Færsluflokkur: Vísindi og fræði
27.9.2011 | 12:39
Skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esjunni
Lifir hann sumarið af eða ekki?
Nú sér til Esjunnar. Nú er örlítill hvítur punktur efst í Gunnlaugsskarði og minnkar sífellt. Hann er eins og lítill hvítur títuprjónshaus í fjallinu. Næstu dagar skera úr um hvort hann hverfi alveg, síðasti skaflinn í suðurhlíðum Esjunnar.
Ég held að hann haldi velli. Spáð er úrkomu næstu daga og í næstu viku verður kalt í veðri. Kaldur júní hefur eflaust mikil áhrif á afkomu skaflsins. Sérlega kalt var norðausturlands.
Síðustu tíu ár hefur skaflinn horfið en fannir í Esjunni mæla lofthita. En Páll Bergþórsson hefur fylgst vel snjó í Esjunni.
Sigurjón Einarsson flugmaður hefur fylgst með fönnum í Gunnlaugsskarði og árið 2009 hvarf skaflinn 25. september en 15. júlí í fyrra.
Ég stefni að því að heimækja skaflinn á næstu dögum og ná af honum mynd.
19.9.2011 | 16:44
Hólárjökull 2011
Jöklarannsóknir mínar halda áfram. Ávallt þegar ég keyri framhjá Hólárjökli sem var einn af tignarlegum skriðjöklum úr Öræfajökli, þá smelli ég ljósmynd af honum. Hólárjökull er rétt austan við Hnappavelli. Hólá kemur frá honum.
Fyrri myndin var tekin þann 16. júlí 2006 og sú nýjasta þann 24. ágúst 2011. Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullin þynnst. Rýrnun jöklanna er ein afleiðingin af hlýnun jarðar. Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fimm ára. Hlutirnir gerast svo hratt.
Hólárjökull, 16. júlí 2006. Jökulsporðurinn þykkur og teygir sig niður í gilið.
Hólárjökull, 24. ágúst 2011. Augljós rýrnun á 5 árum. Jökulsporðurinn hefur bæði styst og þynnst.
Sjá:
Hólárjökull 2007 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/259538/
Hólárjökull 2008 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/611572/
Hólárjökull 2009 - http://fiskholl.blog.is/blog/fiskholl/entry/911196/
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2011 | 00:14
Veikleiki í þráðlausum netum
Bloggarinn og forritarinn frá Hollandi, Nick Kursters er orðinn þekktur fyrir að brjóta upp algrímið fyrir þráðlausa beina. Ein vinsælasta greinin sem hann hefur skrifað er um hvernig hægt er að finna út WPA-lykilorð fyrir Thompson SpeedTouch beina en þeir eru mjög algengir hér á landi. Á bloggsíðu Nick's er hægt að framkvæma leit að WPA lykilorði ef SSID-númer beinis er þekkt.
Hugmynd Thompson-manna var að útbúa sérstakt algrím til að útbúa sérstakt lykilorð fyrir hvern beini (router). Bæði SSID nafn beinis og WPA-lykilorð eru á límmiða neðst á tækinu. SSID stendur fyrir Service Set IDentifier eða nafn á staðarneti.
Áður en lengra er haldið er eflaust ágætt að skilgreina skammstafanirnar. WPA/WPA2 er öflug dulkóðun sem byggir á breytanlegum lyklum. WPA2 er sterkust, mun öflugri dulkóðun en WEP.
Hættan er sú að þriðji aðili komist inn á þráðlausa staðarnetið, nýtt sér öryggisholuna, og geti notað tenginguna til að hlaða niður ólöglegu efni eða hlera samskipti. Öll notkun gegnum þráðlaust net verður rakin til IP-númers eiganda þráðlausa netsins jafnvel þótt hann eigi ekki hlut að máli. Í slíkum tilfellum getur hann lent í þeirri sérkennilegu stöðu að þurfa að afsanna óæskilegt athæfi
Lausn er að breyta sjálfgefni uppsetningu beinisins.
Síminn er með góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að breyta uppsetningunni. Einnig er góð regla að slökkva á beini þegar hann er ekki í notkun.
Á vefnum netoryggi.is eru góðar leiðbeiningar um notkun þráðlausra staðarneta.
Hér er mynd af leitaniðurstöðunni á vefnum hjá Nick Kusters. Fyrst er slegið inn SSID númer SpeedTouch beinisins, sex síðustu stafirnir í heitinu eru notaðir. Síðan skilar leitin niðurstöðunni. Neðsta röðin gildir fyrir beininn sem flett var upp.
Hér koma þrjár niðurstöður úr leitinni. Fyrst SSID er þekkt, þá er hægt að finna úr raðnúmer beinisins og reikna út WPA2 lykilinn.
Þetta eru ekki flókin fræði sem þarf til að komast inn í þráðlaus samskipti. Því þarf notandi ávallt að vera vel á verði. En mig grunar að allt of mörg þráðlaus staðarnet séu óvarin hér á landi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar eldgosið í Grímsvötnum hófst þann 21. maí var eldstöðin lítt þekkt á jarðkúlinni og Google. Gosið var kröftugt í byrjun og þegar flugferðum var aflýst tók heimspressan við og Grímsvötn ruku upp í vinsældum. Einnig tók Eyjafjallajökull við sér en vefmiðlar tóku að rifja upp samgöngur á síðasta ári.
Hér er línurit sem sýnir leitarniðurstöður á Google fyrir Grímsvotn, Eyjafjallajökul og hið alræmda IceSave mál.
Eyjafjallajökull birti tæplega 500 þúsund leitarniðurstöður þegar Grímsvatnagosið hófst en Grímsvotn 137 þúsund. Síðan tekur hinn heimsfrægi Eyjafjallajökull við þegar fréttir berast af gosinu en þegar öskuský dreifir sér yfir Evrópu, þá tekur Grímsvatnagosið við sér. Þegar krafturinn hverfur úr því, þá dettur það niður en Eyjafjallajökull heldur sínu striki.
Hæsti fjöldi Eyjafjallajökuls mældist rúm 21 milljón í lok júní 2010.
Það sem veldur niðursveiflu leitarniðurstaðna á Google er að færslur hverfa af forsíðu fréttamiðla eða samfélagsmiðla og eru geymdar djúpt í gagnagrunnum.
Manngerðu hamfarirnar, IceSave, halda sínu striki lúra í 6 milljónum leitarniðurstaðna og Eyjafjallajökull hefur ekkert í þann bankareikning að gera.
Til samanburðar þá er Ísland með 45 milljónir, Iceland með 274 milljónir og japanska kjarnorkuverið Fukushima með 77,5 milljónir leitarniðurstaðna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2011 | 21:57
Grímsvatnagosið 1996
Það var eftirminnilegt Grímsvatnagosið 1996. Það kom mönnum ekki í opna skjöldu. Ég fylgdist náið með því og við héldum við á Eldsmiðnum út vefsíðu um gosið. Þá voru ekki til miðlar eins og mbl.is og visir.is. Þetta var ævintýralegur, krefjandi en skemmtilegur tími. Aðsókn var góð á eldhorn.is og flestar fyrirspurnir komu erlendis frá.
Í annál um eldgosið segir á mbl.is: "[A]ð morgni 29. september 1996 hófst óvenjuleg jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Jarðskjálftafræðingar stigu þá fram og spáðu því að gos gæti verið í aðsigi. Stóð hrinan fram á kvöld hinn 30. september en þá dró skyndilega úr skjálftum en stöðugur órói hófst. Markaði óróinn upphaf eldgoss og í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 30. september var gefin út viðvörun um að eldgos væri yfirvofandi í sprungu undir jöklinum milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Hinn 2. október hófst svo öskugos þegar gosið náði upp í gegnum jökulhelluna."
Þessi mynd er tekin að morgni 2. október 1996 af Silfurbrautinni á Hornafirði, þegar eldgosið náði að bræða sig í gengum jökulhettuna og til varð Gjálp. Fyrstu fjóra dagana var kraftur eldgossins mestur.
Talið er að eldgosinu í Gjálp hafi lokið að kvöldi til hinn 13. október 1996 en tveimur dögum áður var farið að draga úr kraftinum. Hlaup kom svo úr Grímsvötnum nokkrum vikum síðar.
Frétt á eldhorn.is frá 1. og 2. október hljóði svona:
2. október - miðvikudagur
Eldgos sást í nótt kl. 4.47 og komu þá hvítir bólstrar upp úr íshellunni.Vitni voru að þessum atburði. Bjarni S. Bjarnason eigandi Jöklajeppa og jöklamaður.
Nú er aska farin að falla niður á Norðurlandi og bændur í Bárðardal hafa fengið fyrstu öskuna. Þar sem vart verður ösku eru bændur beðnir að taka sláturfé á hús.
Vegagerðin er að undirbúa aðgerðir á Skeiðarársandi og líklegt er talið að taka verði veginn í sundur til að brýrnar standist hlaup sem óttast er að koma muni úr Grímsvötnum í nótt eða á morgun.
Gosmökkurinn er nú kominn í 15.000 feta hæð.
Talið er að gossprungan sé orðin 10 km löng. Hún hefur lengst til norðurs og því er talið að vatn kunni að streyma í Jöklsá á Fjöllum.
Kl.17.00
Nýr ketill hefur myndast norðan við hina tvo og sprungan lengst um 2 km. en gosið er á einum stað.
Loka á umferð um Skeiðarársand kl. 23.00 í kvöld. Búið að gera ráðstafanir til að rjúfa veginn til að bjarga brúnni en 1.500.000 milljónir eru í húfi.
Rennsli í Grímsvötn er 5.000 m3 á sekúndu eða sem samsvarar 10 sinnum rennsli Þjórsár.
1. október - þriðjudagur
Tveir katlar sáust á þriðjudag og fóru þeir sífellt stækkandi. Þeir eru á eldgosasvæði sem er kallað Loki.
Heimildir
mbl.is og eldhorn.is
21.5.2011 | 09:08
Nautagil
Geimfarar NASA sem komu til Íslands til æfinga fyrir fyrstu mönnuðu tunglferðina 1969 og Nautagil hafa verið í umræðunni síðustu daga. Sýning um heimsókn geimfarana er haldin á Húsavík og Hillary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna bað að heilsa Húsvíkingum af því tilefni eftir fund með Össuri Skarphéðinssyni kollega sínum.
Ég heimsótti Nautagil árið 2006 og varð mjög hrifinn. Læt frásögn sem ég skrifaði stuttu eftir ferðalag í Dyngjufjöll fylgja hér á efir.
Nautagil
Þarna sjáið þið Herðubreiðartögl, Herðubreið, Kollóttadyngju, Eggert og Herðubreiðarfjöll. Fleiri örnefni eru ekki hér. Sagði Jakob leiðsögumaður í hljóðnemann og kímdi. Minnugur þessara orða á leiðinni í Lindir fyrr í ferðinni, búinn að skilja nytjahyggju og af hverju örnefnafátæktin stafaði. Bændur höfðu ekkert á miðhálendið að gera og slepptu því að gefa enn einu Lambafellinu, Svínafellinu og Hrútafjallinu nafn. Þá kom upp spurningin, Hvað voru naut að þvælast hér?.
Svarið kom á leiðinni í Nautagil. Geimfarar NASA sem unnu að Appolo geimferðaáætluninni komu tvisvar til Íslands til æfinga fyrir fyrstu tunglferðina en þeir töldu aðstæður í Öskju líkjast mjög aðstæðum á tunglinu. Þeir komu fyrst í Öskju árið 1965 og tveim árum síðar með minni hóp. Kíkjum á frásögn Óla Tynes í Morgunblaðinu 4. júlí 1967.
"Frá skálanum [Þorsteinsskála] var haldið inn að Öskju og fyrst farið í eitthvert nafnlaust gil sunnan megin við Drekagilið og þar héldu þeir Sigurður Þórarinsson og Guðmundur Sigvaldson jarðfræðifyrirlestur, sem fór fyrir ofan garð og neðan hjá fréttamönnum. Geimfararnir hinsvegar voru fullir af áhuga og hjuggu steina lausa úr berginu til nánari rannsókna. "
Hér er átt við Nautagil og er nafngiftin komin frá jarðfræðihúmoristunum Sigurði og Guðmundi. Geimfari er astroNAUT á ensku og framhaldið er augljóst.
Nafngiftin er ekkert nema gargandi snilld. Eftir að hafa heyrt sögu þessa jókst virðing mín mikið fyrir Nautagili mikið en ég hef haft mikinn áhuga á geimferðakapphlaupinu á Kaldastríðsárunum.
Nautagil átti eftir að heilla enn meira. Hvert sem litið var, mátti sjá eitthvert nýtt jarðfræðilegt fyrirbrigði. Fyrst var boðið upp á innskot, bólstraberg og sandstein, síðan móbergsveislu. Mikilfenglegur móbergsveggur sem sorfinn var í toppinn og stóðu kollar uppúr sem minnti á tanngarð eða höggmyndir í Rushmore-fjalli af forsetum Bandaríkjanna. Maður lét hugann reika, þarna er George Washington, síðan Thomas Jefferson, Theodore Roosvelt og Abraham Lincoln. Þarna er vindill, það hlýtur að vera Clinton, en hvar er Bush? Svo kom pælingin, hvar eru styttur af forsetum Íslands? Svar: Hvergi, bara til styttur af athafnaskáldum.
Fleira bar við augu. Lítill lækur spratt undan hrauninu og dökk hraunspýja sem talið er minnsta hraun á Íslandi var næst. Rósin í hnappagatinu var svo vel falin bergrós ofarlega í mynni gilsins. Þetta var óvænt ánægja og Nautagil kom mér mest á óvart í meðferðinni. Það var augljóst að fáir hafa komið í gilið í sumar en með öflugri markaðssetningu væri hægt að dæla fólki í Nautagil. Lækur rennur fyrir framan gilið vel skreyttur breiðum af eyrarrós og hægt væri að hafa speisaða brú yfir hann. Nota geimfarana og NASA-þema sem umgjörð og hafa eftirlíkingu af Appolo 11 í gilinu. Þá væri hægt að bjóða upp á tunglferðir til Öskju!
Næst var haldið inn í Drekagil. Það býður upp á ýmsar glæsilegar bergmyndanir en féll alveg í skuggann af Nautagili. Innst inn í Drekagili er flottur slæðufoss og fyrir ofan hann er skemmtilegar myndanir, hestur og ljón sem gæta hans.
![]() |
Geimfarar í Þingeyjarsýslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.2.2011 | 14:11
Lón stækka feikilega við Hoffellsjökul
Í fréttabréfi Jöklarannsóknafélagi Íslands, JÖRFÍ, er svo glæsileg mynd af Hoffellsjökli og Svínafellsjökli en Hoffellsjökull og Heinabergsjökull eru glæsilegir séðir frá Hornafirði. Ég tek mér það bessaleyfi að birta myndina hér en hún er unnin undir stjórn Tómasar Jóhannessonar á Veðurstofu Íslands. Það verður gaman að sjá alla íslensku jöklana í þessu ljósi.
Í fréttabréfinu segir um Hoffellsjökul: "Af nýjum kortum af Hoffellsjökli má ráða að lónið framan við jökulsporðinn hafi stækkað feikilega á síðastliðnu ári. Þar eru nú myndarlegir ísjakar á floti á stöðuvatni sem teygir sig inn með Geitafellsbjörgum (sjá mynd). Fyrir framan hvora jökultungu eru fallega bogadregnir garðar sem sýna hvert jökullinn náði um 1890. Af því sést að sá eystri (Hoffellsjökul) hefur ekki styst nema um nokkur hundruð metra en sá vestari (Svínafellsjökul) stendur nú um 3,5 km frá fremstu görðum."
Svínafellsjökull náði svo langt fram að hann klofnaði um Svínafellsfjall, og fékk vesturhlutinn nafnið Svínafellsjökull. Öldutangi norður úr Svinafellsfjalli greindi þá að, en nú er hann íslaus.
Hér er mynd af glæsilegu málverki sem sýnir jöklana tvo, Viðborðsjökul og Hoffellsjökul. Málverkið er eftir Helga Guðmundsson og líklega máluð á 7. ártugnum enda Viðborðsjökull, sem er til vinstri og Hoffellsjökull vel fóðraðir á hafísárunum. Svínafellsfjall er fyrir miðri mynd. Handan fjallsins, milli jöklana er Gæsaheiði og Viðborðshálsar.
Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2011 | 13:14
Heinabergsjökull ólíkindatól
Jöklarannsóknafélag Íslands er merkilegt félag. Aðalfundur JÖRFÍ verður haldinn þann 22. febrúar í Öskju. Félagið gefur út fréttabréf reglulega. Oddur Sigurðsson segir í nýjasta fréttabréfi, nr. 119, frá afkomumælingum 50 íslenskra jökulsporða á síðasta ári.
"Niðurstöður eru óvenju samhljóða þetta árið. Einn sporður gekk fram frá fyrra ári, einn stendur í stað en allir hinir styttust. Þetta er í góðu samræmi við ástandið. Sumarið var með þeim allra hlýjustu sem komið hafa í sögu veðurmælinga og ofan á það bættist öskusáldur frá Eyjafjallajökli. Það jók leysingu til muna á flestöllum jöklum en þó ekki Eyjafjallajökli og Mýrdalsjökli þar sem askan var svo þykk að hún einangraði jökulinn."
Svo segir frá Heinabergsjökli: "Heinabergsjökull einn mældist framar en í fyrra en hann er ólíkindatól þar sem hann er á floti í sporðinn og bregst því á lítt fyrirsjáanlegan hátt við loftslagi frá ári til árs."
Heinabergsjökull er þá undantekningin sem sannar regluna. En loftslag er að hlýna og höfin að súrna.
Heimild: Fréttabréf Jöklarannsóknafélags Íslands, nr. 119
11.2.2011 | 22:48
Íslenskt bygg 90% í Egils þorrabjór
Einkunnarorð Ara "Fróða" Þorgilssonar voru að hafa það heldur, er sannara reynist. Ég ætla því að bæta við færslu um þorrabjór réttum upplýsingum um íslenskt bygg. Um leið biðst ég velvirðingar á mistökum mínum, rétt eins og Agnes Bragadóttir gerði í dag út af rangri frétt um blaðamann DV.
Í bloggi mínu um þorrabjór í byrjun þorra, þá hrósaði ég bruggmeisturum Ölgerðarinnar fyrir að nota íslenskt bygg í þorrabjór sinn. Þar sagði: "Þeir eru stoltir af því að nota íslenskt bygg í framleiðslunni en ég hef grun um að það sé mikið blandað erlendu byggi."
Þorrabjór Ölgerðarinnar í ár er gerður að 9/10 hlutum úr íslensku byggi en það er hærra hlutfall en bjórar á Íslandi hafa nokkru sinni státað af. Íslenska byggið í Þorrabjórnum er ræktað á bænum Belgsholti í Melasveit á Vesturlandi. Ölgerðin hefur í samstarfi við Harald Magnússon, bónda á Belgsholti, unnið að því að þróa bjóra úr íslensku byggi og stutt er í fyrsta bjórinn sem mun eingöngu innihalda íslenskt bygg.
Íslenska byggið hefur sín karaktereinkenni og má greina þau í Egils Premium en þar er það í minnihluta. Það er gaman að fregna af þessari nýsköpun en aðferðin að brugga úr ómöltuðu byggi er tilraunastarfsemi sem unnin hefur verið síðustu ár í samvinnu Ölgerðarinnar við erlenda aðila og íslenska kornbændur.
Nú bíð ég spenntur eftir fyrsta 100% íslenska byggbjórnum. Vonandi verður hann góð útflutningsvara í framtíðinni og íslenskt bygg og íslenskt vatn á allra vörum.
Á vefnum bjorspjall.is er ágætis grein um ómaltað íslenskt bygg hjá Ölgerðinni við bjórgerð.
Vísindi og fræði | Breytt 12.2.2011 kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2010 | 12:01
Svínafellsjökull minnkar
Í uppgjöri Svínafellsjökuls á því herrans ári 2010 kemur eflaust fram að hann hefur minnkað.
Í nýjasta hefti Jökuls (No 59, 2009), fjallar Oddur Sigurðsson um jöklabreytingar. Um Svínafellsjökul árin 2006-2007 segir: Neskvísl sem rann frá jöklinum i Skaftafellsá er nú hætt að renna. Allt vatn frá jöklinum fer nú um Svínafellsá.
Einnig eru mælingar á stað 2 athyglisverðar en Guðlaugur Gunnarsson hefur séð um þær. Á árunum 1930-1960 hopaði hann um 403 metra. Skriðjökullinn bætti við sig 3 metrum á tímabilinu 1960-1990. Hann hörfaði um 96 metra 2003-2004 og 2 metra 2006-2007. Hopið síðustu kreppuár er augljóst.
Á stað 3 eru meiri breytinagar á Svínafellsjökli: Hop um 2.342 metra 1930-1960; Hop um 281 metra 1960 til 1990 og 72 metrar 2003-2004.
Ég átti leið að jöklinum í vikunni og fór í gönguferð á Svínafellsjökli með fjallaleiðsögumanninum Einari Sigurðssyni hjá Öræfaferðum. Þetta er stórbrotin ferð, áhrifamikil og mjög lærdómsrík.
Það er svo margt sem jöklarnir vita og við vitum ekki um. Okkur birtast svipir góðs og ills sem mótuðust í iðrum breðans á meðan aldirnar líða.
Atriði í kvikmyndin, Batman Begins voru tekin við Svínafellsjökul í Öræfasveit árið 2004 og sést vel í einu bardagaatriðinu í jökulinn. Ég tók mynd af sama stað sex árum síðar og munurinn er gríðarmikill.
Hér er bardagaatriði úr Batman-myndinni (4:22):
Liam Neeson og Christian Bale að berjast við jaðar Svínafellsjökuls á frostlögðu vatni.
Mynd tekin í lok árs 2010 á sama stað:
Bardagahetjurnar börðust á svellinu sem er í forgrunni og yfirborð jökulsins hefur lækkað mikið og jaðarinn hörfað. Hér eru ekki nein tæknibrögð í tafli heldur er jörðin að hlýna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigurpáll Ingibergsson
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.5.): 1
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 104
- Frá upphafi: 235917
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 79
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar