Færsluflokkur: Dægurmál

Pappírstígurinn Nóna ehf.

Hún er athyglisverð forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgunn. Er þetta einhver Hesteyrarkapall?

Springi einkahlutafélagið Nóna, smábátaútgerð í eigu Skinneyjar-Þinganess, fær almenningur á Íslandi enn einn reikninginn. Það gera 16.000 á hvert mannsbarn.

Nóna skuldaði 5,3 milljarða króna í árslok 2008. Tap Nónu ehf. á árinu 2008 nam 2,5 milljörðum og bókað eigið fé í árslok var neikvætt um annað eins.

Hann er dýr Íslandsmeistaratitilinn hjá smábátnum Ragnari SF-550. Dýrt er hvert tonn.

Þetta er afleiðing af kvótakerfinu. Kerfi sem byggir á óréttlæti, ranglæti, mannréttindabrotum, brottkasti afla, efnahagslegri misskiptingu, upplausn, hrörnun og flótta, óöryggi, "hagræðingu", einkaeign útvalinna og algjöru siðleysi.
Afleiðingin af þessu, auknar skuldir útgerða og minni fiskstofnar. Hér þarf að breyta miklu, enda vitlaust gefið.


Af blaðberum Morgunblaðsins

Hinir árvökulu, áreiðanlegu og duglegu blaðberar Morgunblaðsins eru ein mælistærð. Það hefur ekkert verið rætt við þá.

Undirritaður þekkir vel til í blaðburðaheiminum og  þar ber þessum tölum saman. Einn aðili sem ég ræddi við tjáði mér að strax eftir ráðningu Davíðs sem ritstjóra hafi 10% sagt upp og neitað að fá blaðið. Eftir hálfan mánuð voru 20% áskrifenda hættir og nú eru 35% áskrifanda Morgunblaðsins hættir í þjónustu hans. Svipaða sögu hafa tveir aðrir blaðberar Morgunblaðsins að segja.

Þess ber að geta að Morgunblaðið greip til ráðstafana vegna áfallsins við ráðningu Davíðs. Þeir gripu til ágætrar viðbragðsáætlunar sem er í anda stjórnunar á samfelldum rekstri.  Áskrifendum sem sagt höfðu upp áskriftinni var sent hjartnæmt bréf undirritað af Davíð og Haraldi og þeim boðið boðið blaðið frítt út októbermánuð.  

Það skýrir tröppuganginn í uppsögnum áskrifenda hjá blaðberunum Moggans.


mbl.is Segir frétt DV fjarri raunveruleikanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strætóblinda

Ég lenti í undarlegi strætóblindu í gær.  Þegar viðburðarríkum vinnudegi var lokið var mætt í biðskýlið við Laugaveg 182. Taka átti tvistinn upp í Hamraborg og var hans vænst kl. 17.04.  Eftir að hafa beðið þolinmóður í nokkrar mínútur umfram áætlaðan tíma birtust þrír vagnar. Fremstur meðal jafningja var vagn nítján, síðan kom fimmtán.  Þriðji vagninn kom strax í kjölfarið eða réttar sagt vagnfarið.  Ég og annar umhverfisvænn ferðamaður sem tekur ávallt sama vagn stukkum upp í þriðja vagninn án þess að hika og sýndum strætókortin okkar.

MiðiÞegar strætó er að nálgast Laugardalinn, þá fer hann að ferðast undarlega. Leita á vinstri akreinina. Þetta var ekki samkvæmt norminu. Loks beygði hann niður Reykjaveg. Þar kom skýringin á undarlegu aksturslagi nokkru fyrr. Hinn strætófarþeginn fór fram og ræddi við bílstjórann. Hann sagðist vera leið 14 og færi um Vogana en kæmi á Grensásveg, þar gætum við náð tvistinum. Var hann hinn hjálplegsti.

Við félagarnir ræddum þessa strætóblindu í nokkurn tíma á eftir. Ég var sannfærður um að það stóð 2 framan á vagninum og ferðafélaginn var einnig á þeirri skoðun. Þegar hress strætóbílstjórinn skilaði okkur á Grensásveg, þá gekk ég framfyrir vagninn til að tékka á númerinu, þar stóð 14.  Við báðir höfðum því verið slegnir strætóblindu sem er eflaust náskyld lesblindu.

Annars var þessi korters útidúr fínn. Við ferðuðumst eftir Langholtsvegi og sáum heimavöll mótmælanda Íslands, Helga Hóesasonar. Það var athyglisvert að sjá bóm og mótmælaskilti á bekk einum þar sem möguleg stytta gæti risið í framtíðinni.


Jón Sveinsson (1933-2009)

Í dag var til moldar borinn í Hafnarkirkju nágranni af Fiskhólnum, Jón Sveinsson.  Sjómaður af guðs náð sem sótti mikinn afla í greipar Ægis.  Jón var hress og skemmtilegur persónuleiki og hafði smitandi hlátur.  Hann var góður spilamaður og glímdum við oft saman í brids og Hornafjarðarmanna. Það voru eftirminnilegar baráttur. 

Hugur mans leitar til baka og hér eru nokkrar myndir sem ég fann í myndasafni mínu. 

Sveit Hótel Hafnar með sigurlaunin í Aðalsveitakeppni Bridsfélags Hornafjarðar:  Jón Sveinsson, Jón Skeggi Ragnarsson, Baldur Kristjánsson og Árni Stefánsson.

 Hreindýramót Bridsfélags Nesjamanna 1992.  Einar Jensson, Þorsteinn Sigurjónsson, Örn Ragnarsson, Kolbeinn Þorgeirsson, Jón Sveinsson og Árni Stefánsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jón Sveinsson, Þórir Flosason og Árni Stefánsson.


Einar Björn breytir sögubókunum

Einar Björn Einarsson staðarhaldari á Jökulsárlóni er að koma fram með staðreyndir sem breyta sögubókum landsins. Nú þarf að endurmennta alla landsmenn, fræða þá um nýjar staðreyndir. Öskjuvatn sem hefur verið leiðandi í dýpt stöðuvatna á Íslandi frá 1875 er komið í annað sætið. Ísland er því stöðugt að breytast.

Í síðustu viku heimsótti ég á Reykjanesi stöðuvatn með djúpt nafn, Djúpavatn. Gígvatnið er dýpst tæpir 17 metrar.  Dýpra er það nú ekki.

 Topp 9 listinn yfir dýpstu stöðuvötn fyrir mælingar Einars leit svona út:

1.Öskjuvatn220 m
2.Hvalvatn160m
3.Jökulsárlón, Breiðamerkursandi150m
4.Þingvallavatn114m
5.Þórisvatn114m
6.Lögurinn112m
7.Kleifarvatn97m
8.Hvítárvatn84m
9.Langisjór75m

Heimild:

Landmælingar Íslands


mbl.is Jökulsárlón tekið við sem dýpsta vatn Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ár frá Náttúrutónleikunum í Laugardal

Í dag er slétt ár síðan eftirminnilegir stórtónleikar með Sigur Rós og Björk voru haldnir í Laugardalnum. Voru þeir haldnir undir heitinu Náttúra. Vefsvæði þeirra er nattura.info. Yfir 30.000 manns mættu í dalinn og milljónir fylgdust með á  Netinu. 

Ég setti saman stutt myndband við lagið Glósóli með Sigur Rós. Á einu ári höfðu 12,437 manns horft á myndbandið á Youtube. Áhorfið var mest í  kjölfar útitónleikanna. Margar athugasemdir hafa verið skráðar og nokkrir póstar komið til mín. M.a. náði ég að mæla meistaraverkinu Heima með Sigur Rós við aðdáanda í Mexíkó. Hann keypti eintak og var ánægður með mynddiskinn þó dýr væri. Það hefur margt breyst á þessu eina ári. Þarna mátti sjá Birgittu Jónsdóttur með fána Tíbets. Nú er hún komin á þing í gegnum Búsáhaldabyltinguna. Heimildarmyndin Draumalandið sýnd við góða aðsókn í kvikmyndahúsum og vakið miklar umræður. Skelfilegt bankahrun sem kallar á nýjar lausnir og vonandi verður það ekki á kostnað náttúrunnar.


Vinur Vatnajökuls

Eftir að verið í Öskjuhlíð og gert tilraun til að horfa á sólina rísa á lengsta degi ársins á norðurhveli jarðar í alskýjuðu veðri var haldið niður í Öskju og tekið þátt í samkomu til þess að fagna stofnun Vina Vatnajökuls - hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.

Það var skemmtileg stund vina Vatnajökuls í aðalsal Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Rektor HÍ, Kristín Ingólfsdóttir setti stofnfundinn og kynnti markmiðin en hún er formaður stjórnar vina Vatnajökuls.   Eftir góða framsögu rektors steig auðlindamálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir í pontu og vafðist ekki fyrir vefaranum fyrrverandi að opna vefsíðu hollvinasamtakanna.

Þórður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs steig næst á stokk og greindi frá stofnun þjóðgarðsins og gestastofu sem verið er að reisa á Skriðuklaustri og er einstök að því leiti að hún fylgir vistvænni hönnun og verður vottuð skv. BREEAM staðli. Byggingarkostnaður verður hærri en skilar sér til baka á nokkrum árum.  Síðan skrifuðu Kristín og Þórður undir samkomulag milli Vatnajökulsþjóðgarðar og vina Vatnajökuls.

Að lokum kom skurðlæknirinn, fjallagarpurinn og einn liðsmaður FÍFL, Tómas Guðbjartsson upp og sagði skemmtilegar fjallasögur og sýndi glæsilegar myndir af víðáttum Vatnajökuls. Einnig benti hann á margar hliðar jökulsins og líkti skemmtilega við tening. Mig dauðlangaði á fjöll  eftir þá frásögn.

Boðið var upp á léttar veitingar í stofnlok. Þar var boðið upp á glæsilegt súkkulaði, er svipaði til Hvannadalshnjúks og frauðkökur sem minntu á jökulinn. Þetta er rakin nýsköpun. Nú er bara að fara að framleiða og selja, skapa störf.

Hrutfjallstind13

Mynd af climbing.is er lýsir ferð á Hrútfellstinda.


Fyrsti slátturinn

Vorið er á áætluni í Álfaheiðinni í ár.

Fyrsti slátturinn í Álfaheiði var árdegis, tæpri viku á eftir fyrsta slætti á síðasta ári. Ég reikna með að slá átta sinnum í sumar. Rifsberjarunninn er orðin vel blómgaður en limgeriðin eiga eftir að þétta sig betur. Aspirnar eru fallnar og aðeins sér í rætur þeirra. Þær verða fjarlægðar á næsta ári. En ræturnar voru orðnar full fyrirferðamiklar á lóðinni.

Flesjan er frekar missprottin og ágætis vöxtur á vestari grasbalanum inni í húsasundinu og gaf hann af sér nokkra hestburði og kalblettir eru fáir. Sprettan var mikil á austurtúnunum. Aspirnar fallnar og grasið nýtur sín. Margir túnfíflar sáust. Voru þeir skornir. Hafa þeir ekki sést síðan.

Ég læt hér fylgja með hvenær fyrsti sláttur hefur verið á öldinni í Álfaheiði 1. Þessar tölur segja að vorið í ár var ekki eins hagstætt gróðri.
2008    15. maí
2007    26. maí
2006    20. maí
2005    15. maí
2004    16. maí
2003    20. maí
2002    26. maí
2001    31. maí

Miðað við þessar dagsetningar, þá hefur vorið verið kaldara en síðasta ár.  Einnig blautara því meira er um fífla.


Gömlu gildin í morgunverði

Á vinnustað mínum hefur sú hefð myndast hefð að einn starfsmaður heldur morgunmat fyrir aðra starfsmenn á föstudagsmorgnum. Það er búin að vera skemmtileg þróun í morgunverðnum. Sumir eru duglegir að baka tertur og leggja mikið á sig. Uppistaðan er samt rúnstykki. Í morgun var röðin komin að mér. 

Ég ákvað að snúa klukkunni til baka, horfa 18 ár aftur í tímann. Rifja upp gömlu gildin áður en nýfrjálshyggjan náði tökum á okkur.  Ég mætti með hafragraut, lýsi og síld. Með þessu hafði ég rúnstykki og ost. Einnig var boðið upp á rækju- og túnfisksalat.  Allt er er þetta meinholt nema salötin.  Vinnufélögum fannst ég frumlegur að koma með þennan gildishlaðna morgunmat.

Hluti af vinnufélögunum tekur inn lýsi en hafragrauturinn er ekki í miklu uppáhaldi hjá þeim. Ég er eini síldarspekúlantinn.


44

Fjörutíuogfjórir, 44, eru náttúruleg tala og tekur við af tölunni 43 og er undanfari tölunnar 45. Fyrir mig táknar talan að ég er orðinn 44 ára gamall í dag. Þetta er falleg tala, slétt og auðveld að muna. Hún segir að ég er búinn að ferðast 44 skemmtilega hringi í kringum sólina. Upplifa 528 mánaðarmót.

Í rómverskum tölum er aldurinn táknaður: XLIV, í tvíundartölum: 101100 og Hex:  2C 16

Fjörutíuogfjórir er tribonacci tala, hamingju tala og áttflata tala. Frumefnið Ruthenium, Ru, hefur sætistöluna flottu en rúþen notað í málmblendi er harður og stökkur málmur. Frumþáttun:  2^2 \cdot 11

Talan 44 er einnig:
- Skráningarnúmer á veiði- og hvalaskoðunarskipinu Sigurði Ólafssyni, SF-44 frá Hornafirði.
- Landskóði í símanúmerum til UK
- Slóði, US Route 44, hraðbraut milli New York og Massachusetts
- Pókerafbrigði
- Barack Obama er 44. forseti Bandaríkjanna

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 233598

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband