23.12.2008 | 23:36
Skata á Þorláksmessu
Þeir eru skemmtilegir þessar hefðir sem koma upp árlega. Skötuveisla er ein af þeim. Stór hluti af fjölskyldunni hittist á Ölver við skötuborðið. Það var einnig boðið upp á tindabikkju, saltfisk og hangikjöt með uppstúf. Einnig voru þrír góðir síldarréttir í boði. Það var skemmtileg stemming þegar komið var að veitingastaðnum, sterk skötulykt angaði fyrir utan húsið. Skatan var mjög sterk og tók vel í hálsinn. Ég var með smá vott að kvefi en það rauk úr mér. Réttirnir sem fylgdu á eftir voru bragðlitir. Lengi lifi skatan.
Á Vísindavefnum stendur þetta um skötu á Þorláksmessu:
"
Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þótt hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling. Þó var fólki stundum leyft að bragða aðeins á jólahangikjötinu ef það var soðið á Þorláksmessu."
Það er einnig gaman að velta því fyrir sér hvernig þessir siðir urðu til.
"Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind"
Þorvarður Sigurðsson frá Teigaseli (1942-2001) að verka skötu fyrir utan saltskemmurnar fyrir 26 árum.
21.12.2008 | 18:59
Súkkulaðifóturinn öflugur hjá Van Persie
Maður verður að vera sáttur við niðurstöðu leiksins fyrst hann þróaðist svona. Dómarinn Howard Webb með misræmi í dómum og merkilegt að hann skuli vera talinn besti dómari Englendinga. Dómaraklassinn ekki hár í því landi.
Hollendingurinn Robin Van Persie skoraði glæsilegt mark með súkkulaðifæti sínum. Efir góðan snúning og undirbúning frá Nasri.
Á visir.is fyrr í mánuðinum mátti lesa þessa frétt um Persie og skúkkulaðifótinn.
"Jákvæð hugsun er lykillinn fyrir mig. Ég veit að ég get skotið með hægri. Auðvitað er sá vinstri betri, en þetta snýst allt um trú manns á lakari fætinum. Í Hollandi köllum við hann súkkulaðifótinn," sagði Van Persie í samtali við Daily Telegraph.
Markið sem Liverpool skoraði kom eftir einbeitningarleysi. Stór hluti af liði Arsenal hafði dregið sig fram á völlinn vegna reikistefnu um tilurð innkastsins. Ein löng sending og mark.
Brottrekstur Adebayor var harður dómur en hann kveikti baráttuanda í mönnum. Arsenal gengur oft vel, manni færri.
Verstu fréttir leiksins voru meiðsl fyrirliðans Fabregas eftir tæklingu við Alonso. Þulir á Sky höfðu eftir læknum að viðgerð á fæti Spánverjans tæki 6 til 8 vikur. Spánverjar eru Spánverjum verstir.
![]() |
Arsenal og Liverpool skildu jöfn, 1:1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.12.2008 | 09:37
Svona gerast kaupin á Hesteyrinni!
Vona ég að rannsóknablaðamenn fjalli um Eignarhaldsfélagið Hesteyri ehf og gefi lesendum sínum nánari upplýsingar um þetta athyglisverða félag en það hefur tölt mjög hljóðlega um markaðinn.
Eindarhaldsfélagið Hesteyri var stofnað árið 1989 og var tilgangur félagsins þá: Leiga atvinnuhúsnæðis. Síðan hefur verið mörkuð ný stefna eftir 21. nóvember 2002 og félagið komið í rekstur og starfsemi eignarhaldsfélaga. Hættir í leiguharkinu.
Í Frjálsri verslun um haustið 2002 er athyglisverð úttekt á Hesteyri og ber greinin nafnið: Hófadynur Hesteyrar. En þar er flóknum kapli eiganda lýst. Var eignarhaldsfélagið Hesteyri ehf, lykilfélag í kaupum S-hópsins á Búnaðarbanka Íslands. Komu þar við sögu félög sem heita Ker, S-hópur, Straumur, Norvik (móðurfélag BYKO), VÍS og auk Hesteyrar sem flækja svo málið í valdabaráttu milli tveggja Framsóknarkónga, Þórólfs Gíslasonar og Ólafs Ólafssonar.
Í lok greinarinnar í Frjáls verslun stendur:
Það verður að að segjast eins og er að þetta er ein mesta leikflétta í íslenskum viðskiptum í áraraðir og verðskuldar Þórólfur Gíslason sannarlega athygli fyrir vikið. Gleymum ekki þætti
Hornfirðingana í þessu máli, þeir eiga Hesteyri með Skagfirðingum.
![]() |
Ekkert jafnræði hluthafa VÍS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2008 | 00:03
Upphafið að ofþennslunni
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kvað upp þann dóm að upphafið af ofþenslunni megi rekja til Kárahnjúkavirkjunar. Loksins, loksins fékkst það staðfest. Hins vegar voru margir búnir að vara við þessari leið. Ekki var hlustað á þær raddir. Stóriðjuflokkarnir tveir réðu. Við kusum þetta yfir okkur. Það er annars merkilegt að fólk skuli ekki læra af reynslunni. Enn eru til þingmenn sem vilja planta álverum um allt land og stækka þau sem fyrir eru. Næsta kreppa sem við Íslendingar fáum í hausinn þegar við verðum búin að hrista af okkur bankakreppuna verður álkreppa. Það borgar sig ekki að hafa öll áleggin í sömu körfu.
Í Fréttablaðinu í gær stendur: "Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) segir framkvæmdir tengdar áliðnaðinum vera upphafið að ofþenslu íslensks efnahagslífs. Þetta kemur fram í skýrslu sjóðsins um Ísland."
Þar segir: "Hin langvinna þensla hagkerfisins, sem fjárfestingar í áliðnaði hrutu af stað og var viðhaldið með snaraukinni einkaneyslu, og greiður aðgangur að fjármagni ýtti undir, ól af sér ójafnvægi í þjóðarbúskap og gerði fjármálakerfið berskjaldað fyrir utanaðkomandi áhrifum."
Við hefðu betur hlustað á náttúruna og tekið mark á boðskapnum sem var við Rauðuflúð við Jöklu í júlí 2005. Ekki virkja, stóð þar stórum steinstöfum. Nú er þetta svæði komið undir kalt jökulvatn.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.12.2008 | 10:48
Hammers House of Horrors
Það er laugardagur í dag og enski boltinn rúllar áfram í dag. Hið sögufræga lið Hamranna á leik við Aston Villa. Framtíð liðsins er ekki björt en það hefur á síðustu árum lent í klónum á skelfilegum viðskiptajöfrum. Þei eru: The Ice Men, Eggy og Gudy.
Í grein í götublaðinu The Sun, en þar er nú ekki skafið af hlutunum, er grein, Hammers House of Horrors. Þar er greint frá viðskiptum hjá félaginu eftir að Tjallinn Terry Brown seldi félagið.
Fyrir sléttu ári, fórum við bloggvinirnir, Jóhannes Einarsson frá Goðahóli, en þá höf'um við efni á knattferð til Heimsborgarinnar, London. ICESAVE framtíð okkar ekki komin í ljós. Við urðum okkur um miða á leik West Ham og Everton. Einn tilgangur ferðarinnar á leikinn var að upplifa íslenska efnahagsundrið. Það var merkileg tilfinning að vera fyrir utan leikvöllinn fyrir framan Dr Martens Stand. Það var eins og að vera á Laugarveginum, ég hiti svo margir Íslendingar þarna sem ég þekkti. Ég man að nokkrir Íslendingar höfðu fengið miða í heiðursstúkunni. Þeir sátu stutt frá Bjögga. Þeir voru í hefðbundnum klæðnaði er þeir komu á völlinn. Þegar miðaverðir sáu klæðnaðinn var þeim ekki hleypt inn. Þeir fóru því beint í næstu herrafataverslun og keyptu nýjan klæðnað fyrir 80 pund til að heiðra viðskiptajöfrana. Leikurinn fór 0 - 2 fyrir Everton. Horror úrslit fyrir Hamrana.
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 22:25
Jólavín
Dominique og Eymar hjá Vínskólanum halda úti góðum vef um vín og vínmenningu. Þau reka vínskólann - vinskolinn.is og býður hann upp á stutt fræðandi námskeið. Einnig senda þau reglulega út fréttabréf. Ég hef ákveðið að velja fara í gegnum listann og velja eitt gott vín fyrir jólamatinn. Hér kemur jólavínlistinn frá Vínskólanum:
Sum vín hafa ratað nýlega til okkar sem eru á hóflegu verði og viljum við benda á nokkur þeirra - athuga að verðin gilda... í dag og að þetta er vín sem eru ný í reynslu og þar af leiðandi fáanleg í Heiðrúnu eða Kringlunni:
- Vina Tuelda Barrica frá Ribeira del Duero er valið besta kaupið í jólablað Gestgjafans (1867 kr) - með rauðu kjöti, lamb, naut, hreindýr
- De Leuwen Jagt Cabernet Sauvignon S-Afríka - (1997 kr), vínbóndavín, eins og maður veit að S-Afríka getur framleitt, með öllu bragðmeiri rauðu kjöti
- Arnaldo Caprai Grecante (1989 kr) er afar skemmtilegt hvítvín frá Ítalíu (Umbria), með humri eða bragmiklum skelfiski
- Domaine de Malandes Petit Chablis (2190 kr) er vel peninganna virði
- Olivier Leflaive Les Sétilles (2390 kr) eitt af þeim bestu frá Bourgogne, miðað við verð - ljúffengt
- Bertani Villa Novare Ripasso frá Valpolicella (2790 kr), flott vilillbráðavín
Svo getum við ekki sleppt því að nefna eitt af dýrari vínunum:
- Château Musar 2001 frá Líbanon (4499 kr), dýrt já en frábært með öllu villibráðinu - umhella 1-2 klst fyrir mat.
- Ekki gleyma Riversaltes Grenat með villigæsaterrine frá Ostabúðinni, gráðaostinum eða súkkulaði (2799 kr) !
Þetta eru fínar hugmyndir. Ég ætla að kaup Arnaldo Caprai Grecante með humrinum og láta svo hugann reika til S-Afríku með De Leuwen Jagt Cabernet Sauvignon þegar kjötið fer undir tönn.
13.12.2008 | 20:32
Eiður á flottum Nou Camp árið 2011
Hann verður glæsilegur El Classico leikurinn árið 2011 þegar búið verður að endurbyggja Nou Camp. Völlurinn verður stækkaður og mun taka 106.000 manns í sæti. Auk þess verða innviðir teknir í gegn. Eiður Smári á eftir að sóma sér vel þar. Það eru hinir öflugu hönnuðir Norman Foster + félagar sem sjá um hönnunina. Ákvörðunin um þessar breytingar var tekin árið 2007 og tillögur kynntar á 50 ára afmæli vallarins. Kostnaður er áætlaður 250 milljónir Evra, nýjum gjaldmiðli Íslendinga og mun ég ekki umbreyta í krónur.
Ég var á leik Barcelona og Levante í febrúar á þessu ári og sá Eið hita upp í 25 mínútur. Ég get tekið undir það að leikvangurinn má fá upplyftingu. Þessar hugmyndir líta vel út.
Nú verður maður að setja upp Barcelona húfuna sem ber númerið 7 áður en farið verður á Players. Það þarf að bæta fyrir úrslitin í Middlesborough í dag.
Mósaíkáhrifa Gaudi gætir við hönnunina.
![]() |
Eiður Smári í byrjunarliði Barcelona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2008 | 16:04
Nú-Nú
Ég rakst fyrir tilviljun á bókina Nú-Nú á bókasafni Kópavogs. Ég ákvað að leigja mér eintak og sé ekki eftir því. Þetta er bók sem maður á að eiga uppi í bókahillu hjá sér.
Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð. Minningar Steinþórs Þórðarsonar á Hala í Suðursveit.
Hér er íslenzk frásagnarkúnst eins og hún gerist bezt á síðustu öld. Sagnir af hreinu og sönnu mannlífi sunnan jökla. Steinþór er afi Þórbergs Torfasonar, bloggvinar míns.
Margt fólk kemur við sögu og tengjast flestir Breiðabólstaðarbæjunum. Ég fann tvær stuttar frásagnir af langafa mínum, Sigurði Sigurðarsyni, snikkara, frá Holtaseli á Mýrum. Það leiddi síðan til þeirrar ánægju að rekja ættir í Íslendingabók.
Bókin Nú-Nú var gefin út árið 1970 og prentuð nákvæmlega orðrétt eftir segulböndum sem frásögn Steinþórs var útvarpað af veturinn 1969 til 1970. Ekkert er fiktað við málfræðina og koma sum orð einkennilega fyrir. T.d. "vængjonum" og "bastofunni".
Enda þetta blogg með því að segja frá því hvað Steinþór gerði við peninginn rúmar 30 krónur, sem hann vann sér inn í vegavinnu er hann var 16 ára. En hann keypti snemmbæra kú á Hala, sem kostaði 70 krónur.
"Og líklega hefur nú faðir minn fengið hana heldur ódýrari en það, að hann borgaði hana í harðri mynt svona upp undir það að hálfu leyti. Hún var keypt af Þorsteini Jónssyni [1857 - 1938] á Kálfafelli".
Þorsteinn var bróðir langa-langömmu minnar. Svo heldur hann áfram:
"Þorsteinn var einn af þessum ágætu mönnum, sanngjörnu mönnum, sem sáu alltaf hag hinna, sem að erfiðara voru settir, og reyndi eftir því sem hann gat að hlynna að þeim. Ef að samskot voru í Suðursveit, þá var alltaf víst, að Þorsteinn var hæstur. Ef einhver bað um að lána sér, þá var það sjálfsagt, ekkert að tala um veð, ekkert að tala um vexti, bara að hjálpa og lána."
Það er gleðilegt að lesa þetta. Maður er ekki kominn af okurlánurum, lifandi á tímum hæstu vaxta í heimi.
Bækur | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2008 | 17:22
Pólitískur áttaviti
Nelson Mandela og Gandhi hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fyrir nokkru fékk ég sendan tengil þar sem hægt væri að taka próf í því hvar maður væri staddur í pólitík. Ég tók prófið, á politicalcompass.org/test. Niðurstaðan var sú að ég lenti stutt frá Gandhi.
8.12.2008 | 22:32
Emmanuel Eboue
Hinn 25 ára Fílabeinsstrendingur, Emmanuel Ebue kom til Arsenal frá belgíska félaginu Beveren í janúarglugganum í janúar 2005. Hann fór strax í byrjunarliðið í bikarleik gegn Stoke City. Þar var hann í hægri bakvarðarstöðu og stóð sig vel. Kamerúninn Lauren hafði varið hægri vænginn en var farinn að lýjast og leysti Eboue varnarhlutverkið vel. Þegar hinn öflugi Bacary Sagna kom til Arsenal á síðasta tímabili var Eboue, leikmaðurinn sem ber númerið 27 á keppnistreyjunni, færður fram á völlinn. Hann átti að fylla skarð Freddie Ljungberg.
Ekki eru allir sáttir við Fílabeinstrendinginn um þessar mundir. Sumum finnst hann of slakur leikmaður til að spila í Arsenalbúningi. Þegar hann er á miðjunni skilar hann góðri varnarvinnu og á oft góða spretti. Það sem hins vegar skilur hann frá Ljugberg er að ógnunin er engin í markaskorun. Í 122 leikjum hafa aðeins þrjú mörk litið dagsins ljós. Einnig hefur Manu verið harðlega gagnrýndur fyrir að detta fyrir litlar sakir.
Manu spilaði úrslitaleik Meistardeildarinnar á móti Barcelona í maí 2006 og einnig sýndi hann það hversu mikið í hann er spunnið í heimaleik á móti þáverandi Evrópumeisturum AC Milan í byrjun árs. Manu var úti um allt á hægri kantinum, bæði í sókn og vörn. Ítalarnir féllu.
Í síðasta leik á móti Wigan á Emirates kom Eboue inn á eftir hálftíma leik og var settur út á vinstri kant. Þar fann hann fann sig ekki vel og var skipt útaf er fjórar mínútur lifðu leiks. Þá baulaði Emirates. Það var ódrengilegt. Þetta hefði ekki gerst á Highbury segja harðir Arsenalmenn. Þar voru 38.000 gallharðir stuðningsmenn sem stóðu með sínum mönnum í gegnum súrt og sætt. Nú eru 20.000 nýir óþroskaðir stuðningsmenn, aldir upp við verðbréfabrask og þekkja ekki gömlu góðu gildin.
Besta ráðið er að láta Eboue hefja mikilvægan Evrópuleik á móti Porto og hefja þar með endurfæðingu hans í hið unga lið Arsenal.
![]() |
Wenger treystir á Eboue gegn Porto |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.7.): 13
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 102
- Frá upphafi: 236919
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 90
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar