Hrísey

Gönguferð 29. júlí 2014

Hrísey gengin frá suðri til norðus. Eyjan leynir á sér og breytilegt veðurfar í norðanáttinni. Fleiri bílar í eyjunni en maður átti von á. Gaman að sjá fólk vera að tína hvannarlauf. Geysi mikil berjaspretta nyrst á Hrísey, krækiber og bláber. Flottur taxi.
Arkaði 15,5 km eða rúmlega 20 þúsund skref og 1.200 kkal brenndar.
Skemmtileg og fróðleg ferð.

 

Hrísey

Gönguhópurinn, 18 manns. Frænkuhittingur í Hrísey.

Hrísey er önnur stærsta eyja við Ísland, 11.5 km2. Hrísey er um 7 km löng, breiðust sunnan til, um 2,5 km, en nyrðri helmingurinn er allt að helmingi mjórri.

Hvön

Hvönnin nýtt. Hér er hópur fólks að tína hvannarlauf. Einangrunarstöðin í baksýn.


Tékkland - Ísland og gullni pilsner-bjórinn

Tékkland og Ísland leika forkeppni EM 2016 í dag í Pilsen. Það er því góð tenging að fjalla um Tékkland og bjór í dag þegar jólabjórinn tekur völdin.

Tékkland er mesta bjórþjóð veraldar og er bjórneysla á mann 149 lítrar á ári. Slá þeir út Austurríki með 108 og Þjóðverja með 106 lítra. Ísland er í 37. sæti með 45 lítra og lægra en á FIFA-listanum en Ísland er þar í 28. sæti.

Fyrst Tékkland,land lagersins er í beinni í kvöld, þá verður maður að rifja upp og upplifa bjórsöguna og láta hugann leita til Pilsen.  Þar er merkilegt brugghús, musteri brugglistarinnar, Pilsner Urquell Brewery.  Þar var fyrsti gullni bjórinn með botngerjun eða kaldri gerjun bruggaður árið 1842. Tími pilsnersins  var þá runninn upp og markaði upphaf lagerbjórsins. Tærleiki hans er í glasið kom var aðlaðandi og samsetning ilms og bragðs, sem var maltkennd en með indælum humla og bitterkeim, heillaði alla er á honum smökkuðu.  Svo vel hefur gullni bjórinn frá Bæheimi (Bohemia) lagst í Íslendinga að 97% af seldum bjór í Vínbúðunum er lagerbjór.

Bjór má skipta gróft upp í tvo flokka, öl (ale) og lager.   Öl er bruggað með gertegund sem vinnur mest við yfirborðið en í lager er notaður ger sem vinnur mest við botninn við kaldara hitastig. Síðan tekur við langt geymsluferli, „lagering“.

Það er gaman að fara í skoðunarferð um bruggverksmiðjuna sem framleiðir Pilsner Urquell  og anda að sér bjórsögunni. Nokkrir stuðningsmenn Íslands heimsóttu hana fyrir leikinn. En eikartunnur frá frystu lögn, fyrir 172 árum, eru til sýnis fyrir ferðamenn. Einnig er gengið um kaldan kjallarann og hápunkturinn er sopi af  ósíuðum og ógerilsneyddum pilsner bruggaður í eikartunnu. Þreföld humlun er lykilinn. Bjórinn er gjöf náttúrunnar til mannsins.

En hvernig fer svo landsleikurinn:  Spái Tékkum 1-0 sigri á Struncovy Sady Stadion í Pilzen. Klókt hjá Tékkum að spila leikinn í vaxandi Pilsen-borg, þaðan koma flestir landsliðsmennirnir, fimm frá Viktoria Plzeň og þjálfarinn. En völlurinn er lítill, tekur 11.700 manns, litlu meira enn Laugardalsvöllur.

Pilsner Urquell

Inngangurinn í elsta Pilsner-brugghúsið (Burgher's brugghúsið) minnir meira á sigurboga en hlið. Vatnsturninn, 46 metra hár sést í gegnum hliðið og minnir á mínarettu á mosku. Háir reykháfar standa upp úr brugghúsinu, musteri brugglistarinnar og smekklegar vöruskemmur sjást. Á bakvið strætóinn sem keyrir gesti um bruggþorpið er Pilsen bjórlestin sem flutti vörur á hverjum morgni til Vínar. Brugghúsið er mjög stutt frá leikvellinum.

 

Heimild:

Wikipedia:  http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_beer_consumption_per_capita


Hrafnagjá

Hrafnagjá er ekki vel þekkt. En hún er stutt frá Vogum og minnir á Þingvelli með Almannagjá sem miðpunkt.

Hrafnagjá er tilkomumikil ofan við Voga, með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Hún er mjög djúp á köflum og nokkuð breið milli bakka. Besta upp- og niðurgangan í Hrafnagjá á þessum slóðum er um Kúastíg. Ofan hans á gjárbarminum eru þrjár vörður; Strákar.

Talið er að þær hafi verið nefndar svo vegna þess að þrír strákar, kúasmalar, úr Vogum hafi dundað við að hlaða upp fáeinum steinum, sem síðar voru kenndir við þrjá “Stráka”. Kúastígurinn hefur eflaust verið notaður af selfólki úr Vogunum og e.t.v. hafa verið kúahagar á grasbölunum við ofanverða gjána.

Hrafnagjá er á köflum mjög djúp, minnir á Almannagjá en er þrengri.

Síðan var stefna tekið yfir Huldur, þarna eru víða sprungur er leyna á sér. Komið að Hulugjá en þær eru tilkomuminni en Hrafnagjá.

Hrafnagjá er af mörgum talin fallegri en Almannagjá. 

 Hrafnagjá

Vörðurnar Strákar við Hrafnagjá. Gengið niðu um Kúastíg. Keilir í fjarlægð.

 

Dagsetning: 24. september 2014 
Hæð stígs: Lægst: 14,3 m og hæst: 48,6 m.
GPS hnit Vogaafleggari: (N:63.58.395 - W:22.21.462)  23 m.
Heildargöngutími: 90 mínútur (19:10 - 20:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  4.0 km 

Skref: 6.200

Orka: 363 kkal eða 3 bananar.
Veður kl. 19 Keflavík: Skýjað, SV 10 m/s,  8,2 °C. Raki 97%. Skyggni 25 km. Skúrir.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 7 manns.
GSM samband:  Gott 4G samband.


Gönguleiðalýsing
: Mosavaxið gróft hraun. Gengið meðfram Hrafngjá sem liggur samhliða Reykjanesbraut. Áfram er haldið að Huldum og Huldugjá.

Gönguslóð

Gönguleiðin, 4 km alls. Keyrt eftir Reykjanesbrautinni að gatnamótunum að Vogum. Lagt við hringtorgið.
Gengið um kílómeter að Hrafnagjá og meðfram henni. Síðan yfir jarðsigið Huldur að Huldugjá.

Heimild:

Ferlir.is - Kánabyrgi – Viðaukur – Heljarstígur – Huldur - Kúastígur - Hvíthólar

 


Tóarstígur

Í Afstapahrauni upp af Kúagerði eru sjö gróðurvinjar sem kallaðar eru Tóur á milli þeirra liggur göngustígur sem heitir Tóarstígur. Stígurinn liggur áfram inn að Höskuldarvöllum en endað var við svokallaða Seltó. 

Flestir fara sömu leið til baka en á GPS mæli var slóði út í viðkvæmt hraunið. Eflaust í einhverja tilraunarborholu fyrir tíma umhverfismats.  Við leituðum slóðann uppi og komum inn á veginn að Höskuldarvöllum.

Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum.

Stefna Tóarstígs er að Keili og sást hann oftast og bar af í hrauninu. Mikið sjónarspil i birtunni. Skúraský börðust við sólarljósið og myndaði dulúðlega birtu. Mikið gengið í hrauni og mosa. Skúr helltist yfir okkur í nestispásunni og myndaði glæsilegan regnboga.

Hraunið gleypir alla úrkomu og því er vatn vandfundið á svæðinu, því hefur vistin verið erfið í selinu ef menn og skepnur hafa búið þar um tíma.

Tóarstígur

Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól.

Dagsetning: 3. september 2014 
Hæð stígs: Lægst: 24,3 m og hæst: 91,4 m.
GPS hnit gryfjur: (N:64.00.305 - W:22.10.274)
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:10 - 21:40)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  8.8 km 

Skref: 11.116

Orka: 611 kkal eða 5 bananar.
Veður kl. 21 Keflavík: Skýjað, N 1 m/s,  9,8 °C. Raki 93%. Skyggni 30 km. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 26 manns.
GSM samband:  Gott 4G samband.


Gönguleiðalýsing
: Mosavaxið hraun, stígur ógreinilegur á köflum.

 Gönguslóð

GPS-kort sem sýnir leiðina og neðra sýnir hæð og gönguhraða. Nestisstopp um miðja ferð. Gefið í í myrkrinu á veginum að Höskuldarvöllum.

Heimild:

Ferlir.is: Kúagerði - Afstapahraun

 


Á Fjórðungsöldu

Það eru miklir atburðir að gerast í Bárðarbungu, Dyngjujökli og Öskju um þessar mundir. Ferlið hófst 16. ágúst og hefur heimurinn fylgst með óvæntri framvindu og ýmsum uppákomum. Berggangurinn eða kvikugangurinn er að nálgast Öskju á sínum 4 km hraða og vatnsstaða Grímsvatna hækkar.

Jarðskjálftar verða öflugri og það sér á Holuhrauni og sigkatlar hafa myndast suðaustan við Bárðarbungu. Stórbrotið lærdómsferli fyrir jarðfræðinga.

Ég fór norður Kjöl og suður Sprengisand fyrir átta árum og þar var stórbrotin sýn alla leið. Veður var dásamlegt á Sprengisandi. Á Fjórðungsöldu sá maður umtöluðustu staði á Íslandi í dag, Bárðarbungu og Dyngjujökul. Ekki grunaði mig að rúmum átta árum síðar myndi Bárðarbunga láta í sér heyra. Kannski verður svæðið á myndunum umflotið jökulvatni? Kannski verður komið nýtt fell? Kannski gýs sprengigosi í Öskju og Víti hverfur? Kannski gerist ekkert, myndast aðeins nýr berggangur neðanjarðar?

Það var lítil umferð yfir hálendið, ég grét það ekki en fannst að fleiri hefðu mátt njóta stundarinnar.  Skráði þetta á blað um ferðina:

23. júlí 2006
Frábært ferðaveður, heiðskírt og 15 gráðu hiti.
Keyrðum 50 km frá Kiðagili í Bárðardal að Kiðagili á Sprengisandi, þá hófst Sprengisandur. Komum við hjá Aldeyjarfossi.
Á Fjórðungsöldu var magnað útsýni. Hofsjökull, Tungnafellsjökull, Bárðarbunga og Trölladyngja.
Fórum yfir tvö vöð hjá Tungnafellsjökli og eitt við Höttóttardyngju.
Keyrðum 204 km á möl og 160 km á malbiki í bæinn og enduðum ferðina á Sprengisandi við Reykjanesbraut.

Mættum 19 bílum á norðurleið og 2 hjólreiðamönnum. Aðeins fleiri á suðurleið þar af einn hjólreiðamaður.
#Hagakvísl, #Nýjadalsá, #Skrokkalda og #Svartá.

Hef trú á að það eigi fleiri eftir að ferðast yfir Sprengisand á komandi árum eftir þetta ævintýr.

Bárðarbunga

Tungnafellsjökull og Bárðarbunga frá Fjórðungsöldu. Kistufell og Dyngjujökull handan.


Esjan (780 m) #14 ferð

Esjan í #14 árið í röð. Eitt af markmiðum mínum er að ganga amk einu sinni á ári á Esjuna.


Loks kom sólardagur í sumarfríinu og tilvalið að fylla Esjukvótann.
Róleg umferð rúmlega tíu en umferð gangandi jókst um hádegið og mikið var af útlendingum. Það heyrðist sænska, finnska, spænska og enska hljóma í fjallakyrrðinni.

Engin gestabók var við Stein en þangað stefndu flestir.


Síðan var lagt á topp Þverfellshorns. Klettaborg 90 metrar birtist úr þokunni. Þeir voru ekki lengur klettar. Þeir voru risavaxið listasafn.  Keðjur voru göngumönnum til aðstoðar.


Ekki sást í toppinn en veðurspáin lofaði sól og þegar við kjöguðum að vörðunni opnaðist þokuhaftið. Það náðust nokkrar myndir, selfie og allur facebook pakkinn. Síðan lagðist þoka yfir, þá var kvittað fyrir afrekinu í nýlega gestabók sem geymd er í kassa við hringsjánna. Nokkrum sekúndum síðar fór þokan. Vindurinn blés henni í burtu. Maður þurfti ekki að bíða lengi eftir nýju veðri.

14.200 skref, 11.8  km og 950 kkal brenndar.


En er bæjarfjallið Esjan tignarlegt fjall?  
Meistari Þórbergur Þórðarson hefur ákveðnar skoðanir á fjallinu:  
"Esjan hefur aldrei haft sérlega góð áhrif á mig. Hún hefur aldrei verkað lyftandi á mig. Hún hefur verkað svipað á mig og heljarmikill hesthúshaugur sem er farinn að verða uppgróinn að neðan. Hún er alltof ruglingslega samin fyrir minn stílsmekk. Mér brá þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur að sjá hvað fjöllin hérna voru lágkúruleg í samanburði við fjöllin í Suðursveit. Þau höfðu tinda sem bentu til himins." (Kompaníið bls. 127)

Þverfellshorn  Hringsjá

Hringsjá FÍ á Þverfellshorni og varða. Kollafjörður og Geldinganes sjást vel og höfuðborgin hulin þoku að hluta.

Dagsetning: 22. júlí 2014
Hæð Þverfellshorns: 780 m
Erfiðleikastig: 1 skór að Steini,  3 skór eftir Stein
Veður kl. 12 Reykjavík: Skýjað, SSA 3 m/s, 15,4 °C. Raki 73%. Skyggni 40 km. Gambur.

Gönguleiðalýsing: Vinsæl gönguleið, ágætlega uppbyggð með upplýsingum á íslensku. Hlíðin er aflíðandi neðst en með hömrum efst.

Heimildir
Bæjarfjallið Esja
Hvað vildi Þórbergur - Guðmundur Andri Thorsson

Sitthvað um Esjuna - Emil Hannes Valgeirsson

Gengið á Esjuna - Kjartan Pétur Sigurðsson

Tengd Esjublogg
Esjan á páskadag
Kerhólakambur (851 m)

Esjuganga

Esja


HM og vítaspyrnukeppni

Velheppnað heimsmeistaramót stendur nú yfir í Brasilíu.

Þegar HM í knattspyrnu er annars vegar er þetta ekki bara íþróttaviðburður heldur alþjóðlegur menningarviðburður. Fótbolti er hluti af menningu flestra þjóða, HM er einn alstærsti viðburðurinn (ásamt ÓL) þar sem ólíkar þjóðir úr öllum heimsálfum koma saman í friði og reyna með sér í heilbrigðum leik. 
 
Trúarbrögð, hörundslitur, menning og efnahagur skipta ekki máli. Þetta er eitt af því góða sem samfélag þjóðanna hefur alið af sér. Þetta er keppni sem nær til allra - líka þeirra ríku og fátæku.
 
þegar þetta er skrifað eru 16-liða úrslitin hálfnuð.  Grípa hefur tvisvar til vítaspyrnukeppni.  Brasilía vann Chile 3-2  og Costa Ríka vann Grikkland 5-3 en í bæði skiptin sigraði liðið sem hóf vítaspyrnurnar.  
 
Það hefur verið sannað að liðið sem hefur leik í vítaspyrnukeppni á meiri sigurmöguleika. Því hefur verið stungið upp á nýju kerfi.  ABBAABBAAB-kerfinu.
 
ABBAABBAAB-kerfið er ekki galin útfærsla. Það þarf að prófa það. Eini gallinn er að þetta virðist flókið, bæði fyrir leikmenn og áhorfendur en eflaust sanngjarnara.
 
Í dag leika Frakkar við Nígeríu og Þjóðverjar við Alsír. Evrópsku liðin eru svo sterk að þau ættu að komast áfram án vítaspyrnukeppni en Nígería og Alsír njóta sín betur í  hitanum og rakanum. Það er þeirra tromp. 
 
Það verður stórleikur í 8-liða úrslitum ef Frakkar og Þjóðverjar komast áfram 

Fiskidalsfjall (214 m) og Festarfjall (201 m)

VeðurmyndEkið til Grindavíkur og beygt inn á Suðurstrandarveg að námum við Fiskidalsfjall. Þaðan gengið upp suðurhlíðar fjallsins og til norðausturs eftir fjallsbrúninni. Stefnan var síðan tekin að Skökugili og rótum Festarfjall. Eftir nestisstopp var fjallið klifið og útsýnisins yfir Atlantshafið notið.

Þorbjörn er mest áberandi af Fiskidalsfjalli sem og nágranninn Húsafjall en fell í örnefnum eru ekki vel séð þarna. Sjómannabærinn snyrtilegi, Grindavík með allan kvótann sést vel.
Þegar gengið er upp Fiskidalsfjall sést malarnám vel og einnig að þarna hefur verið hluti var varnarsvæðinu í Kalda stríðinu. En rústir eftir möstur og hlustunarstöð sjást berlega milli Húsafjalls og Fiskidalsfjalls. Einnig eru margar fornleifar.

Festarfjall horfði glaðlega mót göngufólkinu. Það var eins og það væri að segja: „Nú er gaman! Nú er gaman!“ …. En Fiskidalsfjall var þungbúið, eins og það væri að hugsa: „Gamanið er stutt.“

Festarfjall er hálft fjall, minnir á Hestfjall. Rúst eldfjalls sem Ægir er sem óðast að brjóta niður. Báðum megin þess eru þykk lög úr svartri ösku sem orðin er að föstu bergi.
Berggangur liggur í gegnum Festarfjall og er Festi (Tröllkonu-festi) sú er fjallið tekur nafn af.

Fjöllin tvö að mestu úr bólstrabergi. Einnig er í því móberg, brotaberg og grágrýtisberggangar. Tveir slíkir mynda „festina“. 


Ljómandi útsýni er af Festarfjalli en víðsýni ekki mikið. Eldey sem minnir á Ellý Vilhjálms ber af í hafinu vestri.  Sýrfell í gufustrókum á Reykjanesinu. Fagradalsfjall og Stóri-Hrútur sem minnir á Keili í norðaustur. Langihryggur densilegur og ber nafn með rentu. Kistufell og Geitahlíð árennileg og risarnir, Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull í austur með Tindfjöll sér til halds og trausts.

Hrólfsvík

Húsafjall og Hrólfsvík ásamt Þórkötlustöðum og sægreifaþorpið Grindavík séð frá Festarfjalli. Ganga þurfti yfir malbikaðan Suðurstrandarveg milli fjalla.

 

Dagsetning: 28. maí 2014 
Hæð Fiskidalsfjalls: 214 m 

Hæð Festarfjalls: 201 m
GPS hnit varða á Fiskidalsfjalli: (N:63.51.562 - W:22.21.961)

GPS hnit varða á Festarfjalli: (N:63.51.434 – W:22.20.246)
Hæð í göngubyrjun:  22 metrar (N:63.51.138- W:22.21.804) hjá malarnámu.
Hækkun: 250 metrar (192 + 58 metrar)          
Uppgöngutími Fiskidalsfjall: 35 mín (19:30 - 20:05) – 860 m ganga.
Heildargöngutími: 150 mínútur (19:30 - 22:00)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  6 km 

Skref: 7.517
Veður kl. 21 Grindavík: Alskýjað, SV 6 m/s (7-9 m/s),  9,1 °C. Raki 84%. Gambur.
Þátttakendur: Útivistarræktin, 41 manns með fararstjórum.
GSM samband:  Nei, ekki hægt að ná 4G í byrjun, í suðurhlíðum Fiskidalsfjalls en gott eftir það.


Gönguleiðalýsing
: Brött byrjun í malarnámu við rætur Fiskidalsfjalls. Síðan melar og mosi, yfir malbikaðan Suðurstrandarveg að Siglubergshálsi og þaðan á Festarfjall. Þéttbýli, þjóðvegur og haf, með útsýni um eldbrunnið land.

Húsafjall og Fiskidalsfjall

Húsafjall og Fiskidalsfjall séð frá Festarfjalli.

 

Heimildir:

Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, Ari Trausti Guðmundsson og Pétur Þorleifsson. M&M 2010.

Ferlir.is: http://www.ferlir.is/?id=4127

 

 


Arsenal : Hull City - Enska bikarkeppnin á Wembley

Hull og Grimsby voru þekkt nöfn á Íslandi á Þorskastríðsárunum. Þaðan voru gerðir út togararnir sem veiddu fiskinn okkar. Við unnum stríðið um þorskinn og seldum Englendingum fisk í staðinn. Hnignun blasti við í gömlu útgerðarbæjunum.

Nú eru þeirMorgunblaðið 5. nóvember 1985 að rétta úr kútnum.  Ég fór í mína einu siglingu með togaranum Þórhalli Daníelssyni í nóvember 1985 og seldum við í Hull. 

Hull var drungaleg borg og sóðaleg með sína 266 þúsund íbúa. Við höfnina voru byggingar sem mosi eða sjávargróður var farinn að nema land á.  Veðrið var drungalegt og fegraði ekki borgina á Humbersvæðinu. Við sigldum inn River Hull og opna þurfti dokkir til að halda réttri vatnsstöðu í ánni. Þegar við lögðum festar við bryggju þá voru margir voldugir togarar bundnir við landfestar. Þeir máttu muna fífil sinn fegurri.

En um kvöldið fórum við á þekkta krá, "Camio" hét hún og eru menn enn að segja sögur af þeirri merku krá. Svo subbuleg var hún.  Bjórinn var ekki leyfður á Íslandi og því varð að kíkja á pöbb. Ég missti af kráarferðinni en trúi öllum sögunum, svo vel voru þær sagðar.

En ég rifja þetta upp út af því að í dag er úrslitaleikur í Enska bikarnum. Þar leiða saman hesta sína mínir menn, Arsenal frá London og Hull City í fyrsta skipti. 

Það hefur því margt breyst í Hull, borgin rétt úr kútnum og endurspeglast það í gengi knattspyrnuliðsins, fyrsta skipti í úrslitum elstu og virtustu knattspyrnukeppni heims. Spurningin er hvernig lítur Camio út í dag?

Hull er á Humberside í norðausturhluta Englands og rakt sjávarloftið frá Ermasundi blæs í austanáttum. Vígi rugbý íþróttarinnar er á svæðinu og á sama tíma og úrslitaleikurinn á Wembley fer fram þá verður úrslitaleikur milli Hull KR og Hull FC í Super League.

Ég er bjartsýnn fyrir hönd míns liðs, Arsenal og spái öruggum 2-0 sigri.  Ramsey og Podolsky gera mörkin og enda bikarleysið.  Þetta verður góður dagur.

Arsenal : Hull


Kóngakrabbahátíð

Þær eru válegar fréttirnar um fyrsta kóngakrabbann sem veiddist á Breiðamerkurdýpi. Vonandi er krabbinn einfari en hann hefur slæm áhrif á lífríkið nái hann fótfestu.

Humarstofninn gæti tapað. Jafnvel hrunið.

Þessi heimsókn á ekki að koma á óvart. Mannfólkið mengar umhverfið. Íslendingar eiga stærsta kolefnisfótsporið. Loftslagsbreytingar, eru metnar sem ein mesta samfélagsógn 21. aldar.

Höfin eru að hitna og súrna. Heimshöfin taka við um fjórðungi allrar losunar manna á koltvísýring með þeim afleiðingum að þau súrna og áhyggjur fara vaxandi af því að hafið sé ferli sem muni leiða til alvarlegra og óafturkræfra áhrifa á vistkerfi og fæðukeðju heimshafanna, allt frá svifdýrum til fisks. 

Við skiptum ekki um kennitölu á sjónum. 

Verður  í framtíðinni haldin kóngakrabbahátíð á Hornafirði í stað humarhátíðar?

Kóngakrabbahátíð

Fyrsti kóngakrabbinn sem veiðist í íslenskri lögsögu.  Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni veiddi krabbann og myndin er fengin af facebook-síðu sjómanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 243
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 204
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband