Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Örugg fram í maí 2012

Gott að fá þetta vísindalega staðfest með spennu í berginu.  Afkomumælingar sýna að 9 til 12 metrar bætast ofan á Mýrdalsjökul yfir veturinn.

Vísindamennirnir sem skrifa í ScienceNews telja umdeildu gosin með sem komu öll í júlí, óróann árið 1955,  1999 og núna í ár en gosið 1918 var alvöru.

Kíkjum á síðustu eldgos í Kötlugjánni.

ÁrDagsetningGoslengd      Hlaup  Athugasemd
191812. október3 vikur +24  Meiriháttar gos
18608. maí 3 vikur  20  Minniháttar
182326. júní2 vikur +28  Minniháttar
175517. október4 mánuðir120  Risagos
172111. maíFram á haust       >100  Mikið öskugos
16603. nóvemberFram á næsta ár         >60  Öskufall tiltölulega lítið
16252. september2 vikur 13  Minniháttar, flóð frá 2.-14. sept.
161212. október    Minniháttar
158011. ágúst    Öflugt, Urðu þytir í lofti

En talið er að um 15 önnur eldgos hafi orðið í Kötlugjánni frá landnámi.

Allt stemmir þetta og því getum við sofið róleg yfir Kötlu framí maí 2012. Október er líklegastur.

Heimildir:
Katla, saga Kötluelda, Werner Schutzbach, 2005
Jöklar á Íslandi, Helgi Björnsson, 2009

 


mbl.is Katla virkari á sumrin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Senn bryddir á Kötlu

BBC hefur áhyggjur af Kötlugosi. Fjölluðu þeir um komandi eldgos í grein í gær, "New Icelandic volcano eruption could have global impact". Eru þeir minnugir Eyjafjallagosinu í maí 2010 og áhrif þess á flugumferð.

Fjölmiðar víða um heim hafa vitnað í fréttina og endurómað áhyggjur sínar.

Jarðeðlisfræðingar eru hógværir og gefa yfirlitt loðin svör þegar þeir eru beðnir um að spá fyrir um næsta gos eða hve lengi gosið muni standa yfir sé það í gangi.  En ég man eftir einni undantekningu.

Spáir Kötlugosi innan fimm ára
Árið 2004 kom góður greinarflokkur í Morgunblaðinu um Kötlu og spáði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur og forstöðumaður á Norrænu eldfjallastöðinni, því að Katla myndi gjósa eftir 2-3 ár eða í mesta lagi eftir 5 ár. Hann segir þrjú merki benda til þess að Kötlugos verði á næstu árum.

"Viðvarandi landris, aukin jarðskjálftavirkni og aukinn jarðhiti á undanförnum árum. Þessi þrjú merki hafa verið viðvarandi frá árinu 1999 og það virðist ekki draga neitt úr atburðarásinni. Þess vegna tel ég að fjallið sé komið að þeim mörkum að það bresti á allra næstu árum," 

Nú er árið 2012 að og ekki bólar á gosi sem senn kemur en mikill órói hefur verið og í október mældust 512 skjálftar í Mýrdalsjökli.   Þrjú ár fram yfir gosspá eru heldur ekki langur tími þegar jarðsagan er undir.

Það er því gott að gefa ekki upp tíma í jarðvísindaspám. Dæmin sanna það.

Katla - Saga Kötluelda
Í bókinnk Katla - Saga Kötluelda eftir Svisslendinginn Werner Schutzbach er saga Kötluelda rakin frá landnámi. En eiga Kötlugos að koma okkur í opna skjöldu?  Um Kötlugos 12. október 1918 segir:

"Kötlugosið haustið 1918 telst til hinna meiri háttar gosa og það stóð yfir í rúmar þrjár vikur. Aska sem kom upp, dreifðist yfir stór svæði, en einkum til norðausturs."

Aðdragandi Kötluelda
"Þegar nokkru fyrir gosið veittu menn því athygli, að austurhluti Mýrdalsjökuls lyftist lítt eitt, en vesturhlutinn, sem sýr að Mýrdal, seig svo að klettar komu í ljós, sem áður voru huldir ís. Allt sumarið var Múlakvísl nær vatnslaus og af ám, sem falla til austurs, var óvenjuleg brennisteinslykt. Mönnum kom því ekki í hug, að Katla kynni að fara að gjósa.

Rúmri klukkustund eftir hádegi hinn 12. október 1918, það var laugardagur, fannst í Mýrdal stuttur og snarpur jarðskjálftakippur, svo að hrikti í húsum. Lausir smámunir duttu úr hillum og af veggjum. Voru svo í hálftíma sífelldar smáhræringar og titringur, og mönnum sýndist jörðin ganga í bylgjum. Skömmu síðar sást öskumökkur stíga upp yfir jöklinum. Hann var að sjá frá Vík rétt fyrir vestan fjallið Höttu. Hann var hvítur í fyrstu, en dökknaði fljótt. Um kvöldið var hann kolsvartur. Veður var rólegt og hægur vestanvindur, svo að öskumökkurinn hallaðist dálítið til austurs."

Um Kötluhlaup segir:
"Rétt eftir að öskustólpinn steig upp, ruddist jökulhlaup fram. Menn sem gengu á fjallið Höttu nálægt Vík, þegar gosið var nýbyrjað, sáu geysimikinn ljósbrúnan massa vella fram. Hann þyrlaði upp miklum sandi og ryki. Flóðið streymdi bæði í farveg Múlakvíslar og yfir Sandinn í átt til Sandvatns og ruddi með sér feiknum af grjóti, möl og ísblökkum. Þegar þessi flóðalda sjatnaði um fimmleytið, geystist enn meira flóð með ótrúlegum hraða yfir Mýrdalssand og kaffærði hann allan vestanverðan."

Kötlugosið 1918 koma því mönnum á óvart og flóðið æddi öflugt fram í byrjun hamfaranna. Því eru mælingar í dag nauðsynlegar og  stórfrlóðlegt lærdómsferli fyrir jarðvísindamenn okkar. Vonandi verða spárnar nákvæmari í kjölfarið.

Látum Kötlu húsráðskonu enda færsluna með sínum fleyga muldri er sýran fór að þrotna í kerinu í Þykkvabæjarklaustri: "Senn bryddir á Barða"

Laufskálavörður

Laufskálavörður á Mýrdalssandi með Kötlu í baksýn. Litlu vörðurar sem ferðamenn hafa hlaðið eiga að boða gæfu fyrir ferðalagið yfir sandinn. Í öflugu Kötluhlaupi gætu þessar vörður hofið í sandinn.


mbl.is Víða fjallað um Kötlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni

Lifir hann sumarið af eða ekki?

Nú sér til Esjunnar. Nú er örlítill hvítur punktur efst í Gunnlaugsskarði og minnkar sífellt. Hann er eins og lítill hvítur títuprjónshaus í fjallinu. Næstu dagar skera úr um hvort hann hverfi alveg, síðasti skaflinn í suðurhlíðum Esjunnar.

Ég held að hann haldi velli. Spáð er úrkomu næstu daga og í næstu viku verður kalt í veðri. Kaldur júní hefur eflaust mikil áhrif á afkomu skaflsins. Sérlega kalt var norðausturlands.

Síðustu tíu ár hefur skaflinn horfið en fannir í Esjunni mæla lofthita. En Páll Bergþórsson hefur fylgst vel snjó í Esjunni. 

Sigurjón Einarsson flugmaður hefur fylgst  með fönnum í Gunnlaugsskarði og árið 2009 hvarf skaflinn 25. september en 15. júlí í fyrra.

Ég stefni að því að heimækja skaflinn á næstu dögum og ná af honum mynd.


Hólárjökull 2011

Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.

Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 24. ágúst 2011.  Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst.  Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fimm ára. Hlutirnir gerast svo hratt.

   Hólárjökull06

   Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.

Hólarjökull 2011

 Hólárjökull, 24. ágúst 2011. Augljós rýrnun á 5 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.

Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/


Veikleiki í þráðlausum netum

Bloggarinn og forritarinn frá Hollandi,  Nick Kursters er orðinn þekktur fyrir að brjóta upp algrímið fyrir þráðlausa beina. Ein vinsælasta greinin sem hann hefur skrifað er um hvernig hægt er að finna út WPA-lykilorð fyrir Thompson SpeedTouch beina en þeir eru mjög algengir hér á landi. Á bloggsíðu Nick's er hægt að framkvæma leit að WPA lykilorði ef SSID-númer beinis er þekkt.

Hugmynd Thompson-manna var að útbúa sérstakt algrím til að útbúa sérstakt lykilorð fyrir hvern beini (router).  Bæði SSID nafn beinis og WPA-lykilorð eru á límmiða neðst á tækinu.  SSID stendur fyrir Service Set IDentifier eða nafn á staðarneti.

Áður en lengra er haldið er eflaust ágætt að skilgreina skammstafanirnar. WPA/WPA2 er öflug dulkóðun sem byggir á breytanlegum lyklum. WPA2 er sterkust, mun öflugri dulkóðun en WEP.

Hættan er sú að þriðji aðili komist inn á þráðlausa staðarnetið, nýtt sér öryggisholuna, og geti notað tenginguna til að hlaða niður ólöglegu efni eða hlera samskipti. Öll notkun gegnum þráðlaust net verður rakin til IP-númers eiganda þráðlausa netsins jafnvel þótt hann eigi ekki hlut að máli. Í slíkum tilfellum getur hann lent í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að afsanna óæskilegt athæfi

Lausn er að breyta sjálfgefni uppsetningu beinisins. 

Síminn er með góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að breyta uppsetningunni.  Einnig er góð regla að slökkva á beini þegar hann er ekki í notkun.

Á vefnum netoryggi.is eru góðar leiðbeiningar um notkun þráðlausra staðarneta.

Hér er mynd af leitaniðurstöðunni á vefnum hjá Nick Kusters. Fyrst er slegið inn SSID númer SpeedTouch beinisins, sex síðustu stafirnir í heitinu eru notaðir. Síðan skilar leitin niðurstöðunni. Neðsta röðin gildir fyrir beininn sem flett var upp.

WPA

Hér koma þrjár niðurstöður úr leitinni. Fyrst SSID er þekkt, þá er hægt að finna úr raðnúmer beinisins og reikna út WPA2 lykilinn.

Þetta eru ekki flókin fræði sem þarf til að komast inn í þráðlaus samskipti. Því þarf notandi ávallt að vera vel á verði. En mig grunar að allt of mörg þráðlaus staðarnet séu óvarin hér á landi.

 


Google: Vinsældir Grímsvatna minnka en Eyjafjallajökull bætir við sig.

Þegar eldgosið í Grímsvötnum hófst þann 21. maí var eldstöðin lítt þekkt á jarðkúlinni og Google. Gosið var kröftugt í byrjun og þegar flugferðum var aflýst tók heimspressan við og Grímsvötn ruku upp í vinsældum.  Einnig tók Eyjafjallajökull við sér en vefmiðlar tóku að rifja upp samgöngur á síðasta ári.

Hér er línurit sem sýnir leitarniðurstöður á Google fyrir Grímsvotn, Eyjafjallajökul og hið alræmda IceSave mál.

Grímsvatnagos 2011

Eyjafjallajökull birti tæplega 500 þúsund leitarniðurstöður þegar Grímsvatnagosið hófst en Grímsvotn 137 þúsund. Síðan tekur hinn heimsfrægi Eyjafjallajökull við þegar fréttir berast af gosinu en þegar öskuský dreifir sér yfir Evrópu, þá tekur Grímsvatnagosið við sér. Þegar krafturinn hverfur úr því, þá dettur það niður en Eyjafjallajökull heldur sínu striki.

Hæsti fjöldi Eyjafjallajökuls mældist rúm 21 milljón í lok júní 2010.

Það sem veldur niðursveiflu leitarniðurstaðna á Google er að færslur hverfa af forsíðu fréttamiðla eða samfélagsmiðla og eru geymdar djúpt í gagnagrunnum.

Manngerðu hamfarirnar, IceSave, halda sínu striki lúra í 6 milljónum leitarniðurstaðna og Eyjafjallajökull hefur ekkert í þann bankareikning að gera.

Til samanburðar þá er Ísland með 45 milljónir, Iceland með 274 milljónir og japanska kjarnorkuverið Fukushima með 77,5 milljónir leitarniðurstaðna.


Grímsvatnagosið 1996

Það var eftirminnilegt Grímsvatnagosið 1996. Það kom mönnum ekki í opna skjöldu. Ég fylgdist náið með því og við héldum við á Eldsmiðnum út vefsíðu um gosið. Þá voru ekki til miðlar eins og mbl.is og visir.is. Þetta var ævintýralegur, krefjandi en skemmtilegur tími. Aðsókn var góð á eldhorn.is og flestar fyrirspurnir komu erlendis frá.

Í annál um eldgosið segir á mbl.is: "[A]ð morgni 29. september 1996 hófst óvenjuleg jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Jarðskjálftafræðingar stigu þá fram og spáðu því að gos gæti verið í aðsigi. Stóð hrinan fram á kvöld hinn 30. september en þá dró skyndilega úr skjálftum en stöðugur órói hófst. Markaði óróinn upphaf eldgoss og í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 30. september var gefin út viðvörun um að eldgos væri yfirvofandi í sprungu undir jöklinum milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Hinn 2. október hófst svo öskugos þegar gosið náði upp í gegnum jökulhelluna."

 Grimsvotn1996-800

Þessi mynd er tekin að morgni 2. október 1996 af Silfurbrautinni á Hornafirði, þegar eldgosið náði að bræða sig í gengum jökulhettuna og til varð Gjálp. Fyrstu fjóra dagana var kraftur eldgossins mestur.

Talið er að eldgosinu í Gjálp hafi lokið að kvöldi til hinn 13. október 1996 en tveimur dögum áður var farið að draga úr kraftinum. Hlaup kom svo úr Grímsvötnum nokkrum vikum síðar.

Frétt á eldhorn.is frá 1. og 2. október hljóði svona:

2. október - miðvikudagur
Eldgos sást í nótt kl. 4.47 og komu þá hvítir bólstrar upp úr íshellunni.Vitni voru að þessum atburði. Bjarni S. Bjarnason eigandi Jöklajeppa og jöklamaður.
Nú er aska farin að falla niður á Norðurlandi og bændur í Bárðardal hafa fengið fyrstu öskuna. Þar sem vart verður ösku eru bændur beðnir að taka sláturfé á hús.
Vegagerðin er að undirbúa aðgerðir á Skeiðarársandi og líklegt er talið að taka verði veginn í sundur til að brýrnar standist hlaup sem óttast er að koma muni úr Grímsvötnum í nótt eða á morgun.
Gosmökkurinn er nú kominn í 15.000 feta hæð.
Talið er að gossprungan sé orðin 10 km löng. Hún hefur lengst til norðurs og því er talið að vatn kunni að streyma í Jöklsá á Fjöllum.

Kl.17.00
Nýr ketill hefur myndast norðan við hina tvo og sprungan lengst um 2 km. en gosið er á einum stað.
Loka á umferð um Skeiðarársand kl. 23.00 í kvöld. Búið að gera ráðstafanir til að rjúfa veginn til að bjarga brúnni en 1.500.000 milljónir eru í húfi.
Rennsli í Grímsvötn er 5.000 m3 á sekúndu eða sem samsvarar 10 sinnum rennsli Þjórsár.

1. október - þriðjudagur
Tveir katlar sáust á þriðjudag og fóru þeir sífellt stækkandi. Þeir eru á eldgosasvæði sem er kallað Loki.


Heimildir

mbl.is og eldhorn.is


Nautagil

Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.

Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.

Nautagil

“Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér”. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi.  Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa  enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, “Hvað voru naut að þvælast hér?”.

Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp.  Kíkjum á frásögn Óla Tynes í  Morgunblaðinu  4. júlí 1967.

"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "

Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.

Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum. 

Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush?  Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.

Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst.  Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins.  Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni.  Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann.  Nota geimfarana  og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!

Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans. 


mbl.is Geimfarar í Þingeyjarsýslum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lón stækka feikilega við Hoffellsjökul

Í fréttabréfi Jöklarannsóknafélagi Íslands, JÖRFÍ, er svo glæsileg mynd af Hoffellsjökli og Svínafellsjökli en Hoffellsjökull og Heinabergsjökull eru glæsilegir séðir frá Hornafirði. Ég tek mér það bessaleyfi að birta myndina hér en hún er unnin undir stjórn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofu Íslands. Það verður gaman að sjá alla íslensku jöklana í þessu ljósi.

Hoffelsjokull

Í fréttabréfinu segir um Hoffellsjökul: "Af nýjum kortum af Hoffellsjökli má ráða að lónið framan við jökulsporðinn hafi stækkað feikilega á síðastliðnu ári. Þar eru nú myndarlegir ísjakar á floti á stöðuvatni sem teygir sig inn með Geitafellsbjörgum (sjá mynd). Fyrir framan hvora jökultungu eru fallega bogadregnir garðar sem sýna hvert jökullinn náði um 1890. Af því sést að sá eystri (Hoffellsjökul) hefur ekki styst nema um nokkur hundruð metra en sá vestari (Svínafellsjökul) stendur nú um 3,5 km frá fremstu görðum."

Svínafellsjökull náði svo langt fram að hann klofnaði um Svínafellsfjall, og fékk vesturhlutinn nafnið Svínafellsjökull. Öldutangi norður úr Svinafellsfjalli greindi þá að, en nú er hann íslaus.

Svinafellsjokull-Hoffelsjokull

Hér er mynd af glæsilegu málverki sem sýnir jöklana tvo, Viðborðsjökul og Hoffellsjökul. Málverkið er eftir Helga Guðmundsson og líklega máluð á 7. ártugnum enda Viðborðsjökull, sem er til vinstri og Hoffellsjökull vel fóðraðir á hafísárunum. Svínafellsfjall er fyrir miðri mynd. Handan fjallsins, milli jöklana er Gæsaheiði og Viðborðshálsar.

Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119.


Heinabergsjökull ólíkindatól

Jöklarannsóknafélag Íslands er merkilegt félag. Aðalfundur JÖRFÍ verður haldinn þann 22. febrúar í Öskju. Félagið gefur út fréttabréf reglulega.  Oddur Sigurðsson segir í nýjasta fréttabréfi, nr. 119, frá afkomumælingum 50 íslenskra jökulsporða á síðasta ári.

"Niðurstöður eru óvenju samhljóða þetta árið. Einn sporður gekk fram frá fyrra ári, einn stendur í stað en allir hinir styttust. Þetta er í góðu samræmi við ástandið. Sumarið var með þeim allra hlýjustu sem komið hafa í sögu veðurmælinga og ofan á það bættist öskusáldur frá Eyjafjallajökli. Það jók leysingu til muna á flestöllum jöklum en þó ekki Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli þar sem askan var svo þykk að hún einangraði jökulinn."

Svo segir frá Heinabergsjökli: "Heinabergsjökull einn mældist framar en í fyrra en hann er ólíkindatól þar sem hann er á floti í sporðinn og bregst því á lítt fyrirsjáanlegan hátt við loftslagi frá ári til árs."

Heinabergsjökull er þá undantekningin sem sannar regluna. En loftslag er að hlýna og höfin að súrna.

Heimild:  Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigurpáll Ingibergsson

Höfundur

Sigurpáll Ingibergsson
Sigurpáll Ingibergsson
Hornfirðingur búsettur í Kópavogi. Árgerð 1965.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • IMG 4410
  • IMG 4385
  • IMG 4421
  • Á afskekktum stað
  • Tíminn051071

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 10
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 59
  • Frá upphafi: 238237

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband