Heinabergsjökull og Vatnsdalur

Allir íslenskir jöklar hopuðu á síðasta ári nema einn, það er Heinabergsjökull. "Hann skreið áfram og honum á eftir að hefnast fyrir það." Svo mælti Oddur Sigurðsson jarðfræðingur á aðalfundi Jöklarannsóknarfélagsins fyrir skömmu.

Nokkrir jöklar hopuðu um allt að 100 metra. Þannig að Heinabergsjökull er ekki á sömu skoðun og bræður sínir. Hann er útrásarvíkingur.  Skriðjökullinn kelfir út í stöðuvatn og jöklar sem hafa þann munað eru oft í öndverðum fasa við loftslagið. Heinabergsjökull er einn af mörgum skriðjöklum Vatnajökuls og sést vel frá Hornafirði.

Fyrir tíu árum fór ég í skemmtilega göngu að Vatnsdal í Heinabergsfjöllum.  Við vorum fjögur í könnunarferðinni. Auk mín voru Salómon Jónsson, Margrét Hjaltadóttir og Sigurlaug Gissurardóttir. Við gengum upp Heinabergsdal en hann er 7 km langur og klæddur dálitlu birkikjarri. Austurhlíðin er gilskorin og upp af henni hávaxnir tindar. Stórt og illúðlegt Meingil liggur til norðurs upp úr innanverðum dalnum og innan við það rís Meingilstindur (1026 m). Landið hækkar í dalstafni og þar tekur við mikið gljúfur, Heiðargil með vatnsfægðum klöppum þótt engin sé áin. Loks komumst við að varpi á þéttum mel í 464 metra hæð og heitir þar Vatnsdalsheiði.

Hér opnast ógleymanleg sýn. Framundan er heilmikill dalur, Vatnsdalur, sem teygir sig norður í fjöllin og endar í mjórri totu. Dalurinn var fullur af jökulvatni, skreyttum jökum úr Heinabergsjökli en jökullinn stíflar mynni dalsins.

Úr Vatnsdal komu hin illræmdu Vatnsdalshlaup sem eyddu byggð á Mýrum. Fyrsta hlaupið kom árið 1898. Það braust út eins og fangi úr fangelsi í gengum ísþröskuldinn í mynni Vatnsdals. Lónið var þá um 1,9 km2 að flatarmáli og vatnsmagnið sem streymdi suður um Mýrar á rúmum sólarhring var um 120 milljónir rúmmetra. Nú eru þessu hlaup hætt að koma, Heinabergsjökull er orðin það rýr.

Vatnsdalur1024 

  Séð inn í Vatnsdal.

Hlaupin í Vatnsdal komu í Kolgrímu. Ég man alltaf eftir fyrsta ferðalagi fjölskyldunnar. Ég hef verið svona nálægt sjö ára gamall. Stefnan var sett á Skaftafell. Við ferðuðumst í Moskvichnum  hans afa en urðum að hætta för við Kolgrímu, það var hlaup í henni. Ekki flæddi yfir brúnna en mikið kolmórautt vatn var í ánni og sleikti það brúargólfið. Ég vildi fara yfir og skildi ekki alveg þessa uppgjöf í fullorðna fólkinu.

Síðasta  merkilega hlaup í Kolgrímu kom í október 2002 og lokaði hringveginum um tima.

VatnsdalurHeinabergsjokull1024

Hér sést stíflaður Vatnsdalur. Heinabergsjökull skríður niður fyrir framan mynni dalsins. Litlafell er eins og umferðaeyja á milli Skálafellsjökuls og Heinabergsjökuls. Áður fyrr náðu jökulsporðarnir saman í kringum Hafrafell og var skriðjökullinn þá kallaður Heinabergsjökull. Snjófell er fyrir ofan Litlafell.

VatnsdalurSalli1024

Salómon að reyna að koma af stað Vatnsdalshlaupi. Það gekk nú ekki þó Salli hraustur sé.

Í bókinni Jöklaveröld er birt efni úr dagbók Sigurðar Þórarinssonar frá árinu 1937. Sigurður er við Vatnsdalssker kl. 18 þann 11. júlí kl. 18.

"Er búinn að skoða Vatnsdalshlaupamenjarnar. Vatnið hefur alveg hlaupið úr "vatninu" og sýna tröllauknir jakar um alla flötina alveg upp að efstu strandlínu þessa árs, sem liggur 45 metra undir passpunkti og 55-60 m yfir botni, hvar vatnið hefur náð. Um 1880 hefur jökullinn án ef verið farinn að þynnast nokkuð því um það leyti hleypur Vatnsdalur í fyrsta skipti svo menn viti til.

En áður hefur jökullinn gengið alllangt inn í dalinn og eru öldur á hæðinni, vestan passpunkts, allmiklar (15-20 m) hærri en passpunkturinn. Skora sú sem vatnið hefur komið í gegnum er tiltölulega lítil - ca 8 m breið og rúmlega meters djúp, en sjálft passið er breitt, ísnúið pass.

Heimildir:

Jöklaveröld - náttúra og mannlíf, 2004

Við rætur Vatnajökuls, Hjörleifur Guttormsson, árbók 1993.

Allir jöklar að rýrna - frétt í Morgunblaðinu 2008.

http://www.pbase.com/rikeyfi/heinabergsjokull

 


mbl.is Jöklar hopa hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 98
  • Frá upphafi: 226533

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 80
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband