Færsluflokkur: Menning og listir
1.3.2008 | 19:09
Stúlka í rauðu
Við Særún komum við í Gerðarsafni í blíðunni í dag og skoðuðum tvær ljósmyndasýningar. Annars vegar árlega sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands og hins vegar sýning Páls Stefánssonar sem ber nafnið XXV X2.
Það var gaman að koma í aðalsalinn. Strax við dyrnar tók á móti okkur mynd af stúlku í rauðum kjól sem stödd var í Firðinum. Höfundur ljósmyndarinnar er Hornfirðingum af góðu kunnur, Sigurður Mar Halldórsson, ljósmyndari hjá Galdri. Falleg mynd en þetta myndaveður í þokunni virðist heilla ljósmyndara, dulúð í þokunnar og spegilsléttur fjörður með eyjar í bakgrunni. - Myndin á sýningunni kemur í öðru formati á sýningunni en hér.
Mér fannst myndirnar sem teknar voru í leitinni af Þjóðverjunum tveim sem týndust á Svínafellsjökli bera af en þær náðu ekki að komast á pall í landslagsflokknum.
Særúnu fannst myndin af Silvíu Nótt og Ágústu Evu stílhreinust í sömu stúlku en hún var mynduð af Valgarði Gíslasyni hjá Fréttablaðinu.
Dómnefnd var gagnrýnin á innsendar myndir og ljósmyndara, daglegt líf fólks ekki nógu vel skráð og það vantar áskoranir í landslagsljósmyndum.
Á neðri hæð var Páll Stefánsson með ýmsar myndir frá síðasta ári, m.a. frá Vatnajökli, Afríku og UNESCO myndir sínar en ég hef verið mikill aðdáandi nafna. Páll hefur verið víðförull og myndað víða um heim. Hann hefur verið með sýningu um lífið í Afríku. Um það segir hann í Fréttablaðinu í dag: "Fólkið þar er svo glaðvært og glatt og laust við tilgerð og því er einstaklega gaman að mynda það. Á Vesturlöndum er gjarnan dregin upp afar neikvæð mynd af Afríku. Okkur er bara sýnd hungursneyð, stríð og volæði. Mig langar því að sýna aðra og jákvæðari hlið á álfunni með myndum mínum."
Það er eflaust mikið til í þessum orðum hjá nafna. Ég vil bara benda á færslu um ljósmyndarann Eto's sem kom fyrr í vikunni.
Myndirnar hjá nafna eru í litlu formati og til sölu. Þær ná því ekki að njóta sín eins vel og efni standa til og ekkert hefur verið átt við þær en það sást á myndunum á efri hæðinni að PhotoShop hefur komið mikið við sögu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2008 | 17:15
Af vatnsveituhúsum í Reykjavík og Barcelona
Ekki veit ég hvort OR þeirra Barcelonabúa eigi við REI vanda að glíma en þeir eiga umdeilda byggingu, rétt eins og Orkuveita Reykjavíkur.
Agbar Towerkallast byggingin og var vígð í júní 1005. Húsið hýsir aðalstöðvar vatnsveitu Barcelonaborgar og er þriðja hæsta hús borgarinnar, 144 metrar. Hæðirnar eru 33 og skrýtt 4.500 hátæknigluggum sem geta myndað ýmis mynstur. Kostnaður 8.5 milljarðar. Íbúar Barcelona voru ósáttir við bygginguna en þegar ferðamenn fóru að dást að henni hafa þeir tekið hana í sátt. Nú er byggingin orðin eitt af táknum borgarinnar. Hugmyndin að útliti byggingarinnar er sótt í Montserrat fjöllin í kringum borgina og goshver (Geysi) sem er að gjósa. Einnig minnir byggingin á ýmislegt annað.
Hús OR í Reykjavík er mun minna og líkist geimskipi. Kostnaður við það hús er 5 milljarðar. Þetta ágæta hús verður seint eitt af táknum Reykjavíkur.
Hvenær fáum við hús sem sækir útlit í íslenska náttúru?
Laugardalshöllin sækir mikið í Eiríksjökul. Háskólinn og Þjóðleikhúsið sækja hugmyndir í stuðlaberg.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2008 | 18:48
Náttúrugripasafn til fólksins
Kom við niðri á Hlemmi í dag. Sá þar að Náttúrufræðistofnun Íslands hafði nýtt suður innganginn til sýningarhalds um rjúpuna.
Á meðan ég beið eftir strætisvagni í Kópavog, þá gat ég lesið af spjöldum hnitmiðaðan texta á ensku og íslensku um hænsnfuglinn, rjúpuna og lífsbaráttu hennar við fálka og menn. Í sýningarglugganum voru uppstoppaðar rjúpur í gerfunum þrem, hvítar, gráar og brúnar. Áhrifaríkasta atriðið var af rjúpu með ungana sína út í lyngmóa. Mig hlakkaði til sumarsins við að sjá þá sýn.
Ekki veit ég hvort þessi hugmynd þeirra er tilkomin vegna plássleysis hjá Náttúrugripasafni Íslands sem stað sett er í næsta húsi en alla veganna. Þetta er gott framtak, náttúrugripasafn til fólksins.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2007 | 21:10
Wuhan - Kínversk menningarhátíð í Kópavogi
Kínversk menningarhátíð stendur nú yfir í Kópavogi. Hún hefur ekki farið framhjá Kópavogsbúum. Mesta athygli hefur Loftfimleikaflokkur Wuhan hlotið. Ég náði ekki að sjá listir hans en í dag skrapp ég á fjölskylduhátíð í Vetrargarðinum í Smáralind. Það var Kínversk stemming í dalnum.
Á milli atriða skoðaði ég ljósmyndir frá stórborginni Wuhan höfuðborg héraðsins Hubei í innanverðu Kína. Myndirnar sýndu nýleg risa mannvirki og gamlar byggingar í bland. Þeir eiga góðan söguarf í Wuhan enda elsta borgin byggð fyrir 3.500 árum og búseta hófst fyrir fimm til sex þúsund árum. Ef fólk sást á myndunum þá var það vel alið, efnað og hamingjusamt. Wuhan er nú orðin afar þýðingarmikil miðstöð innri héraða landsins fyrir alhliða iðnað, stál- og járniðnað, bifreiðaframleiðslu og hátækniiðnað sem og fjárfestingar, samgöngur og þekkingaröflun. Um 700 þúsund háskólanemar stunda nám. Ljósmyndirnar á sýningunni endurspegluðu þetta. Velmegun, tækni, menntun og frelsi. Engin fátækt og mengun var sjáanleg. Meira að segja var mynd af hvíta baiji höfrungnum sem nú er talinn útdauður. Árið 1911 hófst í Wuhan byltingin sem losaði þegna kína við 2000 ára keisaraveldi. Því er borgin gjarnan kölluð; "the city of Republic".
Í heimsókninni undirrituðu Gunnar Ingi Birgisson og fulltrúi frá Wuhan vinabæjarsamkomulag. Íbúafjöldi Wuhan er 8,6 milljónir og heildarflatamál hennar er 8.494 ferkílómetrar sem er svipað og Vatnajökull að stærð. Lögun hennar minnir á fiðrildi. Þessi fólksfjöldi dugar í sjötta sæti yfir fjölmennustu borgir Kína.
Borgarstæðið kemur til af náttúrulegum forsendum. Þriðja stærsta fljót heims Chiang Jiang (Yangtze) og stærsta þverá þess, Hanjilang mætast á þessum stað og mynda þrjú nátturuleg virki, Hanchang, Hankou og Hanyang, sem mynda í sameiningu Wuhan samtímans. Borgin er einnig kölluð "A city of Lakes".
Semsagt fróðleg og góð kínastund í Smáralind.
Það er gott að búa í Whuan!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2007 | 19:13
automatos
Ljósmyndasýningunni automatos í ljósmyndasafni Reykjavíkur lauk í dag Ég rétt náði inn fyrir lokun. Á sýningunni eru ljósmyndir eftir þrjá merka ljósmyndara. Pál Stefánsson, RAX og Þjóðverjan Olaf Otto Becker.
Ljósmyndir Beckers eru úr myndaröðinni Under the Nordic Light, hefur verið líkt við landslagsmálverk rómantísku stefnunnar á 19. öld þar sem fegurð og fullkomleiki voru í öndvegi. Það má vel taka undir það. Myndirnar voru öflugar og það skemmtilega við sýninguna var að aðal myndin, sú sem prýðir forsíðu bókarinnar er tekin í höfninni á Hornafirði. Myndin var tekin árið 2002 og sýnir skutinn á Húnaröst gegn skutinum á Garðey. Í bakgrunni eru vel viðhaldnir hornfirskir bátar við Miklagarð. Fullkomin Höfn.Mögnuð mynd frá höfninni í Hornafirði. Myndin naut sýn mun betur í stóru formati á sýningunni. Hún var hrein og tær og litirnir nutu sín vel á veggnum.
Verkin hans nafna minntu frekar á málverk heldur en ljósmyndir. Páll hefur næmt auga fyrir minnstu smáatriðum í náttúrunni og einkennast ljósmyndir hans af sterkum litum, miklum skýrleika og margbrotinni birtu. Fáar myndir voru eftir Pál á sýningunni, aðeins fjórar en ís eða klaki kom fyrir í þeim öllum. Í sýningarsalnum voru ljósmyndabækur eftir meistarana. Bók Páls heitir PS Ísland og kom út í fyrra. Þar eru tvær myndir teknar á Hornafirði. Í umsögn um eina sterka mynd sem tekin er þegar þoku er að létta í firðinum og sér í jöklana.
"Á Hornafirði er allt í ökkla eða eyra. Annað hvort er þar ljótasta útsýni á landinu eða það fallegasta." Hér er hann að fjalla um þokuna. Þokan getur verið svo þykk að ekki sér handa skil. En svo birtir til. "Þegar þokunni léttir kemur í ljós stórbrotnasta útsýni sem völ er á úr íslenskum bæjum."
Hin ljósmyndin hjá Páli var kosin landslagsmynd ársins 2005. Þokumynd af eyju í firðinum líklega tekin á Höfðanum.
Ljósmyndir RAX eru svarthvítar og sýna baráttu bænda við að smala fé af fjöllum í Landsmannalaugum. Sterkasta myndin er á forsíðu sýningarskrár en þar eru menn og dýr að vaða yfir á og vatnsdropar skjótast yfir leitarmann á hesti. Það neistar af þessari mynd. Einnig er mikil útilegufílingur í myndum RAX, það er eins og Halla og Fjalla-Eyvindur séu að smala.
Eftirminnileg sýning sem sendi mig í ókeypis ferðalag í átthagana í Hornafirði.
Að lokum er vert að minnast á titil sýningarinnar. Automatos vísar til grísks heimspekihugtaks og þýðir "það sem verður til innan frá og breiðir úr sér eða springur út". Séð út frá landslagi vísar hugtakið til þess sem mótast eða birtist í því sjálfu og þetta ferli á sér birtingarmynd bæði í "hreinni" náttúrunni en einnig þar sem mannshöndin hefur gripið inn í líkt og með gerð framræsluskurða á láglendi eða byggingu virkjana á hálendinu.
Tenglar:
Ljósmyndasafn Reykjavíkur - automatos
25.8.2007 | 09:12
Jökulsvelgjaserían
Mikið var ég hissa en ánægður þegar ég opnaði Lesbók Moggans í morgun. Mér svelgdist eiginlega á kaffinu. Þar var heimsfrumsýning á verki myndlistarmannsins Ólafs Elíassonar - Jökulsvelgjaserían, niður árþúsundanna. Ég var einmitt í gærkveldi að grúska í svelgjum og bloggaði lítillega um svelgi fyrir háttinn. Hef haft mikinn áhuga á jöklum, sérstaklega Vatnajökli og náttúrufyrirbrigðum hans. Því var magnað að sjá sýn listamanns í kjölfarið.
Í Jökulsvelgjaseríunni eru um fimmtíu jökulsvegir á Vatnajökli sem myndaðir voru í síðasta mánuði. Í Lesbókinni í dag eru 36 myndir. Alveg stórmagnað.
Ólafur segir: "en verkið vinnst auðvitað með mismunandi hætti eftir því hvar það er sýnt. Það sem vekur mann fyrst til umhugsunar er þó sjónarhornið. Þetta er sjónarhorn sem maður sér aldrei - það kíkir enginn niður í slíka svelgi. Þarna er því verið að sýna óaðgengilegt sjónarhorn sem eins konar geómetrískt mynstur sem myndast fyrir tilstilli þyngdarlögmálsins."
Stórmagnað sjónarhorn hjá Ólafi.
Ólafur ferðaðist á öflugum jeppa ásamt jöklaleiðsögumönnum frá Hornafirði. Til að komast yfir þetta óaðgengilega sjónarhorn útbjuggu Ólafur og samferðamenn hans eins konar krana úr stigum sem festir voru á þak jeppa. Ólafur fikraði sig síðan út eftir stiganum með öryggislínu sér til halds og trausts. Áhrifarík mynd fylgir með greininni.
Ólafur hugsar djúpt. Þetta er mjög áhrifamikil og djúp pæling hjá honum, rétt eins og djúpu svelgirnir.
Verkin verða sýnd í SFMOMA ásamt frostnum BMW-bíl sem hann hefur hannað. Þessi tvö verk verða sýnd í samhengi við hvort annað, bíllinn í sérstöku herbergi þar sem verður 10 stiga frost, og Jökulsvelgjaserían í öðru herbergi. Svona eiga listamenn að vera!
Ég ætla að fara á þessa sýningu Ólafs.
En fyrir þá sem ekki komast á sýningu Ólafs, þá eru hér myndir úr Svelgjaseríu Palla. Gjörið svo vel.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2007 | 12:10
Eiríkur Hauksson með augum Ara
Það var gaman að lesa barnablað Moggans í morgun. Mynd eftir Ara litla birtist í blaðinu en hún er af Eiríki Haukssyni syngjandi á sviðinu í Helsinki. Ari ætlar að verða rokkari.
15.6.2007 | 21:20
Vinir Láru
Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Þórbergsmennina Einar Aðalsteinsson og Halldór Armand en þeir kalla sig Vini Láru. Þeir félagar hafa samið lög við kvæði Þórbergs en þau eru flest í Eddu.
Þeir benda á að kveðskapur Þórbergs sé kaldhæðinn og voru yrkingar hans óhefðbundnar. Oftar en ekki eru ljóð hans skopstæling á kveðskaparhefðum sem honum hugnaðist lítt. "Þar má til dæmis lesa æðisgengnar náttúrulýsingar þar sem allt er hafið upp til skýjanna til þess eins að vera rifið niður aftur."
Þeir félagar verð með í Föstudagsfiðrildi Hins hússins í miðbænum í sumar og verður maður að heyra í Vinum Láru. Það verður gaman að heyra Sósusálminn og borða ís með jarðaberjasósu meðan á hlustun stendur. Hér er ein vísa Nesin og Siglufjörður sem etv. mun heyrast í sumar.
Í Nesjum grænar grundir
gróa við lygnan straum,
og ljósálfar bjartir leiðast
um landið í sólardraum'.
Þar svanasöngvar óma
sætt um dal og ver.
Þú heillast í dýrðardraumi
og dagarnir gleymast þér.
Og sorgarhélan svala,
er sífellt amar mér,
kælir ei yl þeirrar æsku,
sem elskar og dreymir hér.
Við Siglufjörð saurugur lýður
svallar og öslar slor. -
Þeir berjast og bítast og hrækja
og byltast í hland og for.
Og fjallið er grett og gagurt
og grafirnar pútnabúr,
og skríllinn gljáir af grúti
á grenjandi kogesprittstúr.
Með hálsin á helgidögum
þeir hlassast með rotið strý
og plampa með pútum um krárnar
og prumpa - og liggja svo í.
Sælt væri' að elska þig eina
um aftan í hornfirzkri ró. -
Þú bergir samt gjálífsgjallið
og gantast við norðursjó.
Þórbergur biður lesandann að gefa gætur að hinni ólíku hrynjandi í vísunum um Nesin og erindunum um Siglufjörð. Í hinum fyrri er hljómfallið mjúkt og þýtt, í hinum síðari hart og klunnalegt.
3.6.2007 | 20:01
Sjóarinn síkáti
Þegar ég var úngur var sjómannadagurinn einn helzti dagurinn á Hornafirði. Þá var hægt að fara í siglingu út fyrir Ós og fá karamellur á Hóteltúninu ofan af himnum. Þegar ég var togarasjómaður var þetta æðisti dagur ársins. Heilagur dagur.
Eftir að maður fór í sollinn, þá hefur vægi dagsins minnkað í huganum, ekki eins mikill ljómi eins og sést á útgerðarbænum Akureyri. En nú var ákveðið að bjóða familíunni í óvissuferð.
Sjóarinn síkáti er frábært framtak hjá Grindvíkingum. Þar er boðið upp á fjölbreytta fjölskylduskemmtun og minnir mig á Fiskidaginn mikla í Dalvík. T.d. ókeypis í leiktæki fyrir krakka, ekkert peningaplokk. En það hefur loðað við bæjarhátíðir að þær eru frekar til fjársins.
Bræla var þó á hátíðinni í dag, suðaustan 17 m/s og 12 stiga hiti. Grindavík er berskjölduð fyrir vindáttinni. Því var færra fólk mætt en hátíðin átti skilið.
Flest atriðin voru við Saltfisksetrið, flott safn sem maður á eftir að heimsækja í góðu tómi. Eftir að hafa hlustað á setningu hátíðarinnar og sent krakkana í leiktæki var haldið í næstu vík.
Endaði daginn í Keflavík hjá Jóni Inga og Dröfn í hornfirsku sjómannakaffi.
29.5.2007 | 22:10
Blái veggskjöldurinn
Ég eyddi Hvítasunnunni í lestur á Eddu Þórbergs Þórðarsonar. Ég var ekki búinn að kynna mér efni bókarinnar en brá nokkuð er ég sá að þetta var kvæðabók. En ég hef aldrei áður lesið ljóðabók ef skólaljóðin eru fráskilin.
Ég hélt sjó og ákvað að lesa mig í gegnum Eddu. Það kom mér á óvart hversu skemmtilega bókin var. Eiga góðar útskýringar ÞÞ á ljóðunum því að þakka.
Þórbergur er nákvæmur að vanda og greinir oft frá hvar hann var staddur þegar ljóðið var ort. Norðurstígur 7 hefur verið nokkuð góð ljóðauppspretta hjá honum.
Kom mér þá í hug að það vantar merkingar á hús hér á landi. Í London eru mörg hús með bláum skildi gefin út af English Heritage Blue Plaque og greinir frá hvaða stórmenni bjó þar. Hvernig væri að taka upp þennan sið hér á landi.
Hornfirðingar gætu riðið á vaðið. T.d. gæti verið blár veggskjöldur á Kaupfélagshúsinu, um Halldór Ásgrímsson. Einnig þarf að finna hús sem Svavar Guðnason bjó í. Á Landsbankanum gæti verið skjöldur um Lollu og Grétar Örvarsson júróvisionfara á Bogaslóð. Búið er að reisa höll um Þórberg og einnig mætti vera skjöldur á Hólum í Nesjum. Kvísker kæmu svo í farvatninu.
Þetta er einnig rakið í menningartengdu ferðaþjónustuna, Í ríki Vatnajökuls sem Hornfirðingar eru að ráðast í. Húsin verða auk þess verðmætari.
Hér eru upplýsingar um Bláa veggskjöldinn.
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 5
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 75
- Frá upphafi: 234910
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 67
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar