Hólárjökull 2011

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 24. ágúst 2011.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fimm ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

   Hólárjökull06

   Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólarjökull 2011

 Hólárjökull, 24. ágúst 2011. Augljós rýrnun á 5 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/


Síldarmannagötur

Lúxussíld frá ORA smakkast hvergi betur en í Síldarmannabrekkum. Það get ég staðfest og ekki er verra að hafa síldina á nýbökuðu rúgbrauði. Þegar síldinni er rennt niður þá er gott að hugsa aftur í tímann og minnast ferða forfeðranna og lífsbaráttu þeirra við síldveiðar í Hvalfirði.

Síldarmannagötur er þjóðleið, vestri leiðin yfir Botnsheiði sem Borgfirðingar notuðu til að komast  í Hvalfjörð til að veiða og nytja síld, þegar síldarhlaup komu í Hvalfjörð.

Lagt var í ferðina á rútu frá Sæmundi sem er frá Borgarfirði. Gönguferðin um Síldarmannagötur hófst í Botnsvogi í Hvalfirði en búið er að hlaða glæsilega vörðu við upphaf eða enda leiðarinnar og voldugur vegvísir bendir á götuna.

Fyrst er farið upp Síldarmannabrekkur og hlykkjast gatan upp vel varðaða brekkuna. Eftir um klukkutíma göngu og 3,2 km að baki er komið í Reiðskarð sem er á brún fjallsins. Þá blasir við mikil útsýn. Hvalfell og Botnssúlur fanga augað í austri. Múlafjall og Hvalfjörður í suðri og miklar örnefnaríkar víðáttur í austri og norðri.

Við fylgjum Bláskeggsá hluta leiðarinnar en hún er vatnslítil og göngum framhjá Þyrilstjörn á leiðinni um Botnsheiði. 

Hæsti hluti leiðarinnar er við Tvívörðuhæðir en þá sér í aðeins Hvalvatn hið djúpa. Göngumenn eru þá komnir í 487 metra hæð en fjallahringurinn er stórbrotinn. Tvívörðuhæðir eru vatnaskil og gönguskil. Þá tekur að halla undan fæti og ný þekkt fjöll fanga augun.

Okið, Fanntófell, Þórisjökull, Litla og Stóra Björnsfell, Skjaldbreiður og Kvígindisfell raða sér upp í norðaustri og Þverfell er áberandi.  Einnig sést yfir til Englands með Englandsháls og Kúpu í framenda Skorradals.

Rafmagnslínur tvær birtast eins og steinrunnin tröll á heiðinni, Sultartangalína kallast hún og sér bræðslunum Grundartanga fyrir orku.

Mikil berjaspretta var í  grónni hlíð´fyrir ofan bæinn Vatnshorn. Í 266 metra hæð var varla hægt að setjast niður án þess að sprengja á sitjandanum krækiber og bláber.

Hefðbundin endir er við grjótgarð beint upp af eyðibýlinu Vatnshorni og sú leið 12,6 km en við förum yfir Fitjaá og enduðum við kirkjustaðinn Fitjar en þar er glæsileg gistiaðstaða og aðstaða fyrir listamenn.

Jónas Guðmundsson tók myndir af göngugörpum.

Hér er tæplega 5 mínútna myndband um Síldarmannagöngur og er það hýst á Youtube.

Dagsetning: 4. september 2011
Hæsta gönguhæð: 487 m, nálægt Tvívörðuhæð (N:64.26.095 - W:21.20.982)
Hæð Tvívörðuhæðar: 496 metrar
Hæð í göngubyrjun:  35 metrar við vörðu og vegvísi í Botnsvog í Hvalfirði, (N:64.23.252 - W:21.21.579)
Hækkun: Um 452 metrar          
Uppgöngutími Tvívörðuhæð: 170 mín (10:40 - 13:30) - 8,2 km
Heildargöngutími: 360 mínútur (10:40 - 16:40) endað við Fitjar
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd:  16,2 km
Veður kl. 12 Botnsheiði: Léttskýjað, NV 6 m/s, 7,2 °C. Raki 90%
Veður kl. 15 Botnsheiði: Léttskýjað, N 5 m/s, 8,5 °C. Raki 82%
Þátttakendur: Útivist, 40 þátttakendur í dagsferð, Fararstjóri Ingvi Stígsson 
GSM samband:  Já, en fékk á köflum aðeins neyðarnúmer

Gönguleiðalýsing: Vel vörðuð leið frá Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan er brött beggja vegna en létt undir fæti þegar upp er komið.

Facebook staða: Yndislegur dagur, get hakað við Síldarmannagötur. Dásamlegur dagur með Útivistarfólki, eintóm sól og sæla. Takk fyrir mig! Er afar þakklát fyrir þennan dýrðardag.

Facebook staða
: Frábær dagsferð með Útivist í dag um Síladarmannagötur. Góð fararstjórn, skemmtilegir ferðafélagar og ekki skemmdi nú veðrið fyrir alveg geggjað og útsýni til óteljandi fallegra tinda. Get sko mælt með þessari fallegu og þægilegu gönguleið.

Vatnshorn

Vatnshorn er merkilegur bær, þar er upphaf eða endir Síldarmannagötu. Bugðótt Fitjaá rennur í Skorradalsvatn. Góð berjaspretta sem tafði göngumenn.

Þótti mér betur farið en heima setið. Lýkur þar að segja frá Síldarmannagötu.

Heimildir:
Environice - http://www.environice.is/default.asp?sid_id=33463&tId=1
Ferlir - http://www.ferlir.is/?id=4277
Skorradalshreppur - http://www.skorradalur.is/um-skorradal/sildarmannagotur/


Veikleiki í þráðlausum netum

Bloggarinn og forritarinn frá Hollandi,  Nick Kursters er orðinn þekktur fyrir að brjóta upp algrímið fyrir þráðlausa beina. Ein vinsælasta greinin sem hann hefur skrifað er um hvernig hægt er að finna út WPA-lykilorð fyrir Thompson SpeedTouch beina en þeir eru mjög algengir hér á landi. Á bloggsíðu Nick's er hægt að framkvæma leit að WPA lykilorði ef SSID-númer beinis er þekkt.

Hugmynd Thompson-manna var að útbúa sérstakt algrím til að útbúa sérstakt lykilorð fyrir hvern beini (router).  Bæði SSID nafn beinis og WPA-lykilorð eru á límmiða neðst á tækinu.  SSID stendur fyrir Service Set IDentifier eða nafn á staðarneti.

Áður en lengra er haldið er eflaust ágætt að skilgreina skammstafanirnar. WPA/WPA2 er öflug dulkóðun sem byggir á breytanlegum lyklum. WPA2 er sterkust, mun öflugri dulkóðun en WEP.

Hættan er sú að þriðji aðili komist inn á þráðlausa staðarnetið, nýtt sér öryggisholuna, og geti notað tenginguna til að hlaða niður ólöglegu efni eða hlera samskipti. Öll notkun gegnum þráðlaust net verður rakin til IP-númers eiganda þráðlausa netsins jafnvel þótt hann eigi ekki hlut að máli. Í slíkum tilfellum getur hann lent í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að afsanna óæskilegt athæfi

Lausn er að breyta sjálfgefni uppsetningu beinisins. 

Síminn er með góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að breyta uppsetningunni.  Einnig er góð regla að slökkva á beini þegar hann er ekki í notkun.

Á vefnum netoryggi.is eru góðar leiðbeiningar um notkun þráðlausra staðarneta.

Hér er mynd af leitaniðurstöðunni á vefnum hjá Nick Kusters. Fyrst er slegið inn SSID númer SpeedTouch beinisins, sex síðustu stafirnir í heitinu eru notaðir. Síðan skilar leitin niðurstöðunni. Neðsta röðin gildir fyrir beininn sem flett var upp.

WPA

Hér koma þrjár niðurstöður úr leitinni. Fyrst SSID er þekkt, þá er hægt að finna úr raðnúmer beinisins og reikna út WPA2 lykilinn.

Þetta eru ekki flókin fræði sem þarf til að komast inn í þráðlaus samskipti. Því þarf notandi ávallt að vera vel á verði. En mig grunar að allt of mörg þráðlaus staðarnet séu óvarin hér á landi.

 


Ingólfsfjall (551 m)

Oft hefur maður keyrt undir Ingólfsfjalli og nú var kominn tími á að koma því í fjallasafnið.

Ingólfsfjall er móbegsfjall í Ölfusi og hefur áður fyrr gengið sem múli fram í hafið, en þá hefur undirlendið allt verið undir sjó. Það er bratt á þrjá vegu, í vestur, austur og suður.  Við ákváðum að fara vinsælustu leiðina, frá suðri.

Gengið upp frá Þórustaðanámu en meðfram bratta veginum sem liggur upp á fjallið.
Þegar komið er upp á brún tekur á móti göngufólki varða með gestabók frá Ferðafélagi Árnesinga. Höfðu margir kvittað fyrir sig um daginn og er ganga að brún Ingólfsfjall eflaust vinsæl heilsurækt hjá íbúum á Suðurlandi.

Eftir skriftir var stefnan tekin norður á Stórhæð en þar eru Gráhóll (492 m) og Digrihóll. En einnig er mögulegt að taka hringleið eftir brúnum fjallsins.

Þegar upp á hæðina er komið sér yfir á Inghól, sem er gígtappi en sagan segir að fyrsti landnmámsmaðurinn, Ingólfur Arnarsson sé heygður þar og einn sumardag opnist hóllinn og sjá menn þá allt það sem honum fylgdi í andlátið.

Ekki opnaðist hóllinn þetta ágústkvöld.

Eftir nokkra göngu á mosagrónum melum komum við að rafmagnsgirðingu á fjallinu en hún tengist landamerkjum Ölfusar og Árborgar. Einnig Alviðru, bæ austan við Ingólfsfjall sem hýsir umhverfis- og fræðslusetur Landverndar.

Það var merkilegt að ganga inn um hlið á toppi Ingólfsfjalls.

Gönguferð á Ingólfsfjallið minnir á gönguferð á nokkra íslenska jökla, það er víðáttumikið og flatvaxið og tekur fjallið til sín útsýni en ef gengið er með brúnum þá er útsýni allgott. Það er mun meira landslag í Ingólfsfjalli en maður gerir sér grein fyrir þegar ferðast er í bíl undir fjallinu. 

Í austri sást móta fyrir dökkum Eyjafjallajökli og Þríhyrningi. Vestmannaeyjar eru glæsilegar í hafi í suðaustri. Hellisheiði í vestri skemmtileg í rökkrinu. Skálafellið og þorpin, Hveragerði, Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri eru góðir nágrannar.

Dagsetning: 16. ágúst 2011
Hæð hæðarpunkts og vörðu: 551 metrar
Hæð í göngubyrjun:  Um 50 metrar við Þórustaðanámu
Hækkun: Um 500 metrar         
Uppgöngutími varða m/gestabók:   50 mín (19:40 - 20:30)

Uppgöngutími Inghóll: 110 mín (19.40 - 21:30) 
Heildargöngutími: 180 mínútur  (19:40 - 22:40)
Erfiðleikastig: 2 skór
Vegalengd (hringurinn):  um 8 km
Veður kl. 21 Lyngdalsheiði: Léttskýjað, NA 5 m/s, 11,0 gráður. Raki 60%, veghiti 15,3 °C
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 göngumenn
Gönguleiðalýsing: Drjúglöng en létt ganga á sögufrægt fjall

Malarnám

Sárið í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli æpir á mann. En hann er brattur vegurinn og ekki fyrir hvern sem er að aka hann. Námumenn hljóta að hafa góðan bónus fyrir ferðirnar, sérstaklega er niðurleiðin brött og hrikaleg fyrir tæki.

Gestabók á Ingólfsfjalli

Kvittað fyrir komu á Ingólfsfjal. Það sér til Vestmanneyja í suðaustri.

Inghóll girðing

Nýleg rafmagnsgirðing er á fjallinu og er einfaldast fyrir göngumenn að fylgja henni. Við Inghól er hlið. Það er mjög merkileg upplifun að opna og loka hliði á fjallstoppi.

InghóllGígtappinn Inghóll úr grágrýti. Hann var viðmið sjófarenda. Ölfursárósar og Þorlákshöfn eru á vinstri hönd.

Heimildir:
Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind

Ferlir.is - http://www.ferlir.is/?id=3954
 


Reykjafell í Mosfellsbæ (269 m)

Reykjafell eða Reykjafjall eins og Reykjabændur kalla það er áberandi og miðsvæðis. Það er fyrir austan Mosfellsbæ, ofan við Skammadal og Reykjahverfið. Þaðan er víðsýni til allra átta og því var staðsett á Reykjafelli varðstöð hernámsliðsins á styrjaldarárunum. Reykjafell er nokkuð víðáttunikið. Gróið vel neðantil en hálendisjurtir vaxa uppi á hábungunni. Reykjafell er 269 m. Hægt er að ganga á það úr öllum áttum. Til dæmis frá Suður–Reykjum í Reykjahverfi og frá Dalsrétt í Helgadal.
  

Alls keifuðu um 50 manns upp Reykjafellið. Er þangað var komið sást vel yfir vel gróinn Mosfellsbæ og fellin og fjöllin í nágrenni hans. Einn gangráðurinn í Útivistarræktarhópnum sýndi göngumönnum göngukort- Gönguleiðir í Mosfellsbæ sem Mosfellsbær og Skátafélagið Mosverjar hafa gefið út. Þar er gönguleiðum, um 70 km alls lýst. Frábært framtak hjá þessum aðilum.

Við fylgdum kortinu, gengum frá toppnum að Einbúa og þaðan að Varmá. Gönguleið var vel stikuð og glæsilegir vegprestar með nákvæmum  göngulengdum gáfu góðar upplýsingar.

Dagsetning: 10. ágúst 2011
Hæð hæðarpunkts og vörðu: 269 metrar
Hæð í göngubyrjun:  61 metrar við Syðri-Reyki, (N:64.09.730 - W:21.42.654)
Hækkun: Um 208 metrar          
Uppgöngutími varða:   40 mín (18:55 - 19:35) - 1,5 km
Heildargöngutími: 120 mínútur  (18:55 - 20:55)
Erfiðleikastig: 2 skór
GPS-hnit varða:   N:64.09.783 - W:21.42.321
Vegalengd (hringurinn):  um 6 km
Veður kl. 19 Reykjavík: Léttskýjað, VNV 3 m/s, 12,7 gráður. Raki 79%, skyggni 40 km
Þátttakendur: Útivistarræktin, um 50 þátttakendur   
GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing
: Gengið frá Syðri-Reykjum áleiðis inn Skammadal og síðan beint eftir stikaðri leið til austurs upp nokkuð brattar  vesturhlíðar fjallsins. Þá er komið beint á hæstu bungu Reykjafells.

Facebook staða: fín ganga á Reykjafellið í kvöld í blíðunni, fórum aðra leið en ég hef farið áður. Flott framtak hjá Mosfellsbæ og félagasamtökum í bænum að stika gönguleiðir og gefa út kort... margar skemmtilegar gönguleiðir þar.

Með þessari skemmtilegu göngu enduðu náði ég að fara á öll sjö fell Mosfellsbæjar og loka einu fellasafni. Hér fyrir neðan eru fellin listuð upp eftir hæð.

Fell eða fjall

Hæð (m)

Uppganga

Nafn

Grímannsfell

484

15. nóvember 2009

Stórhóll

Úlfarsfell

296

12. maí 2002

Stórihnúkur

Mosfell

276

8. janúar 2011

 

Reykjafell

269

10. ágúst 2011

Reykjafjall

Æsustaðafjall

220

27. desember 2009

 

Helgafell

216

8. maí 2008

 

Lágafell

123

9. ágúst 2011

 



Varmá

Hluti göngufólks settist niður og nærðist við Varmá.

Einbúinn

Stefnan tekin á Einbúa en í heimstyrjöldinni síðari fórust tvær flugvélar í nágrenni hans af völdum veðurs. Hægt var að krækja sér í bláber á leiðinni en sprettan er minni en í fyrra.


Heimildir:
www.mos.is


Brött byrjun Arsenal

125crest

Mér líður líklega eins og belju sem sleppt er út úr fjósi á vorin þegar Enski boltinn fer að rúlla. Það er alltaf eitthvað spennandi í loftinu.

Byrjunin hjá Arsenal í ágúst á 125 ára afmælisári er brött. Þrír stórleikir í úrvalsdeildinni og tveir mikilvægir við Udinesse í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Opnunarleikurinn verður á hinum stórmagnaða leikvangi St. James Park í Newcastle. Þar mætir Toon Army Skyttunum.
Kíkjum á úrslit síðasta árs á móti sömu liðum.

05.02.2011 Newcastle - Arsenal 4-4  (Barton 68 (pen), 82 (pen), Best 75, Tiote 87 - Walcott 1, Djourou 3, van Persie 10, 26)
17.04.2011 Arsenal - Liverpool 1-1  (Persie 90 - Kuyt 90)
13.12.2010 Man. Utd - Arsenal  1-0  (Park 40)

Allt sögulegir leikir á síðasta leiktímabili, sem mikið hefur verð fjallað um. Tvö stig var uppskeran sem er heldur rýrt.

Eins og sést, þá tapaði Arsenal niður fjögurra marka forystu á móti Newcastle og hafði komist í 3-0 eftir 10 mínútur. Voru margir stuðniningsmenn Toon Army farnir heim en í byrjun síðari hálfleiks tókst Joey Barton að æsa Diaby upp og flaug hann útaf á 50. mínútu. Má segja að þarna hafi einn snúningspunkturinn orðið á síðasta keppnistímabili.
Fjögur Skjóramörk fylgdu í kjölfarið. Skjórarnir skutust því nær óskaddaður undan skyttunum.

Fyrr á tímabilinu áttust liðin við í Carling Cup og lagði Arsenal heimamenn að velli 0-4.
Ætli fjögur Arsenal-mörk líti dagsins ljós í dag?

Líklegt byrjunarlið Arsenal:
         13. Wojciech Szczesny
3. Sagna 5. Vermalen 6. Koscielny 28. Gibbs
17. Song   19. Wilshere  16. Ramsey
14. Walcott      10. Persie 23. Arshavin

Síðan koma Gervinho og Rosicky á kantana á 65. mínútu. Það verður gaman að fylgjast með nýliðanum og vonandi setur hann mark sitt á leikinn.

Markmiðið fyrir ágúst er að tryggja sæti í Meistaradeildinni og tapa ekki leik í úrvalsdeildinni og finna góðan dvaldarstað fyrir Fabregas og Nasri, það er ágætis byrjun.

Ekki er raunhæft hjá Arsenal í umbreytingaferli að setja stefnuna á sigur í Úrvalsdeildinni en það eru fleiri verðalunagripir í boði og styttri leið að þeim.  Birmingham gat t.d. náð í einn á síðasta tímabili.

Nú tekur maður Carlsberg bjórinn í sátt og skálar í botn, en  Carlsberg er opinber bjór á Emiratdes. Gleðilega knattspyrnuveislu.


Lágafell í Mosfellsbæ (123 m)

Þegar landslagsarkitektinn skapaði fellin í Mosfellsbæ ákvað hann að hafa eitt lítið og nett fell til að skapa andstæður í landslaginu. Hefur það lága fell fengið nafnið Lágafell.

Lágafell á nokkra sögu. Þar stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) síðustu æviár sín og stendur hús hans enn.

Einnig var mikil fjöldi hermanna sem bjó í bröggum við rætur Lágafells. Öll ummerki eru horfin en hægt er að finna ummerki eftir loftvarnarvirki stríðsáranna.

Fellin sjö í Mosfellsbæ eru: Helgafell, Mosfell, Reykjafell, Úlfarsfell, Æsustaðafjall, Grímarsfell og Lágafell. Það er því hægt að setja sér markmið, ganga á öll fellin á ákveðnum tíma.

Ganga á Lágafell er því ekki mikil þolraun og rakin fjölskylduganga. Einfaldast er að keyra að Lágafellskirkju og ganga þaðan. Þegar upp á fyrstu hæð er komið, sést að fellið er  með þrjá hóla. Á miðhólnum er varða og hæsti punktur, 123 metrar.

Útsýni er fínt yfir Mosfellsbæ og höfuðborgina. Einnig sjást hin Mosfellsbæjarfellin vel og nágranninn Esjan í norðri. Allt Snæfellsnesið sást og snjólítill Snæfellsjökull í vestri.

Annað Lágafell (539 m) er til hér á landi og er það norðanaustan við Ármannsfell í  Bláskógabyggð.

Dagsetning: 9. ágúst 2011
Hæð Lágafellsvörðu: 123 metrar
Hæð í göngubyrjun:  88 metrar, Lágafellskirkja, (N:64.09.730 - W:21.42.654)
Hækkun: Um 53 metrar          
Uppgöngutími varða:   10 mín (16:50 - 17:00)
Heildargöngutími: 20 mínútur  (16:50 - 17:10)
Erfiðleikastig: 1 skór
GPS-hnit varða:   N:64.09.783 - W:21.42.321
Vegalengd:  um 2 km
Veður kl. 18 Reykjavík: Heiðskýrt, A 3 m/s, 14,2 gráður. Raki 65%, skyggni 70 km
Þátttakendur: Fjölskylduferð, 4 þátttakendur   
GSM samband:  Já

Gönguleiðalýsing: Gengið frá bílastæðinu við Lágafellskirkju, beint í norður upp á hæð. Þaðan er flott útsýni yfir Mosfellsbæ. Síðan stutt ganga að vörðu í austurátt. Tilvalið að verðlauna göngumenn með ferð í Mosfellsbakarí á eftir.

Lágafell

Göngumenn,  Jóhanna Marína, Særún og Ari á toppi Lágafells í Mosfellsbæ. Í bakgrunni má sjá byggðina í Mosfellsbæ, síðan fellin, Helgafell, Grímannsfell, Æsustaðafjall og Reykjafell.

Heimildir:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=795874
http://www.ferlir.is/?id=8158


Gæðingur öl

Þegar ég kem í vínbúð þá leita ég eftir nýjungum í bjór. Oftast kaupi ég bjór sem ég hef aldrei smakkað. Býð samferðamönnum upp á og hefst þá oft góð bjórumræða. Ekki átti ég von á nýjum íslenskum bjór þegar ég heimsótti Vínbúðina á Sauðárkróki. Á móti mér tók stæða af nýjum bjór, framleitt af Gæðingur Öl, frá Útvík í Skagafirði (ekki Útey).

Gæðingur StoutGæðingur LagerÉg valdi nokkrar flöskur af stout og jafnmikið af lager. Rétt á eftir mér kom í búðina hress Skagfirðingur og hóf hann að hrósa bjórnum frá Gæðing Öl í hástert. Sagði að Skagfirðingar drykkju ekkert annað núorðið en Gæðingsbjór. Fyrst byrjuðu þeir á dökka bjórnum og sneru sér síðan að lagernum.  "Mjög vel heppnað hjá Útvíkurbændum."

Ég komst einnig að því að hægt er að sjá bæinn á leiðinni frá Króknum, rauður bær og á vef þeirra er sagt að framleiðslugetan sé 300 þúsund lítrar á ári, einn líter á Íslending.

Ég bætti nokkrum Gæðingum í körfuna.

Skagfirsku formúlunni  var fylgt við smökkun og byrjað á Gæðingur Stout.  Á vef framleiðanda segir: "Gæðingur Stout er kolsvart bragðmikið ósíað öl með gerfalls botni. Þroskaferill Stoutsins er öllu notalegri en Lagersins, því eftir 5-6 daga í gertankinum við stofuhita, er honum tappað á flöskur, þar sem hann verður að þroskuðum úrvals bjór á um þremur vikum. Það er ekki þar með sagt að hann sé fullþroska, en hann stendur vel fyrir sínu, þótt hann sé ekkert sumra, frekar en aðrir Stout bjórar, meðan aðrir sjá ekki einu sinni Lagerinn fyrir honum. Gæðingur Stout er 5,6% vol.

Ég get tekið undir með smakkara hjá Bjórbókinni, þetta er vel lukkaður stout sem menn ættu að ráða vel við.

Síðan var komið að Gæðingur Lager en á vef þeirra segir:

"Gæðingur Lager er gylltur bragðmikill lager bjór. Eftir 9 daga í  12 gráðu heitum/köldum gertanki, tekur við 21 dagur í lagertanki (þaðan kemur Lager nafnið). Það er engin sæluvist í lagertönkunum, því hitasstigið er svipað og utanvið Brugghúsið; 0-10 gráður  flesta daga. Gæðingur Lager er 5% vol.
Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með Lagerinn. Hann er þyngri og ég er ekki að ná því hvað boðskap þeir Útvíkingar eru að breiða út. En í vörulýsingu á vinbud.is segir: Ljósgullinn. Meðalfylling, sætuvottur, ferskur, miðlungs beiskja. Mjúkt malt, hey, karamella, baunir.

Alltaf gaman að nýjum bruggsprotum og vonandi næst markmið Gæðinga:

"Við stundum ölgerð, þar sem hugarfóstur verður að handverki. Við erum gamaldags og eitt helsta markmið okkar sem brugghús, er að bæta við fjölbreytni bjórflóru Íslands; reyna að bjóða uppá eitthvað nýtt, ekki bara öðruvísi miða á flöskurnar."

Gæðingur Stout er góð byrjun.

Heimildir:
http://gaedingur-ol.is/
http://www.vinbudin.is/DesktopDefault.aspx/tabid-54?productID=19172
http://www.vinbudin.is/DesktopDefault.aspx/tabid-54?productID=19173
http://bjorspjall.is/?page_id=3624
http://www.bjorbok.net/GaedingurStout.htm


Brimbretti við Íslandsstrendur

Sá athyglisvert myndband "Á brimbrettum við Íslandsstrendur í maí" á eyjan.is.

Fjórir félagar frá Bandaríkjunum voru á ferð um Ísland í maí til þess að skoða landið og sinna áhugamáli sínu – brimbrettareið – við strendur landsins.

Þetta er vel gert 9 mínútna kynningarmyndband, góð myndataka og klipping með ágætum. Það er kuldi í myndinni enda var maí kaldur og hrásalagalegur mánuður en kapparnir frá Hawaii voru vel búnir. Hins vegar vantar niðurstöðu um ævintýraferðina á brimbrettum um Íslandsstrendur. Líklegt er að hún sé jákvæð úr því að myndbandið var framleitt og mynd fylgir í kjölfarið.

Ég hitti seint á síðasta ári, Íra sem var mikill brimbrettakappi. Hann var mjög hrifinn af öldunni við suðurströndina og taldi að þarna væru miklir möguleikar í íslenskri ferðaþjónustu. Hann hafði skoðað vel ströndina út af Eyjafjallajökli og fannst hún fullkomin fyrir þetta sport. Öldurnar væru betri en við Írland.

Ég benti honum á að úthafsaldan væri kröftug og hún hefði tekið mannslíf við Vík. Hann óttaðist ekki kraft öldunnar og sagði að brimbrettamenn væru vel búnir.

Fyrir um tíu árum voru brimbrettamenn á Írlandi teljandi á fingrum annarrar handar en nú væri svo mikill áhugi og vöxtur í greininni að hann þekkti varla nokkurn brimbrettamann.

Vonandi verður þetta myndband til þess að kveikja áhuga erlendra brimbrettamanna. Svo er næsta skref að innfæddir fái brimbrettaáhuga og nýti auðlindina og kraft sjávarins. 

Írinn sem ég hitti um áramótin ætlar allavegana að koma aftur til Íslands og þá með brimbrettið sitt.

Nokkrir tenglar um brimbretti og jaðarsport
http://www.arcticsurfers.is/
http://www.grindavik.is/v/7412
http://skemman.is/stream/get/1946/5284/15830/1/LOKA_BS.pdf


Nikulásarmótið á Ólafsfirði

Stórskemmtilegt Nikulásarmót, það 21. í röðinni var haldið á Ólafsfirði um helgina. Keppt er í 5., 6. og 7. flokki.
 
HK sendi tvö lið yngstu flokkana. En alls kepptu 62 lið frá 14 félögum og keppendur voru um 500.
 
NikulasÁ föstudag, eftir glæsilega skrúðgöngu og setningarathöfn var A og B liðum í 7. flokk blandað saman í þrjá riðla og komust tvö efstu lið áfram í A-liða keppnina. Hin kepptu í B-keppni.
HK-ingum gekk vel að tryggja sig áfram, unnu alla þrjá leikina og markatalan mjög hagstæð, 20-0.
 
Á laugardeginum voru leiknir fjórir leikir:
HK - KF    7-0
HK-  Fjarðabyggð 6-2
HK - KA     5-1
 
Svo rann úrslitaleikurinn upp við Þór en góður 3-0 sigur hafði unnist gegn þeim daginn áður.  Norðanvindur hafði læðst inn fjörðinn er leikurinn hófst. Þórsarar voru lágvaxnari en Kópavogsdrengir en hlupu þindarlaust út um allan völl. Minnti leikaðferð og vinnusemi þeirra á japönsku heimsmeistarana. Ávallt voru komnir tveir Þórsarar í leikmenn HK til að trufla spilið. HK náði ekki að nýta sér meðvindinn í fyrri hálfleik en boltinn fór nokkuð oft úr leik en leiktími var 2 x 10 mínútur.  Í síðari hálfleik var mikil barátta en skyndilega opnaðist traust HK vörn og Þórsarar náðu að skora. Ekki náðist að jafna leika.  Eini möguleiki HK-inga á sigri í mótinu var að klára sinn leik á sunnudag við Dalvík og vona að nágrannar Þórs, KA næðu að stríða þeim. Gekk það ekki eftir.  Jafntefli hefði dugað HK til sigurs í mótinu og til að verja titilinn frá síðasta ári.
 
Á sunnudag var hörku leikur við Dalvíkinga og var uppskeran 2-1 sigur.   Síðan var haldið í gengum Héðinsfjarðargöng norður á Siglufjörð og sigldi einn pabbinn með liðsmenn í Zodiak-bát í Siglufjarðarhöfn. Höfðu drengirnir mjög gaman af sjóferð þeirri.  Liðsmenn 7. flokks leigðu íbúð á Ólafsfirði og gistu flestir þar en boðið var upp á gistiaðstöðu á nokkrum stöðum. Var allt skipulag á mótinu og móttökur Ólafsfirðinga til mikilla fyrirmyndar. Flott dagskrá yfir helgina með tveim kvöldvökum.
 
Uppskeran í sumar hefur verið góð hjá drengjaliði HK í 7. flokki.
Liðið vann sinn riðil í Faxaflóamóinu og öflugu VÍS-móti Þróttar.  Þriðja sætið á Skagamóti og nú silfur á Nikulásarmóti.
Þessi árangur á ekki að koma á óvart. Þegar mikill áhugi, vel er æft, góðir þjálfarar, góðir stuðningsmenn, góð stórn  og góð aðstaða, en börn og unglingar í Kópavogi búa við bestu æfingaaðstöðu norðan Alpafjalla.  Þá hlýtur útkoman að vera jákvæð.
 
Strákarnir í 6. flokki stóðu sig einnig vel en þeir voru flestir á yngra ári unnu alla leikina í A-úrslitakeppni nema einn, við Þór, og lönduðu silfrinu.
 
En úrslitin eru ekki allt, það er stórskemmtilegt að fylgjast með drengjunum þroskast í góðum leik og hafa foreldrar náð vel saman.   
 
Kíkjum á eina facebook-stöðu:
"Komin heim af Nikulásarmótinu - flottir HK strákar og skemmtilegir foreldrar :)"
 
 
Heimasíða mótsins:  www.nikulasarmot.is
 
Nikulas2011
 
Efri röð: Ívar Orri Gissurarson, Ólafur Örn Ásgeirsson, Ari Sigurpálsson, Sigurður Heiðar Guðjónsson
Neðri röð: Reynir Örn Guðmundsson, Konráð Elí Kjartansson, Marvin Jónasson, Felix Már Kjartansson

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 7
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 298
  • Frá upphafi: 236824

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 245
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband