Færsluflokkur: Íþróttir
13.12.2008 | 20:32
Eiður á flottum Nou Camp árið 2011
Hann verður glæsilegur El Classico leikurinn árið 2011 þegar búið verður að endurbyggja Nou Camp. Völlurinn verður stækkaður og mun taka 106.000 manns í sæti. Auk þess verða innviðir teknir í gegn. Eiður Smári á eftir að sóma sér vel þar. Það eru hinir öflugu hönnuðir Norman Foster + félagar sem sjá um hönnunina. Ákvörðunin um þessar breytingar var tekin árið 2007 og tillögur kynntar á 50 ára afmæli vallarins. Kostnaður er áætlaður 250 milljónir Evra, nýjum gjaldmiðli Íslendinga og mun ég ekki umbreyta í krónur.
Ég var á leik Barcelona og Levante í febrúar á þessu ári og sá Eið hita upp í 25 mínútur. Ég get tekið undir það að leikvangurinn má fá upplyftingu. Þessar hugmyndir líta vel út.
Nú verður maður að setja upp Barcelona húfuna sem ber númerið 7 áður en farið verður á Players. Það þarf að bæta fyrir úrslitin í Middlesborough í dag.
Mósaíkáhrifa Gaudi gætir við hönnunina.
Eiður Smári í byrjunarliði Barcelona | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2008 | 19:39
Densileg innköst
Flottur leikur hjá stelpunum okkar á hálum og köldum Laugardalsvellinum. Það er horft víða á leikinn. Ég fékk skeyti rétt áðan frá Ungverjalandi. Þar stóð m.a. annars:
"Ungverski þulurinn er mjög hrifinn af innköstum fimleikastelpunnar í liðinu". Og svo heldur skrifari áfram. "Semsagt boðið uppá íslenskan kvennabolta á 1 sportrásinni hér núna".
Þrjú núll.... Ísland á EM!
Ísland á EM 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2008 | 12:47
FH eða ÍBK
Ég er mjög hlutlaus í þessu mál, hverjir verða Íslandsmeistarar? Ég gæti dæmt leikinn. Vona að allt fari vel fram og bezta liðið verði Íslandsmeistari. Keflvíkingar hafa örlítið forskot fyrir lokaumferðina.
Fyrir 19 árum var sama staða. Þá voru Hafnfirðingar i sporum Keflvíkinga í dag.
Ég man eftir leiknum fræga FH - Fylkir árið 1989. Ég var á honum. Ef FH hefði sigrað Fylki, sem var fallin þá hefði Íslandsmeistaratitilinn komið í Fjörðinn. Fylkir vann óvæntan sigur, 1-2 og KA sigraði í sínum leik 2-0 og tók Íslandsbikarinn í fyrsta og eina sinn. Það var undarleg tilfinning að ganga af Kaplakrikavelli, allir voru svo þögulir. Ég þekkti einn leikmann FH mjög vel, miðvallaleikmanninn Magnús Pálsson en við stunduðum saman tölvunám í HÍ. Því studdi ég FH í baráttunni en það dugði eigi. Keflavík féll þetta ár úr deildinni, ásamt Fylki.
Einn leikmaður sem á rætur að rekja til Hornafjarðar leikur í liði Fylkis í dag. Heitir sá Ásgeir Örn Arnþórsson og ræðst hann ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Það verður gaman að fylgjast með honum.
Þrátt fyrir tvo frábæra leki í Íslandsmótinu ætlum við Ari ætlum að fylgjast með Kópavogsslagnum í dag, Breiðablik - HK.
En skyldi sagan endurtaka sig frá 1989?
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2008 | 22:52
Vandamál að komast inn á völlinn
Ég var að hrósa miðasölukerfi KSÍ í gær. Það brást hins vegar í kvöld, rétt eins og íslenska landsliðið. Þegar komið var að aðal dyrunum, Vestur inngangi, beið okkar heljar biðröð. Náði hún langt frá vellinum. Tuttugu mínútur í leik. Ég sem ætlaði að slappa af og hlusta á þjóðsöngin. Í 25 mínútur héngum við í röðinni sem silaðist áfram hægar en brekkusnigill. Orsökin var bilun í miðaskannarum og öryggisgæsla. Var stikamerkið rifið af miðanum. Þegar inn var komið, voru 7 mínútur liðnar af leiknum. Ótrúlega léleg þjónusta. Þá hófst leitin að sætunum. Eftir að hafa spurt nokkra vísbendingaspurninga fundust sætin þrjú. Það hefði nú mátt merkja hólfin betur. Það kunna Tjallarnir. Í hamagangnum missti ég af því að eignast leikskrá og gekk illa að þekkja suma íslensku leikmennina.
Ísland átti nokkur ágæt færi sem ekki nýttust. Skyndilega kom skoskt mark upp úr hornspyrnu. Tók þá Tartan Army vel við sér. Einn ungur Skoti sat einmanna stutt frá okkur og hafði hægt um sig. En nokkrir spiluðu á sekkjapípur og var það flottur hljómur.
Ekki höfðu Íslendingar trú á að Kjartan markvörður myndi verja vítið, þrír hvítklæddir Skotar voru komnir inn í teiginn. Það var óheppilegt. Staðan orðin 0-2.
Hafnfirðingurinn Emil Hallfreðsson átti fínan leik á vinstri og gaman að fylgjast með honum í síðari hálfleik. Íslenska liðið spilaði ágætlega, en nýttu ekki færin.
Dómarinn belgíski var dapur og fékk oft rauða spjaldið frá áhorfendum. Hann átti það skilið. Stoppaði flæðið í leiknum.
Eftir þetta tap, er orðið erfitt að komast til S-Afríku og vinna Heimsmeistaratitilinn!
Skotar unnu nauman sigur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.9.2008 | 20:37
Sigrum Skota
Er bjartsýnn fyrir heimsmeistaraleikinn við Skota á morgun í Laugardalnum. Handboltastelpan hún Særún og fótboltastrákurinn hann Ari verða með mér á leiknum. Það verður upplifun fyrir þau að sjá Skotana í Tartan Army en þeir eru hressir stuðningsmenn og syngja allan leikinn. Vonandi verða þeir með sekkjapípur. Það er alltaf svo vinalegt að heyra í þeim.
Þótt skoska knattspyrnulandsliðið sé það fyrsta eða elsta í heiminum ásamt því enska (síðan 1872), þá hefur hefur gengið illa að ala upp góða knattspyrnumenn í Skotlandi síðustu ár. Þeir hafa verið vandfundir. Ekki hefur tekist að ala upp hæfileikamenn eins og Kenny Dalglish, Graham Souness, Bob Wilson og Denis Law. Flestir leikmenn Skotlands leika með Rangers og Celtic.
Fyrir 10 árum komust Skotar í úrlsitakeppni HM í Frakklandi og spiluðu þrjá leiki en komust ekki lengra áfram með eitt stig. Þeir þekkja því tilfinninguna á því að komast í úrslitakeppni HM.
Ég er bjartsýnn á leikinn í úrkomunni á morgun. Reikna með 1-0 sigri og setjum markið á Eið Smára.
Ég verð að hrósa KSÍ fyrir góðan miðasöluvef. En hann nýtir kerfi midi.is. Það var einfalt að kaupa miða á leikinn og á morgun mætir maður útprentuð blöð sem verða skönnuð við innganginn.
Við verðum í sætum A1, 2 og 3. Alveg fremst. A fyrir Ara og Arsenal. Það eru þrjú sæti óseld kl. 20.35
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2008 | 08:28
Tvöfaldur Júkki
Verðum við ekki að taka tvöfaldan Júkka á Frakkana?
Staðan er slæm, 10-15, við verðum að vinna seinni hálfleik með 6 mörkum. Það er hægt!
Við megum ekki gefast upp. Ójafnir úrslitaleikir eru alger skandall.
Stemmingin er fín hjá þjóðinni. Ég fór í bakarí, til Reynis bakara á Dalvegi. Röðin var langt út á götu. Fyrir vikið missti ég af fyrstu mörkunum.
Ísland í 2. sæti á ÓL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2008 | 09:37
Bermúdabrosið komið til Peking
Stemmingin hér á landi fyrir handboltaleik Íslendinga og Spáverja á Olympiuleikunum minnir mig á stemminguna sem var hér fyrir heimsmeistaramótið í brids 1991. Þá flykkti þjóðina sér á bakvið bridsspilarana rétt eins og nú. Spilagleðin er sameiginleg með báðum liðum. Jákvæðni var höfð að leiðarljósi. Eflaust muna flestir líka eftir nýjum stíl sem íslenzku spilararnir tóku upp í lokakeppninni, þar sem þeir ákváðu að brosa til andstæðinganna þrátt fyrir að eitthvað færi miður. Bermúdabrosið var það kallað. Þann 10. október 1991 voru íslendingar krýndir heimsmeistarar í brids. Það var í fyrsta skipti sem íslenskt lið í flokkaíþrótt náði þeim áfanga. Verður sagan endurtekin á sunnudaginn? Vonandi.
Íslensku bridsspilararnir í Yokohama lærðu margt af handboltaleikmönnum en þeir höfðu farið í langar keppnisferðir erlendis og leyst mörg vandamál, andleg og líkamleg. Vonandi hafa handboltamennirnir lært eitthvað af íslenzku bridsspilurunum.
Nokkru eftir heimsmeistaramótið í Yokohama ræddi ég lengi kvölds við einn heimsmeistarann og sagði hann mér skemmtilega frá undirbúningnum og frá aðstoð sem þeir fengu er mótið var í gangi. Einn heimsfrægur spilari hvatti þá til að hugsa jákvætt til endalokana og hugsa um það þegar íslenzki þjóðsöngurinn yrði spilaður, þeir ættu að læra hann. Einnig hvatti hann spilarana um að hætta öllum vanmætti og hætta að spá í höfðatöluna. Það skipti ekki máli hvort þjóðin væri 275 þúsund eða 80 milljónir. Aðeins sex bestu spilararnir teldu. Hinir skiptu ekki máli. Þetta er laukrétt hjá honum. Með þessi ráð í handraðanum, jákvæðni, bjartsýni og góða spila- og sagntækni fóru Íslendingarnir alla leið.
Það verður stopp á kóðun og ráðgjöf í vinnunni meðan leikurinn verður í dag hjá Stika. En Stiki er stoltur stuðningsmaður Strákanna okkar og hefur merki fyrirtækisins komið á nokkrum auglýsingum handboltaliðsins. Áfram Ísland.
Óhræddir og fullir tilhlökkunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2008 | 06:41
75% leikurinn
Það gengur vel í mikilvægasta leik Íslands frá Olympíuleikunum í Barcelona 1992. Vinnist leikurinn eru 75% líkur á að verðlaun komi í hús.
Bakarinn er seigur í markinu og mikill hugur í leikmönnum. Staðan er núna 11-8 fyrir Ísland á þessum fallega ágústmorgni. Lífið gerist ekki betra.
Ísland í undanúrslit á ÓL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.8.2008 | 20:43
Framtíðin er rauð og hvít
Það kemur unglingur í unglings stað hjá Arsenal. Hver snillingurinn birtist á fætur öðrum. Enginn er ómissandi. Ekki einu sinni Evrópumeistarinn Cecs Fabregas. Stefnan er á hreinu. "Við kaupum ekki stjörnur, við búum þær til!"
Íþróttafréttamenn höfðu áhyggjur af liði Arsenal fyrir leikinn við FC Twente - Krísa hjá Arsenal, voru fyrirsagnir í morgun. Fabregas og Toure úr leik. Í staðinn fyrir Toure kom Svisslendingurinn Jóhann Djourou. Fyrir Cecs kom svo Veilsverjinn, Aaron Ramsey. Arsene Wenger mælti:
"Ég fer ekki á taugum, vegna þess að við höfum unnið hörðum höndum með ungviðið til að byggja þá upp. Til dæmis mun Djorou spila. Ef hann getur ekki spilað í mikilvægum leikjum eins og þessum, þá erum við að eyða tíma okkar í vitleysu."
Byrjunarliðið: Almunia (31), Sagna (25), Clichy (23), Djourou (21), Gallas (31), Eboue (25), Denilson (20), Ramsey (17), Walcott (19), Adebayor (24), Van Persie (28).
Verðmætur sigur í Enschede og enginn slasaðist. Jafnteflin gætu orðið nokkur í vetur, ég hef áhyggjur af því. Ég verð að segja það.
Arsenal stendur vel að vígi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2008 | 10:21
Fabregas gegn Lehmann
Það verður gaman að fylgjast með úrslitaleiknum á vel heppnuðu Evrópumóti í knattspyrnu annað kvöld. Þá mun spænski flotinn glíma við þýska stálið í Vín.
Ég mun horfa á leikinn með Arsenal-augum og fylgjast vel með leikmanni númer 10 hjá Spánverjum, snillingi sendinganna, Cesc Fabregas. Í markinu hjá þýska liðinu er leikmaður með númer 1, reynsluboltinn Jens Lehmann en hann er á förum frá Lundúnafélaginu. Það verður því skemmtileg barátta á milli flotaforingjans og stálmarkmannsins.
Flestar umræður um úrslitaleikinn á morgun eru um það hvort hinn 21 ára gamli Fabregas verði í byrjunarliðinu eða ekki. Hann hefur komið inná í fjórum leikjum af fimm og við það hefur leikur spænska liðsins breyst og orðið markvissari. Hann finnur ávallt mismunandi vinkla á sendingum, finnur ný svæði og sendingarnar eru hárnákvæmar. Það kemur ný vídd í spænska liðið. Spánverjar hafa ekki efni á því að geyma frumlegasta miðjumann veraldar á bekknum í úrslitaleiknum á Evrópumótinu. Skori Þjóðverjar mark snemma leiks er erfitt að ná því til baka.
Hinn 38 ára gamli markvörður Jens Lehmann hefur spilað alla leiki þýska liðsins en er nokkuð ryðgaður eftir setu á varamannabekknum í vetur. Hann leit frekar illa út í mörkunum sem Tyrkir skoruðu í undanúrslitum. En stóra spurningin er hvort reynslan fleyti honum alla leið?
Áður en mótið í Sviss og Austurríki hófst, hafði ég spáði Spánverjum sigri og ég stend heilshugar við þá spá. Ég hef verið farsæll í spádómum í þessu móti og búinn að vinna rauðvínspott upp á níu flöskur. Spánn hefur færri veikleika og fleiri styrkleika en þýska liðið. Þeir eiga frábæran markvörð. Sókndjarfan Ramos í hægra bakverði, brasilískan miðjumann að nafni Senna sem hefur mikla yfirferð og er stoppari góður. Skæða sóknarmenn og hugmyndaríka miðjumenn. Einnig eiga þeir geðvondan þjálfara, Luis Aragonés sem þeir hlýða. Auk þess voru Spánverjar með Íslandi í riðli í undankeppninni en rétt mörðu okkur í rigningarleik á Mallorca 0-1 og náðu 1-1 jafntefli í Laugardalnum en Ísland komst í 1-0 með marki frá Emil Hallfreðssyni. Þeir hafa því eitthvað lært af okkur Spánverjar.
Þjóðverjar hafa örlítið forskot á Spánverja hvað hvíld varðar. Á miðvikudag spiluðu þeir við Tyrki en Spánverjar degi síðar við Rússa. Skyldi muna um þennan auka hvíldardag hjá Þjóðverjum?
Það verður gaman að fylgjast með baráttu Fabregas og Lehmann's á morgun og bónusinn verður leikur Þýskalands og Spánverja.
Fabregas og Lehmann á góðri stundu. Mynd fengin að láni á Veraldarvefnum.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 233598
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar