Færsluflokkur: Umhverfismál

Heinabergsjökull ólíkindatól

Jöklarannsóknafélag Íslands er merkilegt félag. Aðalfundur JÖRFÍ verður haldinn þann 22. febrúar í Öskju. Félagið gefur út fréttabréf reglulega.  Oddur Sigurðsson segir í nýjasta fréttabréfi, nr. 119, frá afkomumælingum 50 íslenskra jökulsporða á síðasta ári.

"Niðurstöður eru óvenju samhljóða þetta árið. Einn sporður gekk fram frá fyrra ári, einn stendur í stað en allir hinir styttust. Þetta er í góðu samræmi við ástandið. Sumarið var með þeim allra hlýjustu sem komið hafa í sögu veðurmælinga og ofan á það bættist öskusáldur frá Eyjafjallajökli. Það jók leysingu til muna á flestöllum jöklum en þó ekki Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli þar sem askan var svo þykk að hún einangraði jökulinn."

Svo segir frá Heinabergsjökli: "Heinabergsjökull einn mældist framar en í fyrra en hann er ólíkindatól þar sem hann er á floti í sporðinn og bregst því á lítt fyrirsjáanlegan hátt við loftslagi frá ári til árs."

Heinabergsjökull er þá undantekningin sem sannar regluna. En loftslag er að hlýna og höfin að súrna.

Heimild:  Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119


Chinatown ****

Rökkurmyndin Chinatown (1974) í leikstjórn Roman Polanski var fyrsta myndin á Mánudagsbíóum Háskóla Íslands og Háskólabíós. Það var góð stemming eldra fólks í Stóra sal Háskólabíós, gömul filma sem rann í gegnum sýningarvélarnar og varpaðist á 175 fermetra sýningartjaldið. Rispur og eðlilegar hljóðtruflanir mögnuðu upp fortíðarstemminguna.

ChinatownMyndin á mjög vel við í dag enda er umfjöllunarefnið spilling og siðblinda. En þegar myndin var frumsýnd hér í Háskólabíó í júní 1976 töldu landsmenn sig búa í óspilltasta landi í heimi. Vatns- og landréttindi í þurri Los Angeles eru meginþemað en þessi mál eru í hámæli hér á landi núna. Leikararnir Jack Nicholsson, Faye Dunaway og John Huston, í hlutverki siðblinda og gráðuga öldungsins sem telur að sér sé allt leyfilegt, eru stórgóð.  Leikstjórinn Roman Polanski tekur sér Alfred Hitchcock til fyrirmyndar og er stórgóður í litlu hlutverki. En það sem gerir myndina sterka er góður leikur allra aukaleikara.

Sagan er stórgóð byggir á vel meitluðu handriti. Sögusviðið er Los Angeles á fjórða áratugnum (1930's) og er mikið reykt af sígarettum í myndinni. Eflaust hafa tóbaksrisarnir styrkt hana vel.  Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit.  Hún var tilnefnd til 10 Óskarsverðlauna en uppskar aðeins ein, fyrir handrit.

Sagan segir að Chinatown hafi átt að vera fyrsta myndin í þríleik um auðlindaspillingu en Polanski flúði Bandaríkin vegna lögbrota og því varð ekkert úr pælingu hans. Jack Nicholson tók við hjólinu en myndin, The Two Jakes (1990), fékk slæma dóma gagnrýnenda og því dó spillingar uppfræðslan.

Á leiðinni út úr heitum sal Háskólabíós í kuldann og snjóinn komu upp í hugann leikarinn John Huston sem Noah Cross. En í stað hans setti maður orkuútrásarvíkinga, REI, bankastjóra árið 2008, FLokkinn, Magma og æðsta dómsstig landsins. Allir þessir aðilar spegluðust vel í Noah Cross.

Myndin var á sínum tíma kölluð fyrsta rökkurmyndin (film noir) í lit. En hvað eru rökkurmyndir. Ég hafði ekki hugmynd um það áður en ég fór á sýninguna en eftir að hafa leitað mér upplýsinga þá læt ég þær fylgja hér með.  

"Meginþema í öllum Film Noir myndum er spilling. Rotin og ísköld spilling og ekki síst blekkingarvefur. Fólk er gjarna ekki allt þar sem það er séð og algengt þema er að einhver ber ást til manneskju sem reynist síðan ekki vera sú manneskja sem hann varð ástfangin af.

Til útskýringar fyrir þá sem þekkja ekki til Film Noir mynda þá voru þær vinsælar á fimmta áratugnum. Þetta voru sakamálamyndir og í flestum tilfellum var aðalpersónan einkaspæjari. Sögumaður segir söguna, gjarna einkaspæjarinn sjálfur. Veröldin í þessum myndum er spillt og siðlaus, umhverfið stórborg og það hellirignir í Film Noir. Sem dæmi um þekktar Film Noir myndir má nefna "Double Indemnity" og "The Postman Always Rings Twice". Í Film Noir er heimsmyndin kolsvört, algjört svartsýni ríkir. Og ekki má gleyma kaldhæðninni. Lýsingin er það sem einkennir Film Noir hvað mest og flestir þekkja. Lýsing neðan frá, dimmar senur og miklar andstæður ljóss og skugga. Svo eru þverlínur notaðar til að koma óróleika í myndina, gjarna í formi rimlagluggatjalda.
"

Heimild:  Kvika.net

Já, hann er margbreytilegur kvikmyndaheimurinn.


Svínafellsjökull minnkar

Í uppgjöri Svínafellsjökuls á því herrans ári 2010 kemur eflaust fram að hann hefur minnkað.

Í nýjasta hefti Jökuls (No 59, 2009), fjallar Oddur Sigurðsson um jöklabreytingar. Um Svínafellsjökul árin 2006-2007 segir: Neskvísl sem rann frá jöklinum i Skaftafellsá er nú hætt að renna. Allt vatn frá jöklinum fer nú um Svínafellsá.

Einnig eru mælingar á stað 2 athyglisverðar en Guðlaugur Gunnarsson hefur séð um þær. Á árunum 1930-1960 hopaði hann um 403 metra. Skriðjökullinn bætti við sig 3 metrum á tímabilinu 1960-1990. Hann hörfaði um 96 metra 2003-2004 og 2 metra 2006-2007. Hopið síðustu kreppuár er augljóst.

Á stað 3 eru meiri breytinagar á Svínafellsjökli: Hop um 2.342 metra 1930-1960; Hop um 281 metra 1960 til 1990 og 72 metrar 2003-2004. 

Ég átti leið að jöklinum í vikunni og fór í gönguferð á Svínafellsjökli með fjallaleiðsögumanninum Einari Sigurðssyni hjá Öræfaferðum. Þetta er stórbrotin ferð, áhrifamikil og mjög lærdómsrík.

Það er svo margt sem jöklarnir vita og við vitum ekki um. Okkur birtast svipir góðs og ills sem mótuðust í iðrum breðans á meðan aldirnar líða.

Atriði í kvikmyndin, Batman Begins voru tekin við Svínafellsjökul í Öræfasveit árið 2004 og sést vel í einu bardagaatriðinu í jökulinn. Ég tók mynd af sama stað sex árum síðar og munurinn er gríðarmikill.

Hér er bardagaatriði úr Batman-myndinni (4:22):

SvBatmanBeginsJok

Liam Neeson og Christian Bale að berjast við jaðar Svínafellsjökuls á frostlögðu vatni. 

Mynd tekin í lok árs 2010 á sama stað:

IMG_3843

Bardagahetjurnar börðust á svellinu sem er í forgrunni og yfirborð jökulsins hefur lækkað mikið og jaðarinn hörfað. Hér eru ekki nein tæknibrögð í tafli heldur er jörðin að hlýna.


Veiðimenn norðursins - ljósmyndasýning á heimsmælikvarða

Sýning RAXa í Gerðasafni er stórglæsileg, alveg á heimsmælikvarða.

Að sjálfsögðu var margmenni við opnun sýningarinnar og mátti sjá ljósmyndlandsliði Íslands meðal áhorfenda. Voru þeir stórhrifnir.

Einn góður ljósmyndari, Einar Örn, segir í facebook-færslu sinni: "RAXi er langflottastur. Frábær sýning í Listasafni Kópavogs. Tímalausar ljósmyndir í anda Cartier-Bresson og Andre Kertesz."

Ég get tekið undir þessi orð.

Á neðri hæð er sýningin  Andlit aldanna. Þar eru glæsileg listaverk tekin í Jökulsárlóni og eiga myndirnar það sammerkt að vera í stóru formati og hægt að sjá andlit í hverri mynd. Einnig var sýnd kvikmynd sem sýndi listaverkin í Jökulsárlóni við undirleik Sigur Rósar. Stórmögnuð stemming.

Í vikunni fékk ég í hendur eintak af bókinni Veiðimenn norðursins sem ég keypti í forsölu. Bókin er glæsilegasta ljósmyndabók Íslendings. Inniheldur bókin 34 litljósmyndir og 126 svarthvítar ljósmyndir. Bera svarthvítu myndirnar af og sérstaklega hefur Ragnari tekist til að mynda fólkið, inúítana og veiðimennina og segja sögu þess. Það er augljóst þegar myndirnar í veiðiferð á þunnum ísnum eru skoðaðar að hann hefur unnið sér traust veiðimananna. Það er galdurinn á bakvið meistaraverkið. 

Ljósmyndabókin Veiðimenn norðursins fer við hlið Henri Cartier Bresson photograhie í bókahillu minni.

Ísbjörn

 Ísbjörn að glíma við loftslagsbreytingar á norðurslóðum.  Valdi þessa mynd RAXa með bókinni, Veiðimenn norðursins.


Skessuhorn (963 m)

Það var spennandi að komast á topp Skessuhorns í Skarðsheiði. Ég var aldrei þessu vant feginn að komast af toppnum. Það var þverhnípt niður og úrkomu hryðjur buldu á okkur, fjallafólki.

Það var kyrtt veður í Kópavogi þegar lagt var af stað rétt eftir dagmál. Komið við í Ártúnsbrekkunni og safnast í jeppa. Þaðan var haldið norður fyrir Skarðsheiði og eknir 7 km inn á Skarðsheiðarveg, illa viðhöldnum línuveg sem liggur milli Skorradals og Leirársveitar.

Þegar við stigum úr bílunum í 450 metra hæð var hráslagalegt, vindur og vott veður. Fótstallur Skessuhorns sást neðan undir þokunni. Ekki spennandi að hefja göngu. Fjallafólk ákvað að breyta ekki áætlun og halda áleiðis en snúa tímanlega ef veður lagaðist eigi. Þegar nær Heiðarhorn dró, þá minnkaði vindurinn en undirhlíðar Skarðsheiðar virka eins og vindgöng í sunnanáttum. Eftir þriggja kílómetra gang var komið undir Skarðið og það sást grilla í það en þá vorum við komin í um 600 metra hæð.

Tekið var nestisstopp og fólk drukku fyrir ókomnum þorsta! En Skaftfellingar á leið frá Skaftártungu og norður fyrir Mýrdalssand drukku vel vatn áður en lagt var í hann enda með lítið af brúsum meðferðis. Þeir notuðu því þessa snjöllu forvarnar aðferð.

Skriður og klungur eru á leiðinni að Skarðinu sem er í 865 metra hæð (N: 64.29.166 - W: 21.41.835). Fóru menn hægt og hljótt upp hallan og vönduðu hvert skref.  Þegar upp á rimann var komið blasti við hengiflug. En við héldum norður eftir háfjallinu fram að vörðunni sem trjónir á kollinum.  Vegalengdin er 500 metrar og fer lítið fyrir hækkuninni sem er um 100 metrar. Á leiðinni tóku sterkir vindsveipir í okkur og þokan umlék fjallafólk. Það var gaman að hugsa um steinana sem við gengum meðfram. Þeir hafa vakað í 5 milljónir ára og staðið af sér öll óveður, jökulsorf og jarðskjálfta.

Það var stoppað stutt á toppnum, lítið að sjá á einu mesta útsýnisfjalli Vesturlands. Nokkrar myndir teknar og farið í skjól. Þar var nestispása.  Ekki sást til Hornsárdalsjökuls en hann er um 2 km austan við Skessuhorn, brött fönn með sprungum og verhöggvin ístunga. Líklega einn minnsti jökull landsins.

Á bakaleiðinni sáum við skessu meitlaða í bergstálið. Það var langt niður en nokkrar sögur eru til um skessur. Ein hrikaleg kerling reyndi að grýta risabjargi alla leið til Hvanneyrar en þar vildi hún rústa kirkju sem var henni þyrnir í auga. Heitir steinn sá Grásteinn.

Á leiðinni niður voru skóhælar óspart notaðir og hæluðum við því okkur. Það hafði bætt í úrkomu og vind. Við toppuðum á réttum tíma. Er heim var komið var kíkt á veðrið á Botnsheiði og þá sást að vind hafði lægt um hádegið en jókst er líða tók á daginn enda djúp lægð að nálgast.

Þetta var spennuferð, skyldum við ná á toppinn. Það þarf ekki alltaf að vera sól og blíða. Það tókst en tilvalið að fara afur í góðviðri. Alveg þessi virði.

Góða myndasögu frá Heimi Óskarssyni má sjá hér:

Dagsetning: 15. október 2010
Hæð: 963 metrar
Hæð í göngubyrjun:  450 metrar, við Skarðsheiðarveg  (N: 64.29.647 - W: 21.45.839)
Hækkun: 513 metrar          
Uppgöngutími:  150 mín (09:00 - 11:30) 
Heildargöngutími: 280 mínútur  (09:00 - 14:00)
Erfiðleikastig: 3 skór
GPS-hnit Skessuhorn  N: 64.29.400 - W: 21.42.170
Vegalengd:  7,2 km
Veður kl. 11 Botnsheiði: 6,3 gráður,  11 m/s af SSA, úrkoma. Raki 94%

Veður kl. 12 Botnsheiði: 6,6 gráður, 8 m/s af SSA, úrkoma. Raki 95%
Þátttakendur: Fjallafólk ÍFLM, 30 manns á 9 jeppum.                                                                    
GSM samband:  Nei - Ekki hægt að senda SMS skilaboð  
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Skarðsheiðaravegi, og gengið að efir móa og mel að skarðinu upp á rima Skessuhorns. Farið upp skriður og klungur. Þegar skarði náð gengið eftir rimanum um 500 metra að vörðu á hornsbrún. Þverhnípt austan meginn en aflíðandi vesturhlíð. Um vetur þarf að hafa ísöxi og brodda.

 Skessuhorn

Jón Gauti Jónsson, farastjóri á toppnum. Það sér grilla í vörðuna á enda hornsins.


Hlöðufell (1186 m)

Ægifegurð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður er kominn á topp Hlöðufells. Það var ógnvekjandi og himneskt að vera á toppnum, altekinn af mikilfengleik sköpunarverksins og maður upplifir smæð sína um leið, þó er maður hávaxinn.

Víðsýnið af Hlöðufelli var stórfenglegt. Þegar horft var í norðvestur sást fyrst Þórisjökull, síðan Presthnjúkur, Geitlandsjökull, Langjökull, Hagavatn, Bláfell, Kerlingarfjöll, Hofsjökull, Vatnajökull, Hekla, Tindfjallajökull, Eyjafjallajökull, Vestmannaeyjar, Ingólfsfjall, Esjan og Botnssúlur. Einnig sást inn á Snæfellsnes . Í suðvestri voru hin þekktu Þingvallafjöll, Skriða að Skriðutindar og nágrannarnir, Kálfatindur, Högnhöfði og Rauðafell. Síðan horfðum við niður á Þórólfsfell þegar horft var í norður.Skjaldbreiður, ógnarskjöldur, bungubreiður er magnaður nágranni en það var dimmt yfir henni.

Gullni hringurinn og Hlöðufell, þannig hljóðaði ferðatilhögunin. Lagt af stað í skúraveðri frá BSI og komið við á Þingvöllum. Þar var mikið af fólki og margir frá Asíu. Eftir að hafa heilsað upp á skálin Einar og Jónas var halið á Laugarvatn, einn farþegi bættist við og haldið yfir Miðdalsfjall. Gullkista var flott en hún er áberandi frá Laugarvatni séð. Síðan var keyrt framhjá Rauðafelli en þar eru flott mynstur í móberginu. Að lokum var keyrt yfir Rótasand á leiðinni að Hlöðuvöllum.

Á leiðinni rifjuðum við Laugvetningarnir frá Menntaskólanum skemmtilega sögu sem Haraldur Matthíasson kennari átti að hafa sagt:  "að það væri aðeins ein fær leið upp á á Hlöðufell og þá leið fór ég ekki."

Við fórum alla vega einföldustu leiðina. Þegar komið er að skála Ferðafélags Íslands sést stígurinn upp fellið greinilega. Fyrst er gengið upp á stall sem liggur frá fellinu. Þegar upp á hann er komið er fínt að undirbúa sig fyrir næstu törn en það er skriða sem nær í 867 metra hæð. Klettabelti er efst á leiðinni en mun léttari en klettarnir í Esjunni. Síðan er næsti áfangi en um tvær leiðir er að velja, fara beint upp og kjaga í 1081 metra hæð. Þá sést toppurinn en um kílómeter er þangað og síðustu hundrað metrarnir. Það er erfitt að trúa því en staðreynd. 

Þegar upp á toppinn er komið, þá er geysilegt víðsýni, ægifegurð eins og áður er getið. Á toppnum var óvæntur gjörningur. Einhverjir spaugsamir listamenn höfðu komið fyrir stöðumæli sem er algerlega á skjön við frelsið. Því stöðumælar eru til að nota í þrengslum stórborga. Einnig má sjá endurvarpa sem knúinn er af sólarrafhlöðum.

Gangan niður af fjallinu gekk vel og var farið niður dalverpið og komið að uppgönguleiðinni einu. Þaðan var keyrt norður fyrir fjallið, framhjá Þórólfsfelli og inná línuveg að Haukadalsheiði. Gullfoss og Geysir voru heimsóttir á heimleiðinni.

 

Dagsetning: 19. september 2010
Hæð: 1.186 metrar
Hæð í göngubyrjun:  460 metrar, við Hlöðuvelli, skála (64.23.910 - 20.33.446) 
Hækkun: 746 metrar          
Uppgöngutími:  120 mín (13:00 - 15:00), 2,5 km bíll - Tröllafoss
Heildargöngutími: 210 mínútur  (13:00 - 16:30)
Erfiðleikastig: 3 skór
GPS-hnit toppur:  N: 64.25.171 - W: 20.32.030
Vegalengd:  5,8 km
Veður kl 15 Þingvellir: 7,2 gráður,  1 m/s af NA, léttskýjað
Þátttakendur: Ferðaþjónustan Stafafelli, 8 manns.                                                                   
GSM samband:  Já - gott samband á toppi en neyðarsímtöl á uppleið.
Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Hlöðuvöllum, gengið upp á stall, þaðan upp í 867 metra hæð en dalverpi er þar. Leiðin er öll upp í móti en þegar komið er í 1.081 metra hæð, þá er létt ganga, kílómeter að lengd að toppinum. Minnir á göngu á Keili.  

 Hlodufell

Ferðafélagar á toppi Hlöðufells. Klakkur í Langjökli gægist upp úr fönninni.

 Stöðumælir

Stöðumælirinn í víðerninu. Kálfatindur og Högnhöfði á bakvið.


Last Chance to See

Hann er skemmtilegur og fræðandi heimildarþátturinn Síðustu forvöð (Last Chance to See) sem er á mánudagskvöldum. En þættir frá BBC hafa ákveðin klassa yfir sér og komast fáir framleiðendur nálægt þeim.

Þar ferðast félagarnir Stephen Fry, leikari og Mark Carwardine, dýrafræðingur, ljósmyndari og rithöfundur um heiminn og skoða dýr sem eru í útrýmingarhættu. Þeir fylgja eftir ferð og þáttum sem gerðir voru fyrir 20 árum og bera saman.

hvalurMark Carwardine er Íslandsvinur. Ég hef orðið svo frægður að hitta hann eitt sinn á Hornafirði en þá var hann að hvetja menn til að hefja hvalaskoðunarferðir hér við land. Þetta hefur verið haustið 1993. Hann miðlaði mönnum af kunnáttu sinni. Ég man að hann var að skipuleggja ferð norður á land til Dalvíkur og Húsavíkur. Jöklaferðir voru þá nýlega um sumarið búnir að fara með farþega í skipulagðar hvalaskoðunarferðir á Sigurði Ólafssyni frá Hornafirði.

Mark var þægilegur í umgengni. Kurteis eins og allir vel uppaldir Englendingar. Sagði "thank you" reglulega. Hann var með fjölskyldumeðlimi í ferðinni á Hornafirði og þau áttu ekki orð til að lýsa náttúrufegurðinni út um hótelgluggann þegar skjannahvítan jökulinn bar við himinn.

Mark hefur ritað bækur sem gefnar hafa verið út hér á landi. Bókin Hvalir við Ísland, risar hafdjúpanna í máli og myndum ef eitt afkvæma hans.  Ari Trausti Guðmundsson þýddi og Vaka-Helgafell gaf hana út árið 1998.

Á bókarkápu segir að  hann líti á Ísland sem annað heimaland sitt og hefur komið hingað meira en 50 sinnum frá árinu 1981.

Bókin hefst á þessum skemmtilegu orðum: "Hvalaskoðun við Ísland hefði fyrir nokkrum árum þótt jafnfjarri lagi og froskköfun í Nepal, skíðamennska í Hollandi eða strandlíf á Svalbarða. Fyrsta almenna hvalaskoðunarferðin var farin frá Höfn í Hornafirði 1991 til að skoða hrefnur og hnúfubaka undan hinni stórbrotnu suðausturströnd Íslands. Allar götur síðan hefur þjónustugrein þessi vaxið að umfangi og telst landið nú afar eftirsóknarvert meðal hvalaskoðara um heim allan."

Nú er bara að bíða eftir næstu þáttaröð hjá þeim félögum, hann verður kanski um dýralíf á Íslandi.


Fyrsti slátturinn

Vorið er á áætlun í Álfaheiðinni í ár þrátt fyrir kaldan apríl.

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var í gærkveldi, tæpri viku á undan fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá átta sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur. Aspirnar eru fallnar og aðeins sér í rætur þeirra. Þær verða fjarlægðar á næsta ári. En ræturnar voru orðnar full fyrirferðamiklar á lóðinni.

Flesjan er frekar missprottin og ágætis vöxtur á vestari grasbalanum inni í húsasundinu og gaf hann af sér nokkra hestburði. Sprettan var mjög mikil á austurtúnunum. Má þetta grasfræinu sem borið var á fyrir mánuði. Aspirnar fallnar fyrir nokkru og grasið nýtur sín í sólinni. Fáir túnfíflar sáust.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. Þessar tölur segja að vorið í ár var hagstætt gróðri.

2009    21. maí
2008    15. maí
2007    26. maí
2006    20. maí
2005    15. maí
2004    16. maí
2003    20. maí
2002    26. maí
2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið betra en síðasta ár. 


AVATAR ****

Hvar er kreppan? Ekki var hún sjáanleg í Smárabíó í gærkveldi, þriðjudagskveldi. Eintóma bið og þrengsli á þrívíddarsýningu á AVATAR. Þegar maður loks fékk sæti var það á fremsta bekk en nálægt miðju. Etv. er ásókn í kvikmyndahús eitt jákvætt birtingarform kreppunnar. Góð skemmtun fyrir lítinn pening.

AVATARLíklega hefur nálægði við sviðið skapað sérstakt samband milli áhorfanda og myndar. Stundum lá við að maður gæti gripið í hluti sem birtust svo nálægir voru þeir. Textinn var einnig á mismunandi stöðum en ef hlutur stóð fram í sal, þá var ekki hægt að líma texta yfir hann.

Epíska stórmyndin AVATAR (manngervingur), dýrasta kvikmynd sögunnar stendur undir nafni. Leikstjórinn, James Cameron er með fallegan boðskap sem á vel við í dag eftir hálf mislukkaða loftslagsráðstefnu og olíustríð í Írak. Tölvubrellurnar í þrívíddinni komu vel út, frumskógurinn sannfærandi en hreyfingar hinna 2,5 metra Navi manna oft stirðbusalegar. Vinsældir AVATAR eiga eflaust eftir að hjálpa til við framleiðslu á fleiri þrívíddarmyndum og þróun þrívíddarsjónvörpum.

Snúum okkur að efni myndarinnar. Avatar er vísindaskáldsaga og gerist árið 2154. Í stuttu máli fjallar hún um lamaðan landgönguliði í bandaríska flotanum að nafni Jake Sully (Sam Worthington) sem býður sig fram til þess að lifa sem manngervingur á plánetunni Pandóru og njósna um innfædda íbúa, Navi fólkið, fyrir herinn og ónefnt stórfyrirtæki sem leitar sérstakrar steintegundar. Hefst þá mikil þroskasaga. Sully verður ástfanginn af Neytiri, fallegri Navi prinsessu og lærimeistara sínum. Fyrr en varir verður hann flæktur í átök milli hersins og ættbálks hennar en hamingjusamt kattarfólkið eða indíánarnir vilja ekki flytja sig brott.

Hefst mikil orrusta milli Neo-Con manna og frumbyggja og minnir á uppgjörið í Hringadróttinssögu. Mörg önnur atriði finnst mér ég hafa séð áður. T.d. tölvutækni í Minority report og sögusvið Dances with Wolves.

Myndin endar illa fyrir hluthafa stórfyrirtækisins, eflaust verið send afkomuviðvörun fyrir ársfjórðungsuppgjör fyrirtækisins en fyrir alla aðra er endirinn góður, spennandi en fyrirsjáanlegur.

"Orkan er fengin að láni og henni verður að skila aftur" er boðskapur myndarinnar.

Nú þarf maður að fara á 2D myndina þegar hægjast fer um og bera saman brellurnar í útgáfunum, þetta er flott peningasvikamylla í Hollywood!

  


Jöklarnir vita svo margt

Masaru Emoto 

Japanski vísindamaðurinn Masaru Emoto gaf út bókina Falin skilaboð í vatni. Þar segir hann frá rannsóknum sem hófust af tilviljun þegar honum datt í hug að kanna betur máltækið "engir tveir ískristallar eru eins." Hann frysti vatn og tók myndir af kristöllunum og komst að því að það var vissulega eitthvað til í þessu máltæki.

Rannsóknir Emotos tóku óvænta stefnu þegar hann ákvað af rælni að sjá hvaða áhrif tónlist og hljóðbylgjur hefðu á vatnið. Þannig ljósmyndaði hann ís sem myndaðist þegar hann spilaði 5. sinfóníu Beethovens, Mozart, Bach og "Let it be" eftir Bítlana. Í öllum tilfellum mynduðust einstaklega skærir og fallegir kristallar en "Heartbreak Hotel" með Elvis Presley varð frekar ljótur og sundraður ískristall, söluleiðis allt dauðarokk. Sama niðurstaða varð þegar jákvæð orð voru skrifuð og neikvæð.

Emoto vill meina að að jákvæðar og fallegar hugsanir skili sér beinlínis út í veröldina enda erum við 70% vatn.

Sturlungaöld í íslenskum stjórnmálum                                                 

Ísinn í Jökulsárlóni er talinn vera á bilinu 600-800 ára gamall og segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur að kristallarnir í þessum gamla ís séu hnefastórir. Ísinn geymir ókjör upplýsinga um fortíðina sem engan grunaði að hægt væri að kalla fram.

Ef það sem Emoto segir er rétt, að orð, texti og hugsanir hafi áhrif á vatnið og minningar varðveitist og geymist má segja að það sé sjálf Sturlungaöldin sem kelfir fram í Jökulsárlónið um þessar mundir. Það spillir ekki upplifuninni að því að fylgjast með jöklum ryðjast fram og brotna sem aldrei fyrr. Orð, textar og hugsanir sem voru á sveimi á 13. öld og lágu frosin í 800 ár losna nú úr viðjum sínum. Hvort hugmyndirnar fara aftur á kreik er erfitt að segja. Þarna brotnar ís og bráðnar frá tímum þegar stórhöfðingjar risu til valda og ríkir menn og kaldráðir lögðu undir sig heilu landshlutana, útrás og þrá eftir frægð, fram og viðurkenningu endaði með innrás. Það liggur eitthvað í loftinu og jakarnir bráðna sem aldrei fyrr.

Er árið 1262 að bráðna í Jökulsárlóni en þá var Gamli Sáttmáli undirritaður, rétt eins og IceSave og EES-umsókn. Neikvæðu hugsanirnar og aðgerðirnar á Sturlungaöld eru að hafa áhrif á mannfólkið.

Heimild:

Lesbók Morgunblaðsins, Andlit frá Sturlungaöld, laugardagur 29. apríl 2006. Andri Snær Magnson.

Klakar

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 306
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 246
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband