Færsluflokkur: Menning og listir

Þorrabjór

Suttungasumbl þorrabjór - frá Ölvisholti, mæli með honum. Var í gærkveldi, á Bóndadag, í mjög vel heppnuðu þorrahlaðborði og við smökkuðum alla fjóra þorrabjórana sem til eru á markaðnum. Suttungasumbl er undir miklum áhrifum frá bjórmenningunni í Belgíu. Minnti mig á munkabjórana, La Trappe og Orval. Ölbjórinn skýjaði var sterkastur bjóranna, 7.2%, og fór vel með það. Einn smakkara fann fyrir eik og annar sítrus. Eflaust hafa aðalbláberinn og krækiberin frá Vestfjörðum komið hér við sögu. Einnig er gaman hversu þjóðlegir bruggmeistararnir í Ölvisholti eru. Bætir það bjórmenninguna.

Í boði eru fjórar tegundir af þorrabjór. Suttungasumbl frá Ölvisholti, Jökull þorrabjór, Kaldi þorrabjór og Egilsþorrabjór. Voru allir bjórarnir í 330 ml flöskum og blind smökkun.

Smökkunarmenn þorrabjórsins voru mjög ánægðir með gæði og breidd íslenska þorrabjórsins og voru stoltir yfir því að geta á góða kvöldstund með íslenskri bjórframleiðslu og þjóðlegum íslenskum mat.

Jökull þorrabjór er með mikilli karamellu og því er mikil jólastemming í bjórnum. Var hann dekkstur bjóranna og greindu menn sitrus.

Kaldi þorrabjór var beiskastur, með humla og sítrus áhrifum. Hann er laus við rotvarnarefni. Fundu menn fyrir tékkneskum áhrifum.

Egils þorrabjór er hlutlausastur þorrabjóranna. Ölgerðarmenn taka ekki mikla áhættu. Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi.  Ágætis ímyndaruppbygging hjá Agli og styrkir sjálfsmyndina á Þorra.

TegundStyrkurFlokkurVerðLýsing
Suttungasumbl þorrabjór7,2%Öl409Rafrauður, skýjaður, meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungs beiskja. Hveiti, malt, humlar. Höfugur.
Jökull þorrabjór5,5%Lager347Rafgullinn, móða. Létt meðalfylling, þurr, sýruríkur, miðlungsbeiskja. Malt, sítrus, ávaxtagrautur.
Kaldi þorrabjór5,0%Lager323Rafgullinn. Mjúk meðalfylling, þurr, ferskur, miðlungsbeiskja. Malt, humlar, soðbrauð.
Egils þorrabjór5,6%Lager319Gullinn, meðalfylling, þurr, ferskur, lítil beiskja. Létt malt, ljóst korn.

Skjalfti-ThorrabjorJokull-ThorrabjorKaldi-ThorrabjorEgils-Thorrabjor


Eldsmiður náttúrunnar *****

Í sunnudagsbíói annað kvöld verður kvikmyndin Börn náttúrunnar sýnd en sýning hennar tengist nýjustu mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Mamma Gógó, sem frumsýnd verður á nýársdag. Það verður spennandi að sjá tenginguna á milli myndanna.

Fyrir sléttum tíu árum fór ég á kvikmyndahátíðina Hvítir hvalir og skrifaði eftirfarandi kvikmyndadóm í jólablað Eystrahorns 1999. Hornfirðingar ættu að hafa Sigurð Filipusson, eldsmið, í huga þegar þeir horfa á Börn náttúrunnar annað kvöld.

Nýlokið er kvikmyndahátíðinni Hvítir hvalir en þar var yfirlitssýning á verkum Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndagerðarmanns og snillings. Ég er mikill aðdáandi Friðriks og átti alltaf eftir að sjá myndina Eldsmiðinn, heimildarmynd um Sigurð Filippusson sveitunga okkar frá Hólabrekku.

EldsmiðurinnEkki spillti fyrir að fyrrverandi vinnustaður minn var Eldsmiðurinn, kenndur við myndina. Því var lagt af stað á hátíð.

Fyrst var Eldsmiðurinn sýndur en þetta er 35 mínútna mynd sem gerð var 1981 og í kjölfarið var hin magnaða mynd Börn náttúrunnar sýnd  en hún var frumsýnd 10 árum síðar og markaði ákveðin tímamót í íslenskri kvikmyndasögu. Áður en ég mætti á svæðið sá ég ekkert samhengi á milli þessara tveggja mynda en það átti heldur betur eftir að breytast.

Áður en sýningin hófst hélt meistari Friðrik Þór, fyrirlestur um myndirnar og útskýrði af hverju þessar tvær myndir væru sýndar saman, hvernig þær tengdust.  Ástæðan var sú að Börn náttúrunnar byggir mikið á áhrifum sem hann varð fyrir við gerð Eldsmiðsins. Söguhetjan, Þorgeir Kristmundsson, sem er snilldarlega leikinn af Gísla Halldórssyni, byggður á Sigurði Eldsmiði og látinn hafa göngulag Sigurðar auk þess voru nokkur önnur atriði sem sótt voru í smiðju Eldsmiðsins. Sigurður var mikið náttúrubarn  og þekkti umhverfi sitt vel. Hann var næmur maður og sá ýmislegt sem venjulegt fólk skynjar ekki. Dulúðina í Börnum náttúrunnar má að einhverju leyti rekja til atvika sem gerðust á þeim 10 dögum sem kvikmyndunin tók. Það var gaman að heyra frásögn Friðriks og sérstaklega þegar hann glotti og pírði augunum þegar honum var skemmt.

Nú hafði dæmið snúist við, forrétturinn rann ljúft í gegn. Sigurður  greindi skýrt og haganlega frá sér um leið og hann vann verk sín. Heimildarmyndin Eldsmiðurinn er um sérstakan mann í sínu náttúrulega umhverfi og góð heimildarmann um liðna tíma og verður verðmætari þegar fram líða stundir.

Börn náttúrunnarNú var komið að aðalréttinum. Myndin fór rólega af stað og lítið talað en þeim mun meira myndmál í tilkomumiklu landslagi. Hún greinir frá Þorgeiri sem bregður búi og fer til Reykjavíkur og lendir á elliheimili. Þar hittir hann gamla æskuvinkonu, Stellu, og saman flýja þau til æskuslóðanna. Það er mikil dulúð á flóttanum, draugar og undarlegt fólk sem tákn um að þau séu á leiðinni úr þessum heimi í annan. Hinir látnu eru farnir að heilsa.

Eitt merkilegt atriði er þegar jeppinn hverfur á flótta undan lögreglubílnum og áhorfandinn er skilinn aleinn eftir. Þetta er sótt í smiðju Sigurðar Eldsmiðs og olli nokkrum deilum í klippiherbergi í Svíþjóð. Klipparinn neitaði að klippa atriðið og varð að lokum að yfirgefa klippiherbergið.

Svona lagað fengi Friðrik Þór ekki að leika eftir í Hollývúdd, því fjármagnseigendur taka ekki svona sjensa. Eins er lokaatriðið í svipuðum dúr.

Annað atriði sem gladdi mig var að sjá Eirík Guðmundsson, Hornfirðing, sem er af miklum leikaraættum, leika lítið hlutverk vegaverkamanns og stóð hann sig óaðfinnanlega.

Loks var komið að eftirréttinum, hvað haldið þið að hafi verið í eftirrétt? Jú viku seinna eða síðasta sunnudagskvöld var myndin sýnd í Sjónvarpinu og einn var hægt að horfa á myndina frá nýju sjónarhorni og drekka í sig fleiri smáatriði. Tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar skilaði sér meistaralega í eftirréttinum.

Þegar þessi smáatriði voru upplýst varð myndin hreinasta snilld, alger upplifun og hækkaði um eina stjörnu, úr fjórum í fimm. Skaði að hún skyldi ekki vinna Óskarinn, besta erlenda myndin árið 1992.

 

Sigurpáll Ingibergsson

Kvikmyndagagnrýnandi Eystrahorns á Hvítum hvölum


Jöklarnir vita svo margt

Masaru Emoto 

Japanski vísindamaðurinn Masaru Emoto gaf út bókina Falin skilaboð í vatni. Þar segir hann frá rannsóknum sem hófust af tilviljun þegar honum datt í hug að kanna betur máltækið "engir tveir ískristallar eru eins." Hann frysti vatn og tók myndir af kristöllunum og komst að því að það var vissulega eitthvað til í þessu máltæki.

Rannsóknir Emotos tóku óvænta stefnu þegar hann ákvað af rælni að sjá hvaða áhrif tónlist og hljóðbylgjur hefðu á vatnið. Þannig ljósmyndaði hann ís sem myndaðist þegar hann spilaði 5. sinfóníu Beethovens, Mozart, Bach og "Let it be" eftir Bítlana. Í öllum tilfellum mynduðust einstaklega skærir og fallegir kristallar en "Heartbreak Hotel" með Elvis Presley varð frekar ljótur og sundraður ískristall, söluleiðis allt dauðarokk. Sama niðurstaða varð þegar jákvæð orð voru skrifuð og neikvæð.

Emoto vill meina að að jákvæðar og fallegar hugsanir skili sér beinlínis út í veröldina enda erum við 70% vatn.

Sturlungaöld í íslenskum stjórnmálum                                                 

Ísinn í Jökulsárlóni er talinn vera á bilinu 600-800 ára gamall og segir Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur að kristallarnir í þessum gamla ís séu hnefastórir. Ísinn geymir ókjör upplýsinga um fortíðina sem engan grunaði að hægt væri að kalla fram.

Ef það sem Emoto segir er rétt, að orð, texti og hugsanir hafi áhrif á vatnið og minningar varðveitist og geymist má segja að það sé sjálf Sturlungaöldin sem kelfir fram í Jökulsárlónið um þessar mundir. Það spillir ekki upplifuninni að því að fylgjast með jöklum ryðjast fram og brotna sem aldrei fyrr. Orð, textar og hugsanir sem voru á sveimi á 13. öld og lágu frosin í 800 ár losna nú úr viðjum sínum. Hvort hugmyndirnar fara aftur á kreik er erfitt að segja. Þarna brotnar ís og bráðnar frá tímum þegar stórhöfðingjar risu til valda og ríkir menn og kaldráðir lögðu undir sig heilu landshlutana, útrás og þrá eftir frægð, fram og viðurkenningu endaði með innrás. Það liggur eitthvað í loftinu og jakarnir bráðna sem aldrei fyrr.

Er árið 1262 að bráðna í Jökulsárlóni en þá var Gamli Sáttmáli undirritaður, rétt eins og IceSave og EES-umsókn. Neikvæðu hugsanirnar og aðgerðirnar á Sturlungaöld eru að hafa áhrif á mannfólkið.

Heimild:

Lesbók Morgunblaðsins, Andlit frá Sturlungaöld, laugardagur 29. apríl 2006. Andri Snær Magnson.

Klakar

 


Fiskidagurinn mikli

skutan.jpgHvaða bæjarhátíð á maður sem alinn er upp á Fiskhól og á bloggsvæðið fiskholl.blog.is að sækja reglulega. Svarið er einfalt, Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Hátíðin hófst með stórbrotnu súpukvöldi á föstudagskveldi í fallegu veðri. Það var löng bílaröð inn í bæinn og þegar nær dró, sást nýtt úthverfi í Dalvík, þakið húsbílum og fellihýsum. Við gengum því inn í fiskibæinn og  fyrsti viðkomustaðurinn var reisulegt hús, Vegamót hét það og barst kröftug tónlist úr garðinum. Garðurinn var stór með mikið af trjám og á milli þeirra voru borð eins og á ensku sveitarsetri. Þetta var góð byrjun en upphaf Súpudagsins hófst einmitt í garði þessum fyrir sex árum. Súpan var kraftmikil og góð með rjómafyllingu.  Eftir að hafa þakkað fyrir okkur og skrifaði í gestabókina var haldið áfram.

Næsta gata var Mímisvegur.  Hún var þakin fólki og minnti mig á Lecester Square á laugardagskveldi. Mögnuð stemming. Fólk brosti og íslenska lopapeysan var vinsælasta og flottasta flíkin. Við þáðum þrjár súpur í viðbót og voru þær allar kraftmiklar og fjölbreyttar.  Ekki þunnar og bragðlausar eins og á sumum veitingastöðum. Greinilegt að metnaðurinn er mikill hjá Dalvíkingum og gestir eru sendir heim með góðar minningar.

Bærinn var vel skreyttur og vakti listaverkið, "Sökkvandi þjóðarskúta", með Ólafi Ragnari forseta mikla athygli gesta. Gátu menn túlkað verkið á ýmsan máta. Síðasti maður frá borði þjóðarskútunnar eftir 18 ára stjórn Sjálfstæðisflokksins er ekki galin túlkun.

Eftir eftirminnilegt kvöld var haldið til Akureyrar til að hlaða batteríin fyrir Fiskidaginn mikla. Við sameinuðumst rauða orminum sem náði á milli byggðalaganna tveggja í Eyjafirðinum.

Fiskidagurinn mikli var gríðarlega fjölmennur, sá fjölmennast í níu ára sögu og  á gott viðmót Dalvíkinga og falleg hugsun  sinn þátt í því. Kannski er virðing Íslendinga fyrir fiski og sjávarútveg orðin meiri eftir bankahrunið. En sjávarfangið sem í boði var stóðst allar væntingar.

 


Vinur Vatnajökuls

Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls.   Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.

Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum.  Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.

Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll  eftir þá frásögn.

Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.

Hrutfjallstind13

Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.


Skata á Þorláksmessu

Þeir eru skemmtilegir þessar hefðir sem koma upp árlega.  Skötuveisla er ein af þeim.  Stór hluti af fjölskyldunni hittist á Ölver við skötuborðið.  Það var einnig boðið upp á tindabikkju, saltfisk og hangikjöt með uppstúf. Einnig voru þrír góðir síldarréttir í boði. Það var skemmtileg stemming þegar komið var að veitingastaðnum, sterk skötulykt angaði fyrir utan húsið.   Skatan var mjög sterk og tók vel í hálsinn. Ég var með smá vott að kvefi en það rauk úr mér. Réttirnir sem fylgdu á eftir voru bragðlitir.  Lengi lifi skatan.

skataV

 

Á Vísindavefnum stendur þetta um skötu á Þorláksmessu:

"
Í kaþólskum sið var fasta fyrir jólin og átti þá ekki að borða mikið góðgæti og einna síst á Þorláksmessu. Það átti að vera sem mestur munur á föstumat og jólakræsingum, auk þess sem ekki þótti við hæfi að borða kjöt á dánardegi heilags Þorláks. Þessir matsiðir héldust í stórum dráttum þótt hætt væri að tilbiðja Þorlák sem dýrling. Þó var fólki stundum leyft að bragða aðeins á jólahangikjötinu ef það var soðið á Þorláksmessu."

Það er einnig gaman að velta því fyrir sér hvernig þessir siðir urðu til.

"Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind"

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þorvarður Sigurðsson frá Teigaseli (1942-2001) að verka skötu fyrir utan saltskemmurnar fyrir 26 árum.


Jólavín

 Vina Tuelda Barrica Domaine des Malandes Petit Chablis  Pujol Rivesaltes GrenatBertani Villa Novare RipassoChâteau Musar

Dominique og Eymar  hjá Vínskólanum halda úti góðum vef um vín og vínmenningu. Þau reka vínskólann - vinskolinn.is og býður hann upp á stutt fræðandi námskeið. Einnig senda þau reglulega út fréttabréf. Ég hef ákveðið að velja fara í gegnum listann og velja eitt gott vín fyrir jólamatinn. Hér kemur jólavínlistinn frá Vínskólanum:

Sum vín hafa ratað nýlega til okkar sem eru á hóflegu verði  og viljum við benda á nokkur þeirra - athuga að verðin gilda... í dag og að þetta er vín sem eru ný í reynslu og þar af leiðandi fáanleg í Heiðrúnu eða Kringlunni:
- Vina Tuelda Barrica frá Ribeira del Duero er valið besta kaupið í jólablað Gestgjafans (1867 kr) - með rauðu kjöti, lamb, naut, hreindýr

- De Leuwen Jagt Cabernet Sauvignon  S-Afríka - (1997 kr), vínbóndavín, eins og maður veit að S-Afríka getur framleitt, með öllu bragðmeiri rauðu kjöti
- Arnaldo Caprai Grecante (1989 kr) er afar skemmtilegt hvítvín frá Ítalíu (Umbria), með humri eða bragmiklum skelfiski
- Domaine de Malandes Petit Chablis (2190 kr) er vel peninganna virði
- Olivier Leflaive Les Sétilles (2390 kr) eitt af þeim bestu frá Bourgogne, miðað við verð - ljúffengt
- Bertani Villa Novare Ripasso frá Valpolicella (2790 kr), flott vilillbráðavín


Svo getum við ekki sleppt því að nefna eitt af dýrari vínunum:
- Château Musar 2001 frá Líbanon (4499 kr), dýrt já en frábært með öllu villibráðinu - umhella 1-2 klst fyrir mat.
- Ekki gleyma  Riversaltes Grenat með villigæsaterrine frá Ostabúðinni, gráðaostinum eða súkkulaði (2799 kr) !
 

Þetta eru fínar hugmyndir. Ég ætla að kaup Arnaldo Caprai Grecante með humrinum og láta svo hugann reika til S-Afríku með De Leuwen Jagt Cabernet Sauvignon þegar kjötið fer undir tönn.


Náttúrulega

Nýlega lauk ég við bókina Vadd' úti, ævisögu Sigurjóns Rist. Það var skemmtileg lesning. Gaman að sjá sjónarhorn vatnamælingamannsins á rafvæðingu landsins. Einnig var fróðlegt að lesa söguna í kreppunni, en Sigurjón fæddist og ólst upp í kreppu. Mótaði hún hann alla tíð. Hann var mjög nýtinn og sparsamur. Góður ríkisstarfsmaður.

Margar góðar sögur eru í bókinni enda ferðaðist hann víða. Meðal annars vann hann með Austur-Skaftfellingum. Kvískerjabræður komu við sögu í fyrstu vísindaleiðangri á Vatnajökul.  Tek ég hér bút úr ævisögunni:

"Þegar við vorum að draga litla trékassa yfir lónið, sem voru aðskildir frá öðru dóti og sérstaklega vel gengið frá, spurðu bræður hvað væri í þessum kössum. Ég sagði að það væri sprengiefni. Þá sögðu þeir: Náttúrulega. Í farangrinum voru mörg skíði, þar á meðal mín. Þeir spurðu mig að því hvort ég væri mikill skíðamaður og sagði að ég teldi mig nú ekki mjög mikinn skíðamann. Náttúrulega, svöruðu bræður. Mér fannst þetta kyndugt, en kom mér þó ekki alveg á óvart. Jón Eyþórsson hafði bent mér á að orðanotkun Öræfinga væri stundum öðruvísi en hjá öðrum landsmönnum. Til dæmis segðu þeir ævinlega náttúrulega, þegar aðrir notuðu orðatiltækið; einmitt það!"

Sverrir Hermannsson fv. alþingismaður, sagði mér eitt sinn frá því að það hefði verið merkilegt að halda framboðsræður fyrir alþingiskosningar í Öræfum. Öræfingar hefðu helgið á allt öðrum stöðum í ræðunni en aðrir Austfirðingar. Og allir hefðu þeir hlegið sem einn.

Síðar í kaflanum er sagt frá heimsókn leiðangursmanna til Kvískerja:

"Eftir þessa ágætu máltíð [reyktan fýl í Fagurhólsmýri]  var farið austur að Kvískerjum og gist þar um nóttina. Þar var vel tekið á móti okkur. Frakkarnir ráku augun í pall sem gerður hafði verið úr rekavið til að gera við og smyrja bíla á. Þeir urðu skotnir í þessum palli og sáu sér leik á borði að smyrja víslana áður en haldið væri á jökulinn. Við leituðum eftir því hvort þeir mættu þetta. Hálfdán, sá bræðranna sem sá um bíla- og vélakost heimilisins, skoðaði víslana og lagði mat á þá og gaf síðan leyfið.

Við fengum oft að heyra það síðar hvað Frakkarnir voru hrifnir af þessu. Þarna hafi verið farið að meið miklu öryggi og engum asa. Hálfdán hafi vegið það og metið hvort pallurinn þyldi víslana, áður en hann veitti leyfið. Álit þeirra á Íslendingum óx töluvert við þessa prúðu og traustu framkomu."

Útrásarvíkingarnir hefðu átt að taka Hálfdán á Kvískerjum sér til fyrirmyndar. Vonandi mun næsta kynslón útrásarvíkinga gera það.

Kviskerjabræður

Kvískerjabræður, Hálfdán, Helgi og Sigurður.  Mynd fruma.is


Herðubreið sigruð

Þann 10. júlí árið 1907 varð dularfullt slys í Öskjuvatni. Þá fórust tveir Þjóðverjar með segldúksbát sínum. Þeir voru jarðfræðingurinn Walter von Knebel og Max Rudloff listmálari. Ári síðar kom heitkona Knebel, Ina von Grumbkow ásamt jarðfræðingnum dr. Hans Reck til að leita skýringa á slysinu. Með í ferðinni var bóndinn Sigurður Sumarliðason. Eftir ferðina gaf Ina út bókina, "ÍSAFOLD - Ferðamyndir frá Íslandi".

Á leiðinni í Öskju gengu Reck og Sigurður á Kollóttudyngju. Dagurinn á eftir var hvíldardagur, fyrir hestana en leyndardómar hinnar 1660 m háu Herðubreiðar freistuð þrautseigra ungra krafta jarðfræðingsins Hans Reck.

Í bókinni Ísafold segir þetta um gönguna á Herðubreið, 13. ágúst 1908.  

"Enn hafði enginn klifið risahá móbergsveggina í hlíðum hennar. Enginn mannlegur fótur hafði stigið á koll hennar. Fjallið var fram að þessu talið ógengt og enginn hafði reynt að glíma við það."

Þegar göngunni á Herðubreið er lokið skrifar Ina:

"Þeir höfðu hlaðið vörðu hæst á fjallinu, og sáum við hana öll greinilega í sjónauka. Þessi fyrsta ganga á fjallið hafði ekki aðeins mikið vísindagildi, heldur kom hún okkur einnig að góðum notum á framhaldi ferðarinnar til Öskju. Úr þessari hæð gafst þeim góð yfirsýn um víðlendið í kring. Þeir sáu að á milli Herðubreiðar og Dyngjufjalla hafði vikurinn sléttað að mestu ójöfnur hraunanna og að leiðin myndi vera tiltölulega auðveld.

Auðvitað voru þeir orðnir uppgefnir eftir þessa erfiðu og hættulegu fjallgöngu, en glaðir að hafa lokið djarfmannlegu verki. Hvíldin og maturinn hressti þá, svo að þeir gátu sagt okkur frá mörgu, sem fyrir þá bar í þessari ævintýralegu fjallgöngu. Athyglisverðastar voru eftirfarandi upplýsingar: Þegar komið var langleiðina á brún fjallsins, varð á kafla fyrir þeim svart hraun undir lóðréttum hamraveggnum í upsum fjallsins, rétt áður en þeir komust upp. Til öryggis höfðu þeir sett upp sólgleraugu, svo að þeir blinduðust ekki á sólglitrandi jöklinum, sem samkvæmt landabréfinu átti að þekja alla hásléttuna þar uppi. Hvílík undrun! Við augu blasti aðeins svart hraun og óhreinar fannir á stangli, þar sem þeir væntu ósnortins hreinleika jökulfannanna."

Fyrsta ganga á fjalladrottninguna Herðubreið var því fyrir tilviljun. Eiginlega má segja að hún hafi verið fyrir slys. Dr. Hans Reck varð síðar háskólakennari í Berlín. Næstu árin hélt hann áfram rannsóknum íslenskra eldfjalla og ritaði töluvert um það efni.

 Norðurland290808-Reck

Hér er frétt sem birtist í Norðurlandi 29. ágúst 1908.


Þýli

Á Hafíssetrinu í Hillebrandtshúsi, elsta timburhúsi landsins á Blönduósi er þessari köldu spurningu kastað fram.

Talið er að Ísland hafi heitað Þýli í a.m.k. 1200 ár. Ættum við að skipta og taka upp gamla nafnið? Hugsið málið!

Hvað ætli markaðsmenn segi um nafnabítti. Eftir tvöhundruð ár verður Ísland íslaust og ber þá ekki nafn með rentu.

Mér fannst þetta athyglisverð vitneskja um gamla nafnið á landinu okkar sem ég fékk á Hafíssetrinu í gær. Hins vegar finnst mér nafnið Þýli vera frekar óþjált og líta illa út á prenti. En það yrði borið fram eins og Thule. En þetta er svipuð pæling og cuil.com menn eru að framkvæma, vera kúl.

Nafnið Þýli er komið af gríska orðinu þýle. Gríski sæfarinn Pyþeas ritaði um ferðir sínar á fjórðu öld fyrir Krist og minnist þar meðal annars á þessa norðlægu eyju, Þýli. Segir hann ís ekki fjarri landinu í norðri, bjart nánast allan sólarhringinn um hásumar og sé þangað sex daga sigling frá Bretlandi.

Á frólega vefnum ferlir.is er þessi frásögn af nafninu Þýli.

"En laust eftir aldamótin 700, þegar norrænir víkingar, er þá og síðar vóru yfirleitt nefndir "danir", tóku að herja og ræna vestur á bóginn frá aðalbækistöð sinni á meginlandinu er enn heitir Normandí í Frakklandi, var höfuðbækistöðin flutt norður til þess óbyggða eylands, er nú heitir Ísland, en þá hét Þúla eða Þýli = Sóley, (síðar Thule eftir að þ-ið hvarf úr engilsaxnesku stafrófi), "

Að lokum má leika sér með nokkrar línur. 
  "Ég ætla heim til Þýlis!",
  "Hæstu vextir í heimi á Þýli",
  "Þýlenska kvótakerfið.

Þýli ögrum skorið

Þýli ögrum skorið,
eg vil nefna þig
sem á brjóstum borið
og blessað hefur yfir mig
fyrir skikkun skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.

    Eggert Ólafsson  1726-1768 

Borgarvirki 022


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 234910

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband