Færsluflokkur: Dægurmál
11.9.2023 | 14:46
Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi
Fjórum langreiðum var landað í Hvalfirði í dag. Þá birtast tvær minningar í kollinum,prósi sem Kristín Helga Gunnarsdóttir skrifaði þegar hvalveiðar voru endurræstar og pistill sem ég skrifaði fyrir 20 árum um upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi.
Kristín Helga skrifaði: "Baráttan fyrir lífi langreyða meitlar svo sterkt framtíð sem mætir fortíð. Gamall og langreiður fauskur sem neitar að mæta framtíðinni og nýjum viðhorfum til samspils manns og náttúru og neitar að viðurkenna að við þurfum að taka okkur á, bæta okkur gagnvart náttúrunni, hafinu ... en heldur áfram að marka sína blóðugu slóð allt til enda."
Upphaf hvalaskoðunarferða á Íslandi
Til að átta okkur á upphafi hvalaskoðunarferða er gott að hafa í huga að árið 1985 voru hvalveiðar í atvinnuskyni bannaðar af Alþjóðahvalveiðiráðinu en vísindaveiðar á langreyð og sandreyð leyfðar á sumrunum 1986 til 1989. Hrefnuveiðar sem stundaðar höfðu verið með hléum frá 1914 lögðust af árið 1984. Hvalveiðibannið átti upphaflega að standa í fjögur ár en stendur enn. Andstæðingar hvalveiða, bentu á að hægt væri að hafa tekjur af því að skoða hvali í stað þess að veiða þá.
Upphaf hvalaskoðunarferða frá Hornafirði má rekja til Nýheima tuttugustu aldarinnar, kaffistofunnar í Hafnarbúðinni þar sem Tryggvi Árnason réð ríkjum um miðjan níunda ártuginn. Gefum Tryggva orðið: Trillukarlarnir og humarsjómennirnir voru stundum að segja frá hvölum sem þeir voru að rekast á fyrir utan Hornafjörð og við Ingólfshöfða. Ein sagan var sérlega áhugaverð. Mig minnir að það hafi verið Torfi Friðfinns eða Frissi, Friðrik Snorrason, sem var að veiða á trillu fyrir utan Jökulsárlónið eða Ingólfshöfða. Kemur þá stór hnúfubakur syndandi að bátnum og fer að leika sér við hann. Mikil hræðsla greip um sig hjá karlinum og setti hann í gang og sigldi á fullri ferð í burtu. Hvalurinn elti hann og varð úr nokkur eltingarleikur. Það endaði með því að karlinn sigldi í land. Í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um hvort ekki væri hægt að bjóða upp á hvalaskoðunarferðir fyrir ferðamenn til að auka starfsemi Jöklaferða.
Það er ekki auðvelt að vera frumherji og koma nýrri vöru á markað þótt við Íslendingar teljum okkur vera nýjungagjarna þjóð. Hvernig tóku menn þessum nýja markhóp? Tryggvi svarar því svona: Fór ég að nefna þetta við ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðila. Áhuginn var ekki mikill hjá þeim þar sem það passaði ekki inn í hringferðirnar. Einhvernvegin hafði þessi hugmynd samt komist í erlenda ferðabæklinga þar sem sagt var frá því að Jöklaferðir væru með hvalaskoðunarferðir frá Höfn.
Þegar vara er komin í ferðabæklinga sem dreifast út um allan heim má búast við fyrirspurnum. Alltaf eru til einstaklingar sem ferðast á eigin vegum og hafa áhuga á að prófa eitthvað nýtt. Á árinu 1990 komu nokkrir ferðamenn og vísuðu í ferðabæklingana. Því voru leigðar trillur tvisvar eða þrisvar og fóru þær með tvo til fjóra farþega. Árið eftir kom pöntun frá erlendri ferðaskrifstofu fyrir 20 manna spánskan hóp og fór Lúlli, Lúðvík Jónsson, á gömlu Æskunni í ferðina. Um haustið voru farnar tvær eða þrjár ferðir með hvataferðahópa og var þá boðið upp á sjóstangarveiði í ferðunum.Eftir þetta fór Tryggvi að spá í alvöru að hefja hvalaskoðunarferðir. Hann útbjó skýrslublöð og lét eigendur fiskibátanna hafa til útfyllingar en þar átti að skrá dagsetningar, hvar verið var að veiðum, hvort sæist til hvala, hvaða tegund, hve margir, veðurfar o.fl. Þessi skýrslugerð stóð yfir í um 18 mánuði og fékk hann til baka möppur frá átta bátum með gagnlegum upplýsingum. Þetta var gert í samráði við Hafrannsóknastofnunina.
En hvernig var staðið að markaðsstarfinu hjá Jöklaferðum eftir að gagnasöfnun lauk og útlit fyrir að grundvöllur væri fyrir nýjung í ferðaþjónustunni. Gefum Tryggva aftur orðið:
Á þessum tíma var ég í góðu sambandi við Clive Stacey hjá bresku ferðskrifsofunni Arctic Experience og hafði sagt honum frá þessum hugmyndum. Hófst hann þegar handa um að setja upp ferðir til Íslands með hvalaskoðun sem aðalmarkmið, ásamt því að fara á jökul.
Setti hann fyrst upp ferð í nafni Arctic Experience og var heldur dræm sala en síðan fór hann í samstarf við dýraverndunarsamtökin World Wildlife Found sem vinnur að brýnni verndun villidýra og lands eða hafsvæða um alla veröld. Sett var upp ferð sem sló í gegn. Vandinn hjá mér fólst í því að ekki var hægt að fá báta nema á haustin að lokinni humarvertíð og áður en síldarvertíðin hófst.
Skortur á bátaflota hjá Jöklaferðum var því orsök fyrir því að ekki var hægt að taka við hópum fyrr en síðari hluta sumars. Kosturinn við það var að hægt var að lengja ferðatímabilið en ókosturinn að besti tíminn var ekki nýttur. Markaðurinn var hins vegar fyrir hendi. Taflan hér fyrir neðan sýnir vöxtinn í hvalaskoðun á Íslandi.
Ár | Staðir | Fyrirtæki | Farþegar |
1990 | 1 | 1 | 6 |
1991 | 1 | 1 | 100 |
1992 | 0 | 0 | 0 |
1993 | 1 | 1 | 150 |
1994 | 3 | 4 | 200 |
1995 | 6 | 8 | 2.200 |
1996 | 8 | 9 | 9.700 |
1997 | 10 | 13 | 20.540 |
1998 | 8 | 12 | 30.330 |
1999 | 7 | 10 | 35.250 |
2000 | 9 | 12 | 44.000 |
2001 | 10 | 12 | 60.550 |
2002 | 10 | 12 |
Source: Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a; Gögn í fórum höfundar.
Sumir hvalveiðimenn hafa dregið þessar tölur í efa og eins tekjur sem myndast hafa en Ásbjörn Björgvinsson hefur fært rök fyrir því að tekjur árið 2000 hafi verð rúmur milljarður. Því ættu tekjur árið 2001 að vera einn og hálfur milljarður. Eftir að hafa skoðað gögn frá Ferðamálaráði úr nýrri ferðakönnun þá er ég sannfærður um að talan 60.000 er nærri lagi en 36% erlendra ferðamanna fóru í hvalaskoðun í júní, júlí og ágúst 2002. Rannsaka þarf tekjurnar betur. Ásbjörn hefur hvatt ferðamálayfirvöld til þess en einhver tregða er þar í gangi. Á vormánuðum 1995 var haldið námskeið í Keflavík á vegum W.D.C.S. sem eru umhverfissamtök í Bretlandi. Enskir sérfræðingar í hvalaskoðunarferðamennsku, Mark Carwardine, Alison Smith og Erich Hoyt, komu þar fram með hugmyndir sem ruddu brautina fyrir hvalaskoðunarferðir á Íslandi. Framhaldið hjá Jöklaferðum var svo á þá leið að þegar nýja Æskan kom um sumarið 1991 datt hún úr skaftinu og því var leitað til Braga Bjarnasonar. Síðan kom Sigurður Ólafsson SF-44 inn í spilið 1993 og var í þessum ferðum til 1996 að eigendurnir vildu ekki halda áfram. Árið eftir var tekinn á leigu bátur úr Reykjavík, en eftir það gáfust Jöklaferðir upp þar sem enginn fékkst í þetta á staðnum. Í töflunni árið 1998 lækkar fjöldi fyrirtækja úr 13 í 12 og er mismunurinn Jöklaferðir.
Hvalaskoðunarferðir eru stundaðar frá fleiri stöðum en Íslandi. Þær voru stundaðar í 87 löndum árið 1998, fjöldi farþega 9 milljónir frá 492 stöðum og var veltan áætluð um 80 milljarðar króna.
Að lokum er hér listi yfir fyrirtæki í hvalaskoðun 2002.
Norðursigling, Húsavík, www.nordursigling.is
Hvalaferðir, Húsavík, www.hvalaferdir.is
Ferðaþjónustan Áki, Breiðdalsvík
Víking bátaferðir, Vestmannaeyjum, www.boattours.is
Elding, Hafnarfirði, www.islandia.is/elding
Höfrunga- og hvalaskoðun, Reykjanesbæ, www.arctic.ic/itn/whale
Hvalastöðin, Reykjavík/Reykjanesbæ, www.whalewatching.is
Húni, Hafnarfirði, www.islandia.is/huni
Bátsferðir Arnarstapa/Snjófell, Snæfellsnesi, www.snjofell.is
Sæferðir, Stykkishólmi/Ólafsvík, www.saeferdir.is
Sjóferðir, Dalvík, www.isholf.is/sjoferdir/
Níels Jónsson, Hauganesi, www.niels.is
Hvalaminjasafnið, Húsavík, www.icewhale.is
Legg ég því til að Íslendingar fari í hvalaskoðunarferðir næsta sumar, hver veit nema það verði hægt frá Hornafirði? Kíki á Hvalamiðstöðina á Húsavík og skoði hnúfubakinn sem þeir borðuðu á þorrablótinu.
Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.
Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson
Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa
Heimildir:
Tryggvi Árnason, tölvupóstur 16. október 2002
Ifaw.org, www.ifaw.org/press/press/2000report.doc, Björgvinsson, 1999; Hoyt, 1994b; Hoyt, 1995a.
Ásbjörn Björgvinsson, Hvalaskoðun á Íslandi árið 2000 http://um.margmidlun.is/um/ ferdamalarad/vefsidur.nsf/index/19.14?open
Könnun Ferðamálaráðs júní-ágúst 2002, Tafla 2.18: Hvaða afþreying var nýtt? (%)http://www.now2003.is/Kannanir/toflsumar/Tafla%202.18%20-%20sumar2002.pdf
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2023 | 10:37
Hvalaskoðun, hvalreki í Hornafirði
Nú berast fréttir af því að þrjár langreyðar hafa verið veiddar og séu komnar í verstöðina í Hvalfirði. Rifjast þá upp fyrir mér hvalaskoðunarferð sem ég fór í fyrir 30 árum
Fyrir 30 árum fór hópur danskra fuglaáhugamanna í hvalaskoðunarferð frá Höfn með Jöklaferðum. Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF 44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Síðar á árinu fóru fjórir hópar frá Discover The World í hvalaskoðunarferðir og heildarfjöldi 1993 var 150 manns. Hornafjörður var höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi á þessum árum.
Á síðasta ári fóru 360.000 manns í hvalaskoðun á Íslandi en enginn frá Höfn.
Hér á eftir er grein sem skrifuð var á horn.is 2003.
Á hvalaslóð
Þegar ég vann hjá Jöklaferðum hf á árunum 1993-1996 var ekkert sem takmarkaði fyrirtækið nema stærð alheimsins. Jöklaferðir eru að öllum líkindum fyrsta sérhæfða afþreyingarfyrirtækið í ferðaþjónustu hér á landi en það var stofnað í maí 1985. Markmið félagsins var að standa fyrir ævintýraferðum á Vatnajökul og nágrenni. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var hinn umdeildi sölumaður af guðs náð, Tryggvi Árnason.
Eitt af afsprengjum Jöklaferða voru hvalaskoðunarferðir en þar vann fyrirtækið algert brautryðjendastarf. Ég fór óvænt í mína fyrstu hvalaskoðunarferð með Sigurði Ólafssyni SF-44 með danskan hóp í júlí sumarið 1993 og er sú ferð mér ógleymanleg. Hópurinn samanstóð af 24 fuglaáhugamönnum og höfðu þeir frétt af því að hægt væri að komast í hvalaskoðunarferð frá Hornafirði. Áhöfnin á Sigurði Ólafssyni var tilbúin að fara í ferðina þótt humarvertíð stæði yfir. Það hafði sést til hnúfubaka við Hrollaugseyjar og voru skipstjórar á öðrum bátum fúsir að veita upplýsingar. Stímið þangað var um fjórir tímar. Töluverð kvika var í straumhörðum Ósnum og þegar Óli Björn keyrði á 10 mílunum var mikill veltingur. Hver fuglaáhugamaðurinn á fætur öðrum varð grænn og þegar ég hafði talið 12, varð ég líka sjóveikinni að bráð og sá mikið eftir því að hafa gefið kost á mér í þessa ferð. Þó höfðu menn tekið inn sjóveikistöflur. Loks sáust Hrollaugseyjar og við komin á hvalaslóð, sjólag var orðið gott.
Á leiðinni sáum við hnísur, minnstu hvalategund hér við land. Skyndilega kom höfrungavaða, (hnýðingur og stökkull) og lék listir sínar fyrir okkur, 5-10 dýr í hóp. Þeir eru afar hraðsyndir og koma oft stökkvandi á fleygiferð í átt að skipinu til þess að leika sér í bárunni sem kinnungurinn ryður frá sér. Sjóveikin var horfin og ég sá ekki lengur eftir því að hafa farið í þessa ferð. Næsta atriði var stórfenglegt en þá vorum við komin í hóp hnúfubaka, fjöldi á annan tug og var magnað að fylgjast með þeim koma upp úr sjónum og undirbúa köfun. Þessi ferlíki, hvítskellótt af hrúðurkörlum, geta orðið 17 metrar á lengd og 40 tonn að þyngd og ná háum aldri, lífslíkur 95 ár. Þegar þeir fara í djúpköfun lyfta þeir nánast alltaf sporðinum úr sjónum og sést þá litamynstur neðan á sporðblöðkunni en engir tveir einstaklingar hafa sömu áferð. Við sigldum á milli þeirra í dágóða stund og var magnað að fylgjast með atferli hvalanna og fólksins sem var á dekki. Það má segja að þarna hafi verið mikill bægslagangur því eitt sérkenni tegundarinnar eru gríðarlöng bægsli sem geta orðið allt að sex metra löng. Á heimleiðinni bauð Bugga, Sigurbjörg Karlsdóttir humarkokkur, upp á humar, matreiddan á marga vegu. Sumir þátttakendur voru svo mikil náttúrubörn að þeir borðuðu aðeins grænmeti. Í september fór ég svo aftur í ferð með nærri 30 manna hóp frá bresku ferðaskrifstofunni Discover The World sem voru í helgarferð. Annar dagurinn fór í hvalaskoðun og hinn í jöklaferð. Í þessari ferð voru einnig kvikmyndatökumenn frá Saga Film (en þeir bjuggu til 15 mínútna kynningarmyndband), Mark Carwardine leiðsögumaður en hann er heimskunnur hvalasérfræðingur og rithöfundur, Gunnþóra Gunnarsdóttir frá Eystrahorni og Jón Sveinsson apótekari. Stefnt var á Hrollaugseyjar. Á leiðinni sáum við hrefnu sem fylgdi okkur áleiðis en líkur á að sjá þær eru mjög miklar eða um 90%. Tvær hnísur sáust skyndilega en stundum getur verið erfitt að koma auga á þessi smáhveli, bakugginn sést í smástund og hún getur horfið eins og hendi sé veifað. Kapteinn Óli Björn var í stöðugu sambandi við trillukarlana sem voru dýpra en þeir höfðu enga hvali séð. Stutt frá Tvískerjum sást svo stórhveli, hnúfubakur, og hann skemmti okkur mikið. Strákarnir hjá Saga Film fóru út í hraðbát sem var um borð og nálguðust hnúfubakinn og eltu hann. Þeir náðu mögnuðum skotum af honum. Veislunni var ekki lokið því þegar við vorum á heimstíminu komu höfrungar og léku sér við bátinn. Þarna voru færri dýr á ferð enda komið haust en samneytið við Öræfajökul bætti það upp. Þetta var því nokkuð merkileg ferð eins og lesa má á greinunum Hvalaskoðun í Eystrahorni eftir Gunnþóru og Sporðaköst undir jökli eftir Ara Trausta Guðmundsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 12. mars 1994. Síðar í mánuðinum fóru þrír hópar í hvalaskoðunar- og jöklaferð og alls komu 150 manns í hvalaskoðunarferðirnar þetta árið.
Það er gaman að lesa yfir greinarnar tæpum 10 árum eftir að þær voru skrifaðar. Blaðamenn eru hógværir á framtíð þessarar nýju greinar í ferðaþjónustu og enginn hefði þorað að spá að rúmlega 60.000 manns ættu eftir að fara í hvalaskoðunarferðir tæpum áratug síðar. Boðið var upp á sjóstangaveiði í ferðunum en ekki var mikill áhugi á þeim hjá ferðafólkinu, ekki í þeirra eðli að stunda veiðar. Flestir þeirra hafa mikinn áhuga á náttúruvernd, þ.á m. hvalafriðun. Í þeirra huga eru hvalir ekki nytjadýr heldur hluti náttúrunnar, eingöngu til að skoða og dást að. Því myndi líklega draga mikið úr aðsókn í hvalaskoðunarferðir ef hvalveiðar hæfust við Ísland. Eða eins og Flateyringurinn Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstövarinnar á Húsavík, orðar það: Það gengur aldrei upp að sýna hval á stjórnborða og skjóta hann á bakborða. Auk þess eru þessar ferðir meira en hvalaskoðun, þetta er náttúruskoðun í hæsta gæðaflokki þar sem landið er skoðað frá öðru sjónarhorni
Markaðsstarfið gekk vel hjá Clive Stacey og félögum hjá Discover the World, dótturfyrirtæki Arctic Experience í Englandi, og næsta ár seldist í mun fleiri ferðir. Var Ásbjörn fararstjóri í þeim ferðum næstu ár. Hann smitaðist þarna af hvalabakteríunni stóru og hefur byggt upp starfsemi Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík frá árinu 1997. Getur Húsavík kallast með réttu hvalaskoðunarhöfuðborg Evrópu en 25.000 manns fóru í ferðir þaðan á síðasta ári og er bærinn orðin stærsti einstaki hvalaskoðunarstaðurinn í Evrópu.
Hvalreki
Ég rifja þetta upp af því að á síðasta ári komu hvalir mikið við sögu á Hornafirði. Í vor rak hnúfubak inn í Hornafjörð, í lok ágúst strandaði kálffull hrefna í Skarðsfirði og háhyrningur fannst í vetur við Stokksnes. Hvalir eru stærstu dýr jarðarinnar og vekja því mikla eftirtekt. Ef hvalir lenda í ógöngum komast þeir á forsíður íslensku blaðanna og jafnvel í heimspressuna.
Það fyrsta sem hornfirsku náttúrubörnin, hvalaskurðarmenn, gerðu þegar búið var að skera hvalkjötið var að hringja til Húsavíkur og bjóða beinin og hrefnufóstrið til Hvalamiðstöðvarinnar. Ásbjörn Björgvinsson sagði í viðtali við DV í sumar að hann hefði orðið húkt á hvali eftir ferðirnar með Jöklaferðum og Discover the World fyrir tæpum áratug.
Mér finnst nú þarft að benda mönnum á að Hornfirðingar voru brautryðjendur í þessari afþreyingu og einnig þá staðreynd að árið 2001 fóru 60.550 manns í hvalaskoðunarferðir með 12 fyrirtækum en enginn frá Hornafirði! Það mætti svo sem geyma eitt beinasett á Hornafirði, þó ekki nema til að minnast uppruna hvalaskoðunarferða á Íslandi.
Á þessari stundu fer um hugann upphafserindi í kvæði Davíðs Stefánssonar:
Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná.
Kafteinn Óli Björn Þorbjörnsson og Páfinn, Baldur Bjarnason vélstjóri, komu skipinu Sigurði Ólafssyni allaf í land með brosandi fólki en hvalaskoðunarferðir frá Höfn urðu ekki blóm þótt Jöklaferðir hafi sáð mörgum fræjum.
Því er vert að spyrja, af hverju er ekki boðið upp á hvalaskoðunarferðir frá Höfn? Ein skýringin er sú að langt er á góð hvalaskoðunarmið, því verða ferðir þaðan dýrari og lýjandi. Enginn Hornfirðingur treystir sér til að reka hvalaskoðunarbát sem þó gæti nýst í fleira, t.d. sjóstangaveiði, skemmtiferðir og skoðunarferðir um Ósinn.
Svo ég haldi hugarfluginu áfram fyrst ég er kominn í stuð, þá mætti huga að hvalasafni tengdu byggðasafninu. Ég vil minna á að í Grindavík var opnað Saltfisksetur í september síðastliðinn sem á að höfða til erlendra ferðamanna. En ég minni á að Hornfirðingar eru margfaldir Íslandsmeistarar í saltfiskverkun með EHD merkið heimsfræga. Hví ekki að stofna Humarsetur, þar eigum við heimsmeistaratitil, eða Síldarsetur með áherslu á reknetaveiðar. Væri ekki hægt að spyrða þessi söfn einhvernvegin saman? Svo væri hægt að tengja söfnin við Kaldastríðið með því að varðveita ratsjárstöðina og skermana á Stokksnesi. Þetta er kallað menningartengd ferðaþjónusta og gæti hún dafnað vel eins og hvalaskoðunarferðirnar.
Legg ég því til að næsti hvalur sem strandar á Hornafirði verði verkaður af náttúrubörnunum, Gústa Tobba, Kidda í Sauðanesi og hvalskurðarmönnum staðarins. Beinagrindin verði hengd upp í Nýheimum og hvalurinn verði nefndur Tryggvi Árnason í höfuðið á frumkvöðli hvalaskoðunarferða á Íslandi.
Auk þess legg ég til að kvótakerfið í núverandi mynd verði lagt í eyði.
Þakka Arnþóri Gunnarssyni fyrir faglega ráðgjöf og Tryggva Árnasyni fyrir upplýsingar við gerð pistilsins.
Hvalaskoðun II - pistill eftir Sigurpál Ingibergsson
Hvalaskoðun frá Hornafirði árið 1993 - myndasyrpa
Heimildir:
DV, 21. júní 1993, Hvalaskoðunarferðir frá Höfn: Hnúfubakar blása og höfrungar stökkva, Ari Sigvaldason
Eystrahorn, 31. tölublað , 9. september 1993, Hvalaskoðun, Gunnþóra Gunnarsdóttir
Hvalaskoðun við Ísland, JPV-útgáfa 2002, Ásbjörn Björgvinsson & Helmut Lugmayr
Morgunblaðið, 26. september 1993, Á hvalaslóð, Guðmundur Guðjónsson
Morgunblaðið, 12. mars 1994, Sporðaköst undir jökli, Ari Trausti Guðmundsson
![]() |
Hvalirnir komnir til hafnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2023 | 08:58
Topphóll séður með augum sjálfbærni
Steinarnir tala
Í síðasta mánuði var mikil fjölmiðlaumræða um álfakirkjuna í Topphól í Hornafirði. Ekki virðist vera hægt að bjarga stuðlabergshólnum því nýr vegur mun liggja yfir hólinn og verður hann sprengdur í loft upp.
Bæjarstjórn Hornafjarðar harmar ákvörðum Vegagerðarinnar enda hefur hann mikið tilfinningalegt gildi fyrir marga Hornfirðinga og ferðamenn. Trú á álfa, huldufólk og tröll hefur verið hluti af sjálfsmynd Íslendinga.
Vegagerðin segir að ekki sé hægt að hnika veginum, ábendingin hafi komið of seint, því fylgi aukinn kostnaður og verkið tefjist. Ferlið við vegalagninguna hefur tekið fimmtán ár og einhver hefur sofnað á verðinum.
Völvan Ísvöld Ljósbera nær kjarnanum í umræðunni en hún mótmælti aðförinni: Álfatrú er hluti af okkar þjóðarhjarta. Hún er dýrmæt og komandi kynslóðir eiga skilið að fá að upplifa hana líka.
Hvað ætla hornfirskir leiðsögumenn að sýna ferðamönnum eftir hundrað ár þegar jökullinn verður nær horfinn, íshellarnir og Topphóll? Álfasögunar horfnar og tengslin við landið.
Þá verða sagðar sögur af sprengdum álfaborgum rétt eins og Úkraínskir leiðsögumenn munu segja um borgirnar Bakhmut og Mariupol. Pútin er víða.
Tröllið Þorlákur
Þegar umræðan um Topphól var í hámarki, var ég staddur í sumarbústaðalandi í Hraunborgum, Álfasteinssundi í Grímsnesi og þar er steinn, Þorlákur heitir hann eftir tröllkarli sem varð að steini þegar sólin kom upp. Vegagerðarmenn fundu sniðuga lausn, lögðu veg er beggja vegna Þorláks og virðist hann vera nokkuð sáttur og sagan lifir. Hornfirðingar höfðu gæfu að bjarga vatnstanknum á Fiskhól frá niðurrifi á síðustu öld og er hann orðinn tákn fyrir staðinn. Ekki er hægt að bjarga Topphól með þessari sniðugu lausn.
Hér var ekki sprengt með dínamíti í Álfasteinssundi, heldur fundin lausn. Allir sáttir, ferðamenn, álfar, tröll, leiðsögumenn, framkvæmdaraðilar og aðrir hagaðilar. Virðing er lykilorðið!
Sjálfbærni
Sjálfbærni og sjálfbær þróun eru lykilhugtök fyrir framtíð Jarðar og velsæld okkar og komandi kynslóða. Sjálfbær þróun hefur verið skilgreind sem þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum. Hugtakið byggir á þrem stoðum, náttúru og umhverfi og hinar stoðirnar eru efnahagslíf og samfélagslegir þættir s.s. jafnrétti, heilsa, velferð og menning. Þessar þrjár stoðir tengjast innbyrðis og spila saman.
Þegar Topphóll er skoðaður með augum sjálfbærni, þá erum við, freka kynslóðin búin að stroka Topphól út af hinu rómaða Skaftfellska landslagi og skemma allar álfasögurnar sem hefðu fylgt fyrir næstu kynslóðir. Peningarnir hafa trompað umhverfið og samfélagið, þeir ráða því miður oftast ferðinni.
En til að bæta okkur í sjálfbærni, þá skora ég á bekkjarbróður minn, hugvitsmanninn Einar Björn Einarsson sem rekur Jökulsárlón ehf með myndarbrag að taka stórt skref í orkuskiptum. Skipta út jarðefnaeldsneyti á bátaflotanum á Lóninu sem fyrst en Einar veit hvað er best, allt gangverk lifnar við í höndunum á honum. Vetni, metan, metanól, rafmagn, repjuolía, ammóníak, lífdísill eða etanól. Allt er þetta betra en mengandi olía sem er að steikja okkur.
Þegar stór aðili tekur stóra skrefið í sjálfbærni, þá sendir hann jákvæð skilaboð til allra í hinni mengandi ferðaþjónustu og verður góð fyrirmynd í umhverfismálum og fleiri fylgja á eftir.
Það að vera sjálfbær snýst því um að búa til félagsleg og efnahagsleg kerfi sem eru ekki skaðleg náttúrunni og tryggja þannig lífsgæði okkar og framtíðarkynslóða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2023 | 13:59
Plastrusl í hafinu
Ábyrgð á plastrusli
Sá færslu frá SÞ Ísland um plastrusl í hafinu á samfélagsmiðli. Aðeins er minnst á plastrusl frá almenning, rör, plastflöskur og matarumbúðir en í nýlegri rannsókn á hafsvæði Íslands þá er 94% af úrgangi í hafinu veiðarfæri sem með tímanum breytist í örplast.
"Alls var 94,1% af ruslinu sem fannst veiðarfæri, megnið fiskilína eða 80,5%. Almennt rusl eins og til að mynda plastpokar, plastfilmur og áldósir var aðeins 5,9% af því sem fannst."
Hér er verið að varpa ábyrgðinni á almenning en freki karlinn, sjávarútvegurinn sleppur algerlega.
Stjórnvöld og hagsmunasamtök verða að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur.
Það þarf að fjarlægja plastruslið og þeir eiga að borga sem menga.
Ég gekk um Hornstrandir í byrjun mánaðar og það var sorglegt að sjá netakúlur og fleira frá sjávarútveginum innan um náttúlegan rekaviðinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2022 | 17:23
Lærum snjóruðning af Týrolbúum - Brenner-skarð
Það fyrsta sem þarf að gera er að breyta lögum og leyfa Vegagerðinni og/eða Björgunarsveitum að fjarlægja yfirgefna bíla sem stoppa hreinsunarstarf. Það næsta er að læra af Týrolbúum.
Brenner-skarð - Brenner Pass "Bridge of Europe"
Ég átti leið um Brenner-skarð í júli og þegar ég áttaði mig á mannvirkinu, hraðbrautinni sem er 49,1 km brú þá fannst mér stærstu brúarmannvirki á Íslandi agnarsmá í samanburði. Brenner-skarð er fjallvegur milli Ítalíu og Austurríkis í Ölpunum í gegnum Norður og Suður Týrol.
Á einum stað var farið yfir lítið fjallaþorp í dal einum og tæpir 200 metrar niður. Þá fannst mér Brennerbrúin mikilfengleg. Þar er brúarhandriðið svo hátt uppi að sundlar alla fugla er á setjast.
Framkvæmdir hófust árið 1959 og lauk 1963. Lest gengur einnig yfir skarðið og mannvirkið þekkt fyrir að vera hátt upp án jarðgangna.
Það snjóar í 1.370 metrum. Snjóruðningur er vel þróaður og koma fjórir snjóplógar og taka alla brautina. Þegar þeir koma í næsta svæði, þá taka næstu við og svo koll af kolli.
Getum við eitthvað lært af Týrolbúum við snjóruðning á Reykjanesbraut og Hellisheiði?
Brúin var ekki hönnuð fyrir þungaflutninga sem eru í dag. Ef það verður óhapp og umferð stoppar, þá er löng röð af trukkum sem bíða á brúnni. Það er helsta ógnin í dag,
að brúin hrynji. Því er verið að leggja leið fyrir flutninga- og farþegalestir. Jarðgöngin verða 64 km. Brenner Base Tunnel (BBT) sem opna 2032.
Það þriðja: Þegar upplýsingar um Brenner-skarð eru skoðaðar þá er það fyrsta sem kemur er sektir ef bílar eru ekki á vetrardekkjum eða keðjum. Það eru allt of léttvægar sektir ef fólk er á sumardekkjum í snjóstormi hér á landi.
Þrír snjóplógar sem hreinsa hraðbrautina. Þeir skipta hraðbrautinni niður í hólf. Þannig að þessir sjá um hluta af leiðinni.
![]() |
Hvernig ætlum við að bregðast við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.12.2022 | 17:44
Kláfar á Íslandi

![]() |
Hugmyndir um ferju á Esjuna lagðar fram á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.7.2022 | 13:14
Sældarhyggja við Gardavatn
Hið ljúfa líf, la dolce vita, við Gardavatn hjá Villiöndunum, göngu og sælkeraklúbb fyrr í mánuðinum var endurnærandi í hitanum og gott til að upplifa sæluhyggjuna. Það er einhver galdur við orðið Garda og ferðafólk hrífst með.
Gardavatn og Meðalfellsvatn í Kjós eiga margt sameiginlegt. Þau eru bæði jökulsorfin og svo er fjölbreytt mannlíf á bökkum vatnanna.
Gardavatnið er stærsta vatn Ítalíu , um 370 km2 og í einungis 65 m hæð yfir sjávarmáli. Norðurhluti vatnsins teygir sig upp í Alpana. Vegna góðrar landfræðilegrar staðsetningar vatnsins og lítillar hæðar yfir sjávarmáli er loftslagið þar ákaflega hagstætt og minnir einna helst á miðjarðarhafsloftslag. Vatnið er notað sem áveita fyrir frjósamt ræktarland og er vatnsstaðan núna um metri lægri en í meðalári vegna þurrka.
Sirmione er tangi sem skagar út í Gardavatnið sunnanvert. Þar kemur heitt vatn úr jörðu og nutu Rómverjar lífsins í heitum pottum eins og Snorri Sturluson forðum. Söngdívan Maria Callas bjó þarna á sínum bestu árum.
Tveir dagar fóru í hjólaferð á rafhjólum sem var vel skipulögð af Eldhúsferðum. Hjólað var í gegnum vínekrurnar austan við Gardavatnið og eftir sveitastígum í gegnum lítil falleg sveitaþorp. Komið var við hjá vínframleiðendum og veitingamönnum með framleiðslu beint frá býli og töfruðu fram ítalskan sælkeramat. Sérstaklega gaman að hjóla um Bardolino vínræktarhéraðið með Corvina þrúguna á aðra hönd og Rondinella og Molinara þrúgurnar á hina. Kræklótt ólífutrén tóku sig líka vel út. Hjólaferðin endaði með sundsprett í heitu Gardavatni.
Við dvölum í smáþorpi sem heitir Garda en þar var varðstöð Rómverja fyrr á öldum. Lítið þorp með mikið af veitingastöðum á vatnsbakkanum þar sem við gátum notið þess að horfa á vatnið í kvöldsólinni og snæða ekta ítalskan mat og drekka gott rauðvín frá svæðinu.
Nokkrar Villiendur heimsóttu Mt. Baldo hæsta fjallið við Gardavatn. Tókum borgarlínu vatnsins en góðar samgöngur eru á vatninu með ferjum. Sigldum til bæjarins Malcesine en athygli vakti hve mikið af sumarhúsum var í kringum allt vatnið. Ferðuðumst með kláf upp í 1.730 metra hæð, einn Eyjafjallajökull á 17 mínútum. Það var ægifagurt landslag sem blasti við en mesta breytingin var að fara úr 32 gráðu hita í 22 gráður en í þeim hita leið mér vel.
Að lokum var sigling á sægrænu Gardavatni frá Sirmione. Það var gaman að sjá hvernig ferðamenn slökuðu á og upplifðu hið ljúfa líf sem Gardavatnið og bæirnir þar í kring færa manni, það er sem tíminn stöðvist um stund.
Mæli með ferð til Gardavatns en hitinn í byrjun júlí var full mikill fyrir minn smekk.
Kastalamynd frá stærstu eyju Gardavatns, Isola del Garda. Í eigu Conti Cavazza fjölskyldunnar frá Bologna Þar var fyrsta sítrónan ræktuð í Evrópu. Þar stofnaði Frans frá Assisí klaustur árið 1220.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2022 | 11:10
Ísmaðurinn Ötzi ferðalangur frá koparöld
Það var áhrifarík stund að sjá endurgerð af Ísmanninum Ötzi í Fornminjasafninu í Bolzano höfuðborg Suður-Týrol á dögunum. Manni fannst orðið vænt um Ísmanninn með dökku augun eftir ferðalag um safnið og harmaði sorgleg örlög hans en líklega vissu ættingjar hans og vinir ekkert um endalok Ötzi. Hann skilaði sér ekki heim fyrr en 53 öldum síðar eftir að hafa horfið í jökulinn og var hvalreki fyrir vísindamenn nútímans en múmían og 70 hlutir sem hann hafði meðferðis gefa ómetanlegar upplýsingar um samtíð hans. Ötzi er ein elsta múmía sem fundist hefur og var uppi á koparöld. Múmían fannst í 3.200 metra hæð í Ölpunum við landamæri Austurríkis og Ítalíu. Kostaði líkfundurinn milliríkjadeilur og eftir leiðinda þvarg í nokkur ár komust menn að þeirri niðurstöðu að Ötzi væri Ítali þó hann talaði ekki ítölsku.
Safnið er á fimm hæðum og á neðstu hæðum eru gripir sem Ötzi var með í ferð og klæðnaður. Góðar útskýringar á þrem tungumálum en mikið af ferðamönnum truflaði einbeitningu við lestur. Hópur af fornleifafræðingum hefur endurgert allan hans útbúnað alveg niður í smæstu einingar: bogann, bakpokann, öxina sem hann bar við beltið, lendarskýlu og höfuðfat. Ötzi var einnig með skyndihjálparbúnað með sér, svo vel voru menn búnir.
Á annarri hæð er hægt að sjá múmíuna en hún er geymd í frysti sem er við 6 gráðu frost og 99% raka. Lítil birta er í salnum og þegar maður kíkir inn um lítinn glugga þá sér maður litla nakta glansandi mannveru, brúna á lit með vinstri höndina yfir bringuna og ekki laust við að glott sé á vör.
Á þriðju hæð er endurgerðin og þá smellur allt saman. Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn með liðað dökkbrúnt hár, skeggjaður og lífsreyndur næstum ljóslifandi mættur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!
Heilsufar Ötzi - Elsti þekkt hjartasjúklingurinn
Það sem mér finnst merkilegt eftir að hafa kynnt mér sögu Ötzi er heilsufarið en það eru svipaðir sjúkdómar og við eigum við að glíma í dag. Engin persónuvernd er fyrir múmíur!
Ötzi var 46 ára þegar hann var myrtur og það er hár aldur fyrir fólk á koparöld. Hann átti við hjarta- og æðasjúkdóm að glíma, kölkun í kransæðum og víðar. Helstu áhættuþættir fyrir sjúkdóminum í dag eru ofþyngd og hreyfingarleysi en það átti ekki við Ötzi sem var 50 kíló og 160 cm á hæð og nokkuð stæltur. Hjarta- og æðasjúkdómar eru því ekki tengdir siðmenningunni heldur eru þeir geymdir í erfðaefni okkar.
Ötzi átti einnig við liðagigt að glíma og hefur hún ollið honum miklum kvölum. Hann var í nálastungumeðferð við kvillanum og til að lina þjáningar og staðsetja sárustu staðina voru sett húðflúr, 61 strik. Einnig fundust ör á skrokknum og merki um að lækningarjurtum hafi verið komið fyrir undir húðinni til að minnka þjáningar. Allt er þetta stórmerkilegt og telst til óhefðbundinna lækninga í dag. Það hafa því orðið litar framfarir við lækningu liðagigtar á 5.300 árum. Alltaf sami sársaukinn og orsakir enn óþekktar en erfðir og umhverfi skipta máli.
Í erfðamengi Ötzi fundust ummerki borrelia, ætt baktería sem smitast af mítlum sem valda smitsjúkdómi sem kallast Lyme borreliosis. Þessi uppgötvun, fyrir utan að vera elsta dæmið um sjúkdóminn, skjalfestir hversu hættulegir mítlar voru mönnum jafnvel fyrir 5.000 árum.
Ekki er sjúkralistinn tæmdur. Ötzi átti við laktósaóþol að glíma en einnig fannst svipuormur í meltingarvegi en það er algengur sjúkdómur í dag. Lungun voru óhrein, voru eins og í reykingarmanni, sótagnir hafa sest í lungum vegna setu við opinn eld.
Tennur voru slitnar og neglur geyma sögu um langvarandi veikindi. Andlega hliðin er ekki eins auðlesin.
Hvað gerði Ötzi?
Ötzi var hirðir frá koparöld eða kannski ferðamaður, seiðkarl, stríðsmaður, kaupmaður, veiðimaður, að leita að málmi, eða kenningar um hann eru alltaf að breytast.
En á þessum árum þurftu men að ganga í öll störf til að komast af og því erfitt að skilgreina starfsheiti sem tengist nútímanum en starfið þúsundþjalasmiður kemur í hugann. Ljóst er að vopn sem hann bar sýna að hann var í hátt settur í samfélaginu en kenningar hafa komið upp um að hann hafi verið kominn á jaðar samfélagsins. Utangarðsmaður.
Dauði Ötsi
Það tók nokkur ár að finna út að Ötzi hafði verið myrtur. Ummerki eftir ör fundust ofarlega á bakinu. Hann hafði verið drepinn uppi á fjöllum af óþekktum ástæðum af einhverjum sem enginn veit hver var. Guðmundar- og Geirfinnsmál koma í hugann.
En líklega var þetta ekki ránmorð, því verðmæt öxi og fleiri vopn og hlutir voru látin í friði. Mögulega var hjörðinni hans rænt. En það fundust áverkar á múmíunni eftir átök nokkru áður og mögulegt að eitthvað uppgjör hafi átt sér stað hátt upp í fjöllum. Ötzi hafi helsærður eftir árásina komist undan, náð að brjóta örina frá oddinum og fundið góðan stað í gili innan um stór björg. Þar hefur áhugavert líf hans endað, líklega út af áverkum eftir örina frekar en ofkælingu. Gilið sem geymdi líkið varð hin fullkomna frystikista og roföflin komust ekki að. Jökullinn varðveitti hann helfrosinn og gripi hans og skilaði honum til baka með aðstoð loftslagsbreytinga úr faðmlagi sínu um haustið 1991 er Þýsk fjallgönguhjón fundu hann utan alfaraleiðar.
En stórmerkilegur fundur múmíunnar hefur svarað mörgum spurningum en einnig vakið fjölmargar aðrar spurningar og sífellt bætist við þekkinguna enda enginn mannvera verið rannsökuð jafn mikið. Sumum spurningum verður aldrei svarað.
Stæltur Ísmaðurinn, lágvaxinn, 160 cm, 50 kg og skónúmer 38. Lífsreyndur og glottir til manns íklæddur helstu fötum og áhöldum. Merkileg upplifun. Þessi endurgerð minnti mig á einleikara vestur á fjörðum, Elvar Loga Hannesson!
Heimildir
- Fleckinger, Angelika, Ötzi, the Iceman. The Full Facts at a Glance, 6. útgáfa, Bolzano 2020
- Hvað getið þið sagt mér um ísmanninn Ötzi? - Vísindavefurinn
- The Iceman Opinber vefsíða um Ísmanninn Ötzi
- Ötzi the Iceman: What we know 30 years after his discovery - National Geography
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.7.2022 | 10:59
Landeigendur léleg landkynning
"Reynslan hefir sýnt það og sannað, að atvinnurekstur einstaklinga þolir engan samanburð við ríkisrekstur." - Þórbergur Þórðarson
Landeigendur ekki að standa sig við Seljalandsfoss og léleg landkynning fyrir Ísland.
Var að koma frá Suður-Týrol og ferðaðist um Dólómítana. Það var áberandi hvað allt er snyrtilegt í Suður-Týrol. Ekkert fyrir plokkara að gera.
Svæðið er að stórum hluta á Heimsminjaskrá UNESCO, rétt eins og Vatnajökulsþjóðgarður, Þingvellir og Surtsey.
Greinilegt að íbúar svæðisins eru snyrtilegir og góðir innviðir fyrir úrgangslosun. Virðing fyrir náttúrunni í menningu Suður-Týrol. Hún smitast í ferðamenn. Einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld geta lært af þeim.
Mikið er af kláfum og fjallaskálum sem þjóna ferðamönnum og gott aðgengi fyrir úrgang og úrgang frá fólki öðru nafni saur. Eplasafinn var afgreiddur í margnota glösum, ekkert plast.
Stór hluti af vandamálinu er umbúðaþjóðfélagið hér á landi. Flest allt umvafið plasti og einnota það má gera miklu betur þar.
Þurfum að hugsa þetta út frá úrgangspíramídanum, forvarnir, lágmörkun úrgangs, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun.
Snyrtilegt svæði. Enginn úrgangur fljótandi innan um náttúruperlurnar. Hér sést St. Ulrich Ortisei í 1.226 m. og Selva fyrir ofan. Val Gardena þekk fyrir skíði. Mynt tekin af Seiser Alm hásléttunni í 2.130 metra hæð í 24 stiga hita.
![]() |
Harmar upplifun gesta Seljalandsfoss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2019 | 11:30
Tunglið og Nautagil
Í dag, 20. júlí, er slétt hálf öld liðin frá því Apollo 11 lenti á tunglinu og í kjölfarið urðu Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Í undirbúningi fyrir leiðangurinn komu kandídatar NASA til Íslands í æfingaskyni og dvöldust þá meðal annars í Dyngjufjöllum við Öskju.
Ég gekk Öskjuveginn sumarið 2006 og skoðaði sömu staði og geimfarar NASA. Rifjast þessi gönguferð því upp í tilefni dagsins.
Geimfarar NASA sem unnu að Apollo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í gönguferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Apollo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.5.): 2
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 89
- Frá upphafi: 235893
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 72
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar