Færsluflokkur: Dægurmál

Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar

Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið.  Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.

Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var.  Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa  ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.

Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum.  Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.

Arcade Fire

Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!  

Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki  ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað. 

Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.

Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.

Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.

Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.

Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.

Win Butler

Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni.  Það var töluverður fjöldi krakka að versla  sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.


mbl.is Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hornafjarðarmanni - Íslandsmót

Íslandsmót í Hornafjarðarmanna verður haldið síðasta vetrardag í Breiðfirðingabúð. Keppt hefur verið um titilinn frá árinu 1998 og hefur Albert Eymundsson verið guðfaðir keppninnar. Nú tekur Skaftfellingafélagið í Reykjavík við keflinu.

HumarManniÞað er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður eystra og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið.

Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni.

Til eru nokkur afbrigði af Manna, hefðbundinn manni, Trjámanni, Laugarvatnsmanni og Hornafjarðarmanni og sker sá síðastnefndi sig úr þegar dregið er um hvað spilað verður. En mögulegir samningar eru sex talsins:  nóló, grand, hjarta, spaði, tígull og lauf.

Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Það er hentugt keppnisform fyrir mismunandi fjölda spilara. Fyrst er forkeppni og eftir hana er útsláttarkeppni.  Eftir stendur einn sigurvegari, sá sem fær flest prik. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni.

Albert Eymundsson endurvakti Hornarfjarðarmanna til vegs og virðingar þegar Hornafjörður hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins 1997 og hefur síðan verið keppt um Hornafjarðarmeistara-, Íslandsmeistara- og Heimsmeistaratitil árlega.  

Síðasta vetrardag, 18. apríl, verður haldið Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna og eru allir velkomnir. Spilað verður í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 og hefst keppnin kl. 20.00. Góðir vinningar. Aðgangseyrir kr. 1.000, innifalið kaffi og kruðerí, þar á meðal flatkökur með reyktum Hornafjarðarsilungi.

Sigurvegarinn fær sértakan farandverðlaunagrip sem Kristbjörg Guðmundsdóttir hannaði og hýsir í ár.


Refurinn ***

Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er fjórða saga höfundar.  Sögusvið bókarinnar er í Höfn í Hornafirði og Lóninu.  Þetta er því áhugaverð bók fyrir Hornfirðinga og nærsveitarmenn.

Höfundur hefur kynnt sér umhverfið ágætlega. Ýmsum raunverulegum hlutum er fléttað inn í söguna. Flugvöllurinn, Kaffihornið, herstöðin á Stokksnesi og landsmálablaðið Eystrahorn koma við sögu. Einnig  Hafnarbraut,  Náttúrustígurinn og í lokin einbreiða brúin yfir Hornafjarðarfljót.

Einangrun en meginþemað.  Einangrun bæjarins Bröttuskriður austast í Lóni nálægt Hvalnesskriðum. Einangrun söguhetjunnar vegna ólíks menningarlæsis og einangrun löggunnar Guðgeirs.

Hafnarbúar koma vel út, eru hjálpsamir, sérstaklega flugafgreiðslumaðurinn enda líta innfæddir Hornfirðingar á ferðaþjónustuna sem þjónustu en ekki iðnað.

En söguhetjurnar eru ekki fullkomnar frekar en annað fólk. Söguhetjan Sajee er frá Sri Lanka og skilur íslenskt talmál bærilega en er með lélegan lesskilning.  Hún kemur fljúgandi til Hornfjarðar og átti að hefja vinnu við snyrtistofu Hornafjarðar en það var blekking. Hjálpsamur hóteleigandi finnur ræstingarvinnu fyrir hana á Bröttuskriðum undir hrikalegu Eystrahorni í nábýli við álfa og huldufólk. Þar búa mæðgin sem eru einöngruð og sérkennileg. Sajee leiðist vistin og vill fara en er haldið fanginni. Engin saknar hennar því hún á ekki sterkt bakland á Íslandi.

Fyrrverandi lögregluþjónn sem vinnur hjá Öryggisþjónustu Hornafjarðar fær þó áhuga á afdrifum erlendu konunnar og hefur eigin rannsókn. Þá hefst óvænt flétta sem kom á óvart en bókarhöfundur hafði laumað nokkrum upplýsingum fyrr í sögunni.  Það er því gaman að sjá hvernig kapallinn gengur upp.

Ágætis krimmi með #metoo boðskap, saga sem batnar þegar á bókina líður.

Refurinn 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tenglar:

Salka bókaútgáfa: https://cdn.shopify.com/s/files/1/1090/3582/products/Refurinn_web_1024x1024.jpg?v=1509525051

Kiljan: 

http://www.ruv.is/sarpurinn/klippa/solveig-palsdottir-segir-fra-bok-sinni-refurinn

Skáld.is: 

https://www.skald.is/single-post/2017/10/27/Hva%C3%B0-getur-gerst-%C3%BEegar-%C3%B6rv%C3%A6nting-og-%C3%B3tti-tekur-v%C3%B6ldin---Vi%C3%B0tal-vi%C3%B0-S%C3%B3lveigu-P%C3%A1lsd%C3%B3ttur


Frá monopoly til duopoly

Sjálfstæðismenn eru hugmyndasnauðir eins og áður fyrr og enn dúkkar áfengisfrumvarp upp en skoðanakannanir Maskínu og Fréttablaðsins sýna að Íslendingar vilja ekki áfengi í matvöruverslanir. Áfengisfrumvarpið, er eins og allir vita smjörklípa sem sjálfstæðismenn grípa til og leggja fram á Alþingi þegar vond mál skekja flokkinn.

Auk þess sýna rannsóknir vísindamanna að aukið aðgengi hefur neikvæð áhrif á samfélagið.

Hér er t.d. rannsókn frá Washington:

(2014) Alcohol Deregulation by Ballot Measure in Washington State

http://www.healthyalcoholmarket.com/pdf/Alcohol_Deregulation_by_Ballot_Measure_in_Washington_State.pdf

Afleiðingar þess að hafa lagt niður einkaleyfi ríkis á sölu áfengis í Washington-fylki árið 2011

Niðurstaða:

  • Ávinningur íbúa Washington fylkis var rýr. Áfengisverð hækkaði strax um 12%.
  • Of snemmt að meta samfélagsleg áhrif.
  • Þeir sem hafa hagnast á nýju reglugerðinni eru Costco og aðrar stórar verslunarkeðjur.
  • Minni búðir gátu ekki keppt við stóru verslunarkeðjurnar. Margar vínverslanir urðu gjaldþrota.
  • Reglugerðin leiddi til þess að markaðinum er stjórnað af stóru verslunarkeðjunum („monopoly to a duopoly“).
  • Reglugerðin samin þannig að gjöld voru lögð á heildsala en ekki smásala, þ.a. stóru verslunarkeðjurnar sluppu.
  • Minni áfengisframleiðendur eiga erfiðara uppdráttar.
  • Þjófnaður jókst.

...og svo var gerð könnun tveimur árum seinna um hvort kjósendur myndu kjósa öðruvísi eftir að vita afleiðingarnar (Aflögn einkaleyfis fór sem sagt í „þjóðar“atkvæðagreiðslu).

(2016) Opinions on the Privatization of Distilled-Spirits Sales in Washington State: Did Voters Change Their Minds?

http://www.jsad.com/doi/abs/10.15288/jsad.2016.77.568

Myndu kjósendur kjósa öðruvísi í „I-1183“ ef þeir hefðu séð inn í framtíðina?

Niðurstaða:

  • Þeir sem kusu „já“ eru átta sinnum líklegri til að kjósa öðruvísi núna heldur en þeir sem kusu „nei“.
  • Það er ekki fylgni á milli þessara breytinga og skoðanir kjósenda á sköttunum.
  • Mikilvægt fyrir lönd/ríki sem íhuga einkavæðingu að skoða þessa niðurstöðu.

Þórnýjartindur (648 m)

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt gamalli þjóðtrú boðar það gott sumar eftir kaldan vetur ef frýs nóttina milli veturs og sumars.

Ég trúi því. Eftir kaldan og stormasaman vetur, þá setti ég út fötu við síðasta vetrardag en ekki fraus í henni yfir nóttina. Þá var aðeins eitt ráð til að bjarga sumrinu sunnanlands, en það var að fara að ráðum húsfreyjunnar Þórnýjar frá Eilífsdal.

Ég ákvað því að bjarga sumrinu, sýna samfélagslega ábyrgð og fylgja þjóðsögunni um Þórnýju. Ganga á Þórnýjartind (648 m) í björtu en köldu veðri.

Hún hafði sett út skel með vatni að kvöldi síðasta vetrardags. Til að hjálpa forlögunum ögn gekk húsfreyjan með skelina til fjalls svo frekar frysi. En undir morgun stóð hún á Þórnýjartindi og ekki fraus enn, svo þá var ekki um margt að gera!

Fleygði Þórný sér fram af fjallinu í fullkominni örvæntingu um gott tíðarfar.

Ekki var ég eins „desperate“ og Þórný en þegar ég keyrði inn Eilífsdal sá ég að það hafði frosið þunnt skæni á polli í holóttum malarveginum.   Sumrinu var bjargað, allavega bakvið Esjuna.

Þórnýjartindur er ekki mjög árennilegur við fyrstu sýn sökum þess hve brattur hann er, en þegar á hólminn er komið er ekki allt sem sýnist og leiðin nokkuð greið þó brött sé.

Nokkur snjór var ofarlega fyrir ofan svokallaða Múlarönd og snjóalög ótrygg, því ákvað göngumaður að snúa við í tæka tíð og komast örugglega heim enda búið að vera nóg að gera hjá björgunarsveitum í vetur. Sumrinu hafði líka verið bjargað.                  

Ég tók því stefnuna inn stuttan Eilífsdal og horfði inn i eilífðina.

Gleðilegt sumar

Þórnýjartindur og skæni

Þunnt skæni á pollinum, hrikalegur, snjóþungur Þórnýjartindur handan

Dagsetning: 23. apríl 2015
GPS hnit - Google: (N:64.294086 - W:21.661850)
Veður kl.14 Reykjavík: Heiðskýrt, 4 m/s, 2,5 °C, NNV, raki 41%,skyggni >70 km

Heimildir:
Toppatrítl
Morgunblaðið
Staðsetning


75 frá hernámi Noregs

Nú eru liðin 75 ár síðan Þjóðverjar hernámu Noreg og Danmörku í heimsstyrjöldinni síðari.

Mér var hugsað til 10. apríl fyrir 75 árum er ég var í skoðunarferð á smáeyju sem hýsir virkið Oscarsborg í Oslóarfirði fyrir þrem árum. Eyjan er vel staðsett í miðjum firðinum gengt þorpi sem heitir Drøbak.

Mánuði fyrir hernám Íslands, þann 9. apríl  1940 var mikil orrusta á Drøbak-sundi, sú eina sem háð var við eyjuna meðan hún var útvörður.  Þjóðverjar höfðu áformað að hertaka Noreg með hernaðaráætluninni Operation Weserübung en hún byggðist á því að senda flota með fimm herskipum til landsins. Þegar Oslóarsveitin kom nálægt Oscarsborg, gaf hershöfðinginn Birger Eriksen skipun um að skjóta á þýsku skipin. Forystuskipið Blücher var skotið niður og tafðist hernámið um sólarhring. Kóngurinn, ríkisstjórnin og þingið með gjaldeyrisforðann gat nýtt þann tíma til að flýja höfuðborgina.

Árið 2003 yfirgáfu hermenn eyjuna og nú er hún almenningi til sýnis.  Mæli ég með skoðunarferð til eyjarinnar og tilvalið að sigla aðra leiðina frá Osló.

Safnið í virkinu var mjög vel hannað og stórfróðlegt að ganga um salina sem sýndu fallbyssur frá ýmsum tímum ýmis stríðstól. Fyrir utan virkið voru svo öflugar fallbyssur sem góndu út fjörðinn. Orrustunni við Nasista voru gerð góð skil.  En hún er mjög vel þekkt í Noregi.

Mikið var manni létt að þurfa ekki að upplifa það að vera kvaddur til herþjónustu og forréttindi að búa í herlausu landi.  Stríð eru svo heimskuleg.  Mér dettur strax í hug speki Lennons - "Make Love, not War".

En hernám Þjóðverja á Noregi setti af stað atburðarás sem gerði Íslendinga ríka.

Oscarsborg

Eyjurnar tvær með Oscarsborg virkið og fallbyssur á verði. Það sérmóta í rætur Håøya, hæstu eyjarinnar í Oslóarfirðinum.

 


Armstrong og Nautagil

Nú er Neil Armstrong geimfari allur. Blessuð sé minning hans.

Þegar fréttin um andlát hans barst þá reikaði hugurinn til Öskju en ég gekk Öskjuveginn árið 2006 og komu geimfarar NASA til sögunnar í þeirri ferð.

Gil eitt ber nafnið Nautagil en hvað voru naut að gera á þessum slóðum?


Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.

Nafngiftin er komin frá jarðfræðingunum og húmoristunum Sigurði Þórainssyni og Guðmundi Sigvaldasyni. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Margt bar fyrir augu í Nautagili, m.a. vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.

Hraunrós í Nautagili

Hér er mynd af Eyvindi Barðasyni við Bergrósina í Nautagili árið 2006

Appolo geimfarar í Nautagili

Hér eru geimfararnir að skoða sömu bergrós. Mynd af goiceland.is eftir Sverrir Pálsson og NASA.

Eitt par, náttúrufræðingarnir, í hópnum ákváðu að sofa úti um eina nóttina og tengjast náttúrunni betur. Þau fetuð í spor ekki ómerkari manna en geimfarana Anders og Armstrong er lögðust í svefnpoka sína úti undir berum himni þegar þeir voru í Öskju fyrir 45 árum. Neil Armstrong átti í kjölfarið eftir að stíga fyrstur manna á tunglið og segja setninguna frægu, “Þetta er lítið skref fyrir einn mann en risastökk fyrir mankynið.”

Eit


Flugöryggismál

Það var mikið áfall að heyra fréttina um flóttamennina sem komust yfir öryggishliðið og læstu sig inn á klósetti flugvélar. Þetta atvik er mjög alvarlegur öryggisbrestur og svar ISAVIA sem er ábyrgt fyrir öryggismálum er ekki mjög traustvekjandi.

Þegar ég var í upplýsingaöryggismálum las ég helling af efni um öryggismál og fékk reglulega póst frá Bruce Schneier en hann er virtur ráðgjafi og fyrirlesari í öryggismálum. Ég get tekið undir margt af því sem hann hefur lagt til málanna.

Hann hefur deilt á tröllaukið öryggi á flugvöllum og telur hann að ávinningurinn af öryggisráðstöfunum svari ekki kostnaði. Hann hefur einnig verið duglegur að benda á vandamál sem eru "bakdyrameginn" á flugvöllum. Rétt eins og atvikið á Keflavíkurflugvelli.

Vonum að þetta atvik verið til þess að tekið verði til "bakdyrameginn" og öryggið eflist á Keflavíkurflugvelli, nóg er af kröfum á flugfarþega í dag.


Gæðastjórinn Václav Klaus

Þeir hafa skemmtilega hefð á Bjórsafninu í Pilsen í Tékklandi. En í þeirri borg var ljósi lagerbjórinn fundinn upp árið 1842 og hélt sigurför um heiminn. Lykilinn af velgengninni var öflugt gæðastarf hjá Pilsner bjórverksmiðjunni.

Hefðin er sú að skipta um gæðastjóra þegar nýr forseti tekur við embætti og er Václav Klaus nú gæðastjóri í Bjórsafninu. Hausinn er ávallt uppfærður við forsetaskipti.

Ekki hef ég séð Ólaf Ragnar Grímsson í neinu íslensku safni en einstaka sinnum á mynd.

Václav Klaus

Hér er Václav Klaus mættur til vinnu.


mbl.is Forsetar hittast í Tékklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir negldur

Niðurstaða Landsdóms kom mér ekki á óvart í landsdómsmálinu nr. 3/2011: Alþingi gegn Geir Hilmari Haarde. Ég var búinn að komast að þessari niðurstöðu eftir að hafa fylgst með aðalmeðferðinni. Til að komast að þessari niðurstöð notaði ég þekkingu mína á gæða- og öryggismálum.

Forsætisráðherran var dæmdur fyrir að látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kemur fram að samræmt verklag var ekki fyrir hendi í mörgum málum. Boðleiðir hafa verið óljósar og ábyrgð ekki skýr.

Niðurstaða Landsdóms tekur undir undir það. Stjórnsýslan hefur verið í molum. Það er ekkert sprenghlægilegt við það.

Ég er vottaður úttektarmaður (Lead Auditor) í ISO 27001 öryggisstaðlinum og í úttektum leitað að sönnunargögnum um að verklagi sé fylgt. Í máli Geirs fundust engin sönnunargögn um að ráðherrafundir hafi verið haldnir. Það má líkja því við kröfu í kafla - 7 Rýni stjórnenda á öryggisstjórnkerfinu, við getum kallað það ráðherraábyrgð.

Úttektarmenn meta það svo hvort frábrigðið sé meiriháttar (major nonconformity) eða minniháttar. Fáir stofnun á sig meiriháttar frábrigði, þá endurnýjast vottunarskírteini ekki. Því má segja að Geir og forsætisráðuneyti hans hafi sloppið með minniháttar frábrigði.

Ein mikilvægasta eign hvers fyrirtækis og stofnunar er traust og gott orðspor. Þetta er eign sem ekki fæst af sjálfu sér og auðvelt er að spilla.

Það er einn lærdómurinn af Landsdómsmálinu að stjórnsýslan á Íslandi er ekki nógu gegnsæ. Ef takast á að lagfæra það sem aflaga hefur farið þarf að skrá verklag og skýra boðleiðir og ábyrgð stjórnenda. Í ljósi stöðunnar er það beinlínis nauðsynlegt fyrir stofnanir að sinna öryggis- og gæðamálum af festu og sýna fram á fylgni við alþjóðlegar öryggis- og gæðakröfur.

Því má segja að Geir hafi verð negldur fyrir ógagða stjórnsýslu fyrri ára. Geir er ekki gert að taka út refsingu fyrir athæfið og er það eflaust næg refsing að lenda fyrir Landsdóm.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 90
  • Frá upphafi: 235894

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband