Færsluflokkur: Dægurmál

Er þetta eftirskjálfti Suðurlandsskjálfta 2000

Árið 1896 komu Suðurlandsskjálftar upp á 6,5 til 6,9 stig. Árið 1912 reið yfir Suðurland jarðskjálfti sem var 7,0 stig.   Er mögulegt að þessi skjálfti í dag sé eftirskjálfti Þjóðhátíðarskjálftans?

Þetta eru hrikalegar fréttir, óhuggulegt að heyra sírenuvæl í útvarpinu í útsendingu frá Selfossi. Það er nokkuð mikið adrenalín í skrokknum mínum. Vonandi hafa ekki orði alvarleg slys á fólki.

Jardskjalfti290508-2

Heimild:  vedur.is


mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

S og P bylgjur

Hann var stór vörubíllinn sem fór framhjá mér rétt áðan. En við nánari athugun var þetta jarðskjálfti, líklega ættaður úr Ingólfsfjalli.  Þetta voru tvær bylgjur, skjálftinn stóð yfir í um 20 sekúndur og fann maður fyrir S og P bylgjunum.

Fyrr í dag, kl. 14.41 varð jarðskjálfti af stærð um 3,2 á Richter varð við suðvesturenda Ingólfsfjalls, um 5 km NV af Selfossi.

Hvar varst þú þegar Ingólfsskjálftinn reið yfir?

Finnst RÚV ekki fá fréttir nógu markvisst.Jardskjalfti290508


Fyrsti slátturinn

Vorið er snemma á ferðinni í Álfaheiðinni í ár. 

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var síðdegis, tæpum tveim vikum á undan fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá tíu sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur. Aspirnar okkar eru frekar fáklæddar. Það má segja að þær séu í gegnsæjum kjól Ræturnar þeirra eru sífellt að stækka og farnar að hafa áhrif á nánasta umhverfi.

Flesjan er frekar missprottin og mikill vöxtur á vestari grasbalanum inni í húsasundinu og gaf hann af sér nokkra hestburði og kalblettir eru fáir. Sprettan er róleg á austurtúnunum en aspirnar taka eflaust mikla orku frá grassprettunni og skyggja á sólina. Aspirnar verða fjarlægðar brátt en þær eru orðnar það stórar að þær skyggja á húsið og húseigendur hræddir um að ræturnar fari að koma upp um klósettið eða baðkarið. 
Nokkrir túnfíflar sáust og var sláttuvélinni stefnt á þá. Hafa þeir ekki sést síðan.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. En slátturinn í dag er á sama tíma og árin 2004 og 2005.

2007    26. maí 

2006    20. maí

2005    15. maí

2004    16. maí

2003    20. maí

2002    26. maí

2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið hlýrra  en síðustu tvö ár.  Góðu fréttirnar eru þær að minna er um fífla í maí heldur en fyrri ár. 


Hjólað í vinnuna

Það var greinilegt að borgarbúar ætla að taka virkan þátt í átakinu, Hjólað í vinnuna. Ég var að vísu snemma á ferð í vinnuna í morgun en Fossvogurinn var morandi í hjólafólki. Ég var heppinn að verða ekki hjólaður niður nokkrum sinnum.  Hjólreiðamenn voru á öllum aldri.  Einnig mætti ég nokkrum manneskjum á gangi, það hefur verið sjaldséð sjón í Fossvogsdal. Ég hef yfirleitt átt dalinn.

Jæja, fjórir kílómetrar komnir sarpinn.


Grænfáninn í Lífsmenntaskólanum Álfaheiði

Ari litli er í Lífsmenntaskólanum Álfaheiði.  Dagurinn í dag var stór dagur hjá þeim. Þau fengu Grænfánan afhentan.  Þetta er gott framtak hjá leikskólanum eða Lífsmenntaaskólanum.

Krakkarnir fá fræðslu um sorpið og endurnýtingu. Um daginn heimsóttu krakkarnir Sorpu og lærðu þar að plastflöskurnar eiga framhaldslíf. Þær enda í flíspeysum. Nú má ekki henda neinni gosflösku í almenna ruslið.  Sama gildir um dagblöðin, þau fara í sér gám. Einnig fara umbúðir um mjólkina sömu leið. Verkefni þetta nær ekki tilgangi sínum nema við foreldrar heima stöndum á bakvið nýju kynslóðina. 

 


Krían er komin

Sá gleðilega og árlega frétt á textavarpinu í dag, sumardaginn fyrsta.

Krían er komin                        
 Krían er komin. Kristín Benediktsdóttir
 á Hornafirði sá kríu smemma í morgun  
 við Ósland. Þá sást einnig til hennar 
 við Skerjafjörðinn í gær og maður á   
 Djúpavogi sagðist hafa séð kríu um    
 liðna helgi. Krían kemur hingað eftir 
 vetursetu á Suðurskautslandinu.       
 Vegalengdin þaðan eru rúmir 15.000    
 kílómetrar. Talið er að það taki kríuna
 um 30 daga að fljúga hingað á vorin.  
                                       
 Ferðlag hennar á haustin, þegar hún fer
 héðan, tekur lengri tíma eða um 90    
 daga. Ferðatími kríunnar milli varp- og

 vetrarstöðva er því um fimm mánuðir.  

Etv. rangt reiknað í lokin. Í fyrra kom krían á Hornafjörð 22. apríl en þá sáust tvær kríur og árið 2006 sáust fyrstu kríurnar 23. apríl. Merkilegur fugl þessi kría.

Gleðilegt sumar


Ökumaðurinn var útlendingur

Blaðamannafélag Íslands hélt ráðstefnu í gær. "Hinn grunaði er útlendingur - umfjöllun fjölmiðla um innflytjendur og afbrot “. Þar kom fram að umræðan er skammt á veg komin hér á landi en virðist vera að þroskast.   Hátt hlutfall frétta um innflytjendur var neikvætt og sjaldan talað við innflytjendur sjálfa.   Hér er ein jákvæð saga af innfluttum ökumanni.

Var að ferðast um höfuðstaðinn síðla kvölds í vikunni. Hafði verið að spila brids og var argur út í síðasta spil kvöldsins. Klúður í sögnum hafði kostað toppsætið. Kem að gatamótum og stöðva bíllengd fyrir aftan rauðan japanskan pallbíl. Skyndilega byrjar bíllin fyrir framan mig að nálgast. Hann nálgast og nálgast. Pallbíllinn var ekki að renna fá sentímetra áður en skipt er í fyrsta gír. Hann er í bakkgír! Ég hef sekúndu og ákveð að reyna að bakka en næ ekki að framkvæma neitt. Dráttarkúlan á þeim japanska finnur leið undir stuðarann á jepplinginum mínum og þrýstir óvarlega á vatnskassann. Við vorum óslasaðir. Ég hopa út og í sömu andrá stígur ökumaður pallbílsins út og mælir:  "Ég ekki sjá þig." Hann er útlendingur.

Ég taldi þetta ekki mikinn árekstur. Bara nudd. Ég kyrrstæður og útlendingurinn á fjórum km/klst. Ég sé að dráttarkúlan er flækt í stuðara og kíki undir jeppling minn.  Þá sé ég að vatnið rennur af vatnskassanum. Það fauk í mig og ég blótaði ógurlega og stappaði niður fótunum. Fyrst spaðastubbur og ellefu slagir. Síðan ónýtur vatnskassi. Ekki pirraði það mig þó ökumaður pallbílsins væri ekki fæddur hér á landi. Ég sá ég að það bætti ekki neitt að vera eins og naut í flagi og ákvað að vera jákvæður.  Ég ræddi við innflytjandann um stöðuna sem upp var komin en hann talaði ágæta íslensku. Við reyndum að ná bílunum í sundur en það tókst ekki. Kúlan hafði húkkað sig fasta. Innflytjandinn kunni ráð. Hann tók splitti úr dráttarkúlunni og þá losnaði hún frá bíl hans. Síðan náðu við að þræða kúluna úr RAV-inum mínum. Ég fór og sótti tjónstilkynningu en fann ekki penna. Innflytjandinn átti penna og við hófum að skrifa niður nöfn og númer.

Ég vildi ekki keyra heim, ég gæti eyðilagt vélina. Ég spurði útlendinginn hvar hann byggi og hann sagði mér það. Leiðin var í sömu átt. Ég spurði hann hvort hann væri ekki til í að draga mig heim. "Ekkert mál", svaraði hann og síðan héldum við heim á leið. Útlendingnum þótti þetta atvik leitt og var hinn kurteisasti og hjálpsamasti. Hann var að byggja upp eigið fyrirtæki hér á landi.  Þegar ég kvaddi hann,  þá sé ég eftir að hafa rokið upp eins og djúp íslensk lægð.  En stormurinn lægði fljótt.

Ég hef síðan verið að velta því fyrir mér hvað ég var heppinn að það var útlendingur sem bakkaði a mig. Íslendingurinn hefði eflaust ekki haft tíma til að draga mig heim, eða hvað?


Loksins, loksins

Það er kraftur í Sturlu Jónssyni og vörubílstjórum. Það þarf stundum að "sprengja" menn að samningaborðinu. Ég styð þessar aðgerðir bílstjóranna heilshugar. Með því að stoppa sjálfvirkar hækkanir á bensín og olíuverði þá hækkar verðbólgan ekki eins mikið og húsnæðislánið mitt ríkur ekki eins hratt upp.

Því getur þessi fórn bílstjóranna sparað mér tugþúsundir í greiðslubirgði á árinu.

Annars þarf ég ekki að hafa áhyggjur af þessum köppum. Ég geng í vinnuna. Safna vöðvum og brenni fitu. Bæti skapið og bæti heilsuna.

Mikið vildi ég að Sturla og félagar hefðu verið sjómenn fyrir tuttugu árum. Þá hefðu þeir væntanlega ekki látið stjórnvöld vaða svona yfir sig eins og sjómenn létu gera með kvótakerfið sem er eins og fram hefur komið, mannréttindabrot. 

Það er franskur bragur á vörubílstjórum. Meira svona.


mbl.is „Ráðamenn vakni"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingvellir af heimsminjaskrá?

24stundir varpa þessari dapurlegu spurningu fram í Skírdagsblaðinu. Óskemmtileg spurning á svo snemma um páskahátíðina. Þingvellir eru eini staðurinn á Íslandi sem er á heimsminjaskránni og getur fallið af henni ef fyrirhugaður Lyngdalsheiðarvegur verður lagður. Mun nýi vegurinn kom í stað Gjábakkavegar sem þykir ekki henta til hraðaksturs.

Þjóðir í kringum okkur keppast við að komast á Heimsminjanefnd UNESCO. Það styrkir sjálfsmynd þeirra og tryggir að komandi kynslóðir geti notið fyrirbærisins.

Í júní sl. fengu stjórnvöld á Tenerife þau skilaboð að El Teide þjóðgarðurinn hefði verið tekinn inn á heimsminjaskrá UNESCO. Tenerife búar, sem keppa við Íslendinga um ferðamenn, voru mjög ánægðir með niðurstöðuna. Höfðu eignast tákn "emblem" um náttúru eyjunnar.

Það yrði mikið áfall ef við Íslendingar klúðrum Þingvöllum af heimsminjaskránni út af hraðbraut sem gæti skaðað lífríki vatnsins. Við eru þá komin í hóp með Talibönum en þeir eyðilögðu ómetanlegar styttur sem höggnar voru í kletta.  Við töpum tákni okkar, Þjóðgarðinum. Við stöndum þá uppi með brotna sjálfsmynd.


Sólarkaffi

Sá í fréttum að Siglfirðinga voru að fagna því að sjá sólina. Þeir halda hátíð mikla, sólarkaffi.

En það eru fleiri en Siglfirðingar sem sjá ekki til sólar yfir svartasta skammdegið. Einn bær, Syðri-Fjörður í Lóni er ekki vel staðsettur m.t.t sólbaða. 

Sólargangur er einna stystur í Syðra-Firði á byggðu bóli hérlendis og orti Eiríkur Guðmundsson bóndir þar 1904-1920 eftirfarandi vísur sem orðið hafa lífseigar: 

 

Mikaels frá messudegi

miðrar góu til

í Syðra-Firði sólin eigi

sést það tímabil.

 

Lengi að þreyja í þessum skugga.

þykir mörgum hart,

samt er á mínum sálarglugga

sæmilega bjart. 

 

Mikalesmessa eða Mikjálsmessa hefst 29. september og mið góa er í byrjun mars.

Heimild: Árbók FÍ 1993. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 233606

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband