Færsluflokkur: Dægurmál
20.9.2008 | 23:00
Leikjadagurinn mikli
Leikjadagurinn mikli hófst í Íþróttahúsi Snælandsskóla er 8. flokkur HK hélt fyrstu laugardagsæfingu vetrarins. Níu guttar mættu til leiks og höfðu mismikinn skilning á knattíþróttinni. Fyrst var hitað upp með bolta, síðan var hefðbundinn stórfiskaleikur. Eftir hann var skipt í tvö lið og var mikið skorað enda lítið um varnir. Ari stóð sig vel, raðaði inn mörkum, þau urðu vel yfir tíu og rétt dugði það til sigurs. Er heim var komið fór Ari í bað enda var vel tekið á því. Síðan var haldið í fjölskylduveislu í Digranesi en í boði voru tveir handboltaleikir hjá HK við Fram og ýmislegt fyrir áhorfendur í boði. Flott umgjörð í byrjun handboltatímabilsins.
Særún og handboltastúlkurnar í HK voru fánaberar er liðin komu inn á völlinn og sáu um kústinn. Stelpurnar í HK hófu leikinn af krafti á móti Fram og komust í góða forystu. Ekkert gekk hjá HK í seinni hluta hálfleiksins. Var staða Fram væn, 8-13 í hálfleik. Mikið var um sendingarfeila og mistök. Í stöðunni 6-7 fyrir Fram gekk hvorki né rak hjá báðum liðum. Þó víti, dauðafæri og hraða leik gekk ekkert að skora. Í síðari hálfleik hélst munurinn til að byrja með en svo kom góður leikkafli hjá HK stúlkum. Kom hann er strákarnir í HK birtust í dyragætinni. Hafa þeir eflaust æst stúlkurnar upp en einnig voru gerðar taktískar breytingar í sókn og vörn. Lokin voru stórspennandi og höfðu HK stúlkur frækilegan og óvæntan sigur, 21-19.
Klukkan fjögur hófst leikur sömu liða í karlaflokki. Það var gaman að fylgjast með upphituninni og var mikil samstaða í liði HK. Það dugði ekki til, því Fram vann sigur 23-27 á yfirspenntum HK-mönnum eftir að hafa náð góðri forystu í byrjun leiks.
Síðan var haldið á Players og horft á síðari hálfleik hjá Bolton og Arsenal. Við fegðar borðuðum kvöldmatinn þar, pizza varð fyrir valinu. Lítið markvert gerðist fyrr en Walcott kom inná. Átti hann góðan sprett sem tryggði 1-3 sigur og toppsætið í amk. sólarhring.
Þrír sigrar og einn ósigur, ágætur leikjadagur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2008 | 01:08
Klukkaður.....
Suðursveitungurinn og bloggarinn Sigfús Már klukkaði mig í vikunni. Ég er ekki mikið fyrir að eyða bandvíddinni og diskplássi í keðjuleiki en tek þessari klukkun til að líta til baka.
Lestartröll og pokamaður á Þórhalli Dan. Saltfiskur hjá Benta. Tölvufræðingur hjá KASK, Eldsmiðnum, Skímu, Símanum og Stika. Ferðaþjónusta hjá Jöklaferðum.
Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:
Börn náttúrunnar e. Friðrik Þór.
Doctor Zhivago e. David Lean.
Saving Private Ryan e. Steven Spielberg
Battleship Potemkin e. Sergei M. Eisenstein
Höfn í Hornafirði, Laugarvatn, Reykjavík, Kópavogur
Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
ÚtSvar, Gettu Betur, Enski boltinn, Silfur Egils.
Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Víti í Öskju, Hvannadalshnjúkur, Emirates Stadium í London og Hornafjörður
mbl.is, visir.is, arsenal.com og horn.is (þangað til vefurinn fór í langt sumarfrí).
Þorramatur, humar, fjallalamb og fiskur
Fjórar bækur sem ég hef lesið oft.
Sálmurinn um blómið, e. Þórberg Þórðarson
Við rætur Vatnajökuls, árbók FÍ 1993
Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela
Fjórir bloggarar sem ég klukka:
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2008 | 23:45
Sarah Palin hökkuð
Fréttamenn hökkuðu Sarah Palin, varaforsetaframbjóðanda ekki í sig heldur tölvuþrjótar. Þeir náðu að komast inn í persónulegan póst sem hún á á yahoo.com póstgáttinni. Netfang hennar er: gov.palin@yahoo.com. Þetta er alvarlegur glæpur.
En hvernig komust tölvuþrjótarnir inn í tölvupóst Söru. Því hefur ekki enn verið svarað, málið er ekki upplýst. Sótti hún póstinn frá óvarðri tölvu? Tengdist hún póstinum án þess að nota ódulkóðaða Wi-Fi tengingu á almenningsstað? Var hún með einfalt lykilorð sem auðvelt var að geta sér til um (t.d. McCain) eða auðvelt að brjóta upp (lykilorð úr orðabók)? Hefur hún sama lykilorð fyrir allar vefsíður sem hún notar (41% notenda hafa þann háttinn á)?
Það verður að upplýsa málið, hafa upp á þrjótunum og koma bakvið lás og slá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.8.2008 | 00:00
Fyrsta haustlægðin á höfuðdag
Það verður ekki efnilegt veðrið næstu þrjár vikurnar ef þjóðtrúin gengur eftir. Í dag, 29. ágúst er höfuðdagur. Hann er til minnngar um það, er Heródes konungur Antipas lét hálshöggva Jóhannes skírari að beiðni Salóme konu sinnar árið 31 e.Kr.
Fyrir ári síðan gekk þessi spá næstum eftir, það var úrkoma á höfuðdag og stóð hún nær allt haustið.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út viðvörun vegna storms sem gengur yfir landið vestanvert í nótt og fyrramálið. Kvöldið fór í taka saman lausa hluti af svölum og veröndinni. Haustið er komið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2008 | 20:10
Minnti á komu Keiko
Hún var flott lendingin hjá markverðinum Bjarna Frostasyni með islensku silfurhafana. Útsendingin minnti mig á komu Keiko fyrir áratug er C-17A Globemaster III flutningavélin lenti með hann í Vestmannaeyjum.
Vonandi verður stutt í næstu útsendingu með íslenskum afreksmönnum.
![]() |
Landsliðið komið heim |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2008 | 09:37
Bermúdabrosið komið til Peking
Stemmingin hér á landi fyrir handboltaleik Íslendinga og Spáverja á Olympiuleikunum minnir mig á stemminguna sem var hér fyrir heimsmeistaramótið í brids 1991. Þá flykkti þjóðina sér á bakvið bridsspilarana rétt eins og nú. Spilagleðin er sameiginleg með báðum liðum. Jákvæðni var höfð að leiðarljósi. Eflaust muna flestir líka eftir nýjum stíl sem íslenzku spilararnir tóku upp í lokakeppninni, þar sem þeir ákváðu að brosa til andstæðinganna þrátt fyrir að eitthvað færi miður. Bermúdabrosið var það kallað. Þann 10. október 1991 voru íslendingar krýndir heimsmeistarar í brids. Það var í fyrsta skipti sem íslenskt lið í flokkaíþrótt náði þeim áfanga. Verður sagan endurtekin á sunnudaginn? Vonandi.
Íslensku bridsspilararnir í Yokohama lærðu margt af handboltaleikmönnum en þeir höfðu farið í langar keppnisferðir erlendis og leyst mörg vandamál, andleg og líkamleg. Vonandi hafa handboltamennirnir lært eitthvað af íslenzku bridsspilurunum.
Nokkru eftir heimsmeistaramótið í Yokohama ræddi ég lengi kvölds við einn heimsmeistarann og sagði hann mér skemmtilega frá undirbúningnum og frá aðstoð sem þeir fengu er mótið var í gangi. Einn heimsfrægur spilari hvatti þá til að hugsa jákvætt til endalokana og hugsa um það þegar íslenzki þjóðsöngurinn yrði spilaður, þeir ættu að læra hann. Einnig hvatti hann spilarana um að hætta öllum vanmætti og hætta að spá í höfðatöluna. Það skipti ekki máli hvort þjóðin væri 275 þúsund eða 80 milljónir. Aðeins sex bestu spilararnir teldu. Hinir skiptu ekki máli. Þetta er laukrétt hjá honum. Með þessi ráð í handraðanum, jákvæðni, bjartsýni og góða spila- og sagntækni fóru Íslendingarnir alla leið.
Það verður stopp á kóðun og ráðgjöf í vinnunni meðan leikurinn verður í dag hjá Stika. En Stiki er stoltur stuðningsmaður Strákanna okkar og hefur merki fyrirtækisins komið á nokkrum auglýsingum handboltaliðsins. Áfram Ísland.
![]() |
Óhræddir og fullir tilhlökkunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2008 | 12:58
Fangar frelsisins
Í dag eru rétt tíu ár síðan minnismerkið um Fjalla-Eyvind og Höllu, Fangar frelsisins, var afhjúpað á Hveravöllum.
Í fjallaferðum um óbyggðir Ísland er mér ávallt hugsað til þessara útileguhetja. Saga þeirra hefur gefið manni kraft.
Ég var staddur á Hveravöllum á heitasta degi ársins, miðvikudaginn 30. ágúst þegar hitamet féllu. Þau skötuhjú hafa örugglega ekki upplifað annan eins hita á allri sinni æfi á Hálendi Íslands.
Listaverkið er eftir Magnús Tómasson, myndlistarmann á Ökrum á Mýrum. Fjalla-Eyvinarfélagið stóð á bakvið hugmyndina.
Listaverkið samanstendur af rimlum og steinum. Innan rimlanna eru tvö steinhjörtu, annað er sótt til Súðavíkur í fæðingarsveit Höllu, hitt að Hlíð í Hrunamannahreppi á fæðingarstað Eyvindar.
Á Kiðagili í Bárðardal er sýningin útilegumenn í Ódáðahrauni - goðsögn eða veruleiki og koma þau Eyvindur og Halla við sögu þar einnig Grettir og fleiri góðir menn.
Útlagar neyddust til að draga fram lífið í útjaðri samfélagsins. Sögur af útlögum í fornsögum minna oft á útlagana í villta vestrinu, en margir hafa bent á líkindi með þeim sagnaheimum.
Nú fer eflaust að styttast í að stórmynd um útilegumenn verði framleidd á Íslandi en á fyrri hluta síðustu aldar voru leikrit og kvikmyndir byggðar á sögu Fjalla-Eyvindar vinsælt efni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2008 | 12:13
08.08.08
Þessi fallegi dagur með þessa fallegu númeraröð. Margir framkvæma einhvern gjörning í lífi sínu á svona tímamótum. Sumir gifta sig. Aðrir skilja. Kínverjar hefja Olympíuleika á þessum tímamótum. Ég ætla að horfa á setninguna í nótt.
Ekki fann ég neitt tilefni enda ekki hjátrúafullur maður. Þessi dagur markar hins vegar endalok sumarfrísins hjá mér. Það er einskær tilviljun.
Flott dagnúmer sem komið hafa upp á öldinni eru: 01.01.01, 02.02.02, 03.03.03, 04.04.04, 05.05.05, 06.06.06, 07.07.07.
Ég man eftir að Þorrablót Hornfirðinga á höfuðborgarsvæðinu var 2. febrúar, 2002 og hófst það klukkan 20.02. Mikil holskefla brúðkaupa var í fyrra enda sjö mikil happatala.
Þær sem eftir eru: 09.09.09, 10.10.10, 11.11.11 og 12.12.12.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2008 | 15:06
Á sjóstöng með Húna II
Húni II er sögufrægt skip. Sérstaklega er það frægt á Hornafirði. Það bar nöfnin Haukafell SF 111 og Sigurður Lárusson SF. Skipið er 132 tonna eikarbátur, smíðaður í skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1963. Iðnaðarsafnið á Akureyri hefur bátinn til umráða og Hollvinir Húna II sjá um reksturinn. Þeir bjóða upp á siglingar á Pollinum á Akureyri í sumar. Ég fór í kvöldsiglingu með krökkunum mínum, Særúnu og Ara síðasta sunnudagskvöld og áttum saman eftirminnilegt kvöld við að kanna lífríki sjávar og upplifa land og haf.
Lagt var í kvöldsiglinguna frá Torfunefsbryggju kl. 20.00 en bryggjan er staðsett í hjarta Akureyrar. Siglt var inn fjörðinn og síðan beygt á bakborða og haldið út Eyjafjörðinn. Það var smávægileg gjóla og skýjað. Þegar komið var nálægt Svalbarðseyri var kúplað frá og fólki boðið að veiða á sjóstöng. Það var mikill spenningur, sérstaklega hjá ungu kynslóðinni og hjálplegir skipverjar aðstoðuðu fúslega landkröbbana. Sex sjóstangir voru á síðunni bakborðsmeginn. Eftir að allar sökkur voru komnar í botn, hófst veiðin. Stangirnar voru togaðar upp og sigu niður til skiptis. Loks kom fyrsti fiskurinn, það var lítil ýsa. Fylgdi fyrsta fisknum sú kvöð að kyssa þurfti skipstjórann. Kannaðist enginn við að hafa veitt ýsuna!
Ýsan var verkuð og flökuð. Fannst ungviðinu merkilegt að sjá hjartað slá löngu eftir að það var fjarlægt úr fiskinum og lá einmanna á aðgerðarborðinu. Síðan var maginn skoðaður og kom í ljós að hann var tómur, þess vegna beit hún á hjá okkur. Loks fengu krakkarnir að henda lifrinni og innyflum í hafið og fylgdust þau með er fýllinn barðist um fenginn.
Særún var við veiðar og skyndilega flæktist færi hennar við færi næsta veiðimanns. Þau drógu bæði upp og eftir smá stund birtist vænn ufsi. Hann hafði greinilega farið í ferð með öngulinn í munninum. Særúnu leist ekkert á aflann og forðaði sér og tóku áhafnarmeðlimir við að landa aflanum og greiða úr flækjunni. Þá var komin upp skemmtileg staða um borð, það var slegið upp grillveislu.
Ufsinn var flakaður og flökin krydduð og sett á grillið. Við héldum áfram að veiða. Ég fékk eina stöng og eftir nokkur húkk, fann ég að eitthvað hafði breyst. Ég dróg inn 15 faðma línuna og á króknum var agnarsmá lýsa. Við skiluðum henni aftur í hendur Ægis. Skömmu síðar kallaði skipstjórinn að veiðum væri lokið, draga ætti inn allar línurnar. Hófst þá ufsaveislan mikla. Bragðaðist fiskrétturinn mjög vel og var ufsin mun betri en ég átti von á, einnig liturinn, en hann var ljós og leit fiskurinn vel út.
Mikil umræða hefur verið um sjóstangarveiði á Vestfjörðum en ferðaþjónustuaðilar þar hafa funið nýja gullæð. Hins vegar er úrkynjað kvótakerfi Þrándur í götu. En vorum við að brjóta landslög?
Ufsagrillveisla í hvalaskoðunarskipinu Húna II. Brúin glæsileg á skipinu.
Samkvæmt 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er heimilt án sérstaks leyfis að stunda í tómstundum fiskveiðar með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem fæst við slíkar veiðar, er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja hann eða fénýta á annan hátt.
Nei,við veiddum og átum! Því brutum við ekkert af okkur.
Á heimstíminu út af Oddeyrartanga sáum við tvo kayaka. Það skrítna var að aðeins einn haus sást. Er við komum nær, sáum við að maður var á floti við hlið kayaksins. Hann komst ekki um borð. Áhöfnin á Húna II sigldi að ræðurunum og setti út stiga á stjórnborðssíðuna og syndi ræðarinn að honum og komst án vandræða um borð. Við höfðum bjargað manni úr greipum Ægis. Eflaust hefði hann getað komist að landi og klifrað upp sjóvarnargarð en um hundrað metrar voru að landi. En hann var alla vegana í öruggum höndum hjá frábærum skipverjum á Húna II.
Búið að bjarga öðrum ræðaranum í Húna II. Hann komst ekki aftur um borð eftir að hafa hvolft kayaknum vegna öldugangs. Var hann orðinn nokkuð kaldur en varð ekki meint af.
Síðar um kvöldið var farið út Vaðlaheiði og horft á flugeldasýningu er hátíðinni Ein með öllu var slitið og hlustað á Árna Johnsen og þrettán þúsund þjóðhátíðargesti í Vestmannaeyjum syngja brekkusöng í útvarpinu. Þetta var eftirminnilegt kvöld.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2008 | 11:16
Nelson níræður
Fyrir nokkrum árum fór ég á árlegan bókamarkað í Perlunni. Þar voru þúsundir bókatitla til sölu. Ég vafraði um svæðið og fann grænleita bók sem bar af öllum. Hún kostaði aðeins fimmhundruð krónur. Þetta var eina bókin sem ég keypti það árið. Hún hét Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela.
Fjölvi gaf út bókina árið 1996 og er ágætlega þýdd af Jóni Þ. Þór og Elínu Guðmundsóttur. Bókin hafði góð áhrif á mig. Hún sýndi stórbrotinn mann í nýju ljósi.
Thembumaðurinn Rolihlahla sem fæddist fyrir 90 árum er síðar nefndur Nelson á fyrsta skóladegi var bráðvel gefinn drengur. Nafnið Rolihlahla merkir á máli Xhosa "sá sem dregur trjástofn", en í daglegu máli er það notað yfir þá, sem valda vandræðum. Nelson Mandela átti eftir að valda hvíta meirihlutanum í S-Afríku miklum vandræðum í baráttunni við aðskilnaðarstefnuna, Apartheid.
Þegar Nelson var 38 ára var bannfæringu létt af léttvigtarmanninum. Hann fór í frí til átthaganna. Þar er áhrifamikil frásögn.
"Þegar kom framhjá Humansdorp varð skógurinn þéttari og í fyrsta skipti á ævinni sá ég fíla og bavíana. Stór bavíani fór yfir veginn fyrir framan mig og ég stöðvaði bílinn. Hann stóð og starði á mig, eins og hann væri leynilögreglumaður úr sérdeildinni. Það var grátbroslegt að ég, Afríkumaðurinn, var að sjá þá Afríku, sem lýst er í sögum, í fyrsta sinn. Þetta fallega land, hugsaði ég, allt utan seilingar, í eigu hinna hvítu og forboðið svörtum. Það var jafn óhugsandi að ég gæti búið í þessu fallega héraði og að ég gæti boðið mig fram til þings."
Mæli með að fólk lesi sem mest um Nelson Mandela í dag og næstu daga. Það er mannbætandi.
Þetta voru mjög vel heppnuð bókarkaup. Til hamingju með daginn, Rolihlahla Mandela.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.7.): 112
- Sl. sólarhring: 153
- Sl. viku: 283
- Frá upphafi: 236697
Annað
- Innlit í dag: 104
- Innlit sl. viku: 223
- Gestir í dag: 102
- IP-tölur í dag: 102
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar