17.1.2009 | 17:42
Mótmælafundur #15 á Austurvelli
Ég og Særún fórum niður í bæ í slyddunni og tókum þátt í mótmælum á Austurvelli. Það gekk illa að finna bílastæði við hafnarbakkann en eftir nokkuð hringsól fannst stæði. Það benti til þess að margir væru í miðbænum, Ríki Jakobs Frímanns.
Við misstum af upphituninni og ræðu hagfræðingsins Gylfa Magnússonar en náðum boðskap hinnar atvinnualausu Svanfríðar Önnu Lárusdóttir. Ekki urðum við vör við hinar Nýju raddir sem voru búnar að boða fund en vinur minn sýndi mér flotta mynd af Eiríki Stefánssyni, klæddum í sjógalla og með svart límband yfir strigakjaftinum. Eiríkur er mikill kvótaandstæðingur og hefur margt gott fram að færa en meðulin sem hann notar eru frekar óhefðbundin.
Margt fólk var á Austurvelli og mikið um börn með foreldrum. Á heimleiðinni gegnum við framhjá sjónvarpsfréttamönnum frá Sviss. Þeir höfðu mikinn áhuga á að ræða við Særúnu. Vildu fá að vita hverju hún væri að berjast fyrir. Hún er ósátt við allar skuldirnar sem skrifaðar hafa verið á hana, án hennar leyfis. Stelpunni minni gekk illa að skilja sjónvarpsfólkið og því næst svifu þau á mig. Þau spurðu mig hvort bankahrunið hefði haft áhrif á hag minn. Ég játti því og sagði að það hefði áhrif á alla. Þvínæst spurðu þau hverju við værum að berjast fyrir. Ég sagðist vona að við lifðum þetta af. Við viljum breytingar rétt eins og Obama. Ég var kurteis og sparaði stóru slagorðin. Á heimleiðinni sá ég eftir að hafa ekki verð herskárri. Við verðum eflaust klippt út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2009 | 17:18
Davíð til Vanúatú
Á Borgarafundinum í Háskólabíó sl. mánudag fór breski hagfræðingurinn Robert Wade á kostum. Hann flutti mjög áhugavert erindi, kom með óhuggulega spá um aðra kreppu í vor, og var með lausnir. Hann skaut ýmsum fróðleik á milli skrifaðs texta í ræðunni og nefndi góð dæmi. Eitt dæmið hreif fundarmenn alla svo vel að þeir risu upp úr sætum sínum og klöppuðu af hrifningu. Þá var hann að fjalla um seðlabankastjóra núverandi og hvar hann væri best niðurkominn. Tillaga Wade var sú að gera hann að sendiherra á eyjunni Vanúatu.
En er þessi eyja til og hvar er hún?
Vanúatú er 1,750 km norðaustan við Ástralínu, í suður-kyrrahafi. Vanúatú hlaut sjálfstæði og varð lýðveldi árið 1980. Það samanstendur af 80 eyjum, sem áður hétu Nýju Hebrídeyjar, og tilheyrðu áður Bretlandi og Frakklandi. Búið er á 65 þessara eyja. Íbúafjöldi er liðlega 215 þúsund. Höfuðborgin heitir Port-Vila.
Tveir þriðju íbúa Vanúatú lifa af kotbúskap en fiskveiðar, ferðaþjónusta og erlend bankaþjónusta eru vaxandi gjaldeyrislind.
Geir Haarde, í fjarverðu Davíðs utanríkisráðherra skrifaði undir yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands fyrir Íslands í september 2004. Þeir félagar eiga því að þekkja vel til eyjarinnar.
Vanúatú og Ísland eiga margt sameiginlegt. Því ætti Davíð að getað fundið sig vel á kyrrahafseyjunni.
Heimildir:
http://en.wikipedia.org/wiki/Vanuatu
http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/2369
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.1.2009 kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2009 | 20:56
Helgafell (340 m)
Það var fallegur dagur í dag. Fyrir nokkru var búið að ákveða gönguferð á Esju en hún var blásin af. Í staðin ákvað fjölskyldan að halda á Helgafell (340 m) við Kaldárbotna. Eftir að pönnukökur höfðu verið bakaðar var haldið í fellagönguna.
Það var lítilsháttar snjór í Helgafelli en hraunin í kring marauð. Ari litli var duglegur að ganga upp fellið með göngustafina og fór ótroðnar slóðir. Oftast beint af augum, erfiðustu leið. Á leiðinni upp var falleg birta. Snjór litaði móbergið hvítt í fellinu, svört hraun og falleg birta yfir borginni en kólgubakkar nálguðust. Nágrannafellin, Húsfell og Valahnúkar skáru sig úr og fylgdust með uppgöngunni. Mægðurnar Særún og Jóhanna Marína voru aðeins á undan okkur strákunum á toppinn. Mikil umferð göngufólks var á fellið. Skemmtileg gönguferð sem tók 2 tíma og 17 mínútur.
Þegar toppinn var komið voru nöfn skráð í nýja gestabók og nýbakaðar pönnukökur snæddar. Ari var ekki sáttur við að fá kaldar pönnukökur og mótmælti því með að fara í hungurverkfall.
Við komum að bílnum við víggirta Kaldárbotna, vatnsból Hafnfirðinga, tuttugu mínútum fyrir fimm, en skömmu síðar skoruðu Arsenal sigurmarkið gegn Bolton. Ari taldi að hann hefði sent afgangsorkuna yfir hafið. "Hjúkk, að ég komst", mælti sá stutti.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2009 | 10:37
Kjósum Vatnajökul
Vatnajökull er i framboði í atkvæðagreiðslu um sjö ný náttúruundur í heiminum. Vatnajökull er eini fulltrúi Íslands. Í boði eru 261 staður, og stórkostlegt að vera í þeim hópi. 77 efstu komast áfram i aðra umferð. Kjörfundi lýkur 7. júlí.
Farið á www.new7wonders.com
eða styðjið hér, kjósum Vatnajökul.
Veljið heimsálfu og náttúruundur. Hér er minn atkvæðaseðill. Ég valdi einn fulltrúa frá hverri heimsálfu. Það var fróðlegt að fara í gegnum listann og maður á eftir að ferðast mikið. Nóg er til af merkilegum stöðum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2009 | 22:04
Epísk Ástralía ****
Ég hef undanfarið verði nokkrum sinnum verið spurður að því hvað epísk mynd sé en kvikmyndin Ástralía, eftir Baz Luhrmann með Nicole Kidman, Hugh Jackman og Brandon Walters, hefur verið auglýst sem epísk mynd. Ég reyndi að útskýra fyrirbærið en eftir að hafa legið í kvöld yfir skilgreiningum á epík, þá sé ég að ég hef ekki verið nógu nákvæmur.
Í Íslensku alfæðiorðabókinni er epík skilgreind eftirfarandi: "frásagnarskáldskapur: allur skáldskapur sem hefur að geyma frásögn, jafnt í bundnu máli sem óbundnu; ein af þremur höfuðgreinum bókmennta ásamt lýrik og leikritun". Með öðrum orðum: Epísk frásögn er t.d. saga sem hefur upphaf, meginmál eða söguþráð og enda. Eitthvað hefðbundið söguform. Epík er dregið af gríska orðinu epos en frummerking þess er "það sem sagt er"
Aðrar skilgreiningar á epískum myndum sem ekki eru réttar, eru að þær séu langar, yfir tveir tímar eða þær séu gamlar myndir. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á breska leikstjórann David Lean (1908-1991) er epísk stórmynd. Hann var meistari þessa mikilfenglega forms og nokkrar slíkra mynda hans eru með því besta sem gert hefur verið á þessu sviði frá upphafi. Hringadróttinssögu-þríleikurinn sannar að nútíma kvikmyndagerðarmenn geta vel gert stórmyndir af því tagi og voru algengar hér áður fyrr.
En snúum okkur að epísku myndinni Ástralíu. Þetta er stórmynd í anda Gone With the Wind. Sögusviðið er víðátta Ástralíu. Inn í söguna fléttist uppgjör við frumbyggja Ástralíu, rekstur 1.500 nautgripa í kappi við tímann, árás frá Japönum í seinna heimsstríði og ástarsaga. Einn skúrkur er svo með til að fullkomna kokteilinn.
Kvikmyndataka er mjög góð, hver rammi úthugsaður. Landkynningarmynd fyrir alla fjölskylduna. Stór hluti er þó tekinn í kvikmyndaveri og hafa líklega sömu aðilar verið að verki og gerðu tölvugrafíkina í Flags of our Fathes og Letters from Iwo Jima.
Magnaðasta atriði myndarinnar var þó þegar nautin fimmtánhundruð ruddust af stað og stefndu fram af bröttum hömrunum. Ég var skyndilega kominn upp á Morinsheiði með Heiðarhorn framundan eftir göngu yfir Fimmvörðuháls. Magnað atriði og gott ef ég fann ekki fyrir lofthræðslu.
Nú er bara að sjá hvort maður nái að lifa að sjá epísku myndina Ísland sem Balti eða einhver góður íslenskur leikstjóri framleiðir. Það kæmu saman víkingar, bankahrun, síldarævintýr og ástarævintýri í óbyggðum.
3.1.2009 | 22:07
Skytturnar lögðu Græna herinn
Hann varðist vel Græni herinn á iðjagrænum Emirates gegn Skyttunum. Fyrstu orrusturnar gengu ágætlega hjá þeim grænu en stríðið tapaðist, 3-1. Þeir grænklæddu, eða stuðningsmenn þeirra, bera nafnið The Green Army. Er sá litur góður í baráttu fyrir grænum gildum, en ekki er hann góður fyrir knattspyrnulið. Einungis tvö lið á Englandi eiga græna búninga. Breiðablik hefur þó fylgt í spor þeirra en aldrei náð að verða annað en efnilegir, þó með nokkrum undantekningum í kvennaknattspyrnunni. Ég sá á síðasta ári leik Barcelona og Levante. Þeir síðarnefndu voru í algrænum búningum og gekk mér illa að sjá leikmenn á vellinum. Mér er minnisstætt eitt sinn er löng sending kom út á vænginn. Hræðileg sending hugaði ég. Skyndilega fór boltinn að ferðast hornrétt á fyrri stefnu og ég ekki búinn að drekka neinn bjór. Var þar vængmaður Levante að geystast upp kantinn! Leikkerfi sem minnti á skæruhernað.
Það er gaman að upplifa söguna í gegnum ensku knattspyrnuna. Í merki Arsenal er fallbyssa sem hefur tengingu í Búastríðin í S-Afríku. Í merki Plymouth Argyle er þrímastra seglskip, Mayflower en það flutti 102 púrítana, pílagrímsfeðurna, frá Plymouth á suðvesturströnd Englands til Massachusetts í N-Ameríku 1620. Þeir stofnuðu fyrstu eiginlegu nýlenduna í Nýja-Englandi. Því hefur Plymouth annað gælunafn, The Pilgrims.
Sagan tengist íslenskum íþróttaliðum, þó ekki eins og hjá Bretum. Helst fornsögur. Á Hofsósi er Vesturfarasetur og Ungmennafélagið Neisti. Væru enskar hefðir viðhafðar, þá gætu stuðnigsmenn Neista, kennt sig við Vesturfarana. Hvernig væri það?
En við Arsenal fögnum því að vera komnir í 32 liða úrslit í Ensku bikarkeppninni, frægustu, elstu og virtustu keppni heims. Milljónalið Manchester City og stuðningsmenn þess geta ekki fagnað því í kvöld.
![]() |
Nottingham Forest skellti City - Southend náði jöfnu gegn Chelsea |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2008 | 23:21
Furðuverur á flugeldasýningu
Það var fjölmenni við Perluna kl. 19 í kvöld er árleg flugeldasýning björgunarsveitanna í Reykjavík hófst. Sýningin var glæsileg en í styttri kantinum að okkar mati. Hún stóð yfir í sjö mínútur í mildu veðri. Furðuverur voru í Öskjuhlíðinni, jólasveinar, álfar og álkarlar. Það tók okkur svo 25 mínútur að komast frá þeim.

Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2008 | 16:10
Erfið fæðing hjá Arsenal
Þetta er erfið fæðing hjá Arsenal gegn Tony Adams og félögum. David James hefur gert mikið til að auðvelda fæðinguna á þrem stigum með tveim mistökum en færin hafa ekki verið nýtt. Loks kom að því, vígamaðurinn Gallas skellti sér í sóknina og mark. Fyrir akkúrat þrem árum spiluðu þessi sömu lið og hafði Arsenal 4-0 sigur. Létt fæðing.
Meðan leikurinn rúllaði í gegn, þá dundaði ég mér við að athuga hvort stigin á fyrri hluta keppnistímabils væru þau fæstu síðan Wenger tók við. Hér eru niðurstöðurnar eftir 19. leiki.
Stig
2008/09 32
2007/08 43
2006/07 33
2005/06 33
2004/05 41
2003/04 45 meistarar
2002/03 39
2001/02 36 meistarar
2000/01 35
1999/00 42
1998/99 32
1997/98 34 meistarar
1996/97 36
Eins og sést, þá er stigafjöldinn í ár með því minnsta, þó ekki afburðalélegur árgangur. Liðið hefur oft átt slæman nóvember en hrokkið í gang með hækkandi sól. Því er ekki öll nótt úti en með að tímabilið endi með stæl, þó fæðingarnar séu erfiðari.
![]() |
Chelsea missti dýrmæt stig gegn Fulham |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.12.2008 | 13:19
Stórbrotin þjónusta hjá Canon og Beco
Fyrir fjórum árum keyptum við stafræna Canon A70 myndavél sem fjölskyldan nýtti til brúks. Fyrir nokkru hætti vélin að virka. Þegar kveikt var á henni kom svartur skjár og svartar myndir skrifuðust á diskinn. Vélin var komin úr ábyrgð og mikið myndefni framundan. Ég leitaði á Netinu og fann færslur um þetta vandamál í vélunum. Ég hafði samband við Nýherja en þeir hafa umboð fyrir Canon hér á landi. Þeir svöruðu fljótt og bentu mér á að hafa samband við Beco. En Beco sér um viðhald á Canon vélunum. Ég gerði það og fékk strax jákvæðar viðtökur. Vandamálinu var lýst og bent á hvenær myndavélin var keypt. Viðgerðarmaður Beco bað mig að koma með gripinn. Ef þetta væri skjáflagan, þá fengi ég tjónið bætt, annars borgaði það sig varla að gera við gripinn. Nokkuð dæmigert svar.
Farrið var með myndavélina til Beco og símanúmer tekin niður. Okkur var farið að lengja eftir svari en á Þorláksmessu hringdi síminn. Það var komin lausn. Hún var sú að þetta væri galli í skjáflögu sem þriðji aðili framleiddi. Við gætum fengið nýja myndavél, Canon A470 í staðin. Mér fannst þetta stórbrotin þjónusta hjá Canon og Beco. Maður er ekki svikin á því að eiga þessi merki að. Þetta kallast á gæðamáli að standa við að uppfylla væntingar viðskiptavina.
Hugurinn hvarflaði aftur í tímann. Ég tók langan tíma í ákvörðun um myndavélakaup þegar ég var 15 ára. Canon AE-1 varð fyrir valinu. Það varð að vanda valið. Öll sumarhýran sem safnaðist úr byggingarvinnu hjá Guðmundi Jónssyni, það sumar fór í myndavélina. Hún hefur fylgt mér síðan. Ég sé ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun með Canon. Allavegana ekki í dag. Ég hvet fólk til að verzla Canon vörur. Þær eru góðar, Canon er leiðandi á sínu sviði og þjónustan mögnuð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.12.2008 | 15:46
Myrkárdagur
Nú er ég að lesa metsölubókina Myrká eftir Arnald Indriðason. Líklega eru 30 þúsund Íslendingar í sömu sporum og ég í dag, 10% þjóðarinnar, að hjálpa Elínborgu að leysa morðgátuna um símvirkjann Runólf og nauðgunarlyf hans. Ég er búinn að lesa tvo þriðju bókarinnar og það er komin ansi góð mynd á atburði helgarinnar. Hringurinn farinn að þrengjast, mun fljótlegra en ég bjóst við. Morðinginn er ekki fundinn en ég held að ég sé búinn að finna þann seka.
Erlendur er í leyfi á Austurlandi og rannsóknarlögreglan Elínborg kynnt fyrir okkur. Lesendur kynnast fjölskyldu hennar og virðist fjölskyldulíf rannsóknarmanna og kvenna vera mikilvægur þráður í íslenskum glæpasögum. Arnaldur notar fjölskyldumeðlimi óspart til að kalla fram mótvægi við aðrar persónur í sögunni sem oftast liggja undir grun. Það er fróðlegt að fylgjast með bloggaranum Valþóri, uppreisnarsömum unglingi á heimilinu. Hann bloggar eins og við hér á blog.is, segir frá leyndarmálum fjölskyldunnar og opinskár samskiptum við kærustur. En Runólfur heitinn bloggaði ekki.
Ég hlakka til kvöldsins og hlakka til að sjá sögulok. Vona að Arnaldur nái ekki að leika á mig á endasprettinum.
Bækur | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.7.): 6
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 95
- Frá upphafi: 236912
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 83
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar