Færsluflokkur: Dægurmál
1.9.2023 | 08:58
Topphóll séður með augum sjálfbærni
Steinarnir tala
Í síðasta mánuði var mikil fjölmiðlaumræða um álfakirkjuna í Topphól í Hornafirði. Ekki virðist vera hægt að bjarga stuðlabergshólnum því nýr vegur mun liggja yfir hólinn og verður hann sprengdur í loft upp.
Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðum Vegagerðarinnar enda hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga Hornfirðinga og ferðamenn. Trú á álfa, huldufólk og tröll hefur verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga.
Vegagerðin segir að ekki sé hægt að hnika veginum, ábendingin hafi komið of seint, því fylgi aukinn kostnaður og verkið tefjist. Ferlið við vegalagninguna hefur tekið fimmtán ár og einhver hefur sofnað á verðinum.
Völvan Ísvöld Ljósbera nær kjarnanum í umræðunni en hún mótmælti aðförinni: Álfatrú er hluti af okkar þjóðarhjarta. Hún er dýrmæt og komandi kynslóðir eiga skilið að fá að upplifa hana líka.
Hvað ætla hornfirskir leiðsögumenn að sýna ferðamönnum eftir hundrað ár þegar jökullinn verður nær horfinn, íshellarnir og Topphóll? Álfasögunar horfnar og tengslin við landið.
Þá verða sagðar sögur af sprengdum álfaborgum rétt eins og Úkraínskir leiðsögumenn munu segja um borgirnar Bakhmut og Mariupol. Pútin er víða.
Tröllið Þorlákur
Þegar umræðan um Topphól var í hámarki, var ég staddur í sumarbústaðalandi í Hraunborgum, Álfasteinssundi í Grímsnesi og þar er steinn, Þorlákur heitir hann eftir tröllkarli sem varð að steini þegar sólin kom upp. Vegagerðarmenn fundu sniðuga lausn, lögðu veg er beggja vegna Þorláks og virðist hann vera nokkuð sáttur og sagan lifir. Hornfirðingar höfðu gæfu að bjarga vatnstanknum á Fiskhól frá niðurrifi á síðustu öld og er hann orðinn tákn fyrir staðinn. Ekki er hægt að bjarga Topphól með þessari sniðugu lausn.
Hér var ekki sprengt með dínamíti í Álfasteinssundi, heldur fundin lausn. Allir sáttir, ferðamenn, álfar, tröll, leiðsögumenn, framkvæmdaraðilar og aðrir hagaðilar. Virðing er lykilorðið!
Sjálfbærni
Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Hugtakið byggir á þrem stoðum, náttúru og umhverfi og hinar stoðirnar eru efnahagslíf og samfélagslegir þættir s.s. jafnrétti, heilsa, velferð og menning. Þessar þrjár stoðir tengjast innbyrðis og spila saman.
Þegar Topphóll er skoðaður með augum sjálfbærni, þá erum við, freka kynslóðin búin að stroka Topphól út af hinu rómaða Skaftfellska landslagi og skemma allar álfasögurnar sem hefðu fylgt fyrir næstu kynslóðir. Peningarnir hafa trompað umhverfið og samfélagið, þeir ráða því miður oftast ferðinni.
En til að bæta okkur í sjálfbærni, þá skora ég á bekkjarbróður minn, hugvitsmanninn Einar Björn Einarsson sem rekur Jökulsárlón ehf með myndarbrag að taka stórt skref í orkuskiptum. Skipta út jarðefnaeldsneyti á bátaflotanum á Lóninu sem fyrst en Einar veit hvað er best, allt gangverk lifnar við í höndunum á honum. Vetni, metan, metanól, rafmagn, repjuolía, ammóníak, lífdísill eða etanól. Allt er þetta betra en mengandi olía sem er að steikja okkur.
Þegar stór aðili tekur stóra skrefið í sjálfbærni, þá sendir hann jákvæð skilaboð til allra í hinni mengandi ferðaþjónustu og verður góð fyrirmynd í umhverfismálum og fleiri fylgja á eftir.
Það að vera sjálfbær snýst því um að búa til félagsleg og efnahagsleg kerfi sem eru ekki skaðleg náttúrunni og tryggja þannig lífsgæði okkar og framtíðarkynslóða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2023 | 13:59
Plastrusl í hafinu
Ábyrgð á plastrusli
Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.
"Alls var 94,1% af ruslinu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Almennt rusl eins og til að mynda plastpokar, plastfilmur og áldósir var aðeins 5,9% af því sem fannst."
Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.
Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga.
Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2022 | 17:23
Lærum snjóruðning af Týrolbúum - Brenner-skarð
Það fyrsta sem þarf að gera er að breyta lögum og leyfa Vegagerðinni og/eða Björgunarsveitum að fjarlægja yfirgefna bíla sem stoppa hreinsunarstarf. Það næsta er að læra af Týrolbúum.
Brenner-skarð - Brenner Pass "Bridge of Europe"
Ég átti leið um Brenner-skarð í júli og þegar ég áttaði mig á mannvirkinu, hraðbrautinni sem er 49,1 km brú þá fannst mér stærstu brúarmannvirki á Íslandi agnarsmá í samanburði. Brenner-skarð er fjallvegur milli Ítalíu og Austurríkis í Ölpunum í gegnum Norður og Suður Týrol.
Á einum stað var farið yfir lítið fjallaþorp í dal einum og tæpir 200 metrar niður. Þá fannst mér Brennerbrúin mikilfengleg. Þar er brúarhandriðið svo hátt uppi að sundlar alla fugla er á setjast.
Framkvæmdir hófust árið 1959 og lauk 1963. Lest gengur einnig yfir skarðið og mannvirkið þekkt fyrir að vera hátt upp án jarðgangna.
Það snjóar í 1.370 metrum. Snjóruðningur er vel þróaður og koma fjórir snjóplógar og taka alla brautina. Þegar þeir koma í næsta svæði, þá taka næstu við og svo koll af kolli.
Getum við eitthvað lært af Týrolbúum við snjóruðning á Reykjanesbraut og Hellisheiði?
Brúin var ekki hönnuð fyrir þungaflutninga sem eru í dag. Ef það verður óhapp og umferð stoppar, þá er löng röð af trukkum sem bíða á brúnni. Það er helsta ógnin í dag,
að brúin hrynji. Því er verið að leggja leið fyrir flutninga- og farþegalestir. Jarðgöngin verða 64 km. Brenner Base Tunnel (BBT) sem opna 2032.
Það þriðja: Þegar upplýsingar um Brenner-skarð eru skoðaðar þá er það fyrsta sem kemur er sektir ef bílar eru ekki á vetrardekkjum eða keðjum. Það eru allt of léttvægar sektir ef fólk er á sumardekkjum í snjóstormi hér á landi.
Þrír snjóplógar sem hreinsa hraðbrautina. Þeir skipta hraðbrautinni niður í hólf. Þannig að þessir sjá um hluta af leiðinni.
Hvernig ætlum við að bregðast við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2022 | 17:44
Kláfar á Íslandi
Hugmyndir um ferju á Esjuna lagðar fram á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2022 | 13:14
Sældarhyggja við Gardavatn
Hið ljúfa líf, la dolce vita, við Gardavatn hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb fyrr í mánuðinum var endurnærandi í hitanum og gott til að upplifa sæluhyggjuna. Það er einhver galdur við orðið Garda og ferðafólk hrífst með.
Gardavatn og Meðalfellsvatn í Kjós eiga margt sameiginlegt. Þau eru bæði jökulsorfin og svo er fjölbreytt mannlíf á bökkum vatnanna.
Gardavatnið er stærsta vatn Ítalíu , um 370 km2 og í einungis 65 m hæð yfir sjávarmáli. Norðurhluti vatnsins teygir sig upp í Alpana. Vegna góðrar landfræðilegrar staðsetningar vatnsins og lítillar hæðar yfir sjávarmáli er loftslagið þar ákaflega hagstætt og minnir einna helst á miðjarðarhafsloftslag. Vatnið er notað sem áveita fyrir frjósamt ræktarland og er vatnsstaðan núna um metri lægri en í meðalári vegna þurrka.
Sirmione er tangi sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þar kemur heitt vatn úr jörðu og nutu Rómverjar lífsins í heitum pottum eins og Snorri Sturluson forðum. Söngdívan Maria Callas bjó þarna á sínum bestu árum.
Tveir dagar fóru í hjólaferð á rafhjólum sem var vel skipulögð af Eldhúsferðum. Hjólað var í gegnum vínekrurnar austan við Gardavatnið og eftir sveitastígum í gegnum lítil falleg sveitaþorp. Komið var við hjá vínframleiðendum og veitingamönnum með framleiðslu beint frá býli og töfruðu fram ítalskan sælkeramat. Sérstaklega gaman að hjóla um Bardolino vínræktarhéraðið með Corvina þrúguna á aðra hönd og Rondinella og Molinara þrúgurnar á hina. Kræklótt ólífutrén tóku sig líka vel út. Hjólaferðin endaði með sundsprett í heitu Gardavatni.
Við dvölum í smáþorpi sem heitir Garda en þar var varðstöð Rómverja fyrr á öldum. Lítið þorp með mikið af veitingastöðum á vatnsbakkanum þar sem við gátum notið þess að horfa á vatnið í kvöldsólinni og snæða ekta ítalskan mat og drekka gott rauðvín frá svæðinu.
Nokkrar Villiendur heimsóttu Mt. Baldo hæsta fjallið við Gardavatn. Tókum borgarlínu vatnsins en góðar samgöngur eru á vatninu með ferjum. Sigldum til bæjarins Malcesine en athygli vakti hve mikið af sumarhúsum var í kringum allt vatnið. Ferðuðumst með kláf upp í 1.730 metra hæð, einn Eyjafjallajökull á 17 mínútum. Það var ægifagurt landslag sem blasti við en mesta breytingin var að fara úr 32 gráðu hita í 22 gráður en í þeim hita leið mér vel.
Að lokum var sigling á sægrænu Gardavatni frá Sirmione. Það var gaman að sjá hvernig ferðamenn slökuðu á og upplifðu hið ljúfa líf sem Gardavatnið og bæirnir þar í kring færa manni, það er sem tíminn stöðvist um stund.
Mæli með ferð til Gardavatns en hitinn í byrjun júlí var full mikill fyrir minn smekk.
Kastalamynd frá stærstu eyju Gardavatns, Isola del Garda. Í eigu Conti Cavazza fjölskyldunnar frá Bologna Þar var fyrsta sítrónan ræktuð í Evrópu. Þar stofnaði Frans frá Assisí klaustur árið 1220.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2022 | 11:10
Ísmaðurinn Ötzi ferðalangur frá koparöld
Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum. Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.
Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.
Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.
Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár, skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!
Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn
Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!
Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.
Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.
Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.
Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.
Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.
Hvað gerði Ötzi?
Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður, að leita að málmi, eða kenningar um hann eru alltaf að breytast.
En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann. Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.
Dauði Ötsi
Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.
En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum. Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.
En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.
Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!
Heimildir
- Fleckinger, Angelika, Ötzi, the Iceman. The Full Facts at a Glance, 6. útgáfa, Bolzano 2020
- Hvað getið þið sagt mér um ísmanninn Ötzi? - Vísindavefurinn
- The Iceman Opinber vefsíða um Ísmanninn Ötzi
- Ötzi the Iceman: What we know 30 years after his discovery - National Geography
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.7.2022 | 10:59
Landeigendur léleg landkynning
"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson
Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.
Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.
Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.
Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.
Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.
Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir, lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.
Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2019 | 11:30
Tunglið og Nautagil
Í dag, 20. júlí, er slétt hálf öld liðin frá því Apollo 11 lenti á tunglinu og í kjölfarið urðu Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Í undirbúningi fyrir leiðangurinn komu kandídatar NASA til Íslands í æfingaskyni og dvöldust þá meðal annars í Dyngjufjöllum við Öskju.
Ég gekk Öskjuveginn sumarið 2006 og skoðaði sömu staði og geimfarar NASA. Rifjast þessi gönguferð því upp í tilefni dagsins.
Geimfarar NASA sem unnu að Apollo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í gönguferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Apollo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2018 | 12:37
Arcade Fire og Ísbúð Vesturbæjar
Það voru stórmagnaðir og orkumiklir tónleikar hjá kanadísku indí rokkbandinu Arcade Fire í Nýju Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið. Um 4.300 gestir mættu og upplifðu kraftinn á AB-svæði. Stórmerkilegt að ekki skyldi vera uppselt en þarna eru tónlistarmenn í þungavigt á ferð.
Mikil umræða hefur verið um sölu og svæðaskiptingu á tónleikunum en ég var einn af þeim rúmlega fjögur þúsund manns sem keypti miða í A-svæði. Því kom það mér á óvart þegar gengið var inn í salinn að enginn svæðaskipting var. Ég var ekki að svekkja mig á því að hafa ekki keypt B-miða. Hugsaði til ferðalaga í flugvélum eða strætó, þar ferðast menn á misjöfnum gjöldum en sitja svo saman í einni kös. Ég skil vel ákvörðunartöku tónleikahaldara um AB-svæði, sérstaklega ef þetta hafa verið 79 miðar.
Ég kynntist Arcade Fire góðærisárið 2007 en þá gaf sveitin út diskinn Neon Bible og var það eini diskurinn sem ég keypti það árið. Var hann víða talinn einn besti gripur ársins af álistgjöfum í tónlist. Ég get tekið undir það og hlustaði mikið á hann í iPod-inum mínum. Síðan hef ég lítið fylgst með sveitinni og missti af þrem síðustu plötum sveitarinnar, The Suburbs, Reflektor og Everyting Now.
Sviðsframkoman var stórbrotin og fagmannleg. Fyrst hittust meðlimir á réttum tíma fyrir framan sviðið, tóku hópknús eins og íþróttalið gera og fóru í gegnum áhorfendaskarann og gáfu fimmur. Margir símar sáust á lofti. Síðan hófst tónlistarveislan með titillaginu Everything Now. Lagið er undir ABBA-áhrifum í byrjun, það fór rólega af stað en svo bættust öll möguleg hljóðfæri sem leikið var á af gleði og innlifun og krafturinn varð hrikalegur. Tónninn var sleginn!
Söngvarinn stæðilegi og stofnandi sveitarinnar Win Butler fór fyrir liðinu og steig á stokk í rauðu skónum sínum og reif gítar hátt á loft. Ekki ósvipað og kyndilberi á Ólympíuleikum sem er að fara að tendra eldinn. Bróðir hans William Butler fór hamförum á sviðinu og var gaman að fylgjast með honum. Hann hoppaði á milli hljóðfæra, spilaði á hljómborð, barði á trommu og spilaði á gítar og stóð upp á hljómborðum. Hann ferðaðist kófsveittur um sviðið eins og api en kom ávallt inn á réttum stöðum. Magnað.
Alls voru níu liðsmenn Arcade Fire á sviðinu sem þakið var hljóðfærum. Mörg hljómborð og hljóðgervlar voru og tvö trommusett. Skiptust þeir reglulega á að spila á hljóðfæri af innlifun og minntu mig á Ljótu hálfvitana frá Húsavík.
Krafturinn og hljómurinn var mikill í byrjun og fjögur fyrstu lögin spiluð í einum rykk á háu tempói. Aðdáendur tóku vel við enda þekktir slagarar. Svo kom þakkarræðan um Ísland og hrósaði hann Björk mikið. Hún hafði mikil áhrif á bandið.
Sviðið og ljósin komu vel út í Höllinni og mynduðu stórbrotna umgjörð um tónleikana og gaman að bera saman þegar vinalega upphitunarhljómsveitin Kiriyama Family spilaði raftónlist fyrr um kvöldið. En þá voru ljós og myndræn framsetning ekki notuð. Tónleikagestir voru hrifnir og dönsuðu, sungu og klöppuðu taktfast í hitanum og svitanum.
Ég komst að því að vera illa lesin því síðari hluti tónleikanna var með nýjum lögum og þekkti ég þau ekki en fólkið í salnum tók vel undir. Ég hef síðustu daga verið að hlusta á lög af skífunni Everyting Now og líkar þau betur og betur. Margar laglínur hljóma nú fallega í hausnum á mér. Einna helst hefur enduruppgötvun mín á lögum Electric Blue og Sprawl II (Mountains Beyond Mountains) sem Régine Chassagne söng vaxið mjög en ég tengdi ekki við þau þegar hún flutti þau á sviðinu. Eina lagið sem ég saknaði var Intervention.
Þetta var skemmtilegt kvöld og gaf manni mikinn eldmóð fyrir veturinn.
Daginn eftir tónleikana átti ég leið í Ísbúð Vesturbæjar í Vesturbænum og var þá ekki stórsöngvarinn í Arcade Fire, Win Butler staddur þar og að kaupa sér bragðaref. Hann var klæddur í gallajakka merktum NOW-tónleikaferðinni. Það var töluverður fjöldi krakka að versla sér ís og létu þau hinn heimsfræga tónlistarmann algjörlega í friði. Kurteist fólk, Íslendingar. Líklegast er að þau hafi ekki vitað af því hver þetta var en landi hans Justin Bieber hefði ekki fengið að vera í friði. Svona er kynslóðabilið í tónlistinni.
Enginn gestur leið fyrir ákvörðunina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.4.2018 | 17:13
Hornafjarðarmanni - Íslandsmót
Íslandsmót í Hornafjarðarmanna verður haldið síðasta vetrardag í Breiðfirðingabúð. Keppt hefur verið um titilinn frá árinu 1998 og hefur Albert Eymundsson verið guðfaðir keppninnar. Nú tekur Skaftfellingafélagið í Reykjavík við keflinu.
Það er mikill félagsauður í Hornafjarðarmanna. Hann tengir saman kynslóðir en Hornafjarðarmanninn hefur lengi verið spilaður eystra og breiðst þaðan út um landið, meðal annars með sjómönnum og því hefur nafnið fest við spilið.
Talið er að séra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi (1892-1954) hafi verið höfundur þess afbrigðis af manna sem nefnt hefur verið Hornafjarðarmanni.
Til eru nokkur afbrigði af Manna, hefðbundinn manni, Trjámanni, Laugarvatnsmanni og Hornafjarðarmanni og sker sá síðastnefndi sig úr þegar dregið er um hvað spilað verður. En mögulegir samningar eru sex talsins: nóló, grand, hjarta, spaði, tígull og lauf.
Spilareglurnar eru einfaldar og lærist spilið mjög fljótt. Það er hentugt keppnisform fyrir mismunandi fjölda spilara. Fyrst er forkeppni og eftir hana er útsláttarkeppni. Eftir stendur einn sigurvegari, sá sem fær flest prik. Hornafjarðarmanni er samt sem áður meira leikur en keppni.
Albert Eymundsson endurvakti Hornarfjarðarmanna til vegs og virðingar þegar Hornafjörður hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins 1997 og hefur síðan verið keppt um Hornafjarðarmeistara-, Íslandsmeistara- og Heimsmeistaratitil árlega.
Síðasta vetrardag, 18. apríl, verður haldið Íslandsmeistaramót í Hornafjarðarmanna og eru allir velkomnir. Spilað verður í Breiðfirðingabúð, Faxafeni 14 og hefst keppnin kl. 20.00. Góðir vinningar. Aðgangseyrir kr. 1.000, innifalið kaffi og kruðerí, þar á meðal flatkökur með reyktum Hornafjarðarsilungi.
Sigurvegarinn fær sértakan farandverðlaunagrip sem Kristbjörg Guðmundsdóttir hannaði og hýsir í ár.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 233593
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar