14 tindar yfir 8000 metrar

Það var gaman að fylgjast með ÚtSvari um helgina. Mikið stóðu Fljótsdalshérað sig vel gegn skemmtilegum tónlistarmönnum frá Norðurþing.  Úrslitin eins og í góðum körfuboltaleik, 114 gegn 83 fyrir Héraðsbúa. Góð skemmtun og ekki að furða að áhorf sé mikið skv. mælingum Capacent.

Ein mjög skemmtileg spurning kom upp í valflokkunum í liðnum há fjöll. Þar var spurt um hversu mörg fjöll væru yfir 8.000 metra hæð á Himalaya eða Karakoram svæðiu í Asíu. Skáldið, bridsspilarinn og bóndinn Þorsteinn Bergsson skoraði 5 stig fyrir  Fljótsdalshérað með því að svara rétt:  14.

Það er búið að ganga á alla þessa fjórtán tinda. Því takmarki náði fyrstur Þjóðverjinn, Reinold Messner á árunum 1970 til  1986.

Everest                8848 m     Nepal/China    
K2                        8611 m     Pakistan/China
Kanchenjunga     8586 m     Nepal/India   
Lhotse                 8516 m     Nepal/China         
Makalu                 8463 m     Nepal/China        
Cho Oyu              8201 m     Nepal/China                    
Dhaulagiri            8167 m     Nepal    
Manaslu               8163 m     Nepal    
Nanga Parbat      8125 m     Pakistan    
Annapurna          8091 m     Nepal                        
Gasherbrum I      8068 m     Pakistan/China    
Broad Peak          8047 m     Pakistan/China    
Gasherbrum II     8035 m     Pakistan/China                  
Shishapangma     8027 m     China

Átta hæstu fjöllin eru í  Himalaya en það níunda, Nanga Parbat (nakta fjallið) er í Pakistan. Það var fyrsta fjallið í glæsilegri hjáfjallaröð Messener.


Þjóðfundur á Arnarhóli

 

 

 

Ég átti leið um Arnarhól rétt fyrir kl. 15 í dag. Þangað lá leið margra á þjóðfund en yfir þúsund Íslendingar minntust Fullveldisdagsins fyrir 90 árum. Kröfðust fundarmenn breytinga í ríkisstjórn og eftirlitsstofnunum. Það var kalt í veðri. Ég var á hraðferð og stoppaði ekki lengi á hólnum. Ekki varð ég var við Vargastefnu við Stjórnarráðið en margar löggur voru á ferli. Það lá eitthvað í loftinu. Þegar Þjóðfundinum var lokið, tóku um 100 manns strikið niður í Seðlabanka og föluðust eftir upplýsingum um hvar Davíð keypti ölið. Ekki fengust neinar upplýsingar þar um mjöðinn. Urðu sumir mótmælendur snakillir er þeir fengu ekki svör og máluðu bankann rauðann.

 


Chelsea bitlaust án Drogba

Hið dýra lið Chelsea var bitlaust í leiknum við Arsenal og saknaði kraftmikla leikmannsins frá Fílabeinsströndinni, Didier Drogba. Hann hefur verið Arsenal erfiður ljár í þúfu í gegnum tíðna. Ég var bjartsýnn á góð úrslit er ég fregnaði að Drogba væri í leikbanni vegna kveikjarakasts.

Bakverðir Arsenal, Bacary Sagna og Gael Clichy voru frábærir og átu Salomon Kalou. Clichy var einnig frábærlega sókndjarfur. Robin van Persie endaði sem maður leiksins og átti það vel skilið fyrir tvö frábær mörk.  Góð endurkoma.

Verðskuldaður sigur á Brúnni og verst að nýlega var búið að  stöðva taplaust met liðsins á vellinum. 

Arsenal er aðeins á eftir stigaáætlun í deildinni. Á sama tíma í fyrra var liðið á toppnum, var með 36 stig úr 14 leikjum. Nú eru stigin 26 eftir 15 leiki.


mbl.is Arsenal sigraði á Stamford Bridge
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfæri

Með Morgunblaðinu í gær fylgdi kálfur, Sóknarfæri - Frumkvæði og fagmennska í íslensku atvinnulífi. Inni  í því á bls. 18 er viðtal við forystusveitina í sprotafyrirtækinu Stika sem ég vinn hjá og á bls. 27 er heilsíðuauglýsing frá okkur við Gróttuvita.  Stiki er þekkingarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni og sérhæfir sig í ráðgjöf og lausnum sem grundvallast á  öryggi upplýsinga.

Fyrst er að vilja - Afgangurinn er tækni

stiki_739388.jpg


Landsgrannskoðanin

Eftir skelfilegar ófarir okkar í bankamálum, þá þurfum við erlenda aðstoð við að rannsaka málið og gera upp sakir. Ég mæli með þessari stofnun, ríkisendurskoðun í Fræreyum.  Landsgrannskoðanin heitir hún og er ekki hægt að finna traustara nafn. Það verður allt grandskoðað. 

Hún er skemmtilg færeyskan!


Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið

"Kvótakerfið varðaði veginn inn í sjálftökusamfélagið",  mælti prófessor Þorvaldur Gylfason á Borgarfundi í troðfullu Háskólabíó í kvöld.  Þarna var ég hjartanlega sammála honum.  Ég hef varað sveitunga mína við þessari ófreskju. Afleiðingarnar eru að koma í ljós. Verst að þessi ófreskja er ættuð úr Hornafirði, komin undan Halldóri Ásgrímssyni.

Það var frábær stemming í Háskólabíó í kvöld. Hún minnti mig á góða kvöldstund á sama stað með Tarantinó fyrir þrem árum en þá horfði ég á þrjár Kung-Fu kvikmyndir með  meistaranum í smekkfullum sal og fólk tók vel undir.

Fyrst flutti Þorvaldur Gylfason áhrifamikla ræðu og tóku fundarmenn vel undir. Klöppuðu vel á milli kjarnyrtra setninga. Hápunkturinn var þegar hann sagði: "Bankastjórnin verður að víkja án frekari tafar”, þá ætlaði þakið að rifna af traustbyggðu bíóhúsinu.   Snillingur hann Þorvaldur.

Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur kom með flotta myndlíkingu um eldhúsverkin. Byggði á henni út ræðuna og kjarninn í hennar flutningi var að kjósa strax.

Benedikt Sigurðsson framkvæmdastjóri kom frá Akureyri og tók verðtrygginguna í bakaríið. Ég kaupi öll hans rök. Burt með verðtrygginguna.

Senuþjófurinn, Margrét Pétursdóttir, verkakona flutti glæsilegt ávarp. Hún talaði í slagorðum sem virkuðu vel. Hápunkturinn var þegar hún bað fólk um að standa upp úr sætum sínum. Allir fundarmenn stóðu upp, þó ekki allir í ríkisstjórninni. Síðan mælti hún frábær orð.  Eitthvað á þá leið að það væri ekki minna mál að standa upp úr stólum sínum.  Frábært og eftirminnilegt og áhrifaríkt fundarbragð.

Síðan var farið í spurningar og komu margar góðar spurningar fram hjá reiðum almenning. Ég var farinn að sárvorkenna ríkisstjórninni. Hún fékk það óþvegið. 28 þingmenn mættu til leiks og 8 ráðherrar.

Maður er nefndur Einar Már Guðmundsson. Hann kom upp á milli spurninga og þvílík ræða. Hún verður eflaust lesin árið 2100 og árið 3000.

Ég varð fyrir mestum vonbrigðum með Ingibjörg Sólrúnu. Hún var hrokafull. Hún vildi meina að þessir tvöþúsund manns sem mættu endurspegluðu ekki þjóðina. Það er ekki rétt, ef hún hefði lesið Fréttablaðið um helgina, þá vilja 70% þjóðarinnar ekki ríkisstjórnina. 


Fyrirbænir prestsins

Meira er sagt frá Skaftfellingum í bókinni Vadd' úti. Klerkurinn í Bjarnanesi, Eiríkur Helgason kemur við sögu en hann þróaði Hornafjarðarmannan milli þess er hann messaði. Grípum niður í frásögnina af fyrstu rannsóknarferðinni á Vatnajökul 1951.

 "Þá kom þar að Eiríkur Helgason, prestur í Bjarnanesi, skólabróðir Jóns Eyþórssonar. Hann flutti yfir okkur mikla tölu og bað fyrir ferðum okkar á jöklinum, að Guð almáttugur héldi verndarhendi yfir okkur og veður reyndust okkur hagstæð."

 Á öðrum degi brast á stórviðri sem stóð lengi.

"Þetta voru hryllilegir sólarhringar og ekki gæfuleg byrjun á leiðangrinum. Þegar mestu kviðurnar gengu yfir varð Jóni oft á orði að prestinum, skólabróður sínum hefði nú verið betra  að halda kjafti og að lítið hafi Guð almáttugur gert með orð prestsins."

Eftir 40 daga á víðáttum Vatnajökuls í rysjóttum veðrum hittust leiðangursmenn og klerkur:

"Farið var með allan leiðangursbúnaðinn til Hafnar í Hornafirði. Þegar þangað kom hittum við séra Eirík Helgason, sem hafði beðið fyrir ferð okkar á jökulinn og sérstaklega fyrir góðu veðri. Jón Eyþórsson sagði strax að fyrirbænir hans hafi komið að litlu liði.

Séra Eiríkur sagði okkur þá að fara varlega í að gera lítið úr þeirri blessun sem hann óskaði að fylgdi okkur. Ef hann hefði ekki beðið fyrir okkur hefðum við líklega drepist. Meðan við vorum á jöklinum hafði nefnilega gengið yfir landið eitt versta norðaustanbál sem menn höfðu kynnst á Íslandi."

Magnaður klerkur séra Eiríkur! - Niðurstöður leiðangursins sem Eiríkur blessaði, var: Meðalhæð Vatnajökuls er 1220 metrar, en meðalhæð undirlags jökulsins 800 metrar. Meðalþykkt jökulíss er því 420 metrar og flatarmál 8.390 ferkílómetrar. Ef allur ís Vatnajökuls bráðnaði myndi yfirborð sjávar um alla jörð hækka um 9 millimetra. Til samanburðar myndi sjávarborð hækka um 5,6 metra ef Grænlandsjökull færi sömu leið.

 


Náttúrulega

Nýlega lauk ég við bókina Vadd' úti, ævisögu Sigurjóns Rist. Það var skemmtileg lesning. Gaman að sjá sjónarhorn vatnamælingamannsins á rafvæðingu landsins. Einnig var fróðlegt að lesa söguna í kreppunni, en Sigurjón fæddist og ólst upp í kreppu. Mótaði hún hann alla tíð. Hann var mjög nýtinn og sparsamur. Góður ríkisstarfsmaður.

Margar góðar sögur eru í bókinni enda ferðaðist hann víða. Meðal annars vann hann með Austur-Skaftfellingum. Kvískerjabræður komu við sögu í fyrstu vísindaleiðangri á Vatnajökul.  Tek ég hér bút úr ævisögunni:

"Þegar við vorum að draga litla trékassa yfir lónið, sem voru aðskildir frá öðru dóti og sérstaklega vel gengið frá, spurðu bræður hvað væri í þessum kössum. Ég sagði að það væri sprengiefni. Þá sögðu þeir: Náttúrulega. Í farangrinum voru mörg skíði, þar á meðal mín. Þeir spurðu mig að því hvort ég væri mikill skíðamaður og sagði að ég teldi mig nú ekki mjög mikinn skíðamann. Náttúrulega, svöruðu bræður. Mér fannst þetta kyndugt, en kom mér þó ekki alveg á óvart. Jón Eyþórsson hafði bent mér á að orðanotkun Öræfinga væri stundum öðruvísi en hjá öðrum landsmönnum. Til dæmis segðu þeir ævinlega náttúrulega, þegar aðrir notuðu orðatiltækið; einmitt það!"

Sverrir Hermannsson fv. alþingismaður, sagði mér eitt sinn frá því að það hefði verið merkilegt að halda framboðsræður fyrir alþingiskosningar í Öræfum. Öræfingar hefðu helgið á allt öðrum stöðum í ræðunni en aðrir Austfirðingar. Og allir hefðu þeir hlegið sem einn.

Síðar í kaflanum er sagt frá heimsókn leiðangursmanna til Kvískerja:

"Eftir þessa ágætu máltíð [reyktan fýl í Fagurhólsmýri]  var farið austur að Kvískerjum og gist þar um nóttina. Þar var vel tekið á móti okkur. Frakkarnir ráku augun í pall sem gerður hafði verið úr rekavið til að gera við og smyrja bíla á. Þeir urðu skotnir í þessum palli og sáu sér leik á borði að smyrja víslana áður en haldið væri á jökulinn. Við leituðum eftir því hvort þeir mættu þetta. Hálfdán, sá bræðranna sem sá um bíla- og vélakost heimilisins, skoðaði víslana og lagði mat á þá og gaf síðan leyfið.

Við fengum oft að heyra það síðar hvað Frakkarnir voru hrifnir af þessu. Þarna hafi verið farið að meið miklu öryggi og engum asa. Hálfdán hafi vegið það og metið hvort pallurinn þyldi víslana, áður en hann veitti leyfið. Álit þeirra á Íslendingum óx töluvert við þessa prúðu og traustu framkomu."

Útrásarvíkingarnir hefðu átt að taka Hálfdán á Kvískerjum sér til fyrirmyndar. Vonandi mun næsta kynslón útrásarvíkinga gera það.

Kviskerjabræður

Kvískerjabræður, Hálfdán, Helgi og Sigurður.  Mynd fruma.is


Já, ráðherra

Íslenski sjávarútvegsráðherrann hitti svissneska kollega sinn og spurði hann af hverju Svisslendingar væru með sjávarútvegsráðherra það væri jú engin sjór í kringum Swiss.

Svissneski ráðherrann svaraði með annarri spurningu:

"Hvað eruð þið að gera með fjármálaráðherra ????"

Lýðræði hjá Arsenal

Geir hinn atgeirslausi ætti að taka sér Arséne Wenger til fyrirmyndar.  Bardagamaðurinn William Gallas brást trausti liðsins og var settur af fyrirliðaskrá og tekinn út úr hópnum. Þetta er stærri ákvörðun en að reka seðlabankastjóra. Það að vera fyrirliði í ensku liði er sérstök virðingarstaða enda Englendingar aldir upp við mikinn heraga.

Í dag kusu leikmenn Arsenal fyrirliða. Úrslit í kjörinu verða ljós fyrir leikinn á móti Manchester City á morgun.  Ekki kæmi mér á óvart að Fabregas fái flest atkvæði úr prófkjörinu.

Þessi breyting þjappar liðinu saman og ég er bjartsýnn á góð úrslit við stóra liðið í Manchester.


mbl.is Gallas sviptur fyrirliðastöðunni og verður ekki í hópnum á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 105
  • Frá upphafi: 236941

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 90
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband