Færsluflokkur: Ferðalög

Santi Cazorla

Þeir hlógu mikið frændurnir Ari Sigurpálsson og Ingiberg Ólafur Jónsson þegar leikmaður númer 19, Spánverjinn Santi Cazorla hljóp inn Emirates völlin fyrir leik gegn QPR.  „Hann er eins og álfur“, sögðu þeir enda sérfróðir um álfa. Búnir að vera í Álfhólsskóla og annar í leikskólanum Álfaheiði. Auk þess hafa þeir búið í Álfaheiði.

Santi CazorlaSanti hefur ekki mikla hæð (1.65 m) en bætir það upp á öðrum sviðum.  Í síðasta leik gegn Aston Villa skoraði hann tvö mörk og tryggði mikilvægan sigur. Seinna markið var Malaga-mark, en nýi vinstri bakvörðurinn nýkominn frá Malaga, Nacho Monreal gaf góða sendingu inn í teig og Santi stýrði knettinum í hornið.  Hann slökkti á Aston Villa og sendi í fallsæti. Einnig létti sigurinn á pressunni á Wenger en gengi Arsenal hefur verið lélegt í bikar og Meistaradeild. 

"Oh santi cazorla, oh santi cazorla", sungu stuðningsmenn Arsenal í megnið af leiknum.

Santiago Cazorla González kom til Arsenal í júlí frá Malaga fyrir 16 milljón pund en liðið þurfti að selja leikmenn til að grynnka á skuldum. Vakti hann strax athygli stuðningsmanna frá fyrstu mínútu fyrir hugmyndaríki í sendingum og öflug markskot.

Hann hafði orðið Evrópumeistari með Spáni 2012 og 2008 en miðjumennirnir Xavi, Fabregas og Iniesta skyggðu svo á hann að menn tóku ekki vel ekki eftir honum.  Santi er leikmaðurinn sem kemur til með að fylla skarðið sem Fabregas skyldi eftir sig er hann hélt heim til Barcelona.

Hann fæddist í borginni Llanera í sjálfsstjórnarhéraðinu Asturias á norður Spáni 13. desember 1984 og er því 28 ára en það er góður knattspyrnualdur. Hann hóf ungur knattspyrnuferilinn með Oviedo sem er aðal liðið í héraðinu. Þaðan fór hann til  Villarreal.  Í millitíðinni lék hann með Recreativo de Huelva og var kosinn leikmaður ársins á Spáni. Þaðan hélt hann aftur til Gulu kafbátanna og á síðasta leiktímabili lék hann með Malaga Andalúsíu og náði liðið fyrsta skipti Meistaradeildarsæti.

Helsti styrkleiki Cazorla er að hann er jafnvígur á báðar fætur. Hann gefur hárnákvæmar sendingar og í hornspyrnum og aukaspyrnum er nákvæmni skota mikil. Hann hefur verið á báðum köntum og einnig sóknartengiliður. Hann er fimur,  með mikla knattspyrnugreind og skapandi leikmaður. Hraði hans og fjölhæfni var þyrnir í augum varnarleikmanna í spænsku deildinni í 8 ár og nú hrellir hann enska varnarmenn stuðningsmönnum Arsenal til mikillar ánægju.

Þegar Ari Sigurpálsson heimsótti Emirates Stadium í haust var hann búinn að velja leikmann ársins.

Santi Cazorla og Ari

Ari á japanskri sessu hjá sínum leikmanni#19, S. Cazorla.


Jöklunum blæðir

Í nýlegri skýrslu, SVALI, en hún er norrænt rannsóknarverkefni kemur fram að Íslensku jöklarnir þynnast nú um u.þ.b. 1 m á ári að meðaltali. Það jafngildir 9,5 km³ vatns á ári og leggja þeir um 0,03 mm árlega til heimshafanna. 

Samkvæmt skýrslunni hafa jöklar við Norður-Atlantshaf hopað og þynnst hratt síðustu árin eins og raunin er með jökla víðast hvar á jörðinni.

Á ferð minni undir Öræfajökli tók ég mynd af Hólarjökli en hann er lítill skriðjökull úr risanum og fóðrar lítinn foss og litla á. 

Helstu orsakir bráðnunarinnar er tilkoma gróðurhúsaahrifa. Helstu áhrif gróðurhúsaárhrifa eru:

1)   Útstreymi gróðurhúsalofttegunda
2)   Minnkun lífmassa á jörðu með eyðingu frumskóga.  

Því ættu stjórnvöld, einstaklingar og fyrirtæki að setja áramótaheit. Minnka gróðurhusaáhrif og vinna að sjálfbærni.

30122012

Mynd tekin 30. desember 2012.  Rýrnunin á milli tveggja ára er augljós, jöklarnir bráðna sem aldrei fyrr.

29122010

Mynd tekin 29. desember 2010.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/

Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/

Hólárjökull 2012 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1253486/


Súrrealískt landslag

Græni hryggur í Sveinsgili í Friðlandi að Fjallabaki er einstök náttúrusmíð. Hann verður að vernda.

Í ólýsanlegri ferð um Friðland að Fjallabaki með Ferðafélagi Árnesinga var ég svo heppinn að berja náttúruundrið augum.  Græni hryggurinn, sem fáir vissu um þar til fyrir örfáum árum, liggur eins og risastór gota, wasabi grænn og við hliðina á honum er annar minni hryggur, kanil litaður.

Sú hugsun skýtur upp hvort þessi undur og stórmerki væru enn til ef svæðið væri ekki svo afskekkt og fáfarið sem raunin er.  Fyrir aðeins þremur árum voru það aðeins fjársmalar sem höfðu barið hann augum, en engir ferðamenn áttu leið um þetta torfæra og vandrataða svæði.

Ég kenndi í brjóst um ósnortið landið. Fáir höfðu verið á göngu þarna og ekki sást móta fyrir göngustígum. Því sáust spor okkar á leiðinni upp í Hattver. Við vorum því eins og tunglfarar. Sú hugsun skaut upp í kollinum að takmarka þurfi aðgang og fá leyfi rétt eins og í þjóðgörðum víða um heim.

Skaparinn hefur verið í stuði þegar hann mótaði landslag í Friðlandinu. En náttúruvísindamenn hafa líta á hlutina með öðrum augum. Hér er efnafræðileg skýring á jarðmyndununum og er hún miklu órómantískari.

"Litskrúð og form fjallana er aðall Landmannalauga og umhverfi þeirra. Hvergi á landinu eru víðáttumeiri líparítmyndanir og hvergi kraumar jarðhitinn af meiri ákafa, nema ef vera skyldi undir íshellu Grímsvatna. Líparít og ummyndað berg spanna í sameiningu allt litróf hinna mildu jarðarlita. Kolsvört hrafntinna og hvítur líparítvikur, sama efnið í tveimur myndunum, eru skörpustu andstæðurnar. Á milli eru gulir, grænir, grábláir, brúnir og rauðir litir ummyndaðia bergsins og kringum gufuaugun er hveraleirinn í mörgum litatónum.

Litadýrðin við hverina stafar af því að í vatninu og gufunni er koltvísýringur (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) og þegar brennisteinsvetnið tekur til sín súrefni myndast brennisteinssýra. Hitinn og sýran moðsjóða bergið og þá verður til leir en ýmis tilfallandi efnasambönd kalla litina fram. Hvítar útfellingar eru hverahrúður og gips en þær gulu eru brennisteinn. Brúnn og rauðleitur leir tekur lit sinn af járnoxíðum en sá grái af samböndum járns og brennisteins." (362)

 Græni Hryggurinn

Einstök litaflóra. Efast um að súrrealískir landslagsmálarar hafi dottið niður á þessa litasamsetningu.

Jökulsá  í Sveinsgili

Íslensk göngumær á leið yfir kalda jökulá. Helsta hindrunin að Græna hrygg er köld jökulá sem á uppruna sinn í Torfajökli. Hún getur orðið mikið forað í sumarhitum. Það þurfi að fara fimm sinnum yfir ána á leiðinni frá Kirkjufelli í gegnum Halldórsgil.  Vegalengd 7 km.

Heimildir:
Perlur í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson


Sandfell (390 m) í Kjós

Það lætur ekki mikið yfir sér Sandfellið í Kjós. Helst að maður taki eftir því þegar maður ekur Mosfellsdal og inn Kjósarskarð.

Fellið er dæmigert Sandfell en þau eru mörg fellin sem bera þetta nafn.

Sandfell rís um 130 metra yfir umhverfið og hefur myndast við gos undir jökli fyrir um 50.000 árum eða svo. Er það móbergsfjall sem hefur haldið nokkuð lögun sinni þrátt fyrir að hafa myndast á tímum elds og ísa.

Á leiðinni sér í gamla þjóðleið, Svínaskarðsveg sem liggur úr Kollafirði og yfir í Hvalfjörð.

Það sem er heillandi við ágústgöngur eru berin. Berjaspretta var ágæt í Kjósinni. Bláber og krækiber töfðu göngufólk og voru göngumenn fullir af andoxunarefnum eftir að hafa tínt í sig ofurfæði úr náttúru Íslands.

Bláberin verja frumur líkamans fyrir skemmdum af völdum sindurefna. Lífið er stöðug barátta góðs og ills.

Lítið útsýnisfjall. Víðsýnt er yfir Kjósina. Meðalfell er helsta fjallið í austurátt og falleg Laxáin sem rennur í bugðum í Hvalfjörðinn. Síðan sér í Hvalfjörð, lágreist Írafell sem þekkt er fyrir drauginn Írafellsmóra, Skálafell og Trana í suðri. Esjan norðanverð tekur mikið pláss. Hægt að sjá hæstu tinda Skarðsheiðar.

Dagsetning: 22. ágúst 2012
Hæð Sandfells: 390 m
GPS hnit varða á toppi Sandfells: (N:64.18.462 - W:21.27.602)
Hæð í göngubyrjun:  63 metrar (N:64.18.699 - W:21.29.920) við Vindás
Hækkun: 327 metrar          
Uppgöngutími: 60 mín (19:22 - 21:22) – 2 km loftlína
Heildargöngutími: 128 mínútur (19:22 - 21:30)
Erfiðleikastig: 1 skór
Vegalengd:  4,5 km
Veður kl. 21 Þingvellir
: Skúrir, áttleysa 0 m/s, 11,7 °C. Raki 86%
Þátttakendur: Útivist, 26 þátttakendur
GSM samband:  Já
Sandfell:  (23) M.a. Sandfell við Þingvallavatn og Sandfell við Sandskeið.

Gönguleiðalýsing: Lagt af stað frá Kjósarvegi rétt sunnan við bæinn Víndás og gengið yfir mýri upp á kjarri vaxinn stall sem skyggir á Sandfellið. Þegar upp á stallinn er komið sér í fellið og gengið að rótum þess. Hækkun frá rótum að toppi um 130 metrar. Létt uppganga en ber að varast lausagrjót á móbergsklöppinni.

Sandfell í Kjós

Við rætur Sandfells í Kjós. Fellið gnæfir 130 metra yfir umhverfið.

 Á toppi Sandfells í Kjós

Myndaleg varða á toppi Sandfells. Skálafell og Trana í baksýn.

Heimildir
Toppatrítl, Sandfell í Kjós 25. maí 2005


Armstrong og Nautagil

Nú er Neil Armstrong geimfari allur. Blessuð sé minning hans.

Þegar fréttin um andlát hans barst þá reikaði hugurinn til Öskju en ég gekk Öskjuveginn árið 2006 og komu geimfarar NASA til sögunnar í þeirri ferð.

Gil eitt ber nafnið Nautagil en hvað voru naut að gera á þessum slóðum?


Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.

Nafngiftin er komin frá jarðfræðingunum og húmoristunum Sigurði Þórainssyni og Guðmundi Sigvaldasyni. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Margt bar fyrir augu í Nautagili, m.a. vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.

Hraunrós í Nautagili

Hér er mynd af Eyvindi Barðasyni við Bergrósina í Nautagili árið 2006

Appolo geimfarar í Nautagili

Hér eru geimfararnir að skoða sömu bergrós. Mynd af goiceland.is eftir Sverrir Pálsson og NASA.

Eitt par, náttúrufræðingarnir, í hópnum ákváðu að sofa úti um eina nóttina og tengjast náttúrunni betur. Þau fetuð í spor ekki ómerkari manna en geimfarana Anders og Armstrong er lögðust í svefnpoka sína úti undir berum himni þegar þeir voru í Öskju fyrir 45 árum. Neil Armstrong átti í kjölfarið eftir að stíga fyrstur manna á tunglið og segja setninguna frægu, “Þetta er lítið skref fyrir einn mann en risastökk fyrir mankynið.”

Eit


Hólárjökull 2012

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 14. ágúst 2012.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

Hólárjökull06

   Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólárjökull 2011

  Hólárjökull, 14. ágúst 2012 í þokusúld. Augljós rýrnun á 6 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/

Hólárjökull 2011 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/1192311/


Klakkur í Langjökli (999 m)

Við vörum klökk yfir náttúrufegurðinni á toppi Klakks í Langjökli.  Klakkur er einstakt jökulsker sem skerst inn  Hagafellsjökul vestari í Langjökli. Opinber hæð Klakks er einnig áhugaverð, 999 metrar og þegar göngumaður tyllir sér á toppinn, þá gægist Klakkur yfir kílómetrann. Svona er máttur talnanna.

En til að skemma stemminguna,  þá sýna GPS-tæki að Klakkur eigi nokkra metra inni.  Klakkur með lágvöruhæðartöluna.

Lagt var í ferðina frá línuveginum norðan við Þórólfsfelli, stutt frá grænu sæluhúsi og tröllslegri Sultartungnalínu sem liggur fyrir norðan fellið niður í Hvalfjörð. Stefnan var tekin beint á Klakk, gengið austan við Langavatn og fylgja jökulánni og ef menn væru vel stemmdir fara hringferð og heimsækja Skersli. Af því varð ekki.  

Í bókinni Íslensk fjöll, Gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta Guðmundsson og Pétur Þorleifsson er annarri leið lýst en þá er lagt í gönguna frá Tjaldafelli, meðfram Lambahlíðum og Langafelli og upp grágrýtisdyngjuna Skersli og kíkt í gíginn Fjallauga.  Þessi ganga er mun lengri.  

Kort

Mynd af korti við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Rauða línan sýnir göngu frá Þórólfsfeli en hin frá Tjaldafelli hjá Sköflungi en hann er líkur nafna sínum á Hengilssvæðinu.

Þó Klakkur sé kominn í bókina vinsælu, Íslensk fjöll, þá er hann fáfarinn og ef við rákumst á fótspor á fjöllum, þá voru þau gömul, sennilega frá síðasta sumri. En þrátt fyrir að gangan sé löng þá er hún þess virði. Farastjórinn Grétar W. Guðbergsson fór fyrir sex árum sömu leið og höfðu orðið nokkrar breytingar.  Í minningunni var nýja jökulskerið ekki minnisstætt, meira gengið á jökli eða fönn og svo voru komin jökulker í miðlínuna sem liggur frá Klakki. Svæðið er því í sífelldri mótun.

Ferðin sóttist vel í ísnúnu hrauninu en eftir fjögurra tíma göngu var komið að rótum jökulskersins. Þá var göngulandið orðið laust undir fót. Helsta tilbreytingin á leiðinni var nýlegt nafnlaust jökulsker sem er sífellt að stækka vegna rýrnunar jökulsins. Langafell er áberandi til vesturs og eru margir áhugaverðir gígar í því. Hið tignarlega Hlöðufell og Þórólfsfell minnkuðu sífellt er lengra dró. Minnti ganga þessi mig mjög á ferð á Eiríksjökul fyrir nokkrum árum.

Hápunktur ferðarinnar var gangan á jökli. Hann var dökkur jökulsporðurinn en lýstist er ofar dró. Mikil bráðnun var á yfirborði jökulsins og vatnstaumar runnu niður jökulinn. Sandstrýtur sáust með reglulegu millibili neðarlega á jöklinum og nokkrir svelgir höfðu myndast í leysingunni en þeir geta orðið djúpir.

Þegar komið er upp á jökulinn er haldið upp á Klakk og eru göngumenn komnir í 840 metra hæð. Gangan upp fjallið er erfið, mikið laust grjót og hætta á grjóthruni. Jökullinn hefur fóðrað skerið með nýjum steinum. Þegar ofar er komið sér í móberg og er þá fast fyrir.

Komust við svo klakklaust upp á topp Klakks.

Klakkur Google Earth

Mynd af nágrenni Klakks í Hagafellsjökli vestari í Langjökli. Tekin árið 2009.

Útsýni af Klakki er sérstakt. Langjökull með skrautlegt munstur tekur stærsta hluta sjóndeildarhringsins. Í norðvestri sér í Geitlandsjökul síðan  Þórisjökull en milli þeirra liggur hið fræga huldupláss Þórisdalur og yfir honum sér í Okið.  Ísalón er áberandi og Hryggjavatn í Þórisdal.

Í austri má sjá Hagafell, langan fjallsrana sem teygir sig langt upp í jökulinn frá Hagavatni. Yfir það sést aðeins á Bláfell og Jarlhettur. Tröllhetta (Stóra-Jarlhetta), ein af Jarlhettunum er glæsileg þegar hún stingur upp hausnum yfir Hagafell og Hagafellsjökul vestari, glæsileg sjón.  Nokkuð mistur var og sáust sum illa og ekki minnisstæð en Kálfstindur og Högnhöfði en nær félagarnir Þórólfsfell og Hlöðufell í suðri. Langavatn og Langafell eru í ríki Skerslis og þá er komið að Skriðu, Skjaldbreið og Botnssúlur. Þar til hægri sá í Stóra-Björnsfell.

Betur af stað farið en heima setið á Frídegi verslunarmanna og fullur af endorfíni eftir kynni af jökli og jökulskerjum í ferðalok.

Dagsetning: 6. ágúst 2012 – Frídagur verslunarmanna
Hæð Klakks: 999 m  (722 m rætur jökulskers, 277 m hækkun)
GPS hnit Klakks: (N:64.34.040 - W:20.29.649)
Lægsta gönguhæð: 469 m, lægð á miðri leið
Hæð í göngubyrjun:  506 metrar við Þórólfsfell, rafmagnsstaur #163 , (N:64.27.531 - W:20.30.487)
Hækkun: 493 metrar          
Uppgöngutími: 330 mín (11:10 - 16:40) – 14,4 km
Heildargöngutími: 600 mínútur (11:10 - 21:10)
Erfiðleikastig: 3 skór
Vegalengd:  27 km
Veður kl. 12 Þingvellir: Skýjað, S 1 m/s, 15,8 °C. Raki 57%
Veður kl. 15 Þingvellir: Léttskýjað, NA 4 m/s, 16,0 °C. Raki 56%
Þátttakendur: Útivist, 17 þátttakendur
GSM samband:  Já, á toppi en dauðir punktar á leiðinni
Klakkar:  (5) Við Grundarfjörð, á Vestfjörðum, í Kerlingarfjöllum og í Hofsjökli.

Gönguleiðalýsing: Langdrægt jökulsker í einstöku umhverfi. Löng eyðimerkugarganga í ísnúnu hrauni á jafnsléttu og sérstakakt útsýni í verðlaun.

 Klakkur

Klakkur með jökul á vinstri hönd og til hægri jökulgarð, raunar leifar af miðrönd sem lá frá Klakki meðan hann var jökulsker. Slíkir garðar eru jafnan með ískjarna og eru kallaðir "ice cored moraine" á ensku.

Heimildir:
Oddur Sigurðsson, tölvupóstur.
Íslensk fjöll, Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson

 

 


Í fótspor Þórbergs

ÞórbergurVona að það sé góð þátttaka í Framhjágöngu Þórbergs en Ferðafélag Íslands stendur fyrir þessari stórmerkilegu ferð. Þá gekk skáldið fullur bjartsýni frá Norðurfirði í Ströndum til Reykjavíkur á þrettán dögum og með þrettán krónur í vasanum.  Þetta er þekktasta gönguferð íslenskra bókmennta.

Nú eru slétt 100 ár síðan þessi stórmerkilega ganga var gengin og er undirbúningur Ferðafélagsins til fyrirmyndar.  Glæsilegt skjal er því til vitnis.

Ég kemst því miður ekki en ætla að fylgjast með göngufólki.

Pétur Gunnarsson skrifaði um atburð þennan í bókinni ÞÞ í fátæktarlandi og svipti rómantíkinni af atburðinum.


Skipulag á Siglufirði

Þegar gengið er fyrir ofan snjóflóðagarðinn eftir slóðanum að Hvanneyrarskál þá sést bæjarskipulagið vel á Siglufirði og þá er augljóst að menn hafa hugsað fram í tímann.

Ég get tekið undir með Birni þegar hann segir að: "Siglufjörður er einn fárra bæja á Íslandi sem hafa raunverulegan miðbæjarkjarna. Göturnar liggja eftir Hvanneyri eftir reglustikumynstri og þeim hugmyndum sem sr. Bjarni Þorsteinsson setti fram."

Fyrir vikið er Siglufjörður fallegur bær og á stórmekilega sögu sem speglast í Síldarminjasafninu. Ég skil vel að Birni líki vel við Aðalgötu í Siglufirði. Þar var gott mannlíf í sumar.  Ágætir matsölustaðir, kaffihús, Sportvöruverslun og tískuverslun. Allur bragur bar vott um gamalt stórveldi.

Að sjá yfir Hvanneyrina minnti mig á borgina la Laguna á Tenerife en  hún var notuð sem módel af Kólumbusi fyrir margar borgir í Ameríku.

Skipulag á Siglufirði

Aðalgata frá fjöru til fjalla. Siglufjarðarkirkja (anno 1932) í öndvegi.  Snjóflóðavarnargarðar í forgrunni.


Strákagöng rufu einangrun Siglufjarðar en nú hafa Héðinsfjarðargöng opnað allt upp á gátt. Hér er stutt heimildarmynd um hjólaferðalag um 830 metra Strákagöng.
mbl.is Gatan mín: Aðalgata á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítserkur (15 m)

Skrímslið úr hafinu, er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar Hvítserkur birtist frá fjörubrúninni. En skrímslið með risaeðluútlitið sést ekki frá veginum enda er skammt frá landi út og níður frá Ósum á Vatnsnesi.

Hvítserkur er sérkennilegur brimsorfinn klettur, þunn basaltsbrík, í sjó við vestanverðan botn Húnafjarðar í Vestur-Húnavatnssýslu.  Hvítserkur er hvítur af fugladriti og er sennilegt að nafnið sé dregið af því. Kletturinn er 15 metra hár. Hægt er að labba niður í fjöruna og skoða klettinn enn nánar, skemmtileg fjöruferð fyrir börnin.

Brimrofið hefur gatað helluna, þannig að hún hefur yfirbragð steinrunninnar ófreskju. Undirstöður drangsins hafa verið styrktar með steinsteypu.

Nokkrar fuglategundir verpa í þverhnípinu og neðan þess, einkum fýll og heimildir segja að skarfur sé algengur en ekki sást neinn í leiðangrinum. 

Merking orðsins hvítserkur er ‘hvítur kyrtill (ermalaus eða ermastuttur)’. Hvítserkur sem örnefni er notað um eitthvað sem líkist slíku fati. Einnig er til fjall (771 m) milli Húsavíkur og Borgarfjarðar eystri í Norður-Múlasýslu og foss í Fitjaá í Skorradal í Borgarfirði.

Dagsetning: 18. júlí 2012
Hæð Hvítserks í fjöruborði: 15 m    
GPS Hvítserkur:  N: 65°35′46″  V: 20°37′55″ 
Erfiðleikastig: 1 skór
Göngutími: 10 mínútur
Þátttakendur: Fjölskylduferð, þrír meðlimir
Veðurlýsing, Blönduós kl. 15:00: NNV 3 m/s, skýjað, 12,1 °C hiti, raki 86 %
GSM samband: Já

Gönguleiðalýsing
: Lagt er upp í göngu frá bílastæði að útsýnispalli. Þaðan er farið niður varasaman slóða niður í fjöru. Við vorum heppinn að hitta á fjöru. Mæli með ferð fyrir Vatnsnes. Aldrei að vita nema maður rekist á ísbirni.

 

 

Stuttmynd um lífið í Hvítserk. Við hittum á lágfjöru og fýlsunga. Það er góð tímasetning.

Hvítserkur

Fýll (Fulmarus glacialis) og fýlsungi í Hvítserki. Lífið er drit og strit.

Hvitserkur Styrktur

Styrktur Hvítserkur. Spurning um hvort grípa eigi inn í gang náttúrunnar. Í Vísi árið 1955 er greint frá söfnun fyrir verkefninu.  Þar segir m.a. "Sjávaraldan hefur smámsaman brotið þrjú göt í klettinn, er hið stærsta nyrzt, en minnsta gatið er syðst. Stendur hann þannigá 4 veikum fótum, því að þykkt klettsins neðst er ekki nema rúmur metri. Hefur klettinum verið líkt við fornaldarófreskju, sem þó riðar til falls, þar sem hafið sverfur án afláts utan úr fótum hans."

Heimildir

Dagblaðið Vísir, 20. maí 1955

Vísindavefurinn: Hvítserkur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband