Færsluflokkur: Ferðalög
17.8.2024 | 21:47
Sandeyjargöng í Færeyjum - Með lengstu neðansjávargöngum í heimi
Ef það er eitthvað sem Færeyingar eiga mikið af, þá eru það jarðgöng.
Jarðgöng í Færeyjum eru eins og æðar sem tengja hjarta eyjanna saman, hvort sem þau skera sig í gegnum fjallasali eða teygja sig undir djúpan sjó. Þessi göng, bæði í fjöllum og neðansjávar, skapa ósýnilega tengingu milli staða sem áður voru aðeins aðgengilegir með ferjum. Þar mætast fortíð og nútíð, þar sem samgöngur breyta einangrun í tengsl og sameina samfélög með öruggum leiðum í gegnum grjót.
Þann 21. desember sl. voru ný 11 km neðansjávargöng milli Straumeyjar og Sandeyjar vígð og einangrun eyjunnar rofin.
Sandeyjargöngin eru fjármögnuð með blöndu af opinberu fjármagni og veggjöldum og kostuðu um 15 milljarða. Norska byggingarfyrirtækið NCC sá um byggingu gangnanna en fyrirtækið er eitt af stærstu byggingarfyrirtækjum Noregs og hefur mikla reynslu í jarðgangagerð, bæði í Noregi og á alþjóðavísu og hefur aðstoðað Færeyinga við að innleiða háþróaða tækni og þekkingu í þessum verkefnum.
Stefnan er að halda áfram með jarðgöng til Suðureyjar frá Sandey, 23 km að lengd með viðkomu í Skúfey.
Getum við Íslendingar lært eitthvað af Færeyingum í jarðgangnamálum?
Því var tilvalið að heimsækja Sandey, sem er ein af 18 eyjum Færeyja með 1.300 íbúa og sú fimmta stærsta í eyjaklasanum. Villiendur leigðu sér litla rútu og innfæddan leiðsögumann frá Heimdal Tours sem sagði okkur allt sem hann vissi um föðurland sitt.
Það var spennandi að fara niður í björt Sandeyjargöng með listaverk, óður til Víkinga á veggjum en það var mikill raki í rútunni þegar við komum upp úr 155 metra djúpu göngunum. Ein ferð fyrir fólksbíl kostar 175 DKK eða 3.500 krónur.
Eyjan er flöt og hentar því vel til landbúnaðar enda góð gras og kartöfluspretta í frjósömum jarðvegssandinum. Hugmyndir hafa verið um að gera nýjan alþjóðlegan flugvöll á eyjunni. Einnig er útgerð, vaxandi ferðaþjónusta og fjölskrúðugt fuglalíf.
Fornleifagröftur sýnir að byggð hófst 300 til 400 eftir Krist. Víkingar voru því ekki fyrstir og sagan segir að þegar þeir komu sem var á svipuðum tíma og Ísland var numið, þá hafi verið kindur frjálsar í fjöllum og nafnið, Fjáreyjar eða Færeyjar dregið af því.
Við keyrðum um flata eyjuna með sendnum ströndum og heimsóttum lítil þorp: Sandur, Húsavík, Skálavík, Dalur og Sköpun. Það voru fáir á ferli og lítið líf enda Ólafsvaka haldin daginn áður og allir í Þórshöfn.
Ný hús voru að spretta upp og byggðin að eflast og má eflaust skrifa það á nýju göngin en margir íbúar vinna í Þórshöfn. En í sumum eyjum vilja íbúar lifa í gamla tímanum og ekkert spenntir fyrir jarðgöngum.
Gönguhópurinn gekk í gengum þorpið Skálavík og heyrði um helstu hetjur bæjarins en eitt vakti sérstaka undrun hjá okkur en það var lamadýr á beit. Það mun hafa komið í frá Danmörku. Það komu fleiri dýr í sendingunni en þetta er eina sem er eftir. Þeir eru ekki eins harðir í sóttvörnum Færeyingar.
Nesti var boðað í litla þorpinu Dalur sem er sjarmerandi og telur 33 íbúa en þangað lá einbreiður vegur með útskotum í hamrahlíð. Þar var verið að byggja 2,2 km jarðgöng, Dalsgöng, sem eiga að klárast í ár. En ein skýring á þessum framkvæmdum er að frá Dal verði farið í neðansjávargöngum til Suðureyjar.
Í Sköpun, þorpinu með áhugaverða nafnið er blár póstkassi, sá stærsti í heimi en skapandi íbúar sáu tækifæri á að koma sér í Heimsmetabók Guiness.
Skóli og knattspyrnuvöllur er miðsvæðis og heitir knattspyrnufélag eyjarinnar B71 Sandoy og spilar í B-deild.
Að lokum endaði gönguhópurinn Villiendurnar á því að ganga frá Gróthúsvatni vestur í Saltvíkur en þetta var besti göngustígur sem ég hef gengið á.
Í Saltvík er minnisvaði um gufuskipið S/S Principia kom frá Skotlandi 1895 og beið örlaga sinna í stormi á grýttri Saltvíkurströndinni. Einn skipverji lifði af en 28 lentu í greipum Ægis.
Áhugavert að sjá hvar úrgangi var sturtað beint í sjóinn en það er bannað í dag. Færeyingum hefur farið fram og slagarinn, lengi tekur sjórinn við á ekki lengur við.
Víkin við Gróthúsvatn. Þarna sér í Skúvoy, Stóra- og Litla Dímon og Suðurey syðst.
Dagsetning: 31. júlí 2024
Göngutími: 1 klukkustund
Vegalengd: 4,3 km
Göngubyrjun: Við Grjóthúsvatn
Erfiðleikastig: 1 skór
Veður: Hálfskýjað, 13 stiga hiti og 10 m/s vindur frá SA.
Þátttakendur: Villiendur, 12 göngumenn og farastjóri
Gönguleiðalýsing: Létt ganga á jafnsléttu frá Grjóthúsvatni til Saltvíkur á bundnu slitlagi
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2024 | 22:22
Klakkur (413 m.) í Færeyjum
Dagsetning: 4. ágúst 2024
Klakkur: 413 m
Göngubyrjun: Við bílastæði á Ástarbrautinni
Erfiðleikastig: 2 skór
Veður: Skýjað og úrkoma í grennd, 12 stiga hiti og 8 m/s vindur frá vestri. Raki 95%.
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg ganga á stórbrotið útsýnisfjall en þoka byrgði sýn. Fyrst gengið eftir vegarslóða og síðan gróið land, fyrst með stíg en siðan slóð að toppi.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2024 | 10:12
Bensínkvíði
Er staddur í Færeyjum í sumarfríi og markmiðið er að ganga á sem flest fjöll í ægifagri náttúru 18 eyja er mynda Færeyjar.
Til að komast á milli fjallstinda, en 340 fjöll eru hærri en 100 metrar að hæð, þá var leigður bíll. Leitin beindist að vistvænum bíl en það fannst enginn. Þeir geta gert betur Færeyingarnir í sjálfbærni.
Því varð jarðefnabíll fyrir valinu og þá helltist yfir mann jarðefnakvíði. Að þurfa að fylla á tankinn en því fylgir ekki góð tilfinning í hamfaraástandi.
Einnig spurning um hvort bíllinn gengi fyrir bensíni eða dísel en það var sem betur fer vel merkt þegar lokið var opnað. Bensín stóð þar á grænum miða.
Bensínkvíði og loftslagsógn eru tvær hliðar á sama peningi, þar sem báðar tilfinningar stafa af þörfinni fyrir að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis
Í gær rann svo upp dæludagurinn og var það mikil áskorun að dæla á leigubílinn, 95 oktana E10 bensíni, því ekki var boðið upp á þjónustu á bensínstöðinni. Það tókst að dæla á bílinn en leiðbeiningar voru góðar.
Þegar heimabankinn var skoðaður í morgun, þá helltist aftur yfir mig bensínkvíði. Upphæðin var tvöföld. Þetta er grimmur jarðefnaheimur sem við lifum í.
Hér er gengið niður í Hvannhaga á Suðurey. Litli Dímon blasir við í allri sinni dýrð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2023 | 10:18
Geirólfsgnúpur (433 m)
Gnúpagönguferð við rætur Drangajökuls
Það hafði verið úrkoma dagana áður en spáin lofaði breytingum. Þegar kíkt var út um gluggann um morguninn þá lágu ský niður í miðjar hlíðar gnúpanna tveggja, Geirólfsgnúps og Sigluvíkurgnúps.
Eftir teygjuæfingar fyrir göngu dagsins brutust fyrstu sólargeislar í gegnum skýin og það lofaði góðu.
Fyrst var gengið í gegnum kríuvarp og þaðan þvert yfir 600 metra flugvöll sem duglegir Reykjafjarðarbændur hafa byggt til að rjúfa einangrun. Ryðgaður valtari beið við vallarendann og blóm stungu upp kollinum á flugbrautinni. Nýtt landnám hafið.
Reykjarfjarðarós var helsta áskorun dagsins en hann er jökulá sem á upptök í Drangajökli. Reykjarfjarðarjökull, skriðjökull úr Drangajökli hefur hopað frá ósnum og jökuláin lengist en nafnið breytist ekki.
Ólína farastjóri fann bestu leiðina yfir Ósinn og allir göngumenn komust klakklaust yfir en trikkið er að horfa ekki í strauminn og taka stutt skref og þreifa fyrir sér með göngustöfum.
Þegar komið var yfir jökulána stutt frá rústum af bænum Sæbóli þá var sagan af biskupnum Guðmundi góða sögð en hann fótbrotnaði illa og náði heilsu í bænum yfir veturinn.
Síðan var gengið meðfram Sigluvíkurnúp eftir manna og kindaslóð að Sigluvík. Á smá kafla var bratt niður að sjó. Þá sáust vel skilin á milli jökulvatnsins og hafsins en mikil næringarefni eru í framburði jökuláa. Fjörðurinn við Ósinn var jökullitaður en liturinn þynntist út þegar lengra kom.
Rekaviður í víkum og plastrusl frá sjávarútvegnum. Gular netakúlur, netahringir og net mest áberandi.
Drangajökull rís yfir landinu í vestri með björtu hveli móti himni og með skerin sín sem sífellt eru að stækka, Hrolleifsborg (851 m), Reyðarbungu og Hljóðabungu (825 m). Jökulbunga hæst.
Þegar ofar kom upp í hálsinn þá sá yst í fjarðaröðinni í Kálfatinda á Hornbjargi, glæsilegt horn sem við misstum af í þokunni daginn áður.
Gengið upp á milli gnúpanna upp á lágan háls sem nefnist ýmist Sigluvíkurháls (223 m) eða Skjaldarvíkurháls og þá opnaðist útsýni yfir í Skjaldabjarnarvík með glæsileg Drangaskörð sem minntu á hala á risaeðlu. Mögnuð sýn. Síðan var hægt að rekja tinda í Strandasýslu.
Geirólfsgnúpur hækkar í ávala bungu sem hæst er 433 m. er kallast Geirhólmur. Þar er varða og endaði uppgangan þar.
Sýslumörk N-Ísafjarðarsýslu og Strandarsýslu liggja um Geirólfsgnúp. Við hoppuðum á milli sýslumanna.
Þrjár kenningar um nafnið á Geirmundargnúp. Sú fyrsta er úr Landnámu en Geirólfur braut skip sitt við Geirólfsgnúp. Önnur er náttúrunafnakenningin, að nafni tengist "geirr eða spjóti". Haft um fjöll og kletta, sem skaga fram eða eru oddhvassir en gnúpurinn gengur út í hafið. Sú þriðja er sett fram í Árbók FÍ 1994 en hún gengur út að geirfugl hafi verið í gnúpnum og hann dragi nafnið af því en Strandamenn gáfu bæjum og kennileitum nöfn eftir landnytjum.
Þetta var fullkominn dagur, þrír sjónrænir gimsteinar í náttúru Íslands negldir á einum degi. Drangajökull, Hornbjarg og Drangaskörð við ysta haf.
Heimleiðin gekk vel, gengin sama leið og það hafði minnkað í jökulánni en merkilegt hvað göngufólk var ánægt með að fá óvænt fótabað. Því leið betur á eftir.
Að endingu var hin frábæra og þrifalega sundlaug í Reykjarfirði heimsótt, stórkostlegt mannvirki í tóminu. þar var slakað á í kvöldsólinni og hlustað á gargið í kríunni.
Gnúparnir tveir voru komnir með ský niður í miðjar hlíðar. Við nýttum gluggann vel.
Næst er jökullitaður Reykjarfjörður, þá Þaralátursnes og Þaralátursfjörður handan, Furufjörður og ein af Bolungarvíkum á Vestfjörðum. Síðan sér í Straumnes og handan þeirra Barðsvík og Smiðjuvík. Látravík er fyrir framan glæsilega Kálfatinda.
Geirhólmur: 433 m (N: 66.15.610 W: 21.58.671)
Göngubyrjun: Reykjarfjörður 4 m (N: 66.15.473 W: 22.05.282)
Uppsöfnuð hækkun: 627 m
Uppgöngutími: 120 mín (13:30 - 15:15)
Heildargöngutími: 540 mín (10:20 - 19:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Sigluvíkurháls: 223 m (N: 66.15.098 - W: 21.59.709)
Vegalengd: 16,1 km
Veður: NA og léttskýjað, hiti um 8 gráður
Þátttakendur: Ferðafélag Íslands, sumarleyfisferð Við rætur Drangajökuls, 10 göngumenn. Fararstjórar Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Sigurður Pétursson, traust og fróðleg.
GSM samband: Já, á Geirhólmi
Gönguleiðalýsing: Þjóðleið yfir jökulá, Reykjafjarðaós. Gengið eftir slóða meðfram Sigluvíkurnúp og upp hálsinn. Þaðan haldið á Geirhólm og útsýni yfir ysta haf frá Hornbjargi að Drangaskörðum.
Ferðalög | Breytt 4.8.2023 kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2023 | 15:14
Vörðufell (391 m) á Skeiðum
Vörðufell á Skeiðum er allmikið þríhyrningslaga fjall, um sjö km á lengd en tæpir fjórir km á breidd þar sem það er breiðast, en mjókkar mikið til norðurs. Hvítá rennur vestan við fjallið. Allmörg gil ganga niður fellinu.
Fellið er úr móbergi og grágrýti og hvassasta horn þess er nyrst og var gengið þar upp og beygt hjá skilti sem á stóð Vörðufell. Bílastæði er fyrir göngufólk.
Gangan er nokkuð greið og slóða fylgt upp á fellið um misgróna mela. Sauðfé á beit og mófuglar skemmtu okkur með söng sínum og lóan söng dirrindí og fannst okkur vera þó nokkurt vit í því.
Margar vörður eru á leiðinni á fellinu og eru landamerki jarða sem eiga hlut í fellinu en líklega hefur Vörðufell sjálft verið varða í umhverfinu fyrir ferðamenn fyrr á öldum er þeir áttu leið í hið merka Skálholt og nágrenni.
Nokkrar hæðir eru á Vörðufelli og bera þau nöfn. Birnustaðaskyggnir (378 m) er einn áberandi ás en smáfell eru dreifð um sléttuna. Jarðskjálftar hafa markað fellið.
Fyrir okkur varð fallegt stöðuvatn, sem Úlfsvatn heitir, greinilega gamall eldgígur og vatnsforðabúr sveitarinnar. Úlfsvatn var ekki hringað. Rennur smálækur suður úr því niður í Úlfsgil sem er mikið hamragil. Reynt var að rækta silung í vatninu og gekk það ekki.
Rádýrt útsýni allan hringinn. Nær var Skálholt og Laugarás með brúna yfir Iðu, Mosfell, Hestfjall og Hestvatn. Síðan jöklarnir glæsilegu Langjökull, Hofsjökull, Tindfjallajökull Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull. Vestmannaeyjar tignarlega úti í hafi. Hekla, Ingólfsfjall og Hrútfell svo einhver þekkt fjöll séu nefnd.
Áhugavert er að sjá Tungufljót og Stóru Laxá falla í Hvítá fyrir ofan Iðu og Brúará þar sem hún fellur í Hvítá örskammt vestan Vörðufells og þá átta menn sig á því að það eru árnar sem með framburði sínum hafa skapað þetta fagra gróðurlendi
Ágætur staður til að hefja göngu á Vörðufell. Landeigendur ekki sáttir við að gengið sé um þeirra land.
Dagsetning: 11. júlí 2023
Vörðufell: 391 m
Göngubyrjun: Norður undir Vörðufelli
Erfiðleikastig: 1 skór
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt. NNA 6 m/s, 18 stiga hiti og 44% raki.
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg ganga á gott útsýnisfjall með útsýni yfir Suðurland
Heimildir
Fjöll á Fróni, Pétur Þorleifsson, 2010
Nafnid.is - Örnefnaskrá
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2022 | 17:44
Kláfar á Íslandi
Hugmyndir um ferju á Esjuna lagðar fram á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2022 | 13:14
Sældarhyggja við Gardavatn
Hið ljúfa líf, la dolce vita, við Gardavatn hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb fyrr í mánuðinum var endurnærandi í hitanum og gott til að upplifa sæluhyggjuna. Það er einhver galdur við orðið Garda og ferðafólk hrífst með.
Gardavatn og Meðalfellsvatn í Kjós eiga margt sameiginlegt. Þau eru bæði jökulsorfin og svo er fjölbreytt mannlíf á bökkum vatnanna.
Gardavatnið er stærsta vatn Ítalíu , um 370 km2 og í einungis 65 m hæð yfir sjávarmáli. Norðurhluti vatnsins teygir sig upp í Alpana. Vegna góðrar landfræðilegrar staðsetningar vatnsins og lítillar hæðar yfir sjávarmáli er loftslagið þar ákaflega hagstætt og minnir einna helst á miðjarðarhafsloftslag. Vatnið er notað sem áveita fyrir frjósamt ræktarland og er vatnsstaðan núna um metri lægri en í meðalári vegna þurrka.
Sirmione er tangi sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þar kemur heitt vatn úr jörðu og nutu Rómverjar lífsins í heitum pottum eins og Snorri Sturluson forðum. Söngdívan Maria Callas bjó þarna á sínum bestu árum.
Tveir dagar fóru í hjólaferð á rafhjólum sem var vel skipulögð af Eldhúsferðum. Hjólað var í gegnum vínekrurnar austan við Gardavatnið og eftir sveitastígum í gegnum lítil falleg sveitaþorp. Komið var við hjá vínframleiðendum og veitingamönnum með framleiðslu beint frá býli og töfruðu fram ítalskan sælkeramat. Sérstaklega gaman að hjóla um Bardolino vínræktarhéraðið með Corvina þrúguna á aðra hönd og Rondinella og Molinara þrúgurnar á hina. Kræklótt ólífutrén tóku sig líka vel út. Hjólaferðin endaði með sundsprett í heitu Gardavatni.
Við dvölum í smáþorpi sem heitir Garda en þar var varðstöð Rómverja fyrr á öldum. Lítið þorp með mikið af veitingastöðum á vatnsbakkanum þar sem við gátum notið þess að horfa á vatnið í kvöldsólinni og snæða ekta ítalskan mat og drekka gott rauðvín frá svæðinu.
Nokkrar Villiendur heimsóttu Mt. Baldo hæsta fjallið við Gardavatn. Tókum borgarlínu vatnsins en góðar samgöngur eru á vatninu með ferjum. Sigldum til bæjarins Malcesine en athygli vakti hve mikið af sumarhúsum var í kringum allt vatnið. Ferðuðumst með kláf upp í 1.730 metra hæð, einn Eyjafjallajökull á 17 mínútum. Það var ægifagurt landslag sem blasti við en mesta breytingin var að fara úr 32 gráðu hita í 22 gráður en í þeim hita leið mér vel.
Að lokum var sigling á sægrænu Gardavatni frá Sirmione. Það var gaman að sjá hvernig ferðamenn slökuðu á og upplifðu hið ljúfa líf sem Gardavatnið og bæirnir þar í kring færa manni, það er sem tíminn stöðvist um stund.
Mæli með ferð til Gardavatns en hitinn í byrjun júlí var full mikill fyrir minn smekk.
Kastalamynd frá stærstu eyju Gardavatns, Isola del Garda. Í eigu Conti Cavazza fjölskyldunnar frá Bologna Þar var fyrsta sítrónan ræktuð í Evrópu. Þar stofnaði Frans frá Assisí klaustur árið 1220.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2022 | 10:59
Landeigendur léleg landkynning
"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson
Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.
Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.
Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.
Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.
Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.
Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir, lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.
Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2022 | 10:42
Rósagarðurinn
Þegar ég var á skuttogaranum Þórhalli Daníelssyni SF-71 þá heimsóttum við stundum Rósagarðinn og mokuðum upp karfa. Rósagarðurinn er víðáttumikil fiskimið langt úti í hafi á milli Íslands og Færeyja. Þýskir togarasjómenn gáfu bleyðunni nafn og nefndu Rosengarten. Tvennum sögum fer af nafngiftinni. Annað hvort er hún eftir rauðum kóral sem hefur komið upp með trollinu eða rauðum karfa sem veiddist þar.
Verkefni dags tvö hjá Villiöndum var að kanna annan Rósagarð, fjallaklasa í Dólómítunum í Suður-Týrol. Í Rósagarðinum bjó Lárin dvergakonungur sem lét fjöllin leiftra, tindra og glitra og segir ekki meira af honum. Fjöllin í Ölpunum hafa tinda sem benda til himins og standast samanburðinn við fjöllin í Suðursveit!
Fjallgangan byrjaði hjá Laurins Lounge við fjallaskálann Kölner Hutter (2.337 m) og gengið var meðfram vesturhlið Rósagarðsins og austur fyrir hann að fjallaskálanum Rode di Vale. Snúið til baka og tekin skíðalyfta niður við Paoline fjallaskálann og gengið niður að Lake Carezza, stöðuvatni sem hefur alla liti regnbogans og tengist þjóðsögu.
Dólómítarnir eru hluti Ítölsku Alpanna og taka nafn sitt frá steintegundinni í þeim, dólómít. Þetta eru gömul kóralrif og marmarahvít gnæfa þau upp úr fjallgarðinum og þegar sólin sest slær á þau purpurarauðum bjarma. Hæsta fjall Dólómítanna er Marmolada sem rís hæst í 3.343m yfir sjávarmáli og þekktir fjallaklasar eru m.a. Rósagarðurinn (3.004 m) sem sést vel frá borginni Bolzano, Sella, Latemar og Langkofel-klasinn í Val Gardena. Dólómitarnir eru á Heimsminjaskrá UNESCO. Svæðið er í sama flokki og Surtsey, Þingvellir og Vatnajökulsþjóðgarður. Hefur einstakt gildi á heimsvísu.
Lagt var frá Bolzano og keyrt upp í fjöllin í gengum fjölda jarðganga. Beygjurnar á leiðinni slaga upp í fjölda eyjanna í Breiðafirði. Stórbrotið landaslag, vínviður víðast hvar og fjöllin skógi vaxin og byggð á ótrúlegustu stöðum.
Eftir rútuferð tókum kláf í 1.748 metra hæð og ferjaði hann okkur upp í 2.314 metra hæð og byrjuðum við á því að fá okkur kaffi í Laurins Lounge veitingaskálanum. Þetta eru auðveldasta 500 metra hækkun sem ég hef lent í á mínum fjallgönguferli. Frá skálanum var síðan gengið meðfram Rósagarðinum sem er glæsilegur fjallshryggur með Latemar á hægri hönd.
Á leiðinni sáum við berghlaup sem minnti á Stórurð og skömmu síðar var gil sem sendi mann til Grand Canyon í Arizona. Mikið af göngufólki kom á móti okkur og áberandi hvað það var í eldri kantinum en hvað er betra en að anda að sér fjallaloftinu á eftirlaunaaldri.
Smá hækkun var frá Paloma fjallaskálanum, 70 metrar að stórri styttu af erni og minnismerki um Theodor Christomannos (1854-1911) stjórnmálamann og frumkvöðul ferðaþjónustu í Suður Týrol. Einskonar Ari Trausti okkar Íslendinga!
Þegar við vorum komin fyrir horn Rósagarðsins sáust rigningarský á himni og í kjölfarði fylgdu eldingar og þrumur í kjölfarið. Dropar tóku að falla. Þegar styttist í fjallaskálann, þá opnuðust himnarnir er eldingar færðust nær. Fjölmenni göngufólks var í alpaskálanum og biðum við eftir að gjörningaveðrið gengi yfir. Skyndilega kom ein elding stutt frá okkur sem lýsti upp himininn og miklar drunur fylgdu í kjölfarið. Það bergmálaði í fjöllunum. Allt í einu var maður kominn til Maríupol í Úkraínu.
Fínasta gúllassúpa var í boði í skálanum en ekki var hægt að kaupa annað vegna vatnsleysi en vatnsdælan hafði bilað daginn áður. Meðan þrumuveðrið gekk yfir skoðaði maður fjallaskálann. Á veggjum héngu myndir af miklum klifurhetjum enda Suður-Týrólar aldir upp við fjallaklifur. Fann mynd af Reinhold Messner og varð starstruck, hér höfðu klifurhetjur dvalið. Messner vann það sér til afreka að fara fyrstur án aukasúrefins á Everest ásamt félaga sínum Peter Habeler og gekk á alla 14 tinda yfir 8.000 metra að hæð. Þeir innleiddu alpastílinn í háfjallamennsku. Einnig var glæsileg mynd af Gino Pisoni (1913-1995) sem var brautryðjandi í fjallaklifri í Ölpunum og lagði margar gönguleiðir. Ægifögur Dólómítafjöll voru þeirra leikvöllur. Messner sagði að hann væri búinn að ganga á 3.500 fjöll víðast hvar í heiminum en Dólómítafjöllin bæru af hvað varðar fallega byggingu.
Þolinmæði er dyggð. Tveggja tíma biðin borgaði sig, þegar við lögðum af stað til baka, þá létti þokunni að það var ævintýralegt að sjá Rósagarðinn birtast og önnur fjöll í Dólómítunum og Ölpunum. Djúpir fjalladalirnir óðu í hvítum skýjum og litir voru svo tærir.
Lake Carresa er lítið fjallavatn sem ljómar í þúsund tónum af grænu, bláu og grænbláum litum, umlukið þéttum skógi og handan glæsilegum tindum Dólómítanna og speglast þeir í vatninu.
Minnti mig á blágræna vatnið í Stórurð eða sprengigígurinn Grænavatni í Krýsuvík en það vantar tignarleg trén.
Betur af stað farið en heima setið. Ógleymanlegur dagur, ægifegurð og stórbrotin upplifun með Villiöndum og Eldhúsferðum.
Þó Alparnir með Dólómítanna hafi það orð á sér að vera eitt mesta sköpunarverk veraldar og bjóða upp á eitthvert fallegasta fjallalandslag sem til er, með lóðréttum veggjum, stórum klettum og miklum fjölda af þröngum, djúpum og löngum dölum, þá er margt líkt og á Íslandi en á stærri skala. Það má finna ljós líparítfjöll, jökla, Hraundranga, Dyrfjöll, Stórurð, Morinsheiði, Humarkló, tindótt Suðursveitafjöll og Fjaðrárgljúfur í Ölpunum en það sem okkur vantar eru tré, kláfar og þróaðri fjallaskálamenning.
Hér eru skógivaxnir dalir í þokunni og berir fjallstindar blasa við, hrjóstrug fjallaskörðin tengja dal við dal. Tindar sem benda til himins.
Dagsetning: 3. júlí 2022
Þátttakendur: Villiendur göngu og sælkeraklúbbur, 15 fjallgöngumenn og fararstjóri
Heimildir:
UNESCO heimsmynjaskrá - Dólómitarnir (2009)
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2022 | 17:33
Stóri-Hrútur (352 m)
Stóri-Hrútur er fallega formað fjall utan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er nýtt fjall og nýtt hraun, en norðar sér niður í hraunaða Meradali, Litla-Hrút (312 m) og Keili.
Stóri-Hrútur er eitt fjölfarnasta fjall landsins í dag og kom skyndileg frægð hans til vegna eldgosins í Geldingadölum. Fjallið er hæsta fjallið í Fagradalsfjalla-klasanum og tilkomumesta þó kollótt sé.
Þegar á Stóra-Hrút er komið sér vel yfir hraunið í Meradölum og nýtt litskrúðugt fjall sem ætlaði að verða dyngja en vantaði efni úr neðra. Fjallið er vel vaktað og teygir net jarðskjálftamæla sig þangað. Greina má sprungur í móbergsfjallinu.
Lagt var við bílastæði við Langahrygg. Beygt var upp af Suðurstrandaveg á milli Skála-Mælifells og Slögu. Þar voru margir erlendir ferðamenn. Líklega er búið að loka svæðinu núna.
Stefnan var tekin á móbergshrygginn Langahrygg (311 m.) og þaðan gengið á Stóra-Hrút (352 m) en á milli þeirra liggur nýja hraunið, Fagradalshraun. Gengið var stutt út á hraunið.
Mest spennandi var gígurinn sem skóp Fagradalshraun. Þarna var dyngja í mótun en skyndilega stoppaði hraunrennslið. Skrautlegar litaútfellingar eru vegna gas sem kemur enn úr gígnum. Áhugavert var að finna hitann á litskrúðugu sprungunum í hrauninu.
Ekki sást brak úr flugvélinni,sem fór í Langahrygg. Í henni voru 11 menn og allir látist. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur Bandaríkjaflota af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 02. nóvember 1941. Tvær aðrar flugvélar fórust í Fagradalsfjalli í heimsstyrjöldinni.
Mæli með að ganga á Stóra-Hrút ef fólk ætlar að sjá nýjasta djásnið í náttúru Íslands.
Föruneyti hringsins á leið á Stóra-Hrút (352 m) en kollóttur er hann. Það blés hressilega nyrst á hrútnum.
Dagsetning: 22. maí 2022
Stóri-Hrútur: 352 m (N:63.52.999 - V:22.14.992)
Göngubyrjun: Geldingadalir Volcano Parking 2, lokað núna
Uppsöfnuð hækkun: 462 m
Uppgöngutími: 120 mín (12:00 - 14:00)
Heildargöngutími: 200 mín (12:00 - 15:20)
Erfiðleikastig: 1 skór
Langihryggur: 311 m (N:63.52.440 - V:22.15.737)
Vegalengd: 8,4 km
Veður: lék við okkur, bjart og hlýtt og vindur að mestu mildur, það blés þó aðeins uppi á Stóra Hrút
Þátttakendur: Fjallafélag Vínbúðanna, 7 manns
GSM samband: Já
Gönguleiðalýsing: Létt og þægileg hringleið. Byrjar á móbergi upp Langahrygg og þaðan á Stóra-Hrút. Gengið á grónu landi austan við Langahrygg niður Hrútadal á bakaleið.
Facebook-staða: Takk fyrir skemmtilega samveru kæra samferðarfólk
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 233595
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar