Færsluflokkur: Dægurmál

Lóan er komin

Frábærar fréttir frá Hornafirði, lóan er komin. Það heyrðist í henni í morgunn á vorjafndægri. Hornafjörður er útvörður vorsins.

Eldur í skrifstofuhúsinu

Vinnudagurinn tók óvænta stefnu um kl. 16.00 í dag. Reyk lagði ofan af þaki Síðumúla 34, hvar ég vinn. Stiki ehf. er staðsettur á annari hæði. Við vissum af framkvæmdum á þaki hússins. Farmur af tjörupappa hafði farið upp fyrir helgi og gámafylli af tjöru fyrir neðan gluggann. Lítil rifa var á glugga í vinnurúmi okkar. Við lokuðum honum. Reykurinn jókst og fólkið úti á götu hegðaði sér skringilega. Það benti upp á þak og tók myndir á farsíma sína. Það var kviknað í efstu hæðinni, þeirri fimmtu.

Við brugðumst hárrétt við, allir yfirgáfu húsið. Það mátti greina brunalykt. Þetta var óraunverulegt. Slökkvuliðið var mætt á staðinn. Eldurinn magnaðist og svo kvað við sprening. Það var óhuggulegt. Gaskútar höfðu sprungið. Svæðið var rýmt niður að Grensásveg í kjölfarið. Slökkviliðið náði fljótt tökum á eldinum.

Tveir fulltrúar frá Stika fengu að fara inn og kanna húsnæði. Aðkoman var nokkuð góð miðað við aðstæður. Netþjónar voru teknir niður ef rafmagn yrði tekið af. Allt unnið samkvæmt áætlun um rekstrarsamfellu.

Það sem stendur uppúr er að fólk vill upplýsingar. Við notum nú farsíma og msn til að skiptast á upplýsingum. Til stóð að flytja um næstu helgi, kanski hefjast þeir á morgun.

En allt fór vel, enginn slasaðist og það er fyrir öllu.


Stóri bróðir facebook

Hér er nokkuð merkilegt myndband, sérstaklega parturinn þar sem talað er um hvað fólk samþykkir að samfélagsvefurinn facebook geri við upplýsingarnar sem það setur inn.  Og sér í lagi eftir frétt af því að stór meirihluti þjóðarinnar sé á facebook.

http://www.wimp.com/badinfo/

En ef þú ert á fésbókinni, gefðu sem minnstar upplýsingar um þig.


Hóllinn og Paradísarhola

hafsbotninn.jpgÞetta minnir mig á fróðlegt fræðsluerindi sem ég fór á árið 2003. Það var var stórkostlegt að hlýða á Bryndísi Brandsdóttur hjá Raunvísindastofnun háskólans og Guðrúnu Helgadóttur frá Hafrannsóknastofnun, kynna niðurstöður úr rannsóknum á landgrunni Norðurlands, "Hafsbotninn á Tjörnesbeltinu".  Magnað að sjá fjöll sem minntu á Herðubreið og Keili en flestum óþekkt. Misgengi eins og á Þingvöllum, setlög og gasmyndanir, gígaraðir og landslag sem er sláandi líkt og á landi. Rákir eftir hafísinn frá Ísöld og rákir eftir botnvörpur togara. Á þessari mynd má sjá þekkt fiskimið Grímseyinga, Hólinn og Paradísarholu.

Hafið er okkur að mestu ókunnugt, fyrir utan skipstjórana sem vita hvar einstaka hólar og rennur eru en það eru þeirra fiskileyndarmál. Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða í hafbotnsrannsóknum þó að við byggjum allt okkar á fiskveiðum. 


mbl.is Hafsbotninn bætist við Google Earth
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yes We Can day

Hann er sögulegur dagurinn í dag.  Í Bandaríkjunum verður hans minnst sem Yes We Can day dagsins er Obama tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Á Íslandi verður  hans minnst sem kröftugs mótmæladags er Alþingi var sett.

Ég held að það verði breytingar á Íslandi. Já, við getum.

 


Furðuverur á flugeldasýningu

Það var fjölmenni við Perluna kl. 19 í kvöld er árleg flugeldasýning björgunarsveitanna í Reykjavík hófst. Sýningin var glæsileg en í styttri kantinum að okkar mati. Hún stóð yfir í sjö mínútur í mildu veðri. Furðuverur voru í Öskjuhlíðinni, jólasveinar, álfar og álkarlar. Það tók okkur svo 25 mínútur að komast frá þeim.

Flugeldasýning

Stórbrotin þjónusta hjá Canon og Beco

Fyrir fjórum árum keyptum við stafræna Canon A70 myndavél sem fjölskyldan nýtti til brúks. Fyrir nokkru hætti vélin að virka. Þegar kveikt var á henni kom svartur skjár og svartar myndir skrifuðust á diskinn. Vélin var komin úr ábyrgð og mikið myndefni framundan. Ég leitaði á Netinu og fann færslur um þetta vandamál í vélunum. Ég hafði samband við Nýherja en þeir hafa umboð fyrir Canon hér á landi. Þeir svöruðu fljótt og bentu mér á að hafa samband við Beco. En Beco sér um viðhald á Canon vélunum.  Ég gerði það og fékk strax jákvæðar viðtökur. Vandamálinu var lýst og bent á hvenær myndavélin var keypt. Viðgerðarmaður Beco bað mig að koma með gripinn. Ef þetta væri skjáflagan, þá fengi ég tjónið bætt, annars borgaði það sig varla að gera við gripinn. Nokkuð dæmigert svar.

Farrið var með myndavélina til Beco og símanúmer tekin niður. Okkur var farið að lengja eftir svari en á Þorláksmessu hringdi síminn. Það var komin lausn. Hún var sú að þetta væri galli í skjáflögu sem þriðji aðili framleiddi. Við gætum fengið nýja myndavél, Canon A470 í staðin. Mér fannst þetta stórbrotin þjónusta hjá Canon og Beco. Maður er ekki svikin á því að eiga þessi merki að. Þetta kallast á gæðamáli að standa við að uppfylla væntingar viðskiptavina.

Hugurinn hvarflaði aftur í tímann. Ég tók langan tíma í ákvörðun um myndavélakaup  þegar ég var 15 ára. Canon AE-1 varð fyrir valinu. Það varð að vanda valið. Öll sumarhýran sem safnaðist  úr byggingarvinnu hjá Guðmundi Jónssyni, það sumar fór í myndavélina. Hún hefur fylgt mér síðan. Ég sé ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun með Canon. Allavegana ekki í dag. Ég hvet fólk til að verzla Canon vörur. Þær eru góðar, Canon er leiðandi á sínu sviði og þjónustan mögnuð.

 


Landsgrannskoðanin

Eftir skelfilegar ófarir okkar í bankamálum, þá þurfum við erlenda aðstoð við að rannsaka málið og gera upp sakir. Ég mæli með þessari stofnun, ríkisendurskoðun í Fræreyum.  Landsgrannskoðanin heitir hún og er ekki hægt að finna traustara nafn. Það verður allt grandskoðað. 

Hún er skemmtilg færeyskan!


Leikjadagurinn mikli

Leikjadagurinn mikli hófst í Íþróttahúsi Snælandsskóla er 8. flokkur HK hélt fyrstu laugardagsæfingu vetrarins. Níu guttar mættu til leiks og höfðu mismikinn skilning á knattíþróttinni. Fyrst var hitað upp með bolta, síðan var hefðbundinn stórfiskaleikur. Eftir hann var skipt í tvö lið og var mikið skorað enda lítið um varnir. Ari stóð sig vel, raðaði inn mörkum, þau urðu vel yfir tíu og rétt dugði það til sigurs.  Er heim var komið fór Ari í bað enda var vel tekið á því. Síðan var haldið í fjölskylduveislu í Digranesi en í boði voru tveir handboltaleikir hjá HK við Fram og ýmislegt fyrir áhorfendur í boði. Flott umgjörð í byrjun handboltatímabilsins.

hk-kustur.jpg

Særún og handboltastúlkurnar í HK voru fánaberar er liðin komu inn á völlinn og sáu um kústinn. Stelpurnar í HK hófu leikinn af krafti á móti Fram og komust í góða forystu. Ekkert gekk hjá HK í seinni hluta hálfleiksins. Var staða Fram væn, 8-13 í hálfleik.  Mikið var um sendingarfeila og mistök. Í stöðunni 6-7 fyrir Fram gekk hvorki né rak hjá báðum liðum. Þó víti, dauðafæri og hraða leik gekk ekkert að skora.   Í síðari hálfleik hélst munurinn til að byrja með en svo kom góður leikkafli hjá HK stúlkum. Kom hann er strákarnir í HK birtust í dyragætinni. Hafa þeir eflaust æst stúlkurnar upp en einnig voru gerðar taktískar breytingar í sókn og vörn. Lokin voru stórspennandi og höfðu HK stúlkur frækilegan og óvæntan sigur, 21-19.

Klukkan fjögur hófst leikur sömu liða í karlaflokki.  Það var gaman að fylgjast með upphituninni og var mikil samstaða í liði HK.  Það dugði ekki til, því Fram vann sigur 23-27 á yfirspenntum HK-mönnum eftir að hafa náð góðri forystu í byrjun leiks.

Síðan var haldið á Players og horft á síðari hálfleik hjá Bolton og Arsenal. Við fegðar borðuðum kvöldmatinn þar, pizza varð fyrir valinu. Lítið markvert gerðist fyrr en Walcott kom inná. Átti hann góðan sprett sem tryggði 1-3 sigur og toppsætið í amk. sólarhring.

Þrír sigrar og einn ósigur, ágætur leikjadagur.

 


Klukkaður.....

Suðursveitungurinn og bloggarinn Sigfús Már klukkaði mig í vikunni. Ég er ekki mikið fyrir að eyða bandvíddinni og diskplássi í keðjuleiki en tek þessari klukkun til að líta til baka.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
Lestartröll og pokamaður á Þórhalli Dan. Saltfiskur hjá Benta. Tölvufræðingur hjá KASK, Eldsmiðnum, Skímu, Símanum og Stika. Ferðaþjónusta hjá Jöklaferðum.

Fjórar bíómyndir sem ég held uppá:
Börn náttúrunnar e. Friðrik Þór.
Doctor Zhivago  e. David Lean.
Saving Private Ryan e. Steven Spielberg
Battleship Potemkin e.  Sergei M. Eisenstein
 
Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Höfn í Hornafirði, Laugarvatn, Reykjavík, Kópavogur

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
ÚtSvar, Gettu Betur, Enski boltinn, Silfur Egils.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Víti í Öskju, Hvannadalshnjúkur, Emirates Stadium í London og Hornafjörður
Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:
mbl.is, visir.is, arsenal.com og horn.is (þangað til vefurinn fór í langt sumarfrí).
Fernt sem ég held uppá matarkyns:
Þorramatur, humar, fjallalamb og fiskur

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft.
Tinni í Tíbet og hinar Tinnabækurnar
Sálmurinn um blómið,  e. Þórberg Þórðarson
Við rætur Vatnajökuls, árbók FÍ 1993
Leiðin til frelsis, sjálfsævisaga Nelson Mandela

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
steinisv, Þorsteinn Sverrisson, 
godaholl, Einar Jóhannes Einarsson
jonhalldor, Jón Halldór Guðmundsson
bergen, Þórbergur Torfason

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband