu vötn geta verð fleiri pör.
 
Fuglinn hefur og fagra rödd og mikla. Þegar hann gólar á vatni segja menn, að hann „taki í löppina“, og þyki það vita á vætu. En fljúgi hann um loftið með miklum gólum, veit hann veður og vind í stél sér. “ - Íslenskar þjóðsögur og –sagnir. Sigfús Sigfússon.
 
Himbriminn liggur fastur á sínu og er því berskjaldaður. Mögnuð sjón, tignarlegur fugl í fallegu umhverfi.
 
Þetta var óvænt vatnatækifæri á skrítnum tímum.
 
Himbrimi

Loftmengun - orðaskortur í byrjun bílaaldar

Fyrsti bíllinn kom til Hafnar árið 1927 en Hornfirðingar voru ekki sammála um ágæti þessa fyrsta faratækis „[...] og bóndi nokkur vildi láta banna notkun þess því að það „eyðilegði alla hesta og svo færi það svo illa með vegi.““ 95

En ef skaftfellski bóndinn sem vitnað er í hér að ofan hefði einnig minnst á mengunina sem kemur frá bifreiðunum þá hefði hans verið getið í annálum og öðlast mikla frægð fyrir víðsýni og gáfur. Orðið annar Skaftfellskur ofviti. En orðið var ekki til. Eða er eftir honum rétt haft?

Andri Snær Magnason sem nýlega gaf út meistaraverkið Um tímann og vatnið hefur fjallað um orðanotkun og hugtök.

„Súrnun sjávar er stærsta breyting á efnafræði jarðar í 50 milljón ár ásamt því sem er gerast í andrúmsloftinu. Það hlýtur að koma mér við. En hvernig á ég að segja frá þessu í bók? Orðið „súrnun“ er ekki þrungið merkingu eins og kjarnorkusprengja. Ég þarf að gera lesandanum ljóst að orðið sé risavaxið en hafi allt of litla merkingu. Það er meðal þess sem ég reyni í þessari bók.“   Fréttablaðið 4. október 2019

Sama henti skaftfellska bóndann í byrjun bílaaldar, það var ekki til orð yfir mengandi útblásturinn frá bílnum. Orðaforðinn kemur á eftir tækninni. Hefði bóndinn nefnt orð sem tengdist útblæstrinum hefði þessi neikvæða setning um hann ekki verið jafn neyðarleg. Ef hann hefði notað orð eins og loftmengun, olíumengun, útblástur eða sótagnir þá hefðu þau orðið nýyrði og merki um mikla visku.

Vefurinn timarit.is er merkilegur vefur og leitaði ég eftir fimm mengandi orðum sem getið er ofar.

Orðið loftmengun kemur fyrst fyrir í byrjun árs 1948 í Morgunblaðinu. Um 20 árum eftir að fyrsti bíllinn kemur til Hornafjarðar: „Ekki var þó gert ráð fyrir að hjer yrði um svo mikla loftmengun að ræða, að hætta stafaði af.“  Segir í fréttinni.

Árið 1934 er fyrst minnst á útblástur gufu en áður notaði í merkingunni stækkun, eða úrás. Fyrsti útblástur mótorvélar í Siglfirðingi 25. janúar 1942.

Olíumengun kemur fyrst fyrir 1955,

Sótagnir koma fyrst fyrir í krossgátu 1953 en í  tímaritinu Veðrið 1956  „Auk þess hrífa droparnir með sé í fallinu sótagnir þær, sem kunna að vera svífandi i loftinu fyrir neðan skýin“

Orðið mengun er þó fyrir bílaöld á Íslandi en notað um skemmd. „mengun af ormarúg,“ Norðanfari, 20. desember 1879.

En skyldi skaftfellski bóndinn skilja orðið hamfarahlýnun og áttað sig á orsökum hennar ef samband næðist við hann í gegnum miðil í dag?

 

Heimildir
95 Arnþór Gunnarsson. 1997:285 Saga Hafnar I
Fréttablaðið 4. október 2019
Timarit.is


Tunglið og Nautagil

Í dag, 20. júlí, er slétt hálf öld liðin frá því Apollo 11 lenti á tunglinu og í kjölfarið urðu Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Í undirbúningi fyrir leiðangurinn komu kandídatar NASA til Íslands í æfingaskyni og dvöldust þá meðal annars í Dyngjufjöllum við Öskju.  

Ég gekk Öskjuveginn sumarið 2006 og skoðaði sömu staði og geimfarar NASA. Rifjast þessi gönguferð því upp í tilefni dagsins.

Geimfarar NASA sem unnu að Apollo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. " 

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst. 

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.

nautagil

 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í gönguferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Apollo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!


Einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls - endurskoðað áhættumat í ágúst 2017

Þann 13. ágúst sl. var farið yfir 21 einbreiða brú í Ríki Vatnajökuls, áhættumat var endurskoðað í þriðja sinn. En minnka má áhættu með áhættustjórnun.

Engar breytingar frá síðasta mati fyrir hálfu ári. 
En hrósa má Vegagerðinni fyrir að:
   - öll blikkljós loguðu og aðvaranir sýnilegar
   - 500 metra aðvörunarskilti og málaðar þrengingar voru sýnileg. 

En engin leiðbeinandi hámarkshraði. 
Morsárbrú var tekin í notkun í lok ágúst og því ber að fagna. Nú eru hættulegu einbreiðu brýrnar 20.

Forvarnir
Ekkert banaslys hefur orðið á árinu og ekkert alvarlegt slys.  Árið 2015 varð banaslys á Hólárbrú og mánuði síðar alvarlegt slys á Stigárbrú. Síðan var farið í úrbætur og blikkljósum fjölgað úr 4 í 21.
Forvarnir virka. 

Bílaumferð hefur rúmlega tvöfaldast frá páskum 2016. Umferð þá var um 1.000 bílar á dag en fer í 2.300 núna. Aukning á umferð milli ágúst 2016 og 2017 er 8%.

Á facebook-síðu verkefnisins er haldið um niðurstöður.
https://www.facebook.com/EinbreidarBryr/?ref=aymt_homepage_panel

Haldi ökumaður áfram austur á land, þá eru nokkrar einbreiðar brýr og þar vantar blikkljós en umferð er minni. Það má setja blikkljós þar.

Endurskoðað áhættumat

Áhættumat sem sýnir einbreiðar brýr í Ríki Vatnajökuls, 21 alls. 21 of margar!


Hólárjökull 2017

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Efri samsetta myndin var tekin 5. ágúst 2016 í súld og 13. ágúst 2017 í fallegu veðri. Tungan hefur aðeins styst á milli ára. Neðri myndin er samsett og sú til vinstri tekin 16. júlí 2006 en hin þann 5. ágúst 2015.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst, nánast horfið.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar.

Árið 2006 voru íslenskir jöklar útnefndir meðal sjö nýrra undra veraldar af sérfræðingadómstól þáttarins Good Morning America á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC. Íslensku jöklarnir urðu fyrir valinu vegna samspils síns við eldfjöllin sem leynast undir íshellunni.

Jöklarnir vita svo margt. Við erum að tapa þeim með ósjálfbærri hegðun okkar.

En hvað getur almenningur best gert til að minnka sótsporið? Í rannsókn hjá IPO fyrr á árinu kom fram: Til þess að hafa raunveruleg áhrif á loftslagsbreytingar þarf komandi kynslóð að taka upp bíllausan lífsstíl, eignast færri börn, draga úr flugferðum og leggja meiri áherslu mataræði sem byggir á grænmeti. Sá sem neytir fyrst og fremst grænmetisfæðis leggur fjórum sinnum meira af mörkum til minnkunar losunar en sá sem aðeins flokkar og endurvinnur rusl. Þetta eru þær aðferðir sem skila mestu, bæði þegar horft er til losunar og áhrifa á stefnumörkun.

Hólárjökull 2017 og 2016

Loftslagsbreytingar eru staðreynd og hitastig breytist með fordæmalausum hraða. Við þurfum að hafa miklar áhyggjur, jöklarnir bráðna og sjávarstaða hækkar með hækkandi hita og höfin súrna.

Fyrirtæki og almenningur þarf úr útblæstri jarðefnaeldsneytis og á meðan breytingarnar ganga yfir, þá þarf að kolefnisjafna. Annað hvort með gróðursetningu trjáa eða endurheimt votlendis.Einnig þarf að þróa nýja tækni.

Hólárjökull 2006 og 2015Jökulsporðurinn er nær horfinn. En hann hefur í fyrndinni náð að ryðja upp jökulruðningi og mynda garð.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/

Hólárjökull 2015 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1920380/

Hólárjökull 2016 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/2177752/?t=1470576153


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 238222

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband